Hoppa yfir valmynd

Nr. 509/2022 Úrskurður

 KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 Hinn 22. desember 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 509/2022

í stjórnsýslumáli nr. KNU22110004

 

Beiðni [...] um endurupptöku

 

 1. Málsatvik

  Hinn 14. júlí 2022 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 2. maí 2022, um að synja umsókn [...], fd. [...], ríkisborgara Venesúela og Kólumbíu (hér eftir kærandi), um alþjóðlega vernd hér á landi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda hinn 18. júlí 2021.

  Kærandi lagði fram beiðni um endurupptöku með beiðni dags. 1. nóvember 2022. Með endurupptökubeiðni lagði kærandi fram gögn varðandi maka sinn og börn.

  Beiðni kæranda um endurupptöku máls hans byggir á 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 2. Málsástæður og rök kæranda

  Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku á því að aðstæður hans hafi breyst verulega frá því ákvörðun var tekin í máli hans enda hafi eiginkona kæranda og börn þeirra hlotið alþjóðlega vernd hér á landi með ákvörðunum Útlendingastofnunar, dags. 26. og 31. október 2022. Þess er krafist að kærunefnd felli ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi og að honum verði veitt alþjóðleg vernd með vísan til 2. og 3. mgr. 45. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að mál kæranda verði endurupptekið og að málinu verði vísað til nýrrar málsmeðferðar hjá Útlendingastofnun.

  Í ljósi alls framangreinds telur kærandi tilefni til þess að mál hans verði tekið upp að nýju og að uppfyllt séu skilyrði 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

 3. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála varðandi beiðni um endurupptöku

  Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

  Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð nr. 266/2022 í máli kæranda hinn 14. júlí 2022. Með úrskurðinum var komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 1. og 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og því ætti hann ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat kærunefndar að aðstæður kæranda í heimaríki væru ekki með þeim hætti að veita bæri honum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga.

  Kærandi byggir beiðni um endurupptöku máls síns á því að þar sem eiginkonu hans, [...] og börnum þeirra, [...] og [...], hafi verið veitt alþjóðleg vernd hér á landi, séu skilyrði til að endurupptaka mál hans uppfyllt.

  Fyrir liggur að [...] og börnum hennar og kæranda hafi með ákvörðunum Útlendingastofnunar, dags. 26. og 31. október 2022, verið veitt alþjóðleg vernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga. Þá lagði kærandi fram hjúskaparvottorð frá 16. desember 2019. Verður ekki ráðið af gögnum máls kæranda og [...] að breyting hafi orðið á hjúskaparstöðu þeirra. Því leggur kærunefnd til grundvallar við úrlausn málsins að kærandi og [...] séu hjón. Í ljósi stöðu eiginkonu kæranda og barna þeirra hér á landi og tengsla milli kæranda og þeirra telur kærunefnd að atvik í máli kæranda hafi breyst verulega frá því að ákvörðun var tekin í máli hans hinn 14. júlí 2022. Í ljósi framangreinds eru skilyrði fyrir endurupptöku uppfyllt, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

 4. Niðurstaða kærunefndar um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða

Það er mat kærunefndar að ekkert í gögnum málsins eða í heimildum um aðstæður í heimaríki kæranda, Kólumbíu, gefi til kynna að aðstæður kæranda þar í landi hafi breyst síðan kærunefnd úrskurðaði í máli hans 14. júlí 2022, á þann hátt að ástæða sé til að ætla að hann eigi rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi. Þá er ekkert í gögnum málsins sem gefur til kynna að skilyrði 1. mgr. 74. gr. laganna um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða séu uppfyllt í máli kæranda.

Ákvæði 2. og 3. mgr. 45. gr. laga um útlendinga

Í 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga kemur fram að makar og sambúðarmakar útlendings sem nýtur alþjóðlegrar verndar samkvæmt IV. kafla laganna, börn hans yngri en 18 ára án maka eða sambúðarmaka eigi einnig rétt á alþjóðlegri vernd nema sérstakar ástæður mæli því í móti. Um fjölskyldutengsl sem verða til eftir að umsókn um alþjóðlega vernd er lögð fram gilda ákvæði VIII. kafla.

Í 3. mgr. 43. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef barn yngra en 18 ára nýtur alþjóðlegrar verndar samkvæmt IV. kafla laganna og eigi þá foreldrar þess jafnframt rétt til verndar enda þyki sýnt að þeir hafi farið með forsjá barnsins og hyggist búa með barninu hér á landi. Nú hafi annað foreldrið farið með forsjá barns og njóti það þá þessa réttar. Þá njóti þessa réttar systkini barnsins sem eru yngri en 18 ára, séu án maka og búi hjá foreldrunum eða foreldrinu.

Eins og að framan er rakið komst Útlendingastofnun að þeirri niðurstöðu hinn 26. og 31. október 2022, að eiginkona og börn kæranda teldust flóttamenn skv. 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga.

Það er mat kærunefndar að tengsl kæranda og eiginkonu hans og barna þeirra séu með þeim hætti að þau falli undir 2. og 3. mgr. 45. gr. laga um útlendinga.

Í ákvæði 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga kemur fram að makar eða sambúðarmakar og börn eigi rétt á alþjóðlegri vernd nema sérstakar ástæður mæli því í mót. Að mati kærunefndar hefur ekkert komið fram í máli kæranda sem gefur til kynna að sérstakar ástæður mæli gegn því að honum verði veitt alþjóðleg vernd á grundvelli ákvæðisins.

Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfyllir skilyrði 2. og 3. mgr. 45. gr. laga um útlendinga fyrir veitingu alþjóðlegrar verndar hér á landi.

 

 

 

Úrskurðarorð:

 

Fallist er á beiðni kæranda um endurupptöku á máli hans.

Kæranda er veitt alþjóðleg vernd á grundvelli 2. og 3. mgr. 45. gr. laga um útlendinga. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að veita kæranda dvalarleyfi á þeim grundvelli.

 

The appellants request for re-examination of his case is granted.

The appellant is granted international protection in accordance with Article 45, paragraph 2 and paragraph 3 of the Act on Foreigners. The Directorate of Immigration is instructed to issue a residence permit on that ground.

 

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

Sindri M. Stephensen                                                Þorbjörg I. Jónsdóttir

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira