Hoppa yfir valmynd

Nr. 370/2022 Úrskurður

 KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 16. september 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 370/2021

í stjórnsýslumálum nr. KNU22070040 og KNU22070041

 

Kæra [...], [...]

og barna þeirra

á ákvörðunum

Útlendingastofnunar

 

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 18. júlí 2022 [...], fd. [...], ríkisborgari Hondúras (hér eftir K) og [...], [...], ríkisborgari Hondúras (hér eftir M), ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 23. júní 2022, 27. júní 2022, 28. júní 2022 og 5. júlí 2022 um að synja kærendum og börnum þeirra,  [...], fd. [...] (hér eftir A) og [...], fd. [...] (hér eftir B), ríkisborgurum Hondúras, um alþjóðlega vernd á Íslandi en kærendum var veitt dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærendur krefjast þess aðallega að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og að þeim verði veitt alþjóðleg vernd hér á landi samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Til vara gera kærendur kröfu um að þeim verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. einnig 3. mgr. 36. gr. sömu laga.

Fyrrgreindar ákvarðanir eru kærðar á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.      Málsmeðferð

Kærendur sóttu um alþjóðlega vernd hér á landi hinn 23. febrúar 2022. Kærendur komu í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. 3. apríl 2022 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðunum, dags. 23. júní 2022, 27. júní 2022, 28. júní 2022 og 5. júlí 2022, synjaði Útlendingastofnun kærendum og börnum þeirra um alþjóðlega vernd en kærendum og börnum þeirra var veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Voru ofangreindar ákvarðanir kærðar til kærunefndar útlendingamála 18. júlí 2022. Kærunefnd barst greinargerð kærenda 2. ágúst 2022.

III.    Ákvarðanir Útlendingastofnunar

Í ákvörðunum Útlendingastofnunar kemur fram að kærendur byggi umsóknir sínar um alþjóðlega vernd á því að kærendur séu í hættu í heimaríki sínu vegna ofríkis glæpagengja og almenns ástands.

Niðurstaða ákvarðana Útlendingastofnunar var sú að kærendur væru ekki flóttamenn og þeim skyldi synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi samkvæmt ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kærendum var veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 74. gr. laga um útlendinga.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar í máli  A kemur fram að A hafi farið í viðtal hinn 4. júlí 2022 þar sem það hafi greint frá líðan sinni og upplifun sinni af því að búa í heimaríki sínu. Þá kemur fram í ákvörðun Útlendingastofnunar í máli B, að það væri svo ungt að árum að ekki væri talið tilefni til að taka viðtal við það. Fram kom að umsóknir barna kærenda væru grundvallaðar á framburðum A og foreldra þeirra og þeim hefði verið synjað um alþjóðlega vernd og veitt dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga. Var A og B veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 74. gr. laga um útlendinga.

IV.    Málsástæður og rök kærenda

Í greinargerð kærenda kemur fram að K eigi ættingja hér á landi,faðir hennar og tvær hálfsystur séu með íslenskan ríkisborgararétt og hún eigi fleiri ættingja hér á landi. Kærendur komi frá [...], [...] eða [...] þar sem þau hafi búið áður en þau hafi yfirgefið heimaríki sitt hinn 16. desember 2021. Aðspurð um ástæðu þess að þau hafi flúið heimaríki sitt kvað M það vera vegna þess að frændi hans hafi verið myrtur fyrir nokkrum árum af glæpahópi sem fái greitt fyrir að drepa aðra. Frændi hans hafi átt fyrirtæki og hafi farið í annað fylki í landinu til að innheimta peninga sem ótilgreindur aðili hafi skuldað honum. Þegar hann hafi ekki skilað sér til baka um kvöldið hafi faðir M ásamt frændum kæranda farið að leita hans og lagt mikið á sig til þess að reyna að komast að sannleikanum. Eftirgrennslan þeirra hafi leitt til þess að lögreglan hafi handtekið nokkra meðlimi glæpahóps. Nokkrir meðlimir glæpahópsins hafi verið settir í fangelsi í kjölfarið, þ. á m. sá sem hafi stjórnað hópnum en svo hafi tíminn liðið og þeir væru nú frjálsir. Meðlimir glæpahópsins hafi leitað hefnda og drepið saksóknarann í málinu og fyrir ári síðan hafi maður tengdur málinu verið myrtur. Í desember sl. hafi höfuðpaurinn losnað úr fangelsi og hafi lögreglu sem dyraverði heima hjá sér. M hafi miklar áhyggjur að þeir muni gera eitthvað við föður hans og frændur sem dvelji enn í heimaríki en þeir séu þó efnaðir og geti því greitt lífvörðum til að gæta sín og eigi brynvarða bíla.

M óttist um öryggi sitt og fjölskyldu sinnar þar sem þau eigi ekki peninga til að greiða einhverjum til að vernda sig líkt og aðrir fjölskyldumeðlimir hans. Kærendur kveðast ekki hafa orðið persónulega fyrir árásum af hálfu glæpahópsins, en að bílar hafi elt þau og m.a. hafi dekk verið sprengd á bílnum þeirra. M kveðst hafa unnið á útvarpsstöð og því væri nafn hans opinbert og auðvelt fyrir meðlimi glæpahópsins að finna hann. Kærendur lögðu fram nokkur myndbönd þar á meðal myndband af því þegar vopnaðir menn hafi rænt verslun þar sem fjölskyldan kveðst iðulega hafa keypt inn og annað myndband af því þegar faðir K eigi að hafa verið rændur. Þá hafa þau lagt fram hlekk á fréttir þar sem greint er frá brottnámi og morði á manni sem M kveður vera frænda sinn en þar koma fram nöfn á glæpamönnum og glæpahópnum er grunaðir hafi verið um verknaðinn.

Kærendur óttist að þau verði drepin verði þeim gert að snúa aftur til Hondúras. Þá telji þau sig ekki geta framfleytt fjölskyldunni þar sem efnahagskerfið sé í slæmt og þau fái ekki félagslega eða fjárhagslega aðstoð frá ríkinu. Þá hafi börn þeirra ekki getað farið í skóla vegna öryggisástandsins og einhver gæti rænt þeim. Þá kosti einnig mikið að hafa börn í skóla og heimsfaraldurinn hafi haft slæm áhrif á skólakerfið. Kærendur hafi búið í [...], en það hafi verið erfitt að búa þar útaf fellibyljum. Fyrsti stóri fellibylurinn hafi gengið yfir árið 1998 sem hafi skemmt hús þeirra mikið og tveir aðrir 2021 sem hafi valdið miklum skemmdum. Aðspurð um andlega heilsu sína kvaðst M ekki líða vel og hafa fengið kvíðakast þegar hann og K hafi rætt saman um ástandið. M hafi leitað til sálfræðings hjá Göngudeild sóttvarna. Þá glími K við kvíða og hafi ekki getað sofið í heimaríki en líðan hafi skánað hér á landi. Henni hafi þótt erfitt að þurfa að passa sig og vera í sífelldum ótta um líf sitt og fjölskyldu sinnar. Eldra barn þeirra hafi alltaf verið að spyrja hvort það væri öruggt að fara út að leika hér á landi og hvort þau séu viss um að enginn muni ræna þeim.

Í greinargerð fjalla kærendur um aðstæður í Hondúras og vísa til alþjóðlegra skýrslna máli sínu til stuðnings. Ofbeldisfull skipulögð glæpastarfsemi sé í landinu. Þrátt fyrir að morðum í Hondúras hafi fækkað um helming síðan árið 2011, þá sé landið samt sem áður með hæstu morðtíðni í heiminum með 44.8 morð á hverja 100.000 íbúa árið 2019. Fjölmiðlamenn, umhverfisverndarsinnar og fólk sem vinni að mannréttindum sé í hættu. Þá sé refsileysi ríkjandi í öllu landinu og tilraunir til að auka vernd almennra borgara hafi ekki tekist. 

Að mati kærenda hafi ekki verið gætt jafnræðis né meðalhófs við töku ákvarðana hjá Útlendingastofnun, þar sem þeim var veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða en flestum þeim sem komi frá Hondúras hafi verið veitt viðbótarvernd skv. 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða veiti fjölskyldunni heimild til dvalar í styttri tíma og atvinnuréttindi séu takmarkaðri. Hér sé um verulega mismunun að ræða og Útlendingastofnun hafi ekki gætt jafnræðis við töku ákvarðana í málum þeirra líkt og þeim beri skylda til samkvæmt lögum um útlendinga, 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944.

Kærendur gera aðallega þá kröfu að þeim og börnum þeirra verði veitt alþjóðleg vernd samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Ljóst sé að kærendur sæti ofsóknum, ofbeldi og líflátshótunum í heimaríki sínu og grundvallarmannréttindi þeirra séu ekki tryggð af hálfu stjórnvalda. Þau geti ekki leitað aðstoðar hjá lögreglu eða yfirvöldum þar sem þau séu spillt og neiti að grípa til aðgerða gegn glæpahópum sem starfi undir verndarhendi yfirvalda. Með vísan til trúverðugleika í frásögn kærenda, gagna málsins og fyrirliggjandi landaupplýsingum sé engum vafa undirorpið að kærendur eigi á hættu að sæta pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða að verða tekin af lífi verði þau send aftur til heimaríkis. Þá eigi þau á hættu að sæta illri meðferð samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ef þeim verður gert að snúa aftur til heimaríkis og þá sérstaklega að verða fyrir alvarlegum skaða vegna ofbeldis. Í ljósi framangreindra umfjöllunar um aðstæður kærenda í heimaríki telji kærendur ljóst að ef þeim verði synjað um vernd hér á landi og send aftur til heimaríkis teljist það vera brot á reglunni um bann við endursendingum þar sem þau muni án vafa verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð í heimaríki. Myndi endursending þeirra til heimaríkis brjóta gegn 42. gr. laga um útlendinga.

V.      Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Rannsóknarreglan í 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 mælir fyrir um að stjórnvald afli þeirra gagna sem eru nauðsynleg svo mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin. Reglan gerir kröfu um rannsókn sem er fullnægjandi grundvöllur ákvörðunar stjórnvalds. Þá segir í 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga að við meðferð mála vegna umsókna um alþjóðlega vernd skuli Útlendingastofnun afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga. Mál telst nægilega rannsakað þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem nauðsynlegar eru til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í því. Kröfur til rannsóknar í hverju máli ráðast af lagagrundvelli málsins og einstaklingsbundnum aðstæðum kæranda, þ.m.t. þeim málsástæðum sem hann ber fyrir sig.

Í ákvörðunum Útlendingastofnunar í málum M og K er fjallað um frásögn kærenda og aðstæður í heimaríki þeirra Hondúras. Er frásögn kærenda að mestu talin trúverðug og lagt til grundvallar í einni efnisgrein að frændi kæranda hafi verið myrtur af glæpagengi en í þeirri næstu aðeins fallist á að maður með sama ættarnafn og M hafi verið myrtur. Þá segir að kærendur hafi ekki lagt fram gögn er sýni fram á að þau hafi sætt áreiti af hálfu glæpagengis af þessum sökum en þó lagt til grundvallar að þau kunni að hafa upplifað áreiti af hálfu glæpagengis. Í umfjöllun Útlendingastofnunar um aðstæður í heimaríki kærenda kemur fram að aðstæður á heimasvæði þeirra, [...] héraði, séu bágbornar og svæðið með hættulegustu svæðum í Hondúras þar sem ítök glæpahópa séu veruleg og glæpa- og morðtíðni há. Af lestri ákvörðunar Útlendingastofnunar er að mati kærunefndar óljóst hvaða hluta frásagnar kærenda stofnunin leggur í raun til grundvallar og af hvaða ástæðu stofnunin telur kærendur ekki hafa lagt fram nægilega skýr gögn um það að þau séu í hættu af hálfu glæpagengis í heimaríki sínu.

Líkt og að framan greinir þá kvaðst M vera í sérstakri hættu í heimaríki sínu vegna stöðu sinnar sem fjölmiðlamaður í heimaríki. Enga umfjöllun er þó að finna í ákvörðun Útlendingastofnunar um stöðu fjölmiðlafólks eða hvort starf M setji hann í verri stöðu en almenna borgara hvað varðar áreiti glæpahópa. Skoðun kærunefndar á skýrslum um stöðu fjölmiðlafólks í Hondúras, m.a. skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá mars 2021, leiddi m.a. í ljós að staða þeirra sé ein sú versta í heiminum og eigi þeir verulega á hættu að vera beittir ofbeldi og áreiti af hálfu öryggissveita og glæpahópa í landinu. Þá kemur fram í skýrslu Freedom House frá 2022 að stjórnvöld hafi með beinum hætti beitt sér gegn frjálsri fjölmiðlun. Þá sé spilling verulegt vandamál í Hondúras og ljóst sé að miklar hindranir séu á að einstaklingar geti notið verndar hjá stjórnvöldum og leitað réttar síns vegna spillingar innan stofnana, svo sem innan dómskerfis í landinu.

Það er mat kærunefndar að nauðsynlegt hefði verið hjá Útlendingastofnun að rannsaka betur stöðu fjölmiðlamanna í heimaríki kærenda og spyrja M betur út í störf hans í heimaríki. Hefði stofnunin þá þurft að gera grein fyrir því í ákvörðun sinni hvernig framangreint horfi við í máli kærenda og barna þeirra.

Af meginreglunni um einingu fjölskyldunnar leiðir að úrskurðir er varða foreldra og börn haldast að jafnaði í hendur. Þar sem börn eru í fylgd með foreldrum hefur Útlendingastofnun afgreitt mál hvers einstaklings í sérstakri ákvörðun en í rökstuðningi í málum barna er um ákveðin atriði vísað til rökstuðnings með ákvörðunum foreldra. Þegar þessi leið er farin verða ákvarðanir fjölskyldunnar í heild sinni þó ávallt að uppfylla reglur stjórnsýslulaga um rökstuðning og vera að öðru leyti settar fram á þann hátt að af lestri þeirra megi ráða að í reynd hafi farið fram skyldubundið mat á hagsmunum barnanna á viðhlítandi grundvelli.

Kærunefnd telur að ef Útlendingastofnun kýs að setja ákvarðanir í málum barna í fylgd með foreldrum fram á þennan hátt sé rétt að samræmi sé í því hvaða þættir rökstuðningsins koma fram í ákvörðun barnsins annars vegar og ákvörðun foreldris hins vegar. Þegar lagagrundvelli máls er að einhverju leyti lýst í ákvörðun barns er rétt að í ákvörðuninni sé fjallað um allar þær réttarreglur sem hafa þýðingu fyrir ákvörðunina, sbr. 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga. Í niðurstöðu Útlendingastofnunar í málum barna kæranda er með almennum hætti vísað til barnaverndarlaga og barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og ákvæða útlendingalaga nr. 80/2016. Þá er vísað til ákvæðis 74. gr. laganna í fyrirsögn kaflans þar sem færð eru rök fyrir efnislegri niðurstöðu um synjun á umsókn barnanna. Aftur á móti er í rökstuðningi fyrir ákvörðun barnanna ekki fjallað um ákvæði 1. og 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga en eingöngu er vísað til þeirra í ákvörðunarorði. Þá er ekki að finna neina umfjöllun um aðstæður barna í heimaríki kærenda og barna þeirra, hvorki ákvörðunum barnanna né foreldra þeirra.

Ef í rökstuðningi fyrir ákvörðun í máli barns er vísað til efnislegs mats í máli foreldris verður að gæta þess að viðhlítandi umfjöllun fari fram í síðarnefndu ákvörðuninni. Þegar færðar hafa verið fram sérstakar málsástæður varðandi hagsmuni barnsins, eða gögn máls gefa sérstakt tilefni til, er almennt ekki fullnægjandi að vísa til ótilgreindra ákvæða barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, útlendingalaga og barnaverndarlaga um þá niðurstöðu að hagsmunum barns sé ekki stefnt í hættu með niðurstöðu máls. Vegna hins sérstaka lagagrundvallar varðandi hagsmuni barns í niðurlagi 74. gr. laga um útlendinga telur kærunefnd jafnframt að ekki verði hjá því komist að fjalla um hvernig það meginsjónarmið horfir við í málinu. Í viðtali hjá Útlendingastofnun lýsti kærendur því að þau óttist mjög um öryggi barna sinna og að börnin hafi m.a. ekki getað sótt skóla af þeim sökum. Í rökstuðningi fyrir niðurstöðu Útlendingastofnunar er aftur á móti hvergi fjallað efnislega um hvernig hagsmunir barnanna horfa við mati á einstökum þáttum ákvarðananna. Þá er í rökstuðningi fyrir niðurstöðu varðandi dvalarleyfi af mannúðarástæðum á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga ekki vísað í hinn sérstaka lagagrundvöll varðandi hagsmuni barnsins. Samkvæmt framansögðu er rökstuðningur ákvarðananna að þessu leyti háður annmörkum.

Meginmarkmið stjórnsýslukæru er að tryggja réttaröryggi borgara með því að gera þeim kleift að fá umfjöllun um mál sín á tveimur stjórnsýslustigum. Að mati kærunefndar bera framangreind vinnubrögð Útlendingastofunnar í málum kærenda og barna þeirra með sér að ekki hafi farið fram viðhlítandi mat á aðstæðum þeirra. Telur kærunefnd að annmarkar hafi verið á rannsókn stofnunarinnar þar sem aðstæður kærenda og barna þeirra voru ekki skoðaðar með hliðsjón af aðstæðum í Hondúras. Málsmeðferð Útlendingastofnunar og rökstuðningur ákvarðana í málum kærenda og barna þeirra er, með vísan til framangreinds, að mati kærunefndar enn fremur ekki í samræmi við reglur stjórnsýsluréttar, m.a. 10. og 22. gr. stjórnsýslulega nr. 37/1993.

Kærunefnd telur framangreinda annmarka á málsmeðferð Útlendingastofnunar verulega og að þeir kunni að hafa haft áhrif á efnislega niðurstöðu mála kærenda og barna þeirra. Verður því ekki komist hjá því að fella ákvarðanirnar úr gildi.

Samantekt

Með vísan til þess sem að framan hefur verið rakið er það niðurstaða kærunefndar að fella hinar kærðu ákvarðanir úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsóknir kærenda og barna þeirra til nýrrar meðferðar.


 

Úrskurðarorð:

Ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum kærenda og barna þeirra eru felldar úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kærenda og barna þeirra til meðferðar á ný.

The decisions of the Directorate of Immigration are vacated. The Directorate is instructed to re-examine the cases.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

 

Sindri M. Stephensen                                                  Þorbjörg I. Jónsdóttir


 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum