Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 273/2019 - Úrskurður

Ofgreiddar bætur. Staðfest ákvörðun Vinnumálastofnunar um innheimtu ofgreiddra bóta vegna fjármagnstekna.

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 273/2019

Þriðjudaginn 5. nóvember 2019

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 2. júlí 2019, kærði A til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 3. apríl 2019, um að staðfesta fyrri ákvörðun stofnunarinnar frá 12. desember 2018 um innheimtu ofgreiddra bóta.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk greiddar atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun á árinu 2017. Við samkeyrslu gagnagrunna Vinnumálastofnunar og Ríkisskattstjóra í október 2018 kom fram að kærandi hefði á árinu 2017 haft 5.441.065 kr. í fjármagnstekjur. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 15. október 2018, var óskað eftir upplýsingum frá kæranda um þær tekjur. Skýringar bárust frá kæranda 1. desember 2018. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 12. desember 2018, var kæranda tilkynnt að hann hefði fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur þann tíma sem hann hafði fjármagnstekjur samhliða töku atvinnuleysistrygginga, samtals að fjárhæð 1.776.315 kr. Kærandi fór fram á rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun og var hann veittur með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 11. janúar 2019. Kærandi óskaði eftir endurupptöku málsins með bréfi, dags. 11. mars 2019. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 3. apríl 2019, var kæranda tilkynnt að mál hans hefði verið tekið fyrir að nýju með tilliti til nýrra gagna. Það væri mat stofnunarinnar að staðfesta bæri fyrri ákvörðun þar sem hún hefði að geyma efnislega rétta niðurstöðu.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 2. júlí 2019. Með bréfi, dags. 10. júlí 2019, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 26. ágúst 2019, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 27. ágúst 2019. Athugasemdir bárust frá kæranda 10. september 2019 og voru þær sendar Vinnumálastofnun til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 11. september 2019. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess aðallega að fjármagnstekjur skerði mánuðinn sem þær hafi verið greiddar og ekki aðra mánuði, enda hafi fjármagnstekjurnar orðið að tekjum við greiðslu þeirra samkvæmt skilgreiningu Vinnumálastofnunar. Kærandi óskar eftir upplýsingum um hvar framkvæmd Vinnumálastofnunar, þess efnis að dreifa fjármagnstekjum á alla mánuði ársins, sé ákvörðuð í lögum og hvar þær upplýsingar hafi verið aðgengilegar. Samkvæmt starfsmanni Vinnumálastofnunar skerði utanaðkomandi tekjur hins tryggða, sama hversu háar, einungis atvinnuleysisbætur þess mánaðar sem þær séu greiddar en dreifist ekki á aðra mánuði.

Kærandi tekur fram að í þau tvö og hálft ár sem hann hafi verið atvinnulaus hafi hann á hverju ári tekið frí frá bótagreiðslum til þess að koma í veg fyrir ofgreiddar atvinnuleysisbætur vegna fjármagnstekna með hættu á sektargreiðslum fyrir afbrotið. Sú skerðing sem hann hafi tekið á sig með því að taka ekki bætur í 1,72 mánuði nemi 373.598 kr. miðað við að bætur séu 217.408 kr. á mánuði. Því mætti kærandi hafa 747.196 kr. í fjármagnstekjur til skerðingar, án þess að fá viðbótarskerðingu.

Til vara krefst kærandi þess að einungis verði litið til þess hluta fjármagnsteknanna sem hafi myndast á bótatímabilinu. Kærandi telur að Vinnumálastofnun ætti að meðhöndla fjármagnstekjur hans eins og þær arðgreiðslur sem hann hafi fengið á árinu 2016 en þá hafi ekki komið til skerðingar.

Í athugasemdum kæranda er vísað til þess að Vinnumálastofnun hafi hvorki svarað þeim spurningum sem fram komi í aðalkröfu hans né skýri út misræmi á framkvæmd vegna fjármagnstekna 2017 og 2016. Kærandi líti svo á að Vinnumálastofnun taki ekki til varnar í málinu. Kærandi bendir á að í septembermánuði hafi hann selt hlutabréf með söluhagnaði að upphæð 4.730.929 kr. sem ætti þá að ógilda greiðslu frá Vinnumálastofnun fyrir þann mánuð. Þar sem kærandi hafi ekki fengið neina greiðslu frá Vinnumálastofnun fyrir janúarmánuð ættu þessir tveir mánuðir, janúar og september, að jafna hvorn annan út. Í desembermánuði hafi hann fengið fjármagnstekjur af bankareikningum að upphæð 127.330 kr. Greiðsla frá Vinnumálastofnun hafi numið 72.403 kr. en samtals séu þær greiðslur innan skerðingarmarka. Arður af hlutabréfum að upphæð 445.233 kr. vegna tekjuafgangs á árinu 2014 og fyrr eigi ekki að nota til skerðingar, sbr. framkvæmd Vinnumálastofnunar frá árinu 2016. Heildar-fjármagnstekjur af húsbréfum hafi numið 137.573 kr., þar af vextir og verðbætur að fjárhæð 112.710 kr. frá kaupdegi til 30. apríl 2015. Á tímabili atvinnuleysis sé fjárhæðin því 27.862 kr. sem ætti þá líklega að koma til helmingsskerðingar, eða 13.931 kr. 

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi þegið greiðslur atvinnuleysisbóta á árinu 2017. Við samkeyrslu gagnagrunna Vinnumálastofnunar og Ríkisskattstjóra í október 2018 hafi komið fram að kærandi hefði á árinu 2017 haft 5.441.065 kr. í fjármagnstekjur. Samkvæmt skýringum kæranda hafi verið um að ræða hagnað af sölu hlutabréfa sem hann hafi talið sig geta nýtt sem laun þá mánuði sem hann hafi ekki notið greiðslna atvinnuleysisbóta, í janúar og desember 2017.

Í 36. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar sé fjallað um frádrátt vegna tekna en samkvæmt ákvæðinu skuli fjármagnstekjur atvinnuleitanda skerða atvinnuleysisbætur. Þegar samanlagðar fjármagnstekjur atvinnuleitanda og atvinnuleysisbætur séu hærri en sem nemi óskertum rétti til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki skuli skerða atvinnuleysisbætur um helming þeirra tekna sem umfram séu. Frítekjumark atvinnuleysistrygginga árið 2017 hafi verið 59.047 kr. Einungis skuli taka tillit til þeirra tekna sem viðkomandi hafi haft á þeim tíma er hann fái greiddar atvinnuleysisbætur eða sæti biðtíma eftir greiðslum. Í málinu liggi fyrir að kærandi hafi þegið atvinnuleysisbætur frá 2. febrúar 2017 til 12. desember sama ár. Á árinu 2017 hafi fjármagnstekjur kæranda numið 5.441.065 kr. 

Samkvæmt 8. tölul. c-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt teljast tekjur af sölu hlutabréfa til skattskyldra tekna. Vinnumálastofnun sé óheimilt að horfa til þess hvenær hlutabréf hafi verið keypt heldur komi fjármagnstekjur til skerðingar á atvinnuleysisbótum á þeim tíma sem söluhagnaður sé leystur út. Í samræmi við 1. mgr. 36. gr. laga nr. 54/2006 hafi greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda verið leiðréttar fyrir árið 2017. Fjárhæð fjármagnstekna  kæranda hafi verið dreift jafnt niður á 12 mánuði ársins og skerðingarstofn vegna fjármagnstekna því 453.422 kr. á mánuði. Eingöngu hafi verið tekið tillit til þeirra tekna sem kærandi hafi haft á þeim tíma er hann hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur, þ.e. frá 2. febrúar til 12. desember 2017, í samræmi við ákvæði 1. mgr. 36. gr. laganna.

Af ofangreindu sé ljóst að tekjur kæranda, auk þeirra atvinnuleysisbóta sem hann hafi átt rétt á, hafi numið nokkru hærri upphæð en óskertum rétti kæranda til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki. Stofnuninni hafi ekki borist upplýsingar frá kæranda um fjármagnstekjur hans á meðan hann hafi þegið greiðslur atvinnuleysisbóta og því hafi ekki verið unnt að taka tillit til þeirra við útreikning atvinnuleysisbóta til hans.

Samkvæmt ákvæði 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 beri atvinnuleitanda að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysistryggingar. Vinnumálastofnun sé skylt að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbóta og að innheima þær sem hafi verið ofgreiddar. Þegar búið sé að taka mið af fjármagnstekjum kæranda nemi skuld hans við Vinnumálastofnun samtals 1.776.315 kr. sem honum beri að endurgreiða stofnuninni í samræmi við 36. gr. laga nr. 54/2006.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að innheimta hjá kæranda ofgreiddar atvinnuleysisbætur vegna fjármagnstekna á árinu 2017.

Í 1. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um gildissvið laganna, en þar segir að lögin gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Markmið laganna er að tryggja launamönnum eða sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir eru að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt, sbr. 2. gr. laganna.

Í 36. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um frádrátt frá atvinnuleysisbótum vegna tekna hins tryggða. Þar segir í 1. mgr.:

„Þegar samanlagðar tekjur af hlutastarfi hins tryggða, sbr. 17. eða 22. gr., og atvinnuleysisbætur hans skv. 32.–34. gr. eru hærri en sem nemur óskertum rétti hans til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki skv. 4. mgr. skal skerða atvinnuleysisbætur hans um helming þeirra tekna sem umfram eru. Hið sama gildir um tekjur hins tryggða fyrir tilfallandi vinnu, elli- eða örorkulífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar, um elli- og örorkulífeyrisgreiðslur úr almennum lífeyrissjóðum, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga sem eru komnar til vegna óvinnufærni að hluta, fjármagnstekjur hins tryggða og aðrar greiðslur sem hinn tryggði kann að fá frá öðrum aðilum. Eingöngu skal taka tillit til þeirra tekna sem hinn tryggði hefur haft á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur, sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum.“

Í athugasemdum við ákvæði 36. gr. í frumvarpi til laganna segir svo um lokamálsliðinn: „Komi til tekna sem greiddar eru út fyrir ákveðið tímabil, til dæmis greiddar út fyrir allt árið við árslok, skal eingöngu miða við þann tíma er hlutaðeigandi var á atvinnuleysisbótum. Koma þá tekjurnar til frádráttar samkvæmt reglu 1. mgr. sem nemur því hlutfalli sem sá tími er hann fékk greiddar atvinnuleysisbætur var af heildartímanum sem umræddar tekjur voru ætlaðar fyrir.“

Kærandi fékk greiddar atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun á tímabilinu 2. febrúar til 12. desember 2017. Á því ári námu fjármagnstekjur kæranda 5.441.065 kr. Ljóst er að þær tekjur höfðu áhrif á fjárhæð atvinnuleysisbóta til handa kæranda, sbr. framangreint ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga nr. 54/2006 um frádrátt vegna tekna.

Í 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 kemur fram að hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur samkvæmt 32. eða 33. gr. laganna en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum, beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildi um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hafi fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Í sömu málsgrein segir einnig að fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 54/2006 segir meðal annars svo í skýringum við ákvæðið:

„Efni ákvæðisins felur í sér möguleika á leiðréttingu á fjárhæð tekjutengdra atvinnuleysisbóta eftir að þær hafa verið keyrðar saman við álagningu skattyfirvalda að því er varðar það viðmiðunartímabil sem lagt er til að verði haft til hliðsjónar við útreikningana. Er því gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun hafi heimildir til að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbótanna til samræmis við álagningu skattyfirvalda. Er gert ráð fyrir að leiðréttingin geti átt sér stað nokkru eftir að bæturnar hafa verið greiddar eða þegar endanleg álagning skattyfirvalda liggur fyrir. Á sama hátt er jafnframt gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun geti leiðrétt fjárhæð grunnatvinnuleysisbóta. Slíkt getur átt við þegar upplýsingar þær er liggja grunnatvinnuleysisbótum til grundvallar hafa verið rangar eða hinn tryggði ekki tilkynnt til Vinnumálastofnunar um að hann sé ekki lengur í atvinnuleit.

Þannig er gert ráð fyrir að hinn tryggði endurgreiði Atvinnuleysistryggingasjóði þær fjárhæðir sem ofgreiddar eru í þeim tilvikum er hann fékk hærri greiðslur úr sjóðnum en honum bar. Á þetta við um öll tilvik sem kunna að valda því að hinn tryggði hafi fengið ofgreitt úr Atvinnuleysistryggingasjóði.“

Samkvæmt framangreindu er ljóst að endurkröfuheimild Vinnumálastofnunar er meðal annars bundin við það að einstaklingur hafi fengið greiddar hærri atvinnuleysisbætur en hann átti rétt á. Þar sem tekjur kæranda voru hærri en tekjuáætlun gerði ráð fyrir fékk hann greiddar hærri atvinnuleysisbætur en hann átti rétt á. Ákvæði 2. mgr. 39. gr. laganna er fortakslaust að því er varðar skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar bætur. Í máli þessu hefur ekkert álag verið lagt á skuld kæranda og því er ekki ágreiningur um það atriði. Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar um innheimtu ofgreiddra bóta til handa A, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira