Hoppa yfir valmynd

Nr. 453/2022 Úrskurður

 KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Hinn 10. nóvember 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 453/2022

í stjórnsýslumáli nr. KNU22090068

 

Beiðni [...] og barna hennar um endurupptöku

 

 1. Málsatvik

  Hinn 25. júlí 2019 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvarðanir Útlendingastofnunar frá 8. maí 2019, um að synja konu er kveðst heita [...], vera fædd 26. febrúar 1992 ([...]hér eftir kærandi), og börnum hennar er hún kveður heita, [...], með fæðingardag [...] (hér eftir A) og [...] með fæðingardag [...] (hér eftir B), ríkisborgarar Gana, um alþjóðlega vernd hér á landi ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda 29. júlí 2019.

  Hinn 5. ágúst 2019 barst kærunefnd beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar og hinn 15. ágúst var fallist á að fresta réttaráhrifum úrskurðarins á meðan kærandi ræki mál  til ógildingar á ákvörðunum stjórnvalda í máli sínu og barna sinna fyrir dómstólum. Með dómi héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-4306/2019, dags. 18. desember 2020, var ekki talið að úrlausnir Útlendingastofnunar og kærunefndar útlendingamála væru haldnar nokkrum þeim annmörkum að efni eða formi sem varðað gætu ógildingu og var íslenska ríkið sýknað af kröfum sem uppi voru hafðar í máli kæranda og barna hennar. Með dómi Landsréttar í máli nr. 10/2021, dags. 13. maí 2022, var sá dómur staðfestur.

  Hinn 27. september 2022 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku. Með endurupptökubeiðni lagði kærandi fram fylgigögn, dags. 6. júlí 2022. Sætir sú beiðni hér úrlausn.

  Beiðni kæranda um endurupptöku byggir á 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 2. Málsástæður og rök kæranda

  Kærandi byggir beiðni um endurupptöku á máli hennar og barna hennar hjá kærunefnd á 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga en hún byggir annars vegar á því að aðstæður í máli hennar og barna hennar hafi breyst frá því ákvörðun var tekin og hins vegar að ákvörðun hafi verið byggð á ófullnægjandi upplýsingum um málsatvik.

  Með endurupptökubeiðni lagði kærandi fram nýtt gagn um heilsufar A sem hún telur að innihaldi upplýsingar sem hafi ekki legið fyrir á fyrri stigum og hafi grundvallarþýðingu í málinu. Um er að ræða skjal með athugunum sálfræðinga, félagsfræðings og barnalæknis sem unnið var 18. -19. júní 2022. Þar kemur fram að A þurfi stuðning við nám, hegðun og líðan bæði heima og í skóla. Af umræddri athugun telur kærandi ljóst að A hafi sérþarfir þegar komi að námi og uppeldi en einnig varðandi félagslegt umhverfi og sálrænan stuðning.

  Niðurstöður athugananna sýni í fyrsta lagi að A hafi greinst með umtalsverð einkenni ADHD. Í öðru lagi hafi komið fram að fyrri athugun frá nóvember 2021 hafi [...]. Þá hafi niðurstöður greiningarinnar einnig leitt í ljós óstöðugleika í félagsumhverfi A. Mælt sé fyrir um úrræði og eftirfylgd og stuðningi í námi. Þá komi fram mikilvægi þess að styðja markvisst við líðan A með aðferðum sem henti börnum með ADHD-einkenni. Í beiðni kæranda kemur fram að framangreindar niðurstöður gefi tilefni til að efast um að A muni njóta þeirra réttinda sem honum séu tryggð í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sbr. lög nr. 19/2013. Staða barna kæranda í heimaríki sé afar óljós, m.a. með tilliti til húsnæðis, framfærslu, öryggis, umönnunargetu og uppeldishæfni kæranda, en hún sé einstæð móðir. Þá liggi fyrir að kærandi og börn hennar muni koma til með að búa við afar bágar og erfiðar félagslegar aðstæður verði þau send til heimaríkis. Sérfræðingar séu sammála um að A þurfi gott utanumhald og stuðning til lengri tíma.

  Ljóst sé að aðstæður þeirra hafi breyst verulega í skilningi 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Kærunefnd útlendingamála hafi í úrskurðum sínum áréttað mikilvægi þess að fram fari viðhlítandi mat á hagsmunum barna í samræmi við ákvæði laga um útlendinga og samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013. Í ljósi nýrra upplýsinga um heilsufar barna kæranda og getu hennar til að sinna börnunum verði að teljast nauðsynlegt að endurupptaka mál þeirra svo að fram geti farið viðhlítandi mat á hagsmunum barnanna. Um sé að ræða ný atriði sem hafi ekki legið fyrir á fyrri stigum. Beri því að endurupptaka málið og kanna framlögð gögn og hvaða áhrif þau hafi á niðurstöðu þess. Líta beri til þess að kærunefnd hafi endurupptekið mál af minna tilefni en nefndinni beri að gæta jafnræðis. Með hliðsjón af rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar, hagsmunum þeim sem í húfi séu, sé ljóst að fullt tilefni sé til að endurupptaka mál kæranda og barna hennar.

 3. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála varðandi beiðni um endurupptöku

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurði sinn, nr. 367/2019, í máli kæranda hinn 25. júlí 2019 og var úrskurðurinn birtur fyrir kæranda hinn 29. júlí 2019. Með úrskurðinum komst kærunefnd að þeirri niðurstöðu að kærandi og börn hennar uppfylltu hvorki skilyrði 1. né 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og því ættu hún og börn hennar ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat kærunefndar að aðstæður kæranda og barna hennar í heimaríki væru ekki með þeim hætti að veita bæri henni og börnum hennar dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga. Við þetta mat var litið sérstaklega til hagsmuna barna kæranda, öryggis þeirra, velferðar og félagslegs þroska, sbr. 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Af beiðni kæranda um endurupptöku má ráða að hún telji að skilyrði fyrir endurupptöku máls hennar og barna hennar sé fyrir hendi þar sem aðstæður þeirra hafi breyst verulega síðan úrskurður var kveðinn upp í máli þeirra í ljósi þess að sonur hennar hafi ADHD einkenni og glími við aðra erfiðleika. Kærandi telur að A muni ekki hafa sama aðgang að félagslegri aðstoð og heilbrigðisþjónustu í heimaríki hennar og hann hefur haft, hér á landi. Þá telur kærandi að hún og börn hennar muni búa við afar bágar og erfiðar félagslegar aðstæður verði þau send aftur til baka til heimaríkis.

Til stuðnings beiðni um endurupptöku hefur kærandi lagt fram mat sálfræðinga, félagsfræðings og barnalæknis, dags. 6. júlí 2022, svo sem fyrr greinir. Í matinu kemur fram að A hafi verið vísað í nánari athugun á ADHD einkennum og að fyrirliggjandi athugun sálfræðings hafi leitt í ljós vitsmunaþroska í neðra meðallagi og að veikleiki væri í mállegri greind. Taka þurfi þeim niðurstöðum með fyrirvara þar sem að íslenska sé ekki móðurmál A. Niðurstaða sérfræðinganna sé að hegðun A uppfylli ekki greiningarskilmerki fyrir ADHD. Einkenni séu vissulega til staðar en óljóst sé hvort þau séu afleiðingar taugaþroskaröskunar eða umhverfisþátta og sögu. Mikilvægt sé að styðja markvisst við nám og líðan með aðferðum sem henti börnum með ADHD einkenni. Kvíða einkenni séu líklegast tilkomin vegna sögu og óvissu um framtíð fjölskyldunnar á Íslandi. Í matinu er svo fjallað um úrræði og eftirfylgd sem mælt sé með. Mælt sé með áframhaldandi aðlögun umhverfis og stuðnings við nám, hegðun og líðan heima og í skóla, sérkennslu og áframhaldandi stuðning félagsþjónustu. Fylgjast þurfi með þróun einkenna og endurmeta ef einkenni fara vaxandi eða verði meira hamlandi.

Líkt og áður segir kvað kærunefnd upp úrskurð í máli kæranda hinn 25. júlí 2019 eða fyrir rúmum þremur árum síðan. Af gögnum málsins er ljóst að þeir erfiðleikar sem A glímir við voru ekki fyrir hendi þegar mál fjölskyldunnar var þá til meðferðar hjá kærunefnd. Þar sem ekki er meira en ár síðan framangreint mat lá fyrir er ljóst að ekki þurfa að vera veigamiklar ástæður fyrir endurupptöku máls kæranda og barna hennar, sbr. 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Kemur því til skoðunar hvort aðstæður fjölskyldunnar við endursendingu til heimaríkis teljist verulegar breyttar sem leitt geti til þess að endurupptaka skuli málið hjá kærunefnd skv. 2. tölul. 1.mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga

Kærunefnd hefur við meðferð málsins skoðað á ný skýrslur sem lágu fyrir við uppkvaðningu úrskurðar nefndarinnar 25. júlí 2019. Hefur nefndin auk þess m.a. horft til eftirfarandi skýrslna;

 • Formative Research and Technical Guidance on Identification and Support to Children with Learning Difficulties in Early Grades in Ghana, UNICEF og Inclusive Development Partners, frá janúar 2021;
 • Ghana: Medical treatment and healthcare , UK Home Office, frá ágúst 2022;
 • Redefining mental healthcare in Ghana, World Health Organization, 20. október 2022 og
 • Standards and Guidelines For Practice of Inclusive Education in Ghana, Ministry of Education og UNICEF frá júlí 2015.

Í úrskurði kærunefndar var ítarlega fjallað um hagsmuni barna kæranda, heilbrigðisþjónustu og félagslegar aðstæður í Gana. Þá kemur fram að börn kæranda hafi ganverskan ríkisborgararétt og muni hafa aðgang að menntun og heilbrigðisþjónustu í heimaríki auk þess sem ýmis úrræði séu í boði varðandi félagslega aðstoð. Í úrskurðinum kemur m.a. fram að á síðustu áratugum hafi náðst nokkur árangur í að bæta gæði og aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Læknum og hjúkrunarfræðingum á hvern íbúa hafi fjölgað, stefnur og aðgerðaráætlanir hafi verið gerðar og kynntar og grunnheilbrigðisþjónusta hafi verið efld. Á grundvelli sjúkratryggingakerfis hafi grunnþjónusta, mæðravernd og geðheilbrigðisþjónusta verið gerð gjaldfrjáls. Slík aðstoð hafi batnað til muna á undanförnum árum og markvisst sé reynt að koma til móts við efnaminni fjölskyldur. Er styrktarsjóðurinn LEAP (e. the Livelihood Empowerment Against Poverty Programme) tekinn sem dæmi, en tilgangur sjóðsins sé að veita þeim allra fátækustu í samfélaginu aðstoð í formi reiðufjár og sjúkratryggingar. Þá kemur fram að öll börn með ganverskan ríkisborgararétt eigi rétt á að njóta menntunar og sé skólaskylda fyrir börn á aldrinum 4-15 ára. Skólagangan sjálf sé endurgjaldslaus en fjölskyldur barnanna þurfi að greiða fyrir ýmsan efniskostnað svo sem skólabúning, bækur og samgöngur.

Í skýrslu breska innanríkisráðuneytisins kemur fram að stjórnvöld hafi á undanförnum árum unnið að bættu aðgengi að heilbrigðisþjónustu fyrir ríkisborgara Gana. Stjórnvöld hafi sett á fót aðgerðaráætlun í geðheilbrigðismálum fyrir árin 2019 til 2030 en þrátt fyrir viðleitni til að bæta geðheilbrigðisþjónustu í landinu séu enn alvarlegar áskoranir s.s. vegna manneklu. Almennu geðsjúkrahúsin þrjú séu með of fá pláss en veiti sérhæfða þjónustu vegna geðsjúkdóma, m.a. vegna ADHD. Í Gana séu 260 geðdeildir á almennum spítölum og fjöldi úrræða utan spítala. Einnig séu fjögur einkarekin geðsjúkrahús í landinu og önnur úrræði. Þá séu frjáls félagasamtök sem vinni að forvörnum, bættum meðferðarúrræðum og fræðslu. Gana hafi umfangsmestu geðheilbrigðislöggjöfina í Vestur-Afríku. Í skýrslum sem stafa frá barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, og menntamálaráðuneyti Gana kemur fram að UNICEF hafi unnið markvisst með ganverskum stjórnvöldum í að bæta aðgengi allra barna í Gana að menntun. Gerðar hafi verið ítarlegar stefnur um menntamál og aðgengi barna með fötlun að skólakerfinu og hvernig best sé að styðja við þau börn. Árið 2020 hafi m.a. verið sett upp tilraunaverkefni til þess að styrkja kennara og starfsfólk menntastofnana í að greina og styðja við börn sem eigi við námsörðugleika að stríða á fyrstu árum skólagöngu sinnar. Hafi það verkefni gengið vel fyrir sig og mælt með því að ganversk stjórnvöld byggðu á niðurstöðum verkefnisins til frekari framþróunar í skólastarfi í landinu. Ljóst sé að frekari vinnu og úrbóta sé þörf til þess að efla skólastarf og mikilvægt að stjórnvöld vinni áfram með UNICEF og öðrum aðilum til þess að tryggja jafnt aðgengi barna í landinu að menntun.

Fram kom í viðtali við kæranda að hún sé fædd og uppalinn rétt fyrir utan borgina [...] í Gana og hafi verið búsett á Ítalíu frá 16 ára aldri. Þá kemur fram í gögnum málsins að kærandi eigi ömmu og afa í Gana sem hún hafi búið með til 16 ára aldurs og hún og börn hennar séu handhafar ótímabundinna dvalarleyfa á Ítalíu og að faðir kæranda búi þar í landi. Samkvæmt gögnum málsins er kærandi heilsuhraust og vinnufær og fær um að sinna framfærslu barna sinna. Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur skoðað er ljóst að þrátt fyrir að erfiðleikar geti verið til staðar varðandi aðgengi að menntun og félagslegri aðstoð verður talið að kærandi geti fengið stuðning og aðstoð fyrir A vegna erfiðleika við nám. Er það mat kærunefndar að kærandi sé fullfær um að leita eftir slíkri þjónustu fyrir A og því ljóst að félagslegar aðstæður kæranda og barna hennar eru ekki slíkar að rétt sé að veita þeim dvalarleyfi hér á landi á grundvelli mannúðarástæðna, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Við þetta mat hefur kærunefnd stuðst við verklagsreglur kærunefndar vegna mats á hagsmunum barns sem sækir um alþjóðlega vernd sem aðgengilegar eru á vefsíðu nefndarinnar og horft til ákvæða sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013.

Er framangreind niðurstaða sú sama og niðurstaða úrskurðar kærunefndar frá 25. júlí 2019, sem staðfest var með endanlegum dómi Landsréttar 13. maí 2022. Hefur ekki verið sýnt fram á að atvik málsins hafi breyst verulega í skilningi 2. tölul. 1. mgr. 24. stjórnsýslulaga. Þá er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að úrskurður kærunefndar frá 25. júlí 2019, hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá benda gögn málsins ennfremur ekki til þess að aðstæður kæranda og barna hennar hafi breyst verulega í skilningi 2. tölul. 1. mgr. 24. stjórnsýslulaga eða að úrskurður kærunefndar hafi verið haldinn verulegum annmarka svo rétt sé að endurupptaka hann.

Að öllu framangreindu virtu er kröfu kæranda um endurupptöku máls hennar og barna hennar hjá kærunefnd því hafnað.

 

 

Úrskurðarorð:

 

 

Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað.

The request of the appellant to re-examine her case is denied.

 

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

 

Sindri M. Stephensen                                                Þorbjörg I. Jónsdóttir

 


 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira