Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 43/2022. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála.

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 7. febrúar 2023
í máli nr. 43/2022:
AJ Produkter AB
gegn
Reykjavíkurborg og
Pennanum hf.

Lykilorð
Sjálfkrafa stöðvun samningsgerðar aflétt.

Útdráttur
Kærunefnd útboðsmála féllst á kröfu varnaraðila um að aflétta sjálfkrafa stöðvun samningsgerðar, sbr. 2. mgr. 107. gr. og 1. mgr. 110. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup.

Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 13. desember 2022 kærði AJ Produkter AB (hér eftir „kærandi“) ákvörðun Reykjavíkurborgar (hér eftir „varnaraðili“) um að velja tilboð Pennans hf. í útboði nr. 15694 auðkennt „Húsgögn (borð) fyrir grunnskóla“.

Kærandi krefst þess að kærunefnd útboðsmála felli úr gildi ákvörðun kaupanda frá 8. desember 2022 um að taka tilboði Pennans hf. í útboði nr. 15692 og hafna þar með tilboði kæranda. Kærandi gerir jafnframt kröfu um að kærunefnd útboðsmála láti í ljós álit sitt á skaðabótaskyldu kaupanda vegna ákvörðunarinnar. Þá er gerð krafa um að kærunefnd útboðsmála geri Reykjavíkurborg að greiða kæranda hæfilegan kostnað við að hafa kæruna uppi.

Varnaraðili krefst þess að þess að sjálfkrafa stöðvun samningsgerðar í útboðsferli varnaraðila nr. 15694 verði aflétt. Þá krefst varnaraðili þess að öllum kröfum kæranda verði hafnað og jafnframt að kærunefnd útboðsmála úrskurði kæranda til greiðslu málskostnaðar á grundvelli síðari málsliðar 3. mgr. 111. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup. Penninn ehf. krefst þess að stöðvun samningsgerðar verði aflétt, en jafnframt að hafna beri kæru í málinu.

Í þessum hluta málsins verður tekin afstaða til fyrrgreindra krafna varnaraðila um að sjálfkrafa stöðvun samningsgerðar verði aflétt en úrlausn málsins bíður að öðru leyti endanlegs úrskurðar.

I

Í nóvember 2022 auglýsti varnaraðili hið kærða útboð og óskaði eftir tilboðum í borð fyrir grunnskóla. Um var að ræða almennt útboð. Í grein 0.8 í útboðslýsingu kom fram að samið yrði við þann aðila sem ætti hagkvæmasta gilda tilboðið á grundvelli besta hlutfalls milli verðs, gæða og afhendingar samkvæmt tilboðsbók. Tekið var fram að tilboð teldist óaðgengilegt ef bjóðandi byði hærra verð en kostnaðaráætlun kaupanda gerði ráð fyrir, en kaupandi áskildi sér þó rétt til þess að taka hærra tilboði en kostnaðaráætlun segði til um eftir því sem við ætti. Í sömu grein kom fram að gæðamat skyldi fara fram innan við einni viku frá opnun tilboða og skyldu bjóðendur hafa eintak af boðnum vörum aðgengilegt matsaðilum í verslun eða á starfsstað bjóðanda á höfuðborgarsvæðinu á þeim tíma. Ef húsgögn væru ekki á staðnum þegar gæðamat átti að fara fram þá yrði tilboðið metið ógilt og óaðgengilegt. Kaupandi myndi leggja mat á tilboðin og skyldi verð gilda 50% og gæðamat 50%. Lægsta verð skyldi hljóta 50 stig og önnur verðtilboð stig í réttu hlutfalli samkvæmt gefinni formúlu í grein 0.8 í útboðslýsingu. Að því er varðar gæðamat þá var tekið fram að matsnefnd myndi leggja mat á boðnar vörur. Þær yrðu metnar á fimm stiga skala frá „mjög ósammála“ til „mjög sammála“. Ófullnægjandi vörur fengu „mjög ósammála“ og myndi hljóta 0% af viðkomandi stigum sem tilgreind væru í tilboðsskrá. Fullnægjandi vörur myndu hljóta 20%-80% af tilgreindum hæsta stigafjölda og framúrskarandi vörur, sem fengju „mjög sammála“, myndi hljóta hæsta mögulega stigafjölda samkvæmt tilboðsskrá. Að auki yrði afhendingartími metinn á sams konar fimm stiga skala. Ófullnægjandi afhendingartími fengi „mjög ósammála“ og teldist vera 11 vikur eða meira, og fengi því 0% af viðkomandi stigum samkvæmt tilboðsskrá. Fullnægjandi afhendingartími teldist 8-9 vikur, 9-10 vikur eða 10-11 vikur, og myndi hljóta 20%-80% af tilgreindum hæsta stigafjölda, en framúrskarandi afhendingartími teldist vera innan 8 vikna og myndi því hljóta hæsta mögulega stigafjölda samkvæmt tilboðsskrá.

Á fundi innkaupa- og framkvæmdaráðs varnaraðila 8. desember 2022 var tilkynnt að fjórir af sex bjóðendum hefðu staðist lágmarkskröfur útboðsgagna. Var í kjölfarið lagt til og samþykkt að ganga að tilboði Pennans ehf., sem nam 20.863.500 kr., en tilboð þess hefði fengið hæstu stigagjöf bjóðenda að teknu tilliti til bæði gæða og verðs, og hefði því átt hagstæðasta tilboðið í útboðinu. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi frá varnaraðila 12. desember 2022 þar sem fram kom að ekki hafi verið framkvæmt gæðamat á tilboði kæranda þar sem það hafi ekki þótt standast lágmarkskröfur útboðslýsingar. Var tekið fram að kærandi hefði boðið þrjú borð sem öll hafi verið með sama verð, en eitt borðanna hafi ekki verið á staðnum þegar skoða átti vöruna og því hafi ekki verið hægt að meta það. Annað borð hafi verið með fjóra fætur og þar af leiðandi ekki í samræmi við þá kröfu sem getið væri um í 2.1 í útboðsgögnum og 0.10 í lágmarkskröfulista. Fætur eða grind þriðja borðsins hafi ekki verið eins og á teikningu, líkt og gerð hafi verið krafa um í kafla 0.10 í lágmarkskröfulista og hafi því ekki þótt nógu stöðugt.

II

Kærandi hafnar rökstuðningi varnaraðila og tekur fram að hann hafi ekki boðið borð sem hafi verið með fjórum fótum, sem ranglega sé fullyrt um í rökstuðningi varnaraðila. Þá hafnar kærandi því að borðfætur hafi ekki verið í samræmi við kröfur útboðsgagna, sem og að efni í borðplötu og kanti borðanna hafi verið ófullnægjandi. Bendir kærandi á að samkvæmt framlögðum vörulýsingum, sem hafi fylgt tilboði hans, komi fram að efni í borðum hans uppfylli allar kröfur útboðsgagna og séu í raun sterkari en krafa hafi verið gerð um. Varnaraðili hafi aldrei óskað eftir frekari upplýsingum um gerð og búnað borðanna, sem honum hafi þó verið rétt og skylt að gera, eða í það minnsta staðreyna með einhverjum viðunandi hætti í stað þess að draga órökstuddar ályktanir af lauslegri skoðun borðplötunnar.

Að mati kæranda verði tilboði hans ekki hafnað sem ógildu og óaðgengilegu á þeim forsendum að borð hafi ekki verið til staðar þegar matsnefndin hafi óskað eftir að skoða þau, en í grein 0.8 í útboðslýsingu hafi verið gert ráð fyrir að gæðamat færi fram innan við einni viku frá opnun tilboða. Ákvæði þetta verði ekki túlkað með öðrum hætti en að borðin yrðu að vera aðgengileg til skoðunar á þeim tíma. Kærandi hafi upplýst varnaraðila um að borðfætur/grind fyrir nemendaborð Access yrði aðgengilegt til skoðunar mánudaginn 5. desember 2022, eða innan framangreinds frests. Borðplatan hefði þegar verið skoðuð þar sem hún sé sameiginleg með báðum boðnum borðum, Access og Axiom. Varnaraðili hafi hins vegar hafnað að skoða borðfæturnar/grindina innan þess frests sem tilgreindur hafi verið og hafi upplýst um að matsnefndin hefði þegar skilað niðurstöðum sínum, þ.e. fyrir lok frestsins. Kærandi telji að ákvörðun varnaraðila um að hafna tilboði hans í útboðinu og meta vörur hans ekki til gæða í samræmi við skilmála útboðsins sé ómálefnaleg og byggi á röngum forsendum. Hún eigi sér ekki viðhlítandi stoð í skilmálum útboðslýsingar né byggi á lögum. Hafi varnaraðila borið skylda til að framkvæma gæðamat á vöru kæranda og meta tilboð hans til stiga til samanburðar við tilboð annarra bjóðenda.

III

Varnaraðili bendir á að óljóst hafi verið af tilboði og fylgigögnum með því hvaða borð kærandi hafi verið að bjóða. Í fylgigögnum með tilboðinu hafi verið að finna vörulýsingar af annars vegar Axiom borði og hins vegar Access borði, en einnig hafi fylgt með tilboðinu prófunarskýrsla sem vísar til borðheitisins Borås, og í þeirri skýrslu sé að finna myndir af borðum sem hvorki séu í samræmi við útboðsskilmála né vörulýsingar vegna Axiom og Access borðanna. Þessi prófunarskýrsla hafi verið sú eina sem hafi fylgt með kæru kæranda til kærunefndarinnar. Með tilboði kæranda hafi þó einnig fylgt prófunarskýrslur fyrir Axiom borð og Access borð. Að því er varðar Axiom borðin væri tekið fram að borðið uppfyllti einungis staðal EN 1729 fyrir stærðarviðmið 5-7, en þær borðplötur sem falli undir þau stærðarviðmið séu ekki af stærðinni 70x50 cm, svo sem krafa var gerð um í útboðsgögnum. Þá komi ekki fram í prófunarskýrslunni úr hverju hin prófaða borðplata sé, en af mynd í skýrslunni sé þó ljóst að hún sé engan veginn sambærileg hinni boðinni vöru. Í vörulýsingu með Axiom borðinu sé tekið fram að borðplatan sé spónaplata, en þess sé ekki getið í prófunarskýrslunni. Með tilboði kæranda hafi einnig fylgt prófunarskýrsla fyrir Access borð og vísar varnaraðili til þess að hið sama gildi um það og vikið hafi verið að varðandi Axiom prófunarskýrsluna.

Þá bendir varnaraðili á að í grein 0.5 í útboðsgögnum hafi verið mælt fyrir um hvaða upplýsingar varðandi verkefnið bjóðendum hafi verið skylt að leggja fram. Í C-lið hafi verið áskilið að upplýsingar um hæfi vegna tæknilegrar og faglegrar getu, sbr. kafla 0.10.3, og þar mælt fyrir um að bjóðandi skuli með tilboði sínu skila staðfestingu á reynslu, geta vísað til grunnskóla þar sem viðkomandi vörur séu í notkun og reynsla komin á notkun þeirra. Þá sé í E-lið að finna upptalningu á nokkrum atriðum, m.a. um að skylt væri að skila inn útfylltum og undirrituðum lágmarkskröfulista. Með tilboði kæranda hafi fylgt tvö fylgiskjöl sem nefnd hafi verið Experince Axiom og Experience Access. Í skjölunum komi fram jafnframt CustomerIDName og síðan fylgi listi yfir erlenda aðila án nokkurra skýringa. Ekki sé ljóst af skjalinu að um staðfestingu á reynslu sé að ræða, hvort umræddir aðilar á listanum séu grunnskólar, nákvæmlega hvaða vörur sé um að ræða, hvenær þær hafi verið teknar í notkun eða hvaða reynsla sé komin á notkun. Að mati varnaraðila verði vart talið að þessi skjöl geti talist uppfylla áskilnaði C-liðar greinar 0.5 í útboðsgögnum. Þá verði ekki heldur talið að kærandi hafi með framlagningu prófunarskýrslna fullnægt áskilnaði E-liðar greinar 0.5 í útboðsgögnum um að leggja fram gögn til staðfestingar á kröfum um hæfi, þ.e. að varan uppfylli staðla um húsgagnaframleiðslu (ÍST 1729 eða sambærilegt).

Varnaraðili bendir jafnframt á að Access borðið hafi ekki verið sýnt innan frests, en skýrt hafi komið fram í grein 0.8 í útboðsgögnum að gæðamat færi fram innan við einni viku frá opnun tilboða og að bjóðendur skyldu hafa eintak af boðnum vörum aðgengileg á þeim tíma. Tilboð hafi verið opnuð mánudaginn 28. nóvember klukkan 10 og vikufresturinn því liðinn í síðasta lagi mánudaginn 5. desember klukkan 10. Starfsmaður varnaraðila hafi sent tölvupóst á kæranda þar sem óskað hafi verið eftir því að fá að skoða hina boðnu vöru. Í svari kæranda hafi verið tekið fram að kærandi ætti aðeins Axiom borðið en líklega tæki um 10 daga að fá Access grindina. Með tölvupósti 6. desember frá kæranda hafi verið tekið fram að Access grindin væri tilbúin samsett ef varnaraðili vildi skoða hana, en með svarpósti þann sama dag hafi varnaraðili tilkynnt að tillögum hafi þegar verið skilað til innkauparáðs varnaraðila og því næði þetta borð ekki inn. Varnaraðili bendir á að kærandi haldi því ranglega fram að Access borðið yrði „til reiðu á næstu dögum“ í kæru sinni, heldur liggi fyrir af fyrirliggjandi tölvupóstum að að grindin hafi fyrst verið tilbúin til sýningar 6. desember, eftir að vikufresturinn hafi verið liðinn og eftir að matsnefnd hafi skilað niðurstöðum sínum. Því telji varnaraðili að tilboð kæranda með boði á Access borði hafi þá þegar verið ógilt og óaðgengilegt, sbr. 0.8. gr. útboðsgagna og 82. gr. laga nr. 120/2016.

Þá bendir varnaraðili á að eina boðna vara kæranda sem matsnefnd varnaraðila hafi getað skoðað hafi verið af Axiom borði. Það hafi verið skoðað 2. desember og hafi það verið mat matsnefndar að borðið hafi ekki uppfyllt lágmarkskröfur, sbr. útboðslýsingu og 66. gr. og 82. gr. laga nr. 120/2016. Í fyrsta lagi hafi matsnefnd talið að plata borðsins hafi ekki verið í þeim gæðum sem gerð hafi verið krafa um í lið 0.5 í lágmarkskröfum, þ.e. að hún skuli vera steypt í heilu lagi (e. compact) og kantar ekki úr öðru efni eða álímdir. Í vörulýsingu með Axiom borði kæranda, sem eigi einnig við Access borðinu, komi fram að borðplatan sé úr EN 312 type 2 spónarplötu og þar ofan á sé HPL plast sem sé pressað ofan á. Hin boðnu borð kæranda séu því „compressed“ framleidd en skýrt komi fram í lið 0.5 í lágmarkskröfum og viðauka 1 með útboðsgögnum að krafist væri „compact“ framleiðslu. Við skoðun Axiom borðsins hafi einnig komið í ljós að kantur borðsins væri álímdur og virtist ekki vera úr sama efni og efsta lag borðplötunnar. Við sýningu hafi mjög sýnileg dæld verið á kanti borðplötunnar, en kærandi mun hafa upplýst varnaraðila um að borðið hafi rekist í hurð og við það hafi dældin komið. Varnaraðili hafi því talið þetta enn frekar til marks um að borðplatan uppfylli ekki þær lágmarkskröfur sem gerðar hafi verið.

Í öðru lagi hafi það verið mat matsnefndar að grind borðsins væri ekki talin uppfylla lágmarkskröfur um stöðugleika, sbr. lið 0.9 yfir lágmarkskröfur, auk þess sem fætur þess hafi ekki verið eins og þeir fætur sem sýndir hafi verið af fótum í útboðslýsingu, sbr. grein 2.1 í útboðsgögnum og óskað hafi verið eftir að bjóðendur myndu hafa til viðmiðunar.

Í þriðja lagi hafi það verið mat matsnefndar að horn borðsins hafi ekki verið nægilega sveigð til að geta talist rúnuð, sbr. lið 0.2 í lágmarkskröfum. Kærandi hafi tiltekið að horn Axiom borðsins væru rúnuð í tilboði sínu og um það vísað nánar til vörulýsingar. Í vörulýsingu komi hins vegar ekkert fram um að horn séu rúnuð, heldur aðeins að um sé að ræða ferhyrnda borðplötu.

Í fjórða lagi sé óljóst hvort hið boðna Axiom borð með spónaborðplötunni EN 312 type P2 af stærðinni 70x50 uppfylli staðalinn EN 1729 eða sambærilegan staðal líkt og gerð hafi verið krafa um í lið 0.1 í lágmarkskröfum.

Varnaraðili hafnar því að skilyrði skaðabótaskyldu séu fyrir hendi, enda hafi hvorugt boðinna borða kæranda uppfyllt lágmarkskröfur samkvæmt útboðsskilmálum og varnaraðila hafi því verið skylt að hafna þeim, sbr. 66. og 82. gr. laga nr. 120/2016.

Penninn ehf. vísar til þess að það hafi átt hagstæðasta tilboðið í hinu kærða útboði og hafi þar af leiðandi fengið flest stig fyrir verð og gæði. Engin ágreiningur sé um það að þau borð sem félagið hafi boðið hafi uppfyllt skilmála útboðsins að öðru leyti. Í kæru sé ekki gerð tilraun til þess að rökstyðja að tilboð Pennans ehf. hafi ekki uppfyllt útboðsskilmála heldur sé aðeins á því byggt að velja hafi átt tilboð kæranda þar sem það hafi verið hagstæðara og uppfyllt skilmála. Penninn ehf. telji hins vegar að borð kæranda hafi ekki uppfyllt skilmála útboðsins í veigamiklum atriðum og því hafi ekki komið til greina að velja vörur kæranda, jafnvel þótt tilboð hans hafi verið lægra en önnur tilboð. Bendir Penninn ehf. á að í útboðsskilmálum hafi verið gerð krafa um að borðplata væri steypt í heilu lagi, en kærandi hafi boðið borð með spónarplötu með HPL. Hún sé því ekki steypt í heilu lagi og uppfylli þar af leiðandi ekki skilyrði útboðsins.

Þá kveður Penninn ehf. að gæðamunurinn á kröfum í útboðinu og því sem kærandi hafi boðið hafi verið mjög mikill. Það komi því ekki á óvart að verðmunur á tilboði kæranda og annarra bjóðanda hafi verið umtalsverður, en vörurnar séu ekki samanburðarhæfar. Mikilvægt sé að bjóðandi í útboði komist ekki upp með að bjóða vöru í allt öðrum gæða- og verðflokki og kæra svo útboðið á þeim grundvelli að viðkomandi hafi boðið svo gott verð, en reyni að draga fjöður yfir að vörurnar hafi ekki aðeins verið lakari að gæðum heldur uppfylli heldur ekki grundvallaratriði í útboði. Kærandi hafi þar af leiðandi ekki boðið vörur sem uppfylltu skilyrði útboðsgagna. Þótt tilboð hans hafi verið lægra en önnur þá skipti það ekki máli í þessu tilviki. Því verði að hafna kærunni.

IV

Kæra málsins hafði í för með sér sjálfkrafa stöðvun samningsgerðar samkvæmt 1. mgr. 107. gr. laga nr. 120/2016. Í 1. mgr. 107. gr. laganna kemur fram að ef ákvörðun um val tilboðs er kærð innan lögboðins biðtíma samkvæmt 86. gr. laganna sé gerð samnings óheimilt þar til kærunefnd útboðsmála hefur endanlega leyst úr kærunni. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar getur kærunefnd, hvort heldur að kröfu varnaraðila eða að eigin frumkvæði, ákveðið að aflétta banni við samningsgerð, en við slíka ákvörðun gilda ákvæði 110. gr. laganna eftir því sem við á. Í því felst að einungis á að viðhalda stöðvun hafi verulegar líkur verið leiddar að broti gegn lögum um opinber innkaup eða reglum settum samkvæmt þeim við tiltekin innkaup sem leitt getur til ógildingar ákvörðunar eða annarra athafna varnaraðila.

Áður hefur verið lýst skilmálum útboðsins, en ágreiningur aðila stendur um hvort þau borð sem kærandi bauð í hinu kærða útboði hafi uppfyllt kröfur útboðsgagna. Í grein 2 í útboðsgögnum kom fram að óskað væri eftir nemendaborði með T eða U laga fótum fyrir grunnskóla í Reykjavík. Í grein 2.1 var að finna teikningu af þeim borðum sem óskað væri eftir að bjóðendur skyldu nota til viðmiðunar, þ.e. borð með T og U laga fótum. Í tilboðsbók útboðsgagna, sem var viðauki við útboðsgögn, voru svo gerðar lágmarkskröfur í tíu liðum til boðinna borða. Samkvæmt þeim áttu borðin meðal annars að vera í samræmi við staðla um húsgagnaframleiðslu; öll horn vera rúnuð; borðplata í hvítu og/eða ljósgráu; stærð borðplötu vera 70cm x 50cm; borðplata skyldi vera steypt í heilu lagi og fáanlegt í mismunandi hæðum eftir aldri nemenda í 1. til 10. bekk grunnskóla. Þá var tekið fram að grind borðsins skyldi vera eins og fram kæmi í teikningu af borðum í kafla 2.1 í útboðsgögnum. Forsendur fyrir vali á tilboði komu fram í grein 0.8 í útboðsgögnum, en þar kom m.a. fram að gæðamat myndi fara fram innan við einni viku frá opnun tilboða og að bjóðendur skyldu hafa eintak af borðunum aðgengilegt matsaðilum í verslun eða á starfsstað bjóðanda á höfuðborgarsvæðinu á þeim tíma. Verð gilti 50% og gæðamat 50%. Virðist því mega ráða að bjóðendum hafi verið ljóst að þeir yrðu að geta sýnt framboðin borð á þeim tíma þar sem matsnefnd myndi leggja gæðamat á þau.

Það er meginregla útboðsréttar að bjóðendur bera ábyrgð á tilboðum sínum og að þeim sé skilað í samræmi við kröfur útboðs, sbr. meðal annars a. lið 1. mgr. 66. gr. laga nr. 120/2016. Kærandi bauð fram tvö borð, annars vegar Axiom borð og hins vegar Access borð. Samkvæmt vörulýsingu Axiom borðsins, sem fylgdi tilboði kæranda, virðist borðplata þess vera spónalögð, þ.e. gerð úr harðpressuðu viðarlíki og HPL plast sé svo pressað ofan á, en eins og að framan greinir þá var gerð sú krafa í útboðsgögnum að borðplatan væri steypt í heilu lagi. Að því leytinu virðist Axiom borðið ekki hafa fullnægt kröfum útboðsgagna. Þá var það mat matsnefndar varnaraðila í kjölfar skoðunar á Axiom borði kæranda að kantur þess væri ekki með kantlímingu, en þegar nefndin skoðaði borðið hafi verið sýnileg dæld á kanti borðplötunnar. Í vörulýsingu Axiom borðsins virðist ekki skýrlega tekið fram úr hverju kantur borðsins væri gerður. Af þessum sökum virðist mega líta svo á, eins og mál þetta liggur fyrir nú, að Axiom borð kæranda hafi ekki uppfyllt kröfur útboðsgagna.

Kærandi bauð einnig Access borð. Kærandi heldur því fram að matsnefnd varnaraðila hafi ekki skoðað borðið innan þess tíma sem kveðið var á um útboðsgögnum, en samkvæmt grein 0.8 áttu bjóðendur að hafa boðna vöru reiðubúna til sýningar fyrir matsnefnd innan viku frá opnun tilboða. Opnun tilboða fór fram mánudaginn 28. nóvember 2022. Samkvæmt gögnum málsins hafði tengiliður varnaraðila samband við kæranda degi síðar og óskaði eftir því að fá að sjá borð þau sem kærandi hafði boðið. Í svari kæranda þann sama dag kom fram að kærandi hefði aðeins Axiom borðið til í salnum og að líklega tæki kæranda um 10 daga að fá Access grindina til sín. Þessu svaraði tengiliður varnaraðila svo að sýnishorn yrðu að vera á staðnum til að borðin gætu verið tekin til greina. Þá yrði matsnefndin á ferðinni á föstudeginum 2. desember 2022 til að skoða borðið. Samkvæmt gögnum málsins sendi kærandi tengilið varnaraðila tölvupóst á þriðjudeginum 6. desember og kvað Access grindina vera tilbúna samsetta hjá sér og bauð varnaraðila að koma að skoða hana. Þann sama dag upplýsti tengiliðurinn að matsnefndin hefði skilað tillögum sínum til innkauparáðs varnaraðila deginum áður eða 5. desember þannig að þetta borð næði ekki inn. Þessi samskipti gefa til kynna að það hafi ekki verið fyrr en 6. desember 2022 að kærandi hafi haft Access borðið tilbúið, eða 8 dögum eftir opnun tilboða. Samkvæmt grein 0.8 í útboðsgögnum áttu bjóðendur að hafa boðna vöru reiðubúna til sýningar fyrir matsnefnd innan viku frá opnun tilboða. Var jafnframt kveðið á um það í sömu grein að ef boðnar vörur væru ekki til staðar þegar gæðamat átti að fara fram yrði tilboð metið ógilt og óaðgengilegt. Af svörum kæranda, sem rakin eru hér að framan, virðist mega ráða að kærandi hafi mátt ætla að varnaraðili gæti ekki sýnt Access borðið innan þess tímaramma sem kveðið var á um útboðsgögnum. Virðist tilboð kæranda því ekki heldur hafa uppfyllt kröfur útboðsgagna að því er varðar Access borð.

Að öllu framangreindu og að virtum fyrirliggjandi gögnum og málatilbúnaði að öðru leyti þykir mega miða við, eins og málið liggur fyrir nú, að ekki hafi verið leiddar verulegar líkur að broti gegn lögum nr. 120/2016 sem leitt geti til ógildingar ákvörðunar eða annarra athafna varnaraðila. Samkvæmt þessu verður að fallast á kröfu varnaraðila um að aflétta stöðvun samningsgerðar í hinu kærða útboði, sbr. 2. mgr. 107. gr., sbr. 1. mgr. 110. gr. laga nr. 120/2016.

Ákvörðunarorð

Aflétt er stöðvun samningsgerðar í kjölfar útboðs varnaraðila, Reykjavíkurborgar, nr. 15670 auðkennt „Húsgögn (borð) fyrir grunnskóla“.


Reykjavík, 7. febrúar 2023


Reimar Pétursson

Kristín Haraldsdóttir

Auður FinnbogadóttirÚrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum