Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd útboðsmála

Mál nr. 36/2023. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála.

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 29. september 2023
í máli nr. 36/2023:
Akstursþjónustan ehf.
gegn
Ríkiskaupum,
Kjósarhreppi og
GJ Bílum ehf.

Lykilorð
Aflétting sjálfkrafa stöðvun samningsgerðar.

Útdráttur
Kærunefnd útboðsmála féllst á kröfu varnaraðila um að aflétta sjálfkrafa stöðvun samningsgerðar, sbr. 2. mgr. 107. gr. og 1. mgr. 110. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup.

Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 1. september 2023 kærði Akstursþjónustan ehf. (hér eftir „kærandi“) útboð Ríkiskaupa fyrir hönd Kjósarhrepps (hér eftir „varnaraðilar“) nr. 22106 auðkennt „Accelerated public procurement, school bus driving for Kjósarhrepp“.

Kærandi krefst þess að felldar verði úr gildi ákvarðanir varnaraðila um að hafna tilboði kæranda og samþykkja tilboð GJ Bíla ehf. í hinu kærða útboði og að viðurkennt verði að varnaraðilum sé skylt að gera samning við kæranda á grundvelli tilboðs hans. Þá krefst kærandi málskostnaðar og að samningsgerð verði stöðvuð um stundarsakir þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru.

Með sameiginlegri greinargerð 15. september 2023 krefjast varnaraðilar þess að öllum kröfum kæranda verði hafnað og sjálfkrafa stöðvun samningsgerðar aflétt. GJ Bílar ehf. skilaði athugasemdum með tölvupósti 20. september 2023.

Kærunefnd útboðsmála beindi fyrirspurn til varnaraðila 27. september 2023 sem þeir svöruðu 28. sama mánaðar.

Í þessum hluta málsins verður tekin afstaða til fyrrgreindra krafna varnaraðila um að sjálfkrafa stöðvun samningsgerðar verði aflétt en úrlausn málsins bíður að öðru leyti endanlegs úrskurðar.

I

Í ágúst 2023 óskuðu Ríkiskaup fyrir hönd Kjósarhrepps eftir tilboðum í skóla- og frístundaakstur. Í grein 1.1 í útboðsgögnum kom fram að hin útboðna þjónusta næði til hefðbundins skólaaksturs grunnskólabarna. Um væri að ræða akstur með grunnskólanemendur í upphafi og lok skóladags, að og frá skóla og akstur með börn í félagsmiðstöð tvisvar í viku á tímabilinu 16:00 til 22:30. Samkvæmt grein 1.1.2 var tilboðsfrestur til 16. ágúst 2023 en við meðferð útboðsins framlengdu varnaraðilar frestinn til 22. sama mánaðar.

Í kafla 1.3 komu fram kröfur til hæfi bjóðanda. Í grein 1.3.3 var fjallað um hvaða ástæður gætu leitt til útilokunar bjóðanda frá þátttöku í útboðinu og tiltekið að með því að leggja fram tilboð staðfesti bjóðandi að þær útilokunarástæður sem væru tilgreindar í greininni ættu ekki við um fyrirtækið, einstaklinga í stjórn og fleira. Samkvæmt grein 1.3.4 skyldi innlendur bjóðandi vera skráður í fyrirtækjaskrá Skattsins eða með virðisaukaskattsnúmer og átti að framvísa vottorði úr fyrirtækjaskrá eða vottorði um skráð virðisaukaskattsnúmer þessu til staðfestingar. Þá kom fram í grein 1.3.5 að fjárhagsstaða bjóðanda skyldi vera nægilega trygg til að hann gæti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart kaupanda, sbr. 71. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup.

Með grein 1.3.6 voru gerðar þríþættar kröfur til tæknilegrar og faglegrar getu bjóðanda. Bjóðandi átti í fyrsta lagi að hafa yfir að ráða nægilegum bifreiðakosti til framkvæmdar verkefnisins og bar að leggja fram ítarlegar upplýsingar um þær bifreiðar sem yrðu notaðar við verkið auk varabifreiðar ef til alvarlegra bilana kæmi. Í öðru lagi skyldu bifreiðastjórar, sem kæmu að verkinu, hafa viðeigandi bifreiðarréttindi auk allra tilskilinna leyfa til aksturs með skólabörn gegn gjaldi og áttu bjóðendur þessu til staðfestingar að leggja fram lista yfir þá bifreiðastjóra sem kæmu að verkinu og afrit af ökuleyfum þeirra allra. Í þriðja lagi var gert að skilyrði að bifreiðarstjórar, sem kæmu að verkinu, skyldu hafa hreint sakarvottorð og ekki hafa gerst brotlegir við lög. Til staðfestingar á þessu átti bjóðandi að staðfesta að hann hefði afrit af sakarvottorðum bifreiðarstjóra og væri tilbúinn að afhenda kaupanda þau þegar eftir því yrði kallað.

Í grein 1.7.1, sem bar yfirskriftina „Bifreiðarkostur“, var nánar mælt fyrir um kröfur sem voru gerðar til þeirra bifreiða sem yrðu nýttar við þjónustuna. Í greininni sagði meðal annars að bjóðandi skyldi geta sýnt fram á að hann hefði yfir að ráða, eða myndi þegar akstur hæfist hafa yfir að ráða, fullnægjandi bifreiðarkosti og skyldi jafnframt sýna fram á tryggan aðgang að varabifreiðum. Með tilboði skyldi bjóðandi skila ökutækjaskrá yfir þær bifreiðar sem hann hygðist nýta við verkefnið ásamt varabifreiðum sem skyldu sérstaklega auðkenndar, þar sem fram kæmi meðal annars skráningarnúmer, tegund, árgerð, sætafjöldi og ástand bifreiða. Þá kom fram í greininni að bjóðandi skyldi sýna fram á að hann hefði aðgang að boðnum bílum við upphaf þjónustu með því að sanna að hann væri eigandi þeirra eða hefði tryggt sér afnot, t.d. með kaupsamningi eða leigusamningi.

Samkvæmt grein 1.3.7 átti bjóðandi að vera í skilum með opinber gjöld og lífeyrisskuldbindingar en bjóðendum bar ekki að leggja fram upplýsingar þessu til staðfestingar. Þá átti bjóðandi samkvæmt greinum 1.3.8 og 1.3.9 að leggja fram upplýsingar um gæða- og umhverfisstaðla og voru gerðar nánar tilteknar kröfur til viðskiptasiðferðis samkvæmt grein 1.3.10.

Í grein 1.3.11 kom fram að varnaraðili Ríkiskaup áskildi sér rétt til að óska eftir frekari upplýsingum til sönnunar á því að ekki væru fyrir hendi ástæður til útilokunar samkvæmt VI. kafla laga nr. 120/2016 og að með framlagningu tilboðs samþykkti bjóðandi að varnaraðilinn myndi kanna hvort að útilokunarástæður laganna ættu við um bjóðanda ef tilboð hans kæmi til álita, til dæmis með uppflettingu í Creditinfo. Þá áskildi varnaraðili Ríkiskaup sér rétt til að óska eftir yfirlýsingu frá viðskiptabanka bjóðanda um skilvísi í viðskiptum, eða þar sem við ætti, sönnunargögn um viðeigandi starfsábyrgðartryggingu, efndatryggingu eða bankaábyrgð. Jafnframt upplýsingar um efndir samninga síðastliðinna þriggja ára og yfirlýsingu um heildarveltu fyrirtækisins og, eftir því sem við ætti, veltu á því sviði sem félli undir samninginn á síðustu þremur fyrirliggjandi fjárhagsárum. Loks kom fram í grein 1.4 að verð væri eina valforsendan í útboðinu og áttu bjóðendur samkvæmt grein 1.9 að gefa upp verð fyrir hvern kílómetra. Tilboðsfjárhæðir bjóðenda voru síðan fengnar með því að margfalda uppgefið einingaverð við áætlað magn á ári sem var 29.097 kílómetrar.

Tilboð voru opnuð 22. ágúst 2023 og bárust fjögur tilboð í útboðinu. GJ Bílar ehf. áttu lægsta tilboðið að fjárhæð 16.177.932 krónum en þar á eftir kom tilboð kæranda að fjárhæð 25.023.420 krónum. Þá nam kostnaðaráætlun varnaraðila 26.287.318 krónum. Með tilkynningu 24. ágúst 2023 tilkynnti varnaraðili Ríkiskaup að ákveðið hefði verið að velja tilboð GJ Bíla ehf.

II

Kærandi byggir í meginatriðum á að varnaraðilum hafi verið óheimilt að velja tilboð GJ Bíla ehf. þar sem tilboð fyrirtækisins hafi ekki uppfyllt kröfur og skilyrði útboðsgagna og hafi varnaraðilum því borið að taka tilboði kæranda. Í þessu samhengi rekur kærandi fyrirmæli útboðsgagna og byggir meðal annars á að GJ Bílar ehf. hafi ekki uppfyllt kröfur útboðsgagna sem lúti að fjárhagsstöðu bjóðenda, skil á opinberum gjöldum, gæða- og umhverfisstöðlum og viðskiptasiðferði. Þá hafi fyrirtækið hvorki uppfyllt kröfur útboðsgagna um tæknilega og faglega getu bjóðanda né um að bjóðandi skyldi vera skráður í fyrirtækjaskrá eða með virðisaukaskattsnúmer. Þá hafi upplýsingar og gögn sem fyrirtækið hafi afhent með tilboði sínu verið ófullnægjandi og ekki sýnt fram á að það hafi getað staðið við tilboð um framkvæmd verks samkvæmt útboðinu. Að því er varðar tæknilega og faglega getu tekur kærandi fram að GJ Bílar ehf. sé nýtt fyrirtæki og ekki verði séð að fyrirtækið hafi rekstrarleyfi eða virðisaukaskattsnúmer miðað við lista yfir rekstrarleyfishafa með hópferðaleyfi frá Samgöngustofu og yfirlit frá Skattinum um virðisaukaskattsnúmer. Þá verði ekki séð að fyrirtækið geti sýnt fram á þá reynslu sem gera skuli til aðila sem hafi slíkt verk með höndum. Kærandi fullnægi öllum þessum skilyrðum og hafi að auki langa reynslu af bifreiðaakstri. Þá vísar kærandi til greinar 1.3.11 og tekur fram að fyrirtæki sem sé nýstofnað geti augljóslega ekki sýnt fram á efndir samninga síðustu þrjú ár og sé ekki með heildarveltu.

Í ljósi annarra starfa eiganda GJ Bíla ehf. taki tilboð þess líklega mið af því að eigandinn sinni verkinu hluta úr degi en að mati kæranda verði slíkt að teljast óraunhæft vegna eðli starfans og mikilvægi þess að geta sýnt svigrúm og brugðist fljótt við breyttum aðstæðum. Þá sé umhugsunarvert í ljósi umfangs þjónustunnar hvernig fyrirtækið geti staðið við reglu um hvíldartíma bílastjóra með þessu fyrirkomulagi. Loks heldur kærandi því fram að tilboð GJ Bíla ehf. hafi verið óeðlilega lágt í skilningi 81. gr. laga nr. 120/2016 enda hafi það numið 61,6% af kostnaðaráætlun. Kaupandi þjónustunnar hljóti að biðja um skýringar á þessu verulega fráviki. Líklegt sé að fyrirtækið ætli að halda úti skólaakstri með lágmarkskostnaði. Slíkt hljóti að valda varnaraðilum þungum áhyggjum og sé hægt að telja upp fjölmörg atriði sem gangi þvert á öll skilyrði sem sett séu fram í útboðslýsingu sé svo í pottinn búið, meðal annars 5. gr. reglna nr. 656/2009 um skólaakstur í grunnskóla. Skólaakstur sé í eðli sínu þungavinnuvélaakstur og sé kostnaðarsamt að halda úti slíkri þjónustu, sérstaklega við krefjandi aðstæður. Sá aðili sem vinni slíkt verk þurfi að halda úti öflugri gæða- og öryggisstefnu, stöðugri og fjárhagslega sterkri starfsemi og hafa nægjanlegt svigrúm til að bregðast við með stuttum fyrirvara komi eitthvað upp á.

III

Varnaraðilar byggja að meginstefnu til á því að skilyrði til að viðhalda sjálfkrafa stöðvun séu ekki fyrir hendi í málinu þar sem kærandi hafi hvorki sýnt fram á né leitt líkur að því að brotið hafi verið gegn lögum nr. 120/2016 við umrædd innkaup og að brotin séu þess eðlis að þau geti leitt til ógildingar á ákvörðunum varnaraðila í útboðinu.

Varnaraðilar segja að tilboð lægstbjóðanda hafi uppfyllt lágmarkskröfur útboðsins. Í ljósi málatilbúnaðar kæranda sé á það bent að ekki hafi verið gerð krafa í útboðslýsingu að samningsaðili hefði aflað sér rekstrarleyfis hjá Samgöngustofu fyrir opnun tilboða. Þá hafi ekki heldur verið gerð krafa um að bjóðandi gæti sýnt fram á reynslu af fyrri verkefnum heldur hafi kröfulýsingin sérstaklega verið sett fram með það í huga að gefa nýjum fyrirtækjum kost á að taka þátt í útboðinu.

Varnaraðilar benda á að við yfirferð tilboða hafi komið í ljós að lægstbjóðanda hafi láðst að láta fylgja með upplýsingar um þá varabifreið sem hann hygðist nota við framkvæmd verksins en þeim hafi verið heimilt að óska eftir frekari upplýsingum að þessu leyti samkvæmt 5. mgr. 66. gr. laga nr. 120/2016. Er meðal annars á það bent að skjalið sem lægstbjóðandi hafi lagt fram uppfylli þær kröfur sem hafi verið gerðar til viðbótargagna samkvæmt ákvæðinu en í skjalinu komi fram að skráning nýs eiganda hafi verið 17. ágúst 2023 og þar með fyrir opnun tilboða í útboðinu. Varnaraðilum hafi því verið heimilt að samþykkja skjalið sem hluta af tilboði lægstbjóðanda.

Í kæru sé einnig gerð athugasemd við að lægstbjóðandi hafi ekki getað sýnt fram á efndir samninga síðastliðin þrjú ár og hafi ekki heildarveltu, sbr. kafla 1.3.11. Kaflinn sem kærandi vísi til beri heitið áskilnaður um freástæður samkvæmt 68. gr. laga nr. 120/2016 séu ekki fyrir hendi. Þá benda varnaraðilar á að vangaveltur kæranda, um hvort lægstbjóðandi muni geta framkvæmt samninginn í ljósi starfa eiganda fyrirtækisins, séu ekki studdar haldbærum rökum og sé því óþarft að svara þeim ítarlega. Lægstbjóðandi hafi skuldbundið sig til að framkvæma verkefnið í samræmi við útbokari upplýsingar um hæfi á síðari stigum og innihaldi ekki lágmarkskröfu sem bjóðendur hafi þurft að uppfylla. Kaflinn sé staðlaður í útboðsgrunni Ríkiskaupa og markmið áskilnaðarins fyrst og fremst að tryggja réttindi kaupanda til að kalla eftir gögnum á gildistíma samnings auk þess að leggja skyldur á seljanda að skila inn upplýsingum til sönnunar á því að útilokunarðslýsingu og ef frávik verði á gæðum þjónustunarinnar verði tekið á því.

Hvað varðar sjónarmið kæranda um að tilboð lægstbjóðanda hafi verið óeðlilega lágt benda varnaraðilar á að mat á því hvort tilefni sé til að kalla eftir skýringum á tilboðinu í samræmi við þá málsmeðferð sem kveðið er á um í 81. gr. OIL sé alfarið í höndum kaupanda, sbr. úrskurði kærunefndar útboðsmála í málum nr. 44/2021 og nr. 40/2021. Varnaraðilar hafi ekki kallað eftir skýringum á tilboðsfjárhæð lægstbjóðanda þar sem við yfirferð tilboða hafi komið í ljós að tilboðið hafi ekki verið óeðlilega lágt þar sem misræmi hafi verið á milli áætlaðs kílómetrafjölda í tilboðsblaði og í kostnaðaráætlun. Skýrist því mikill munur á tilboðsverði lægstbjóðanda og kostnaðaráætlun af því að fyrir slysni hafi verið stuðst við ólíkan kílómetrafjölda við útreikning á heildartilboðsfjárhæð bjóðenda. Þegar einingarverð hafi verið skoðuð við yfirferð tilboða hafi komið í ljós að lítill raunverulegur munur hafi verið á milli einingaverðs sem lægstbjóðandi hafi boðið og sem kaupandi hafði gert ráð fyrir í kostnaðaráætlun sinni. Slíkur annmarki geti ekki haft áhrif á gildi útboðsins þar sem öll tilboð hafi verið samanburðarhæf þar sem bjóðendur hafi einungis boðið einingarverð. Ósamræmið varði þannig aðeins það að einingarverð séu margfölduð við ólíkan stuðul í kostnaðaráætlun og í tilboðsblaði. Gera varnaraðilar síðan ítarlega grein fyrir útreikningum þessu tengdu og byggja á að þeir hafi talið tilboðsfjárhæð lægstbjóðanda eðlilega. Hafi því ekki verið talin þörf á að kalla eftir frekari skýringum á fjárhæð tilboðsins samkvæmt 81. gr. laga nr. 120/2016. Þessu til stuðnings sé vísað til úrskurðar kærunefndar útboðsmála frá 27 febrúar 2023 í máli nr. 25/2022 þar sem fram komi að almennt sé óheimilt að notast við fasta mælikvarða við mat á því hvort tilboð sé óeðlilega lágt heldur sé skyldubundið mat lagt í hendur á kaupanda að kalla eftir skýringum og viðræðum ef tilboð virðist óeðlilega lágt.

Í athugasemdum GJ Bíla ehf. kemur fram að fyrirtækið sé alfarið ósammála þeim rökum sem komi fram í kæru. Þá svarar fyrirtækið einstökum röksemdum kæranda og rökstyður að það hafi uppfyllt allar kröfur útboðsskilmála.

IV

Kæra málsins barst innan lögboðins biðtíma samkvæmt 1. mgr. 86. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup og hafði því í för með sér sjálfkrafa stöðvun samningsgerðar eftir 1. mgr. 107. gr. laga nr. 120/2016. Í 1. mgr. 107. gr. laganna kemur fram að ef ákvörðun um val tilboðs er kærð innan lögboðins biðtíma sé gerð samnings óheimil þar til kærunefnd útboðsmála hafi endanlega leyst úr kærunni. Samkvæmt 2. mgr. getur kærunefnd, hvort heldur er að kröfu varnaraðila eða að eigin frumkvæði, ákveðið að aflétta banni við samningsgerð, en við slíka ákvörðun gilda ákvæði 110. gr. eftir því sem við á. Í því felst að einungis á að viðhalda stöðvun hafi verulegar líkur verið leiddar að broti gegn lögum um opinber innkaup eða reglum settum samkvæmt þeim við tiltekin innkaup sem leitt getur til ógildingar ákvörðunar eða annarra athafna varnaraðila.

Í grein 1.3.6 í útboðsgögnum kom fram að bjóðandi skyldi hafa yfir að ráða nægilegum bifreiðakosti til framkvæmdar verkefnisins. Þessu til staðfestingar áttu bjóðendur að leggja fram ítarlegar upplýsingar um þær bifreiðar sem notaðar yrðu við verkið auk varabifreiða ef til alvarlegra bilana kæmi. Í greininni var ekki nánar mælt fyrir um hvaða upplýsingum óskað væri eftir í þessu samhengi en í grein 1.7.1 kom fram að með tilboði skyldi bjóðandi skila „ökutækjaskrá“ yfir þær bifreiðar sem hann hygðist nota við verkefnið ásamt varabifreiðum sem skyldu sérstaklega auðkenndar, þar sem fram kæmi meðal annars skráningarnúmer, tegund, árgerð, sætafjöldi og ástand bifreiða. Þá kom fram í grein 1.7.1 að bjóðandi skyldi sýna fram á að hann hefði aðgang að boðnum bílum við upphaf þjónustu með því að sanna að hann væri eigandi þeirra eða tryggt sé afnot þeirra, til dæmi með kaup- eða leigusamningi.

Kærunefnd útboðsmála hefur kynnt sér tilboðsgögn lægstbjóðanda, GJ Bíla ehf., en samkvæmt upplýsingum frá varnaraðila var tilboð fyrirtækisins lagt fram nokkru fyrir lok tilboðsfrests eða 9. ágúst 2023. Í tilboðsgögnunum komu fram upplýsingar um ökutækið sem lægstbjóðandi hugðist nota sem aðalbifreið og tiltekið að eigandi hennar væri jafnframt eigandi lægstbjóðanda. Fyrirtækið myndi fá afnot af bifreiðinni þar til hún yrði færð inn í fyrirtækið. Leit væri hafin að varabíl og þar til hann fyndist yrði notast við leigubifreið ef til alvarlegrar bilunar kæmi.

Starfsmaður varnaraðila Ríkiskaupa sendi tölvupóst til lægstbjóðanda 24. ágúst 2023 og tók fram hann fyndi ekki upplýsingar í tilboðsgögnum fyrirtækisins um varabifreiðina sem nota ætti við verkið og óskaði eftir að lægstbjóðandi sendi að lágmarki upplýsingar um bílnúmer hennar. Lægstbjóðandi svaraði tölvupóstinum samdægurs og lagði fram skráðar grunnupplýsingar um tiltekna bifreið ásamt upplýsingum um eigendaferil hennar en af þessum upplýsingum verður ráðið að fyrirsvarsmaður lægstbjóðanda hafi keypt bifreiðina 17. ágúst 2023 og fyrir lok tilboðsfrests í útboðinu.

Í 5. mgr. 66. gr. laga nr. 120/2016 kemur þó fram að þegar upplýsingar eða gögn sem bjóðandi leggi fram virðast vera ófullkomin eða innihalda villur eða ef tiltekin skjöl vantar geti kaupandi farið fram á að bjóðandi leggi fram, bæti við, skýri eða fullgeri upplýsingar eða gögn innan hæfilegs frests. Slíkar skýringar, lagfæringar eða viðbótarupplýsingar megi þó ekki fela í sér breytingar á grundvallarþáttum tilboðs eða vera líkleg til að raska samkeppni eða ýta undir mismunun. Í framkvæmd hefur 5. mgr. 66. gr. verið skýrð með þeim hætti að töluvert svigrúm sé til þess að útskýra og bæta við gögnum um staðreyndir sem ekki verður breytt eftir opnun tilboða. Sem dæmi um þetta hefur verið fallist á að bjóðendum sé heimilt að leggja fram gögn um fjárhagslegt hæfi enda fela þau oftast einungis í sér formlega staðfestingu á staðreyndum sem voru til staðar fyrir opnun, sbr. úrskurð nefndarinnar 27. febrúar 2023 í máli nr. 37/2022.

Að mati kærunefndar útboðsmála þykir mega miða við, eins og málið liggur fyrir á þessu stigi, að framangreind upplýsingaöflun varnaraðila hafi ekki farið í bága við 5. mgr. 66. gr. laga nr. 120/2016. Þá verður að telja að fyrirkomulag á eignarhaldi framboðinna bifreiða lægstbjóðanda hafi ekki verið andstætt útboðsgögnum en svo sem fyrr segir kom fram í grein 1.7.1 að bjóðandi skyldi sýna fram á aðgang að boðnum bifreiðum við upphaf þjónustu.

Að öðru leyti verður ekki annað ráðið af tilboðsgögnum lægstbjóðanda en að hann hafi lagt fram þau gögn sem óskað var eftir og uppfyllt þær kröfur sem voru gerðar til hæfi bjóðenda samkvæmt skilmálum útboðsins. Í þessu samhengi þykir rétt að benda á að með grein 1.3.11, sem er nánar rakin í kafla I hér að framan, áskildu varnaraðilar sér meðal annars rétt til að afla upplýsinga um efndir samninga þriggja síðustu ára og yfirlýsingu um heildarveltu fyrirtækis á tilgreindu tímabili. Að mati kærunefndar útboðsmála verður ekki séð að þessar upplýsingar hafi tengst þeim skilyrðum eða kröfum sem voru gerðar samkvæmt útboðsskilmálum og þykir því mega miða við að greinin verði ekki skýrð með þeim hætti að í henni hafi falist sjálfstæðar lágmarkskröfur til hæfi bjóðenda.

Að endingu hefur kærunefnd útboðsmála á þessu stigi ekki ástæðu til að rengja upplýsingar varnaraðila um að kostnaðaráætlun þeirra hafi byggst á mun hærri kílómetrafjölda en tilboðsfjárhæðir bjóðenda en sjónarmið varnaraðila að þessu leyti finna sér stoð í framlögðum gögnum. Með hliðsjón af áætluðu einingaverði á kílómeter í kostnaðaráætlun varnaraðila, samanborið við sama einingaverð í tilboði lægstbjóðanda, þykir mega miða við að tilboð kæranda hafi ekki virst óeðlilega lágt með þeim afleiðingum að varnaraðilar hafi átt að grípa til þeirra aðgerða sem um er mælt í 81. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup.

Samkvæmt framangreindu og að virtum fyrirliggjandi gögnum og málatilbúnaði aðila að öðru leyti þykir mega miða við, eins og málið liggur fyrir nú, að ekki hafi verið leiddar verulegar líkur að broti gegn lögum um opinber innkaup nr. 120/2016 eða reglum settum samkvæmt þeim sem geti leitt til ógildingar ákvörðunar eða annarra athafna varnaraðila. Samkvæmt þessu verður að fallast á kröfu varnaraðila um að aflétta stöðvun samningsgerðar í hinu kærða útboði, sbr. 2. mgr. 107. gr., sbr. 1. mgr. 110. gr. laga nr. 120/2016. Úr öðrum kröfum aðila verður leyst með úrskurði þegar aðilar hafa skilað endanlegum sjónarmiðum sínum í málinu og lagt fram þau gögn sem þeir telja máli skipta.

Ákvörðunarorð

Aflétt er stöðvun samningsgerðar milli varnaraðila Ríkiskaupa, fyrir hönd varnaraðila Kjósarhrepps, og GJ Bíla ehf. vegna útboðs nr. 22106 auðkennt „Accelerated public procurement, school bus driving for Kjósarhrepp“.


Reykjavík, 29. september 2023


Reimar Pétursson

Kristín Haraldsdóttir

Auður Finnbogadóttir

 Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum