Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 443/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 443/2016

Föstudaginn 17. mars 2017

A

gegn

Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóði

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Guðrún Agnes Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Jón Baldursson læknir og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Með kæru, dags. 11. nóvember 2016, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 4. nóvember 2016, um synjun á umsókn hennar um fæðingarstyrk námsmanna.

I. Málavextir og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 29. september 2016, sótti kærandi um fæðingarstyrk námsmanna í sex mánuði vegna væntanlegrar fæðingar barns hennar X 2016. Með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 18. október 2016, var umsókn kæranda synjað á þeirri forsendu að hún hafi ekki verið í fullu námi samfellt í að minnsta kosti sex mánuði síðustu tólf mánuðina fyrir fæðingu barns. Kærandi lagði fram frekari gögn vegna umsóknarinnar en með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 4. nóvember 2016, var umsókn hennar synjað á ný.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 11. nóvember 2016. Með bréfi, dags. 15. nóvember 2016, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Fæðingarorlofs-sjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð sjóðsins barst með bréfi, dags. 19. desember 2016, og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 27. desember 2016, var greinargerðin send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi kveðst hafa átt við veikindi að stríða á meðgöngu, bæði líkamleg og andleg. Þungunin hafi verið henni mikið áfall og í kjölfarið hafi hún verið undir miklu álagi. Sökum þessa hafi hún ekki getað stundað nám sitt eins og skyldi. Kærandi er ósátt við að læknisvottorði vegna veikinda hennar hafi verið hafnað og fer fram á að mál hennar verði endurskoðað. Þá vísar hún jafnframt til þess að í 13. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof komi ekki fram hvers kyns veikindi falli þar undir.

III. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs er vísað til 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof þar sem kveðið sé á um að foreldrar sem hafi verið í fullu námi í að minnsta kosti sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma eigi rétt á fæðingarstyrk. Foreldri skuli leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og hafi staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma. Heimilt sé að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist. Skilgreiningu á fullu námi sé að finna í 4. mgr. 7. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 4. gr. laga nr. 74/2008. Þar komi fram að fullt nám í skilningi laganna teljist vera 75–100% samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem standi yfir í að minnsta kosti sex mánuði. Enn fremur sé átt við 75–100% nám á háskólastigi og annað nám sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljist ekki til náms.

Barn kæranda hafi fæðst þann X 2016. Við mat á því hvort kærandi hafi stundað fullt nám samfellt í að minnsta kosti sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingardag barnsins sé horft til tímabilsins frá X 2015 fram að fæðingardegi þess. Á námsferilsyfirliti Háskóla Íslands, dags. 23. ágúst 2016, komi fram að á framangreindu tólf mánaða tímabili hafi kærandi lokið 18 ECTS-einingum á haustmisseri 2015, 18 ECTS-einingum á vorönn 2016 og verið skráð í 26 ECTS-einingar á haustmisseri 2016. Á háskólastigi jafngildi því 30 einingar á önn 100% námi og því teljist 22–30 einingar vera fullt nám samkvæmt lögum nr. 95/2000. Með hliðsjón af þeim gögnum, sem fyrir liggi um námsframvindu og uppsetningu náms kæranda, uppfylli hún ekki almenna skilyrðið um að hafa verið í fullu námi samfellt í að minnsta kosti sex mánuði síðustu tólf mánuðina fyrir fæðingardag barns þar sem hún hafi einungis lokið 18 ECTS-einingum á haustmisseri 2015 og öðrum 18 einingum á vormisseri 2016.

Fæðingarorlofssjóður tekur fram að í 13. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 sé að finna undanþágu frá framangreindu skilyrði 1. mgr. 19. gr. laganna um viðunandi námsárangur. Þar komi fram að heimilt sé að greiða móður fæðingarstyrk samkvæmt 1. mgr. þrátt fyrir að hún uppfylli ekki skilyrði um viðunandi námsárangur og/eða ástundun, enda hafi hún ekki getað stundað nám á meðgöngu vegna heilsufarsástæðna. Því til staðfestingar skuli leggja fram vottorð sérfræðilæknis sem annast hafi móður á meðgöngu ásamt staðfestingu frá skóla um að hún hafi verið skráð í fullt nám. Þá komi fram að Vinnumálastofnun sé heimilt að óska eftir umsögn frá öðrum sérfræðilækni. Af orðalagi heimildarákvæðis 13. mgr. 19. gr. laganna verði ekki ráðið með skýrum hætti til hvaða heilsufarsástæðna ákvæðinu sé ætlað að ná. Í samræmi við það verði að afmarka orðið heilsufarsástæður nánar, annars vegar innan ákvæðisins í samhengi við önnur orð sem þar komi fyrir og hins vegar af ytra samhengi ákvæðisins af þeim lögskýringargögnum sem texti ákvæðisins beri. Þá sé í lögskýringarfræðum almennt viðurkennt að skýra beri heimildarákvæði þröngt. Við nánari afmörkun á orðinu heilsufarsástæður í heimildarákvæðinu í samhengi við önnur orð sem komi þar fyrir sé ljóst að ákvæðinu sé einvörðungu ætlað að taka til mæðra en ekki feðra og þá í þeim tilvikum þegar mæður hafi ekki getað stundað nám á meðgöngu vegna heilsufarsástæðna. Þannig verði annars vegar ráðið af innra samhengi ákvæðisins að því sé ætlað að taka til heilsufarsástæðna þess foreldris sem gangi með barnið, þ.e. móður, og hins vegar heilsufarsástæðna meðan á meðgöngu standi. Í athugasemdum við 16. gr. frumvarpsins er varð að lögum nr. 74/2008 komi fram að átt sé við sambærilegar heilsufarsástæður og eigi við um veikindi móður sem valdi óvinnufærni hennar á meðgöngu samkvæmt 4. mgr. 17. gr. laganna. Með heilsufarsástæðum hafi verið átt við sjúkdóma sem upp koma vegna meðgöngu og valda óvinnufærni og sjúkdóma, tímabundna eða langvarandi, sem versna á meðgöngu og valda óvinnufærni. Jafnframt falli þar undir fyrirbyggjandi meðferð til að koma í veg fyrir fyrirburafæðingu eða til að vernda heilsu fósturs, enda valdi meðferðin óvinnufærni.

Fæðingarorlofssjóður bendir á að hvort heldur sem orðið heilsufarsástæður sé afmarkað nánar innan heimildarákvæðis 13. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 í samhengi við önnur orð ákvæðisins eða af ytra samhengi þess af þeim lögskýringargögnum sem texti ákvæðisins beri sé ljóst að ákvæðinu sé ætlað að taka til heilsufarsástæðna mæðra sem tengist meðgöngunni, þ.e. sjúkdóma mæðra sem komi upp vegna meðgöngu, tímabundinna eða langvarandi sjúkdóma mæðra sem versni á meðgöngu eða fyrirbyggjandi meðferðar til að koma í veg fyrir fyrirburafæðingu eða til að vernda heilsu fósturs. Í læknisvottorði B heimilislæknis, dags. 26. október 2016, komi fram að sjúkdómur móður hafi verið ótilgreind kvíðaröskun. Í lýsingu á sjúkdómi móður á meðgöngu komi meðal annars fram að hún hafi verið þunguð og gengin x vikur og x daga. Hún hafi hætt að vinna í lok september vegna hjartsláttartruflana – mikið um ventriculer aukaslög. Þá sé áfallasaga rakin þannig að hún hafi átt við heilsubrest að stríða, bæði af andlegum og líkamlegum toga á síðustu mánuðum. Kvíði og depurð frá mars 2016 hafi valdið skertri getu til náms og því hafi hún ekki lokið tilskildum námsárangri. Í niðurstöðu skoðunar þann 21. mars 2016 sé greint frá kvíða, depurð og erfiðum fjölskylduaðstæðum. Ekki hafi verið talið að um endurtekinn sjúkdóm væri að ræða.

Í umsögn C, sérfræðilæknis Fæðingarorlofssjóðs, dags. 8. desember 2016, segi meðal annars að lýsing á kvíða og depurð sem fram komi í læknisvottorði B vísi til vorannar 2016 en þar komi ekki fram að um meðgöngutengd veikindi hafi verið að ræða. Minnst sé á áfallasögu og að kærandi hafi átt við heilsubrest að stríða, bæði af andlegum og líkamlegum toga á síðustu mánuðum. Ekki séu gefnar frekari skýringar á þessu og það hafi verið metið svo að ekki væri hægt að segja að veikindi væru af meðgöngutengdum ástæðum eða sérstök ástæða að ætla að um hafi verið að ræða veikindi sem hefðu versnað vegna meðgöngunnar. Þá komi fram að kærandi hafi hætt að vinna í lok september vegna hjartsláttartruflana en það séu algeng einkenni á meðgöngu sem geti leitt til veikinda. Það sé hins vegar ekki skýrt nánar og ekki heldur hvort kærandi hafi fengið einhverja meðferð eða hvort henni hafi verið ráðlagt að hætta í námi. Út frá þessu hafi það verið hans mat að kærandi hafi verið námsfær fram að þeim tíma, þ.e. til loka september 2016, og vottorðið því að vissu marki misvísandi.

Fæðingarorlofssjóður bendir á að áætlaður fæðingardagur barns kæranda hafi verið X 2016. Samkvæmt því hafi meðgangan hafist X 2016. Í samræmi við það geti heimildarákvæði 13. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 ekki tekið til haustmisseris 2015 áður en meðgangan hafi byrjað. Þá verði ekki ráðið af læknisvottorði B og umsögn sérfræðilæknis sjóðsins að kærandi hafi ekki getað stundað nám á meðgöngu á vormisseri 2016 vegna heilsufarsástæðna. Þá verði jafnframt að telja að kærandi hafi getað stundað nám á haustmisseri 2016 til loka september 2016 en frá þeim tíma hafi hún ekki getað stundað nám af heilsufarsástæðum í skilningi ákvæðisins.

Með vísan til alls framangreinds telji Fæðingarorlofssjóður að umsókn kæranda um greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi hafi réttilega verið synjað en kærandi eigi þess í stað rétt á fæðingarstyrk samkvæmt 18. gr. laga nr. 95/2000.

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja umsókn kæranda um fæðingarstyrk námsmanna.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof eiga foreldrar, sem verið hafa í fullu námi í að minnsta kosti sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma, rétt til fæðingarstyrks. Foreldri skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og staðist kröfur um námsframvindu. Heimilt er að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist.

Í 4. mgr. 7. gr. laga nr. 95/2000 segir að fullt nám samkvæmt lögunum sé 75–100% samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í að minnsta kosti sex mánuði. Enn fremur sé átt við 75–100% nám á háskólastigi og annað nám sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljist ekki til náms. Almennt teljast 30 ECTS einingar á önn því vera 100% nám við háskóla og fullt nám í skilningi laganna því 22–30 einingar.

Barn kæranda fæddist X 2016. Tólf mánaða viðmiðunartímabil samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 er því frá X 2015 fram að fæðingardegi barnsins. Kærandi stundaði nám við […] Háskóla Íslands og stendur námið yfir í þrjú ár. Fullt nám á hverri önn nemur 30 ECTS einingum eða samtals 180 ECTS einingum í heild. Samkvæmt yfirliti frá Háskóla Íslands, dags. 23. ágúst 2016, lauk kærandi 18 ECTS-einingum á haustönn 2015 og 18 ECTS-einingum á vorönn 2016 sem telst ekki vera fullt nám. Það er því mat úrskurðarnefndar velferðarmála að kærandi hafi ekki fullnægt skilyrði 1. mgr. 19. gr. laganna um að hafa verið í fullu námi í að minnsta kosti sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns.

Í 13. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 kemur fram að heimilt sé að greiða móður fæðingarstyrk sem námsmanni þrátt fyrir að hún uppfylli ekki skilyrði um viðunandi námsárangur og/eða ástundun, hafi hún ekki getað stundað nám á meðgöngu vegna heilsufarsástæðna. Við þær aðstæður skal móðir leggja fram vottorð sérfræðilæknis sem annast hefur hana á meðgöngu því til staðfestingar ásamt staðfestingu frá skóla um að hún hafi verið skráð í fullt nám. Í gögnum málsins liggur fyrir staðfesting þess efnis að kærandi hafi verið skráð í fullt nám á vorönn 2016. Kærandi hefur lagt fram læknisvottorð B heimilislæknis, dags. 26. október 2016, þar sem fram kemur að kærandi hafi átt við heilsubrest að stríða, bæði af andlegum og líkamlegum toga á síðustu mánuðum. Frá mars 2016 hafi hún verið að kljást við kvíða og depurð og því ekki lokið tilskildum námsárangri. Í umsögn C, sérfræðilæknis Fæðingarorlofssjóðs, dags. 8. desember 2016, kemur fram að hann hafi metið það svo að læknisvottorðið væri ófullnægjandi og misvísandi að vissu leyti. Ekki hafi verið tilgreint fyrir hvaða önn væri verið að sækja um styrk og langt hafi verið frá síðustu skoðun að útgáfudegi vottorðs. Niðurstaða skoðunar hafi einnig gefið litlar upplýsingar og ekki væri hægt að lesa út úr vottorðinu að um meðgöngutengd veikindi væri að ræða. Því hafi vottorðinu verið hafnað fyrir hönd Fæðingarorlofssjóðs en vel megi gagnrýna að ekki hafi verið óskað eftir nýju og ítarlegra vottorði.

Úrskurðarnefndin tekur undir það álit sérfræðilæknis Fæðingarorlofssjóðs að framangreint læknisvottorð sé ófullnægjandi og óljóst. Að mati úrskurðarnefndarinnar verður því ekki séð að Fæðingarorlofssjóður hafi lagt fullnægjandi mat á það hvort kærandi hafi ekki getað stundað nám sitt vegna heilsufarsástæðna, sbr. 13. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000. Að því virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að mál kæranda hafi ekki verið rannsakað nægjanlega, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi og lagt fyrir Fæðingarorlofssjóð að taka málið til nýrrar meðferðar.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 4. nóvember 2016, um synjun á umsókn A, um fæðingarstyrk námsmanna er felld úr gildi og málinu vísað til sjóðsins til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Guðrún A. Þorsteinsdóttir, formaður


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira