Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd útboðsmála

Mál 23/2017. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 20. október 2017 kærir Icecool á Íslandi ehf. svonefnda verðfyrirspurn Landsnets hf. auðkennda „Breytingar á Ford 350“. Kærandi krefst þess að kærunefnd útboðsmála stöðvi framangreint innkaupaferli varnaraðila. Jafnframt að hafi „varnaraðili gert samning vegna útboðs á breytingum á tveimur Ford 350 bifreiðum á biðtíma er þess krafist að kærunefnd útboðsmála lýsi samninginn óvirkan frá upphafi.“ Þá er þess krafist að ákvörðun varnaraðila um að hafna tilboði kæranda í innkaupaferlinu verði felld úr gildi og „lagt verði fyrir varnaraðila að semja við kæranda.“ Til vara er þess krafist að varnaraðila verði gert „að auglýsa útboðið  á nýjan leik.“ Þess er einnig krafist að nefndin láti upp álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila auk þess sem krafist er málskostnaðar. Í þessum hluta málsins tekur kærunefnd útboðsmála afstöðu til þess hvort rétt sé að verða við kröfu kæranda um að stöðva samningsgerðina um stundarsakir, en úrlausn málsins bíður að öðru leyti endanlegs úrskurðar.

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 10. nóvember 2017

í máli nr. 23/2017:

Icecool á Íslandi ehf.

gegn

Landsneti hf. og

Arctic Trucks ehf.

Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 20. október 2017 kærir Icecool á Íslandi ehf. svonefnda verðfyrirspurn Landsnets hf. auðkennda „Breytingar á Ford 350“. Kærandi krefst þess að kærunefnd útboðsmála stöðvi framangreint innkaupaferli varnaraðila. Jafnframt að hafi „varnaraðili gert samning vegna útboðs á breytingum á tveimur Ford 350 bifreiðum á biðtíma er þess krafist að kærunefnd útboðsmála lýsi samninginn óvirkan frá upphafi.“ Þá er þess krafist að ákvörðun varnaraðila um að hafna tilboði kæranda í innkaupaferlinu verði felld úr gildi og „lagt verði fyrir varnaraðila að semja við kæranda.“ Til vara er þess krafist að varnaraðila verði gert „að auglýsa útboðið  á nýjan leik.“ Þess er einnig krafist að nefndin láti upp álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila auk þess sem krafist er málskostnaðar. Í þessum hluta málsins tekur kærunefnd útboðsmála afstöðu til þess hvort rétt sé að verða við kröfu kæranda um að stöðva samningsgerðina um stundarsakir, en úrlausn málsins bíður að öðru leyti endanlegs úrskurðar.

Af gögnum málsins verður ráðið að 20. september 2017 hafi kæranda verið send verðfyrirspurn um breytingar á tveimur Ford 350 bifreiðum. Óskað var eftir að tilboð yrðu send fyrir 27. september sl. Í verðfyrirspurnargögnum kom nánar fram í hverju breytingar á umræddum bifreiðum skyldu fólgnar auk þess sem fram kom að tilboð bjóðenda skyldu innhalda upplýsingar um hvaða íhlutir yrðu settir í bifreiðarnar, verð á íhlutum og heildarverð verkefnis. Jafnframt skyldu tilboð innifela þjónustu vegna bilana og galla. Kom fram að varnaraðili myndi meta tilboðin og halda samningafundi með bjóðendum til að fara yfir lausnir, útfærslu og þjónustu bjóðenda og jafnframt að bjóðendur fengju tækifæri í kjölfarið til að uppfæra tilboð sín. Kærandi skilaði tilboði með tölvupósti 27. september sl. samtals að fjárhæð 25.288.500 krónum fyrir breytingar á tveimur bifreiðum. Varnaraðili óskaði eftir breyttu tilboði frá kæranda 9. október og í kjölfarið virðast kærandi og varnaraðili hafa fundað 13. sama mánaðar. Með tölvupósti varnaraðila 19. október 2017 var kæranda tilkynnt að varnaraðili hefði ákveðið að taka tilboði Arctic Trucks ehf. að fjárhæð kr. 10.624.857, en það virðist vera tilboð í breytingar á einni bifreið.

Málatilbúnaður kæranda byggir að meginstefnu á að um útboð hafi verið að ræða sem hafi verið yfir viðmiðunarfjárhæðum samkvæmt 4. mgr. 23. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup. Varnaraðila hafi því borið að að bjóða verkið út. Þá hafi framkvæmd útboðsins ekki verið í samræmi við markmið laga um opinber innkaup um hagkvæmni og jafnræði. Auk þess hafi forsendur fyrir vali tilboða ekki verið tilgreindar í útboðsgögnum auk þess sem óheimilt sé að gera bjóðendum að skila tvisvar inn tilboðum í sama verkið.

Niðurstaða

Í máli þessu verður að miða við að varnaraðili teljist til veitustofnunar sem hafi með höndum starfsemi sem fellur undir 9. gr. reglugerðar nr. 340/2017 um innkaup aðila sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og póstþjónustu, sem innleiddi tilskipun Evrópusambandsins nr. 2014/25/EB um innkaup aðila sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og póstþjónustu í íslenskan rétt („veitutilskipunin“). Þá verður að miða við að með hinum kærðu innkaupum hafi varnaraðili stefnt að gerð vöru- eða þjónustusamnings í skilningi 3. og 4. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar. Reglugerðin gildir um innkaup á vöru, þjónustu eða verki er varðar starfsemi sem fellur undir reglugerðina þar sem áætlað verðmæti án virðisaukaskatts er jafnt eða meira en þær viðmiðunarfjárhæðir sem tilgreindar eru í 15. gr. hennar. Viðmiðunarfjárhæð nemur nú 64.438.880 krónum þegar um er að ræða vöru- og þjónustusamninga. Ekki liggur fyrir kostnaðaráætlun vegna innkaupanna, en af gögnum málsins verður ráðið að kærandi hafi skilað inn tilboðum upphaflega samtals að fjárhæð 25.288.500 krónum. Þá liggur fyrir að það tilboð sem var valið var að fjárhæð 21.249.714 krónur. Samkvæmt þessu verður að miða við að framangreind innkaup hafi ekki náð viðmiðunarfjárhæð og hafi því ekki verið útboðsskyld samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 340/2017.

Samkvæmt 2. mgr. 103. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup er hlutverk kærunefndar útboðsmála að leysa með skjótum og óhlutdrægum hætti úr kærum fyrirtækja vegna ætlaðra brota á lögunum og reglum settum samkvæmt þeim, þar á meðal innkaup opinberra aðila sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og póstþjónustu. Hin kærðu innkaup féllu samkvæmt framansögðu ekki undir reglugerð nr. 340/2017 og fellur ágreiningur aðila því ekki undir valdsvið kærunefndar útboðsmála. Með hliðsjón af framangreindu telur nefndin, eins og málið liggur fyrir á þessu stigi, að ekki hafi verið leiddar verulegar líkur að því að brotið hafi verið gegn lögum um opinber innkaup við mat á tilboðum í hinu kærða útboði. Verður því að hafna kröfu kæranda um að stöðva hið kærða innkaupaferli um stundarsakir, sbr. 1. mgr. 110. gr. laga um opinber innkaup.

 Ákvörðunarorð:

Kröfu kæranda, Icecool á Íslandi ehf., um að innkaupaferli varnaraðila, Landsnets hf., auðkennt „Breytingar á Ford 350“ verði stöðvað um stundarsakir, er hafnað.

                          Reykjavík, 10.  nóvember 2017

                                                                                    Skúli Magnússon       

                                                                                    Stanley Pálsson

                                                                                    Ásgerður Ragnarsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira