Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd útlendingamála

Nr. 719/2024 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 18. júlí 2024 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 719/2024

í stjórnsýslumáli nr. KNU24020106

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 13. febrúar 2024 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Sýrlands ( hér eftir kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 30. janúar 2024, um að synja umsókn hennar um dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar fyrir foreldra, sbr. 72. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Af kæru má ráða að kærandi krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að henni verði veitt umbeðið dvalarleyfi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

Lagagrundvöllur

Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, ákvæði laga um landamæri nr. 136/2022, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

II.         Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi hefur aldrei haft dvalarleyfi á Íslandi. Hún sótti um dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar fyrir foreldra, sbr. 72. gr. laga um útlendinga 31. maí 2023. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 30. janúar 2024, var umsókninni synjað. Ákvörðun Útlendingastofnunar var móttekin af kæranda samdægurs og kærð til kærunefndar útlendingamála 13. febrúar 2024. Greinargerð og frekari gögn voru lögð fram 4. mars 2024.

III.       Málsástæður og rök kæranda

Í röksemdum sínum vísar kærandi til þess að sonur hennar hafi fengið alþjóðlega vernd á Íslandi í mars 2023. Í kjölfarið hafi kærandi og maki hennar sótt um fjölskyldusameiningu við hann. Maki kæranda hafi fengið fjölskyldusameiningu samþykkta 18. janúar 2024. Með bréfi Útlendingastofnunar, dags. 18. janúar 2024, hafi kæranda verið bent á að hún uppfyllti ekki skilyrði fjölskyldusameiningar fyrir foreldra vegna aldurs en gæti óskað eftir því að breyta grundvelli umsóknarinnar og var henni gefinn kostur á framlagningu frekari fylgigagna. Kærandi kveðst hafa svarað bréfi Útlendingastofnunar og óskað eftir leiðbeiningum um hvaða möguleikar væru fyrir hendi. Þeirri fyrirspurn hafi Útlendingastofnun ekki svarað en þess í stað hafi dvalarleyfisumsókn kæranda verið synjað. Að sögn kæranda hefði hún freistað þess að fá grundvelli dvalarleyfisumsóknar sinnar breytt þannig að hún hlyti efnislega umfjöllun á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga um útlendinga.

Kærandi á samtals þrjú börn hér á landi ásamt fjórum barnabörnum. Í heimaríki eigi kærandi enga aðstandendur. Fram kemur að kærandi sé [...] og hafi [...] í október síðastliðnum og er útilokað fyrir hana að sjá fyrir sér, yrði hún ein eftir í Sýrlandi. Þar að auki sé maki kæranda orðinn veikburða í ellinni og sé ófær um að ferðast einn. Að teknu tilliti til framangreinds telur kærandi að bersýnilega ósanngjarnt væri að veita henni ekki dvalarleyfi hér á landi, einkum vegna leyfa aðstandenda og heilsufars. Kærandi óskar því eftir að kærunefnd taki nýja ákvörðun um að veita henni dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið séu ekki forsendur fyrir dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar. Kærandi óskar þess sérstaklega að kærunefnd taki nýja ákvörðun í stað þess að heimvísa máli hennar til Útlendingastofnunar í ljósi þess að maki hennar sé með tímabundið dvalarleyfi en geti ekki yfirgefið Sýrland án hennar.

IV.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í 69. gr. laga um útlendinga er kveðið á um skilyrði dvalarleyfis vegna fjölskyldusameiningar. Samkvæmt 1. mgr. 69. gr. laganna getur nánasti aðstandandi íslensks eða annars norræns ríkisborgara sem er með fasta búsetu hér á landi eða útlendings sem dvelst hér á landi á grundvelli dvalarleyfis skv. 61. - 65., 70., 73., 74. og 78. gr. eða ótímabundins dvalarleyfis skv. 58. gr. með umsókn fengið dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar að fullnægðum skilyrðum 55. gr. og VIII. kafla. Til nánustu aðstandenda teljast maki, sambúðarmaki, börn viðkomandi yngri en 18 ára í forsjá hans og á framfæri og foreldrar 67 ára og eldri. Sama gildir um maka, sambúðarmaka og börn þeirra sem stunda framhaldsnám á háskólastigi, doktorsnám og rannsóknir hér á landi á grundvelli 65. gr. 

Í 1. mgr. 72. gr. laga um útlendinga segir að heimilt sé að veita útlendingi sem á barn hér á landi dvalarleyfi í þeim tilvikum sem greinir í 2.-4. mgr. Skilyrði 1. og 2. mgr. 55. gr. skulu ávallt vera uppfyllt þegar dvalarleyfi er veitt á þessum grundvelli. Fram kemur í 2. mgr. 72. gr. að heimilt er að veita útlendingi sem er 67 ára eða eldri dvalarleyfi eigi hann uppkomið barn hér á landi. Í þeim tilvikum er heimilt að veita útlendingi undanþágu frá skilyrði um að geta framfleytt sér sjálfur ef barn hans sýnir fram á að það geti tryggt framfærslu viðkomandi.

Ákvæði 1. mgr. 69. gr. og 1. mgr. 12. gr. laga um útlendinga verða ekki skýrð á annan veg en að þar séu tæmandi talin þau dvalarleyfi sem veita rétt til fjölskyldusameiningar fyrir foreldra uppkominna barna. Samkvæmt framansögðu er ljóst að kærandi er nú 62 ára gömul og uppfyllir því ekki ófrávíkjanlegt aldursskilyrði lagaákvæðanna.

Málatilbúnaður kæranda byggist einkum á grundvelli dvalarleyfisumsóknar en kærandi óskar þess að umsókn hennar verði tekin til efnislegrar meðferðar sem umsókn um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið. Kærunefnd hefur nú yfirfarið hina kærðu ákvörðun, málsmeðferð Útlendingastofnunar, og tölvubréfasamskipti á milli kæranda og Útlendingastofnunar. Málsástæða kæranda um sérstök tengsl er ný á kærustigi og telur kærunefnd ekki unnt að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi vegna hennar. Þess í stað verður hin kærða ákvörðun staðfest með þeim leiðbeiningum til kæranda að hún geti lagt inn nýja umsókn um dvalarleyfi á öðrum grundvelli hjá Útlendingastofnun, telji hún sig uppfylla skilyrði fyrir útgáfu dvalarleyfis. Með þessum leiðbeiningum hefur kærunefnd þó ekki tekið afstöðu til þess hvort kærandi uppfylli önnur skilyrði laga um útlendinga til útgáfu dvalarleyfis.

Að öllu framangreindu virtu er ákvörðun Útlendingastofnunar um synjun á umsókn kæranda um dvalarleyfi staðfest.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

Valgerður María Sigurðardóttir

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                             Sandra Hlíf Ocares


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta