Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 110/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 110/2021

Miðvikudaginn 23. júní 2021

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

 

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Anna Rut Kristjánsdóttir lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 26. febrúar 2021, kærði A til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 19. febrúar 2021 um endurskoðun á búsetuhlutfalli.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 19. febrúar 2021, var kæranda tilkynnt um að búsetuhlutfall hennar hefði verið endurákvarðað úr 70,5% í 100% frá 1. júní 2014.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 26. febrúar 2021. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 12. mars 2021, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 16. mars 2021. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærð sé endurákvörðun búsetuhlutfalls frá fyrsta örorkumati fram að 1. júní 2014. Kærandi telji engar forsendur fyrir Tryggingastofnun til að bera fyrir sig fyrningu í málinu. Þótt lagaleg heimild sé til þess sé það ekki skylda.

Ef í raun standi til að leiðrétta það óréttlæti sem hafi átt sér stað gegn kæranda í hartnær tvo áratugi sé nærtækast að gera það rétt og greiða til baka hverja krónu sem höfð hafi verið af kæranda með ólögmætum reikningsaðferðum.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kærð sé endurákvörðun á búsetuhlutfalli frá fyrsta örorkumati til 1. júní 2014. 

Samkvæmt 5. tölul. 1. mgr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar sé búseta skilgreind sem lögheimili í skilningi laga um lögheimili og aðsetur nema sérstakar ástæður leiði til annars.

Samkvæmt 17. gr. laga um almannatryggingar ávinnist full réttindi með búsetu hér á landi í að minnsta kosti 40 almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Sé um skemmri tíma að ræða reiknist réttur til ellilífeyris í hlutfalli við búsetutímann. Samkvæmt 18. gr. laganna eigi einstaklingar búsettir á Íslandi rétt til örorkulífeyris. Í 4. mgr. 18. gr. laganna sé síðan kveðið á um að við ákvörðun búsetutíma skuli reikna með tímann fram til ellilífeyrisaldurs umsækjanda, sbr. 1. mgr. 17. gr. laganna.

Í 2. mgr. 50. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 frá 29. apríl 2004 um samræmingu almannatryggingakerfa komi fram að ef hlutaðeigandi einstaklingur fullnægi ekki eða fullnægi ekki lengur skilyrðum sérhverrar þeirrar löggjafar í aðildaríkjunum sem hann hafi heyrt undir skuli stofnanirnar, sem beiti löggjöf þar sem skilyrði séu uppfyllt, ekki taka tillit til tímabila, sem lokið sé samkvæmt löggjöf þar sem skilyrði hafi ekki verið uppfyllt eða séu ekki lengur uppfyllt, við útreikninginn í samræmi við a- eða b-lið 1. mgr. 52. gr. reglugerðarinnar.

Í 1. mgr. 52. gr. reglugerðarinnar komi síðan fram hvernig reikna beri fjárhæð þeirra bóta sem skuli greiddar.

Um endurupptöku máls segi í 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993:

„Eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef:

1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða

2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun skv. 1. tölul. 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum þeim sem ákvörðun skv. 2. tölul. 1. mgr. var byggð á, verður beiðni um endurupptöku máls þó ekki tekin til greina, nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Mál verður þó ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því.“

Í 2. gr. laga nr. 150/2007 segi að fyrningarfrestur kröfu reiknist frá þeim degi þegar kröfuhafi geti fyrst átt rétt til efnda. Kröfur um einstakar greiðslur fyrnist á fjórum árum frá gjalddaga hverrar greiðslu fyrir sig, svo sem beinlínis komi fram í 3. gr. laganna.

Í 4. mgr. 55. gr. laga um almannatryggingar skuli Tryggingastofnun greiða 5,5 % ársvexti á þá bótafjárhæð sem sé vangreidd.

Með bréfi, dags. 19. febrúar 2021, hafi kæranda verið send ákvörðun Tryggingastofnunar um endurskoðun á búsetuhlutfalli, vegna búsetu í öðru EES ríki, fyrir töku örorkulífeyris. 

Við endurskoðun á búsetuhlutfalli hjá Tryggingastofnun hafi einkum verið litið til þess hvort kærandi hafi uppfyllt skilyrði um þriggja ára búsetu hér á landi fyrir töku örorkulífeyris, auk þess sem litið hafi verið til þess hvort kærandi fengi greiðslur frá B eða C vegna fyrri búsetusögu kæranda. Samkvæmt upplýsingum frá B og C njóti kærandi ekki greiðslna þaðan og af þeim sökum hafi búsetuhlutfall kæranda verið endurákvarðað frá upphafi örorku úr 70,5% í 100% frá 1. júní 2014, þ.e. reiknaður hafi verið fullur framtíðarútreikningur á Ísland. Við endurskoðun á búsetuhlutfalli kæranda hafi greiðslur verið ákvarðaðar fjögur ár afturvirkt frá þeim tíma er tilkynning um endurákvörðuð réttindi hafi verið tekin.

Við yfirferð og endurútreikning á búsetuhlutfalli kæranda hafi síðan vaxtagreiðslur verið greiddar út í samræmi við 4. mgr. 55. gr. almannatryggingalaga nr. 100/2007 á þá bótafjárhæð sem vangreidd hafi verið.

Tryggingastofnun starfi eftir lögum um almannatryggingar og búsetuleiðrétting kæranda taki þar af leiðandi mið af 4. mgr. 55. gr. laga um almannatryggingar er varði vaxtagreiðslur, auk almennra laga um fyrningu kröfuréttinda er komi fram í 2. og 3. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Engar frekari undanþágur séu til staðar í lögum um greiðslur á afturvirkum kröfuréttindum og fjögurra ára fyrningarfrestur sé hinn almenni fyrningarfrestur á kröfum.

Samkvæmt stjórnsýslulögum verði mál ekki endurupptekið nema ákvörðun hafi byggst á:

„1. Ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða

2. Íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann sem hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.“

Slíku sé ekki fyrir að fara í máli þessu og endurákvörðun Tryggingastofnunar á búsetuhlutfalli kæranda sé henni til hagsbóta.

Kæra þessi snúi einkum að afturvirkni og uppgjöri vegna endurskoðunar á búsetuhlutfalli kæranda. Við yfirferð og útreikning á örorkulífeyri hafi búsetuleiðréttingin hjá Tryggingastofnun ekki náð lengra afturvirkt en sem nemi fjórum árum eins og almennar fyrningarreglur kveði á um, sbr. ákvæði er komi fram í 2. og 3. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. 

Tryggingastofnun telji að endurskoðun á búsetuhlutfalli kæranda hafi verið rétt framkvæmd með vísan til uppgjörs fyrir árin 2014-2019 og líti stofnunin svo á að um endanlegt uppgjör sé að ræða í máli kæranda.

 

 

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 19. febrúar 2021 um endurskoðun á búsetuhlutfalli.     

Með áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 8955/2016, dags. 20. júní 2018, komst umboðsmaður að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið viðhlítandi lagaheimild til að skipta framreiknuðum búsetutíma viðkomandi einstaklings hlutfallslega eftir lengd tryggingatímabila á milli Íslands og Danmerkur, án þess að viðkomandi ætti rétt til sambærilegra greiðslna frá Danmörku. Með bréfi, dags. 16. ágúst 2019, tilkynnti Tryggingastofnun kæranda um að stofnunin myndi á næstu mánuðum endurskoða mál þeirra sem hefðu fengið hlutfallslega reiknuð framtíðartímabil vegna búsetu í öðru EES-landi. Kannað yrði hvort gera hefði átt ráð fyrir fullri framtíðarbúsetu á Íslandi. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 19. febrúar 2021, var kæranda tilkynnt um að búsetuhlutfall hennar hefði verið endurákvarðað úr 70,5% í 100% frá 1. júní 2014. Ágreiningur í máli þessu varðar þá ákvörðun Tryggingastofnunar að leiðrétta búsetuhlutfall kæranda einungis frá 1. júní 2014. Kærandi byggir á því að engar forsendur séu fyrir Tryggingastofnun til að bera fyrir sig fyrningu í málinu. Þótt lagaleg heimild sé til þess sé það ekki skylda.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda reiknast fyrningarfrestur kröfu frá þeim degi sem kröfuhafi gat fyrst átt rétt til efnda. Samkvæmt 3. gr. laganna er almennur fyrningarfrestur kröfuréttinda fjögur ár. Sá frestur gildir um einstakar gjaldfallnar greiðslur, sbr. 3. málsl. 6. gr. laganna.

Samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun ríkisins byggðist sú ákvörðun stofnunarinnar að leiðrétta einungis búsetuhlutfall kæranda frá 1. júní 2014 á því að fyrning hafi verið rofin með áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 8955/2016 sem er dagsett 20. júní 2018. Örorkulífeyrisgreiðslur til kæranda voru því leiðréttar fjögur ár aftur í tímann frá fyrrgreindu áliti umboðsmanns.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur ljóst að örorkulífeyrisgreiðslur fyrnist á fjórum árum, sbr. 3. gr. og 3. málsl. 6. gr. laga um fyrningu kröfuréttinda. Því er fallist á að Tryggingastofnun hafi ekki borið skylda til að leiðrétta örorkulífeyrisgreiðslur til kæranda lengra aftur í tímann en fjögur ár frá áliti umboðsmanns Alþingis. Ekkert í gögnum málsins bendir til þess að fyrningu hafi verið slitið fyrr, sbr. IV. kafla laga um fyrningu kröfuréttinda.

Með vísan til framangreinds er ákvörðun Tryggingastofnunar um að leiðrétta búsetuhlutfall kæranda frá 1. júní 2014 staðfest.

 

 


Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar um að leiðrétta búsetuhlutfall A, frá 1. júní 2014, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira