Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 191/2012.

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 22. október 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 191/2012.

 

1.
Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að kærandi, A, sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta með umsókn, dags. 31. ágúst 2012. Á fundi Vinnumálastofnunar 27. september 2012 var umsókn hennar samþykkt og 9. október 2012 var bótaréttur kæranda metinn 87%. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með kæru móttekinni 19. desember 2012. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Þegar kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 31. ágúst 2012 hafði hún starfað sem sölustjóri hjá fyrirtækinu B ehf., en samkvæmt hlutafélagaskrá var hún einn af stofnefndum fyrirtækisins, átti hlut í félaginu, var prókúruhafi og stjórnarformaður. Vinnumálstofnun upplýsti kæranda í bréfi, dags. 17. september 2012, að umsókn hennar yrði frestað og óskaði eftir því að hún legði fram eða vísaði í ákvæði þess kjarasamnings sem launagreiðslur hennar frá B ehf. væru byggðar á og staðfestingu á greiðslum til viðeigandi stéttarfélags til að staðreyna að viðeigandi kjarasamningur ætti við. Beiðni Vinnumálastofnunar grundvallaðist á 2. mgr. 16. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006.

Kærandi svaraði beiðni Vinnumálastofnunar með tölvupósti 25. september 2012. Þar tekur hún fram að launagreiðslur frá B ehf. hefðu verið byggðar á kjarasamningi Einingar-Iðju og hún hefði greitt stéttarfélagsgjöld þangað. Kærandi tiltók einnig að hún hefði, sem sölustjóri hjá B ehf. í 100% starfi, fengið greidd laun samkvæmt launaflokki 12 og fengið 34% kaupauka ofan á dagvinnukaupið. Með tölvupóstinum fylgdi viðhengi með yfirliti yfir greiðslur kæranda til Einingar-Iðju. Í greiðsluyfirliti kæranda til Einingar-Iðju sem prentað var út 24. september 2012 og nær til þess dags kemur einungis fram að kærandi greiddi til félagsins frá árinu 1993 til 2002.

Sökum þess að ekki var greitt stéttarfélagsgjald til Einingar-Iðju tók Vinnumálastofnun þá ákvörðun að ekki væri hægt að miða við kjarasamning félagsins þegar starfshlutfall kæranda á viðmiðunartímabili skv. 15. gr. laga um atvinnuleysistryggingar væri metið heldur yrði að miða við viðmiðunarfjárhæð um reiknað endurgjald til að reikna út starfshlutfall hennar á viðmiðunartímabilinu, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Vinnumálastofnun mat í kjölfarið á fundi 27. september 2012 að starf kæranda hjá B ehf. teldist til flokks B(3), en undir þann flokk falli einstaklingar sem stýri rekstri þar sem ásamt honum starfi sex til tíu manns. Samkvæmt staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra greiddi B ehf. laun níu til fjórtán starfsmanna á árunum 2010‒2011.

Vinnumálastofnun tók, með hliðsjón af 23. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, mið af launagreiðslum frá B ehf. á því tímabili sem gaf kæranda hæsta mögulega bótarétt. Viðmiðunarfjárhæð fyrir mánaðarlegt endurgjald á árunum 2010 og 2011 fyrir flokk B(3) var 514.000 kr. eða 6.168.000 kr. á ársgrundvelli. Á viðmiðunartímabilinu hafi kæranda verið greiddar 5.363.000 kr. en það nemi 87% af viðmiðunarfjárhæð fyrir reiknað endurgjald fyrir sama tímabil. Hafi starfshlutfall kæranda hjá B ehf. því verið reiknað 87%.

Kærandi óskaði eftir rökstuðningi með erindi, dags. 26. október 2012, og með bréfi, dags. 6. nóvember 2012, var kæranda veittur rökstuðningur.        

Af hálfu kæranda kemur fram í kæru, mótt. 19. desember 2012, að hún hafi ásamt fjölskyldu sinni stofnað fyrirtækið B ehf. árið 2001 og verið einn af eigendum þess. Hún hafi aldrei komið að daglegri stjórn fyrirtækisins en hún hafi verið sölustjóri þess.

Kærandi byggir í fyrsta lagi á því að túlkun b-liðar 3. gr. og 2. mgr. 16. gr. laga um atvinnuleysistryggingar á hugtakinu „sjálfstætt starfandi“ útiloki að miða eigi við reiknað endurgjald við ákvörðun bótaréttar kæranda sem ekki teljist sjálfstætt starfandi samkvæmt skilgreiningu b-liðar 3. gr.

Í öðru lagi byggir kærandi á að Vinnumálstofnun sé óheimilt að ákvarða kæranda reiknað endurgjald til grundvallar bótarétti þar sem kærandi fékk ekki laun sín greidd samkvæmt reglum um reiknað endurgjald.

Í þriðja lagi byggir kærandi á að að öðrum kosti sé kæranda ekki skylt samkvæmt lögum að reikna sér endurgjald og beri því að miða við gildandi kjarasamning á svæðinu.

Í fjórða lagi byggir kærandi á að við mat á bótarétti sé viðmið við gildandi kjarasamning á svæðinu skv. 2. mgr. 16. gr. laganna óháð félagsaðild að stéttarfélagi.

Þá byggir kærandi á því í fimmta lagi að komist úrskurðarnefndin að því að Vinnumálastofnun sé heimilt að ákvarða kæranda endurgjald við útreikning á bótarétti hennar sé Vinnumálastofnun jafnframt bundin af sömu lögum og reglum og ríkisskattstjóri, sbr. 1. mgr. 58. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, og reglugerðum settum á grundvelli þess lagaákvæðis.

 

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 17. janúar 2013, kemur fram að lög um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysisbætur launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna.

Vinnumálastofnun bendir á að í málinu reyni á 2. mgr. 16. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í samræmi við fyrri framkvæmd stofnunarinnar og ákvæði 2. mgr. 16. gr. hafi það verið niðurstaða stofnunarinnar að kærandi gæti ekki byggt á kjarasamningi Einingar-Iðju, enda hafi hún ekki greitt viðeigandi iðgjöld til stéttarfélagsins. Stofnunin bendir á að í 1. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nr. 55/1980, sé kveðið á um að laun og önnur kjör samkvæmt kjarasamningi skuli vera lágmarkskjör. Í 1. mgr. 6. gr. sömu laga segi enn fremur: „Atvinnurekanda er skylt að halda eftir af launum starfsmanns iðgjaldi hans til viðkomandi stéttarfélags samkvæmt þeim reglum, sem kjarasamningar greina.Sé því ljóst að löggjafinn hafi í þessu tilfelli mælt fyrir um skyldubundna aðild launþega að því stéttarfélagi sem kveðið sé á um í þeim kjarasamningi sem hann fær greidd laun samkvæmt. Í tilfelli kæranda hafi ekki verið staðið við þessa lögbundnu skyldu. Af þeim sökum sé það mat Vinnumálastofnunar að kærandi geti ekki byggt á því að greidd hafi verið laun samkvæmt kjarasamningi Einingar-Iðju þar sem greiðsluyfirlit frá félaginu sýni að ekki hafi verið greitt iðgjald vegna kæranda til félagsins síðan í janúar 2002. Hafi stofnuninni því borið að meta rétt kæranda til greiðslu atvinnuleysisbóta samkvæmt síðari hluta 2. málsl. 2. mgr. 16. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Vinnumálastofnun vekur athygli á því að reglum um reiknað endurgjald sem settar séu skv. 3. málsl. 1. mgr. 58. gr. laga um tekjuskatt séu ekki einungis til viðmiðunar fyrir reiknað endurgjald fyrir vinnu manns, sem vinni við eigin atvinnurekstur, heldur einnig fyrir störf sem unnin séu á vegum lögaðila, til dæmis sameignarfélags, einkahlutafélags eða hlutafélags, þar sem viðkomandi hafi ráðandi stöðu vegna eignar- og stjórnunaraðildar. Því sé ótækt að halda því fram að reglur um reiknað endurgjald geti einungis komið til álita í þeim tilvikum sem einstaklingar teljast sjálfstætt starfandi í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar.

Í samræmi við 23. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hafi, við útreikning á bótarétti kæranda, verið tekið mið af launagreiðslum frá B ehf. á tímabilinu nóvember 2010 til september 2011, en það tímabil gefi hæsta mögulega bótarétt til handa kæranda. Samkvæmt upplýsingum frá staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra greiddi B ehf. laun níu til fjórtán starfsmanna á umræddu tímabili og mat Vinnumálastofnun það svo að starf kæranda félli undir starfaflokk B(3) samkvæmt reglum ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald en flokkur B tekur til almennrar starfsemi, iðnaðar, verslunar, útgerðar og þjónustu. Starfaflokkur B(3) á við um aðila sem stýri rekstri þar sem starfa með honum sex til níu starfsmenn. Viðmiðunarfjárhæð fyrir mánaðarlegt reiknað endurgjald fyrir starfaflokk B(3) á árunum 2010 og 2011 hafi verið 514.000 kr. á mánuði eða 6.168.000 kr. á ári. Á viðmiðunartímabilinu hafi kærandi fengið 5.363.000 kr. í laun eða sem nemi 87% af viðmiðunarfjárhæð fyrir mánaðarlegt reiknað endurgjald. Hafi starfshlutfall kæranda hjá B ehf. verið reiknað sem 87%.

Vinnumálastofnun hafi því við útreikning á bótarétti kæranda eftir 2. og 4. mgr. 15. gr. laga um atvinnuleysistryggingar borið að miða við að kærandi hefði verið í 87% starfshlutfalli. Því hafi kærandi ekki átt rétt á hærra bótahlutfalli en 87% enda hafi hún ekki áunnið sér rétt til hærri greiðslna samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 25. janúar 2013, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 7. febrúar 2013. Athugasemdir kæranda bárust í bréfi, dags. 6. febrúar 2013. 


 

Í athugasemdum kæranda greinir kærandi meðal annars frá því að í fyrsta lagi ítreki hún að þau mistök hafi verið gerð þegar hún taldi sig taka laun samkvæmt kjarasamningi Einingar-Iðju en ljóst sé að ekki megi finna í kjarasamningi Einingar-Iðju starfslýsingu samhljóðandi starfslýsingu kæranda. Rétt sé, líkt og komi fram í kæru, að starf kæranda falli undir kjarasamning Félags verslunar- og skrifstofufólks á Akureyri og nágrenni. Enda hafi kærandi unnið við skrifstofu- og sölustörf. Mistökin hafi verið þar sem starf hennar hafi áður átt við starfslýsingu í kjarasamningi Einingar-Iðju. Vegna breytinga á starfi hennar og breytinga á kjarasamningum sé réttur kjarasamningur starfs kæranda kjarasamningur Félags verslunar- og skrifstofufólks á Akureyri og nágrenni.

Í öðru lagi greinir kærandi frá því að Vinnumálastofnun byggi á því að greiðslur iðgjalda séu forsenda þess að launþegi geti byggt rétt samkvæmt kjarasamningum en sé þar að auki forsenda þess að umsækjandi atvinnuleysisbóta geti talist til launafólks í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar. Af augljósum ástæðum sé það af og frá enda gildi kjarasamningur óháð félagsaðild, sbr. 1. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Þar að auki leggi Vinnumálastofnun þann skilning í 6. gr. laganna að hún skyldi launþega til að greiða iðgjald. Skýrt sé hins vegar að kveðið á um að það sé skylda atvinnurekanda að halda aftur iðgjaldinu og sé hvergi í lögum lögð skylda á launþega. Það að B ehf. hafi ekki staðið við lögbundna skyldu sína til greiðslu iðgjalda sé að öllu óháð rétti kæranda til atvinnuleysisbóta. Þá hafi þessi röksemd ekki verið í rökstuðningi Vinnumálastofnunar frá 6. nóvember 2012 en samkvæmt meginreglum stjórnsýslulaga eigi rökstuðningur stjórnvalda að endurspegla raunverulegar ástæður ákvörðunar en ekki þá röksemd sem hentar hverju sinni.

Í þriðja lagi greinir kærandi frá því að Vinnumálastofnun bendi réttilega á að skv. 3. málsl. 1. mgr. 58. gr. laga um tekjuskatt, sé við útreikning tekjuskatts ekki eingöngu miðað við aðila sem starfi við eigin atvinnurekstur heldur einnig þann sem starfi á vegum lögaðila þar sem viðkomandi hefur ráðandi stöðu, meðal annars einkahlutafélög. Hins vegar vísar kærandi í frumvarp með breytingarlögum nr. 37/2009 er varðar breytingu á 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um hver teljist sjálfstætt starfandi. Þar kemur fram komi að lagðar séu til breytingar á því hverjir teljast sjálfstætt starfandi einstaklingar innan atvinnuleysistryggingakerfisins þannig að einungis þeir sem starfi við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi teljist sjálfstætt starfandi einstaklingar í skilningi laganna. Þessi breyting leiði til þess að þeir sem starfi hjá eigin einkahlutafélögum, sameignarfélögum eða hlutafélögum teljast launamenn og ákvarðist réttur þeirra til atvinnuleysistrygginga á þeim ákvæðum laganna er lúti að réttindum launafólks innan kerfisins.

Kærandi bendir á að þar sem ágreiningurinn snúist meðal annars að túlkun á því hver sé sjálfstætt starfandi með vísan í 16. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem beinlínis sé vísað í b-lið 3. gr. sömu laga þá sé ljóst af ofantöldu að þeir sem starfi hjá eigin einkahlutafélögum teljist launamenn og ákvarðist réttur þeirra til töku atvinnuleysistrygginga á ákvæðum laganna er lúta að réttindum launafólks innan kerfisins. Löggjafinn leggi hér beina skýringu á það hver teljist sjálfstætt starfandi í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar og sé sú skýring óháð skýringu laga um tekjuskatt.

Í fjórða lagi ítrekar kærandi að það sé aðeins í þeim tilfellum þar sem umsækjandi hafi í raun greitt sér laun samkvæmt reiknuðu endurgjaldi sem Vinnumálastofnun sé heimilt, skv. 16. gr., að miða við reiknað endurgjald enda væri öðrum kosti lagt í hendur Vinnumálastofnunar að ganga inn á verkahring ríkisskattstjóra sem einn hafi ákvörðunarvald um það hvort aðili beri að greiða sér laun samkvæmt reiknuðu endurgjaldi eða samkvæmt kjarasamningum. Kærandi byggi á því að sá hluti ákvæðis 16. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sem ágreiningur sé um hafi fyrst og fremst verið settur til að tryggja rétt þeirra sem greitt höfðu sér laun samkvæmt reglum um reiknað endurgjald.

 

2.
Niðurstaða

Ágreiningur máls þess lýtur að því hvort kærandi eigi rétt á greiðslu fullra atvinnuleysisbóta eða hvort hún eigi að sæta lækkun bótahlutfalls. Samkvæmt hinni kærðu ákvörðun ber henni að fá greiddar 87% af fullum atvinnuleysisbótum en þessu hefur kærandi mótmælt á margvíslegum forsendum. Hér á eftir verða rakin þau málsatvik og lagarök sem mestu máli skipta við að komast að niðurstöðu í máli þessu.

 

 

Kærandi starfaði hjá einkahlutafélaginu B ehf. sem sölustjóri ásamt því að vera stjórnarformaður félagsins og handhafi prókúruumboðs. Félag þetta var stofnað árið 2001 og að stofnun þess komu kærandi, þáverandi eiginmaður kæranda og börn þeirra. Í árslok 2011 var þáverandi eiginmaður kæranda skráður eigandi 86% hluta í félaginu en hann hefur jafnframt um langa hríð verið skráður framkvæmdastjóri félagsins. Þegar kærandi og eiginmaður hennar skildu árið 2012 var kæranda sagt upp störfum sem sölustjóra. Í kjölfarið sótti kærandi um greiðslu atvinnuleysisbóta, sbr. rafræna umsókn hennar dags. 31. ágúst 2012 sem staðfest var 10. september sama ár.

Við úrlausn ágreiningsefnis þessa máls ber til þess að líta að markmið laga um atvinnuleysistryggingar er að tryggja launamönnum eða sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð meðan þeir eru að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt, sbr. 2. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Óumdeilt er í máli þessu að kærandi var launamaður í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar þegar hún missti sitt fyrra starf, sbr. a-lið 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Jafnframt er ágreiningslaust að kærandi var sölustjóri áður en hún missti starfið og að meðallaun hennar á mánuði á ávinnslutímabilinu hafi numið 446.917 kr.

Þegar kærandi sótti um greiðslu atvinnuleysisbóta voru í gildi lagareglur um skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna, sbr. III. kafla laga um atvinnuleysistrygginga. Í þessum III. kafla laganna er meðal annars að finna þá meginreglu að launamaður teljist að fullu tryggður samkvæmt lögunum eftir að hafa starfað samfellt á síðustu tólf mánuðum á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum, sbr. 1. mgr. 15. gr. laganna. Í ljósi þess að vinnuveitandi kæranda greiddi tryggingagjald af launum kæranda vegna þessara launagreiðslna, sbr. ákvæði laga um tryggingagjald, nr. 113/1990, og a-lið 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, vann kærandi sér inn rétt í atvinnuleysistryggingakerfinu. Enga þýðingu hefur í þessu sambandi misbrestur vinnuveitanda kæranda að greiða af launum hennar í ýmsa sjóði á vegum viðkomandi stéttarfélaga, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nr. 55/1980.

 

Í því skyni að marka farveg fyrir ákvörðun bótahlutfalls launamanns í atvinnuleysistryggingakerfinu var meðal annars svohljóðandi lagaákvæði í gildi þegar kærandi sótti um greiðslu atvinnuleysistrygginga í lok ágúst 2012:

Vinnumálastofnun er heimilt að óska eftir frekari upplýsingum frá vinnuveitanda og skattyfirvöldum til að staðreyna þær upplýsingar er fram koma í vottorði skv. 1. mgr. Þegar staðreyna skal starfshlutfall hins tryggða sem tilgreint er í vottorði vinnuveitanda skv. 1. mgr. skal Vinnumálastofnun meðal annars líta til þess hvort laun hins tryggða hafi verið í samræmi við tilgreint starfshlutfall á ávinnslutímabilinu og skal þá miða við ákvæði gildandi kjarasamnings í viðkomandi starfsgrein á því svæði sem hinn tryggði starfaði eða eftir atvikum viðmiðunarfjárhæð hlutaðeigandi ráðherra, sbr. b-lið 3. gr. fyrir reiknað endurgjald í viðkomandi starfsgrein.

 

Þessa 2. mgr. 16. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 11. gr. laga nr. 37/2009, ber að skýra samkvæmt orðanna hljóðan. Slík aðferð við að skýra textann er nærtæk enda er það grundvallaratriði að atvinnuleitendur geti áttað sig á þeim forsendum sem liggja að baki ákvörðun um bótahlutfall þeirra í atvinnuleysistryggingakerfinu. Þegar slíkri textaskýringu er beitt er auðsýnt að Vinnumálastofnun er heimilt að óska eftir tilteknum upplýsingum í því skyni að staðreyna bótahlutfall launamanns sem sækir um atvinnuleysistryggingar. Við mat á þessu bótahlutfalli skal metið hvort laun hins tryggða hafi verið í samræmi við tilgreint starfshlutfall á viðkomandi ávinnslutímabili og í þeim efnum skal miða við ákvæði gildandi kjarasamnings í viðkomandi starfsgrein á því svæði sem hinn tryggði starfaði. Eftir atvikum má miða við viðmiðunarfjárhæð hlutaðeigandi ráðherra fyrir reiknað endurgjald í viðkomandi starfsgrein.

 


 

Kærandi hefur reitt fram skýringar á launamálum sínum og vísað til tveggja ólíkra kjarasamninga, annars vegar kjarasamnings Einingar-Iðju við atvinnurekendur og hins vegar kjarasamnings Félags verslunar- og skrifstofufólks á Akureyri og nágrenni við atvinnurekendur. Þar sem kærandi var sölustjóri í litlu fyrirtæki verður talið að síðari kjarasamningurinn eigi fremur við um stöðu kæranda. Óumdeilt er að á ávinnslutímabilinu hafi kærandi haft hærri laun en kveðið er á um sem lágmarkslaun samkvæmt þessum þágildandi kjarasamningi Félags verslunar- og skrifstofufólks á Akureyri og nágrenni við atvinnurekendur og því mati hefur ekki verið hnekkt að þessi kjarasamningur fjalli um kjör launþega í starfsgrein sem telja verður sambærileg þeirri sem kærandi tilheyrði. Engin önnur gögn hafa verið reidd fram sem leiða til þess að draga megi í efa að meðallaun á mánuði sem nema 446.917 kr. séu óeðlilega lág fyrir það starf sem kærandi sinnti á ávinnslutímabilinu. Óhjákvæmilegt er því að komast að þeirri niðurstöðu að kærandi hafi sinnt fullu starfi á ávinnslutímabilinu og fengið greitt í samræmi við það.

 

Með vísan til framanritaðs verður hin kærða ákvörðun felld úr gildi og ný ákvörðun tekin þess efnis að kærandi eigi rétt til greiðslu fullra atvinnuleysisbóta frá og með 31. ágúst 2012 að telja.

 

Engin lagaheimild stendur til þess að úrskurðarnefndin fallist á þá kröfu kæranda að Vinnumálastofnun greiði henni málskostnað. Þeirri kröfu er því hafnað.

 

 


 

 

Úr­skurðar­orð

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar í máli A er felld úr gildi. Kærandi á rétt til greiðslu fullra atvinnuleysisbóta frá og með 31. ágúst 2012 að telja, að öðrum skilyrðum laga uppfylltum.

Þeirri kröfu er hafnað að Vinnumálastofnun greiði kæranda málskostnað.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir,

for­maður

 

 

Hulda Rós Rúriksdóttir                     Helgi Áss Grétarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum