Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 674/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 674/2021

Föstudaginn 22. apríl 2022

A

gegn

Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóði

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Með kæru, dags. 15. desember 2021, kærði B, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 29. september 2021, um að synja umsókn hans um greiðslur úr sjóðnum.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags 19. apríl 2021, sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði frá 1. apríl 2021 vegna fæðingar barns síns þann 1. ágúst 2020. Með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 14. júní 2021, var kæranda tilkynnt að hann uppfyllti ekki skilyrði fyrir rétti til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði þar sem hann hefði ekki verið samfellt í minnst 25% starfshlutfalli að minnsta kosti síðustu sex mánuði fyrir fæðingardag barns. Með ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 18. ágúst 2021, var kæranda í framhaldinu tilkynnt að hann uppfyllti ekki skilyrði fyrir rétti til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði þar sem hann hefði ekki verið á innlendum vinnumarkaði í júlímánuði 2020, auk þess sem skilyrði um lögheimili væri ekki uppfyllt. Kærandi óskaði eftir endurupptöku þann 29. september 2021 og með bréfi Vinnumálastofnunar þann sama dag var kæranda tilkynnt að fyrri ákvörðun væri staðfest.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 15. desember 2021. Með bréfi, dags. 20. desember 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð sjóðsins barst með bréfi, dags. 4. janúar 2022, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 13. janúar 2022. Athugasemdir bárust ekki.


 

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að viðurkenndur verði réttur hans til fæðingarorlofs og að hann fái greitt fæðingarorlof í samræmi við áunnin réttindi.

Kærandi og kona hans hafi komið til Íslands í ágúst 2019 ásamt tveimur börnum sínum. Þau hafi komið til C fyrir tilstilli D þar sem þau […]. Í samningum þeirra við D hafi ekki verið gert ráð fyrir að þau fengju greiðslur fyrir að vera leikmenn en félagið hafi útvegað leikmönnum húsnæði á hagstæðu verði og í sumum tilfellum bifreið í lengri eða skemmri tíma, án endurgjalds. Nokkurn tíma hafi tekið að afgreiða kennitölu fyrir kæranda í kerfinu en þegar það hafi loks tekist hafi hann byrjað að vinna hjá E þann 1X. Seinna um veturinn hafi konan hans orðið ólétt.

Þegar komið hafi verið fram yfir áramót hafi nokkrir samverkandi þættir orðið til þess að kærandi og kona hans hafi tekið þá ákvörðun að hún færi til heimabæjar síns á F ásamt börnum þeirra. Þessir samverkandi þættir séu meðal annars óvenju harður og snjóþungur vetur á G, heimsfaraldur Covid-19 og vanþekking og vantraust á íslensku heilbrigðiskerfi varðandi mæðravernd. Þá hafi það farið svo að allt íþróttastarf hafi verið bannað í landinu um miðjan marsmánuð 2020. Ekki hafi því orðið meira um æfingar eða keppni þann veturinn en lengi vel hafi staðið vonir til þess að það yrði leyft. Kærandi hafi því verið hér áfram og stundað sína vinnu hjá E. Rétt sé að geta þess að ferðalög á milli landa hafi á tímabili verið útilokuð vegna Covid-19. Þannig hafi kærandi ekki átt möguleika á að skreppa um helgi, páska eða í annan styttri tíma til að kíkja á fjölskylduna og ófríska konu sína. Þegar liðið hafi fram á sumar hafi byrjað að styttast í væntanlegan fæðingardag barnsins, en settur fæðingardagur hafi verið 23. júlí samkvæmt sónarskoðun, sem þýði að eðlilegri meðgöngu hefði getað lokið á tímabilinu 9. júlí til 6. ágúst. Ferðalög á milli landa hafi aftur verið farin að verða möguleg en ekki örugg. Sem dæmi um það hafi ekki orðið úr beinu flugi sem áætlað hafi verið á milli Íslands og F þann 9. júní. Þá hafi ferðalög með millilendingum eða tengiflugi oftar í för með sér mikið flækjustig vegna mismunandi sóttvarnareglna á milli landa. Í ljósi þess hafi verið mjög erfitt fyrir kæranda að fresta því lengi að kaupa flugmiða eða taka þá áhættu að sleppa flugi til F því að kannski hafi aðeins verið tvö bein flug í mánuði frá Íslandi til F á þeim tíma. Kærandi hafi orðið að tryggja að hann kæmist örugglega til fjölskyldunnar fyrir fæðingu barnsins, auk þess sem meðgönguverkir hafi verið farnir að gera mjög vart við sig hjá konu hans sem hafi aukið óvissuna um lengd meðgöngunnar.

Fæðingarorlofssjóður hafi staðið á þeirri túlkun sinni að þar sem kærandi hafi flogið til F þann 16. júní 2020 og barnið fæðst X, hafi kærandi ekki verið virkur á vinnumarkaði á Íslandi síðustu sex mánuði fyrir fæðingu. Launaseðlar staðfesti að hann hafi átt orlofsrétt í einhverjar vikur, miðað við orlofsinneign, en sjóðurinn virðist ekki taka tillit til þess með neinum hætti.

Í samtali aðstoðarmanns kæranda við starfsmann Fæðingarorlofssjóðs fyrr í haust hafi komið fram að kærandi hefði sannarlega átt rétt til fæðingarorlofs vikurnar fyrir fæðingu barns, hefði hann sótt um það þá. Þekking kæranda á úthlutunarreglum Fæðingarorlofssjóðs sé afar takmörkuð eða hreinlega engin. Upplýsingar til kæranda hafi einnig verið mjög takmarkaðar og þannig hafi upplýsingar um það með hvaða hætti væri hægt að kæra ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs verið óvandaðar.

Því komist kærandi ekki hjá því að spyrja hvort Fæðingarorlofssjóður hafi uppfyllt upplýsingaskyldu sína. Þá spyrji kærandi hvort hann sé látinn gjalda fyrir vanþekkingu sína á rétti sínum til fæðingarorlofs. Hvorki sé tekið tillit til orlofsréttar né þess að tengsl vinnuveitanda og launþega rofni ekki, þrátt fyrir langt frí. Kærandi spyrji hvort hann sé látinn gjalda fyrir það að barnið fæðist eftir settan dag.

Þess megi geta að þau hjónin séu búsett á C í dag ásamt börnum sínum og stundi hér bæði vinnu. Samkvæmt samningi við D verði þau áfram næsta keppnistímabil, þ.e. frá 2022 til 2023.

III.  Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að kærð sé ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði. 

Með umsókn, dags. 19. apríl 2021, hafi kærandi sótt um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði frá 1. apríl 2021 vegna fæðingar barns þann 1. ágúst 2020.

Ágreiningur þessa máls snúi að því hvort kærandi uppfylli skilyrði laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) þess efnis að hafa verið samfellt á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir fæðingu barns.

Í 1. mgr. 13. gr. (ffl.)  komi fram að foreldri á innlendum vinnumarkaði öðlist rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns. Þegar foreldri hefji töku fæðingarorlofs fyrir fæðingardag barns, sbr. meðal annars 2. mgr. 8., skuli þó miða við þann dag er foreldrið hefji fæðingarorlof að því er það foreldri varði.

Í 2. mgr. 7. gr. ffl. sé að finna orðskýringu á starfsmanni en samkvæmt ákvæðinu teljist starfsmaður samkvæmt lögunum hver sá sem vinni launuð störf í annarra þjónustu í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði.

Í 1. mgr. 13. gr. a. ffl. komi fram að þátttaka á innlendum vinnumarkaði í skilningi IV. kafla feli í sér að starfa sem starfsmaður, sbr. 2. mgr. 7. gr., eða sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. 3. mgr. 7. gr. Fullt starf starfsmanns miðist við 172 vinnustundir á mánuði, en þó skuli jafnan tekið tillit til fjölda vinnustunda sem samkvæmt kjarasamningi teljist fullt starf.

Í 2. mgr. 13. gr. a. ffl. sé síðan talið upp í eftirfarandi fimm stafliðum hvað teljist jafnframt til þátttöku á vinnumarkaði:

  1. orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti,
  2. sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur, er á biðtíma eftir slíkum bótum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldrið skráð sig án atvinnu samkvæmt gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar,
  3. sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, er á biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldri sótt um þá til [sjúkratryggingastofnunarinnar samkvæmt lögum um sjúkratryggingar og lögum um slysatryggingar almannatrygginga], eða fær greiðslur úr sjúkrasjóði stéttarfélags enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,
  4. sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa,
  5. sá tími er foreldri fær tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna eða hefði átt rétt á slíkum greiðslum hefði foreldri sótt um þær til Tryggingastofnunar ríkisins.

Fæðingardagur barns kæranda hafi verið X. Ávinnslutímabil kæranda séu því mánuðirnir febrúar til júlí 2020. Til að öðlast rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði hafi kærandi samkvæmt framangreindu þurft að hafa verið í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli á tímabilinu, sbr. 2. mgr. 7. gr., 1. mgr. 13. gr. og 1. og 2. mgr. 13. gr. a. ffl.

Óumdeilt sé að kærandi hafi verið samfellt á innlendum vinnumarkaði í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli tímabilið 1. febrúar til 14. júní 2020. Þá komi tímabilið 15. júní og fram að fæðingu barns til nánari skoðunar.

Samkvæmt ráðningarsamningi kæranda við E. hafi hann verið ráðinn tímabundið til fyrirtækisins til 31. maí 2020. Vinnuveitandi hafi staðfest með tölvupósti, dags. 20. október 2021, að ráðningarsamningurinn væri réttur. Kærandi hafi þó starfað áfram hjá fyrirtækinu til 14. júní 2020, sbr. launaseðla nr. 17 og 18 sem samræmist staðgreiðsluskrá skattyfirvalda í júní 2020 og staðfestingu vinnuveitanda, dags. 20. október 2021, um að kærandi hafi unnið hjá fyrirtækinu frá 1. nóvember 2019 til 14. júní 2020. Sjálfur hafi kærandi staðfest með tölvupósti í júní 2021 að hann hafi verið í tímabundinni ráðningu hjá vinnuveitanda sem hafi lokið 16. júní 2020. Þá liggi fyrir í gögnum málsins að kærandi hafi farið af landi brott 16. júní 2020.

Í gögnum málsins liggi fyrir bréf frá vinnuveitanda, dags. 18. október 2021, þar sem fram komi að kærandi hafi starfað hjá fyrirtækinu í 75% starfi frá 1. nóvember 2019 til 31. mars 2021. Þessi staðfesting sé ekki í neinu samræmi við önnur gögn málsins, þar með talið aðra yfirlýsingu sem hafi borist frá vinnuveitanda tveimur dögum síðar, eða þann 20. október 2021, um að kærandi hafi unnið hjá fyrirtækinu til 14. júní 2020. Þá komi fram í kæru að kærandi hafi gert munnlegt samkomulag við vinnuveitanda um að hann yrði þar áfram starfsmaður veturinn 2020 til 2021. Þannig liggi fyrir að ekki hafi verið í gildi ráðningarsamningur á milli kæranda og vinnuveitanda vegna þess tímabils sem ágreiningur málsins snúist um, það er frá 15. júní 2020 og fram að fæðingu barns.

Þá komi fram í kæru að kærandi hafi verið leikmaður hjá D, sbr. einnig tölvupóst og samning aðila þar um. Kærandi hafi hins vegar ekki þegið laun hjá félaginu sem starfsmaður í skilningi 2. mgr. 7. gr. ffl. og því hafi samningurinn ekki áhrif á úrlausn þessa máls.

Þar sem kærandi hafi ekki starfað í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli, sbr. 1. mgr. 13. gr. og 1. mgr. 13. gr. a. ffl., frá 15. júní og fram að fæðingu barns komi til skoðunar hvort einhver stafliða 2. mgr. 13. gr. a. ffl. geti átt við um tímabilið.

Eins og áður hafi verið rakið starfaði kærandi hjá E. frá 1. nóvember 2019 til 14. júní 2020. Við starfslok hafi kærandi ekki átt inni orlofslaun frá vinnuveitanda í samræmi við 8. gr. orlofslaga nr. 30/1987 (ol.) sem hafi þá verið hægt að reikna til orlofsdaga í samræmi við 3. og 7. gr. ol. en þá einungis út júní 2020, sbr. einnig a – lið 2. mgr. 13. gr. a ffl. Við afgreiðslu málsins hafi hins vegar þau mistök verið gerð að kæranda hafi verið reiknaðir framangreindir orlofsdagar út júní 2020.

Eftir standi því tímabilið júlí 2020 sem kæranda hafi verið leiðbeint um, sbr. bréf til hans frá 14. júní 2021.

Óumdeilt sé að kærandi hafi farið af landi brott 16. júní og verið erlendis fram yfir fæðingu barns. Þegar af þeirri ástæðu uppfylli kærandi ekki skilyrði b – liðar 2. mgr. 13. gr. a. ffl. í júlí 2020, sbr. staðfesting frá Vinnumálastofnun, dags. 7. október 2021. Þá verði ekki séð að aðrir stafliðir 2. mgr. 13. gr. a. ffl. geti átt við um aðstæður kæranda.  

Að mati Fæðingarorlofssjóðs liggi þannig skýrt fyrir að á tímabilinu júlí 2020 uppfylli kærandi ekki skilyrði þess að hafa verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. 2. mgr. 7. gr., 1. mgr. 13. gr., 1. mgr. 13. gr. a. og 2. mgr. 13. gr. a. ffl., og sé því ekki annað unnt en synja kæranda um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.

Í kæru sé á það minnst að hefði kærandi sótt um greiðslur í fæðingarorlofi allt að einum mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 8. gr. ffl., hefði hann getað öðlast rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Vegna þessa þyki rétt að taka fram að foreldri beri að sækja um greiðslur í fæðingarorlofi sex vikum fyrir áætlaðan fæðingardag en vilji foreldri hefja fæðingarorlof fyrir áætlaðan fæðingardag, sbr. 2. mgr. 8. gr., beri því að tilkynna það Vinnumálastofnun þremur vikum fyrir fyrirhugaðan upphafsdag fæðingarorlofs. Þá komi fram í 9. mgr. 13. gr. ffl. að greiðslur í fæðingarorlofi skuli inntar af hendi eftir á fyrir undanfarandi mánuð eða hluta úr mánuði, fyrsta virkan dag hvers mánaðar. Eins og áður sé rakið hafi kærandi sótt fyrst um greiðslur í fæðingarorlofi með umsókn, dags. 19. apríl 2021, og þá frá 1. apríl sama mánaðar en áætlaður fæðingardagur barns kæranda hafi verið 23. júlí 2020. Í samræmi við það geti umrædd athugasemd kæranda ekki komið til frekari skoðunar og breyti þá engu hvort skort hafi á þekkingu hjá kæranda og vinnuveitanda hans á lögum um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000.

Rétt sé að vekja athygli kæranda á því að í synjunarbréfi, dags. 18. ágúst 2021, komi fram að samkvæmt Þjóðskrá Íslands hafi hann ekki átt lögheimili hér á landi síðustu tólf mánuði fyrir fæðingu barns og hafi ekki afhent Fæðingarorlofssjóði yfirlýsingu (S-041 vottorð) til staðfestingar á því að hann hafi á tólf mánaða tímabilinu haft samfellda tryggingu á Evrópska efnahagssvæðinu. Ekki sé því annað unnt en að synja honum um greiðslu fæðingarstyrks. Hafi kærandi haft lögheimili á Íslandi við fæðingu barns og samfellda tryggingu á evrópska efnahagssvæðinu í tólf mánuði fyrir fæðingu barnsins sé hann hvattur til þess að skila fyrrnefndri yfirlýsingu (S-041) þar um til að öðlast rétt til greiðslu fæðingarstyrks í samræmi við 18. gr. ffl.

Með vísan til alls framangreinds telji Vinnumálastofnun - Fæðingarorlofssjóður að kærandi uppfylli ekki skilyrði til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja umsókn kæranda um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.

Í kæru er því haldið fram að Fæðingarorlofssjóður hafi hvorki upplýst kæranda um úthlutunarreglur sjóðsins né um kæruheimild til nefndarinnar.

Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ber stjórnvaldi að veita þeim sem til þess leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál sem snerta starfssvið þess. Í gögnum málsins liggur fyrir að kæranda var meðal annars leiðbeint um úthlutunarreglur Fæðingarorlofssjóðs með bréfi, dags. 14. júní 2021, auk þess sem þær upplýsingar eru aðgengilegar á heimasíðu sjóðsins. Upplýsingar um kæruheimild til nefndarinnar voru veittar með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 18. ágúst 2021, auk þess sem kærandi kærði ákvörðun sjóðsins innan kærufrests. Með vísan til framangreinds fellst úrskurðarnefnd velferðarmála ekki á þá málsástæðu kæranda að Fæðingarorlofssjóður hafi ekki sinnt leiðbeiningarskyldu sinni, sbr. 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns. Í 1. mgr. 13. gr. a. laga nr. 95/2000 kemur fram að þátttaka á innlendum vinnumarkaði í skilningi IV. kafla laganna feli í sér að starfa sem starfsmaður, sbr. 2. mgr. 7. gr., eða sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. 3. mgr. 7. gr. Í 2. mgr. 7. gr. laganna kemur fram að starfsmaður samkvæmt lögunum sé hver sá sem vinnur launuð störf í annarra þjónustu í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði. Fullt starf starfsmanns miðast við 172 vinnustundir á mánuði, en þó skal jafnan tekið tillit til fjölda vinnustunda sem samkvæmt kjarasamningi teljast fullt starf, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 13. gr. a. laga nr. 95/2000. Þá teljast enn fremur til þátttöku á innlendum vinnumarkaði þau tilvik sem talin eru upp í 2. mgr. 13. gr. a. laganna.

Barn kæranda fæddist 1. ágúst 2020. Sex mánaða ávinnslutímabil samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 er því frá 1. febrúar 2020 og fram að fæðingu barnsins. Til þess að eiga rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði þurfti kærandi því að hafa verið samfellt á innlendum vinnumarkaði á því tímabili í skilningi 1. mgr. 13. gr. a. laganna. Ágreiningur málsins lýtur að tímabilinu 15. júní fram að fæðingu barns en óumdeilt er að kærandi var á innlendum vinnumarkaði í skilningi laga nr. 95/2000 á tímabilinu 1. febrúar til 14. júní 2020.

Samkvæmt gögnum málsins liggur fyrir að kærandi starfaði hjá E. á tímabilinu 1. nóvember 2019 til 14. júní 2020. Fyrirliggjandi ráðningarsamningur ber með sér að kærandi hafi verið ráðinn til starfa frá 1. nóvember 2019 til 31. maí 2020. Framlagðir launaseðlar sýna að kærandi þáði þó laun hjá fyrirtækinu til 14. júní sama ár og tölvubréf frá vinnuveitanda kæranda, dags. 20. október 2021, staðfestir einnig að kærandi hafi verið í starfi fram á þann dag. Þá liggur jafnframt fyrir í málinu yfirlit skattyfirvalda um launagreiðslur til kæranda á ávinnslutímabili sem ber með sér að hann var launalaus í júlí 2020. Kærandi fór svo af landi brott þann 16. júní sama ár og var erlendis fram yfir fæðingu barns. Kærandi þáði ekki laun frá D í skilningi 2. mgr. 7. gr. laga nr. 95/2000 og kemur því samningur kæranda við félagið ekki til álita í þessu samhengi.

Í ljósi þess, sem að framan er rakið, þykir sýnt að kærandi uppfyllir ekki skilyrði 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála á undanþáguákvæði 12. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 ekki við í málinu.

Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 18. ágúst 2021, um mánaðarlegar greiðslur til A, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira