Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 674/2020-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 674/2020

Miðvikudaginn 28. apríl 2021

A og B

gegn

Barnaverndarnefnd C

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur

Með kæru, dags. 20. desember 2020, móttekinni 21. desember 2020, kærði D lögmaður, f.h. B, og B, til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð Barnaverndarnefndar C frá 24. nóvember 2020 vegna umgengni þeirra við E.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Drengurinn E er ára gamall og lýtur forsjá Barnaverndarnefndar C. Móðir drengsins var svipt forsjá hans með dómi Héraðsdóms C þann 8. júní 2018. Faðir drengsins er látinn. Kærendur eru móðurforeldrar drengsins.

Drengurinn hefur verið vistaður hjá fósturforeldrum frá því í febrúar 2016, fyrst í tímabundnu fóstri en gengið var frá varanlegri fósturvistun hans í kjölfar forsjársviptingar móður.

Kærendur óskuðu eftir umgengni við drenginn einu sinni í mánuði, fjórar klukkustundir í senn en til vara að umgengni yrði á þriggja mánaða fresti. Málið var tekið fyrir á fundi Barnaverndarnefndar C þann 24. nóvember 2020 og málið tekið til úrskurðar samkvæmt 74. gr. bvl.

Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

Barnaverndarnefnd C ákveður að A og B hafi enga umgengni við E.“

Kærendur lögðu fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 21. desember 2020. Með bréfi, dags. 4. janúar 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Barnaverndarnefndar C ásamt gögnum málsins. Greinargerð Barnaverndarnefndar C barst nefndinni þann 18. febrúar 2021 og með bréfi úrskurðarnefndar var hún send lögmanni kæranda til kynningar samdægurs. Frekari athugasemdir bárust ekki. Þann 30. mars 2021 bárust úrskurðarnefndinni frekari gögn í málinu frá Barnavernd C.

II.  Sjónarmið kærenda

Kærendur krefjast þess að þau fái umgengni við drenginn einu sinni í mánuði, en sjaldnar telji nefndin það þjóna betur hagsmunum hans. Tímalengd umgengni ráðist af mati úrskurðarnefndarinnar, en þess sé óskað að hún aukist með tímanum.

Kærendur kveðast hafa verið drengnum náin alla tíð og eiga enga sök á því að Barnavernd C hafi tekið þá ákvörðun að taka hann úr forsjá móður sinnar og vista hjá fósturforeldri, sem sé föðurmóðir drengsins.

Lagt sé til grundvallar í úrskurði Barnaverndarnefndar C að drengurinn glími við áfallastreitu og sé það byggt á mati listmeðferðarfræðings. Drengurinn hafi hins vegar enga greiningu fengið um slíkt frá þar til bærum fagaðila. Ótækt sé að leggja slíkar hugrenningar til grundvallar úrskurði barnaverndarnefndar þegar drengurinn hafi enga greiningu fengið frá fagaðila á borð við sálfræðing eða geðlækni, hvorki fyrir áfallastreituröskun né öðrum geðröskunum.

Í hinni kærðu ákvörðuninni segi meðal annars: „Gögn málsins bera með sér að vanlíðan drengsins og óæskileg hegðun hans er tengd umgengni hans við móðurforeldra og aðila úr móðurætt.“ Þessari fullyrðingu sé mótmælt með öllu. Ekkert í gögnum málsins bendir til slíkra tengsla nema orð föðurmóður um umgengni drengsins við móðurforeldra í Húsdýragarðinum í júlí 2019. Ástæða þess að starfsmenn Barnaverndar C lögðu það til við barnaverndarnefnd að móðurforeldrar skyldu ekki fá umgengni komi skýrlega fram í bókun meðferðarfundar sem fyrir liggur í málinu. Þar sé haft eftir föðurmóður að eftir síðustu umgengni hafi drengurinn átt við hegðunarerfiðleika að stríða og tengi hún það við að móðurforeldrar drengsins hafi við það tækifæri rætt við drenginn um móður hans, þrátt fyrir að starfsmenn Barnaverndar hefðu bannað þeim það. Þessu sé harðlega mótmælt og svöruðu móðurforeldrar skýrlega fyrir þetta atriði á fundi með barnaverndarnefnd þann 17. nóvember síðastliðinn. Það eina sem gerðist í umrætt sinn var það að drengurinn spurði afa sinn og ömmu eftir því hvernig mömmu sinni liði. Þau svöruðu að henni liði betur, eða væri á batavegi, og eyddu svo talinu. Fer því algjörlega fjarri að kærendur hafi haft nokkurt frumkvæði að því að tala um móður hans. Jafnframt sé fráleitt að leggja slíkt til grundvallar þegar móðurforeldrarnir séu í raun ein til frásagnar um hvað sagt var.

Skýrlega komi fram í gögnum málsins að föðurmóðir drengsins hafi ekki verið vitni að þessu samtali. Hún hafi fyrst heyrt af þessari spurningu drengsins um einum og hálfum mánuði síðar í símtali við móðurmóður sem sagði henni frá þessu að fyrra bragði. Síðan tengdi [fósturmóðir] þetta við að drengurinn hefði verið „erfiður” eftir umgengnina og skýrði starfsmönnum Barnaverndar frá því sem breyttu sögunni enn frekar og lögðu til grundvallar að móðurforeldrar hefðu verið að spjalla við drenginn um móður hans í tvígang og brotið þannig gegn banni starfsmanna. Var þar um verulega ósanngjarna málsmeðferð að ræða, sem einkenndist fyrir fram af dómi og skorti á gagnrýnni hugsun.

Hið rétta sé að móðurforeldrar gátu að sjálfsögðu ekki gert annað en svarað spurningu barnsins stuttlega og eytt svo talinu. Hvað varðar það að drengurinn hafi verið “erfiður” eftir umgengni skal bent á að hann hefur átt við mikla hegðunarerfiðleika að stríða frá fæðingu. Ekkert í málinu bendir til þess að umgengni hans við móðurforeldra hafi haft slæm áhrif á líðan hans í þetta skipti eða önnur og er í raun enginn grundvöllur til að fullyrða það nema orð föðurmóður sem vill tengja þetta tvennt saman.

Þá skuli nefnt að eftir ákvörðun barnaverndarnefndar hringdi starfsmaður nefndarinnar í móður drengsins og bauð að systir hans, F, X ára, gæti komið og átt við hann umgengni heima hjá fósturmóður. Samkvæmt því sem barnið segir var mamma þeirra það fyrsta sem drengurinn spurði um og ræddu krakkarnir að sjálfsögðu mikið um hana. Fer engum sögum af því að drengnum hafi orðið meint af þessari umgengni og vonandi heldur hún áfram, enda þykir honum afar vænt um systur sína. Foreldrar hennar munu því setja fram frekari óskir um umgengni fyrir hennar hönd, þó að sjálfsögðu mætti sameina umgengni með móðurforeldrum og systur hans.

Loks skuli benda á að ranglega er sagt í bókun meðferðarfundar, sem starfsmenn Barnaverndar lögðu fram á fundi barnaverndarnefndar, að listmeðferðarfræðingur hefði lagst alfarið gegn umgengni. Svipuð ummæli sé einnig að finna í ákvörðun barnaverndarnefndar. Í skýrslu listmeðferðarfræðingsins kemur aðeins fram að fara þurfi varlega í umgengni við móðurfjölskyldu vegna  áfalla sem tengjast móður. Stór munur sé á því og að leggjast alfarið gegn umgengni. Um þetta misræmi sé hins vegar ekki fjallað í ákvörðun barnaverndarnefndar og er þess óskað að úrskurðarnefndin beini sjónum sínum sérstaklega að þessu atriði.

Móðurforeldrar átta sig á því að barnið varð fyrir áföllum sem tengdust móður hans þegar hún var ekki á góðum stað í lífinu. Hún hefur nú verulega bætt stöðu sína og býr við andlegt jafnvægi í dag, er í sambúð og hefur gengið vel að ala upp sitt annað barn án nokkurra áfalla. Það sem móðurforeldrar vilja hins vegar leggja áherslu á er að drengurinn var rifinn úr því umhverfi sem hann þekkir og eftir að hann kom til föðurmóður hefur hann því miður þar að auki misst föður sinn af völdum sjálfsvígs, hann á fáa góða að og hefur ekki fengið alla þá ást sem hann þarf á að halda í sínu lífi. Móðurforeldrar vilja aðeins fá tækifæri til þess að veita honum ást og alúð og styðja hann á alla lund til að líða betur og ná jafnvægi. Þau munu ekki gera neitt sem getur raskað jafnvægi hans, síst af öllu færu þau að ræða um móður hans eða að blanda henni inn í umgengnina nema undir yfirsjón sérfræðinga þegar einhvern daginn það kann að hjálpa drengnum.

Kærendur séu miður sín vegna þess hvaða afleiðingar saklaus spurning drengsins um móður sína í Húsdýragarðinum 2019 hefur haft á málsmeðferð Barnaverndar. Hefur þeim ekki þótt þau njóta sannmælis hvað það atriði varðar.

 

III.  Sjónarmið Barnaverndarnefndar C

Barnaverndarnefnd C gerir kröfu um að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Um atvik málsins segir að um sé að ræða [X] ára gamlan dreng sem lýtur forsjá Barnaverndarnefndar C. Móðir drengsins, sem áður fór ein með forsjána, var svipt forsjá hans með dómi Héraðsdóms C þann 8. júní 2018. Drengurinn bjó við vanrækslu í umsjá móður sem beitti hann líkamlegu ofbeldi. Hlaut hún sex mánaða skilorðsbundinn dóm fyrir brot gegn drengnum sem kveðinn var upp í Héraðsdómi C þann 21. september 2017, en brot hennar voru heimfærð undir 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Faðir drengsins er látinn.

Drengurinn hafi verið vistaður hjá fósturforeldrum sínum frá því í febrúar 2016. Fyrst í tímabundnu fóstri, en gengið hafi verið frá varanlegri fósturvistun í kjölfar forsjársviptingarinnar þann 8. júní 2018. Drengurinn bjó fyrstu X ár ævi sinnar á heimili kærenda ásamt móður sinni. Kærendur áttu rúma umgengni við drenginn á meðan vistun hans í fóstri var tímabundin. Var umgengni á tveggja til þriggja vikna fresti í tvær til fjórar klukkustundir í senn á fósturheimilinu og var yngri systir drengsins þátttakandi í umgengninni. Fósturforeldrar hafa greint frá því að drengurinn hafi sýnt vanlíðan í kjölfar umgengni og tengdu erfiða líðan drengsins við það að kærendur töluðu mikið um móður drengsins á meðan umgengni stóð yfir. Móðir drengsins hefur ekki óskað eftir umgengni við hann.

Eftir að gengið hafi verið frá varanlegri fósturvistun drengsins breyttist fyrirkomulag umgengninnar. Kærendur komu til viðtals á skrifstofu Barnaverndar C þann 4. október 2018. Í samtali kærenda við starfsmann barnaverndar kom fram að drengurinn hefði alla tíð sýnt erfiða hegðun og verið ofbeldisfullur og slík hegðun hefði meðal annars komið fram þegar hann var búsettur hjá kærendum og átti umgengni við núverandi fósturforeldra. Þá greindu þau einnig frá því að drengurinn hefði sýnt ofbeldisfulla hegðun áður en móðir hans beitti hann ofbeldi. Kærendur óskuðu eftir umgengni aðra hvora helgi.

Fósturmóðir greindi frá því í samtali við starfsmann barnaverndar þann 23. október 2018 að jákvæðar breytingar hefðu orðið hjá drengnum sem þá hafði ekki átt umgengni við kærendur í um tvo mánuði. Sagði hún reiði ekki lengur til staðar hjá drengnum, þessi í stað væri hann kátur og glaður. Engar uppákomur hefðu verið í skóla drengsins og hann hefði ekkert vætt buxurnar. Fósturforeldrar lögðu til umgengni undir eftirliti fjórum til sex sinnum á ári í eina klukkustund í senn. Fósturmóðir yrði viðstödd umgengnina ásamt eftirlitsaðilum. Þá töldu fósturforeldrar mikilvægt að kærendur ræddu ekki við drenginn um móður hans. Fósturforeldrar lögðu til að umgengni yrði endurmetin síðar og horft yrði til líðan drengsins í kjölfar umgengni við ákvarðanatöku um umgengni.

Bókað var um málið á meðferðarfundi starfsmanna þann 24. október 2018 þar sem lagt var til að umgengni yrði í nóvember til reynslu í eitt skipti. Umgengi yrði undir eftirliti í húsnæði á vegum barnaverndar og kærendum væri ekki væri heimilt að ræða við drenginn um móður hans á meðan umgengni stæði yfir.

Aðilar máls féllust á tillögur starfsmanna og umgengni fór fram undir eftirliti þann 25. nóvember 2018. Samkvæmt upplýsingum frá eftirlitsaðila gekk umgengni vel framan af en einhver neikvæð orðaskipti urðu á milli kærenda og fósturforeldra í lok umgengni. Systir drengsins var með kærendum í umgengninni. Bæði kærendur og fósturforeldrar drengsins höfðu samband við starfsmann barnaverndar í kjölfar umgengninnar og greindu frá því að þeim hafa orðið sundurorða í umgenginni. Fósturforeldarar sögðu drenginn hafa misst bæði þvag og hægðir í buxurnar eftir umgengnina. Í munnlegum upplýsingum frá skóla drengsins kom fram að drengurinn hafi verið erfiður í hegðun í kringum umgengni við móðurforeldra og systur.

Í byrjun árs 2019 óskuðu kærendur eftir umgengni við drenginn og sendu starfsmönnum óskir um tíðni og fyrirkomulag umgengninnar. Faðir drengsins lést þann X 2019, áður en fósturforeldrar höfðu skilað afstöðu sinni til umgengni. Hlé var gert á umræðu um umgengni.

Á fundi sem starfsmaður barnaverndar átti með fósturforeldrum drengsins í mars 2019 kom fram að drengurinn saknaði systur sinnar og vildi hitta hana. Lögðu fósturforeldrar til að umgengni yrði komið á milli drengsins, kærenda og systur drengsins. Drengurinn átti umgengni við kærendur í apríl 2019 og fór umgengni fram í Kringlunni að hugmynd fósturmóður og var með þeim hætti að fósturforeldrar og kærendur ásamt systur drengsins áttu stund með drengnum í verslunarmiðstöðinni. Umgengnin gekk vel samkvæmt aðilum málsins. Fósturforeldrar greindu frá bakslagi í hegðun og líðan drengsins í kjölfar umgengninnar.

Umgengni var að nýju í júlí 2019 í samræmi við bókun meðferðarfundar, dags. 10. júlí 2019. Var bókað um eina umgengni til reynslu sem aðilar máls féllust á og fór umgengni fram í sama mánuði. Umgengnin átti sér stað í Húsdýragarðinum að viðstöddum kærendum, systur drengsins og fósturmóður. Í lok júlímánaðar 2019 hafði fósturmóðir samband við barnavernd og greindi frá því að strax í kjölfar umgengni hefði drengurinn tekið mikil skapofsaköst og orðið alveg stjórnlaus. Það hefði tekið hann tvær vikur að jafna sig. Hann hafi verið óttasleginn og ekki vikið frá fósturforeldrum sínum og meðal annars sofið í rúminu þeirra. Fyrstu dagana eftir umgengni hafi hann misst hægðir í buxurnar oft á dag og pissað í rúmið. Drengurinn hefur ekki átt umgengni við kærendur síðan framangreind umgengni fór fram.

Vegna þeirra alvarlegu áfalla, sem drengurinn hefur gengið í gegnum, ofbeldisins sem hann varð fyrir af hálfu móður sinnar og sviplegs fráfalls föður, hefur drengurinn verið í meðferð hjá listmeðferðarfræðingi, fyrst í mars 2017. Bókað var um áframhaldandi listmeðferð á meðferðarfundi starfsmanna þann 5. desember 2018 og hefur drengurinn verið hjá listmeðferðarfræðingi með hléum frá árinu 2017.

Sálfræðingur Barnaverndar C og starfsmaður málsins hjá barnavernd áttu fund með fósturmóður þann 19. júní 2019 í þeim tilgangi að fá innsýn í vanda drengsins og meta þörf hans fyrir sálfræðiviðtöl. Í dagálsnótu um viðtalið kemur fram að sálfræðingur metur drenginn með augljós einkenni PTSD og mælti sálfræðingurinn með áframhaldandi viðtölum hjá listmeðferðarfræðingi, en taldi drenginn hins vegar ekki vera í þörf fyrir sérhæfða áfallastreitumeðferð. 

Sálfræðingur frá heilsugæslu drengsins hafði samband við starfsmann barnaverndar 23. október 2019 og lýsti yfir miklum áhyggjum af líðan drengsins og taldi hann með alvarleg einkenni áfallastreituröskunar.

Listmeðferðarfræðingur mætti á fund í skóla drengsins þann 7. nóvember 2019. Í dagálsnótu um fundinn kemur fram að listmeðferðarfræðingur mæli gegn umgengni drengsins við móðurfjölskyldu sína um sinn, en umgengnin hafi komið drengnum úr miklu jafnvægi og raskað ró og stöðugleika drengsins svo um munaði.

Kærendur óskuðu eftir umgengni við drenginn fyrir jólin 2019 og var fjallað um beiðni þeirra á meðferðarfundi starfsmanna þann 18. desember 2019. Á fundinum var bókað að vegna vanlíðanar drengsins legðu starfsmenn til að kærendur hefðu ekki umgengni við drenginn. Kærendum hafi verið kynnt þessi niðurstaða og jafnframt að þeim væri unnt að leggja málið fyrir fund barnaverndarnefndar með tilliti til úrskurðar. Kærendur óskuðu ekki eftir því.

Nokkur samskipti áttu sér stað á milli kærenda og starfsmanns Barnaverndar C varðandi beiðni um umgengni og rétt kærenda til að leggja málið fyrir fund barnaverndarnefndar, sbr. umfjöllun þar um í greinargerð starfsmanna, dags. 10. nóvember 2020.

Í tengslum við óskir kærenda varðandi umgengni við drenginn var upplýsinga aflað frá listmeðferðarfræðingi hans. Kærendur óskuðu eftir að fá einhverja umgengni við drenginn. Fram kom að þau vildu umgengni á fjögurra vikna fresti á heimili þeirra. Vildu þau jafnframt að systir drengsins, móðurbróðir hans og frænka yrðu viðstödd umgengnina. Bókað var um beiðni kærenda á meðferðarfundi starfsmanna þann 7. október 2020. Þar kom fram það mat starfsmanna að hagsmunir drengsins krefðust þess að hann hefði ekki umgengni við kærendur, mikilvægt væri að hann byggi við stöðugleika, ró, öryggi og vellíðan í uppvextinum.

Kærendur féllust ekki á tillögur starfsmanna og var málið lagt fyrir fund Barnaverndarnefndar C þann 17. nóvember 2020.

Í greinargerð starfsmanna, dags. 10. nóvember 2020, kom fram það mat að hagsmunir drengsins væru fyrst og fremst þeir að vinna að því að hann búi við stöðugleika, ró, öryggi og vellíðan í uppvextinum og umgengnin við móðurforeldra hafi unnið gegn því markmiði. Þá segir í greinargerðinni að vegna náms- og félagslegs vanda drengsins og gruns um athyglisbrest og tengslaröskun sé að hefjast greining á vanda og stuðningsþörf hans.

Kærandi, A, mætti á fund barnaverndarnefndarinnar ásamt lögmanni sínum og gerði grein fyrir afstöðu kærenda. Fram kom hjá henni að kærendur telja drenginn ekki eiga marga að en hann eigi stóra móðurfjölskyldu sem vilji honum vel. Lögmaður kærenda gerði athugasemdir við lýsingar fósturforeldra á samskiptum kærenda við drenginn i umgengni sem átti sér stað í Húsdýragarðinum í júlí 2019. Þá sagði lögmaðurinn að rangt væri haft eftir listmeðferðarfræðingi í greinargerð starfsmanna sem lá fyrir fundinum. Fram kom að kærendur vilja eiga umgengni við drenginn einu sinni í mánuði, 4 klukkustundir í senn, en til vara að umgengni verði á þriggja mánaða fresti og til þrautavara að drengurinn fái að minnsta kosti umgengni við systur sína.

Fósturmóðir drengsins mætti á fund nefndarinnar og greindi frá því að hún væri samþykk tillögum starfsmanna og tók fram að um tímabundna ráðstöfun væri að ræða á meðan drengurinn væri að vinna sig út úr áföllum sínum og vanlíðan. Greindi hún frá því að drengurinn væri afar viðkvæmur og lítið mætti út af bregða varðandi líðan hans.

Í bókun Barnaverndarnefndar C frá 17. nóvember 2020 og hinum kærða úrskurði nefndarinnar frá 24. nóvember 2020 tekur Barnaverndarnefnd C undir mat starfsmanna. Nefndin vísar til þess að drengurinn glímir við áfallastreitu vegna þeirra áfalla sem hann varð fyrir í umsjá móður sinnar. Segir nefndin að drengurinn sé í þörf fyrir mikla rútínu og utanumhald í sínu daglega lífi og lítið megi út af bera til að raska því jafnvægi sem fósturforeldrar hafa lagt sig fram um að skapa í kringum drenginn.

Í kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 20. desember 2020, sé talsverð áhersla lögð á að greina frá ágreiningi aðila um hvernig samskiptum kærenda við drenginn var háttað í síðustu umgengni sem fram fór í Húsdýragarðinum í júlí 2019. Lögmaður kærenda gerði einnig skýra grein fyrir þessum ágreiningi á fundi Barnaverndarnefndar C þann 17. nóvember 2020. Í úrskurði barnaverndarnefnar, dags. 24. nóvember 2020, sé hins vegar ekki lagt mat á það hvernig atburðarrásinni var háttað í umgengninni heldur vísað til hegðunar drengsins og líðan hans í kjölfar umgengninnar og upplýsinga fósturforeldra og fagaðila um stöðu drengsins.

Í kæru sé einnig vikið að ágreiningi um orðalag varðandi afstöðu listmeðferðarfræðings til umgengni drengsins við aðila úr móðurætt. Úrskurðarnefnd velferðarmála sé sérstaklega hvött til að beina sjónum sínum að leiðbeiningum listmeðferðarfræðings. Þá segi í kæru að ákvörðun nefndarinnar sé byggð á grun listmeðferðarfræðings þess efnis að drengurinn glími við áfallastreituröskun og að engin greining liggi fyrir í máli drengsins frá þar til bærum fagaðila. Af þessu tilefni er vísað í dagálsnótu starfsmanns Barnaverndar C sem skrifuð hafi verið kjölfar fundar í skóla drengsins þann 7. nóvember 2019. Þar komi fram að listmeðferðarfræðingur mæli gegn því að drengurinn sé í umgengni við móðurfjölskyldu sína þar sem umgengni hafi komið drengnum úr jafnvægi og raskað ró hans og stöðugleika svo um hafi munað.

Í bréfi listmeðferðarfræðings, dags. 18. september 2020, sé meðal annars fjallað um hvaða áhrif það hafi á börn sem upplifa ofbeldi af hálfu forsjáraðila. Segir listmeðferðarfræðingurinn að börn  reikni með að forsjáraðilinn sé öruggt skjól og uppspretta elsku. Fram kemur að það áfall og sá trúnaðarbrestur, sem drengurinn hafi orðið fyrir, hafi valdið honum ruglingi og djúpstæðu áfalli. Listmeðferðarfræðingurinn segir einnig að til þess að barn geti farið í gegnum áfall þurfi það að upplifa sig öruggt og stöðugleiki sé barninu nauðsynlegur. Að mati listmeðferðarfræðingsins þurfi að fara mjög varlega ef drengurinn hitti móður eða ættingja sem tengjast áföllunum því að þegar hann hittir þessa aðila sé hann endurtekið að lenda í upplifuninni af ruglingnum innra með sér og þeim trúnaðarbresti sem hann varð fyrir af hálfu móður.

Í kæru komi fram að í úrskurði barnaverndarnefndar sé lagt til grundvallar að drengurinn glími við áfallastreituröskun, en bent sé á að ekki liggi fyrir nein greining þess efnis heldur sé einungis um að ræða grun listmeðferðarfræðings þess efnis. Í gögnum málsins megi sjá að sálfræðingur Barnaverndar C telji drenginn sýna augljós einkenni áfallastreitu og sálfræðingur drengsins hjá heilsugæslu hans telji drenginn einnig sýna alvarleg einkenni áfallastreituröskunar. Drengurinn sé að fara í frekari greiningar vegna líðanar sinnar og hegðunar en óhætt sé að fullyrða að áföllin sem hann hafi orðið fyrir hafi haft alvarleg áhrif á hann líkt og tveir sálfræðingar og listmeðferðarfræðingur hafi greint frá.

Umgengni samkvæmt 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 þurfi að ákvarða í samræmi við hagsmuni og þarfir drengsins. Rétturinn til umgengni og umfang hans geti verið takmarkaður og háður mati á hagsmunum barnsins þar sem meðal annars ber að taka tillit til markmiðanna sem stefnt sé að með fósturráðstöfuninni og hversu lengi fóstri sé ætlað að vara. Drengurinn sé vistaður í varanlegu fóstri til sjálfræðisaldurs. Brýnt sé að búa honum stöðugleika, ró og öryggi í fósturvistuninni. Fari hagsmunir drengsins og kærenda ekki saman verði hagsmunir kærenda að víkja, sbr. 1. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Samkvæmt 4. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga geti barnaverndarnefnd, ef sérstök atvik valda því, úrskurðað að foreldrar og aðrir nákomnir barni skuli ekki njóta umgengni við barnið, sé það mat nefndarinnar að umgengni barns við foreldra sé andstæð hag þess og þörfum. Það sé mat Barnaverndarnefndar C að með úrskurði nefndarinnar þann 24. nóvember 2020 sé fyrst og fremst horft til hagsmuna drengsins. Þá verði ekki horft fram hjá afstöðu fósturforeldra drengsins sem séu þeir aðilar sem þekkja drenginn best, séu hans aðalumönnunaraðilar og hafi annast hann frá árinu 2016. Drengurinn hafi verið í þeirra umsjá meirihluta ævi sinnar og hafi fósturforeldrar tekið að sér það vandasama hlutverk að annast drenginn til sjálfræðisaldurs hans. Gögn málsins beri með sér að fósturforeldrar annist drenginn af ást og alúð og vel sé hlúð að honum á heimili þeirra og hann sé í þörf fyrir ramma og stöðugleika. Þá séu lýsingar fósturforeldra studdar upplýsingum frá skóla drengsins og listmeðferðarfræðingi sem og tveimur sálfræðingum sem komið hafa að máli hans.

Með hliðsjón af framangreindu, allra gagna málsins og með hagsmuni drengsins að leiðarljósi sé gerð krafa um að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

IV.  Afstaða barnsins

Samkvæmt gögnum málsins var drengnum ekki skipaður talsmaður við meðferð málsins. Ekki hefur því verið aflað afstöðu hans til umgengni við kærendur. Fram kemur í hinni kærðu ákvörðun að afstöðu hans hafi ekki verið aflað vegna þess hversu viðkvæmur hann sé fyrir umræðu um umgengni við móðurforeldra sína.

V.  Afstaða fósturforeldra

Úrskurðarnefnd velferðarmála óskaði eftir afstöðu fósturforeldra til umgengni kærenda við drenginn. Í samtali við starfsmann úrskurðarnefndar kom fram að afstaða þeirra hefði ekki tekið breytingum frá því að úrskurðað var í málinu hjá barnaverndarnefndinni. Hins vegar legðu þau áherslu á að afstaða þeirra til þess að það væri engin umgengni, væri einungis tímabundin og því ekki til frambúðar.

VI. Niðurstaða

Drengurinn E er X ára gamall og lýtur forsjá Barnaverndarnefndar C. Móðir drengsins var svipt forsjá hans með dómi Héraðsdóms C þann 8. júní 2018. Kærendur eru móðurforeldrar drengsins. Með hinum kærða úrskurði var ákveðið að kærendur hefðu enga umgengni við drenginn.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. bvl. á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Þeir sem telja sig nákomna barninu eiga með sama hætti rétt til umgengni við barnið, enda verði talið að það sé til hagsbóta fyrir barnið. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns, sem ráðstafað er í fóstur, við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd. Ef sérstök atvik valda því, að mati barnaverndarnefndar, að umgengni barns við foreldra sé andstæð hag þess og þörfum getur nefndin úrskurðað að foreldri skuli ekki njóta umgengnisréttar. Barnaverndarnefnd getur á sama hátt ákveðið að aðrir sem telja sig nákomna barninu njóti ekki umgengnisréttar ef hún telur að skilyrðum 2. mgr. sé ekki fullnægt.

Í athugasemdum við 74. gr. í frumvarpi því sem varð að núgildandi bvl. er bent á að þegar um aðra nákomna sé að ræða sé tekið þannig til orða að umgengni sé barninu til hagsbóta. Samkvæmt þessu orðalagi sé réttur þessara aðila ekki jafn ríkur og kynforeldra. Vera kunni að umgengni barns við aðra nákomna geti haft sérstaka þýðingu fyrir það, einkum þar sem umgengni við kynforeldra sé lítil sem engin. Tekið er fram að við ákvörðun um umgengni verði barnaverndarnefnd sem endranær að meta hagsmuni og þarfir barns og gæta þess að umgengni sé í samræmi við markmiðin með fóstri. Þannig verði almennt að gera ráð fyrir ríkari umgengni ef fóstri er ætlað að vara í skamman tíma og áætlað að barn snúi aftur til foreldra sinna.

Kærendur, sem eru móðurforeldrar drengsins, krefjast þess að þau fái umgengni við drenginn einu sinni í mánuði, en sjaldnar telji úrskurðarnefndin það betur þjóna hagsmunum hans. Tímalengd umgengni ráðist af mati nefndarinnar, en þess sé óskað að hún aukist með tímanum.

Í hinum kærða úrskurði er meðal annars á því byggt að drengurinn glími við áfallasteituröskun vegna áfalla sem hann hefur orðið fyrir í lífi sínu. Þá er það mat barnaverndarnefndar að drengurinn upplifi vanlíðan og sýni óæskilega hegðun í kjölfar umgengni við kærendur. Framundan séu frekari greiningar á drengnum vegna gruns um tengslaröskun og athyglisbrest og því sé brýnt að drengurinn fái þann tíma sem hann er í þörf fyrir til að vinna úr áföllum og fá þau bjargráð sem hann sé í þörf fyrir. Með hliðsjón af framansögðu séu hagsmunir barnsins ekki fólgnir í því að hafa umgengni við kærendur.

Það er meginregla í barnaverndarstarfi að hagsmunir barns skuli ávallt vera í fyrirrúmi og beita skuli þeim ráðstöfunum sem barni eru fyrir bestu. Við úrlausn þessa máls ber því að líta til þeirra stöðu sem drengurinn er í. Það er gert til að unnt sé að taka ákvörðun um umgengni drengsins við kærendur á þann hátt að hún þjóni hagsmunum hans best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl. Samkvæmt 2. mgr. 46. gr. bvl. skal gefa barni kost á að tjá sig um mál sem það varðar í samræmi við aldur þess og þroska og taka réttmætt tillit til skoðana þess við úrlausn málsins.

Við meðferð málsins hjá úrskurðarnefnd velferðarmála óskaði nefndin eftir upplýsingum frá Barnavernd C um hvort farið hefði fram sálfræðileg athugun á drengnum. Afrit af sálfræðilegri athugun, sem fór fram 29. mars 2021, barst úrskurðarnefndinni með tölvupósti 30. mars 2021. Í áliti sálfræðings kemur fram að drengurinn hafi verið með einkenni áfallastreituröskunar fyrstu árin eftir að hann kom í fóstur en miðað við stöðuna í dag nái hann ekki greiningarviðmiðum um áfallastreituröskun. Þá kemur fram í álitinu að miklar framfarir hafi orðið á líðan og hegðun drengsins svo og gengi hans í námi. Þá hafi drengurinn verið í góðu jafnvægi heima fyrir og í skóla en hann sæki mikið í samveru með fósturforeldrum og hafi átt erfitt uppdráttar félagslega. Niðurstaða álitsins sé sú að drengurinn búi við misstyrk í vitsmunaþroska, eigi fyrri sögu um áfrallasteituröskun, frávik í félagsþroska og að hegðunarerfiðleika drengsins megi rekja til fyrri áfallasögu.

Ráða má af framangreindri athugun sálfræðings að drengurinn nái í dag ekki greiningarviðmiðunum um áfallastreituröskun. Þá virðist staða drengsins í dag vera góð heima fyrir svo og í skóla, þrátt fyrir að hann eigi erfitt uppdráttar félagslega. Af fyrirliggjandi gögnum málsins verður ekki ráðið með fullnægjandi hætti hvernig tengslum drengsins við móðurforeldra sína sé háttað og hve náin þau hafi verið. Ráða má af gögnum málsins að drengurinn hafi verið í miklum tengslum við móðurforeldra sína fyrstu fjögur ár ævi sinnar og ætla mætti að sterk tengsl hafi myndast á milli þeirra. Mikilvægt sé að þau tengsl verði könnuð enn frekar áður en afstaða verður tekin til kröfu kærenda um umgengni. Í því sambandi er meðal annars mikilvægt að leitað verði eftir afstöðu drengsins til umgengni í samræmi við þroska hans og getu, sbr. áskilnað 2. mgr. 46. gr. bvl.

Samkvæmt 1. mgr. 41. gr. bvl. skal barnaverndarnefnd sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í ljósi alls framangreinds telur að úrskurðarnefndin að málið hafi ekki verið rannsakað með fullnægjandi hætti áður en kveðinn var upp úrskurður. Úrskurðarnefndin telur að kanna verði afstöðu drengsins til umgengni við kærendur, sbr. 2. mgr. 46. gr. bvl., og að rannsökuð verði með fullnægjandi hætti tengsl drengsins við kærendur svo að hægt sé að taka afstöðu til kröfu kærenda um umgengni við hann.

Með vísan til alls þess, sem að framan greinir, ber að fella hinn kærða úrskurð Barnaverndarnefndar C úr gildi og vísa málinu til nýrrar meðferðar.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Úrskurður Barnaverndarnefndar C frá 24. nóvember 2020 varðandi umgengni E, við A, og B, er felldur úr gildi og er málinu vísað til nýrrar meðferðar fyrir nefndinni.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 

Kári Gunndórsson

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira