Hoppa yfir valmynd

Ákvörðun Fiskistofu um að hafna umsókn um úthlutun byggðakvóta.

Stjórnsýslukæra

Ráðuneytið vísar til stjórnsýslukæru [A], f.h. [B ehf.], dags. 23. mars 2022, þar sem kærð er til ráðuneytisins ákvörðun Fiskistofu, dags. 14. mars 2022, um að hafna umsókn kæranda um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2021/2022 til bátsins [C] en umrædd kæra var framsend til ráðuneytisins með tölvubréfi, dags. 23. mars 2022.

Kæruheimild er í 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

 

 

Kröfur kæranda

Kærandi krefst þess að felld verði úr gildi ákvörðun Fiskistofu, dags. 14. mars 2022, um að hafna umsókn kæranda um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2021/2022 til bátsins [C] og að lagt verði fyrir Fiskistofu að úthluta byggðakvóta til bátsins í samræmi við kröfur og málsástæður í stjórnsýslukærunni.

 

 

Málsatvik

Málsatvik eru þau að með auglýsingu, dags. 17. febrúar 2022, sem birt var á vefsíðu Fiskistofu, auglýsti Fiskistofa eftir umsóknum um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2021/2022 í nokkrum byggðarlögum, m.a. á Sauðárkróki í Sveitarfélaginu Skagafirði en auglýsingin var byggð á 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, sbr. og 2. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 995/2021, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2021/2022. Umsóknarfrestur var til og með 3. mars 2022. Ráðuneytið hafði með bréfi, dags. 21. desember 2021, úthlutað 155 þorskígildistonnum af byggðakvóta til Sveitarfélagsins Skagafjarðar samkvæmt umsókn sveitarfélagsins á grundvelli reglugerðar nr. 919/2091, um úthlutun byggðakvóta til byggðarlaga á fiskveiðiárinu 2021/2022, sem skiptust á byggðarlögin Sauðárkrók, 140 þorskígildistonn og Hofsós, 15 þorskígildistonn.

Kærandi sótti um byggðakvóta fyrir bátinn [C] með umsókn til Fiskistofu, dags. 22. febrúar 2022.

Hinn 14. mars 2022 tilkynnti Fiskistofa útgerðum á Sauðárkróki í Sveitarfélaginu Skagafirði ákvarðanir sínar um úthlutun byggðakvóta til báta í byggðarlaginu. Kæranda, [A] f.h. [B ehf.], var tilkynnt að hafnað væri umsókn hans um úthlutun byggðakvóta til bátsins [C]. Ákvörðun Fiskistofu var byggð á því að samkvæmt staflið c 1. gr. reglugerðar nr. 995/2021 væri skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta til skips að það hafi verið í eigu eða leigu einstaklinga eða lögaðila með heimilisfang í viðkomandi byggðarlagi þann 1. júlí 2021. Skráður eigandi og útgerðaraðili ofangreinds skips hjá Fiskistofu hafi samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra verið með lögheimili í Varmahlíð á þeim tíma, og því komi ekki til úthlutunar byggðakvóta til skipsins. Ákvörðun Fiskistofu, dags 14. mars 2022, byggir á því að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði c-liðar 1. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 995/2021, fyrir úthlutun byggðakvóta, þar sem [C] hafi ekki verið í eigu lögaðila með heimilisfang á Sauðárkróki 1. júlí 2021 heldur í eigu lögaðila með heimilisfang í Varmahlíð.

Þá kom fram í ákvörðun Fiskistofu að hún væri kæranleg til matvælaráðuneytisins og að kærufrestur væri tvær vikur frá framangreindri tilkynningu Fiskistofu.

 

 

Málsástæður í stjórnsýslukæru og málsmeðferð

Með stjórnsýslukæru, dags. 23. mars 2022, kærði [A], til matvælaráðuneytisins ákvörðun Fiskistofu, dags. 14. mars 2022, um að hafna umsókn kæranda um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2021/2022 til bátsins [C] en umrædd kæra var framsend til ráðuneytisins með tölvubréfi, dags. 23. mars 2022.

Í stjórnsýslukærunni segir að samkvæmt íslenskri nútímamálsorðabók Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum segi að byggðarlag sé „búsvæði fólks sem myndar eina heild vegna landshátta og samgangna.“Sauðárkrókur, þaðan sem báturinn sé skráður og gerður út en geti verið skráður Skagafjörður og [D] Varmahlíð þar sem lögheimilið sé, séu hluti af sameiginlegu sveitarfélagi og mynda eina heild vegna landshátta og samgangna sama byggðarlag. Samkvæmt 65. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 sé öll mismunun fólks almennt bönnuð. Mismunun sé alltaf ólögleg þannig að íbúar í sameiginlegu Sveitafélagi ættu allir að sitja við sama borð. Kærandi hafi gert út frá og landað öllum afla á Sauðárkróki og sótt um byggðakvóta þar þess vegna. Af öðrum bátum í þessari úthlutun til byggðarlagsins Sauðárkróks, sem séu samþykktir án kæru, séu eigendur með lögheimili á Sauðárkróki í sameiginlegu sveitarfélagi. Á árinu 2021, hafi umsókn kæranda um byggðakvóta verið hafnað vegna þess að báturinn hafi verið skráður á Hofsósi en ekki á Sauðárkróki. Árið 2022 sé umsókn kæranda hafnað vegna þess að kennitala útgerðar sé ekki í viðkomandi byggðarlagi, Sauðárkróki. Undanfarin ár, þó ekki 2022, hafi tiltekin önnur útgerð sem sé með lögheimili á tilteknu lögbýli, sótt um byggðakvóta og fengið. Þessi úthlutun byggðarkvóta til báts umræddrar útgerðar sýni að útgerðir í sveitarfélaginu Skagafirði njóti ekki jafns réttar. Meðfylgjandi sé úrskurður atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins um stjórnsýslukæru vegna höfnunar umsóknar um byggðakvóta árið 2021. Þar sé Fiskistofu m.a. sagt að tilefni sé til að viðhafa vinnulag þar sem stofnunin rannsaki og leiðbeini umsækjendum betur þegar tekið sé við umsóknum. Umsókn kæranda um byggðarkvóta hafi verið hafnað annað árið í röð vegna skorts á upplýsingum.

Eftirtalin gögn fylgdu stjórnsýslukærunni í ljósritum: 1) Bréf Fiskistofu, dags. 13. apríl 2021. 2) Yfirlit um úthlutun byggðakvóta á Sauðárkróki, dags. 13. apríl 2021. 3) Bréf atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, dags. 20. júlí 2021. 4) Úrskurður atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, dags. 20. júlí 2021. 4) Bréf Fiskistofu, dags. 14. mars 2022. 5) Yfirlit um úthlutun byggðakvóta á Sauðárkróki, dags. 14. mars 2022.

Með tölvubréfi, dags. 24. mars 2022, óskaði ráðuneytið eftir umsögn Fiskistofu um málið, staðfestu afriti af hinni kærðu ákvörðun, auk annarra gagna sem Fiskistofa kynni að hafa um málið.

Í umsögn Fiskistofu, dags. 4. apríl 2022, segir m.a. að ákvörðun Fiskistofu, dags 14. mars 2022, byggir á því að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði c-liðar 1. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 995/2021, fyrir úthlutun byggðakvóta, þar sem [C] hafi ekki verið í eigu lögaðila með heimilisfang á Sauðárkróki 1. júlí 2021 heldur í eigu lögaðila með heimilisfang í Varmahlíð. Í kærunni sé því haldið fram að Sauðárkrókur þar sem báturinn sé skráður og gerður út geti verið skráður Skagafjörður og [D], þar sem félagið sé með heimilisfang teljist sameiginlega sveitarfélag. Því sé haldið fram að þessir staðir myndi eina heild vegna landshátta og samgangna og beri því að telja sem byggðarlag með vísan til skilgreiningar á orðinu byggðarlag í íslenskri nútímamálsorðabók Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Þá sé vísað til jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og því haldið fram að hún eigi að gilda um íbúa í umræddu sveitarfélagi. Á vefsíðu Sambands íslenskra sveitarfélaga sé að finna upplýsingar um hvaða byggðarlög falli undir sveitarfélagið Skagafjörður en það séu Sauðárkrókur, Hofsós, Varmahlíð og Hólar í Hjaltadal. Hins vegar sé um að ræða ákvörðun um úthlutun byggðakvóta til byggðarlagsins Sauðárkróks en ekki Sveitarfélagsins Skagafjörður. Um úthlutun byggðakvóta gildi ákvæði 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða. Í 4. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006 komi fram m.a. að ráðherra skuli kveða á um skilgreiningu á byggðarlagi í reglugerð um ráðstöfun aflaheimilda skv. 2. tölul. 1. mgr. 10. gr. Í 2. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 919/2021, um úthlutun byggðakvóta til byggðarlaga á fiskveiðiárinu 2021/2022 komi eftirfarandi fram: „Byggðarlög skv. 1. mgr. eru byggðakjarnar sem liggja að sjó og eru háðir veiðum og/eða vinnslu á sjávarafla. Minni byggðarlög teljast byggðarlög með færri íbúum en 2.000, miðað við 1. janúar 2021.“Á grundvelli 5. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006 setji ráðherra með reglugerð um almenn skilyrði fyrir úthlutun aflaheimilda til fiskiskipa innan einstakra byggðarlaga, þ.e. reglugerð nr. 995/2021, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2021/2022. Úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa sé úthlutun takmarkaðra gæða sem séu eftirsóknarverð og feli í sér verðmæti. Fiskistofu sé falið að úthluta byggðakvóta samkvæmt reglugerð nr. 995/2021. Við afgreiðslu umsókna sé kannað hvort lögbundin skilyrði séu uppfyllt. Jafnræðis sé gætt þegar Fiskistofa fari að þeim reglum sem settar hafi verið fyrir úthlutun í viðkomandi byggðarlagi. Hvorki í lögum né í stjórnvaldsfyrirmælum sé að finna heimild til að líta framhjá því skilyrði sem synjun Fiskistofu sé byggð á. Samkvæmt lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins verði ákvarðanir og athafnir Fiskistofu að eiga sér stoð í lögum. Meðalhófsregla stjórnsýsluréttarins feli það m.a. í sér að stjórnvald verði að gæta hófs í meðferð valds síns en það vald verði að eiga sér stoð í lögum. Fiskistofa geti ekki án lagastoðar eða heimilda í stjórnvaldsfyrirmælum vikið frá þeim skilyrðum sem ráðherra hafi sett. Fiskistofu hafi því ekki verið heimilt að úthluta byggðakvóta til skips kæranda þar sem skilyrði úthlutunar hafi ekki verið uppfyllt. Höfnun umsóknar kæranda geti ekki talist í andstöðu við jafnræðisreglur þar sem reglurnar gildi um alla umsækjendur um byggðakvóta í umræddu byggðarlagi. Kærandi vísi til úrskurðar atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, dags. 20. júlí 2021, þar sem komi fram að Fiskistofu beri að viðhafa vinnulag þar sem stofnunin rannsaki og leiðbeini umsækjendum betur þegar tekið sé við umsóknum. Þar segi m.a. að það hefði verið í samræmi við góða stjórnsýsluhætti að Fiskistofa hefði kannað það sérstaklega, áður en kæranda var send ákvörðun um höfnun á úthlutun byggðakvóta á Sauðárkróki, og í samræmi við rannsóknarreglu og leiðbeiningarskyldu í málinu, að leita eftir afstöðu kæranda um hvort hann ætlaði að sækja um byggðakvóta á Hofsósi eða á Sauðárkróki, sem er innan sama sveitarfélags. Leiða má af því líkur að um mistök gæti hafa verið að ræða af hálfu kæranda við umsókn um byggðakvóta sem auðvelt hefði verið að leiðrétta áður en ákvörðun var tekin í málinu. Þó beri að gæta þess að aðilar sem stundi útgerð, sem beri að uppfylla íslensk lög og stjórnvaldsfyrirmæli á sviði fiskveiðistjórnar ættu að þekkja vel til þeirra reglna sem um útgerðina og úthlutun aflaheimilda gilda. Fiskistofa hafi ekki veitt kæranda kost á að tjá sig um efni máls áður en ákvörðun, dags. 14. mars 2022, var tekin um að hafna umsókn kæranda um byggðakvóta. Að mati Fiskistofu hafi það verið augljóslega óþarft þar sem kærandi hafi ekki uppfyllt hlutlægt skilyrði sem taki mið af skráningu á heimilisfangi lögaðilans sem fari með eignarhald á viðkomandi skipi aftur í tímann. Hvað varði leiðbeiningar sem Fiskistofa veiti umsækjendum þá sé leitast við að veita þær með almennum hætti, annars vegar þegar auglýst sé eftir umsóknum og hins vegar á sérstakri vefsíðu um byggðakvóta. Þá hafi Fiskistofa einnig útbúið Leiðbeiningar og gátlista fyrir byggðakvóta,febrúar 2021, til þess að aðilar sem stunda útgerð geti betur áttað sig á þeim reglum sem gildi um úthlutun byggðakvóta. Leiðbeiningarnar og gátlistann sé að finna á vefsíðu Fiskistofu. Einnig veiti starfsmenn Fiskistofu almennar leiðbeiningar símleiðis sé óskað eftir því. Með hliðsjón af því sem fram komi í nefndum úrskurði ráðuneytisins telji Fiskistofa að brugðist hafi verið að einhverju leyti við tilmælum ráðuneytisins. Rétt sé að nefna að ekki komi til álita að óska eftir afstöðu kæranda til þess hvort hann hafi ætlað að sækja um úthlutun úr öðru byggðarlagi innan sama sveitarfélags enda verði ekki séð að kærandi uppfylli lögbundin skilyrði til úthlutunar í öðrum byggðarlögum. Svo virðist sem kærandi telji að höfnun á umsókn um byggðakvóta nú sé að rekja til þess að hann hafi ekki fengið nægilegar skýrar upplýsingar um grundvöll höfnunar umsóknar fyrir sama bát árið 2021. Í því samhengi megi benda á að tilgreint hafi verið í umsögn Fiskistofu um þá stjórnsýslukæru að ekki hafi verið kannað sérstaklega hvort skilyrði c-liðar 1. mgr. 1. gr. þágildandi reglugerðar hafi verið uppfyllt. Að mati Fiskistofu megi leggja það á kæranda sem stundi útgerð að kynna sér þær reglur sem gildi um úthlutun byggðakvóta eða óska sérstaklega eftir upplýsingum um hvaða skilyrði verði að uppfylla til að eiga kost á að fá úthlutað byggðakvóta. Með hliðsjón af framangreindu telji Fiskistofa að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Eftirtalin gögn fylgdu umsögn Fiskistofu til ráðuneytisins í ljósritum: 1) Ákvörðun Fiskistofu, dags. 14. mars 2022. 2) Frétt af vefsíðu Fiskistofu, dags. 17. febrúar 2022. 3) Leiðbeiningar og gátlisti fyrir byggðakvóta 2021.

Með bréfi, dags. 19. apríl 2022, sendi ráðuneytið kæranda, [A] f.h. [B ehf.], ljósrit af umsögn Fiskistofu, dags. 4. apríl 2022, og veitti félaginu kost á að gera athugasemdir við umsögnina.

Með tölvubréfi, dags. 11. maí 2022, sendi kærandi bréf frá Sveitarfélaginu Skagafirði, dags. 10. maí 2022, en þar komu fram athugasemdir við umsögn Fiskistofu sem kærandi sagði að væru sínar athugasemdir við umsögn Fiskistofu. Þar kom fram m.a. að hafnarreglugerð gildi um þrjár hafnir Hafnarsjóðs Skagafjarðar: Sauðárkrókshöfn, Hofsóshöfn og Haganesvíkurhöfn. Allar tilheyri þær Sveitarfélaginu Skagafirði. Þótt gera megi ráð fyrir því, í tilviki Sauðárkróks og Hofsóss, að sjósókn hafi jafnan tengst íbúum þeirra þéttbýliskjarna þar sem viðkomandi hafnar sé að finna sé hitt einnig þekkt, bæði fyrr og nú, að íbúar nágrannasveita í Skagafirði stundi sjóinn frá viðkomandi höfnum. Svo lengi sem um sé að ræða skattþegna sveitarfélagsins standi rök til þess að ekki ætti að einblína um of á hvar viðkomandi útgerð hefur lögheimili sitt, þegar metið sé hvaða þýðingu einstakir bátar hafi fyrir atvinnu í viðkomandi byggðarlagi. Það hvar viðkomandi bátur sé skráður og ekki síður hvar viðkomandi bátur landar afla sínum hljóti að hafa mikið vægi við slíkt mat. Tilgangur með byggðakvótanum hljóti alltaf að vera sá að stuðla að auknum tekjum og atvinnu í viðkomandi byggðarlagi. Of mikil áhersla á lögheimili útgerðarinnar geti haft óheppilegar afleiðingar í för með sér og aftrað eigendum smáútgerða að finna sér heimili í nærsveitum viðkomandi staða, en lögheimili slíkra útgerða hljóta oft að fylgja lögheimili fyrirsvarsmanna/eigenda þeirra. Í þessu sambandi sé einnig rétt að benda á mikilvægi þess að það húsnæði sem býðst sé oft óboðlegt slíkum aðilum vegna áskilnaðar um að útgerð sé skráð með lögheimili í viðkomandi byggðarlagi. Einnig skuli í þessu sambandi bent á að orðið „skráningarstaður“ í 5. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006 hljóti að eiga við um skráningarhöfn skips en ekki lögheimili útgerðar. Sýnist því það orð laganna ekki kalla á áskilnað um lögheimili samkvæmt c-lið 1. gr. reglugerðar nr. 995/2021. Ennfremur sé bent á að umrætt skip hafi frá 30. apríl 2021 verið skráð með heimahöfn í Sauðárkrókshöfn samkvæmt upplýsingum af vef Fiskistofu. Af þeim vef sjáist einnig að þar hafi skipið landað öllum afla sínum á fiskveiðiárinu 2020/2021 ef frá sé talin löndun á 100 kílóum af þorski þann 1. september 2021, sem ekki séu skráð á Sauðárkrókshöfn en hafi óljósa skráningu á umræddum vef fiskistofu. Akvegurinn frá [D], sem sé lögheimili útgerðar kæranda, sé tæplega 23 km frá þéttbýlinu á Sauðárkróki, þar af sé um 7 km akvegur heim að bænum. Loftlínan sé hins vegar einungis 13,2 km. Höfnin á Sauðárkróki sé næsta höfn við [D]. Ekki sé hægt að gera sér í hugarlund að þessi lögheimilisstaður auki líkur á að afli viðkomandi skips hafi eitthvað minni viðkomu á Sauðárkróki en hefði verið ef lögheimilið væri þar. Kærandi hafi bent á mikilvægi þess að gætt sé jafnræðissjónarmiða við afgreiðslu á máli hans. Þótt sveitarfélagið treysti á að Fiskistofa hafi jafnræðisreglur í hávegum vilji það undirstrika mikilvægi þess að ítarleg rök verði færð fyrir þeim atriðum sem ráða niðurstöðu málsins hvað það varðar.

 

 

Rökstuðningur

Um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2021/2022 gildir ákvæði 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða. Í 1. mgr. greinarinnar kemur fram að á hverju fiskveiðiári sé ráðherra heimilt að ráðstafa aflamagni í óslægðum botnfiski skv. 5. mgr. 8. gr. sem hér segir:   1. Til að mæta áföllum sem fyrirsjáanleg eru vegna verulegra breytinga á aflamarki einstakra tegunda. Til stuðnings byggðarlögum, í samráði við Byggðastofnun, þannig: a. Til minni byggðarlaga sem lent hafa í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi og háð eru veiðum eða vinnslu á botnfiski. b. Til byggðarlaga sem hafa orðið fyrir óvæntri skerðingu á heildaraflaheimildum fiskiskipa sem gerð hafa verið út og landað hafa afla í viðkomandi byggðarlögum og sem hefur haft veruleg áhrif á atvinnuástand í byggðarlögunum. Í 5. mgr. greinarinnar er ráðherra falið að setja með reglugerð almenn skilyrði fyrir úthlutun aflaheimilda til fiskiskipa innan einstakra byggðarlaga. Skulu þau skilyrði m.a. varða skráningarstað, skráningartíma, eignarhald, skiptingu milli fiskiskipa, lágmarksverð, tryggingar fyrir greiðslum og framkvæmd úthlutunar.

Á grundvelli framangreinds ákvæðis hefur ráðherra sett reglugerð nr. 995/2021, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2021/2022. Í 1. gr. reglugerðarinnar eru talin upp almenn skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta en þau eru:  a) að skip hafi haft leyfi til veiða í atvinnuskyni við lok umsóknarfrests, sbr. 4. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, b) að skip hafi verið skráð í viðkomandi byggðarlagi 1. júlí 2021 og c) að skip hafi verið í eigu eða leigu einstaklinga eða lögaðila með heimilisfang í viðkomandi byggðarlagi 1. júlí 2021. Miðað skal við lögheimili einstaklinga samkvæmt þjóðskrá og heimilisfang lögaðila samkvæmt fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra.

Einnig eru í 4. gr. reglugerðarinnar viðmiðanir um úthlutun aflaheimilda til einstakra fiskiskipa en samkvæmt ákvæðinu er gert ráð fyrir að úthlutun aflaheimilda skuli fara fram til einstakra fiskiskipa sem uppfylla almenn skilyrði reglugerðarinnar og reglur um sérstök skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta í einstökum sveitarfélögum sem ráðuneytið hefur staðfest, eftir því sem við á og skuli úthlutað hlutfallslega af því aflamarki sem fallið hefur til viðkomandi byggðarlags miðað við allan landaðan botnfiskafla í tegundum sem hafa þorskígildisstuðla, í þorskígildum talið innan viðkomandi byggðarlags á tímabilinu 1. september 2020 til 31. ágúst 2021. Komi minna en 100 þorskígildiskíló í hlut fiskiskips samkvæmt framangreindum reglum fellur niður úthlutun til þess og skiptist hlutur þess milli annarra fiskiskipa frá sama byggðarlagi sem uppfylla skilyrði fyrir úthlutun í samræmi við skiptingu samkvæmt úthlutunarreglum.

Þá koma fram í reglugerðinni ákvæði um skyldu fiskiskipa til að landa afla til vinnslu í byggðarlagi, sbr. 6. gr. o.fl.

Samkvæmt 5. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006 getur ráðherra heimilað á grundvelli rökstuddra tillagna sveitarstjórnar að sett verði sérstök viðbótarskilyrði fyrir úthlutun aflaheimilda í einstökum byggðarlögum enda séu þau byggð á málefnalegum og staðbundnum ástæðum og í samræmi við hagsmuni viðkomandi byggðarlaga. Sambærilegt ákvæði er í 2. gr. reglugerðar nr. 995/2021.

Sett hafa verið sérstök viðbótarskilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta á Sauðárkróki í Sveitarfélaginu Skagafirði fyrir fiskveiðiárið 2021/2022 samkvæmt framangreindu ákvæði með auglýsingu nr. 192/2022, um (1.) staðfestingu reglna sveitarfélaga um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2021/2022 sem ekki hafa áhrif á úrlausn þessa máls.

Um skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta til einstakra fiskiskipa á Sauðárkróki í Sveitarfélaginu Skagafirði fyrir fiskveiðiárið 2021/2022 fer því eftir 10. gr. laga nr. 116/2006, ákvæðum reglugerðar nr. 995/2021 og auglýsingu nr. 192/2022.

Í 4. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006 kemur fram m.a. að ráðherra skuli kveða á um skilgreiningu á byggðarlagi í reglugerð um ráðstöfun aflaheimilda skv. 2. tölul. 1. mgr. 10. gr. Í 2. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 919/2021, um úthlutun byggðakvóta til byggðarlaga á fiskveiðiárinu 2021/2022 komi eftirfarandi fram: „Byggðarlög skv. 1. mgr. eru byggðakjarnar sem liggja að sjó og eru háðir veiðum og/eða vinnslu á sjávarafla. Minni byggðarlög teljast byggðarlög með færri íbúum en 2.000, miðað við 1. janúar 2021.“

Varmahlíð er sjálfstætt byggðarlag samkvæmt framangreindri skilgreiningu og tilheyrir ekki byggðarlaginu Sauðárkróki en engum byggðakvóta hefur verið úthlutað til Varmahlíðar.

[B ehf.] sem er einkahlutafélag og eigandi og útgerðaraðili bátsins [C] frá 30. apríl 2021, var með heimilisfang að {D] 1. júlí 2021 samkvæmt fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra og voru því ekki uppfyllt skilyrði stafliðar c 1. gr. reglugerðar nr. 995/2021 fyrir úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2021/2022 til bátsins [C]. Þegar af þeirri ástæðu eru ekki skilyrði fyrir að fallast á kröfur kæranda í máli þessu.

Þá er það mat ráðuneytisins að aðrar málsástæður í stjórnsýslukæru geti ekki haft áhrif á niðurstöðu þessa máls. 

Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða ráðuneytisins að ekki séu skilyrði fyrir að úthluta af byggðakvóta Sauðárkróks í Sveitarfélaginu Skagafirði fyrir fiskveiðiárið 2021/2022 til bátsins [C] en samkvæmt því ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun Fiskistofu, dags. 14. mars 2022, um að hafna umsókn kæranda, [A] f.h. [B ehf.], um úthlutun byggðakvóta til bátsins [C].

Beðist er velvirðingar á þeim töfum sem hafa orðið á uppkvaðningu þessa úrskurðar en þær er að rekja til mikilla anna í ráðuneytinu.

 

 

Úrskurður

Ráðuneytið staðfestir ákvörðun Fiskistofu, dags. 14. mars 2022, um að hafna umsókn kæranda, [A]  f.h. [B ehf]., um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2021/2022 til bátsins [C].

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira