Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 16/2022. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála.

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 13. apríl 2022
í máli nr. 16/2022:
Malbiksstöðin ehf.
gegn
Isavia ohf.

Lykilorð
Stöðvun samningsgerðar aflétt.

Útdráttur
Kærunefnd útboðsmála féllst á að aflétta stöðvun samningsgerðar, sbr. 2. mgr. 107. gr. og 1. mgr. 110. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup.

Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 14. mars 2022 kærði Malbiksstöðin ehf. útboð Isavia ohf. (hér eftir vísað til sem varnaraðila) nr. U21062 auðkennt „Malbiksviðhald á flugbrautum Reykjavíkurflugvallar“. Kærandi krafðist þess að kærunefnd útboðsmála stöðvi innkaupaferli varnaraðila og samningsgerð með vísan til 1. mgr. 110. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup þar til endanlega hefur verið leyst úr kæru þessari. Þá var þess krafist að kærunefnd útboðsmála felli úr gildi ákvörðun varnaraðila um að hafna tilboði kæranda í útboðinu. Þess var einnig krafist að kærunefnd útboðsmála léti í ljós álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart kæranda. Enn fremur er gerð krafa um að varnaraðila verði gert að greiða kostnað kæranda við að hafa kæruna uppi samkvæmt mati kærunefndar útboðsmála.

Með greinargerð 18. mars 2022 krafðist varnaraðili þess að kærunni verði vísað frá eða að öllum kröfum kæranda verði hafnað. Þá var þess krafist að stöðvun samningsgerðar yrði aflétt. Með bréfi 25. mars 2022 kom varnaraðili á framfæri frekari sjónarmiðum og gögnum í málinu. Kærunefnd útboðsmála óskaði eftir því að kærandi legði fram öll þau gögn sem fylgdu með tilboði hans í hinu kærða útboði og lagði kærandi þau fram þann 6. apríl 2022. Þá gaf nefndin kæranda 12. apríl stuttan frest til að bregðast við fram komnum sjónarmiðum varnaraðila.

Með bréfi hinn 12. apríl 2022 lagði kærandi fram nýjar athugasemdir í málinu. Í þeim féll hann frá gerðum kröfum sínum og lagði fram nýja kröfugerð. Krefst kærandi þess nú að kærunefnd útboðsmála staðfesti að ákvörðun varnaraðila um að hafna tilboði kæranda hafi verið ólögmæt. Þá krefst kærandi þess að kærunefnd útboðsmála láti í ljós álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart kæranda. Loks er gerð krafa um að varnaraðila verði gert að greiða kostnað kæranda við að hafa kæruna uppi samkvæmt mati kærunefndar útboðsmála.

Með bréfi hinn 13. apríl 2022 lagði varnaraðili fram viðbótarathugasemdir vegna nýrrar kröfugerðar varnaraðila. Þar er þess krafist að kærunefnd útboðsmála felli tafarlaust úr gildi stöðvun samningsgerðar í málinu, enda hefur hin breytta kröfugerð leitt til þess að kærandi hafi ekki lengur hagsmuni af stöðvuninni.

Niðurstaða

Í athugasemdum kæranda hinn 12. apríl 2022 er tekið fram að kærandi hefði ákveðið að breyta kröfugerð sinni í málinu og falla frá kröfum sínum í I. og II. lið kærunnar, þ.e. um stöðvun innkaupaferlis varnaraðila og samningsgerð skv. 1. mgr. 110. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup þar til endanlega hafi verið leyst úr kæru þessari, og að felld verði úr gildi ákvörðun varnaraðila um að hafna tilboði kæranda í hinu kærða útboði, og gert nýjar kröfur í málinu. Þar með þykir ljóst að ekki sé lengur uppi krafa um stöðvun samningsgerðar í máli þessu. Samkvæmt þessu verður að fallast á kröfu varnaraðila um að aflétta stöðvun samningsgerðar í hinu kærða útboði, sbr. 2. mgr. 107. gr., sbr. 1. mgr. 110. gr. laga nr. 120/2016.

Ákvörðunarorð

Aflétt er stöðvun samningsgerðar í kjölfar útboðs nr. U21062 auðkennt „Malbiksviðhald á flugbrautum Reykjavíkurflugvallar“.


Reykjavík, 13. apríl 2022


Reimar Pétursson

Kristín Haraldsdóttir

Auður Finnbogadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira