Hoppa yfir valmynd

Nr. 49/2022 Úrskurður

 KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 27. janúar 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 49/2022

í stjórnsýslumáli nr. KNU21120001

 

Kæra [...]

og barna hennar

á ákvörðunum Útlendingastofnunar

 

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 30. nóvember 2021 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Íraks (hér eftir nefnd kærandi), ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 10. nóvember 2021, um að synja kæranda og börnum hennar, [...], fd. [...], (hér eftir A), og [...], fd. [...], (hér eftir B), ríkisborgurum Íraks, um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og að henni og börnum hennar verði veitt staða flóttafólks með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Til vara krefst kærandi þess að henni og börnum hennar verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Til þrautavara krefst kærandi þess að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og henni og börnum hennar verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 74. gr. laga um útlendinga.

Að lokum er gerð sú krafa að ákvörðun í máli A verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka mál hennar til meðferðar á ný.

Vísað er til 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga, en samkvæmt ákvæðinu eigi maki útlendings sem njóti alþjóðlegrar verndar og börn hans yngri en 18 ára einnig rétt á alþjóðlegri vernd nema sérstakar ástæður mæli því í mót. Þá er jafnframt vísað til meginreglunnar um einingu fjölskyldunnar.

Fyrrgreindar ákvarðanir eru kærðar á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.      Málsmeðferð

Kærandi og börn hennar sóttu um alþjóðlega vernd hér á landi hinn 13. september 2021. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. hinn 11. október 2021 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðunum hinn 10. nóvember 2021 synjaði Útlendingastofnun kæranda og börnum hennar um alþjóðlega vernd ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Voru framangreindar ákvarðanir kærðar til kærunefndar útlendingamála hinn 30. nóvember 2021 og barst greinargerð kæranda hinn 20. desember 2021. Frekari gögn bárust 14., 18. og 26. janúar 2022. Í ljósi frásagnar kæranda og skýrslna um heimaríki taldi kærunefnd ekki ástæðu til að gefa kæranda kost á að koma fyrir nefndina, sbr. 7. mgr. 8. gr. laga um útlendinga.

III.    Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hún sé í hættu í heimaríki þar sem hún eigi á hættu að verða fórnarlamb hryðjuverkamanna. Þá óttist kærandi föðurbróður sinn.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar var sú að kærandi væri ekki flóttamaður og henni skyldi synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi samkvæmt ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar í  málum barna kæranda, kom fram að í viðtali við kæranda hafi hún ekki viljað að tekin yrðu viðtöl við börn hennar. Taldi Útlendingastofnun að framburður kæranda um málsástæður barna hennar væri fullnægjandi til að leggja til grundvallar ákvarðana í málum þeirra án þess að taka viðtöl við þau. Þá kom fram að í ákvörðun kæranda hefði verið tekin afstaða til aðstæðna barnanna og hvernig þær aðstæður horfi við einstökum þáttum ákvörðunarinnar. Var það niðurstaða Útlendingastofnunar, með vísan til niðurstöðu í máli kæranda, að gættum ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, laga um útlendinga og barnaverndarlaga, að börnum kæranda væri ekki stefnt í hættu með því að fylgja móður þeirra til heimaríkis.

Kæranda og börnum hennar var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV.    Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð vísar kærandi til greinargerðar sem lögð var fram til Útlendingastofnunar, dags. 26. október 2021, hvað varðar málavexti og almennar upplýsingar um aðstæður í Írak. Kemur þar m.a. fram að kærandi sé Kúrdi og súnní-múslimi og hafi verið alin upp í borginni Erbil. Fyrir flótta frá heimaríki hafi hún og börn hennar verið búsett í Kirkuk. Þegar kærandi hafi gifst eiginmanni sínum og barnsföður hafi hún flutt til borgarinnar Sulaymaniyah, árið 2012, þar sem hann hafi verið búsettur. Eiginmaður kæranda hafi unnið á bifreiðaverkstæði ásamt frænda sínum. Árið 2017 hafi þeir unnið verk fyrir einstaklinga sem þeir hafi talið víst að væru meðlimir hryðjuverkasamtaka og hafi eiginmaður kæranda farið og tilkynnt um grun sinn til lögreglunnar. Hafi umræddir einstaklingar komist að því og hafið ofsóknir gegn honum sem hafi leitt til þess að hann hafi flúið Írak fyrirvaralaust. Eiginmaður kæranda hafi komið hingað til lands hinn 27. ágúst 2017 og lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd en hlotið synjun á umsókn sinni hjá Útlendingastofnun sem staðfest hafi verið með úrskurði kærunefndar hinn 26. júlí 2018. Eiginmaður kæranda sé enn hér á landi. Þegar eiginmaður kæranda hafi flúið árið 2017 hafi tengdafaðir hennar sagt henni að pakka saman og flytja til Erbil sem hún hafi gert. Hafi hópurinn gengið á nágranna þeirra í Sulaymaniyah og fengið upplýsingar um að hún hefði farið til Erbil og leitað hennar þar. Kærandi hafi því hvorki verið örugg í Erbil né Sulaymaniyah. Í kjölfarið hafi faðir kæranda sem búi í Erbil flutt hana og börn hennar árið 2019 til Kirkuk þar sem frændi hennar búi. Hafi faðir kæranda greitt frænda hennar fyrir að hafa hana og börn hennar. Frændi kæranda kenni íslamstrú og sé kunnur í samfélaginu. Hafi hann gert kröfu um að A myndi undirgangast kynfæralimlestingu en þegar kærandi hafi mótmælt því hafi hann ráðist á hana með þeim afleiðingum að nef hennar hafi brotnað. Kærandi hafi árið 2020 þurft að undirgangast aðgerð vegna nefbrotsins. Þá hafi frændi kæranda komið í veg fyrir að A gæti gengið í skóla þar sem hún hafi ekki undirgengist kynfæralimlestingu. Einnig hafi frændi kæranda reynt að fá kæranda til að ganga í hjúskap með ókunnugum manni sem hafi átt tvær eiginkonur fyrir. Hafi frændi kæranda talið að hún væri að setja of miklar birgðir á fjölskyldu sína og ætti að giftast til að losa fjölskylduna undan þeim birgðum. Að lokum hafi faðir kæranda árið 2021 selt land í sinni eigu til að geta fjármagnað flótta hennar og barna hennar frá landinu. Kærandi óttist það að hryðjuverkahópurinn muni ræna börnum hennar og valda þeim skaða. Jafnframt er í greinargerðinni sem lögð var fram til Útlendingastofnunar umfjöllun um stöðu kvenna og barna í Írak og um kynfæralimlestingar kvenna og stúlkna í samfélögum Kúrda í Írak.

Í greinargerð kæranda eru gerðar tvær athugasemdir við ákvörðun og málsmeðferð Útlendingastofnunar. Í fyrsta lagi er gerð athugasemd við það að Útlendingastofnun hafi ekki fjallað á sjálfstæðan hátt í ákvörðun A um málsástæðu hennar um að hafa ástæðuríkan ótta við það að verða þolandi kynfæralimlestinga í heimaríki sínu. Við úrlausn á þeirri málsástæðu hafi Útlendingastofnun látið duga að byggja á því að kærandi og eiginmaður hennar væru sameinuð hér á landi, þau væru bæði andvíg kynfæralimlestingum og að dóttir þeirra, A, ætti ekki á hættu slíka meðferð í heimaríki. Er í greinargerð því haldið fram að A hafi átt rétt á því að mál hennar hefði verið rannsakað óháð málsástæðum foreldra hennar þar sem hennar umsókn byggi á eigin ótta við ofsóknir. Þá er vísað til þess að í greinargerð sem lögð hafi verið fram til Útlendingastofnunar hafi verið reifaðar ítarlegar heimildir þess efnis að kynfæralimlestingar á ungum stúlkum eigi sér enn stað í Kúrdistan en í hinum kærðu ákvörðunum hafi stofnunin ekkert fjallað um þær heimildir. Í öðru lagi er gerð athugasemd við þá afstöðu Útlendingastofnunar í máli kæranda að líta megi svo á að hættan á heiðursofbeldi sé liðin hjá. Kærandi telur að þegar um heiðursofbeldi sé að ræða megi líkja aðstæðum við það að konan hafi framið glæp sem hún eigi eftir að taka út refsingu fyrir. Með vísan til framangreinds standi kærandi enn frammi fyrir hættu á heiðursofbeldi í heimaríki þrátt fyrir að hún myndi snúa aftur þangað í fylgd eiginmanns síns.

Kærandi gerir aðallega kröfu um að henni og börnum hennar verði veitt alþjóðleg vernd hér á landi sem flóttamenn skv. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til stuðnings aðalkröfu er  vísað til málsástæðna og lagaraka sem rakin hafi verið í greinargerð sem lögð var fram til Útlendingastofnunar. Í þeirri greinargerð er aðalkrafa um vernd á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga byggð á því að hún og börn hennar séu flóttamenn samkvæmt skilgreiningu ákvæðisins þar sem hún og A hafi ástæðuríkan ótta við það að A verði fyrir kynfæralimlestingu í heimaríki. Þá sé vísað til samsafns athafna og þess að kærandi og börn hennar óttist ofsóknir hryðjuverkasamtaka. Óttist kærandi að verða fórnarlamb þeirra hryðjuverkasamtaka sem hafi ofsótt eiginmann hennar. Í greinargerð til kærunefndar er að auki byggt á því að kærandi hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í heimaríki í formi kynbundins ofbeldis, hættu á heiðursofbeldi og með vísan til þess að hún tilheyri tilteknum þjóðfélagshópi. Er vísað til þess að af frásögn kæranda að dæma hafi hún verið algerlega undir valdi karlmanna sem hafi tekið ákvarðanir um hagi hennar og barnanna hennar. Kærandi hafi orðið fyrir líkamsárásum af hálfu frænda síns sem virðist hafa haft vald yfir henni. Þá hafi frændi kæranda reynt að fá hana til að ganga í hjónaband og einnig reynt að neyða hana til að láta A gangast undir kynfæralimlestingu. Þegar kærandi hafi mótmælt hafi frændi hennar komið í veg fyrir skólagöngu A. Með vísan til framangreinds er byggt á því að kærandi standi frammi fyrir raunverulegri hættu á áframhaldandi kynbundnu ofbeldi og heiðursglæpum í heimaríki og megi því ótti hennar teljast ástæðuríkur. Einnig er byggt á því að kærandi og börn hennar hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í heimaríki vegna samsafns athafna. Auk alls framangreinds ríki ótryggt öryggisástand  í Kirkuk héraði  auk þess sem konur verði fyrir alvarlegri mismunun.

Þá er í greinargerð vísað til skilgreiningar 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga hvað varðar það hverjir geti verið gerendur ofsókna. Samkvæmt  a-lið ákvæðisins geti það verið ríkið og samkvæmt c-lið geti það verið aðrir aðilar sem ekki fara með ríkisvald ef sýnt sé fram á að ríkið eða hópar, þar með talið alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem falli undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Er í greinargerð því haldið fram að kærandi og börn hennar óttist framangreinda aðila þar sem kynfæralimlestingar séu ennþá algengar í Erbil, Sulaymaniyah og Kirkuk þrátt fyrir að þær séu bannaðar samkvæmt lögum. Þá sé konum gert nær ómögulegt að leita verndar gegn kynbundnu ofbeldi, samanber heimildir sem raktar hafi verið í greinargerð. Að öllu framangreindu virtu telur kærandi að líta beri svo á að yfirvöld í heimaríki hennar hafi ekki vilja til að veita henni og börnum hennar þá vernd sem þau þarfnist.

Þá vísar kærandi til þess að með því að senda hana og börn hennar til heimaríkis yrði brotið gegn meginreglunni um bann við endursendingum, sbr. 42. gr. laga um útlendinga. Að auki telur kærandi að slík ákvörðun muni brjóta í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna. 

Til vara gerir kærandi kröfu um að henni og börnum hennar verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Með hliðsjón af því sem rakið sé í greinargerð kæranda í tengslum við aðalkröfu þeirra sé ljóst að hún og börn hennar uppfylli skilyrði fyrri hluta 2. mgr. 37.gr. laga um útlendinga, þar sem raunhæf ástæða sé til að ætla að þau eigi á hættu að sæta pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi refsingu verði þau send til heimaríkis. Þá eigi síðari hluti ákvæðisins jafnframt við enda ljóst að langvarandi stríðsástand hafi ríkt í Írak og liggi fyrir að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna ráði ríkjum frá því að senda fólk aftur til Írak vegna þeirra vopnuðu átaka sem hafi átt sér stað og eigi sér enn stað í landinu.

Þrautavarakrafa kæranda er sú að henni og börnum hennar verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Er sú krafa byggð á því að þau hafi ríka þörf fyrir vernd vegna erfiðra félagslegra aðstæðna þeirra í Írak. Er vísað sérstaklega til þess að í athugasemdum með ákvæðinu komi fram að líta skuli til aðstæðna kvenna sem hafi sætt kynferðislegu ofbeldi, sem leitt geti til erfiðrar stöðu þeirra í heimaríki, eða aðstæðna kvenna sem ekki felli sig við kynhlutverk sem sé hefðbundið í heimaríki þeirra og eigi því á hættu útskúfun eða ofbeldi við heimkomu. Eins og rakið hafi verið í greinargerð hafi kærandi verið fórnarlamb kynbundins ofbeldi og hafi hún verið undirokuð af karlmönnum. Þá óttist kærandi að A verði neydd til að undirgangast kynfæralimlestingu. Þá er krafan  einnig byggð á því að meta þurfi hvað sé börnum kæranda fyrir bestu og er m.a. vísað til skýrslu Flóttamannastofnunar frá því í maí 2021 og 2. mgr. 2. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Telur kærandi að mat á hagsmunum barna hennar skuli ekki eingöngu unnið út frá aðstæðum hennar heldur þurfi fyrst og fremst að leggja mat á hagsmuni barnanna út frá þeirra eigin forsendum. Þá beri stjórnvöldum að kanna ástand mála er varðar börn í Írak og hvaða áhrif það muni koma til með að hafa fyrir börn kæranda verði þau endursend ásamt henni aftur þangað. Er vísað til þess að samkvæmt heimildum sé Írak talið vera eitt af hættulegustu svæðum heims fyrir börn.

Að lokum er gerð sú krafa að ákvörðun í máli A verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka mál hennar til meðferðar á ný. Líkt og rakið hafi verið í athugasemdakafla greinargerðar kæranda hafi A ekki fengið sjálfstæða og efnislega umfjöllum um kröfu sína um viðurkenningu á stöðu flóttamanns á grundvelli þess að hún hafi ástæðuríkan ótta við að verða fyrir limlestingu á kynfærum í heimaríki. Er vísað til þess að samkvæmt meginreglu stjórnsýslulaga eigi umsækjendur um alþjóðlega vernd rétt á því að mál þeirra fái umfjöllun á tveimur stjórnsýslustigum. Þar sem Útlendingastofnun hafi ekki fjallað um einstaklingsbundnar ástæður A telur kærandi ljóst að mál A hafi ekki fengið umfjöllun á tveimur stjórnsýslustigum.

V.      Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað gildum írökskum vegabréfum fyrir sig og börn sín. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi og börn hennar séu írakskir ríkisborgarar.

Réttarstaða barna kæranda

Staða barna á flótta ræðst af viðeigandi reglum í þjóðarétti og landsrétti. Í 22. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, segir í fyrsta lagi að aðildarríki skuli gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að barn sem leiti eftir réttarstöðu sem flóttamaður, eða sem talið sé flóttamaður samkvæmt viðeigandi reglum eða starfsháttum þjóðaréttar eða landslaga, fái, hvort sem það sé í fylgd foreldra eða annarra eða ekki, viðeigandi vernd og mannúðlega aðstoð við að nýta sér þau réttindi sem við eigi og kveðið sé á um í samningnum.

Í 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 segir að ákvarðanir sem varði barn skuli teknar með hagsmuni þess að leiðarljósi, því tryggður réttur til að tjá skoðanir sínar í málum sem það varði og tekið tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Í 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga kemur fram að við ákvörðun sem sé háð mati stjórnvalds skuli huga að öryggi barns, velferð þess og félagslegum þroska og möguleika þess til að sameinast fjölskyldu sinni.

Sérstaklega er fjallað um mat stjórnvalda á umsóknum barna um alþjóðlega vernd í 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Þar segir að við mat á því hvort barn teljist flóttamaður samkvæmt lögunum skuli það sem barninu sé fyrir bestu haft að leiðarljósi. Við mat á því hvað barni sé fyrir bestu skuli stjórnvöld líta til möguleika barns á fjölskyldusameiningu, öryggis þess, velferðar og félagslegs þroska auk þess sem taka skuli tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Við ákvörðun í máli er varðar hagsmuni barns skuli stjórnvöld taka skriflega afstöðu til þessara atriða.

Almennt er viðurkennt að eðlilegur þroski barns sé best tryggður með því að vernda fjölskylduna. Sé ólögráða barn í fylgd annars eða beggja foreldra sinna eða annars úr fjölskyldunni sem hefur það á framfæri sínu og sá fer fram á réttarstöðu flóttamanns, ber að fara með málin í samræmi við meginregluna um einingu fjölskyldunnar. Ljóst er að börn þau sem hér um ræðir eru í fylgd móður sinnar og haldast úrskurðir fjölskyldunnar því í hendur.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Írak m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

 • 2020 Country Reports on Human Rights Practices: Iraq (U.S. Department of State, 30. mars 2021);
 • Anställning och avslutande av tjänst i peshmergan [Irak - KRI] (Migrationsverket, 30. júní 2017);
 • Concluding observations on the seventh periodic report of Iraq (UN Committee on the Elimination of Discrimination against Women, 12. nóvember 2019);
 • Country Fact Sheet. Iraq. (IOM, UN Migration, 2019);
 • Country Guidance: Iraq; Common analysis and guidance note (European Asylum Support Office, janúar 2021);
 • Country of Origin Information Report - Iraq - Actors of Protection (European Asylum Support Office, nóvember 2018);
 • Country of Origin Information Report - Iraq: Internal Mobility (European Asylum Support Office, febrúar 2019);
 • Country of Origin Information Report – Iraq: Key socio-economic indicators for Baghdad, Basra and Erbil (European Asylum Support Office, september 2020);
 • Country of Origin Information Report – Iraq - Security situation (EASO, 1. mars 2019);
 • Country of Origin Information Report – Iraq - Security Situation (EASO, október 2020);
 • Country Policy and Information Note – Iraq: Actors of protection (UK Home Office, desember 2020);
 • Country Policy and Information Note – Iraq: Female Genital Mutilation (UK Home Office, febrúar 2020);
 • Country Policy and Information Note – Iraq: ‘Honour’ crimes (UK Home Office, mars 2021);
 • Country Policy and Information Note – Iraq: Kurdish “honour” crimes (UK Home Office, ágúst 2017);
 • Country Policy and Information Note – Iraq: Internal relocation, civil documentation and returns (UK Home Office, 19. febrúar 2019);
 • Country Policy and Information Note – Iraq: Security and humanitarian situation (UK Home Office, maí 2020);
 • DFAT Country Information Report Iraq (Australian Government, Department of Foreign Affairs and Trade, 17. ágúst 2020);
 • Education in Iraq. Impact of Covid-19, protests, and pre-existing crises on needs (Acaps, nóvember 2020);
 • Female Genital Mutilation/Cutting – A statistical overview and exploration of the dynamics of change (UNICEF, júlí 2013);
 • Freedom in the World 2021 - Iraq (Freedom House, 3. mars 2021);
 • FGM in Iraqi Kurdistan: Short Report (28 Too Many, október 2020);
 • International Protection Considerations with Regard to People Fleeing the Republic of Iraq (UNCHR, maí 2019);
 • Irak: Basisinfo (Landinfo, 28. september 2018);
 • Iraq: Honour-based violence in the Kurdistan region; state protection and support services available to victims (Immigration and Refugee Board of Canada, 15. febrúar 2016);
 • Iraq - Targeting of Individuals (EASO, 7. mars 2019);
 • Iraq – Travel documents and other identity documents (Landinfo, 23. janúar 2014);
 • Kurdistan Region of Iraq (KRI): Women and Men in Honour-Related Conflicts (Danish Immigration Service, 9. nóvember 2018);
 • Overview of the Status of Women living without Safety Net in Iraq (Finnish Immigration Service, 22. maí 2018);
 • Rättsligt ställningstagande angående situationen i Irak (Migrationsverket, 19. janúar 2018);
 • Sexual and Gender-Based Violence in Iraq 2003-2018 A Mapping Report (Iraqi Al-Amal Association, Impunity Watch og PAX, maí 2018);
 • UNHCR position on returns to Iraq (UNHCR, 14. nóvember 2016);
 • The National Strategy to Combat Violence against Women and Girls 2018-2030 (United Nations reproductive health agency (UNFPA), 2020);
 • The World Factbook – Iraq (Central Intelligence Agency, síðast uppfært 18. janúar 2022);
 • World Report 2021 – Iraq (Human Rights Watch, 13. janúar 2021);
 • Fréttatilkynning á vefsíðu WADI samtakanna (Day of Zero Tolerance: Iraqi Kurdistan Government pledges to eliminate FGM | Wadi (wadi-online.org) og
 • Upplýsingasíða Johns Hopkins háskólans (https://coronavirus.jhu.edu/map.html, sótt 27. janúar 2022).

Írak er lýðræðisríki með tæplega 40 milljónir íbúa. Írak varð til eftir fyrri heimsstyrjöld þegar sigurvegarar stríðsins skiptu Mið-Austurlöndum á milli sín. Ríkið var breskt yfirráðasvæði fram til ársins 1932, þá tók við tímabil sem einkenndist af pólitískum óstöðugleika sem lauk árið 1958 þegar komið var á fót lýðveldi. Árið 1945 gerðist Írak aðili að Sameinuðu þjóðunum og fullgilti ríkið bæði alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi ásamt alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 1971. Ríkið fullgilti samning um afnám allrar mismununar gagnvart konum árið 1986, samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins árið 1994 og valfrjálsa viðbótarbókun við þann samning árið 2008. Ríkið fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 2011 og alþjóðasamning um vernd allra gegn mannshvörfum árið 2010.

Í skýrslu norsku landaupplýsingastofnunarinnar Landinfo frá janúar 2018 kemur fram að frá árinu 1968 til 2003 hafi Írak verið alræðisríki sem hafi lotið stjórn Ba‘ath-flokksins. Stjórn flokksins hafi verið steypt af stóli í kjölfar innrásar bandaríska hersins og bandamanna þeirra í Írak árið 2003. Frá innrásinni hafi ástandið á mörgum svæðum í Írak verið óstöðugt. Í skýrslu EASO frá nóvember 2018 kemur fram að samtök sem kenna sig við íslamskt ríki (Daesh) hafi hafið uppreisn árið 2014 og náð undir sig stórum landsvæðum. Frá þeim tíma hafi íröksk stjórnvöld, með aðstoð alþjóðasamfélagsins, náð miklum árangri í að ná aftur fullri stjórn yfir ríkinu þótt enn séu lítil svæði í vesturhluta landsins sem uppreisnarmenn hafi á valdi sínu. Þá kemur fram í skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna frá 2019 að dæmi séu um að hersveitir á vegum yfirvalda hafi framið mannréttindabrot gegn almennum borgurum, þ. á m. ólögmætar aftökur og pyndingar í varðhaldi. Alvarleg mannréttindabrot hafi haft mikil áhrif á almenna borgara á þeim svæðum í Írak sem átökin hafi náð til. Af þeim sökum hafi Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna lagst gegn endursendingum Íraka frá þeim svæðum þar sem átök geisi og þar sem ástandið sé óöruggt eftir að hafa verið undir stjórn Daesh. Þá hafi það verið mat stofnunarinnar að vegna almenns ástands í Írak, þ.m.t. vegna fjölda þeirra sem hafi þurft að flýja innanlands, væri í miklum meirihluta mála ekki grundvöllur til að líta svo á að Írakar frá þessum svæðum gætu notið verndar í öðrum hlutum landsins.

Af skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytis frá árinu 2021 má ráða að spilling sé mikið vandamál í Írak, þar á meðal í stjórnmálum, löggæslu- og réttarkerfinu. Á undanförnum árum hafi talsvert verið unnið að því að uppræta spillingu af hálfu embættismanna í landinu og eitthvað hafi miðað áfram í þeim málum. Í upplýsingaskýrslu EEAS frá árinu 2014 kemur fram að á tímabilinu 2005 til 2013 hafi íröksk stjórnvöld unnið í samstarfi við Evrópusambandið að umbótum á stofnunum ríkisins, svo sem lögreglu, dómstólum og fangelsum landsins. Áætlunin nefnist The European Union Integrated Rule of Law Mission for Iraq (EUJUST-LEX-Iraq) og hafi m.a. 7000 opinberir starfsmenn undirgengist þjálfun í því skyni að koma á skilvirkri laga- og mannréttindavernd.

Í framangreindum skýrslum, þ. á m. skýrslu finnsku útlendingastofnunar frá árinu 2018 og skýrslu EASO frá 2019, er fjallað um erfiða stöðu kvenna í Írak. Fram kemur að efnahagsþvinganir og langvarandi átök hafi leitt til þess að lífsgæði þeirra hafi farið versnandi. Karllæg gildi séu ríkjandi í Írak og skortur sé á umræðu um réttindi kvenna og getu þeirra til að taka frekar þátt í samfélaginu. Konur séu jaðarsettar á mörgum sviðum samfélagsins og hafi mætt marvígslegum hindrunum, þ. á m. hvað varðar aðgengi að vinnumarkaði og heilbrigðiskerfi. Þá hafi margvísleg mannréttindabrot beinst að konum, þ. á m. kynferðis- og heimilisofbeldi, kynfæralimlestingar, heiðursmorð og þvinguð hjónabönd. Konur hafi veigrað sér við að leita aðstoðar lögregluyfirvalda vegna þessa, m.a. vegna viðmóts yfirvalda í garð kvenna, og séu málin því oft leyst innan viðkomandi fjölskyldu eða ættbálks. Fram kemur að yfirvöld í Írak hafi gerst aðili að alþjóðlegum samningum um réttindi kvenna, s.s. samningi Sameinuðu þjóðanna frá 1986 um brottnám allrar mismunar gegn konum (e. UN ‘s Convention on the Elimination of All Forms of Discrimination Against Women, CEDAW), en hafi gert fyrirvara við nokkur af helstu ákvæðum samningsins. Þá hafi yfirvöld komið á fót aðgerðaráætlun um stöðu kvenna í Írak (e. National Action Plan concerning women for 2014-2018, NAP), sem byggð er á ályktun Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna frá 2014. Fyrrnefnd aðgerðaráætlun hafi átt að ná fram því markmiði að auka þátttöku kvenna í stjórnmálum og bæta réttindi þeirra en skort hafi á útfærslu og framkvæmd áætlunarinnar.

Í skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá árinu 2017 og 2021 kemur fram að þrátt fyrir að heiðurstengt ofbeldi sé refsivert samkvæmt landslögum þá sé það nokkuð útbreitt í menningu Kúrdistan. Heiðursmorð sé yfirleitt morð á kvenkyns ættingja sem framið sé í því skyni að endurheimta heiður fjölskyldunnar þar sem þolandinn hafi á einhvern hátt vanvirt fjölskylduna. Einnig séu heimildir um að karlmenn eigi á hættu að verða þolendur heiðursglæpa en ástæður fyrir því séu einkum þegar karlmenn neiti að ganga í skipulagðan hjúskap, séu opinberlega samkynhneigðir eða tvíkynhneigðir eða neiti að taka þátt í heiðurstengdu ofbeldi gegn öðrum. Írakar tilheyri mismunandi ættbálkum og lifi eftir fornum ættbálkasiðum, venjum og lögum, en hefðbundin fjölskyldugildi séu rótgróin í menningunni. Séu konur í miklum meirihluta þeirra sem séu þolendur heiðursglæpa og þá yfirleitt fyrir að hafa, að mati fjölskyldna þeirra, fært skömm yfir fjölskylduna með einhverjum hætti. Árið 2002 hafi kúrdísk yfirvöld breytt írökskum hegningarlögum á þann veg að heiðursmorð séu skilgreind sem morð og gerendur saksóttir á þeim grundvelli. Þá hafi verið samþykkt lög árið 2004 sem banni mildun refsinga fyrir heiðursglæpi. Hins vegar séu heimildir um að kúrdísk stjórnvöld hafi látið hjá líða að saksækja gerendur ofbeldisglæpa gegn konum, þar á meðal heiðursglæpa. Þá kemur fram í skýrslu dönsku útlendingastofnunarinnar frá nóvember 2018 að þekkt sé í Kúrdistan að konur séu neyddar í hjónabönd af ýmsum ástæðum. Sambönd utan hjónabands séu ekki leyfð í Kúrdistan og áhættusamt sé fyrir fólk að hittast utan hjónabands. Jafnframt kemur fram að heiðursglæpir séu algengari í dreifbýli og á meðal ómenntaðra fjölskyldna. Karlmenn sem eigi í samböndum utan hjúskapar séu ekki taldir smána heiður fjölskyldunnar og að karlmenn í slíkum aðstæðum eigi að venju til auðvelt með að komast hjá deilum. Hins vegar séu karlmenn undir þrýstingi um að giftast og dæmi séu um að menn hafi verið drepnir neiti þeir því. Þá segir að þegar karlmaður sé myrtur í heiðursdeilu eigi það frekar rætur að rekja til hefndar eða blóðhefndar en heiðurs fjölskyldunnar. Í slíkum málum séu báðar fjölskyldurnar vanalega samþykkar morðinu.

Í skýrslu mannúðarsamtakanna 28 Too Many frá árinu 2020 kemur fram að upp úr aldamótum hafi þýsku mannúðarsamtökin WADI varpað ljósi á þeirri hefð í Kúrdistan að láta konur og stúlkur undirgangast umskurð á kynfærum. Hafi samtökin, með könnunum og skýrslum sínum frá 2010 og 2012, ásamt svæðisbundnum samtökum og kvenréttindahópum sett af stað „Stop FGM in Kurdistan“ herferðina til að vekja athygli á heilsufarslegum afleiðingum slíkra aðgerða og þrýsta á að bann við þeim yrði sett í lög. Í kjölfar beiðna og með notkun fjölmiðla, ásamt stuðningi frá svæðisbundnum þingmönnum, var lögfest bann við umskurði kvenna árið 2011 í lögum um bann við heimilisofbeldi nr. 8/2011. Í skýrslu UNICEF frá júlí 2013 kemur fram að samkvæmt heimildum um Írak væri umskurður kvenna og stúlkna aðallega iðkaður í norðurhluta landsins. Annars staðar í Írak væru slíkar aðgerðir ekki framkvæmdar. Í skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá árinu 2020 um stöðu kynfæralimlestinga í Kúrdistan kemur fram að umskurður kvenna eigi sér einkum stað í Erbil og Sulaymaniyah héruðunum og sé tíðni framkvæmda þeirra hærri á dreifbýlli svæðum héraðanna og meðal ómenntaðs fólks. Þá er í skýrslunni vísað til blaðagreinar samtakanna Voice of America frá því í janúar 2019 en í henni komi fram að tíðni umskurða á konum og stúlkum hafi lækkað töluvert í Kúrdistan síðan kúrdísk yfirvöld hafi lögfest bann við þeim. Í framangreindum lögum um bann við heimilisofbeldi eru í  6. gr. laganna ákvæði er lúta að viðurlögum við því að hvetja til, framkvæma og aðstoða við umskurð á konum og stúlkum. Í 1. mgr. 6. gr. laganna kemur fram að viðurlög við hvatningu til umskurðar á konu og/eða stúlku sé fésekt frá einni milljón til allt að fimm milljóna írakskra dínar. Þá segir í 3. mgr. 6. gr. að brot gegn ákvæðinu varði allt frá eins til þriggja ára fangelsisvistar og/eða fésekt frá fimm milljónum til allt að tíu milljóna írakskra dínar. Í skýrslu breska innanríkisráðuneytisins kemur fram að engar opinberar upplýsingar séu fyrir hendi um það hvort saksótt hafi verið á grundvelli laganna. Þá kemur fram að gagnrýnt hafi verið af mannréttindasamtökum að framkvæmd og eftirfylgni með lögunum hafi verið ófullnægjandi. Í skýrslu finnsku útlendingaþjónustunnar frá 2018 kemur fram að í Kúrdistan séu það að jafnaði kvenkyns fjölskyldumeðlimir sem krefjist þess að stúlka verði umskorin og séu það yfirleitt íhaldssamar mæður eða frænkur. Í framangreindri skýrslu breska innanríkisráðuneytisins er vísað til fréttatilkynningar sem birst hafi á fréttavef fjölmiðilsins Kurdistan24 hinn 6. febrúar 2019 þar sem fram komi m.a. að á nýafstaðinni ráðstefnu um kynfæralimlestingar á konum sem haldin hafi verið í Egyptalandi hafi kúrdísk stjórnvöld í samstarfi við Mannfjöldasjóð Sameinuðu þjóðanna (e. the United Nations Populations Fund (UNFPA)), tilkynnt um nýja aðgerðaráætlun um að útrýma framkvæmd umskurða á stúlkum og konum í Kúrdistan fyrir árið 2028. Liður í þeirri áætlun væri að heilbrigðisráðuneyti Kúrdistan myndi þjálfa heilbrigðisstarfsfólk í að ræða við foreldra um umskurð stúlkna við bólusetningar dætra þeirra og þá væri ætlunin einnig sú að menntamálaráðuneyti Kúrdistan myndi búa til þjálfunaráætlun fyrir kennara og foreldra.

Í skýrslu Alþjóða fólksflutningsstofnunarinnar (IOM) frá árinu 2019 kemur fram að yfirvöld tryggi að öll börn eigi rétt á endurgjaldslausri menntun frá sex ára aldri. Börn sem hafi stundað nám erlendis þurfi að framvísa skólaskírteinum frá þarlendum skólum og fá þau vottuð af menntamálaráðuneyti Íraks til að fá námið metið. Fjölskyldur sem snúi aftur til Íraks eftir að hafa sótt um alþjóðlega vernd í öðrum löndum geti sótt um aðstoð hjá stofnuninni við enduraðlögun. Í skýrslu EASO frá árinu 2020 kemur fram að það séu ýmsar hindranir að aðgengi að menntun fyrir börn á innri flótta og börn sem séu búsett á svæðum sem hafi verið undir stjórn Daesh. Þá hafi lokun skóla vegna Covid-19 faraldursins haft áhrif á aðgengi barna að menntun í Írak.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. laga um útlendinga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðsambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2019). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Í greinargerðum sem lagðar hafa verið fram til Útlendingastofnunar og kærunefndar fyrir hönd kæranda er byggt á því að Kirkuk sé hennar heimaborg og hefur umfjöllun um aðstæður hennar og barna hennar miðast við aðstæður þar í borg. Í viðtali hjá Útlendingastofnun hinn 17. september 2021 greindi kærandi frá því að hún hafi verið alin upp í Erbil en flutt þaðan árið 2012 til heimaborgar eiginmanns hennar, Sulaymaniyah. Árið 2019 hafi hún ásamt börnum sínum flutt til Kirkuk til frænda síns. Við umsókn um alþjóðlega vernd framvísaði kærandi gildum vegabréfum fyrir sig og börn sín sem útgefin voru í Sulaymaniyah í desember 2020 og janúar 2021. Við málsmeðferð hjá kærunefnd bárust nefndinni gögn og upplýsingar um að kærandi hefði sótt um vegabréfsáritun til Íslands hinn 16. febrúar 2020. Á umsókn kæranda um vegabréfsáritun kom fram að hún væri búsett í Sulaymaniyah og var heimilisfang hennar þar í borg jafnframt tilgreint. Kærandi greindi frá því í viðtölum hjá Útlendingastofnun að hún og eiginmaður hennar hafi verið búsett og haldið heimili í Sulaymaniyah frá árinu 2012 þar til hann yfirgaf landið árið 2017 og að hún hafi nú sameinast eiginmanni sínum hér á landi. Með vísan til framangreinds er það mat kærunefndar að tengsl kæranda og barna hennar við Sulaymaniyah séu með þeim hætti að rétt sé að umsóknir þeirra um alþjóðlega vernd séu skoðaðar með hliðsjón af aðstæðum í þeirri borg og verður lagt til grundvallar við úrlausn málsins að hún sé heimaborg þeirra. 

Kærandi hefur ekki borið fyrir sig að hafa sætt ofsóknum eða að hún óttist ofsóknir af hálfu yfirvalda í heimaríki sem hafa eða gætu náð því alvarleikastigi sem 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um. Þá benda önnur gögn málsins ekki til þess að slíkar ofsóknir hafi átt sér stað eða að kærandi eigi þær á hættu.

Kærandi byggir kröfu um alþjóðlega vernd á því að hún óttist hóp hryðjuverkamanna sem hafi ofsótt eiginmann hennar. Í viðtali hjá Útlendingastofnun hinn 17. september 2021 greindi kærandi frá því aðspurð um ástæður flótta hennar að eiginmaður hennar hafi flúið heimaríki vegna hótana ótilgreindra manna sem hann hafi haldið að væru hryðjuverkamenn. Eftir það hafi kærandi flutt til Erbil. Í Erbil hafi „þessi hópur“ fundið kæranda og hótað henni og þá hafi faðir hennar sent hana í annan bæ. Í viðtali hjá Útlendingastofnun hinn 11. október 2021 greindi kærandi frá því aðspurð um ástæður flótta frá heimaríki að eiginmaður hennar hafi þurft að flýja heimaborg þeirra, Sulaymaniyah, í flýti þar sem hann hafi tilkynnt um menn sem væru sennilega meðlimir hryðjuverkasamtaka. Eftir flótta eiginmanns hennar hafi tengdafaðir hennar farið með hana og börn hennar til Erbil. Þau hafi verið í Erbil til 2019 en þá hafi ótilgreindir einstaklingar fundið þau og spurst fyrir um þau. Þegar það hafi gerst hafi faðir kæranda farið með þau til frænda hennar í Kirkuk þar sem þau hafi búið þar til þau hafi yfirgefið landið. Kærandi hefur engin gögn lagt fram til staðfestingar um framangreint, hvorki um að hún hafi þurft að yfirgefa Sulaymaniyah árið 2017 né að hópur hryðjuverkamanna hafi fundið hana og spurst fyrir um hana. Í úrskurði nr. 339/2018 frá 26. júlí 2018 í máli eiginmanns kæranda lagði kærunefnd til grundvallar að hann hefði orðið fyrir árásum og hótunum ákveðinna aðila í heimaríki og að líkur væru á því að þeir hefðu tengsl við hryðjuverkasamtök. Hins vegar hafi þau gögn sem eiginmaður kæranda hafi lagt fram sýnt fram á það að lögreglu- og dómsyfirvöld hefðu hafið málsmeðferð vegna kæru hans og frænda hans. Jafnframt var vakin athygli á því að skýrslur og gögn um heimaríki kæranda bentu eindregið til þess að lögregla og öryggissveitir í Kúrdistan myndu bregðast án tafar við upplýsingum um mögulega virkni DAESH samtakanna innan sjálfstjórnarsvæðisins. Var það niðurstaða kærunefndar að eiginmaður kæranda hefði ekki leitt líkur að því með rökstuddum hætti að hann hefði ástæðuríkan ótta við ofsóknir í heimaríki. Aðspurð í viðtali hjá Útlendingastofnun hinn 11. október 2021 kvaðst kærandi ekki hafa leitað aðstoðar hjá lögreglu. Samkvæmt frásögn kæranda hafi hún flutt frá Erbil til Kirkuk með börn sín árið 2019 þegar ótilgreindir menn hafi spurst fyrir um hana. Í viðtalinu svaraði kærandi því aðspurð að fjölskylda hennar í Erbil væri ekki í hættu þar sem ekkert hefði gerst í fjögur ár. Frásögn kæranda ber ekki með sér að spurst hafi verið um hana eftir 2019 þegar hún hafi verið í Erbil. Að mati kærunefndar hefur kærandi ekki lagt grunn að þeirri málsástæðu sinni að hún og börn hennar eigi á hættu ofsóknir af hálfu ótilgreindra aðila sem tengjast hryðjuverkasamtökum í heimaríki í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.

Þá byggir kærandi á því að hún hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í heimaríki í formi kynbundins ofbeldis og hún eigi hættu á því að verða fyrir heiðursofbeldi. Frændi kæranda hafi viljað að hún myndi gleyma eiginmanni sínum og giftast öðrum manni af því að hún væri að setja mikla pressu á fjölskyldu sína. Kvað kærandi að frændi hennar hafi beitt hana miklu ofbeldi. Þrátt fyrir að kærandi hafi ekki lagt fram gögn um búsetu sína hjá frænda sínum í Kirkuk telur kærunefnd ekki ástæðu til annars en að leggja til grundvallar að hún og börn hennar hafi verið búsett þar á einhverjum tímapunkti. Líkt og áður segir hefur kærandi sameinast eiginmanni sínum hér á landi og er ekkert sem bendir til þess að hún og börn hennar þurfi aftur að leita á náðir frænda hennar snúi þau aftur til heimaríkis. Þá hefur kærandi greint frá því að hafa haft stuðning í heimaríki frá bæði fjölskyldu sinni og tengdaföður sínum. Að framangreindu virtu er það mat kærunefndar að ekki hafi verið sýnt fram á að kærandi hafi verið eða eigi á hættu að verða þolandi heiðursglæps í heimaríki sínu, hvorki af hálfu frænda síns né annarra einstaklinga.

Þá er krafa um alþjóðlega vernd byggð á því að dóttir kæranda, A, eigi á hættu kynfæralimlestingu í heimaríki. Byggist framangreind málsástæða á því að þegar kærandi og börn hennar hafi verið búsett í Kirkuk hjá frænda hennar hafi hann viljað að A undirgengist umskurð á kynfærum en þegar kærandi hafi neitað hafi hann komið í veg fyrir að A gengi í skóla. Í viðtali hjá Útlendingastofnun hinn 11. október 2021 greindi kærandi frá því aðspurð að umskurður á konum væri ekki algengur í fjölskyldu hennar en frændi hennar kenni trúarbragðafræði og hann hafi viljað að A undirgengist slíka aðgerð. Kærandi kvaðst hafa notið stuðnings föður síns sem væri menntaður og þá væri fólk á hennar aldri á móti slíkum aðgerðum. Aðspurð um það hvort frændi hennar myndi krefjast slíkrar aðgerðar á A ef eiginmaður hennar væri með henni svaraði kærandi neitandi og tók fram að hún myndi búa með eiginmanni sínum. Þá svaraði kærandi því jafnframt neitandi aðspurð um það hvort líkur væru á því að A yrði látin undirgangast umskurð ef þau myndu snúa aftur til Kúrdistan. Eins og fram kemur í upplýsingum um aðstæður í Kúrdistan hér að framan eru umskurðir á konum og stúlkum bannaðar samkvæmt lögum og liggja viðurlög við því að hvetja til, framkvæma og aðstoða við slíkar aðgerðir. Að virtum gögnum málsins og framburði kæranda er það mat kærunefndar að A hafi ekki ástæðuríkan ótta við að verða þolandi umskurðar í heimaríki sínu.

Samkvæmt 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga skal, við mat samkvæmt 1. og 2. mgr. 37. gr. í málum sem varða börn, fylgdarlaus sem önnur, hafa það sem er barninu fyrir bestu að leiðarljósi. Í ákvæðinu kemur fram að við það mat beri að líta til möguleika barns á fjölskyldusameiningu, öryggis barnsins, velferðar og félagslegs þroska auk þess sem taka skuli tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Líkt og að framan greinir vildi kærandi ekki að tekin yrðu viðtöl við börn hennar. Leggur kærunefnd mat á hagsmuni þeirra samkvæmt 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga með hliðsjón af upplýsingum úr fyrirliggjandi gögnum málsins og framangreindum aðstæðum í heimaríki þeirra. Að mati kærunefndar var sjónarmiðum barnanna nægilega komið á framfæri með framburði kæranda og hagsmunagæslu talsmanns. Kærunefnd telur, að teknu tilliti til ákvæða í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og barnaverndarlögum nr. 80/2002, að engin rök standi í vegi fyrir því að börn kærenda fylgi kæranda og eiginmanni hennar aftur til heimaríkis þeirra. Kærunefnd horfir m.a. til þess að börnin eru í fylgd móður sinnar og þá sé faðir þeirra staddur hér á landi og hafi þau sameinast honum. Séu kærandi og eiginmaður hennar við ágæta heilsu og vinnufær og njóti börnin stuðnings þeirra. Þá greindi eiginmaður kæranda frá því við málsmeðferð í hans máli að hann hafi átt bifreiðaverkstæði ásamt frændum sínum í heimaríki. Ekkert í gögnum málsins bendir til annars en að fjölskyldan geti búið saman í heimaríki þeirra og að börnum kærenda standi til boða grunnskólamenntun og aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Með vísan til framangreinds er það mat kærunefndar, að teknu tilliti til sjónarmiða um öryggi, velferð og félagslegan þroska barnanna, að það sé þeim fyrir bestu að fylgja kæranda og föður þeirra til heimaríkis.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hún og börn hennar hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.

Telur kærunefndin því ljóst að kærandi og börn hennar uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamenn hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Við mat á hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. jafnframt 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).

Í greinargerð er vísað til þess að ástandið í heimaríki kæranda sé sérstaklega óöruggt og eldfimt í Kirkuk þar sem hún og börn hennar hafi búið þar til þau hafi flúið heimaríki. Eins og fram kemur að ofan leggur kærunefnd til grundvallar að heimaborg kæranda og barna hennar sé Sulaymaniyah. Verður varakrafa kæranda um viðbótarvernd því skoðuð með hliðsjón af aðstæðum þar.

Þrátt fyrir átök í Írak undanfarin ár er það mat kærunefndar að aðstæður í ríkinu séu ekki slíkar að kærandi eigi á hættu meðferð sem brjóti í bága við 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Þá er heimaborg kæranda, Sulaymaniyah, á svæði Kúrdistan þar sem lögregla og öryggissveitir hafa stjórn á aðstæðum. Að teknu tilliti til gagna málsins og heimilda bendir ekkert til þess að kærandi og börn hennar séu í raunverulegri hættu, á heimsvæði þeirra í Kúrdistan, svo sem á að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði þau send aftur þangað eða að þau verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka.

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður kæranda og barna hennar þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi og börn hennar uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamenn hér á landi. 

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi og börn hennar uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga eiga þau ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Í greinargerð er byggt á því að kærandi og börn hennar hafi ríka þörf fyrir vernd vegna erfiðra félagslegra aðstæðna þeirra í Írak. Þá er vísað til þess að kærandi hafi verið fórnarlamb kynbundins ofbeldis og hafi verið undirokuð karlmönnum. Í athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga er fjallað um erfiðar félagslegar aðstæður. Þar kemur fram að átt sé við að útlendingur hafi þörf á vernd vegna félagslegra aðstæðna í heimaríki og eru þar nefnd sem dæmi aðstæður kvenna sem hafa sætt kynferðislegu ofbeldi, sem leitt getur til erfiðrar stöðu þeirra í heimaríki, eða aðstæður kvenna sem ekki fella sig við kynhlutverk sem er hefðbundið í heimaríki þeirra og eiga á hættu útskúfun eða ofbeldi við endurkomu. Verndarþörf þjóðfélagshópa að öðru leyti myndi fara eftir aðstæðum í hverju máli. Líkt og fram kemur í niðurstöðu kærunefndar vegna kröfu um alþjóðlega vernd á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þá hefur kærandi sameinast eiginmanni sínum og jafnframt hefur hún greint frá því að hafa notið stuðnings frá fjölskyldu sinni og tengdaföður í heimaríki. Að framangreindu virtu er það mat kærunefndar að félagslegar aðstæður kæranda og fjölskyldu hennar við endurkomu til heimaríkis séu ekki með þeim hætti að þær teljist erfiðar í skilningi 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Þá er krafa um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða byggð á því að kærandi óttist að A verði neydd til að undirgangast umskurð á kynfærum. Líkt og að framan er rakið í niðurstöðu kærunefndar vegna kröfu kæranda á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þá verður ekki af framburði kæranda í viðtölum hjá Útlendingastofnun ráðið að hún óttist að dóttir hennar þurfi að undirgangast umskurð snúi kærandi og fjölskylda hennar aftur til heimaríkis, einkum þar sem þau hafi nú sameinast eiginmanni kæranda og föður barna hennar. Að mati kærunefndar er um að ræða misvísandi framsetningu í greinargerð á málsatvikum og framburði kæranda. Eins og fram hefur komið er það mat kærunefndar að A hafi ekki ástæðuríkan ótta við að verða þolandi umskurðar í heimaríki sínu. 

Þá er krafa um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða einnig byggð á því að meta þurfi hvað sé börnum kæranda fyrir bestu og að mat á hagsmuni þeirra skuli ekki unnið út frá aðstæðum kæranda eingöngu heldur þurfi fyrst og fremst að leggja mat á hagsmuni barnanna á þeirra eigin forsendum. Í athugasemdum við 74. gr. frumvarps til laga um útlendinga kemur fram að í samræmi við ákvæði alþjóðlegra skuldbindinga og almennra laga sé lagt til að tekið sé sérstakt tillit til barna, hvort sem um er að ræða fylgdarlaus börn eða önnur börn. Í því ljósi og með hliðsjón af meginreglunni um að það sem barni er fyrir bestu skuli hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir um málefni þess, sbr. jafnframt 2. mgr. 10. gr. og 3. mgr. 25. gr. laga nr. 80/2016, telur kærunefnd að við mat á því hvort skilyrði 1. mgr. 74. gr. laganna séu fyrir hendi skuli taka sérstakt tillit til þess ef um barn er að ræða og skuli það sem er barni fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun. Vísað er til mats á hagsmunum A og B í umfjöllun um 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga að framan. Þá hefur ekki komið annað fram í viðtölum við kæranda en að börn hennar séu almennt við góða heilsu. Jafnframt liggur fyrir í málinu að kærandi hafi sameinast eiginmanni sínum hér á landi og njóti hún og börn þeirra því stuðnings frá honum. Eiginmaður kæranda greindi frá því að hann hafi verið í fyrirtækjarekstri áður en hann hafi flúið  heimaríki. Að framangreindu virtu er það mat kærunefndar að kærandi og eiginmaður hennar séu fullfær um að sjá fyrir börnum sínum og veita þeim stuðning.

Hinn 18. janúar 2022 lagði talsmaður kæranda fyrir hennar hönd fram dagnótur frá Landspítalanum, dags. 26. nóvember til 28. desember 2021. Kemur þar m.a. fram  að kærandi sé barnshafandi og hafi glímt við ýmsa meðgöngukvilla, svefnleysi og sjóntruflanir. Þá lagði talsmaður fram hinn 26. janúar 2021 vottorð frá sálfræðingi. Í vottorðinu kom m.a. fram að kærandi hefði verið í meðferð hjá sálfræðingnum. Hafi niðurstöður sjálfsmatslista sem kærandi hafi svarað sýnt að hún glími við mikla vanlíðan og að hún beri einkenni kvíða, depurðar og áfallastreituröskunar.  Í framangreindum athugasemdum við 74. gr. kemur fram að með ríkri þörf á vernd af heilbrigðisástæðum sé m.a. miðað við að um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm sé að ræða og meðferð við honum væri aðgengileg hér á landi en ekki í heimaríki viðkomandi. Í þessu sambandi kemur jafnframt fram að meðferð teljist ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur er hér átt við þau tilvik þar sem meðferð sé til í heimaríkinu en viðkomandi eigi ekki rétt á henni. Þá kunna að falla undir 1. mgr. 74. gr. mjög alvarlegir sjúkdómar sem ekki teljast lífshættulegir, svo sem ef sýnt þykir að þeir muni valda alvarlegu óbætanlegu heilsutjóni eða óbærilegum þjáningum. Ef um langvarandi sjúkdóm sé að ræða væru ríkari verndarsjónarmið fyrir hendi ef sjúkdómur væri á lokastigi. Jafnframt væri rétt að líta til þess hvort meðferð hafi hafist hér á landi og ekki væri læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa meðferð, sem og til atriða sem varði félagslegar aðstæður útlendings og horfur hans. Að teknu tilliti til framlagðra heilsufarsgagna er það mat kærunefndar að hvorki kærandi né börn hennar séu í meðferð hér á landi sem óforsvaranlegt væri að rjúfa. Þá má ráða af þeim heimildum sem kærunefnd hefur skoðað um aðstæður í Kúrdistan að heilbrigðiskerfi landsins sé í stakk búið til að veita kæranda og ófæddu barni hennar þá þjónustu og aðstoð sem þau kunna að þurfa á að halda. Þá telur kærunefnd, að teknu tilliti til þeirra gagna sem nefndin hefur kynnt sér, að kæranda og börnum hennar standi til boða aðgangur að annarri heilbrigðisþjónustu í heimaríki, þ. á m. geðheilbrigðisþjónustu.

Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda gögn málsins eru virt í heild, með hliðsjón af aðstæðum kæranda og barna hennar í heimaríki, er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hún og börn hennar hafi ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. m útlendinga. Við þetta mat hefur kærunefnd litið til hagsmuna barna kæranda í samræmi við 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga og 3. mgr. 25. sömu laga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda og barna hennar í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda og börnum hennar dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Kærunefnd hefur jafnframt litið til þeirra tímabundnu erfiðleika sem heimaríki kæranda kann að þurfa að glíma við vegna Covid-19 faraldursins. Kærunefnd telur þá erfiðleika ekki vera þess eðlis að þeir leiði til þess, einir sér eða í samhengi við önnur gögn málsins, að heimilt sé veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

Krafa um ógildingu á ákvörðun Útlendingastofnunar og nýja málsmeðferð

Að lokum gerir kærandi þá kröfu að ákvörðun Útlendingastofnunar í máli A verði felld úr gildi og að mál hennar verði tekið til nýrrar málsmeðferðar hjá stofnuninni. Byggir kærandi kröfuna á því að A hafi ekki fengið sjálfstæða og efnislega umfjöllum um kröfu sína um viðurkenningu á stöðu flóttamanns á grundvelli þess að hún hafi ástæðuríkan ótta við að verða fyrir kynfæralimlestingu í heimaríki.

Hvorki í ákvörðun A né ákvörðun kæranda er að finna umfjöllun um stöðu umskurða á konum og stúlkum í Kúrdistan. Þá er ekki tekið fram að byggt sé á málsástæðu um ótta við umskurð á A þrátt fyrir að byggt hafi verið á þeirri málsástæðu í greinargerð kæranda sem lögð var fram til Útlendingastofnunar. Í ákvörðun kæranda er þrátt fyrir það tekin afstaða til málsástæðunnar í stuttu máli. Að mati kærunefndar hefði það verið í samræmi við góða og vandaða stjórnsýsluhætti að fjalla með ítarlegri hætti um framangreint í ákvörðunum kæranda og A.

Kærunefnd áréttar mikilvægi þess að Útlendingastofnun taki afstöðu til þeirra málsástæðna sem bornar séu fram og að rannsókn stofnunarinnar miðist við það. Það er hins vegar mat kærunefndar að framangreindur annmarki á meðferð málsins hjá Útlendingastofnun hafi ekki, eins og hér stendur á, haft áhrif á efnislega niðurstöðu málsins enda hafi nefndin bætt úr honum á kærustigi.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til eigi ekki við í máli kæranda og barna hennar. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda og barna hennar þangað.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Fram kemur í hælisbeiðni kæranda að hún hafi komið hingað til lands 10. eða 11. september 2021 og sótt um alþjóðlega vernd hinn 13. september 2021 ásamt börnum sínum. Eins og að framan greinir hefur umsókn hennar og barna hennar um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hafa þau því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn þeirra um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 43. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda og börnum hennar því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda höfðu þau verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsókna þeirra hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærandi og börn hennar eru við ágæta heilsu. Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 15 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.

Athygli kæranda er vakin á því að ef hún yfirgefur ekki landið innan frests kann að vera heimilt að brottvísa henni. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinna kærðu ákvarðana þykir rétt að staðfesta ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum kæranda og barna hennar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

 

 

Úrskurðarorð:

Ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum kæranda og barna hennar eru staðfestar. Lagt er fyrir kæranda og börn hennar að hverfa af landi brott. Kæranda og börnum hennar er veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljug.

The decisions of the Directorate of Immigration in the cases of the appellant and her children are affirmed. The appellant and her children are requested to leave the country. The appellant and her children have 15 days to leave the country voluntarily.

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

Sindri M. Stephensen                                                            Þorbjörg I. Jónsdóttir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira