Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd útboðsmála

Mál nr. 17/2017. Úrskurður kærunefndar útboðsmála:

Með kæru 4. ágúst 2017 kærði Deilir Tækniþjónusta ehf. ákvörðun Orku náttúrunnar um val á tilboðum Vélsmiðjunnar Altaks ehf. og Stál og suðu ehf. í útboðinu „ONRS-2017-10 Stálmíði og lagnir“. Kærandi krefst þess að ákvörðun um val tilboða verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir varnaraðila að taka nýja ákvörðun að þessu leyti. Hafi komist á samningur á grundvelli ákvörðunarinnar er þess krafist að nefndin láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart kæranda. Þá er gerð krafa um málskostnað.

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 22. nóvember 2017

í máli nr. 17/2017:

Deilir Tækniþjónusta ehf.

gegn

Orku náttúrunnar

Vélsmiðjunni Altak ehf.

og

Stál og suðu ehf.

Með kæru 4. ágúst 2017 kærði Deilir Tækniþjónusta ehf. ákvörðun Orku náttúrunnar um val á tilboðum Vélsmiðjunnar Altaks ehf. og Stál og suðu ehf. í útboðinu „ONRS-2017-10 Stálmíði og lagnir“. Kærandi krefst þess að ákvörðun um val tilboða verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir varnaraðila að taka nýja ákvörðun að þessu leyti. Hafi komist á samningur á grundvelli ákvörðunarinnar er þess krafist að nefndin láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart kæranda. Þá er gerð krafa um málskostnað. Varnaraðilum var gefinn kostur á að koma að athugasemdum og af hálfu Orku náttúrunnar (hér eftir vísað til sem varnaraðila) barst greinargerð 16. ágúst 2017 þar sem þess var krafist að öllum kröfum kæranda yrði hafnað. Kæranda var gefinn kostur á að gera athugasemdir við greinargerð varnaraðila en tilkynnti nefndinni 26. október 2017 að hann myndi ekki skila athugasemdum.

Kæran barst innan lögboðins biðtíma samkvæmt 86. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup og leiddi þannig til sjálfkrafa stöðvunar samningsgerðar samkvæmt 1. mgr. 107. gr. laganna. Með ákvörðun 7. september 2017 aflétti kærunefnd útboðsmála stöðvun samningsgerðar Orku náttúrunnar við Vélsmiðjuna Altak ehf. og Stál og suðu ehf. í kjölfar útboðsins „ONRS-2017-10 Stálmíði og lagnir“.

I

Í maí 2017 auglýsti varnaraðili útboð í stálsmíði og lagnir. Samkvæmt grein 1.1.9 í útboðsgögnum skyldi hæfi bjóðenda metið á grundvelli gagna sem þeir sendu með tilboðum sínum. Í grein 1.2.4 sagði að lægstbjóðandi, sem metinn yrði hæfur, yrði að leggja fram tilgreind gögn „á samningsstigi“. Meðal þeirra gagna var „Gæðakerfi verktaka, sambærilegt ISO 9001 og dæmi af eftirlits/úttektaráætlun verktaka“. Fimm fyrirtæki tóku þátt í útboðinu og voru tilboð opnuð 5. júlí 2017. Tilboð kæranda var fjórða hagstæðasta en tilboð Vélsmiðjunnar Altaks ehf. og Stáls og Suðu ehf. voru í öðru og þriðja sæti. Varnaraðili tilkynnti 31. júlí 2017 að ákveðið hefði verið að taka þeim tilboðum sem voru í fyrsta, öðru og þriðja sæti.

II

Kærandi telur að tilboð Vélsmiðjunnar Altaks ehf. og Stáls og suðu ehf. séu ógild enda uppfylli gæðakerfi þeirra ekki staðalinn ISO 9001 þar sem fyrirtækin hafi ekki fengið slíka vottun. Þá telur kærandi að ekkert annað sambærilegt gæðakerfi sé til eða starfrækt hér á landi. Ef svo væri yrði að sanna að valin fyrirtæki starfræktu slík kerfi og einhliða yfirlýsing þeirra sjálfra dugi ekki til sönnunar.

III

Varnaraðili byggir á því að ekki hafi verið gerð hæfiskrafa um að bjóðendur starfræktu ISO 9001 eða sambærilegt kerfi. Því hafi ekki verið nauðsynlegt að fara fram á vottun slíks kerfis eða sambærilegs gæðakerfis til að meta hæfi bjóðenda. Fullnægjandi gæðakerfi þurfi þó að liggja fyrir á síðari stigum og mögulega geti hæfir bjóðendur útbúið slíkt kerfi í samvinnu við varnaraðila. Öll fyrirtækin sem valin voru til samningsgerðar hafi sent afrit af sínum gæðakerfum og varnaraðili hafi metið þau sambærileg ISO 9001 staðlinum. Auk þess hafi Vélsmiðjan Altak ehf. og Stál og suða ehf. verið verktakar í stórum verkframkvæmdum á vegum varnaraðila undanfarin ár og varnaraðili hafi sannreynt að fyrirtækin starfi eftir vönduðum gæðakerfum.

IV

Varnaraðili starfar við framleiðslu og sölu á raforku til almennings. Verður því að miða við að hann teljist til veitustofnunar sem falli undir reglugerð nr. 340/2017 um innkaup aðila sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og póstþjónustu, sem innleiddi tilskipun Evrópusambandsins nr. 2014/25/EB um innkaup aðila sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og póstþjónustu í íslenskan rétt („veitutilskipunin“). Með hinu kærða útboði stefndi varnaraðili að gerð verksamnings í skilningi 2. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar. Reglugerðin gildir um innkaup á vöru, þjónustu eða verki er varðar starfsemi sem fellur undir reglugerðina þar sem áætlað verðmæti án virðisaukaskatts er jafnt eða meira en þær viðmiðunarfjárhæðir sem tilgreindar eru í 15. gr. reglugerðarinnar. Viðmiðunarfjárhæð nemur nú 805.486.000 krónum þegar um er að ræða verksamninga. Á opnunarfundi 5. júlí 2017 var upplýst að kostnaðaráætlun fyrir verkið næmi rúmum 86 milljón krónum án virðisaukaskatts og öll tilboð væru undir 163 milljónum króna. Samkvæmt þessu er ljóst að framangreind innkaup náðu ekki viðmiðunarfjárhæð og voru því ekki útboðsskyld samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 340/2017.

Samkvæmt 2. mgr. 103. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup er hlutverk kærunefndar útboðsmála að leysa með skjótum og óhlutdrægum hætti úr kærum fyrirtækja vegna ætlaðra brota á lögunum og reglum settum samkvæmt þeim, þar á meðal innkaup opinberra aðila sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og póstþjónustu. Hin kærðu innkaup féllu samkvæmt framansögðu ekki undir reglugerð nr. 340/2017 og fellur kæruefnið því ekki undir valdsvið nefndarinnar. Verður því að vísa máli þessu frá kærunefnd útboðsmála.

Úrskurðarorð:

Kröfum kæranda, Deilis Tækniþjónustu ehf., vegna útboðsins „ONRS-2017-10 Stálmíði og lagnir“ er vísað frá kærunefnd útboðsmála.

                               Reykjavík, 22. nóvember 2017.

                                                                                      Skúli Magnússon

                                                                                      Ásgerður Ragnarsdóttir

                                                                                      Stanley Pálsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira