Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 327/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 327/2017

Miðvikudaginn 8. nóvember 2017

A

gegn

Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóði

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Með kæru, dags. 31. júlí 2017, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 19. maí 2017, um að krefja kæranda um endurgreiðslu á ofgreiddum greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði fyrir febrúar og júní 2016.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi þáði greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði á tímabilinu janúar, febrúar, júní og 15.–31. ágúst 2016 vegna barns sem fæddist X. Með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 16. maí 2017, var athygli kæranda vakin á því að stofnunin væri með til meðferðar mál hans vegna hugsanlegrar ofgreiðslu úr sjóðnum og óskað frekari gagna og skýringa frá honum. Kærandi lagði ekki fram nein gögn en í símtali til Fæðingarorlofssjóðs kvaðst hann hafa ákveðið að vinna í fæðingarorlofinu vegna peningaleysis og talið sér það heimilt. Með greiðsluáskorun, dags. 19. maí 2017, var kærandi krafinn um endurgreiðslu á ofgreiddum greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði að fjárhæð 457.639 kr. vegna tímabilanna 1.–29. febrúar og 1.–30. júní 2016.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála með tölvupósti 31. júlí 2017. Með bréfi, dags. 7. september 2017, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð sjóðsins barst með bréfi, dags. 18. september 2017, og var send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 20. september 2017. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann hafi ákveðið að vinna í fæðingarorlofi vegna peningaleysis en sé nú krafinn um endurgreiðslu aftur í tímann. Kærandi vísar til þess að Fæðingarorlofssjóður hafi áður krafið hann um endurgreiðslu þar sem hann hafi unnið að hluta til í fæðingarorlofi þegar fyrsta barn hans fæddist. Fæðingarorlofssjóður hafi hins vegar endurgreitt honum þá fjárhæð í kjölfar álits umboðsmanns Alþingis. Kærandi fer því fram á að endurgreiðslukrafa Fæðingarorlofssjóðs verði felld niður en til vara að hann verði skráður í launalaust fæðingarorlof, þar sem hann muni nýta sér rétt sinn hvernig sem mál hans fari.

III. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs er greint frá því máli sem kærandi vísi til í kæru til nefndarinnar og tekið fram að það sé eðlisólíkt því sem nú sé kært. Í samræmi við álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 7790/2013 hafi kærandi verið krafinn um endurgreiðslu á ofgreiddum greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði fyrir tímabilin 1.–29. febrúar og 1.–30. júní 2016 en hvorki hafi verið gerð krafa um endurgreiðslu fyrir tímabilið 15.–31. ágúst 2016 né gerð krafa um 15% álag.

Fæðingarorlofssjóður vísar til 10. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof þar sem fram komi að réttur foreldris til greiðslna í fæðingarorlofi sé bundinn því að foreldri uppfylli skilyrði um rétt til fæðingarorlofs samkvæmt 8. gr. Greiðslur frá vinnuveitanda til foreldris í fæðingarorlofi, sem séu hærri en nemi mismun greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og meðaltali heildarlauna foreldris samkvæmt 2. eða 5. mgr., skuli koma til frádráttar. Eingöngu skuli greiðslur frá vinnuveitanda, sem ætlaðar séu fyrir það tímabil sem foreldri sé í fæðingarorlofi, koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Þó sé heimilt að taka tillit til kjarasamningsbundinna launahækkana, annarra kjarasamningsbundinna greiðslna og launabreytinga sem rekja megi til breytinga á störfum foreldris. Á viðmiðunartímabili kæranda, samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laganna, hafi viðmiðunarlaun hans verið 497.614 kr. á mánuði en frá lokum þess tímabils og fram að upphafi fæðingarorlofs þann 1. janúar 2016 hefðu þau hækkað í 511.586 kr. Miðað hafi verið við þá fjárhæð við útreikning á hugsanlegri ofgreiðslu samkvæmt 10. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000, kæranda til hagsbóta.

Á tímabilinu 1.–29. febrúar 2016 hafi kærandi fengið greiddar 370.000 kr. úr Fæðingarorlofssjóði og því hefði honum verið heimilt að þiggja greiðslur frá vinnuveitanda sínum sem næmu mismuni á 511.586 kr. og fjárhæð greiðslu Fæðingarorlofssjóðs, eða nánar tiltekið 141.586 kr., án þess að til skerðingar kæmi á greiðslum úr sjóðnum, sbr. 10. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000. Fæðingarorlofssjóður tekur fram að samkvæmt staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra fyrir tímabilið 1.–29. febrúar 2016 hafi kærandi þegið 486.220 kr. í laun frá vinnuveitanda á sama tímabili og hann hafi verið í fæðingarorlofi. Þannig sé óumdeilt að greiðslur frá vinnuveitanda tilheyri sama tímabili og fæðingarorlof hans. Kærandi hafi því fengið 344.634 kr. hærri greiðslu frá vinnuveitanda sínum en hann hafi mátt og beri því að endurgreiða Fæðingarorlofssjóði 247.727 kr. að teknu tilliti til staðgreiðslu og annarra launatengdra gjalda. Þau mistök hafi hins vegar verið gerð þegar kæranda hafi verið send krafa um endurgreiðslu á ofgreiddum greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði fyrir framangreint tímabil að einungis hafi verið gerð krafa um endurgreiðslu á 237.149 kr. í stað 247.727 kr. sem sjóðurinn telji rétt að verði látið standa kæranda til hagsbóta.

Á tímabilinu 1.–30. júní 2016 hafi kærandi fengið greiddar 370.000 kr. úr Fæðingarorlofssjóði og því hefði honum verið heimilt að þiggja greiðslur frá vinnuveitanda sem næmu mismuni á 511.586 kr. og fjárhæð greiðslu Fæðingarorlofssjóðs, eða 141.586 kr., án þess að til skerðingar kæmi á greiðslum úr sjóðnum, sbr. 10. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000. Samkvæmt staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra fyrir tímabilið 1.–30. júní 2016 hafi kærandi þegið 516.366 kr. í laun frá vinnuveitanda á sama tímabili og hann hafi verið í fæðingarorlofi. Þannig sé óumdeilt að greiðslur frá vinnuveitanda tilheyri sama tímabili og fæðingarorlof hans. Kærandi hafi því fengið 374.780 kr. hærri greiðslu frá vinnuveitanda sínum en hann hafi mátt og beri því að endurgreiða Fæðingarorlofssjóði 220.490 kr. að teknu tilliti til staðgreiðslu og annarra launatengdra gjalda.

Samkvæmt öllu framangreindu séu ofgreiddar greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði til kæranda að teknu tilliti til staðgreiðslu og annarra launatengdra gjalda fyrir tímabilin 1.–29. febrúar og 1.–30. júní 2016 samtals 457.639 kr. sem gerð sé krafa um að kærandi endurgreiði Fæðingarorlofssjóði, sbr. greiðsluáskorun til hans ásamt sundurliðun á ofgreiðslu, dags. 19. maí 2017.

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að krefja kæranda um endurgreiðslu á ofgreiddum greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði fyrir febrúar og júní 2016.

Í kæru kemur fram að Fæðingarorlofssjóður hafi áður krafið kæranda um endurgreiðslu þegar hann vann einnig að hluta til í fæðingarorlofi þegar hann átti fyrsta barn sitt. Sjóðurinn hafi þurft að endurgreiða honum þá upphæð í kjölfar álits umboðsmanns Alþingis og því bæri nú að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi. Úrskurðarnefndin tekur fram að í því máli voru atvik máls með öðrum hætti líkt og greint er frá í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs. Því verður ekki fallist á kröfu kæranda um að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi á grundvelli þessa.

Í 1. gr. laga nr. 95/2000 er kveðið á um gildissvið laganna, en þar segir að lögin taki til réttinda foreldra á innlendum vinnumarkaði til fæðingar- og foreldraorlofs. Þau eigi við um foreldra sem séu starfsmenn eða sjálfstætt starfandi. Í 2. gr. laganna kemur fram að markmið þeirra sé að tryggja barni samvistir við báða foreldra.

Í 13. gr. laga nr. 95/2000 er fjallað um rétt foreldra til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði en þar segir í 2. mgr. að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til foreldris í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna. Miða skuli við tólf mánaða samfellt tímabil sem ljúki sex mánuðum fyrir fæðingarmánuð barns. Auk þess segir að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabili sem foreldri hafi verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. einnig 2. mgr. 13. gr. a, án tillits til þess hvort laun samkvæmt 2. málsl. eða reiknað endurgjald samkvæmt 5. mgr. hafi komið til. Aldrei skuli þó miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna. Barn kæranda fæddist X. Viðmiðunartímabil útreiknings meðaltals heildarlauna kæranda samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 er því tímabilið X til X. Samkvæmt gögnum málsins voru viðmiðunarlaun kæranda 497.614 kr. á mánuði en frá því að viðmiðunartímabili lauk og fram að upphafi fæðingarorlofs kæranda þann 1. janúar 2016 höfðu þau hækkað í 511.586 kr. Er það samkvæmt heimild í lokamálslið 10. mgr. 13. gr. laganna til hækkunar á meðaltals heildarlaunum vegna kjarasamningsbundinna launahækkana, annarra kjarasamningsbundinna greiðslna og launabreytinga sem rekja megi til breytinga á störfum foreldris, kæranda til hagsbóta.

Í fyrrnefndri 10. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 er að finna tiltekna skerðingarreglu og fjallað er um endurgreiðslur ofgreiddra fjárhæða til Fæðingarorlofssjóðs. Ákvæðið er svohljóðandi:

„Réttur foreldris til greiðslna í fæðingarorlofi er bundinn því að foreldri uppfylli skilyrði um rétt til fæðingarorlofs skv. 8. gr. Greiðslur frá vinnuveitanda til foreldris í fæðingarorlofi sem eru hærri en nemur mismun greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og meðaltals heildarlauna foreldris skv. 2. eða 5. mgr. skulu koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Eingöngu skulu greiðslur frá vinnuveitanda sem ætlaðar eru fyrir það tímabil sem foreldri er í fæðingarorlofi koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Þó er heimilt að taka tillit til kjarasamningsbundinna launahækkana, annarra kjarasamningsbundinna greiðslna og launabreytinga sem rekja má til breytinga á störfum foreldris.“

Kærandi þáði greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði á tímabilinu janúar til ágúst 2016 en endurgreiðslukrafa sjóðsins lýtur að mánuðunum febrúar og júní 2016. Á þeim tíma var honum einungis heimilt að þiggja greiðslur frá vinnuveitanda sem námu mismun meðaltals heildarlauna hans eins og þau voru hækkuð og greiðslna frá Fæðingarorlofssjóði, án þess að greiðslur vinnuveitanda til hans kæmu til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Í febrúar og júní 2016 fékk kærandi greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði að fjárhæð 370.000 kr. í samræmi við 100% fæðingarorlof. Þar sem kærandi hafði 511.586 krónur í viðmiðunarlaun var honum því heimilt að þiggja greiðslur frá vinnuveitanda að fjárhæð 141.586 kr. án þess að það hefði áhrif á greiðslur Fæðingarorlofssjóðs. Samkvæmt gögnum málsins fékk kærandi greidd laun frá vinnuveitanda sínum að fjárhæð 486.220 kr. í febrúar 2016 og 516.366 kr. í júní 2016. Kærandi þáði þannig hærri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði en honum var heimilt lögum samkvæmt fyrir febrúar og júní 2016.

Í 15. gr. a. laga nr. 95/2000 er kveðið á um leiðréttingu á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Þar segir í 2. mgr.:

„Hafi foreldri fengið hærri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði en því bar samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum ber foreldri að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Fella skal niður álagið samkvæmt þessari málsgrein færi foreldri rök fyrir því að því verði eigi kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.“

Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 90/2004, um breytingu á lögum nr. 95/2000, segir meðal annars svo í skýringum við ákvæðið:

„Efni ákvæðis þessa er í samræmi við þá tillögu frumvarpsins að keyra útgreiðslur Fæðingarorlofssjóðs saman við álagningu skattyfirvalda að því er varðar það viðmiðunartímabil sem lagt er til að verði haft til hliðsjónar við útreikninga á meðaltali heildarlauna foreldra, sbr. 4. og 5. gr. frumvarps þessa. Er því lagt til að Tryggingastofnun ríkisins hafi heimildir til að leiðrétta greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði til samræmis við álagningu skattyfirvalda enda Fæðingarorlofssjóði einungis ætlað að bæta tiltekinn hluta þeirra tekna sem foreldri raunverulega hafði samkvæmt upplýsingum skattyfirvalda. Er gert ráð fyrir að leiðrétting samkvæmt ákvæði þessu geti átt sér stað nokkru eftir að greiðslur hafi farið fram eða þegar endanleg álagning skattyfirvalda liggur fyrir.

Þannig er gert ráð fyrir að foreldri endurgreiði til Fæðingarorlofssjóðs þá fjárhæð sem ofgreidd var í þeim tilvikum er foreldri fékk hærri greiðslur úr sjóðnum en því bar. Á þetta bæði við um þegar upplýsingar Tryggingastofnunar ríkisins hafa ekki verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda og þegar foreldri hefur fengið greiðslur úr sjóðnum án þess að hafa lagt niður störf. Enn fremur á þetta við um öll önnur tilvik þar sem af einhverjum ástæðum hefur verið ofgreitt úr sjóðnum.“

Samkvæmt framangreindu er ákvæði 2. mgr. 15. gr. a. laga nr. 95/2000 fortakslaust að því er varðar skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar bætur. Því verður ekki fallist á kröfu kæranda um að endurgreiðslukrafan verði felld niður. Þá er ekki unnt að fallast á varakröfu kæranda um að hann verði skráður í launalaust fæðingarorlof en lög nr. 95/2000 veita enga heimild til slíkrar ráðstöfunar eftir að greiðslur úr sjóðnum hafa átt sér stað. Í máli þessu hefur ekkert álag verið lagt á skuld kæranda og því er ekki ágreiningur um það atriði. Með vísan til framangreinds er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að krefja kæranda um endurgreiðslu á ofgreiddum greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði fyrir febrúar og júní 2016 að fjárhæð 457.639 kr. því staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 19. maí 2017, um að krefja A, um endurgreiðslu á ofgreiddum greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði fyrir febrúar og júní 2016 er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira