Hoppa yfir valmynd

Nr. 57/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 2. febrúar 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 57/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU22110036

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 9. nóvember 2022 kærði einstaklingur er kveðst heita […], vera fædd […] og vera ríkisborgari Sómalíu (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 26. október 2022, um að synja henni um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja henni um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að henni verði veitt staða flóttamanns hér á landi með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að henni verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að henni verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Til þrautaþrautavara er gerð sú krafa að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.        Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi 10. apríl 2021. Við leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum 16. apríl 2021 kom í ljós að fingraför hennar höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Frakklandi 4. febrúar 2020. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 10. júní 2021, var ákveðið að umsókn kæranda yrði ekki tekin til efnislegrar meðferðar hér á landi og skyldi kærandi flutt til Frakklands. Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 506/2021, dags. 21. október 2021, var ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest. Hinn 1. nóvember 2021 barst kærunefnd beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar. Með úrskurði kærunefndar, dags. 17. nóvember 2021, var þeirri beiðni kæranda hafnað. Hinn 22. apríl 2022 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku. Með úrskurði kærunefndar nr. 207/2022, dags. 25. maí 2022, var fallist á beiðni kæranda um endurupptöku og var lagt fyrir Útlendingastofnun að taka mál hennar til efnismeðferðar. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun 7. júlí 2022 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 26. október 2022, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja henni um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála 9. nóvember 2022. Kærunefnd barst greinargerð kæranda ásamt fylgiskjölum 30. nóvember 2022. Þá bárust kærunefnd frekari gögn frá kæranda 7. desember 2022.

III.      Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hún sé í hættu í heimaríki sínu vegna ofsókna af hálfu Al-Shabaab og sökum þess að hún tilheyri minnihlutaættbálki.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi væri ekki flóttamaður og henni skyldi synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi samkvæmt ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV.      Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda er vísað til viðtala við hana hjá Útlendingastofnun. Þar hafi kærandi greint frá bakgrunni sínum og ástæðu flótta síns frá Sómalíu. Kærandi kvaðst hafa flúið frá heimaríki sínu vegna ítrekaðra hótana og banatilræða af hálfu meðlima Al-Shabaab hryðjuverkasamtakanna. Kærandi hafi greint frá því að samtökin hafi viljað hana feiga vegna þess að hún hafi starfað fyrir stjórnvöld í landinu, en henni hafi verið tjáð að hún ætti að hætta starfi sínu fyrir stjórnvöld og vera þess í stað heima og hugsa um börn sín, annars yrði hún drepin. Kærandi hafi greint frá því að vera frá höfuðborg Sómalíu, Mógadisjú, þar sem hún hafi starfað sem […] á skrifstofu […] í Mógadisjú. Í starfi sínu hafi kærandi upplifað mikla fordóma og verið hótað af samstarfsfólki sínu vegna þess að hún tilheyri […] ættbálknum. Jafnframt hafi hún hlotið gagnrýni og smánun vegna klæðaburðar síns, en hún hafi kosið að ganga í buxum í stað síðkjóla. Hafi hún raunar fengið athugasemdir við klæðaburð sinn hvarvetna í borginni og verið bent á að Al-Shabaab tæki konur af lífi fyrir slíkan klæðaburð. Kærandi hafi hafið störf fyrir […] í kjölfar þess að móðir hennar, sem áður hafi gegnt sama starfi, hafi verið myrt af Al-Shabaab árið 2016. Hótanir Al-Shabaab hafi byrjað að berast kæranda skömmu eftir að hún hafi hafið störf og hafi samtökin í kjölfarið reynt að ráða hana af dögum þrisvar sinnum. Í eitt skipti hafi verið skotið á kæranda þar sem hún hafi verið að bíða eftir strætó ásamt öðru fólki. Kæranda hafi tekist að komast undan en fólk sem hafi staðið nærri henni hafi orðið fyrir skoti. Í annað sinn hafi kærandi verið að versla á markaði þegar maður hafi beint byssu að höfði hennar og tekið í gikkinn. Það hafi orðið henni til lífs að byssan hafi staðið á sér og árásarmaðurinn hafi hlaupið í burtu. Kærandi hafi fallið í yfirlið og vaknað á spítala. Í þriðja skiptið hafi sprengja verið sett undir bíl fjölskyldunnar en vinur eiginmanns kæranda hafi fengið bílinn lánaðan þann dag og hafi hann látist þegar sprengjan hafi sprungið. Eftir þetta hafi kærandi og eiginmaður hennar, sem einnig hafi starfað fyrir stjórnvöld og sætt hótunum af hálfu Al-Shabaab, ákveðið að hætta störfum sínum og fara í felur á sitt hvorum staðnum. Frænka kæranda hafi skotið skjólshúsi yfir börn kæranda og eiginmanns hennar. Kærandi hafi hent SIM-korti sínu og fengið sér nýtt en Al-Shabaab hafi haldið áfram að hringja í nýja númerið og hóta kæranda. Hafi henni verið tjáð að hún og eiginmaður hennar væru á aftökulista samtakanna. Kærandi hafi ekki þorað út úr húsi af ótta við að Al-Shabaab myndi finna hana og hafi hún óttast stöðugt um líf sitt. Hafi hún þá ákveðið að flýja land.

Í greinargerð kæranda koma fram ýmsar athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar, einkum er snúa að mati stofnunarinnar á því hvort kærandi geti talist tilheyra hópi þeirra sem séu skotmark Al-Shabaab og að mati stofnunarinnar á öryggisástandi í Mógadisjú, áhrifum Al-Shabaab í borginni og getu stjórnvalda til að veita vernd. Einnig gerir kæranda athugasemdir við mat Útlendingastofnunar á auðkenni hennar, viðkvæmri stöðu hennar með tilliti til ættbálks hennar, kyns, menntunar, stuðningsnets og áfallasögu. Þá telur kærandi rökstuðningi stofnunarinnar verulega ábótavant þar sem hann byggist ýmist á röngum upplýsingum, vísað sé til heimilda með villandi hætti eða litið sé fram hjá heimildum sem styðji við málsástæður hennar. Þá sé að afar takmörkuðu leyti vísað til frásagnar kæranda. Í ákvörðun Útlendingastofnunar sé fullyrt að samkvæmt heimildum „snúist ofsóknir Al-Shabaab, sem beinist að ríkisstarfsmönnum, almennt að því að nýta starfskrafta þeirra“. Í ákvörðuninni sé hins vegar ekki getið til hvaða heimilda sé verið að vísa og kærandi hafi hvergi séð framangreindu haldið fram í heimildum. Útlendingastofnun útskýri ekki í ákvörðun sinni hvers vegna hún leggi niðurstöður einstaka heimilda til grundvallar, og jafnvel gagnálykti frá þeim, en vísi lítið sem ekkert til heimilda sem bendi til hins gagnstæða. Ýmsar heimildir bendi til þess að einstaklingar sem gegni almennum störfum fyrir stjórnvöld í Sómalíu geti átt á hættu að verða skotmörk samtakanna og vísar kærandi til alþjóðlegra skýrslna og nýuppfærðra leiðbeininga Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna við mat á umsóknum fólks um alþjóðlega vernd frá Sómalíu máli sínu til stuðnings. Jafnframt mótmælir kærandi því mati Útlendingastofnunar að öryggisástand í borginni Mógadisjú fari batnandi þar sem heimildir bendi til þess að almennir borgarar sem búi og starfi í borginni eigi á hættu að verða fyrir ofbeldisárásum þar. Jafnframt sé það niðurstaða Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna að Mógadisjú sé almennt ekki öruggur áfangastaður fyrir flótta innanlands í ljósi öryggisástandsins og fleiri þátta.

Auk framangreinds telur kærandi að alvarlegir annmarkar hafi verið á rökstuðningi fyrir niðurstöðu Útlendingastofnunar varðandi 1. og 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, en að mati kæranda hafi rökstuðningurinn tekið lítið mið af frásögn hennar og persónulegum aðstæðum. Þess í stað hafi stofnunin fjallað mikið um nýliðasöfnun Al-Shabaab sem kærandi hafi ekki byggt á í máli sínu. Telur kærandi auk þess óljóst hvaða rök búi að baki niðurstöðu Útlendingastofnunar. Ekkert hafi verið vísað til frásagnar kæranda heldur einungis vísað almennt til landaupplýsinga og trúverðugleikamats, sem þó engar aðfinnslur hafi verið gerðar við. Telur kærandi þessa starfshætti Útlendingastofnunar ámælisverða. Jafnframt hafi verið staðhæft í ákvörðun Útlendingastofnunar að kærandi ætti ekki á hættu að sæta illri meðferð í heimaríki. Kærandi mótmælir því þar sem heimildir séu skýrar um þá hættu sem steðji að almennum borgurum vegna hryðjuverkaárása og handahófskenndra árása í Sómalíu. Ekki hafi verið tekin afstaða til þess í ákvörðun Útlendingastofnunar hvort persónulegar aðstæður kæranda, t.a.m. kyn hennar, hafi áhrif á þann alvarleikaþröskuld sem miðað sé við. Skort hafi verulega á umfjöllun um stöðu kvenna í ákvörðuninni að mati kæranda, þrátt fyrir að kærunefnd útlendingamála hafi gert sérstakar athugasemdir við þann þátt í sambærilegu máli sem kært hafi verið til nefndarinnar. Telur kærandi ljóst að með synjun Útlendingastofnunar á umsókn hennar sé um stefnubreytingu að ræða og sé niðurstaðan ekki í samræmi við landaupplýsingar. Þá hafi Útlendingastofnun lagt til grundvallar að kærandi ætti fjölskyldu- og stuðningsnet í heimaríki sínu án þess að hafa rökstutt það sérstaklega. Eiginmaður kæranda sé hins vegar sjálfur á flótta innan Sómalíu og börn kæranda dvelji hjá bróður og mágkonu kæranda sem sé andsnúin því að hýsa þau. Þá mótmælir kæranda því að hún hafi ekki sannað með fullnægjandi hætti hver hún sé þar sem hún hafi lagt fram afrit af starfsskilríkjum sínum.

Í greinargerð kæranda er fjallað almennt um aðstæður í Sómalíu, m.a. slæmt öryggisástand, starfsemi og mannréttindabrot Al-Shabaab og viðkvæma stöðu kvenna þar í landi. Kærandi vísar til alþjóðlegra skýrslna máli sínu til stuðnings.

Kærandi krefst þess aðallega að henni verði veitt alþjóðleg vernd sem flóttamaður hér á landi, samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Hún eigi á hættu ofsóknir af hálfu Al-Shabaab starfs síns vegna og vegna samsafns ástæðna. Kærandi sé aðili að tilteknum þjóðfélagshópi í skilningi d-liðar 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga vegna stöðu sinnar gagnvart Al-Shabaab og kyns síns. Heimildir séu skýrar um þá hættu sem einstaklingum sem starfi fyrir stjórnvöld stafi af Al-Shabaab og hafi kærandi nú þegar fengið líflátshótanir starfs síns vegna. Staða kvenna í Sómalíu sé jafnframt bágborin og kærandi eigi á hættu kynbundið ofbeldi og mismunun verði henni gert að snúa aftur til heimaríkis. Þá sé ljóst að yfirvöld í Sómalíu hafi enga burði til að vernda kæranda. Máli sínu til stuðnings vísar kærandi til ýmissa ákvarðana Útlendingastofnunar og úrskurða kærunefndar útlendingamála. Telur kærandi ljóst að leysa eigi úr máli hennar á sama hátt þar sem heimildir beri ekki með sér að staða einstaklinga frá Sómalíu sé breytt þegar komi að hættu á ofsóknum af hálfu Al-Shabaab og enn sé ómögulegt að treysta á vernd sómalskra yfirvalda.

Verði ekki fallist á aðalkröfu málsins krefst kærandi þess til vara að henni verði veitt viðbótarvernd hér á landi með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð verði henni gert að snúa aftur til heimaríkis. Einnig eigi hún á hættu að verða fyrir skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki sé greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka verði henni gert að snúa aftur til heimaríkis. Heimildir kveði á um að snúa til baka til Sómalíu frá vestrænum ríkjum geti eitt og sér verið töluverð áhætta. Al-Shabaab meðlimir séu tortryggnir gagnvart þeim sem snúi aftur og telji aðilana vera njósnara eða í samstarfi við sómölsk yfirvöld. Þá sé öryggisástand í Mógadisjú, heimaborg kæranda, mjög ótryggt og kærandi sé í viðkvæmri stöðu sem kona. Kærandi telur fasta framkvæmd vera til staðar í úrlausnum íslenskra stjórnvalda þegar komi að umsækjendum um alþjóðlega vernd frá Mið- og Suður-Sómalíu, þ.e. að þeim sé veitt viðbótarvernd samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þegar þeir uppfylli ekki 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Vísar kærandi til nokkurra ákvarðana Útlendingastofnunar máli sínu til stuðnings. Telur kærandi Útlendingastofnun bundna af fyrri ákvörðunum sínum nema stofnuninni takist að sýna fram á að ástand í Sómalíu hafi batnað til muna, en ljóst sé að mati kæranda að svo sé ekki.

Til þrautavara krefst kærandi þess að henni verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Ákvæðið heimili veitingu slíks dvalarleyfis þegar útlendingur geti sýnt fram á ríka þörf á vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki. Kærandi vísar m.a. til athugasemda við ákvæðið í frumvarpi því er varð að lögum um útlendinga. Kærandi sé í viðkvæmri stöðu, sbr. 25. gr. laga um útlendinga, en henni hafi m.a. verið nauðgað í Grikklandi og hafi hún ítrekað verið metin í sjálfsvígshættu. Þá viðgangist gróf mannréttindabrot í Sómalíu og félagslegar aðstæður kæranda í heimaríki séu afar erfiðar. Kærandi geti auk þess ekki vænst þess að fá nauðsynlega kvenheilbrigðisþjónustu í heimaríki sínu.

Til þrautaþrautavara krefst kærandi þess að henni verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga, enda hafi hún ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða. Kærandi hafi lagt fram umsókn sína hér á landi 10. apríl 2021. Kærandi hafi lagt fram afrit af starfsskilríkjum sínum sem hafi að geyma mynd af kæranda. Í athugasemdum við ákvæði 14. gr. laga um útlendinga komi fram að nafnskírteini með mynd geti talist fullnægjandi skilríki. Telur kærandi því ekki leika vafa á því hver hún sé. Telur kærandi að hún uppfylli a- til c-lið 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Þá vísar kærandi til ákvæðis 4. mgr. 74. gr. sem mæli fyrir um heimild til að víkja frá skilyrðum 3. mgr. ákvæðisins þegar sérstaklega standi á. Ljóst sé að þar hafi mistök við lagasetningu átt sér stað og átt að vísa til 2. mgr. Þetta sé í ósamræmi við eldra ákvæði um sama efni og 77. gr. núgildandi laga sem innihaldi heimild til sambærilegrar undanþágu í tengslum við bráðabirgðadvalarleyfi. Þá eigi engin atriði sem talin séu upp í ákvæði 3. mgr. 74. gr. laga um útlendinga, við í máli kæranda. Hingað til hafi kærunefnd ekki beitt undanþáguheimild í 4. mgr. 74. gr. laganna og vísað til þess að texti laganna sé skýr. Kærandi mótmælir þessari túlkun yfirvalda og telur að innri samræmisskýring leiði til þess að beita megi undanþáguheimild 4. mgr. 74. gr. laga um útlendinga við mat á skilyrði 2. mgr. 74. gr. laganna.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað afriti af starfsskilríkjum með gildistíma frá 18. febrúar 2018 til 17. febrúar 2019. Það var mat Útlendingastofnunar að kærandi hefði ekki sannað auðkenni sitt með fullnægjandi hætti. Var því leyst úr auðkenni hennar á grundvelli mats á trúverðugleika og komst Útlendingastofnun að þeirri niðurstöðu að kærandi væri frá Sómalíu. Kærunefnd telur ekki ástæðu til að hnekkja framangreindu mati Útlendingastofnunar og verður því lagt til grundvallar að kærandi sé sómalskur ríkisborgari.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Sómalíu m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

 • 2021 Report on International Religious Freedom: Somalia (US Department of State, 2. júní 2022);
 • 2021 Country Reports on Human Rights Practices – Somalia (US Department of State, 12. apríl 2022);
 • Amnesty International Report 2021/22 (Amnesty International, 29. mars 2022);
 • BTI 2022 Country Report – Somalia (Bertelsmann Stiftung, 23. febrúar 2022);
 • Benadir Regional Report 2020, Somali Health and Demographic Survey (SHDS) (Somalia National Bureau of Statistics, júlí 2021);
 • Challenges Facing the Health System in Somalia and Implications for Achieving the SDGs (European Journal of Public Health, 30. september 2020);
 • Clans in Somalia (Austrian Centre for Country of Origin and Asylum Research and Documentation (ACCORD), desember 2009);
 • Country Background Note – Somalia (UK Home Office, desember 2020);
 • Country Guidance: Somalia (EUAA, júní 2022);
 • Country of Origin Information – Somalia: Health System (Danish Immigration Service, nóvember 2020);
 • Country Policy and Information Note – Somalia: Al-Shabaab (UK Home Office, nóvember 2020);
 • Country Policy and Information Note – Somalia: Majority clans and minority groups in south and central Somalia (UK Home Office, júní 2017);
 • Country Policy and Information Note: Security and humanitarian situation in Mogadishu, Somalia (UK Home Office, maí 2022);
 • Country Policy and Information Note – Somalia: Women fearing gender-based violence (UK Home Office, apríl 2018);
 • Country Reports on Terrorism 2020 – Somalia (US Department of State, 16. desember 2021);
 • EASO COI Report: Somalia Actors (EUAA, 1. júlí 2021);
 • EASO Country of Origin Information Report: Somalia – Targeted profiles (EUAA, 19. september 2021);
 • Freedom in the World 2022 – Somalia (Freedom House, 24. febrúar 2022);
 • International Protection Considerations with Regard to People Fleeing Somalia (UNHCR, september 2022);
 • Key socio-economic indicators (EUAA, september 2021);
 • Overview of Gender-Based Violence in Somalia – Advocacy Brief, 2021 (UNFPA Somalia, 5. mars 2021);
 • Protection of Civilians: Building the Foundation for Peace, Security and Human Rights in Somalia (OHCHR, UNSOM, 10. desember 2017);
 • Reply by the United Nations High Commissioner for Refugees (UNHCR) in response to request for guidance on the application of the internal flight or relocation alternative, particularly in respect of Mogadishu, Somalia (UNHCR, 25. september 2013);
 • Situation in Somalia: Report of the Secretary-General (UN Security Council, 17. febrúar 2021);
 • Situation in Somalia: Report of the Secretary-General (UN Security Council, 19. maí 2021);
 • Situation in Somalia: Report of the Secretary-General (UN Security Council, 8. febrúar 2022);
 • Somalia: Al-Shabaab and local employees of AMISOM, the UN and other international organisations (Landinfo, 2. júní 2015);
 • Somalia. Al-Shabaab areas in Southern Somalia (Landinfo, 21. maí 2019);
 • Somalia: Basisinfo (Landinfo, 22. mars 2021);
 • Somalia country profile (BBC, 20. desember 2022);
 • Somalia: Fact-Finding Mission to Mogadishu in March 2020 – Security situation and humanitarian conditions in Mogadishu (Finnish Immigration Service, 7. ágúst 2020);
 • Somalia: Det generelle voldsbildet og al-Shabaabs aktivitet i ulike deler av landet (Landinfo, 3. júní 2021);
 • Somalia: Health system (The Danish Immigration Service, nóvember 2020);
 • Somalia: Kampene i Mogadishu den 25. April 2021 og sikkerhetssituasjonen i byen etter dette (Landinfo, 15. júní 2021);
 • Somalia: Klan, familie, migrasjon og bistand ved (re)etablering (Landinfo, 24. júní 2020);
 • Somalia: Security challenges in Mogadishu (Landinfo, 15. maí 2018);
 • Somalia – Security situation (EUAA, september 2021);
 • Somalia: Violence in Mogadishu and developments since 2012 (Landinfo, 30. október 2020);
 • Somalia: UN expert warns health care standards “dangerously low“ (UNHRC, 5. apríl 2022);
 • South and Central Somalia – Security Situation, Al-Shabaab Presence, and Target Groups (Danish Refugee Council, mars 2017);
 • South and Central Somalia – Security situation, forced recruitment, and conditions for returnees (The Danish Immigration Service, júlí 2020);
 • The World Factbook – Somalia (Central Intelligence Agency, síðast uppfært 24. janúar 2023);
 • UNHCR Eligibility Guidelines for Assessing the International Protection Needs of Asylum -Seekers from Somalia (UNHCR, 5. maí 2010);
 • UNHCR Position on Returns to Southern and Central Somalia (Update I) (UNHCR, maí 2016);
 • Vefsíða Minority Rights Group – Somalia (https://minorityrights.org/country/somalia/, síðast uppfært í maí 2018);
 • Voices Somalia – A Qualitative Assessment (UNFPA, september 2021);
 • World Report 2023 – Somalia: Events of 2022 (Human Rights Watch, 12. janúar 2023).

Sómalía er sambandslýðveldi með rúmlega 12 milljónir íbúa. Ríkið lýsti yfir sjálfstæði frá Bretum og Ítölum þann 1. júlí 1960. Þann 20. september 1960 gerðist Sómalía aðili að Sameinuðu þjóðunum. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi sem og alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 1990. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um afnám alls kynþáttamisréttis árið 1975 og samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 1990. Sómalía fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins árið 2015 og samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks árið 2019.

Í skýrslu EUAA frá árinu 2016 kemur fram að árið 1991 hafi brotist út borgarastyrjöld í Sómalíu eftir að vopnaðir andspyrnuhópar hafi steypt þáverandi forseta landsins, Siad Barre, og ríkisstjórn hans af stóli. Næstu ár hafi einkennst af miklum átökum og lögleysu í landinu án þess að starfhæf ríkisstjórn væri við völd. Í ágúst 2012 hafi fyrsta varanlega alríkisstjórnin verið mynduð frá því borgarastyrjöldin hafi hafist. Frá árinu 2009 hafi átök verið bundin við mið- og suðurhluta Sómalíu á milli ríkisstjórnar landsins og bandamanna þeirra annars vegar og íslamskra öfgahópa hins vegar, einkum Al-Shabaab, sem hafi náð stjórn á nokkrum svæðum í landinu. Beri Al-Shabaab m.a. ábyrgð á fjölda hryðjuverkaárása síðustu ár í Sómalíu sem hafi kostað hundruð óbreyttra borgara lífið. Samkvæmt skýrslu öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna frá því í maí 2020 sé almennt öryggisástand í Sómalíu sveiflukennt. Megi rekja það til aukningar hryðjuverkaárása í landinu, fjölgunar glæpa og vopnaðra átaka sem hafi verið viðvarandi frá því í janúar 2020. Al-Shabaab hafi aukið árásir sínar í Mógadisjú og í Boosasoo í Bari héraði í Puntlandi.

Í skýrslu búsetunefndar Sameinuðu þjóðanna frá árinu 2006 kemur fram að í kjölfar borgarastyrjaldarinnar árið 1991 hafi ættbálkar í Norður-Sómalíu ákveðið að lýsa yfir sjálfstæði og stofnað lýðveldið Sómalíland. Héruðin Bari, Nugaal og norðurhluti Mudug hafi sett á fót sjálfstjórnarríkið Puntland í norðausturhluta Sómalíu árið 1998 og hafi ríkið haft sjálfstjórn síðan. Ólíkt Sómalílandi hafi Puntland ekki leitast eftir sjálfstæði frá Sómalíu. Frá árinu 1998 hafi Puntland átt í deilum við Sómalíland um landsvæðin Sool og Sanaag.

Í skýrslu Landinfo frá árinu 2019 kemur fram að Al-Shabaab hafi tekið yfir stjórn stærsta hluta Suður-Sómalíu árin 2008 til 2010. Á árunum 2011 til 2015 hafi friðargæsla Afríkuþjóða í Sómalíu (The African Union Mission in Somalia (AMISOM)) og fleiri samtök stjórnvalda tekist að ná stjórn á Mógadisjú og í kjölfarið öðrum bæjum Suður-Sómalíu. Þrátt fyrir það hafi Al-Shabaab náð yfirráðum yfir nokkrum bæjum í suðurhluta landsins að nýju á árunum 2016 og 2017 og hafi einnig viss áhrif á þeim svæðum þar sem samtökin hafi ekki varanlega viðveru. Sterkir ættbálkar hafi ákveðið svigrúm til að semja við samtökin en flestir hræðist hefndaraðgerðir þeirra. Al-Shabaab hafi umfangsmikið net uppljóstrara og bandamanna sem fari tiltölulega frjálslega milli landsvæða og séu hópar samtakanna sérstaklega virkir á svæðum þar sem ríkisstjórnin og stuðningsmenn hennar haldi sig. Í skýrslu dönsku flóttamannanefndarinnar frá árinu 2017 kemur fram að ýmsar ástæður geti legið að baki ofsóknum Al-Shabaab. Megi þar m.a. nefna alvarlegar refsiaðgerðir gegn óbreyttum borgurum sem ekki fari eftir reglum og hugmyndafræði samtakanna. Þvinguð nýliðaskráning sé hins vegar óalgeng og eigi sér ekki stað á þeim svæðum sem séu ekki undir fullri stjórn Al-Shabaab. Geti samtökin þó hugsanlega hvatt til þess að einstaklingar gangi til liðs við þau og beitt hópþrýstingi með það að markmiði að þvinga aðila til liðs við sig. Þá hafi Al-Shabaab í einhverjum tilvikum krafist þess að ákveðinn fjöldi ungmenna gangi til liðs við samtökin til að verja tiltekin svæði. Neiti einstaklingur þeirri kröfu hafi samtökin í einhverjum tilvikum krafist einhvers konar bóta og þá hafi komið upp tilvik þar sem einstaklingur hafi þurft að flýja til að tryggja öryggi sitt. Í skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna frá september 2022, sem fjallar um mat á umsóknum einstaklinga um alþjóðlega vernd frá Sómalíu, kemur fram að þeir sem tilheyri áhættuhópi vegna ofsókna af hálfu Al-Shabaab séu m.a. einstaklingar sem tengist eða taldir séu tengjast sómölskum yfirvöldum á einhvern hátt, einstaklingar sem taldir séu brjóta gegn sharía lögum eða tilskipunum sem Al-Shabaab hafi sett fram, þ. á m. þeir sem hafi yfirgefið Al-Shabaab, fjölmiðlamenn, einkum þeir sem gagnrýni Al-Shabaab, baráttufólk fyrir mannréttindum og einstaklingar sem Al-Shabaab hafi kúgað fé út úr.

Samkvæmt skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá árinu 2020 er árangursrík vernd stjórnvalda á yfirráðasvæðum Al-Shabaab ekki tiltæk. Ríkisstjórn landsins hafi leitast við að bæta öryggisþjónustu sína með aðstoð AMISOM. Í höfuðborg Sómalíu, Mógadisjú, og á öðrum þéttbýlisstöðum þar sem ríkisstjórnin sé við völd séu öryggissveitir veikburða sökum skorts á fjármagni, fullnægjandi búnaði og skorts á þjálfun starfsmanna. Í skýrslu Landinfo frá árinu 2018 kemur fram að sómalska lögreglan (e. Somali Police Force) sé virk og sýnileg í höfuðborginni Mógadisjú. Megináhersla lögreglunnar sé að vernda stofnanir ríkisins gegn árásum Al-Shabaab. Aftur á móti ber heimildum saman um að lögreglan hafi takmarkaða getu til að vernda einstaklinga gegn ofbeldi, þ.m.t. að rannsaka, ákæra og refsa fyrir ofbeldisbrot. Þá kemur fram að spilling sé útbreidd meðal lögreglu og hjá dómstólum. Í skýrslu danskra innflytjendayfirvalda frá 2020 kemur fram að öryggisástand í Sómalíu sé sveiflukennt og Al-Shabaab fremji flest brot gegn óbreyttum borgurum í Suður- og Mið-Sómalíu. Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá 2022 hafi Al-Shabaab borið ábyrgð á um 60% dauðsfalla almennra borgara á tæplega 9 mánaða tímabili árin 2020 og 2021.

Í skýrslu EUAA frá 2021 kemur fram að konur og stúlkur standi frammi fyrir margs konar áskorunum í Sómalíu, m.a. þvinguðum hjónaböndum á barnsaldri, kynfæralimlestingum, heimilisofbeldi, kynferðis- og kynbundnu ofbeldi, auk takmarkana á skólagöngu. Samkvæmt skýrslunni eru konur sérstaklega berskjaldaðar gagnvart kynbundnu ofbeldi. Sómölsk lög og réttarkerfið veiti takmarkaða vernd gegn mismunun á grundvelli kyns. Konur eigi erfitt uppdráttar á mörgum sviðum, m.a. á sviði húsnæðis, menntunar og atvinnu. Þá njóti þær ekki jafnréttis þegar komi að því að erfa eignir og sé þeim oft neitað um þær eignir sem þær eigi lagalegan rétt á vegna félagslegra viðhorfa sem mismuni konum. Þá séu nauðganir, og annað kynferðisofbeldi, mjög útbreiddar og algengar í Sómalíu, einkum í Suður- og Mið-Sómalíu og á svæðum innan Puntlands. Meirihluti brotanna sé ekki tilkynntur til lögreglu, einkum sökum víðtæks refsileysis innan réttarkerfisins og ótta og skömm þolenda. Heimilisofbeldi í garð kvenna í Sómalíu sé jafnframt lýst sem „hömlulausu“. Konur séu berskjaldaðar fyrir kynferðislegu ofbeldi á vinnumarkaði og sé algengt að karlmenn, sem sjái um ráðningar innan bæði einkageirans og hins opinbera, krefjist einhvers konar kynlífsþjónustu gegn ráðningu. Konur hafi litla möguleika á að kvarta yfir slíku ofbeldi, en nær öruggt sé að konur missi vinnuna geri þær það. Fyrir vikið neyðist margar konur til að þola kynferðislega misnotkun til að sjá fyrir fjölskyldu sinni. Þá sé þátttaka kvenna í stjórnmálastörfum takmörkuð vegna viðhorfa sem einkennist af mismunun og fjandskap í garð þeirra. Einstæðar konur séu almennt í viðkvæmari stöðu en giftar konur, en skortur á vernd í bland við viðhorf feðraveldisins í Sómalíu leiði til mismununar og útilokunar einstæðra kvenna. Einstæðar konur standi t.a.m. frammi fyrir erfiðleikum við að leigja eigið húsnæði þar sem þær þurfi karlmann til að ábyrgjast leigufyrirkomulagið. Þá eigi einstæðar konur sérstaklega á hættu að sæta kynbundnu ofbeldi þar sem þær neyðist til að vera á vinnumarkaði til að geta mætt grunnþörfum fjölskyldu sinnar og vegna staðalímynda í samfélaginu sem álíti konur og stúlkur veikburða. Almennt er ætlast til þess af samfélaginu að konur gangi í hjúskap ungar, þ.e. á unglingsárunum, eignist mörg börn og sjái um uppeldi þeirra og sinni húsverkum innan heimilisins. Í skýrslu óháðs sérfræðings mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna um stöðu mannréttindamála í Sómalíu frá 14. júlí 2021 kemur m.a. fram að staða kvenna og barna hafi versnað vegna Covid-19 faraldursins og ofbeldi, einkum inni á heimilum, hafi aukist verulega. Einnig hafi orðið aukning í kynfæralimlestingum kvenna og stúlkna. Þá hafi aðgerðir stjórnvalda í málefnum kvenna ekki fengið þá framgöngu sem ætlað hafi verið og lagafrumvarp um glæpi tengda kynmökum boði afturför og fari gegn alþjóðlegum og svæðisbundnum skuldbindingum Sómalíu í þessum málaflokki.

Í skýrslu EUAA frá 2021 kemur fram að friðargæsla Afríkuþjóða í Sómalíu (AMISOM) sé friðargæslusveit í Sómalíu, studd m.a. af Sameinuðu þjóðunum, sem samanstandi af nærri 20.000 hersveitum. Markmið AMISOM sé m.a. að draga úr hættunni sem stafi af Al-Shabaab og öðrum vopnuðum hópum og koma á stöðugleika og öryggi í landinu undir stjórn sómölsku ríkisstjórnarinnar. AMISOM hafi tekist að ná yfirráðum úr höndum Al-Shabaab á nokkrum svæðum, þ. á m. Mógadisjú. Árangur AMISOM sé þó ekki öruggur þar sem hann sé háður hernaðarstuðningi alþjóðasamfélagsins. Í skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá 2020 er m.a. vísað í skýrslu danskra útlendingayfirvalda frá 2017 þar sem fram komi að flestar heimildir bendi til þess að helstu skotmörk Al-Shabaab séu embættismenn, háttsettir stjórnmálamenn, leiðtogar ættbálka sem styðji sómölsku ríkisstjórnina, AMISOM og stjórnarher landsins. Samkvæmt heimildum Sameinuðu þjóðanna geti þó einstaklingar sem starfi við þrif og önnur lágt sett störf hjá sómölskum stjórnvöldum eða AMISOM jafnframt verið skotmörk Al-Shabaab. Starfsfólk Sameinuðu þjóðanna og alþjóðlegra samtaka geti einnig verið skotmörk, óháð stöðu þeirra innan stofnananna. Í skýrslunni kemur fram að starfsmenn frjálsra félagasamtaka séu ekki sjálfkrafa skotmörk Al-Shabaab heldur fari það eftir ýmsu, t.a.m. hve mikil gagnrýni samtakanna sé á Al-Shabaab. Frjáls félagasamtök með tengsl við Bandaríkin séu hins vegar almennt skotmörk Al-Shabaab.

Samkvæmt upplýsingum á vefsíðu Minority Rights Group telst ættbálkurinn […] til minnihlutahópar af þeim ættbálkum í Sómalíu sem iðka íslamska trú. Meðlimir ættbálksins sæti oft mismunun sökum þess að þeir iðki trúna á ólíkan hátt en aðrir ættbálkar. […] ættbálkurinn njóti þó á sama tíma mikillar virðingar af hálfu margra Sómala vegna trúarlegs eðlis áttbálksins. Ættbálkurinn hafi sögulega gegnt mikilvægu sáttamiðlunarhlutverki í átökum milli ættbálka og notið virðingar og verndar tiltekinna ættbálka. Í borgarastyrjöldinni í Sómalíu árið 1990 hafi ættbálkurinn hins vegar misst þá vernd og sætt mannréttindabrotum af hálfu herja annarra ættbálka og hershöfðingja. Þrátt fyrir að hafa náð pólitískum áhrifum og árangri á sviði menntunar og viðskipta við arabalönd sæti meðlimir […] áttbálksins enn mismunun og mannréttindabrotum vegna uppruna síns, en talið sé að ættbálkurinn hafi flust til Sómalíu á tólftu öldinni. Heimildir bera með sér, m.a. skýrsla kanadískra útlendingayfirvalda frá árinu 2010, að ættbálkurinn njóti yfirleitt verndar þeirra ættbálka sem þeir búi innan um. Meðlimir ættbálksins séu þó viðkvæmir og berskjaldaðir fyrir ofbeldi, samkvæmt skýrslu ECOI frá 2022, sökum þess að hann hafi ekki her. Í framangreindri skýrslu kanadískra útlendingayfirvalda er vitnað í orð bandarísks dósent frá árinu 2010 þar sem fram kemur að […] ættbálkurinn sé skotmark hryðjuverkasamtakanna Al-Shabaab af hugmyndafræðilegum ástæðum. Al-Shabaab álíti […] ættbálkinn vera „ólöglega nýjung“ í íslamstrú og meðlimir ættbálksins eigi á hættu að verða myrtir eða ofsóttir af hálfu samtakanna.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. laga um útlendinga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir samkvæmt 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir samkvæmt 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök samkvæmt b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2019). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærandi byggir á því að hún eigi á hættu ofsóknir í heimaríki sínu af hálfu hryðjuverkasamtakanna Al-Shabaab sem rekja megi til fyrrum starfs hennar þar í landi. Meðlimir hryðjuverkasamtakanna hafi reynt að ráða kæranda af dögum þrisvar sinnum. Kærandi sé aðili að tilteknum þjóðfélagshópi í skilningi d-liðar 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga vegna stöðu sinnar gagnvart Al-Shabaab og vegna kyns síns. Staða kvenna í Sómalíu sé bágborin og kærandi eigi á hættu að sæta kynbundnu ofbeldi og mismunun verði henni gert að fara aftur til heimaríkis. Þá hafi yfirvöld í Sómalíu ekki burði til að vernda kæranda.

Mat á trúverðugleika frásagnar kæranda er byggt á endurritum af viðtölum hennar hjá Útlendingastofnun, öðrum gögnum málsins og upplýsingum um heimaríki kæranda.

Kærandi greindi frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun að hafa starfað sem ritari fyrir hafnarstjóra í borginni Mógadisjú. Lagði kærandi fram afrit af starfsmannaskírteini máli sínu til stuðnings. Frásögn kæranda af ástæðu flótta frá heimaríki hefur verið stöðug og samræmd í viðtölum hennar hjá Útlendingastofnun og á öðrum vettvangi, s.s. í samtölum hennar við heilbrigðisstarfsfólk hér á landi. Telur kærunefnd því ekki ástæðu til annars en að leggja frásögn kæranda til grundvallar. Samkvæmt þeim gögnum sem kærunefnd hefur skoðað, m.a. skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um mat á umsóknum einstaklinga um alþjóðlega vernd frá Sómalíu, eiga einstaklingar sem starfa fyrir sómölsk yfirvöld, og jafnvel þeir sem taldir eru tengjast yfirvöldum á einhvern hátt, á hættu að sæta ofsóknum af hálfu Al-Shabaab. Starfsemi hafna í Sómalíu heyrir undir sómölsk yfirvöld samkvæmt upplýsingum á vefsíðu Somali Port Authority og lítur kærunefnd því svo á að kærandi hafi verið starfsmaður hjá sómölskum yfirvöldum. Þrátt fyrir að kærandi hafi ekki lagt fram gögn sem renna stoðum undir frásögn hennar um afskipti Al-Shabaab af henni horfir kærunefnd til trúverðugleika kæranda og upplýsinga í þeim gögnum sem kærunefnd hefur skoðað og styðja við frásögn kæranda. Gögnin bera með sér að einstaklingar sem starfi hjá sómölskum stjórnvöldum, jafnvel í lágt settum stöðum, geti verið skotmörk Al-Shabaab. Telur kærunefnd, með vísan til þess að meta skuli vafa kæranda í hag, ekki forsendur til annars en að leggja til grundvallar að kærandi hafi sætt afskiptum af hálfu meðlima Al-Shabaab vegna starfs hennar hjá hafnarstjóra í Mógadisjú.

Með vísan til framangreinds, og í ljósi þess að kærunefnd telur ekki ástæðu til þess að efast um frásögn kæranda um störf hennar í Sómalíu og afskipti meðlima Al-Shabaab af henni, þá má ætla að þau afskipti geti leitt til þess að hún verði í aukinni hættu á að verða fyrir ofsóknum af hálfu samtakanna verði henni gert að snúa aftur til heimaríkis. Þá er það mat kærunefndar, með vísan til þeirra gagna sem kærunefnd hefur skoðað, að aðild kæranda að minnihlutaættbálkinum […] auki líkur þess að hún verði sérstakt skotmark samtakanna, sbr. d-lið 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Frásögn kæranda um að ekki sé hægt að fá vernd stjórnvalda í heimaríki hennar vegna ofsókna af hálfu Al-Shabaab fær jafnframt stoð í þeim gögnum sem kærunefnd hefur skoðað. Með vísan til framangreinds, þess að meta skuli vafa kæranda í hag og heildstæðs mat á aðstæðum kæranda í heimaríki hennar telur kærunefnd að kærandi hafi með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hún kunni að eiga á hættu ofsóknir sem rekja megi til aðstæðna hennar í heimaríki og að hún teljist því flóttamaður í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Mat á möguleika á flutningi innanlands

Þó svo að umsækjandi um alþjóðlega vernd hafi sýnt fram á ástæðuríkan ótta við að verða fyrir ofsóknum á því landsvæði sem hann býr, er heimilt að synja umsókn um alþjóðlega vernd ef umsækjandi getur fengið raunverulega vernd í öðrum landshluta heimalands síns en hann flúði frá, viðkomandi getur ferðast þangað á öruggan og löglegan hátt og hægt er með sanngirni að ætlast til þess af viðkomandi að hann setjist að á því svæði, sbr. 4. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laga um útlendinga segir að niðurstaða um hvort útlendingur geti fengið raunverulega vernd í öðrum hluta heimalands skuli byggð á einstaklingsbundnu mati á persónulegum aðstæðum útlendingsins og þeim aðstæðum sem séu í því landi. Við mat á því hvort hægt sé með sanngirni að ætlast til þess að útlendingur setjist að á því svæði sem talið er öruggt samkvæmt ákvæði þessu skuli tekið tillit til ýmissa þátta, svo sem aldurs, kyns, heilsu, fjölskylduaðstæðna, trúar, menningar sem og möguleika viðkomandi útlendings á vinnu eða menntun. Við mat samkvæmt ákvæðinu skuli m.a. höfð hliðsjón af leiðbeiningum flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (Guidelines on International Protection: „Internal Flight or Relocation Alternative“ within the Context og Article 1A(2) of the 1951 Convention and/or 1967 Protocol relating to the Status of Refugees, frá 23. júlí 2003).

Í leiðbeiningunum, sem varða möguleika á flutningi innanlands þegar einstaklingur hefur flúið heimaríki af ástæðuríkum ótta við ofsóknir, er lagt til grundvallar að mat á því hvort möguleiki sé á að einstaklingur geti flust búferlum til annars svæðis í heimaríki sé tvíþætt. Annars vegar verði að kanna hvort flutningur innanlands sé raunhæft úrræði. Að því er mál kæranda varðar kemur í þessu sambandi einkum til athugunar hvort það svæði sem lagt er til að hún flytjist til sé aðgengilegt á öruggan og löglegan hátt og hvort flutningur hennar þangað skapi hættu á að kærandi verði fyrir ofsóknum eða alvarlegum skaða. Hins vegar beri að kanna hvort viðkomandi geti, með hliðsjón af aðstæðum í heimaríki hans, lifað tiltölulega eðlilegu lífi án þess að standa frammi fyrir óþarfa erfiðleikum. Við þann þátt matsins verður m.a. að horfa til persónulegra aðstæðna viðkomandi, t.a.m. félags- og efnahagslegra aðstæðna á því svæði sem lagt er til. Í leiðbeiningunum segir m.a. um síðastnefnt atriði að það sé ósanngjarnt að ætlast til þess lífsviðurværi einstaklings verði lægra en það sem talist geti viðunandi eða að viðkomandi búi við eymd.

Líkt og fram hefur komið kveðst kærandi vera fædd og uppalin í Mógadisjú í Suður-Sómalíu. Kærunefnd hefur lagt til grundvallar að kærandi eigi á hættu ofsóknir verði henni gert að fara aftur þangað. Kemur þá til skoðunar hvort raunhæft og sanngjarnt sé að ætlast til þess að kærandi setjist að annars staðar í heimaríki sínu. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur hvatt ríki til að endursenda ekki einstaklinga til Mið-Sómalíu eða suðurhluta landsins, einkum vegna hernaðaraðgerða af hálfu vopnaðra hópa sem þar hafi átt sér stað lengi, sbr. skýrsla stofnunarinnar frá 2016, UNHCR Position on Returns to Southern and Central Somalia (Update I). Í leiðbeiningum stofnunarinnar um mat á innri flutningi í Sómalíu frá 2022 er fjallað um mögulegan innri flutning til ákveðinna svæða í Sómalíu, s.s. Mógadisjú, Puntlands og Sómalílands. Flutningur þangað sé þó afar erfiður og almennt sé ekki sanngjarnt að ætlast til að einstaklingur setjist að annars staðar í Sómalíu nema ljóst sé að hann muni njóta stuðnings fjölskyldu sinnar eða ættbálkar. Þá sé staða einstaklinga sem tilheyri minnihlutahópum eða minnihlutaættbálkum sérstaklega erfið. Kærandi hefur greint frá því að foreldrar hennar séu látnir og að börnin hennar sex búi hjá bróður kæranda og eiginkonu hans. Þá hefur kærandi greint frá því að eiginmaður hennar sé sjálfur á flótta og að hún viti ekki hvar hann sé niðurkominn. Kærunefnd horfir því til þess að kærandi verði hugsanlega einstæð móðir í Sómalíu verði henni gert að snúa þangað aftur. Líkt og fram hefur komið bera heimildir með sér að einstæðar konur séu almennt í viðkvæmari stöðu en giftar konur þar sem skortur á vernd í bland við viðhorf feðraveldisins í Sómalíu leiði til mismununar og útilokunar einstæðra kvenna. Einstæðar konur standi t.a.m. frammi fyrir erfiðleikum við að leigja eigið húsnæði þar sem þær þurfi karlmann til að ábyrgjast leigufyrirkomulagið. Þá eigi einstæðar konur sérstaklega á hættu að sæta kynbundnu ofbeldi þar sem þær neyðist til að vera á vinnumarkaði til að geta mætt grunnþörfum fjölskyldu sinnar og vegna staðalímynda í samfélaginu sem álíti konur og stúlkur veikburða. Er því óljóst hvort kærandi geti séð sex börnum sínum í heimaríki fyrir húsnæði og mat. Þá bera heimildir með sér að konur sem ferðist einsamlar innan Sómalíu séu sérstaklega útsettar fyrir ofbeldi. Jafnframt tilheyrir kærandi minnihlutaættbálki. Í ljósi framangreinds og skorts á stuðningsneti í heimaríki kæranda, þ.e. á öðrum svæðum en í Mógadisjú, er það mat kærunefndar að ekki sé raunhæft eða sanngjarnt að ætlast til þess af kæranda að hún setjist að annars staðar í Sómalíu, sbr. 4. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Athugasemdir kærunefndar við ákvörðun Útlendingastofnunar

Kærunefnd gerir athugasemd við skort á umfjöllun um stöðu kvenna í Sómalíu í ákvörðun Útlendingastofnunar. Með vísan til umfjöllunar kærunefndar um aðstæður kvenna í Sómalíu í úrskurði þessum er það mat kærunefndar að skortur á rannsókn og rökstuðningi Útlendingastofnunar hvað þennan þátt varðar teljist verulegur annmarki, einkum í ljósi þess að kærandi bar fyrir sig að vera í hættu í heimaríki sínu kyns síns vegna. Þá lagði Útlendingastofnun til grundvallar að konur teldust tilheyra sérstökum þjóðfélagshópi í skilningi d-liðar 3. mgr. 38. gr. og að skoða þyrfti hvert tilvik fyrir sig. Þrátt fyrir það var hvergi í ákvörðuninni fjallað um aðstæður kæranda í Sómalíu með hliðsjón af kyni hennar. Telur kærunefnd að með annmarka þessum hafi Útlendingastofnun brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga, sem og 22. gr. sömu laga.

Þá tekur kærunefnd undir það með kæranda að rökstuðningi Útlendingastofnunar á niðurstöðu sinni varðandi 1. og 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga hafi verið ábótavant, enda verður ekki skýrlega lesið af ákvörðuninni hvaða rök lágu að baki þeirri niðurstöðu Útlendingastofnunar að aðstæður kæranda væru ekki þess eðlis að þær féllu undir 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Vísaði Útlendingastofnun einungis til trúverðugleika kæranda, sem þó var ekki rýrður af stofnuninni, og landaupplýsinga, sem að mati kærunefndar renndu frekar stoðum undir frásögn kæranda heldur en ekki. Var rökstuðningur Útlendingastofnunar hvað þennan átt varðar ekki í samræmi við 22. gr. stjórnsýslulaga.

Þar sem að kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kæranda skuli veitt alþjóðleg vernd hér á landi þykir þó ekki ástæða til að ógilda ákvörðun Útlendingastofnunar og senda til nýrrar meðferðar af þessum sökum.

Samantekt

Að öllu framangreindu virtu er fallist á aðalkröfu kæranda um að fella úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar og veita kæranda alþjóðlega vernd á Íslandi á grundvelli 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðsamnings um stöðu flóttamanna.

Í ljósi þess að kærunefnd útlendingamála hefur fallist á aðalkröfu kæranda verða varakrafa, þrautavarakrafa og þrautaþrautavarakrafa kæranda ekki teknar til umfjöllunar í máli þessu.


 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Kæranda er veitt alþjóðleg vernd á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 40. gr. s.l. Lagt er fyrir stofnunina að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli 73. gr. laga um útlendinga.

 

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The appellant is granted international protection in accordance with Article 37, paragraph 1, and Article 40, paragraph 1, of the Act on Foreigners. The Directorate is instructed to issue her residence permit on the basis of Article 73 of the Act on Foreigners.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

Sindri M. Stephensen                                                                   Þorbjörg I. Jónsdóttir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum