Hoppa yfir valmynd

6/2020 A gegn Háskóla Íslands

Ár 2021, 19. janúar, lauk áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema, þau Einar Hugi Bjarnason lögmaður og formaður nefndarinnar, Eva Halldórsdóttir lögmaður og Daníel Isebarn Ágústsson lögmaður málinu 

 

nr. 6/2020

A

gegn

Háskóla Íslands

 

með svohljóðandi

Ú R S K U R Ð I 

I.

Málsmeðferð

Mál þetta hófst með kæru A, dags. 30. september 2020, sem barst áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema þann 8. október s.á. Kærð er ákvörðun deildarforseta Stjórnmálafræðideildar HÍ að gefa kæranda núll í einkunn í námskeiðinu ASK201F “The Role and Policymaking of International Institutions” og þeirri ákvörðun forseta Félagsvísindasviðs HÍ að áminna kæranda. Af kærunni virðist mega ráða að kærandi krefjist þess að áminningin verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir HÍ að taka málið fyrir að nýju.

Viðbrögð HÍ við kærunni bárust 27. nóvember 2020. Í erindinu hafnaði skólinn kröfum kæranda og vísaði til þess að framangreind ákvörðun og málsmeðferð henni tengd hafi verið í samræmi við lög og reglur.

Fundur var haldinn með málsaðilum þann 19. janúar 2021. Á þeim fundi komu aðilar sjónarmiðum sínum á framfæri munnlega fyrir nefndinni. Á fundinum kom m.a. fram af hálfu kæranda að hann mótmælti ásökunum um ritstuld.

II.

Málsatvik

Kærandi er nemandi í stjórnmálafræðideild á Félagsvísindasviði HÍ. Kærandi byggir á því að hann hafi ekki fengið tækifæri til þess að tjá sig um ásakanir um meintan ritstuld áður en ákvarðanir voru teknar um að hann fengi 0,0 í einkunn í námskeiðinu ASK201F “The Role and Policymaking of International Institutions” og í framhaldi áður en ákvörðun var tekin um áminningu.

Með tölvupósti deildarforseta Stjórnmálafræðideildar HÍ til kæranda frá 16. apríl 2020 var þeim síðarnefnda tilkynnt að grunur hafi vaknað um ætlaðan ritstuld kæranda í ritgerðinni “Covid 19 Crisis in border of turkey-Greece between Migrants influx” þar sem meginhluti ritgerðar kæranda væri byggður á texta skrifuðum af öðrum án þess að heimilda væri getið. Í tölvupóstinum var kæranda boðið að koma sjónarmiðum sínum á framfæri á fjarfundi 21. apríl 2020 sem kærandi gerði. Með bréfi deildarforseta Stjórnmálafræðideildar HÍ, dags. 22. apríl 2020, var gerð frekari grein fyrir málsmeðferðinni og framkomnum ásökunum og var kæranda veittur frestur til 6. maí 2020 til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Kærandi svaraði bréfinu með tölvupósti til deildarforseta Stjórnmálafræðideildar þann 8. maí 2020 þar sem hann greindi m.a. frá því að hann hefði ekki vísvitandi brotið reglur skólans, heldur hefðu brot hans verið afleiðing af fötlun og heilsuleysi, tímaskorti og vankunnáttu um reglur skólans.

Með bréfi deildarforseta Stjórnmálafræðideildar HÍ til kæranda, dags. 12. maí 2020, var kæranda tilkynnt um þá ákvörðun  að hann fengi 0,0 í einkunn fyrir ritgerðina “Covid 19 Crisis in border of turkey-Greece between Migrants influx” þar sem meginhluti ritgerðar kæranda væri byggður á texta skrifuðum af öðrum án þess að heimilda væri getið. Með þessu hefði kærandi brotið gegn 2. mgr. 19. gr. laga um opinbera háskóla nr. 85/2008, sbr. 1. mgr. 51. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009, og gegn 54. gr. reglnanna.

Með bréfi forseta Félagsvísindasviðs HÍ til kæranda, dags. 12. júní 2020, var kæranda veitt tækifæri til að tjá sig um ætluð brot áður en ákvörðun yrði tekin um agaviðurlög samkvæmt 3. mgr. 19. gr. laga um opinbera háskóla nr. 85/2008. Ekki bárust andmæli frá kæranda. Með bréfi forseta Félagsvísindasviðs HÍ til kæranda, dags. 30. júní 2020, var kæranda veitt áminning á grundvelli 3. mgr. 19. gr. laga nr. 85/2008.

III.

Málsástæður kæranda

Kærandi byggir á því að hann hafi ekki fengið tækifæri til þess að tjá sig um ásakanir um meintan ritstuld áður en ákvörðun var tekin um að hann fengi 0,0 í einkunn í námskeiðinu ASK201F “The Role and Policymaking of International Institutions” og áður en forseti Félagsvísindasviðs HÍ tók ákvörðun um að að áminna kæranda. Í kæru til nefndarinnar óskar kærandi formlega eftir því að fá að tjá sig um málið þar sem hann hafi ekki fengið tækifæri til þess á fyrri stigum. Á fundi með nefndinni þann 19. janúar 2021 áréttaði kærandi fyrri athugasemdir og kvaðst ekki hafa gerst sekur um ritstuld við ritun framangreindrar ritgerðar.

IV.

Málsástæður Háskóla Íslands

HÍ krefst þess að kröfum kæranda verði hafnað.

HÍ bendir á að í málinu sé um að ræða tvær stjórnvaldsákvarðanir, annars vegar um áhrif meints brots á einkunn og hins vegar um hugsanlega beitingu agaviðurlaga. Bent er á að þegar grunur vakni um misferli nemanda í prófi eða öðru verkefni stýri viðkomandi deildarforseti meðferð málsins í samráði við kennara námskeiðsins, en viðkomandi kennari sé einn bær til þess að ákveða áhrif brots á einkunn samkvæmt 2. mgr. 51. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009. Ákvörðun um hvort agaviðurlögum skuli beitt skv. 3. mgr. 19. gr. laga um opinbera háskóla nr. 85/2008 sé aftur á móti á forræði forseta fræðasviðs samkvæmt lögum.

Bent er á að áður en ákvörðunin um áminningu var tekin hafi kærandi skilað andmælum til deildarforseta Stjórnmálafræðideildar sem stýrði meðferð málsins sem laut að ákvörðun um áhrif brots á einkunn. Deildarforsetinn hafi tilkynnt kæranda um þá ákvörðun kennara að kærandi skyldi fá 0,0 í einkunn með bréfi 12. maí 2020. Því næst hafi málið verið áframsent til forseta Félagsvísindasviðs sem hafi tilkynnt kæranda með bréfi dags. 12 júní 2020 að til skoðunar væri að beita agaviðurlögum skv. 3. mgr. 19. gr. laga nr. 85/2008 en kæranda hafi verið veittur frestur til þess að skila andmælum til 26. júní 2020. Engin andmæli hafi borist  fræðasviðsforseta.

Þá er á því byggt að samkvæmt 4. mgr. 54. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009 sé nemendum óheimilt að nýta sér hugverk annarra í ritgerðum og öðrum verkefnum, nema heimilda sé getið í samræmi við vönduð fræðileg vinnubrögð. Ákvarðanir Stjórnmálafræðideildar og forseta Félagsvísindasviðs hafi byggt á því að upplýst væri um misferli kæranda, en niðurstöður úr forritinu Turnitin hafi sýnt að texti verkefnis kæranda væri að stórum hluta fenginn úr ýmsum heimildum á internetinu án þess að heimilda væri getið í samræmi við vönduð akademísk vinnubrögð. Kennari námskeiðsins hafi áður veitt kæranda tækifæri til þess að gera úrbætur á verkefninu m.t.t. heimildanotkunar eftir að fyrri niðurstöður úr Turnitin forritinu höfðu sýnt að heimildanotkun væri verulega ábótavant.

V.

Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa snýr að þeirri ákvörðun deildarforseta Stjórnmálafræðideildar HÍ að gefa kæranda 0,0 í einkunn í námskeiðinu ASK201F “The Role and Policymaking of International Institutions” og þeirri ákvörðun forseta Félagsvísindasviðs HÍ að áminna kæranda.

Fyrir liggur í gögnum málsins að leiðbeinandi benti kæranda á þá annmarka á ritgerð kæranda sem síðar urðu grundvöllur einkunnarinnar og ekkert bendir til þess að málsmeðferð í námskeiðinu eða við ákvörðun deildarforseta hafi verið haldin annmörkum. Ekki hafa komið fram trúverðugar skýringar af hálfu kæranda á því hvers vegna meginhluti ritgerðar hans er byggður á texta skrifuðum af öðrum án þess að heimilda sé getið. Verður einkunn kæranda í umræddu námskeiði því ekki ógilt.

Samkvæmt 2. mgr. 19. gr. laga nr. 85/2008, um opinbera háskóla, skal nemandi forðast að hafast nokkuð það að í námi sínu eða í framkomu sinni innan og utan skólans sem er honum til vanvirðu eða álitshnekkis eða varpað getur rýrð á nám hans eða skóla. Í 3. mgr. 19. gr. segir svo að ef nemandi gerist sekur um háttsemi skv. 2. mgr. eða háttsemi sem sé andstæð lögunum eða reglum settum samkvæmt þeim skuli forseti þess skóla þar sem hann er skráður til náms taka mál hans til meðferðar. Að teknu tilliti til alvarleika brots geti forseti veitt nemanda áminningu eða vikið honum úr skóla um tiltekinn tíma eða að fullu. Þá segir í ákvæðinu að áður en ákvörðun um brottrekstur sé tekin skuli gefa nemanda kost á að tjá sig um málið. Að lokum kemur fram að nemanda sé heimilt að skjóta ákvörðun forseta til áfrýjunarnefndar samkvæmt lögum um háskóla og að slíkt málskot fresti framkvæmd ákvörðunar forseta.

Samkvæmt  13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal aðili máls eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft. Ríkari kröfur eru gerðar til þess að þessi réttur sé veittur ef taka á íþyngjandi ákvörðun. Af gögnum málsins má ráða að kæranda var veittur kostur til að tjá sig um framangreinda ákvörðun forseta fræðisviðs áður en ákvörðun var tekin um agaviðurlög. Kærandi kom ekki andmælum á framfæri við það tækifæri en hann hafði áður komið sjónarmiðum sínum á framfæri á fundi með deildarforseta Stjórnmálafræðideildar þann 21. apríl 2020 og með tölvuskeyti til deildarforsetans þann 8. maí 2020. Samkvæmt þessu eru ekki efni til að fallast á að andmælaréttur hafi verið brotin á kæranda áður en ákvörðun um agaviðurlög var tekin. Verður ákvörðunin því ekki ógilt.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kröfu kæranda um að ákvörðun deildarforseta Stjórnmálafræðideildar Háskóla Íslands, að gefa kæranda einkunnina 0,0 í námskeiðinu ASK201F “The Role and Policymaking of International Institutions”, verði ógilt er hafnað. Þá er hafnað kröfu kæranda um að ógilda áminningu sem forseti Félagsvísindadeildar Háskóla Íslands veitti kæranda 30. júní 2020.

 

Einar Hugi Bjarnason

 

 

Daníel Isebarn Ágústsson                                 Eva Halldórsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira