Hoppa yfir valmynd

Nr. 434/2021 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 16. september 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 434/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU21070063

 

Beiðni [...] um endurupptöku

 

I.             Málsatvik

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála þann 20. apríl 2021 var ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja umsókn einstaklings er kveðst heita […], vera fæddur […] og vera ríkisborgari Miðbaugs Gíneu (hér eftir nefndur kærandi), um dvalarskírteini samkvæmt 90. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Þann 23. júlí 201 barst kærunefnd beiðni frá kæranda um endurupptöku málsins, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en með beiðni kæranda fylgdi greinargerð og fylgigögn.

II.            Málsástæður og rök kærenda

Kröfu sína byggir kærandi á því að ákvarðanir stjórnvalda í máli sínu hafi byggt á ófullnægjandi upplýsingum. Hann hafi verið í miklum samskiptum við útlendingayfirvöld hér á landi en ákvarðarnir stjórnvalda geri honum að yfirgefa Schengen-svæðið sem hann skilji ekki þar sem hann sé handhafi ótímabundins dvalarleyfis á Spáni. Hafi Útlendingastofnun aldrei leiðbeint honum um það hvaða gögn vanti í umsókn hans og hafi þannig ekki sinnt leiðbeiningarskyldu sinni. Vegabréf hans sé í vörslum lögreglu en hann þurfi að hafa það undir höndum svo hann geti fengið útgefið nýtt vegabréf frá heimaríki. Renni vegabréfið út 28. október 2021 og hann þurfi að leggja fram umsókn um nýtt vegabréf þremur mánuðum áður en það renni út. Loks vísar kærandi til þess að hann hafi dvalið á Íslandi í eitt og hálft ár með eiginkonu sinni og að hann vilji einungis vinna hér og aðlagast samfélaginu.

III.          Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Með úrskurði nr. 171/2021 frá 20. apríl 2021 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja umsókn kæranda um dvalarskírteini á grundvelli 90. gr. laga um útlendinga. Beiðni kæranda um endurupptöku byggir á því að úrskurður kærunefndar hafi byggt á ófullnægjandi upplýsingum. Með beiðni sinni um endurupptöku lagði kærandi fram ljósmyndir af ýmsum gögnum, m.a. af greiðslukortum sem bera með sér að vera í hans eigu, skólaskírteini frá Spáni og dvalarleyfisskírteini, útgefnu af spænskum yfirvöldum.

Í fyrrgreindum úrskurði komst nefndin að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 4. mgr. 83. gr. né 2. mgr. 90. gr. um að framvísa gildu vegabréfi, en við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun hafði kærandi framvísað vegabréfi sem reyndist breytifalsað en á þremur stöðum í því hefði handskrifuðum upplýsingum verið breytt, sbr. skjalarannsóknarskýrslu lögreglunnar á Suðurnesjum frá 9. nóvember 2020.

Með beiðni sinni hefur kærandi ekki lagt fram annað vegabréf, en ákvæði a-liðar 2. mgr. 90. gr. laga um útlendinga geri kröfu um að umsækjandi um dvalarskírteini hafi gilt vegabréf, og er það mat nefndarinnar að framlögð gögn og skýringar með endurupptökubeiðni séu ekki þess eðlis að tilefni sé til endurupptöku málsins á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga. Með vísan til þess er það niðurstaða kærunefndar að úrskurðar kærunefndar útlendingamála nr. 171/2021, hafi ekki byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða að atvik hafi breyst verulega frá töku ákvörðunar, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Að öllu framangreindu virtu er kröfu kæranda um endurupptöku málsins því hafnað.

 

 

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda er hafnað.

 

The request of the appellant is denied.

 

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                             Sandra Hlíf Ocares


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira