Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd jafnréttismála

Mál nr. 10/2024 - Úrskurður

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

 

 

A

gegn

Háskóla Íslands

 

Frávísun. Lögvarðir hagsmunir.

Máli A gegn H var vísað frá kærunefnd þar sem ekki lágu fyrir endanleg lok máls kæranda hjá kærða.

  1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála 22. ágúst 2024 er tekið fyrir mál nr. 10/2024 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
  2. Með kæru, dags. 13. apríl 2024, kærði A ákvörðun Háskóla Íslands um að binda enda á doktorsnám hennar og að segja henni upp sem doktorsnema, en uppsögnin hafi farið gegn 19. gr. laga nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.
  3. Kæran var kynnt kærða með bréfi, dags. 10. maí 2024, og óskað eftir afstöðu hans til kæruefnis. Í umsögn kærða, dags. 20. júní s.á., kemur m.a. fram að mál kæranda, sem hafi verið endurupptekið innan kærða, sé enn til meðferðar hjá kærða og því liggi ekki fyrir endanleg niðurstaða í málinu.
  4. Nánar tiltekið kemur fram í umsögn kærða að 27. júlí 2023 hafi verið tekin ákvörðun um að segja upp ráðningarsamningi kæranda sem doktorsnema við Háskóla Íslands og lyki ráðningu hennar hinn 31. ágúst 2023. Þessa niðurstöðu hafi kærandi borið undir háskólaráð Háskóla Íslands 9. ágúst 2023 og krafist að ákvörðunin yrði felld úr gildi. Háskólaráð hafnaði kröfum kæranda með úrskurði 5. október 2023. Var sú niðurstaða kærð til áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema. Undir rekstri málsins hjá áfrýjunarnefndinni hafi kærði ákveðið að taka málið aftur upp vegna galla á málsmeðferð hjá kærða. Ný ákvörðun í málinu var tilkynnt kæranda hinn 13. maí 2024 þar sem kröfum kæranda var hafnað. Kærandi kærði þá ákvörðun þann 3. júní s.á. til háskólaráðs Háskóla Íslands og er málið þar til meðferðar. Af hálfu kærða er bent á að þeirri niðurstöðu megi, eftir atvikum, skjóta til áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema, sbr. 20. gr. laga nr. 63/2006 um háskóla.
  5. Með tölvubréfi kærunefndar jafnréttismála til kæranda hinn 8. ágúst sl. var kæranda send umsögn kærða og sérstaklega vakin athygli á framangreindu um stöðu máls kæranda hjá kærða. Jafnframt var bent á að til álita kæmi hjá kærunefnd að vísa málinu frá nefndinni þar sem ekki lægi fyrir endanleg niðurstaða varðandi kæruefnið. Engar frekari athugasemdir hafa borist frá kæranda.

     

    NIÐURSTAÐA

  6. Mál þetta snýr að því hvort kærði hafi brotið gegn 19. gr. laga nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, vegna uppsagnar hennar sem doktorsnema hjá kærða. Samkvæmt ákvæðinu er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns. Sama gildir um stöðuhækkun, stöðubreytingar, endur­menntun, símenntun, starfsþjálfun, námsleyfi, uppsögn, vinnuaðstæður og vinnu­skilyrði starfsfólks.
  7. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 151/2020, um stjórnsýslu jafnréttismála, gilda lögin um stjórnsýslu á sviði jafnréttismála á því sviði sem löggjöf um jafnréttismál tekur til, m.a. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, og um störf kærunefndar jafnréttismála. Í 9. gr. laga nr. 151/2020 er fjallað um málsmeðferð hjá kærunefnd jafnréttismála en að öðru leyti gilda ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 6. mgr. ákvæðisins og 29. gr. reglugerðar nr. 408/2021 um kærunefnd jafnréttismála.
  8. Í VII. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er að finna almennar reglur um stjórnsýslu­kærur. Í 1. mgr. 26. gr. laganna segir að heimilt sé að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds og í 2. mgr. 26. gr. kemur fram að ákvörðun, sem ekki bindur enda á mál, verði ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt.
  9. Kærði tók mál kæranda aftur upp í kjölfar þess að kærandi kærði niðurstöðu háskólaráðs til áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema, sbr. hér að framan. Niðurstaða kærða var send til kæranda 13. maí sl. Kærandi kærði þá niðurstöðu til háskólaráðs Háskóla Íslands hinn 3. júní sl., sem hefur ekki fjallað um málið.
  10. Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 85/2008, um opinbera háskóla, fer háskólaráð með úrskurðarvald í málefnum háskólans. Fyrir liggur að málið hefur því ekki verið til lykta leitt, líkt og ákvæði 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga kveður á um, þar sem ekki hefur verið úrskurðað endanlega um mál kæranda innan Háskóla Íslands. Þar sem lög nr. 151/2020 kveða ekki á um víðtækari kæruheimild að þessu leyti en leiðir af 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga ber að vísað máli þessu frá kærunefnd jafnréttismála.
  11. Með vísan til framangreinds er málinu vísað frá nefndinni, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórn­sýslulaga og 23. gr. reglugerðar nr. 408/2021 um kærunefnd jafnréttismála. Áréttað er gagnvart kæranda að hægt er að kæra málið á ný til nefndarinnar, ef kærandi telur þörf á, þegar endanleg ákvörðun liggur fyrir og málið hefur verið til lykta leitt, sbr. 19. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna og 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð

Máli þessu er vísað frá kærunefnd jafnréttismála.

 

Andri Árnason

 

Berglind Bára Sigurjónsdóttir

 

Sigurður Örn Hilmarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta