Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd útboðsmála

Mál nr. 11/2023. Úrskurður kærunefndar útboðsmála.

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 24. júlí 2023
í máli nr. 11/2023:
Advania Ísland ehf.
gegn
Seðlabanka Íslands og
Origo hf.

Lykilorð
Örútboð. Rammasamningur. Lágmarkskröfur. Bindandi samningur. Skaðabótaskyldu hafnað.

Útdráttur
S auglýsti örútboð vegna innkaupa á fartölvum innan rammasamnings R um tölvubúnað. A var með lægsta tilboð í útboðinu en S taldi tilboðið ógilt þar sem að þær fartölvur sem A hefði boðið fullnægðu ekki kröfum útboðsgagna um hámarksþykkt þar sem þykktin var mest. Í kjölfarið var tilboð O valið og komst þar með á bindandi samningur milli S og O. Skömmu eftir S fékk vélarnar afhentar frá O kom þó í ljós að þær uppfylltu á sama hátt ekki kröfur útboðsgagna um hámarksþykkt. A kærði þá ákvörðun S að hafna tilboði sínu sem ógildu og velja tilboð O til samningsgerðar. Í úrskurði kærunefndar útboðsmála var talið að S hefði verið rétt að telja tilboð A ógilt þar sem að það fullnægði ekki kröfum útboðsgagna. Að því virtu væri óhjákvæmilegt að leggja til grundvallar að A hefði ekki átt raunhæfa möguleika á því að verða fyrir valinu í hinu kærða útboði. Yrði þegar af þeirri ástæðu ekki talið að S væri skaðabótaskyldur gagnvart A og hefði ekki þýðingu fyrir úrlausn málsins, eins og atvikum væri háttað, að samskonar annmarki hafi síðar reynst vera á þeirri vöru sem O bauð í útboðinu og samningur komst á um.

Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 1. mars 2023 kærir Advania Ísland ehf. örútboð Seðlabanka Íslands (hér eftir vísað til sem varnaraðila) auðkennt „Tölvubúnaður SÍ“, nr. 2301157. Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun varnaraðila 10. febrúar 2023 um að hafna tilboði kæranda sem ógildu og velja tilboð Origo hf. til samningsgerðar verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir varnaraðila að bjóða innkaupin út að nýju. Til vara krefst kærandi þess að kærunefndin veiti álit á skaðabótaskyldu varnaraðila. Þá krefst kærandi þess að varnaraðili greiði honum málskostnað.

Í greinargerð varnaraðila 16. mars 2023 er þess krafist að öllum kröfum kæranda verði hafnað. Origo hf. hefur ekki látið málið til sín taka.

Kærandi skilaði athugasemdum við greinargerð varnaraðila 4. apríl 2023. Kærunefndin óskaði eftir frekari upplýsingum frá varnaraðila og bárust þær 17. maí 2023 og 4. og 10. júlí sama ár.

I

Helstu málsatvik eru þau að 5. janúar 2023 óskaði varnaraðili eftir tilboðum í 50 fartölvur með örútboði nr. 2301157 innan rammasamnings Ríkiskaupa nr. RK. 03.01 um tölvubúnað frá 2019. Í örútboðslýsingu, sem var send seljendum í rammasamningnum, var almennum tæknilegum kröfum til boðinnar vöru lýst þar á meðal um örgjörva, stærð vinnsluminnis, tengi og skjástærð. Kröfur um þyngd og þykkt fartölva voru ekki tilgreindar. Í örútboðslýsingunni kom fram að kaupandi myndi tilkynna um val tilboðs í tölvupósti til bjóðenda. Ef tilboði yrði tekið væri kominn á bindandi samningur á grundvelli útboðsgagna og tilboðs bjóðanda. Tekið var fram að tilboð yrðu einungis metin á grundvelli innsendra gagna.

Á fyrirspurnartíma örútboðsins var óskað eftir staðfestingu varnaraðila á því hvort að lágmarkskröfur rammasamnings um þykkt og þyngd fartölva giltu í útboðinu „þ.e. að hámarki 19,57mm og 1,4 kg?“. Staðfesti varnaraðili það auk þess að vísa í svörum í greinar 1.6.2 og 1.6.2.3 í útboðslýsingu rammasamnings. Í fyrrnefndu greininni koma fram almennar lágmarkskröfur til boðins búnaðar en í þeirri síðarnefndu sértækar lágmarkskröfur til flokksins „Fartölva 2“. Segir þar að hámarksþyngd fartölva skuli vera 1,4 kílógrömm án spennugjafa og hámarksþykkt ekki fara yfir 19 millimetra. Bjóðendur skyldu staðfesta með svari að boðinn búnaður uppfyllti lágmarskröfur auk þess sem vörulýsing (Data sheet) boðinnar vöru skyldi fylgja með tilboði. Í svörum Ríkiskaupa við fyrirspurnum á tilboðstíma rammasamningsútboðs kom fram að leyfileg vikmörk frá þykktarkröfum væri +/-3%. Í kafla 1.4.2 í útboðslýsingu rammasamnings kom fram að bjóðendur skyldu reiðubúnir að afhenda Ríkiskaupum tölvur og fylgihluti til prófana og yfirferðar. Ríkiskaup hafa upplýst um að í flokknum „Fartölva 2“ í rammasamningsútboðinu hafi kærandi boðið Dell Latitude 7400, Origo hf. Lenovo ThinkPad T490 og Opin kerfi annars vegar HP Probook 440 G6 og hins vegar HP EliteBook 840 G6. Við mat á boðnum vörum hafi Ríkiskaup kallað eftir sýnishornum af tölvunum og framkvæmt mælingar á þeim.

Tilboð í örútboðið voru opnuð 7. febrúar 2023 og bárust tilboð frá birgjunum þremur. Í opnunarskýrslu sem send var bjóðendum sama dag kom fram að tilboð kæranda, sem bauð Dell Latitute 5430 fartölvur, var lægst en tilboð frá Origo hf., þar sem boðnar voru tölvur af gerðinni Lenovo ThinkPad T14, kom næst á eftir. Í tilkynningu varnaraðila kom fram að opnunarskýrslan fæli ekki í sér niðurstöðu útboðsins og meðal annars settur sá fyrirvari að ekki væri búið að meta gildi tilboða. Síðar sama dag barst varnaraðila tölvupóstur frá Origo hf. þar sem kom fram að samkvæmt tölum frá framleiðanda Dell væri þykkt boðinnar vöru kæranda 19,3 til 20,9 millimetrar. Með ábendingunni fylgdi vefslóð á upplýsingar um umrædda vél auk vefslóðar með upplýsingum um þá vél sem Origo hf. hafði boðið. Málsaðilar lýsa því að 9. sama mánaðar hafi varnaraðili haft samband við kæranda vegna þessa. Hafi kærandi þá staðfest þykktina en talið eðlilegt að miðað yrði við tæknilýsingu á boðnum vélum sem fylgt hafi tilboðum. Þá hafi hann bent á að vélar Origo hf. væru á sama hátt ekki bara með eitt mál.

Í gögnum málsins liggur fyrir tölvupóstur frá varnaraðila til Ríkiskaupa að morgni 10. febrúar 2023. Í honum bar varnaraðili upp þá spurningu hvort að styðjast mætti við tæknilýsingu sem fylgdi tilboði kæranda og að fremri mæling vélarinnar væri nóg til að uppfylla skilyrði útboðsins. Svar Ríkiskaupa í tölvupósti sama dag var á þá leið að ef boðin vara kæranda færi fram úr hámarksþykkt, og væri þar með ekki í samræmi við tæknilýsingu örútboðsins, bæri að hafna tilboðinu sem ógildu. Þá var mælt með því að varnaraðili gengi úr skugga um að tilboð Origo hf. sannarlega uppfyllti tæknilýsingu áður en taka tilboðs væri send út í ljósi þess að kærandi hefði vakið athygli á því að mögulega væri það tilboð einnig ógilt. Í kjölfarið óskaði varnaraðili eftir staðfestingu Origo hf. á því að tilboð þess uppfyllti kröfur örútboðsgagnanna hvað snerti þykkt og þyngd vöru og staðfesti Origo hf. að svo væri. Að auki kveðst varnaraðili hafa kannað upplýsingar frá birgja Origo hf. á vefnum. Í tölvupósti varnaraðila til kæranda síðar sama dag var honum tilkynnt um að þar sem vélar hans væru þykkari en gefið væri upp sem hámark í svörum við fyrirspurnum sem bárust um útboð væri varnaraðili tilneyddur að meta tilboðið ógilt og taka því tilboði sem næst kæmi. Sama dag sendi varnaraðili tilkynningu á alla bjóðendur um að ákveðið hefði verið að ganga að tilboði Origo hf. Í tölvupósti kæranda til varnaraðila 13. febrúar 2023 lýsti hann því að samkvæmt upplýsingum frá sínum birgja væri þykkt Lenovo ThinkPad T14 meiri en 20 millimetrar. Tölvur frá Origo hf. bárust varnaraðila 14. febrúar 2023. Við mælingu innkaupadeildar varnaraðila reyndist þykkt þeirra vera um 22 millimetrar þar sem hún var mest auk þess sem að þær voru 1,45 kílógrömm að þyngd. Varnaraðili sendi tölvupóst til Origo hf. samdægurs og kvaðst verða að skila vélunum þar sem þær stæðust hvorki þykktar- né þyngdarkröfur. Í tölvupósti til varnaraðila sama dag kvaðst Origo hf. hafa boðið vélarnar í góðri trú. Þá teldi hann að búnaðurinn stæðist grunnkröfur útboðs og rammasamnings ef litið væri til mælinga frá framleiðanda vélarinnar og ekki ástæðu til aðgerða af hálfu varnaraðila. Í tölvupósti varnaraðila til Origo hf. 16. sama mánaðar kemur fram að varnaraðili myndi standa við töku tilboðs en ítrekaði að það væri mat sitt að fyrirtækið hefði veitt rangar upplýsingar um þykkt og þyngd vélanna.

II

Kærandi mótmælir því að tilboð hans hafi ekki fullnægt þeim kröfum sem gerðar voru í hinu kærða útboði. Hann byggir á því á að útboðið sé reist á rammasamningi Ríkiskaupa að undangengnu rammasamningsútboði. Eftir yfirferð og mat tilboða hafi Ríkiskaup staðfest að sá búnaður sem kærandi bauð fram í því útboði, sem sé sambærilegur búnaður og boðinn hafi verið í örútboði varnaraðila, fullnægi þeim lágmarkskröfum sem til hans séu gerðar. Þá hafi kærandi selt hann til áskrifenda að rammasamningskerfinu á gildistíma samningsins án nokkurra athugsemda. Í útboðslýsingu örútboðs varnaraðila hafi ekki verið fjallað sérstaklega um þykkt fartölva og ekki settar fram ítarlegri kröfur um stærð búnaðar. Samningsskilmálar rammasamningsins hafi því gilt um þykkt á boðnum fartölvum, þ.e. 19,57 millimetrar að virtum vikmörkum. Varnaraðili hafi því ekki haft lögmæta heimild til þess að hafna tilboðinu. Ef varnaraðila verði á annað borð talið heimilt að endurmeta þann búnað sem Ríkiskaup hafi áður staðfest að fullnægi kröfum útboðslýsingar hafnar kærandi því að búnaðurinn standist ekki lágmarkröfur með vísan til þeirra hlutlægu viðmiða sem lögð voru til grundvallar í útboðslýsingu, þ.e. vörulýsingar boðinnar vöru frá framleiðanda.

Kærandi bendir á að varnaraðili hafa ekki beitt sömu nálgun gagnvart öðrum bjóðendum. Þannig hefði mæling á þykkt búnaðar Origo hf. fyrir val á tilboðum leitt í ljós að það tilboð væri einnig ógilt ef beitt væri sömu aðferðarfræði. Hljóti kærandi að álykta sem svo að gripið hafi verið til hennar til að útiloka tilboð hans frá samningsgerð og hygla öðrum bjóðanda. Að mati kæranda stríðir framangreind framkvæmd örútboðsins og val tilboða af hálfu varnaraðila gegn meginreglum laga um opinber innkaup um jafnræði bjóðenda og gagnsæi í opinberum innkaupum.

Um þá kröfu að kærunefndin láti uppi álit sitt á skaðbótaskyldu varnaraðila vísar kærandi til 1. mgr. 119. gr. laga nr. 120/2016. Kærandi byggir á því að sú ákvörðun varnaraðila að hafna tilboði hans sem ógildu byggi á röngum og ólögmætum forsendum. Kærandi hafi átt lægsta gilda verðtilboð í örútboðinu og hafi varnaraðila borið að velja tilboð hans til samningsgerðar. Ákvörðun varnaraðila um að hafna tilboðinu sem ógildu og ganga til samninga við næstbjóðanda hafi því valdið kæranda skaðabótaskyldu fjártjóni.

III

Varnaraðili byggir á því að bindandi samningur hafi komist á milli varnaraðila og Origo hf. 10. febrúar 2023. Þegar af þeirri ástæðu verði að hafna aðalkröfu kæranda, sbr. 114. gr. laga nr. 120/2016. Í málinu komi því eingöngu til skoðunar krafa kæranda um að kærunefndin láti í ljós álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila vegna hinnar kærðu ákvörðunar. Varnaraðili kveðst hafna skaðabótaskyldu og byggir á því að kærandi hafi hvorki sýnt fram á né leitt líkur að því að við umrædd innkaup hafi verið brotið gegn fyrrgreindum lögum.

Varnaraðili mótmælir þeirri málsástæðu kæranda að þar sem hann sé aðili rammasamnings Ríkiskaupa um tölvubúnað frá 2019 þá geti hann gert tilkall til þess að vörur sem hann bjóði síðar í örútboðum verði samþykktar af kaupendum. Varnaraðili bendir á að sá búnaður sem kæranda bauð í örútboðinu sé ekki sá sami og hann bauð í rammasamningsútboði. Þegar vörur hafi verið metnar inn í rammasamning hafi bjóðendur afhent fulltrúum Ríkiskaupa sýnishorn og tölvurnar verið mældar. Þá sé ekki óeðlilegt að aðeins hafi verið kallað eftir vörulýsingu í örútboðinu. Upplýsingar um boðna vöru kæranda hafi aftur á móti verið rangar eða í það minnsta villandi og því hafi verið óhjákvæmilegt að hafna tilboðinu. Bjóðendur beri ábyrgð á því að tilboð þeirra séu í samræmi við útboðskröfur og kæranda hafi verið í lófa lagið að ganga úr skugga um að vara hans uppfyllti þær.

Ennfremur mótmælir varnaraðili því að kærandi eigi rétt á að tilboð sé metið gilt á þeim grunni að það hafi áður verið metið gilt í öðru örútboði. Í því sambandi vísar varnaraðili til úrskurðar kærunefndar útboðsmála 26. október 2004 í máli nr. 36/2004 en þar hafi verið talið að jafnræðisregla laga um opinber innkaup yrði ekki skýrð með þeim hætti að bjóðendur ættu rétt á því að fá sömu einkunn í ólíkum útboðum. Þó fyrrgreindur úrskurður fjalli um einkunnagjöf og valforsendur eigi bjóðendur með sömu grunnrökum ekki rétt á því að tilboð þeirra verði metið gilt á þeim grunni að það hafi áður verið metið gilt í öðru örútboði. Varnaraðili bendir á að athugasemd annars bjóðanda, sem leiddi til frekari könnunar á búnaði kæranda, hafi verið nýjar upplýsingar. Það sé því ekki óeðlilegt að búnaður kæranda hafi fram til þessa verið samþykktur. Þá liggi ekki fyrir upplýsingar um hvort að í öðrum örútboðum innan rammasamningsins hafi verið gerðar samskonar kröfur um hámarksþykkt eða -þyngd og í örútboði varnaraðila.

Varnaraðili byggir á því að kaupendur verði ávallt að meta hvort innsend tilboð séu gild samkvæmt skilmálum útboðs, óháð niðurstöðu annarra opinberra innkaupaferla. Í örútboðinu hafi varnaraðili gert kröfu um að bjóðendur skiluðu inn vörulýsingu frá framleiðanda en lengi hafi verið viðurkennt að nota slíkar upplýsingar við athugun á því hverjir tæknilegir eiginleikar vöru séu. Þrátt fyrir að bjóðendur hafi einungis verið beðnir um að skila inn þeirri staðfestingu sé ekki loku fyrir það skotið að önnur gögn séu könnuð til að ganga úr skugga um að vara uppfylli tæknilegar kröfur örútboðsgagna. Í skjali sem varnaraðila hafi verið sent hafi komið fram að hámarksþykkt boðinnar vöru kæranda væri 19,3 millimetrar til 20,9 millimetrar en í vörulýsingu frá kæranda hafi einungis fyrri talan verið tilgreind. Vegna þessa hafi varnaraðili kallað eftir upplýsingum frá kæranda um sannleiksgildi skjalsins og hvort boðin vara hefði ólíka þykkt ef miðað væri við fremri og aftari hluta tölvunnar. Að mati varnaraðila rúmist slík rannsókn innan þeirra heimilda sem kaupendum sé játuð við mat á því hvort vörur uppfylli tæknilegar kröfur eða ekki. Orðið hámarksþykkt sé ekki hægt að skilja með öðrum hætti en að það sé sú þykkt sem tölva megi vera að hámarki. Eftir samtal við fulltrúa kæranda hafi verið ljóst að upplýsingarnar voru réttar og að boðin vara rúmaðist ekki innan skilmála örútboðsins.

Varnaraðili byggir á því að þar sem tilboð kæranda hafi verið ógilt hafi hann ekki átt raunhæfa möguleika á að vera valinn sem samningsaðili í útboðinu og hafi því ekki orðið fyrir tjóni. Því sé ekki tilefni fyrir kærunefnd útboðsmála til að veita álit á skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart kæranda.

Hvað snertir töku tilboðs frá Origo hf. kveðst varnaraðili hafa fengið það staðfest frá Origo hf. að tilboð þeirra uppfyllti kröfur örútboðsgagnanna. Þá hafi innkaupadeild varnaraðila kannað upplýsingar frá birgja Origo hf. á vefnum og borið saman við stærðir sem komu fram í tilboði fyrirtækisins. Eftir ítarlega könnun á gögnum Origo hf. og gögnum á vefnum hafi varnaraðili ekki velkst í vafa um að boðnar vörur uppfylltu kröfur örútboðsgagnanna. Því hafi verið send út tilkynning 10. febrúar 2023 um töku tilboðsins. Þegar tölvurnar bárust fjórum dögum síðar hafi innkaupadeild varnaraðila mælt búnaðinn og þá fyrst komið í ljós að hann uppfyllti ekki kröfur örútboðsins.

Varnaraðili byggir á því að jafnvel þótt upplýsingarnar sem Origo hf. veitti hafi síðar reynst rangar geti það ekki leitt til ógildingar á ákvörðun varnaraðila. Þá hafi kærandi ekki sýnt fram á að varnaraðili hafi réttilega mátt efast um sannleiksgildi þeirra upplýsinga sem Origo hf. lagði fram í málinu. Varnaraðili hafnar einnig ályktun kæranda um að gripið hafi verið til höfnunarinnar í því skyni að hygla Origo hf. fram yfir kæranda. Varnaraðili kveður kaupendur í opinberum innkaupum almennt mega byggja á sannleiksgildi þeirra upplýsinga sem bjóðendur leggja fram í tilboði sínu og sé ekki skylt að rannsaka hvort þær séu réttar eða ekki. Kaupandi hafi almennt heimild til að kalla eftir viðbótarupplýsingum ef hann telur þörf á því og það teljist til góðra stjórnsýslu- og innkaupahátta að kanna áreiðanleika upplýsinga ef sérstakt tilefni er til þess líkt og varnaraðili hafi gert í málinu. Í ljósi þess að taka tilboðs hafi verið send út, bindandi samningur kominn á og að varnaraðila hafi vantað búnaðinn hafi hann metið það svo að það besta í stöðunni væri að standa við töku tilboðsins þrátt fyrir framangreint. Þá kveður varnaraðili eðlismun á tilviki Origo hf. og kæranda. Þegar tilboði kæranda hafi verið hafnað sem ógildu hafi legið fyrir að boðinn búnaður uppfyllti ekki skilmála örútboðsins og það verið bæði verið staðfest með fyrirliggjandi gögnum og með samtali við fulltrúa kæranda. Aftur á móti hafi ekki verið hægt að lesa úr tilboði Origo hf. eða staðfesta með öðrum gögnum að tilboð þess uppfyllti ekki kröfur örútboðsins. Það hafi því ekki komið í ljós fyrr en eftir að bindandi samningur var kominn á að búnaðurinn var ekki í samræmi við vörulýsingu. Ákvörðun varnaraðila um að tilkynna um töku tilboðs og að ganga til samninga við Origo hf. hafi því ekki verið ólögmæt.

IV

Hið kærða útboð er örútboð innan rammasamnings nr. RK. 03.01 um tölvubúnað. Varnaraðili tilkynnti 10. febrúar 2023 um val tilboðs og komst þar með á bindandi samningur milli varnaraðila og Origo hf. samkvæmt skilmálum útboðsins. Samkvæmt 1. mgr. 114. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup verður bindandi samningur ekki felldur úr gildi eða honum breytt þótt ákvörðun kaupanda um framkvæmd útboðs eða gerð samnings hafi verið ólögmæt. Þegar af þeirri ástæðu verður að hafna kröfum kæranda sem lúta að því að ákvörðun varnaraðila um að hafna tilboði hans sem ógildu og velja tilboð Origo hf. til samningsgerðar verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir varnaraðila að bjóða innkaupin út að nýju.

Kemur því eingöngu til skoðunar krafa kæranda um að nefndin láti í ljós álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart kæranda, sbr. 2. mgr. 111. gr. laga nr. 120/2016. Í 1. mgr. 119. gr. laganna kemur fram að kaupandi sé skaðabótaskyldur vegna þess tjóns sem brot á lögunum og reglum settum samkvæmt þeim hefur í för með sér fyrir fyrirtæki. Fyrirtæki þurfi einungis að sanna að það hafi átt raunhæfa möguleika á að verða valið af kaupanda og möguleikar þess hafi skerst við brotið.

Um örútboðið giltu samningsskilmálar fyrrgreinds rammasamnings Ríkiskaupa nema annað væri tekið fram. Í grein 1.6.2.3 í útboðslýsingu rammasamningsins, þar sem lýst var sértækum lágmarkskröfum, var gerð sú krafa að hámarksþykkt boðins búnaðar færi ekki yfir 19 millimetra. Að teknu tilliti til 3% vikmarka var áskilin hámarksþykkt búnaðar því 19,57 millimetrar. Var þessi krafa áréttuð í svörum varnaraðila við fyrirspurnum á tilboðstíma.

Samkvæmt þessu kváðu skilmálar útboðsgagna og skýringargögn skýrt á um kröfur um hámarksþykkt boðinnar vöru. Að mati kærunefndar var varnaraðila heimilt eins og hér stóð á og í ljósi ábendingar um að raunþykkt vöru kæranda væri meiri en lágmarkskröfur útboðsins kváðu á um, þannig að upplýsingar í innsendum gögnum kynnu að vera rangar, að fá það staðfest hjá kæranda hver þykktin væri. Staðfesti kærandi þá að þykkt tölvunnar væri 20,9 millimetrar þar sem hún væri mest.

Nefndin getur ekki fallist á það með kæranda að við mat á tilboði hans hafi varnaraðili verið bundinn af því mati Ríkiskaupa að hafa talið fartölvu sem kærandi bauð í rammasamningsútboði uppfylla skilmálana enda ekki um sömu tölvu að ræða og kærandi bauð í örútboði varnaraðila. Ennfremur er ekki fallist á það með kæranda að þýðingu hafi að búnaðurinn sem kærandi bauð í örútboði varnaraðila kunni að hafa verið samþykktur af öðrum kaupendum og í öðrum ótilgreindum örútboðum. Þá er til þess að líta að varnaraðili óskaði eftir samskonar staðfestingu á þykkt boðinnar vöru frá Origo hf., eftir ábendingu kæranda um mögulegt frávik frá þykktarkröfum, áður en tilboði Origo hf. var tekið.

Samkvæmt framangreindu telur nefndin að varnaraðila hafi verið rétt að telja tilboð kæranda ógilt þar sem að það fullnægði ekki kröfum útboðsgagna. Að því virtu er óhjákvæmilegt að leggja til grundvallar að kærandi hafi ekki átt raunhæfa möguleika á því að verða fyrir valinu í hinu kærða útboði. Verður þegar af þeirri ástæðu ekki talið að varnaraðili sé skaðabótaskyldur gagnvart kæranda, sbr. 1. mgr. 119. gr. laga nr. 120/2016, og hefur ekki þýðingu fyrir úrlausn málsins, eins og atvikum er háttað, að samskonar annmarki reyndist síðar vera á þeirri vöru sem Origo hf. bauð í útboðinu og samningur komst á um.

Rétt er að málskostnaður falli niður.

Úrskurðarorð

Kröfum kæranda, Advania Ísland ehf., vegna örútboðs varnaraðila, Seðlabanka Íslands, nr. 2301157 „Tölvubúnaður SÍ“, er hafnað.

Málskostnaður fellur niður.


Reykjavík, 24. júlí 2023


Reimar Pétursson

Kristín Haraldsdóttir

Auður Finnbogadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum