Hoppa yfir valmynd

Nr. 313/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 313/2019

Miðvikudaginn 9. október 2019

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.

Með kæru, dags. 24. júlí 2019, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 12. júní 2019 þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur en henni metinn örorkustyrkur tímabundið.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með rafrænni umsókn, móttekinni 15. mars 2019. Með örorkumati, dags. 12. júní 2019, var umsókn kæranda synjað en hún var talin uppfylla skilyrði örorkustyrks frá X 2019 til X 2022.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 26. júlí 2019. Með bréfi, dags. 29. júlí 2019, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 2. september 2019, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 3. september 2019. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi fer fram á að ákvörðun Tryggingastofnunar verði endurmetin með tilliti til fullrar örorku.

Í kæru kemur fram að kærandi sé X ára gömul […] með þroskahömlun og tornæmi. Kærandi hafi dottið út af vinnumarkaði vegna verkja og endurhæfing hjá VIRK hafi ekki skilað tilætluðum árangi og sé því fullreynd. Líkamleg og andleg heilsa kæranda hafi farið versnandi. Sótt hafi verið um endurhæfingu hjá B en henni hafi verið vísað á sína heilsugæslu með þeim rökstuðningi að B hafi ekki tök á að bjóða einstaklingum með þroskaskerðingu sérstakt prógram. Kærandi hafi verið til meðferðar á C. Hún hafi nýlega fengið metinn örorkustyrk en hún sé engin manneskja í hlutastarf.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar þeim sem séu metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Tryggingastofnun ríkisins meti örorku þeirra sem sæki um örorkubætur. 

Heimilt sé að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 18. gr. laga um almannatryggingar og 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð.

Örorkustyrkur greiðist samkvæmt 19. gr. laga um almannatryggingar þeim sem skorti að minnsta kosti helming starfsorku sinnar.

Um framkvæmd örorkumats sé fjallað í reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat.

Málavextir séu þeir að kærandi hafi verið á endurhæfingarlífeyri hjá Tryggingastofnun frá X til X. Kærandi hafi svo verið á örorkustyrk frá X 2019 til dagsins í dag.

Kærandi hafi sótt um örorkulífeyri með umsókn, dags. X og X 2019. Fyrstu umsókn kæranda um örorkulífeyri hafi verið synjað þann X 2019 þar sem ekki hafi verið ljóst hvort endurhæfing væri fullreynd. Örorkumat hafi svo farið fram þann 12. júní 2019. Niðurstaða matsins hafi verið sú að synja kæranda um örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. laga um almannatryggingar, en hún hafi hins vegar verið talin uppfylla skilyrði örorkustyrks samkvæmt 19. gr. laganna. Gildistími matsins sé frá X 2019 til X 2022.

Kærandi hafi sent inn nýja umsókn um örorkulífeyri þann X 2019 og hafi henni verið synjað þar sem gögn hafi ekki gefið ástæðu til þess að endurskoða fyrra mat.

Við mat á örorku styðjist tryggingalæknir við þau gögn sem liggi fyrir. Í örorkumatinu þann 12. júní 2019 hafi meðal annars legið fyrir læknisvottorð, dags. X 2019, umsókn, dags. X 2019, svör kæranda við spurningalista, dags. X 2019, og skoðunarskýrsla, dags. X 2019. Einnig hafi legið fyrir eldri gögn og gögn tengd umsókn um endurhæfingarlífeyri.

Við örorkumat sé stuðst við staðal Tryggingastofnunar en honum sé skipt í tvo hluta, líkamlegan og andlegan. Til þess að standast efsta stig örorku samkvæmt staðli þurfi umsækjandi að fá 15 stig í líkamlega hlutanum eða 10 stig í þeim andlega, þó nægi að umsækjandi fái sex stig í hvorum hluta fyrir sig.

Kærandi sé X ára gömul kona. [...]. Fædd og uppalin á D og sé ekki á vinnumarkaði í dag en hafi verið það áður. Í gögnum málsins komi fram að hún sé greind með þroskahömlun. Kærandi hafi einnig haft dreifða stoðkerfisverki og bakverki. Einnig sé um að ræða […] þunglyndiseinkenni samkvæmt læknisvottorði.

Við skoðun með tilliti til staðals komi fram að kærandi geti ekki setið meira en eina klukkustund án þess að neyðast til að standa upp og að kærandi geti stundum ekki staðið upp af stól án þess að styðja sig við eitthvað. Einnig komi fram að kærandi geti stundum ekki beygt sig og kropið til að taka pappírsblað upp af gólfinu og rétt sig upp aftur og þá geti kærandi ekki staðið nema í 30 mínútur án þess að ganga um. Engin önnur líkamleg vandamál hafi verið nægileg til þess að hafa áhrif á mat skoðunarlæknis. Þegar andlegi hlutinn hafi verið skoðaður hafi komið fram að kærandi forðist stundum hversdagsleg verkefni á þeim forsendum að þau muni valda of mikilli þreytu eða álagi og að hún ráði illa við breytingar á daglegum venjum. Svefnvandamál hafi einnig áhrif á dagleg störf kæranda.

Í örorkumati Tryggingastofnunar hafi kærandi fengið tólf stig í líkamlega hlutanum og þrjú stig í þeim andlega. Skilyrði staðals um hæsta örorkustig hafi því ekki verið uppfyllt, en færni kæranda til almennra starfa hafi verið talin skert að hluta og henni hafi verið metinn örorkustyrkur (50% örorka) frá X 2019 til X 2022.

Við vinnslu kærunnar hafi verið farið ítarlega yfir öll gögn málsins. Eftir þá yfirferð hafi Tryggingastofnun ekki talið ástæðu til að breyta fyrri ákvörðun. Tryggingastofnun leggi skoðunarskýrslu, dags. X 2019, til grundvallar í málinu. Ekki sé annað að sjá en að skýrsla skoðunarlæknis sé í samræmi við þau gögn sem liggi fyrir í málinu. Ef skoðunarskýrslan sé borin saman við læknisvottorð sem liggi fyrir í málinu þá sé ekki hægt að sjá að ósamræmi sé á milli þeirra og niðurstöðu skoðunarlæknis.

Tryggingastofnun hafi sérstaklega farið yfir svör kæranda við spurningalistum, dags. X og X 2019. Í svörum við nokkrum liðum í líkamlega hlutanum komi fram að kærandi telji sig eiga erfitt með þá en fái þó ekki stig fyrir þá. Sé þá fyrst og fremst horft til þess að ganga á jafnsléttu, að ganga upp og niður stiga, að nota hendurnar, að lyfta og bera og mögulega að teygja sig eftir hlutum. Þó að fram komi í svörum kæranda að hún eigi í einhverjum erfiðleikum með þessa hluti þá séu lýsingar hennar á þeim þess eðlis að hún sé nokkuð fjarri því að fá stig fyrir þá og sé stigagjöf skoðunarlæknis mjög vel rökstudd. Stigagjöf skoðunarlæknis í andlega hlutanum sé einnig mjög vel rökstudd og í samræmi við fyrirliggjandi gögn.

Það sé því niðurstaða stofnunarinnar að afgreiðsla á umsókn kæranda um að synja henni um örorkulífeyri en veita henni örorkustyrk hafi verið rétt miðað við fyrirliggjandi gögn í málinu. Ákvörðun sú sem kærð hafi verið sé byggð á faglegum sjónarmiðum og gildandi lögum og reglugerðum.

Telji kærandi að þau gögn, sem hafi legið fyrir við örorkumatið, gefi ranga mynd af ástandi hennar sé kæranda alltaf frjálst að senda inn nýja umsókn með nýjum gögnum.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 12. júní 2019 þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur en henni veittur tímabundinn örorkustyrkur. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort kærandi eigi rétt á örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar þar sem kæranda var synjað um breytingu á gildandi mat.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar eiga þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir eru til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 1. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli.

Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun ríkisins örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat metur tryggingayfirlæknir örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins samkvæmt staðli sem byggður er á læknisfræðilega viðurkenndum sjúkdómum eða fötlun. Fyrri hluti örorkustaðalsins fjallar um líkamlega færni og þarf umsækjandi að fá fimmtán stig samanlagt til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki. Síðari hluti staðalsins lýtur að andlegri færni og þarf umsækjandi að fá tíu stig til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki. Nái umsækjandi ekki tilskildum stigafjölda í öðrum hluta staðalsins getur hann samt verið metinn að minnsta kosti 75% öryrki nái hann að minnsta kosti sex stigum í hvorum hluta staðalsins. Samkvæmt 3. gr. reglugerðarinnar skal Tryggingastofnun, þegar umsókn og læknisvottorð hafa borist, að jafnaði senda umsækjanda staðlaðan spurningalista. Örorkumat er síðan unnið á grundvelli svara umsækjanda, læknisvottorðs og ef þurfa þykir læknisskoðunar og annarra gagna sem tryggingayfirlæknir telur nauðsynlegt að afla.

Meðfylgjandi umsókn kæranda um örorkulífeyri var læknisvottorð E, dags. X 2019. Í vottorðinu koma fram eftirfarandi sjúkdómsgreiningar:

„[Bakverkir

Fibromyalgia

[…]

Þunglyndi

Mental retardation]“

Í vottorðinu kemur fram að kærandi sé óvinnufær frá X 2019 en að búast megi við að færni muni aukast með tímanum. Um fyrra heilsufar kæranda segir í vottorðinu:

„[Kærandi] er X ára gömul kona, […] [Kærandi] greindist X ára gömul með þroskahömlun. […] Hún hefur alltaf þurft mikla stýringu, vantreystir sér í flesta hluti og glímt við lágt sjálfsmat. [...]. [...]

Fór í sálfræðimeðferð árið X […] Þá áfram vandamál með sinnuleysi og deyfð, engin markmið, tjáir sig lítið. Átti í félagslegum erfiðleikum, þótti sýna einkenni sem bentu til einhverfurófs. […] Enginn viljastyrkur, skipulagsleysi, svaf mikið. Áhugaleysi.

[…]

Dettur af vinnumarkaði  X, […]

Árið X farin að glíma bæði við dreifða stoðkerfisverkir en einnig mjóbaksverki. Var send í mat til gigtarlæknis og hafin sjúkraþjálfun.

[…]“

Um heilsuvanda og færniskerðingu nú segir í vottorðinu:

„[…] Unnið með áhugahvöt X TS lendhryggur:

[...]

X sótt um endurhæfingarlífeyri. Þar kemur fram að hún hafi glímt við bakverki frá X og svo lið og vöðverki. Einnig Þunglyndi.

Hélt áfram í Virk. X vísað í F, fær greininguna vefjagigt.

Hún fór á námskeið [...] á vegu Virk, [...].

[...] Virk endurnýjað alveg út X. [...]. Endurhæfingalífeyrir endurnýjaður.

X Segulómun lendhryggur:

[...]

Segulómun fótleggir[...]:

[...]

[…]“

Um álit og vinnufærni og horfum segir í vottorðinu:

„[Kærandi] er X ára kona, sem býr við greindarskerðingu. Glímt við námsörðugleika frá barnsaldri. Verið frumkvæðislaus frá barnsaldri og glímt við lágt sjálfsmat. Datt út af vinnumarkaði X. Reynd endurhæfing í alls X mánuði. Henni hefur ekki tekist að [...]. Ljóst að frekarin endurhæfing að sinni er ekki tímabær. [...] Sótt um tímabundna örorku en stefna að reyna bæta hennar andlega og líkamleg heilsufar áfram. Glímir við […] dreifða verki sem þó eru mest áberandi í baki. Hefur þunglyndislegt yfirbragð á köflum sem líklega skýrist fremur af hennar greindarskerðingu og framtaksleysi.“

Einnig liggja fyrir eldri læknisvottorð E, dags. X og X 2019, vegna fyrri umsókna kæranda, auk nýs vottorðs, dags. X 2019. Vottorðin eru að mestu samhljóma framangreindu vottorði ef frá er talin eftirfarandi lýsing á heilsuvanda og færniskerðingu kæranda í vottorði frá X 2019:

„[…] Bakið fyrst og fremst hennar verkjastaður. Er oftast með einhvern verk en koma svo intermittent versnanir þar sem hún mjög slæm. Töluverð áhrif. Er oftast með verki sem hindra henni að geta sinnt starfi og X daga vikunnar ekki heimilisstörf. […]“

Í þjónustulokaskýrslu VIRK, dags. X 2019, segir um ástæðu þjónustuloka:

„Einstaklingur verið í þjónustu Virk í X ár, langt komin með [...]. Starfsendurhæfingu lýkur nú þar sem einstaklingur hefur takmarkað getað sinnt starfsendurhæfingu og er ekki á leið út á vinnumarkað á næstunni vegna félagslegra aðstæðna.“

Við örorkumatið lá fyrir spurningalisti með svörum kæranda vegna færniskerðingar sem kærandi skilaði til Tryggingastofnunar í tengslum við umsókn sína. Kærandi lýsir heilsuvanda sínum þannig að hún sé með verki í baki, fótum og höndum, þá sé hún einnig með kvíða og þunglyndi. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að sitja á stól þannig að hún eigi erfitt með að sitja á stól lengi í einu, hún fái þá mjög illt í bak og fætur. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að beygja sig eða krjúpa þannig að hún eigi aðeins erfitt með það, hún fái illt í hné og ökkla. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að standa þannig að hún eigi mjög erfitt með að standa mjög lengi í einu, hún fái þá mjög illt í fætur og bak. Kærandi svarar spurningu um það hvort að hún eigi í erfiðleikum með að ganga á jafnsléttu þannig að hún eigi ekki mjög erfitt með það ef það séu stuttar vegalengdir. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum við að ganga upp og niður stiga þannig að hún eigi aðeins erfitt með það. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að nota hendurnar þannig að hún eigi stundum erfitt með það vegna verkja. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi erfitt með að teygja sig eftir hlutum þannig að hún eigi ekki mjög erfitt með það en það fari eftir verkjum. Bakverkir geri oft vart við sig. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að lyfta og bera þannig að hún eigi svolítið erfitt með að bera, hún fái verki við það. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með sjón þannig að sjónin sé ekki góð í mikilli birtu. Kærandi svarar spurningu um það hvort heyrnin bagi hana þannig að heyrnin sé góð að mestu leyti [...]. Þá svarar kærandi spurningu um það hvort hún eigi við geðræn vandamál að stríða játandi. Í nánari lýsingu segir að um sé að ræða þunglyndi og kvíða.

Einnig liggja fyrir svör kæranda við spurningalista vegna færniskerðingar sem kærandi lagði inn með eldri umsókn um örorkumat og eru þar svör kæranda að mestu leyti sambærileg.

Skýrsla G skoðunarlæknis liggur fyrir í málinu en hann átti viðtal við kæranda og skoðaði hana að beiðni Tryggingastofnunar þann X 2019. Samkvæmt skýrslunni er það mat skoðunarlæknis að kærandi geti ekki setið meira en eina klukkustund. Skoðunarlæknir metur það svo að kærandi geti stundum ekki staðið upp af stól án þess að styðja sig við eitthvað. Þá er það mat skoðunarlæknis að kærandi geti stundum ekki beygt sig eða kropið til að taka pappírsblað upp af gólfinu og rétt sig upp aftur. Þá er það mat skoðunarlæknis að kærandi geti ekki staðið nema í 30 mínútur án þess að ganga um. Að öðru leyti telur skoðunarlæknir að kærandi búi ekki við líkamlega færniskerðingu. Hvað varðar andlega færniskerðingu kæranda telur skoðunarlæknir að kærandi forðist hversdagsleg verkefni á þeim forsendum að þau muni valda of mikilli þreytu eða álagi. Kærandi ráði ekki við breytingar á daglegum venjum og að svefnvandamál hafi áhrif á dagleg störf hennar. Að öðru leyti telur skoðunarlæknir að kærandi búi ekki við andlega færniskerðingu.

Skoðunarlæknir lýsir líkamsskoðun kæranda þannig í skýrslu sinni:

„Er X cm. Þyngd X kg. Þetta gerir X í BMI. Er hæg og stirð í hreyfingum. Nær ekki með fingur í gólf, vantar X cm upp á. Erfitt að koma upp tilbaka. Erfitt að krjúpa. Hálshreyfingar í lagi. Aum í vöðvafestum í upphandleggjum, öxlum, herðum og baki. Minna í bringju og framhandleggjum. Mikil þreyfieymsli y mjaðma o rassfestum. Gripstyrkur eðlilegur. Taugaskoðun eðlileg.“

Geðheilsu kæranda er lýst svo í skoðunarskýrslu:

„Hæg í fasi. Þokkalegur kontakt. Affect hlutlaus. Svarar vel og talar ágætt mál með góðum orðaforða. Ekkert sucidalt kemur fram. Ekki merki um geðrof. Þokkalegt innsæi.“

Í athugasemdum skoðunarlæknis segir:

„[…] Glímt við námserfiðleika, lesblindu og talin með væga þroskahömlun […] Vefjagigt. Félagslegur þáttur hennar vanda líka talsverður. Löng starfsendurhæfing hjá Virk skilaði ekki aukinni starfsgetu.“

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, hefur yfirfarið mat á örorku kæranda á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Er þá metin skerðing á getu vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Eins og áður hefur komið fram er staðallinn hluti af reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat sem sett er með skýrri lagastoð. Staðlinum er ætlað að mæla líkamlega og andlega færni á grundvelli staðlaðra spurninga og svara við þeim. Úrskurðarnefndin er bundin af staðlinum eins og hann hefur verið ákveðinn. Úrskurðarnefndin hefur lagt mat á skoðunarskýrslu matslæknis og virt hana í ljósi annarra læknisfræðilegra gagna sem liggja fyrir í málinu. Samkvæmt skoðunarskýrslu er líkamleg færniskerðing kæranda, svo sem hún er mæld samkvæmt örorkustaðli, sú að kærandi geti ekki setið meira en eina klukkustund. Slíkt gefur þrjú stig samkvæmt örorkustaðli. Skoðunarlæknir metur það svo að kærandi geti stundum ekki staðið upp af stól án þess að styðja sig við eitthvað. Slíkt gefur þrjú stig samkvæmt örorkustaðli. Skoðunarlæknir metur það svo að kærandi geti stundum ekki beygt sig og kropið til að taka pappírsblað upp af gólfinu og rétt sig upp aftur. Slíkt gefur þrjú stig samkvæmt örorkustaðli. Skoðunarlæknir metur það svo að kærandi geti ekki staðið nema í 30 mínútur án þess að ganga um. Slíkt gefur þrjú stig samkvæmt örorkustaðli Samkvæmt skoðunarskýrslu er því líkamleg færniskerðing kæranda metin til tólf stiga samtals. Hvað varðar andlega færniskerðingu kæranda telur skoðunarlæknir að kærandi forðist hversdagsleg verkefni á þeim forsendum að þau muni valda henni of milli þreytu eða álagi. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt örorkustaðli. Skoðunarlæknir metur það svo að kærandi ráði ekki við breytingar á daglegum venjum. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt örorkustaðli. Skoðunarlæknir metur það svo að svefnvandamál hafi áhrif á dagleg störf kæranda. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt örorkustaðli. Á grundvelli skýrslu skoðunarlæknis er því andleg færniskerðing kæranda metin til þriggja stiga samtals.

Samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat er heimilt að meta umsækjanda að minnsta kosti 75% öryrkja án þess að byggja á staðli ef tryggingayfirlæknir telur sýnt af læknisvottorði eða öðrum gögnum að umsækjandi hafi hlotið örorku til langframa vegna læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar eða muni sannanlega hljóta slíka örorku. Um undantekningarákvæði er að ræða sem skýra verður þröngt samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum. Ekki er í reglugerðinni sjálfri að finna leiðbeiningar um það hvenær ákvæðið á við, en þar sem 18. gr. laga um almannatryggingar mælir fyrir um staðlað mat verður að gera mjög strangar kröfur við beitingu undantekningarákvæðisins. Slíkt er að mati úrskurðarnefndarinnar aðeins heimilt ef líkamleg og andleg færni er svo mikið skert að augljóst er að viðkomandi uppfylli skilyrði staðals eða fötlun hans verði jafnað til þess. Að mati nefndarinnar á það ekki við í tilviki kæranda.

Úrskurðarnefndin leggur sjálfstætt mat á öll fyrirliggjandi gögn. Við það mat skiptir máli hvort gögnin komi frá hlutlausum aðila og enn fremur hvort þau séu vel rökstudd. Loks horfir nefndin til þess hvort áverkar, fötlun eða sjúkdómar leiði almennt til þeirra einkenna sem lýst er í gögnum málsins og hvort einkennin fái stoð í lýsingu atvika daglegs lífs. Það er mat úrskurðarnefndar að ekki sé tilefni til að gera athugasemdir við skoðunarskýrslu læknis og leggur hana til grundvallar við mat á örorku. Það er niðurstaða úrskurðarnefndar að þar sem kærandi fékk tólf stig úr þeim hluta staðals sem varðar líkamlega færni og þrjú stig úr andlega hlutanum, þá uppfylli hún ekki skilyrði 2. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat. Þá er það niðurstaða úrskurðarnefndar að kærandi uppfylli ekki undanþáguákvæði 4. gr. reglugerðarinnar sem gerir ráð fyrir að örorka sé metin utan örorkustaðals. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur er því staðfest.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um örorkulífeyri og tengdar greiðslur, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira