Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd jafnréttismála

Mál nr. 27/2024-Úrskurður

Mál nr. 27/2024

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

 

A

gegn

dómsmálaráðuneytinu

 

Frávísun.

Málinu var vísað frá kærunefnd þar sem ekki lágu fyrir upplýsingar um hvernig háttsemi sú sem kæran beindist að tengdist þeim þáttum sem getið er um í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 85/2018, um jafna meðferð utan vinnumarkaðar.

1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála 27. febrúar 2025 er tekið fyrir mál nr. 27/2024 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:

 

2. Með kæru, dags. 24. október 2024, kærði A orðalag í úrskurði dómsmálaráðuneytisins sem kveðinn var upp á grundvelli kæru kæranda á úrskurði Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu. Í kæru kemur fram að kærandi telji staðhæfingu um að móðir fari með forsjá í úrskurði dómsmálaráðuneytisins vera mismunun þar sem forsjá þeirra hafi verið sameiginleg.

 

3. Með tölvupósti 31. október 2024 var kæranda gefinn kostur á að gera nánari grein fyrir efni kærunnar þar sem það væri að mati kærunefndar óljóst. Jafnframt var þess óskað að kærunni fylgdi rökstuðningur og þau sönnunargögn um málsatvik sem tiltæk væru. Þá var kæranda bent á að kærunefnd jafnréttismála tæki til meðferðar kærur sem til hennar væri beint eftir því sem mælt er fyrir um í lögum nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, lögum nr. 85/2018, um jafna meðferð utan vinnumarkaðar, og lögum nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði. Óskaði kærunefnd jafnréttismála eftir því að kærandi uppfærði kæru sína og sendi nefndinni á nýjan leik.

 

4. Með tölvupósti kæranda til kærunefndar jafnréttismála, dags. 1. nóvember 2024, kom fram að í úrskurði dómsmálaráðuneytisins í máli hans væri farið rangt með að móðir færi ein með forsjá barns en hið rétta væri að forsjá þeirra væri sameiginleg.

5. Með tölvupósti 5. nóvember 2024 var kærandi spurður hvort það væri rétt skilið að kæran lyti að umræddri setningu í úrskurði dómsmálaráðuneytisins. Kærandi staðfesti skilninginn með tölvupósti 5. nóvember sl.

 

NIÐURSTAÐA

 

6. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 85/2018, um jafna meðferð utan vinnumarkaðar, kemur fram að lögin gildi um jafna meðferð einstaklinga á öllum sviðum samfélagsins, utan vinnu­markaðar, óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu. Í 2. gr. sömu laga kemur fram að markmið laganna sé að vinna gegn mismunun og koma á og viðhalda jafnri meðferð einstaklinga á öllum sviðum samfélagsins, utan vinnumarkaðar, óháð þeim þáttum sem um geti í 1. mgr. 1. gr.

 

7. Í 15. gr. laga nr. 85/2018 kemur fram að ef leiddar eru líkur að því að mismunun sam­kvæmt ákvæðum laganna hafi átt sér stað skuli sá sem er talinn hafa mismunað sýna fram á að ástæður þær sem lágu til grundvallar meðferðinni tengist ekki einhverjum þeim þáttum sem um getur í 1. mgr. 1. gr. laganna.

 

8. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 151/2020, um stjórnsýslu jafnréttismála, gilda lögin um stjórnsýslu á sviði jafnréttismála á því sviði sem löggjöf um jafnréttismál tekur til, m.a. laga um jafna meðferð utan vinnumarkaðar, og um störf kærunefndar jafnréttismála. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laganna tekur kærunefnd jafnréttismála til meðferðar kærur sem til hennar er beint samkvæmt framansögðu og kveður upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laganna hafi verið brotin.

 

9. Jafnvel þótt kærandi telji orðalag í málsgrein í úrskurði dómsmálaráðuneytisins hafa falið í sér mismunun verða að liggja fyrir ítarlegri upplýsingar sem tengjast þeim þáttum sem getið er um í 1. mgr. 1. gr., sbr. 4. tölul. 3. gr. laga nr. 85/2018, til þess að kærunefnd geti tekið málið til meðferðar, sbr. til hliðsjónar 15. gr. laga nr. 85/2018. Í máli þessu liggja engar slíkar upplýsingar fyrir þrátt fyrir að kærunefnd hafi farið þess á leit við kæranda að bæta úr því. Að því virtu verður ekki hjá því komist að vísa málinu frá, sbr. og 1. mgr. 23. gr. reglugerðar nr. 408/2021, um kærunefnd jafnréttismála.

 

 

 

 

Ú r s k u r ð a r o r ð

Máli þessu er vísað frá kærunefnd jafnréttismála.

Ari Karlsson

Andri Árnason

Maren Albertsdóttir



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta