Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 31/2019. Úrskurður kærunefndar útboðsmála.

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 7. maí 2020
í máli nr. 31/2019:
Á. Guðmundsson ehf.
gegn
Ríkiskaupum

Lykilorð
Kærufrestur. Útboðsskilmálar. Krafa um reynslu.

Útdráttur
Skilyrði um tveggja ára reynslu af sölu húsgagna var túlkað þannig að það ætti við um húsgögn almennt. Ekki var fallist á með kæranda að skilyrðið hefði átt að túlka þannig að reynslan þyrfti að miðast við þá sérstöku tegund húsgagna sem tilboð laut að. Var kröfum kæranda því hafnað.

Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 26. nóvember 2019 kærir Á. Guðmundsson ehf. rammasamningsútboð Ríkiskaupa (hér eftir vísað til sem varnaraðila) nr. 21016 „Húsgögn.“. Kærandi krefst þess að kærunefnd útboðsmála láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart kæranda. Jafnframt er krafist málskostnaðar úr hendi varnaraðila. Varnaraðila var kynnt kæran og gefinn kostur á að gera athugasemdir. Með greinargerð 11. desember 2019 krafðist varnaraðili þess að öllum kröfum kæranda yrði hafnað. Jafnframt bárust athugasemdir frá Hirzlunni ehf. hinn 20. desember 2019. Kæranda var gefinn kostur á að gera athugasemdir við greinargerðirnar og skilaði hann athugasemdum 29. janúar 2020.

I

Í september 2019 auglýsti varnaraðili hið kærða útboð sem stefndi að því að gera rammasamning um húsgögn fyrir hönd áskrifenda að rammasamningum ríkisins. Útboðinu var skipt í þrjá hluta: í fyrsta lagi almenn skrifstofuhúsgögn, í öðru lagi skólahúsgögn og í þriðja lagi önnur húsgögn (s.s. biðstofu-, kaffistofu- og mötuneytishúsgögn). Heimilt var að bjóða í einstaka hluta útboðsins en bjóðendur urðu að bjóða í allar vörur í verðkörfu þess hluta sem boðið yrði í. Fram kom að samið yrði við sex seljendur í hverjum hluta útboðsins og að þeim yrði raðað í hagkvæmnisröð. Í grein 1.3.8 í útboðsgögnum voru gerðar ýmsar kröfur til bjóðenda og þar var meðal annars gert eftirfarandi skilyrði: „Bjóðandi skal hafa a.m.k. tveggja (2) ára reynslu í sölu og þjónustu húsgagna af sambærilegu umfangi útboðslýsingar.“

Kærandi var á meðal bjóðenda í alla þrjá hluta útboðsins. Tilboð voru opnuð 14. október 2019 og 8. nóvember sama ár var tilkynnt um val tilboða. Tilboð kæranda var valið í tveimur flokkum af þremur en var ekki valið í flokknum skólahúsgögn. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi fyrir vali tilboða, meðal annars hvernig valdir bjóðendur í flokknum skólahúsgögn uppfylltu skilyrði um a.m.k. tveggja ára reynslu í sölu og þjónustu slíkra húsgagna. Í rökstuðningi varnaraðila 19. nóvember sl. kom meðal annars fram að ekki hefði verið gerð krafa um að bjóðendur hefðu a.m.k. tveggja ára reynslu í sölu tiltekinna húsgagna, svo sem skólahúsgagna, heldur hafi verið horft til umfangs alls útboðsins.

II

Kærandi telur að skilyrði útboðsgagna um tveggja ára reynslu hafi átt við um þann þátt sem viðkomandi bjóðandi gerði tilboð í. Þannig þyrfti bjóðandi t.d. að hafa tveggja ára reynslu af sölu skrifstofuhúsgagna til þess að fullnægja skilyrðum í þeim hluta útboðsins. Kærandi segir þennan skilning samrýmast orðalagi ákvæðisins enda vandséð hvernig bjóðandi geti talist hafa a.m.k. tveggja ára reynslu af sölu og þjónustu húsgagna af sambærilegu umfangi ef bjóðandinn hafi ekki slíka reynslu af sölu og þjónustu þeirra húsgagna sem hann gerir tilboð í. Auk þess telur kærandi að þessi túlkun leiði af skiptingu útboðsins í þrjá hluta og skilningurinn fái einnig stoð í öðrum útboðsskilmálum, t.d. þeirri kröfu til bjóðenda að þeir veiti „faglega ráðgjöf um mögulegar lausnir“. Það sama leiði af því skilyrði að bjóða skuli fjölbreytt úrval húsgagna sem nemi a.m.k. fimmföldum fjölda vörunúmera í vörukörfu og bjóðendur skuli staðfesta það með yfirliti helstu vara ásamt verðlista síðustu sex mánuði. Kærandi segir að eðli húsgagna í þremur flokkum útboðsins hafi verið verulega mismunandi og það eigi sérstaklega við um skólahúsgögn samanborið við skrifstofuhúsgögn og önnur húsgögn. Margar mismunandi stærðir séu t.d. af stólum fyrir leikskólabörn, aðrar fyrir grunnskólabörn og enn aðrar fyrir háskólanema. Eins þurfi að taka sérstaklega tillit til öryggiskrafna í leikskólum og grunnskólum sem séu allt aðrar en öryggiskröfur fyrir skrifstofuhúsgögn. Kærandi telur að afstaða varnaraðila til reynsluskilyrðisins skerði samkeppni þar sem fyrirtæki sem hafi áralanga reynslu í sölu og þjónustu skólahúsgagna sé útilokaður frá rammasamningnum. Afleiðingin geti hæglega orðið sú að fyrirtæki sem lagt hafi áherslu á gæði og öryggi við sölu skólahúsgagna eigi ekki teljandi möguleika í útboði af þessu tagi.

III

Varnaraðili telur að kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæra var borin undir nefndina þar sem kæran lúti að skilyrði útboðsgagna sem hafi legið fyrir frá því að gögnin voru birt 29. ágúst 2019. Varnaraðili segist hafa framkvæmt markaðsrannsókn í undanfara útboðsins og niðurstaða hennar hafi verið sú að ekki þyrfti að gera sérstaka kröfu um reynslu af sölu og þjónustu í hverjum og einum flokki. Þannig nægði að hafa tilgreinda reynslu af umfangi alls þess sem útboðið sneri að, þ.e. sölu og þjónustu húsgagna. Varnaraðili segir að hann hefði tekið það skýrt fram ef bjóðendur í t.d. skólahúsgögn hefðu þurft að hafa reynslu af sölu og þjónustu nákvæmlega þeirrar tegundar húsgagna. Varnaraðilar telja að svo nákvæmar hæfiskröfur hefðu skert samkeppni enda ekki mörg fyrirtæki á markaðinum sem hafi slíka reynslu. Hafi því verið ákveðið að gera ekki of íþyngjandi kröfur sem aðeins stór og markaðsráðandi fyrirtæki gætu uppfyllt. Orðalag reynsluskilyrðisins hafi því verið orðað þannig að ekki hafi verið gerð krafa um reynslu af sölu sérstakrar tegundar húsgagna.

Í athugasemdum Hirzlunnar ehf. er meðal annars tekið fram að túlkun kæranda á reynslukröfunni sé óeðlileg og myndi leiða til skertrar samkeppni og útilokunar á markaði. Í því samhengi nefnir fyrirtækið að meginhluti allrar sölu á skólahúsgögnum fari fram með rammasamningi Ríkiskaupa. Ef túlka eigi skilyrði útboðsins þannig að þeir einir sem hafi selt slíka vöru í tvö ár geti tekið þátt sé í raun verið að útiloka aðra frá þátttöku en þá sem hafi haft slíkan samning.

IV

Samkvæmt 1. mgr. 106. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup skal kæra borin skriflega undir kærunefnd útboðsmála innan 20 daga frá því að kærandi vissi um eða mátti vita um þá ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi sem hann telur brjóta gegn réttindum sínum. Kæra beinist að afstöðu varnaraðila til þess hvernig beri að skilja kröfur útboðsgagna um reynslu. Sú afstaða varð kæranda ekki ljós fyrr en í fyrsta lagi við val á tilboðum 8. nóvember 2019 og raunar ekki að fullu fyrr en rökstuðningur varnaraðila lá fyrir 19. nóvember 2019. Var kæran þannig borin undir nefndina innan kærufrests.

Kaupendum er almennt játað nokkuð svigrúm við ákvörðun um það hvaða kröfur þeir gera til bjóðenda. Sú skylda er þó lögð á verkkaupa að þeir tilgreini með eins nákvæmum hætti og unnt er hvaða kröfur eru nákvæmlega gerðar til bjóðenda til að takmarka vald þeirra til að túlka kröfurnar eftir eigin höfði eftir að tilboð hafa verið sett fram. Er það í samræmi við meginreglur útboðsréttar um gegnsæi og jafnræði bjóðenda. Ef vafi er um túlkun á skilyrðum útboðsgagna skal skýra skilyrðin bjóðendum í hag. Málið lýtur að því skilyrði útboðsgagna að bjóðandi skyldi hafa tveggja ára reynslu „í sölu og þjónustu húsgagna af sambærilegu umfangi útboðslýsingar“. Kærunefnd útboðsmála telur að bjóðendur hafi mátt leggja þann skilning í orðalag skilyrðisins að reynsla af sölu og þjónustu húsgagna hafi verið nægjanleg. Ekki verði ráðið af skilyrðinu að það vísi beinlínis til reynslu af sölu tiltekinnar tegundar húsgagna. Varnaraðili túlkaði skilyrðið með framangreindum hætti og braut þannig ekki gegn lögum um opinber innkaup við mat tilboða og val á þeim. Verður því að hafna öllum kröfum kæranda. Rétt er að málskostnaður falli niður.

Úrskurðarorð:

Öllum kröfum kæranda, Á. Guðmundssonar ehf., vegna útboðs varnaraðila, Ríkiskaupa, nr. 21016 „Húsgögn“ er hafnað.
Málskostnaður fellur niður.

Reykjavík, 7. maí 2020


Sandra Baldvinsdóttir (sign)


Auður Finnbogadóttir (sign)


Hildur Briem (sign)Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira