Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 520/2020 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 520/2020

Þriðjudaginn 19. janúar 2021

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 16. október 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 21. september 2020, um að fella niður bótarétt hans í þrjá mánuði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 24. janúar 2020 og var umsókn hans samþykkt. Í júlí 2020 var kæranda boðið starf sem auglýst var hjá vinnumiðlun stofnunarinnar. Vinnumálastofnun barst í kjölfarið upplýsingar um að kærandi hefði hafnað starfinu. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 2. september 2020, var óskað eftir skriflegri afstöðu kæranda vegna höfnunar á atvinnutilboði. Skýringar bárust frá kæranda 8. september 2020. Með bréfi, dags. 21. september 2020, var kæranda tilkynnt að bótaréttur hans væri felldur niður í þrjá mánuði á grundvelli 57. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 16. október 2020. Með bréfi, dags. 21. október 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 27. nóvember 2020, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 3. desember 2020. Athugasemdir bárust frá kæranda 16. desember 2020 og voru þær sendar Vinnumálastofnun til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 21. desember 2020. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann hafi farið í atvinnuviðtal vegna starfs hjá tilteknu fyrirtæki og það hafi verið ákveðið að hann gæfi svar innan fárra daga. Það hafi kærandi gert með textaskilaboði og sagst ætla að taka starfinu en launin væru ekki nægileg. Kærandi hafi ekki hafnað starfinu en þar sem ekkert svar hafi borist hafi hann talið að málinu væri lokið. Með vísan til þessa fari kærandi fram á endurskoðun málsins.

Í athugasemdum kæranda er ítrekað að hann hafi ekki neitað starfinu, hann hafi einungis reynt að auka laun sín smávegis þar sem þrjár vaktir sé erfið vinna, sérstaklega ef lágmarkslaun séu greidd. Því miður hafi kærandi ekki fengið svar og því haldið áfram atvinnuleit. Þá telji kærandi ósanngjarnt að hann hafi ekki fengið greidda desemberuppbót á viðurlagatímanum. 

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að málið varði 57. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar en 1. mgr. 57. gr. laganna eigi jafnt við um þann sem hafni starfi sem og þann sem hafni því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum býðst eða sinni ekki atvinnuviðtali. Eitt af skilyrðum þess að umsækjandi um atvinnuleysisbætur eigi rétt til greiðslna atvinnuleysistrygginga sé að hann sé í virkri atvinnuleit. Í 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið nánar á um hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Þar sé tekið fram að umsækjandi þurfi meðal annars að vera reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, vera reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi án sérstaks fyrirvara og hafa til þess vilja og getu.

Í 4. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar séu tilgreindar þær ástæður sem geti komið til greina sem gildar skýringar við höfnun á starfi. Gert sé ráð fyrir að Vinnumálastofnun sé heimilt að líta til aldurs, félagslegra aðstæðna tengdum skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima við ákvörðun um hvort hinn tryggði skuli sæta viðurlögum samkvæmt ákvæðinu. Enn fremur sé heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar hann hafni starfi fjarri heimili sínu sem og til ráðningar hans í ótímabundið starf innan tiltekins tíma. Þá sé einnig heimilt að taka tillit til aðstæðna þess sem geti ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni samkvæmt vottorði sérfræðilæknis.

Vinnumálastofnun telji það ekki gilda skýringu í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar að hafna atvinnutilboði með vísan til launakjara, enda séu kjör í samræmi við kjarasamninga. Öðru máli gegni ef að atvinnurekandi hefði boðið kæranda launakjör sem væru lægri en kjarasamningar mæli fyrir um. Kærandi hafi ekki haldið því fram að honum hafi boðist laun undir lágmarksréttindum kjarasamninga. Eins og áður hafi komið fram þurfi umsækjandi að vera reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, vera reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi án sérstaks fyrirvara og hafa til þess vilja og getu líkt og lög um atvinnuleysistryggingar geri ráð fyrir. Það sé mat Vinnumálastofnunar að þær skýringar kæranda á höfnun atvinnutilboðs, sem hann færi fram í  skýringarbréfi til stofnunarinnar og í kæru sinni til nefndarinnar, geti ekki talist gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar.  Vinnumálstofnun telji að kærandi hafi með framferði sínu hafnað starfi, sem honum hafi boðist, í skilningi 1. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 og beri að sæta viðurlögum á grundvelli ákvæðisins.

Með vísan til ofangreindra sjónarmiða sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli sæta biðtíma í þrjá mánuði frá ákvörðunardegi, sbr. 1. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar, sbr. einnig 56. gr. laganna.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta lýtur að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að fella niður bótarétt kæranda í þrjá mánuði á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Ákvæði 1. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 er svohljóðandi:

„Sá sem hafnar starfi sem honum býðst með sannanlegum hætti eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 5. mgr. Hið sama á við um þann sem hafnar því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum býðst með sannanlegum hætti eða sinnir ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar.“

Þá segir svo í 4. mgr. 57. gr. laganna:

„Vinnumálastofnun skal meta við ákvörðun um viðurlög skv. 1. mgr. hvort ákvörðun hins tryggða um að hafna starfi hafi verið réttlætanleg vegna aldurs hans, félagslegra aðstæðna sem tengjast skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima. Enn fremur er Vinnumálastofnun heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar hann hafnar starfi fjarri heimili sínu sem og til ráðningar hans í ótímabundið starf innan tiltekins tíma. Þá er heimilt að taka tillit til aðstæðna þess sem getur ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni samkvæmt vottorði sérfræðilæknis. Getur þá komið til viðurlaga skv. 59. gr. hafi hinn tryggði vísvitandi leynt upplýsingum um skerta vinnufærni.“

Fyrir liggur að kæranda var í júlí 2020 boðið starf sem auglýst var hjá vinnumiðlun Vinnumálastofnunar. Í fyrirliggjandi samskiptasögu er skráð að kærandi hafi hafnað starfinu. Þegar Vinnumálastofnun innti kæranda eftir skýringum vegna höfnunar á atvinnutilboði vísaði hann til þess að honum hafi verið boðin lágmarkslaun fyrir þrjár vaktir. Á grundvelli þessa tók Vinnumálastofnun þá ákvörðun að fella niður bótarétt kæranda í þrjá mánuði. Af hálfu kæranda hefur komið fram að hann hafi ekki hafnað starfinu. Kærandi hafi með svari sínu til fyrirtækisins reynt að hækka launin þar sem honum hafi verið boðin lágmarkslaun.

Við mat á því hvort heimilt sé að beita viðurlögum samkvæmt 1. mgr. 57. gr. laganna kemur til skoðunar hvort kærandi hafi hafnað starfi eða atvinnuviðtali með sannanlegum hætti, enda um íþyngjandi ákvörðun að ræða. Að mati úrskurðarnefndarinnar verður því að gera þær kröfur að fyrirliggjandi gögn bendi eindregið til þess að rétt sé að beita því úrræði. Af gögnum málsins verður ekki ráðið, svo óyggjandi sé, hvort kærandi hafi sannanlega hafnað umræddu starfi. Að því virtu er það niðurstaða nefndarinnar að málið hafi ekki verið nægjanlega vel upplýst áður en Vinnumálastofnun tók hina kærðu ákvörðun, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi og lagt fyrir Vinnumálastofnun að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

 

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 21. september 2020, um að fella niður bótarétt A, í þrjá mánuði, er felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar stofnunarinnar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira