Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 527/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 527/2023

Fimmtudaginn 14. mars 2024

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 2. nóvember 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 18. október 2023, um að hafna umsókn hans um atvinnuleysisbætur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 13. ágúst 2023 og var umsóknin samþykkt 23. ágúst 2023. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 18. október 2023, var kæranda tilkynnt að umsókn hans hefði verið hafnað á grundvelli 13. og 18. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar þar sem hann væri ekki staddur á Íslandi.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 2. nóvember 2023. Með bréfi, dags. 8. nóvember 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 7. desember 2023 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 13. desember 2023. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi tekur fram að hann telji ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður bætur sanngjarna að því leyti að hann hafi verið lengur en einn mánuð erlendis, nánar tiltekið 39 daga. Hins vegar telji kærandi ósanngjarnt að bætur séu felldar niður allt tímabilið því atvinnuleitanda sé heimilt að dvelja erlendis allt að einn mánuð eins og fram komi á heimasíðu Vinnumálastofnunar. Því ætti niðurfelling bóta einungis að gilda fyrir þann hluta tímabilsins sem sé umfram einn mánuð, eða 8,5 daga ef miðað sé við að meðallengd mánaðar sé 30,5 dagar. Annað sé einfaldlega ósanngjarnt.

Enn fremur þyki kæranda full harkalegt að umsókn hans um atvinnuleysisbætur sé hafnað að öllu leyti en texta í hinni kærðu ákvörðun sé ekki hægt að skilja öðruvísi en svo að sjálfri umsókn hans frá 13. ágúst sé hafnað í stað bótagreiðslna vegna tímabilsins sem hann sé erlendis.

Kærandi tekur fram að hann hafi aldrei fyrr sótt um bætur og hafi greitt alla sína skatta og skyldur til viðhalds núverandi atvinnuleysisbótakerfi. Kærandi hafi verið heiðarlegur í samskiptum sínum við Vinnumálastofnun, tilgreint ástæður sínar fyrir dvöl erlendis og ekki sótt um neinar undanþágur eða beðið um sérmeðferð. Ríkisfang kæranda og lögheimili sé íslenskt og hafi verið frá fæðingu. Kærandi fari því fram á í fyrsta lagi að dregin verði til baka höfnun umsóknar hans um atvinnuleysisbætur frá 13. ágúst 2023. Í öðru lagi að greiðslur bóta séu einungis felldar niður þá 8,5 daga af þeim alls 39 dögum sem hann hafi dvalið erlendis. Í þriðja lagi að bótagreiðslum sé framhaldið frá og með 27. nóvember þegar hann hafi komið heim til Íslands.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um greiðslu atvinnuleysistrygginga með umsókn, dags. 13. ágúst 2023. Með erindi, dags. 23. ágúst 2023, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hans hefði verið samþykkt og að útreiknaður bótaréttur væri 100%. Upphaf máls kæranda megi rekja til þess að þann 15. október hafi kærandi sent erindi þar sem hann hafi tilkynnt að hann hygðist dvelja í Bandaríkjunum frá 18. október til 26. nóvember. Með erindi, dags. 17. október 2023, hafi þess verið óskað að kærandi sendi stofnuninni flugfarseðla vegna umræddrar ferðar erlendis. Afrit af farseðli hafi borist samdægurs sem hafi staðfest fyrr tilgreindar upplýsingar. Með erindi, dags. 18. október 2023, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hans hefði verið hafnað á grundvelli 13. og 18. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Í kæru til úrskurðarnefndar skýri kærandi frá því að hann telji ósanngjarnt að fella eigi bætur niður á grundvelli þess að niðurfelling bóta eigi ekki að vara í 30 daga vegna heimildar sem hann telji að sé fólgin í texta á heimasíðu Vinnumálastofnunar. Á meðfylgjandi skjáskoti megi sjá skráningarform það sem kærandi vísa til.

A screenshot of a computer Description automatically generated

Kærandi túlki þessa færslu á „Mínum síðum“ Vinnumálastofnunar sem staðfestingu á bótarétti í allt að einn mánuð á meðan einstaklingar séu ekki staddir hér á landi. Kæranda þyki ákvörðun Vinnumálastofnun ósanngjörn og telji ljóst að hann eigi rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta, enda hafi hann verið heiðarlegur í samskiptum og aldrei sótt um undanþágur né beðið um sérmeðferð.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Mál þetta lúti að ákvörðun Vinnumálastofnunar um að stöðva greiðslu atvinnuleysisbóta til kæranda á meðan hann hafi dvalið erlendis.

Markmið laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem tryggðir séu og misst hafi fyrra starf sitt tímabundna fjárhagsaðstoð meðan þeir séu að leita sér að nýju starfi. Með þessu sé verið að tryggja stöðu og öryggi fólks í atvinnuleysi. Því sé gert ráð fyrir að þeir sem teljist tryggðir séu í virkri atvinnuleit þann tíma og séu jafnframt reiðubúnir að taka þátt í þeim vinnumarkaðsaðgerðum sem þeim standi til boða. Atvinnuleysistryggingar veiti þannig þeim sem tryggðir séu innan atvinnuleysistryggingakerfisins fjárhagslegt úrræði í tímabundnu atvinnuleysi sínu.

Eitt af skilyrðum þess að umsækjandi um atvinnuleysisbætur eigi rétt til greiðslu atvinnuleysistrygginga sé að vera í virki atvinnuleit, sbr. a. lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í 14. gr. laganna sé nánar kveðið á um hvað teljist til virkar atvinnuleitar. Þar sé útlistað að umsækjandi þurfi meðal annars að vera reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, vera reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi án sérstaks fyrirvara og hafa til þess vilja og getu. Að öðrum kosti verði ekki litið á hlutaðeigandi í virkri atvinnuleit.

Í c. lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé mælt fyrir um að umsækjandi um greiðslur atvinnuleysistrygginga þurfi að vera búsettur, með skráð lögheimili og staddur hér á landi til að teljast tryggður samkvæmt lögunum.

Fyrir liggi að kærandi hafi dvalið erlendis frá 18. október til 26. nóvember 2023. Í 13. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé skýrt kveðið á um þá skyldu umsækjanda um greiðslur atvinnuleysistrygginga að vera í virkri atvinnuleit. Það sé jafnframt gert að skilyrði að umsækjandi sé staddur hér á landi, sbr. c. lið 1. mgr. 13. gr. laganna. Kærandi hafi tilkynnt Vinnumálastofnun fyrir fram um utanlandsferð sína, líkt og honum hafi borið samkvæmt 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þar sem kærandi hafi dvalið erlendis um allnokkurt skeið sé stofnuninni einn kostur að synja um greiðslur þar sem kærandi geti ekki talist í virkri atvinnuleit á sama tímabili.

Með vísan til alls ofangreinds er það niðurstaða Vinnumálastofnunar að synja skuli kæranda um atvinnuleysisbætur, enda uppfylli hann ekki skilyrði laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar um virka atvinnuleit.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 18. október 2023, um að hafna umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur frá 13. ágúst 2023 á þeirri forsendu að hann væri ekki staddur á Íslandi. Fyrir liggur að umsókn kæranda hafði áður verið samþykkt, eða með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 23. ágúst 2023. Er því ljóst að um greiðslustöðvun var að ræða líkt og fram kemur í tilkynningu til kæranda í fyrirliggjandi samskiptasögu hans og Vinnumálastofnunar en ekki höfnun á umsókn eins og það er orðað í hinni kærðu ákvörðun.

Í 1. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um gildissvið laganna en þar segir að lögin gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir. Í 2. gr. laganna kemur fram að markmið þeirra sé að tryggja launamönnum eða sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir séu að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt.

Í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 er fjallað um almenn skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna. Eitt af þeim skilyrðum er að vera búsettur, með skráð lögheimili og staddur hér á landi, sbr. c. lið 1. mgr. 13. gr. Einnig er skilyrði samkvæmt 1. mgr. 13. gr. að vera í virkri atvinnuleit, sbr. 14. gr., en í því felst meðal annars að hafa vilja og getu til að taka starfi án sérstaks fyrirvara, sbr. d. lið ákvæðisins. Sömu skilyrði eiga við um sjálfstætt starfandi einstaklinga, sbr. 1. mgr. 18. gr. laganna.

Samkvæmt gögnum málsins tilkynnti kærandi Vinnumálastofnun að hann hygðist dvelja í Bandaríkjunum frá 18. október til 26. nóvember 2023 og lagði fram farseðla því til staðfestingar. Ljóst er að kærandi var ekki tryggður samkvæmt lögum nr. 54/2006 á því tímabili þar sem hann var ekki staddur hér á landi, sbr. c. lið 1. mgr. 13. gr. laganna. Enga heimild er að finna í lögunum til að greiða einstaklingum atvinnuleysisbætur þegar þeir dvelja erlendis í fríi, hvorki til lengri eða styttri tíma. Hvað varðar kröfu kæranda um að bótagreiðslum verði framhaldið frá og með 27. nóvember 2023 þegar hann hafi komið heim til Íslands skal bent á að kærandi var þann 18. október 2023 upplýstur um að hann gæti sótt um atvinnuleysisbætur þegar hann væri kominn aftur til landsins.

Með vísan til framangreinds er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda staðfest.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 18. október 2023, um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til A, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum