Hoppa yfir valmynd

Nr. 455/2022 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 24. nóvember 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 455/2022

í stjórnsýslumáli nr. KNU22090041

 

Kæra [...]

á ákvörðun Útlendingastofnunar

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 19. september 2022 kærði einstaklingur er kveðst heita [...], vera fædd [...] og vera ríkisborgari Pakistan (hér eftir nefnd kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 5. september 2022, um að synja henni um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja henni um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að henni verði veitt staða flóttamanns hér á landi með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að henni verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að henni verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Að lokum krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að henni verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.        Málsmeðferð

Í gögnum máls kæranda er að finna skýrslu lögreglustjórans á Suðurnesjum, dags. 6. ágúst 2018. í skýrslunni kemur fram að kærandi hafi komið fyrst á lögreglustöðina 2. ágúst 2018 og framvísað vegabréfi frá Pakistan þar sem fram hafi komið að hún væri fædd [...]. Kærandi hafi komið á lögreglustöðina vegna þess að hún hafi misst af flugi til London og vantað aðstoð. Hinn 6. ágúst 2018 hafi kærandi komið aftur á lögreglustöðina ásamt fulltrúa Barnaverndar Reykjanesbæjar. Hafi fulltrúinn sótt um alþjóðlega vernd fyrir hönd kæranda. Sama dag hafi verið leitað að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum og hafi komið í ljós að fingraför hennar höfðu hvergi verið skráð. Kærandi kom til viðtals hjá Útlendingastofnun 14. ágúst 2018. Í viðtalinu var útskýrt fyrir kæranda að vegabréf hennar yrði skoðað með tilliti til fölsunar og ef eitthvað væri að myndi Útlendingastofnun biðja hana um að undirgangast aldursgreiningu. Lögreglan á Suðurnesjum tók vegabréf kæranda til skoðunar. Niðurstaða úr þeirri rannsókn var sú að enga fölsun væri að sjá í vegabréfinu en hins vegar væri ekki hægt að fullyrða um það hvort til grundvallar útgáfu vegabréfsins lægju ófölsuð og rétt gögn.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar dags. 23. apríl 2019, sem liggur fyrir í gögnum málsins, kemur fram að við nánari skoðun á máli kæranda hafi komið í ljós að hún hefði sótt um alþjóðlega vernd í Svíþjóð og að þær upplýsingar hefðu meðal annars komið í ljós við lestur sænskrar blaðagreinar frá [...] þar sem nafn hennar, [...], hafi komið fram. Vegna þeirra upplýsinga hafi upplýsingabeiðnum verið beint til sænskra yfirvalda dagana 29. ágúst og 9. september 2018. Í dagbókarfærslum frá Útlendingastofnun vegna máls kæranda kemur fram að svar hafi borist frá Svíþjóð 9. september 2018. Í svarinu kemur fram að kærandi hefði verið skráð í Svíþjóð undir nafninu [...] með fæðingardaginn [...], hlotið neikvæða lokaniðurstöðu í Svíþjóð 17. desember 2015 og verið skráð horfin þar í landi síðan 20. júlí 2018. Í svari frá sænskum stjórnvöldum 11. september 2018 kom fram að kærandi hefði sótt um alþjóðlega vernd í Svíþjóð 28. október 2013 og að hún hefði sjálf borið því við að hún væri fædd [...]. Sænsk yfirvöld hefðu fallist á uppgefinn aldur hennar án þess að frekari könnun færi þar fram. Með svari sænskra yfirvalda til Útlendingastofnunar bárust afrit af fæðingarvottorði [...], meints kjörbróður kæranda, (hér eftir A), afrit af skilríkjum meintra foreldra, afrit af herskilríkjum meints föður, afrit af ákvörðun sænsku útlendingastofnunarinnar frá 4. júní 2015 í máli kæranda auk afrits vegna umsóknar kæranda og A.

Með vísan til misræmis á aldri kæranda samkvæmt skilríkjum, upplýsingum í lögregluskýrslu, dags. 6. ágúst 2018, og upplýsingum frá sænskum yfirvöldum taldi Útlendingastofnun að uppi væri vafi á aldri kæranda og var hún því boðuð í aldursgreiningu 19. september 2018. Kærandi gekkst undir aldursgreiningu 21. september 2018. Var það niðurstaða sérfræðinga að kærandi væri eldri en 18 ára. Þar sem kærandi hafði áður sótt um vernd í Svíþjóð var beiðni send til sænskra stjórnvalda um viðtöku umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd. Sænsk stjórnvöld samþykktu að taka við kæranda á grundvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, 20. nóvember 2018. Hinn 21. nóvember 2018 var kæranda í viðtali hjá Útlendingastofnun kynntar niðurstöður aldurgreiningarinnar og henni tilkynnt að meðferð máls hennar myndi miðast við það að hún væri fullorðin. Þar sem kærandi hafði lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd í Svíþjóð sætti mál hennar upphaflega málsmeðferð á grundvelli 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Hinn 6. desember 2018 sendi þáverandi talsmaður kæranda beiðni til Útlendingastofnunar um sameiningu máls hennar við mál einstaklinga að nafni, [...] (hér eftir B) og [...] (hér eftir C). Til stuðnings beiðninni voru lögð fram nokkur gögn, svo sem fjölskylduskráningarskírteini útgefið af NADRA stofnuninni í Pakistan, fjölskylduskráningarskírteini dags. 5. apríl 2013, ensk þýðing af framangreindu skírteini og beiðni um fjölskyldusameiningu á Ítalíu frá árinu 2013. Hinn 8. janúar 2019 tjáði Útlendingastofnun talsmanni kæranda að meðferð máls hennar yrði afgreitt á grundvelli þess að hún væri fullorðin einstaklingur. Tók Útlendingastofnun fram að fjölskyldutengsl kæranda við umrædda einstaklinga hefðu ekki verið sönnuð með óyggjandi hætti, meðal annars þar sem að um afrit af gögnum til stuðnings beiðninni væri að ræða og því væri ekki hægt að kanna áreiðanleika þeirra.

Hinn 9. janúar 2019 kom kærandi til viðtals hjá Útlendingastofnun. Þá var tekið framhaldsviðtal við kæranda 21. janúar 2019. Hinn 23. apríl 2019 ákvað Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi ekki til efnismeðferðar og að henni skyldi vísað frá landinu. Hinn 9. maí 2019 kærði kærandi framangreinda ákvörðun Útlendingastofnunar til kærunefndar. Með úrskurði kærunefndar nr. 330/2019, uppkveðnum 4. júlí 2019, staðfesti kærunefnd ákvörðun Útlendingastofnunar. Úrskurður kærunefndar var birtur kæranda 8. júlí 2019 og 15. júlí 2019 barst kærunefnd beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa. Með úrskurði kærunefndar útlendingamála, dags. 25. júlí 2019, var beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa hafnað. Hinn 6. ágúst 2019 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku. Með úrskurði kærunefndar nr. 468/2019, uppkveðnum 10. október 2019, synjaði kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku málsins.

Hinn 31. október 2019 höfðaði kærandi mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á hendur íslenska ríkinu og krafðist ógildingar á framangreindum úrskurðum kærunefndar. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-6095-2019, uppkveðnum 30. september 2020, var úrskurður kærunefndar nr. 468/2019 ógiltur. Niðurstaða dómsins var sú að athafnir og athafnaleysi kæranda hefði ekki haft slíkar tafir á málsmeðferðartíma stjórnvalda á umsókn hennar um alþjóðlega vernd í för með sér að hún teldist sjálf bera ábyrgð á töfunum sbr. síðari málslið 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Var niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur staðfest með dómi Landsréttar í máli nr. 599/2020 uppkveðnum 8. apríl 2022.

Í ljósi niðurstöðu dóms Landsréttar var mál kæranda tekið til efnismeðferðar hjá Útlendingastofnun. Kærandi kom í efnismeðferðarviðtal hjá Útlendingastofnun 8. júlí 2022 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 5. september 2022, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja henni um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála 19. september 2022. Kærunefnd barst greinargerð kæranda ásamt fylgiskjölum 10. október 2022. Þá bárust kærunefnd frekari upplýsingar og gögn frá kæranda 1. nóvember 2022. Hinn 18. nóvember 2022 bárust kærunefnd frekari upplýsingar frá kæranda.

Í ljósi málatilbúnaðar kæranda, A, B og C um fjölskyldutengsl þeirra hefur kærunefnd við meðferð málsins einnig litið til vitnisburða og gagna í málum A, B og C hjá Útlendingastofnun og fyrir kærunefnd.

III.      Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hún sé í hættu í heimaríki sínu vegna samansafns ástæðna.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi væri ekki flóttamaður og henni skyldi synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi samkvæmt ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV.      Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að fyrsta viðtal við hana hafi farið fram hjá Útlendingastofnun 14. ágúst 2018. Í viðtalinu hafi kærandi greint frá því að foreldrar hennar væru látnir, móðir hennar hafi fengið krabbamein og faðir hennar hafi látist í sprengingu. Hafi fjölskylda móður hennar ekki kunnað við föður hennar og kærandi hafi aldrei hitt fjölskyldu föður hennar. Kærandi hafi búið hjá frænku sinni sem sé enn í Pakistan. Kærandi hafi greint frá því aðspurð um ástæður flótta frá Pakistan að hún hefði engan að í Pakistan, einungis frænku sína og eiginmann hennar sem væri ekki góður maður en hann legði hendur á frænku hennar, væri drykkjumaður og fjárhættuspilari. Hafi eiginmaður frænku kæranda hótað að gefa kæranda í hjónaband upp í peningaskuld. Kærandi hafi verið send til fjölskyldu eins af skuldunautum eiginmanns kæranda en flúið þaðan. Eiginmaður frænku kæranda hafi þá aftur hótað að gefa hana öðrum manni sem hafi verið eldri en hún. Frænka kæranda hafi því sagt henni að hún gæti ekki verið hjá þeim áfram og aðstoðað kæranda við að flýja.

Í greinargerð er rakið að við leit í Eurodac-gagnagrunninum 6. ágúst 2018 hafi komið í ljós að fingraför kæranda hefðu hvergi verið skráð en við nánari skoðun á máli hennar hafi komið í ljós að hún hefði áður sótt um alþjóðlega vernd í Svíþjóð. Hafi beiðni um viðtöku kæranda verið send til sænskra yfirvalda 12. september 2018 á grundvelli d-liðar 18. gr. laga um útlendinga. Hafi sænsk yfirvöld í fyrstu synjað beiðni um að taka við kæranda en eftir beiðni íslenskra stjórnvalda um endurskoðun á þeirri afstöðu hafi þau 20. nóvember 2018 samþykkt viðtöku á kæranda á grundvelli þess ákvæðis. Þá er vísað til þess í greinargerð að kjörforeldrar kæranda, B og C, hafi komið til Íslands 30. október 2018 ásamt syni sínum, [...], og sótt um alþjóðlega vernd.

Í greinargerð kemur fram að kærandi hafi greint frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun 9. og 21. janúar 2019 að hún væri fædd og uppalin í [...] í Pakistan og að hún hafi búið þar áður en hún hafi yfirgefið landið. Kærandi hafi þó búið um tíma hjá frænku sinni í [...], rétt áður en hún hafi farið frá Pakistan. Er vísað til þess að báðir staðirnir séu á Khyber-svæðinu í Pakistan. Kærandi hafi greint frá því að hún tilheyrði Pastún þjóðarbrotinu og væri það venjulegt í þeirra menningu að börn gengju í hjónaband. Kærandi hafi einnig greint frá því að hún hefði stefnt til Englands vegna þess að hún hefði engin réttindi í heimaríki sínu og hún vildi frekar deyja en vera áfram í Pakistan. Kærandi hafi yfirgefið Pakistan árið 2013 þegar hún hafi verið [...]. Jafnframt hafi kærandi greint frá því að blóðmóðir hennar hafi skilið við blóðföður hennar þegar móðir hennar hafi verið ólétt af kæranda og tekið saman við B. Kærandi kvað blóðmóður sína hafa látist þegar kærandi hafi verið ungabarn og hafi blóðfaðir hennar sagt henni frá veikindum móður hennar og sambandi móður hennar og B. Kærandi hafi verið [...] þegar B hafi ættleitt hana stuttu eftir andlát blóðföður hennar. Þá hafi kærandi í viðtalinu greint frá því að hún hefði ekki verið í sambandi við kjörforeldra sína frá því að kjörfaðir hennar hafi farið frá Svíþjóð. Kærandi hefði ekki heldur verið í sambandi við A. Kærandi hafi greint frá því að ástæðan fyrir því að hún hefði ekki greint frá fjölskyldutengslum sínum í fyrsta viðtali hafi verið sú að kjörforeldrar hennar hefðu ekki verið til staðar þá. Þá hafi kærandi greint frá því að eftirnafnið sem hún væri skráð með í Svíþjóð væri komið frá sænskum yfirvöldum.

Í greinargerð kemur fram að kærandi hafi gefið aðilaskýrslu við aðalmeðferð máls hennar fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Þar hafi komið fram að kærandi hefði verið endursend til Svíþjóðar síðla árs 2019 en komið aftur hingað til lands í ágúst 2020. Þá hafi B einnig gefið skýrslu fyrir héraðsdómi. Hafi B greint frá því að hafa gifst móður kæranda árið 2006 þegar kærandi hafi verið [...] ára gömul en móðir hennar hafi látist ári síðar. Fyrir héraðsdómi hafi kærandi greint frá ástæðum fyrir því að hafa ekki minnst á fjölskyldu sína í fyrsta viðtali og að hún hefði hins vegar greint frá því í öðru viðtali. Ástæður fyrir því að hún hefði ekki sagt frá A hefðu verið þær að í fyrsta lagi væri hann ekki líffræðilegur bróðir hennar og í öðru lagi hefði hún verið hrædd við að hitta hann aftur þar sem hann hefði beitt hana líkamlegu ofbeldi þegar þau hafi búið saman í Svíþjóð. Vegna þess ofbeldis hefðu leiðir kæranda og A skilið þar í landi.

Í greinargerð kæranda er að finna umfjöllum um öryggisástand, stöðu mannréttinda og um aðstæður kvenna í Pakistan. Vísar kærandi til skýrslna alþjóðlegra aðila til stuðnings þeirri umfjöllun.

Í greinargerð kæranda eru gerðar athugasemdir við mat Útlendingastofnunar á auðkenni kæranda, við mat stofnunarinnar á trúverðugleika hennar og við mat á niðurstöðum aldursgreiningar og hvaða vægi þær hafi haft í mati stofnunarinnar á trúverðugleika hennar. Hafi Útlendingastofnun komist að þeirri niðurstöðu að kærandi hefði ekki sannað hver hún væri með fullnægjandi hætti þar sem gögn um auðkenni hennar færu á skjön við annars vegar upplýsingar sem hún hefði gefið sænskum yfirvöldum um fæðingardag hennar og nafni á blóðföður og hins vegar vegna aldursgreiningar hennar hér á landi. Kærandi vísar til þess að í stjórnsýsluframkvæmd hafi verið litið svo á að ekki leiki vafi á auðkenni umsækjanda um alþjóðlega vernd sem lagt hafi fram vegabréf. Kærandi byggir á því að í ljósi jafnræðisreglu stjórnsýslulaga sé ekki hægt að komast að annarri niðurstöðu í hennar máli. Þá vísar kærandi til þess að hún hafi í raun lagt fram öll gögn til staðfestingar á auðkenni sínu sem henni sé fært að gera sem pakistönskum ríkisborgara. Að mati kæranda hafi hún sinnt skyldu sinni samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laga um útlendinga í því að upplýsa hver hún sé. Kærandi telur að ljóst sé að þær ríku kröfur sem gerðar séu í ákvörðun Útlendingastofnunar eigi sér ekki lagastoð og brjóti í bága við lögmætisreglu stjórnsýsluréttar. Kærandi mótmælir röksemdarfærslu Útlendingastofnunar þess efnis að þau gögn sem hún hafi aflað í þeim tilgangi að renna stoðum undir lögmæti vegabréfs hennar séu ekki frumgögn. Kærandi vísar til þess að hvergi í lögum sé gerð krafa um að frekari gögn sem kærandi aflar til að sanna auðkenni sitt þurfi að vera frumgögn. Þá telur kærandi að Útlendingastofnun hafi átt að meta niðurstöður aldursgreiningar í samhengi við vísindaleg skekkjumörk þeirrar rannsóknar, sem og þeirrar staðreyndar að kærandi hafi sannarlega sannað á sér deili. Kærandi telur að stjórnvöld hafi ekki uppfyllt rannsóknarskyldu sína við framangreint. Þá mótmælir kærandi því að frásögn hennar um það hvernig hún hafi komist til Evrópu sem fylgdarlaust barn rýri trúverðugleika þeirra auðkennisgagna sem hún hafi lagt fram. Með vísan til framangreinds telur kærandi að rétt sé að ógilda ákvörðun Útlendingastofnunar. Þá er það mat kæranda að ríkar kröfur Útlendingastofnunar til sönnunar á frásögn kæranda vegna þess að hún hafi annars vegar leynt upplýsingum um dvöl hennar í Svíþjóð fyrir íslenskum stjórnvöldum árið 2018 og hins vegar vegna misræmis milli frásagnar kæranda um aðdraganda flóttans séu ómálefnalegar. Kærandi vísar til þess að afstaða hafi verið tekin til beggja þessara atriða í Landsréttardómi nr. 599/2020, uppkveðnum 8. apríl 2022. Kærandi ítrekar að hún hafi verið undir [...] ára aldri þegar hún hafi sótt um alþjóðlega vernd hér á landi og því verið einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Þá mótmælir kærandi þeirri afstöðu Útlendingastofnun að hún hafi ekki gert heiðarlega tilraun til að renna stoðum undir frásögn sína. Kærandi vísar til þess að hún hafi farið í mörg viðtöl hjá Útlendingastofnun og ítarlega skýrslutöku fyrir dómi. Að mati kæranda hefði það verið mannúðlegra að Útlendingastofnun hefði sýnt henni umburðarlyndi enda sé hún ung að aldri.

Kærandi gerir þá kröfu aðallega að henni verði veitt alþjóðleg vernd á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga með vísan til þess að hún hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í heimaríki á grundvelli samansafns ástæðna. Í fyrsta lagi tilheyri kærandi þjóðfélagshópi kvenna í Pakistan. Kærandi hafi greint frá því að hún hafi í tvígang átt á hættu að vera seld í nauðungarhjónaband af hálfu eiginmanns frænku sinnar sem hún hafi búið hjá á meðan hún hafi verið barn. Afleiðingar þess hafi verið þær að frænka kæranda hafi sagt henni að hún ætti ekki annan kost en að flýja heimaríki. Í öðru lagi tilheyri kærandi þjóðarbrotinu Pastún í Pakistan. Kærandi vísar til þess að samkvæmt heimildum séu réttindi kvenna kerfisbundið brotin í menningu Pastún-fólks í Pakistan. Konur séu meðal annars útilokaðar frá þátttöku utan heimilis og verði að hylja andlit og líkama, þ.e. klæðast búrku. Sem kona af Pastún þjóðerni sé hún í sérstakri hættu á að verða fyrir kynbundnu ofbeldi, sem falli undir a-lið 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Þá sé konum mismunað af yfirvöldum í Pakistan, bæði með löggjöf landsins og aðgerðum stjórnvalda. Því geti stjórnvöld ekki veitt vernd gegn ofsóknum annarra aðila sem kærandi óttist. Það sem kærandi óttist helst í heimaríki sé nauðungarhjónaband. Kærandi vísar til þess að aðgengileg gögn um stöðu kvenna í Pakistan styðji frásögn hennar og því sé ljóst að ótti hennar sé ástæðuríkur. Kærandi geti eðli málsins samkvæmt ekki lagt fram gögn til stuðnings atvikum sem hafi hent hana í heimaríki þar sem hún hafi verið barn að aldri þegar þau hafi átt sér stað og um hafi verið að ræða munnlegar hótanir. Kærandi telur að frásögn hennar hafi að öllu leyti verið stöðug og að ekkert misræmi hafi komið fram hvað varði ástæður flótta hennar.

Til vara krefst kærandi þess að henni verði veitt viðbótarvernd samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi hafi lýst því að hún óttist að verða seld nauðug í hjónaband. Þá telur kærandi að meta verði stöðu hennar með hliðsjón af öllum viðeigandi gögnum um Pakistan. Sem kona af Pastún þjóðerni sé hún í sérstakri hættu á að verða fyrir kynbundnu ofbeldi auk þess sem konur sæti kerfisbundinni mismunun af stjórnvöldum í Pakistan. Kærandi vísar til þess að af upplýsingum um Pakistan megi sjá að konur í slíkri stöðu eigi í erfiðleikum með að sjá sér farborða og eru auk þess í mikilli hættu á að verða fyrir kynbundnu ofbeldi og sæta mismunun vegna kynferðis síns. Þá geti kærandi ekki leitað verndar hjá stjórnvöldum í Pakistan.

Til þrautavara gerir kærandi kröfu um að henni verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Kærandi vísar til þess að samkvæmt heimildum um Pakistan sé ástand mannréttindamála og efnahags- og félagslegar aðstæður í landinu afar bágbornar. Kærandi sé kona af Pastún þjóðerni en félagsleg staða þess hóps sé sérstaklega slæm. Sem Pastún kona í Pakistan geti hún átt von á því að vera útilokuð frá vinnumarkaði. Þá sé kærandi án trausts baklands í heimaríki þar sem hún hafi flúið frændfólk sitt eftir að eiginmaður frænku hennar hafi reynt í tvígang að selja hana í hjónaband. Kærandi sé því án baklands og án raunhæfra möguleika að afla sér farborða. Þá blasi við að hún verði seld í hjónaband verði hún send aftur til heimaríkis og telur hún að útilokað sé að fá vernd yfirvalda. Þá beri að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða vegna ófremdarástands sem ríki í heimahéraði hennar, Khyber Pakhtunkhwa, en ástandið þar sé hörmulegt vegna monsúnrigninga sem hafi átt sér stað í júní síðastliðnum.

Að lokum gerir kærandi þá kröfu að henni verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Kærandi telur öll skilyrði ákvæðisins vera uppfyllt. Tekin hafi verið skýrsla af kæranda, sbr. a-lið 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Hvað varði b-lið lagagreinarinnar þá hafi kærandi lagt fram öll þau vottorð og skilríki sem henni hafi verið fært að leggja fram sem pakistönskum ríkisborgara. Beri þeim öllum saman um auðkenni og fæðingardag kæranda og séu skilríkin gefin út af ólíkum stjórnvöldum á ólíkum tíma. Þar á meðal sé vegabréf kæranda sem útgefið hafi verið í tvígang, pakistanskt kennivottorð, pakistanskt fæðingar- og hjúskaparvottorð og pakistanskt skráningarvottorð fjölskyldu. Hafi vegabréf kæranda sem útgefið hafi verið fyrst 15. ágúst 2012 verið sent í áreiðanleikakönnun hér á landi og hafi niðurstaða hennar verið sú að það væri ófalsað. Fram hafi komið að ekki væri hægt að fullyrða um það hvort ófölsuð og rétt gögn lægju til grundvallar útgáfu vegabréfsins. Að mati kæranda sé slíkt mat utan sviðs áreiðanleikakönnunar og ætti því ekki að varpa skugga á niðurstöðu könnunarinnar. Þá séu öll önnur gögn kæranda samhljóma upplýsingum sem fram komi í vegabréfinu og því sé ekkert sem bendi til annars en að ófölsuð og rétt gögn liggi til grundvallar því. Að mati kæranda hvíli sönnunarbyrði um annað á Útlendingastofnun. Kennivottorð kæranda sé gefið út 16. júlí 2019 og sé útgefandi þess Registrar General of Pakistan. Þá sé hjúskapar- og fæðingarvottorðin gefin út 18. ágúst 2020 og sé útgefandi þess [...]. Skráningarvottorð fjölskyldu kæranda sé útgefið 20. nóvember og sé útgefandi Registrar General of Pakistan. Sé fæðingardagur kæranda [...] og komi sú dagssetning fram á ítölsku dvalarleyfisskírteini hennar sem sé gefið út 16. júlí 2019. Þá liggi fyrir vottorð um skólasókn kæranda í Svíþjóð og komi framangreindur fæðingardagur fram á því. Að auki liggi fyrir ítalskt vottorð um fjölskyldusameiningu kæranda útgefið 25. mars 2013. Á vottorðinu komi fram fæðingardagur allra fjölskyldumeðlima kæranda auk fæðingardags hennar sjálfrar, [...]. Fyrir liggi að kærandi hafi gefið upp annan fæðingardag hjá sænskum stjórnvöldum og þá hafi sænsk stjórnvöld skráð annað eftirnafn kæranda sem sé frá þeim komið en ekki frá kæranda. Kærandi hafi greint frá því að í hennar menningu tíðkist ekki að nota eftirnöfn. Kærandi hafi frá upphafi umsóknar sinnar hér á landi sagt satt og rétt frá aðstæðum sínum og skýrt satt og rétt frá því misræmi sem hafi verið á frásögn hennar hér á landi. Ástæða fyrir því að hafa sagt frá öðrum fæðingardegi í Svíþjóð hafi verið sú að henni hafi verið sagt að segja það og þá hafi hún staðið í þeirri trú að ef hún gæfi réttar upplýsingar um aldur sinn yrði hún send aftur til Pakistans vegna aldurs. Þá sé ekkert í máli kæranda sem bendi til þess að ástæður skv. c-lið 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga eigi við. Þá telur kærandi að skilyrði d-liðar lagagreinarinnar séu uppfyllt þar sem hún hafi veitt allar upplýsingar og aðstoð við úrlausn málsins.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi meðal annars lagt fram vegabréf frá Pakistan, nr. [...] með gildistíma frá 26. apríl 2018 til 25. apríl 2028. Í vegabréfinu sé fæðingardagur skráður [...]. Þá hafi kærandi lagt fram afrit af vegabréfi nr. [...]; þrjú fæðingarvottorð, dags. 5. apríl 2013, 7. ágúst 2018 og 19. ágúst 2020. Einnig hafi verið lögð fram fjölskyldusameiningarbeiðni til ítalskra yfirvalda, dags. 25. mars 2013 og fjölskylduskráningarskírteini pakistanskra stjórnvalda, dags. 28. mars 2013, afrit af pakistönsku kennivottorði, útgefið 16. júlí 2019 með gildistíma til 16. júlí 2029 og skjáskot af staðfestingu pakistanskra stjórnvalda á gildi persónuskilríkja kæranda. Var það mat Útlendingastofnunar að þær upplýsingar sem kærandi hefði gefið sænskum stjórnvöldum varðandi fæðingarár sitt og nafn föður drægi úr trúverðugleika vegabréfa og þeirra gagna sem kærandi hefði lagt fram til íslenskra stjórnvalda. Þá drægju skýringar kæranda og síðar útgefin gögn sem ætluð hafi verið að styðja við útgáfu vegabréfsins einnig úr trúverðugleika þess sem sönnun á auðkenni kæranda. Útlendingastofnun vísaði þá til þess að ekkert þeirra gagna sem kærandi hefði lagt fram gætu talist frumgögn svo sem gögn er vörðuðu öflun vegabréfsins og um ættleiðingu meintra kjörforeldra. Þá hafi B verið sá sem hafi í flestum tilvikum aflað þeirra gagna sem kærandi lagði fram í þessum tilgangi. Jafnframt hafi niðurstaða aldursgreiningar sem kærandi hefði gengist undir verið sú að kærandi væri eldri en 18 ára sem stangaðist á við skráðan fæðingardag hennar í framlögðum gögnum. Var það því mat Útlendingastofnunar að kærandi hefði ekki sannað hver hún væri með fullnægjandi hætti. Yrði því leyst úr auðkenni hennar á grundvelli trúverðugleika. Var það mat Útlendingastofnunar að ekki væri ástæða til að draga í efa að kærandi væri pakistanskur ríkisborgari af þjóðarbroti Pastúna og heimasvæði hennar væri Khyber Paktunkhwa hérað. Að öðru leyti væri vafi uppi um auðkenni kæranda.

Að mati kærunefndar eru ekki fyrir hendi forsendur til að hagga framangreindu mati Útlendingastofnunar þess efnis að kærandi sé pakistanskur ríkisborgari af þjóðarbroti Pastúna og heimasvæði hennar sé Khyber Paktunkhwa hérað og verður það því lagt til grundvallar í málinu. Afstaða til auðkennis kæranda verður tekin síðar í þessum úrskurði.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Pakistan m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

 • 2021 Country Reports on Human Rights Practices: Pakistan (U.S. Department of State, 12. apríl 2022);
 • 2020 Report on International Religious Freedom: Pakistan (U.S. Department of State, 2. júní 2022);
 • Asylum Policy Instruction – Assessing credibility and refugee status (U.K. Home Office, 6. janúar 2015);

 • Country Policy and Information Note. Pakistan: Women fearing gender-based violence. Version 4.0. (UK Home Office, febrúar 2020);
 • Country of Origin Information Report – Pakistan Security Situation (European Asylum Support Offic, 27. október 2021);
 • Country Policy and Information Note – Pakistan: Actors of protection (UK Home Office, júní 2020);
 • Country Policy and Information Note – Pakistan: Background information, including internal relocation (UK Home Office, júní 2020);
 • Country Policy and Information Note – Pakistan: Mental and healthcare provisions, (UK Home Office, september 2020);
 • Country Policy and Information Note – Pakistan: Security and humanitarian situation, including fear of militant groups (UK Home Office, janúar 2019);
 • DFAT Country Information Report. Pakistan (Australian Government. Department of Foreign Affairs and Trade, 20. febrúar 2019);
 • DFAT Country Information Report. Pakistan (Australian Government. Department of Foreign Affairs and Trade, 25. janúar 2022);
 • Fact Finding Mission Report Pakistan (Austrian Federal Office for Immigration and Asylum, september 2015);
 • Flood Situation Report (Health Department Khyber Pakhtunkhwa, 30. ágúst 2022);
 • Freedom in the World 2022 – Pakistan (Freedom House, 24. febrúar 2022);
 • Khyber Pakhtunkhwa Tribal Districts Annual Security Report (FATA Research Centre, 7. janúar 2021);
 • Minorities and indigenous peoples in Pakistan (Minority Rights Group, updated júlí 2018);
 • Pakistan: Country Report (Asylum Research Consultancy, 18. júní 2018);
 • Pakistan: Fraudulent documents, including non-identity documents such as academic qualification documents, travel documents, First Information Requests (FIRs), land ownership titles and newspaper articles, and identity documents including identity cards and birth certificates; methods of obtaining fraudulent documents and assessing the credibility of fraudulent documents (2012 – December 2014) (Immigration and Refugee Board of Canada, 14. janúar 2015);
 • Pakistan: Pass, identitetskort og grunnlagsdokumenter (Landinfo, 29. maí 2012);
 • Pakistan: Whether the name of a male relative appears on a Pakistani passport issued to a woman; circumstances under which the named relative would change (2017-June 2019) (Immigration and Refugee Board of Canada, 17. júlí 2019);
 • Pakistan - Mänskliga rättigheter, demokrati och rättstatens principer: situationen per den 31 december 2018 (Utrikesdepartimentet, 18. júní 2019);
 • Pakistan Security Report 2019 (PAK Institute for Peace Studies (PIPS), 7. janúar 2022);
 • Progress Report 2013 – 2015 – Birth Registration (UNICEF (Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna), júlí 2015(;
 • Recent trends of human trafficking and migrant smuggling to and from Pakistan (United Nations Office on Drugs and Crime, júlí 2013);
 • Report on the human rights situation covering 2021 – Pakistan (Amnesty International, 29. mars 2022);
 • State of Human Rights in 2021 (Human Rights Commission of Pakistan, 2022);
 • The World Factbook: Pakistan (Central Intelligence Agency, síðast uppfært 3. nóvember 2022);
 • Vefsíða Center for Disaster Philanthropy (2022 Pakistan Floods - Center for Disaster Philanthropy, skoðuð 4. nóvember 2022) og
 • World Report 2022 – Pakistan (Human Rights Watch, 13. janúar 2022).

Samkvæmt ofangreindum gögnum er Pakistan sambandslýðveldi með rúmlega 243 milljónir íbúa. Hinn 30. september 1947 gerðist Pakistan aðili að Sameinuðu þjóðunum. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi árið 2010 og alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 2008. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um afnám alls kynþáttamisréttis árið 1966 og samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 2010. Þá fullgilti ríkið jafnframt samning um afnám allrar mismununar gagnvart konum árið 1996, en ríkið hefur hins vegar ekki undirritað valfrjálsa viðbótarbókun við samninginn. Pakistan fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins árið 1990.

Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá árinu 2021 kemur fram að þrátt fyrir að pakistönsk löggjöf banni handahófskenndar handtökur og varðhald og kveði á um rétt til að vefengja lögmæti handtöku fyrir dómi þá séu lögin ekki fyllilega virt af lögreglunni. Sé það einkum vandamál vegna spillingar innan lögreglunnar sem sé algeng einkum á lægri stigum og dæmi séu um að lögreglan þiggi mútur. Einstaklingar tilkynni um meinta glæpi eða brot til lögreglunnar með svokallaðri FIR skýrslu (e. first instance report). FIR skýrslan sé fyrsta skrefið við rannsókn sakamáls og sé hún oftast lögð fram af þriðja aðila þó svo að lögreglan hafi heimild til að gera slíka skýrslu sjálf. FIR skýrslan veiti lögreglunni heimild til að halda meintum brotamanni í gæsluvarðhaldi í 24 klukkustundir á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Hægt sé að leggja fram slíka skýrslu hjá lögreglumanni, á lögreglustöð og á vefsíðum ákveðinna lögregluembætta í Pakistan.

Í fyrrnefndri skýrslu kemur fram að þrátt fyrir að pakistönsk lög kveði á um sjálfstætt dómskerfi, réttláta málsmeðferð og að enginn skuli sviptur lífi, eignum eða frelsi án dóms og laga beri gögn með sér að dómskerfið hafi verið gagnrýnt fyrir spillingu. Spilling sé innan héraðsdómstóla en þeir séu afkastalitlir og undir þrýstingi frá auðugum og áhrifamiklum einstaklingum, einkum á sviði trúar- og stjórnmála. Þá kemur fram að þrátt fyrir að veikleikar séu í réttarkerfinu í Pakistan þá sé spilling refsiverð samkvæmt lögum, en ábyrgðarskrifstofa ríkisins (e. National Accountability Bureau (NAB)) hafi það hlutverk að útrýma spillingu í stjórnkerfum landsins með vitundarvakningu, forvörnum, rannsókn spillingarmála jafnframt sem skrifstofan ákæri í slíkum málum. NAB hafi heimild samkvæmt lögum að halda einstaklingum í 15 daga án þess að ákæra og mögulegt sé að framlengja varðhaldið með samþykki dómstóla. Synja megi einstaklingnum um leyfi til að ráðfæra sig við lögmann meðan á rannsókn standi. Þá sé ekki unnt að greiða tryggingu til að losna úr varðhaldi heldur sé það einungis ákvörðun formanns NAB að láta einstakling lausan.

Samkvæmt skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins um trúfrelsi í Pakistan frá 2021 eru 80-85% múslima í landinu súnní múslimar. Talið sé að 15-20% múslima séu sjíta múslimar, þ.m.t. þjóðernishóparnir Hazara, Ismaili og Bohra. Samkvæmt vefsíðu CIA eru helstu þjóðarbrotin í Pakistan Punjabi (44,7%%), Pashtun (15,42%), Sindhi (14,1%), Sariaki (8,38%), Mohajirs (7,57%), Balochi (3,57%) og aðrir (6,28%). Fram kemur í skýrslu utanríkisráðuneytis Ástralíu frá janúar 2022 að Pastúnar eigi fulltrúa á öllum sviðum samfélagsins, þ. á m. hjá lögreglu- og öryggissveitum. Venju samkvæmt búi Pastúnar meðal þeirra eigin ættbálka í Khyber Pakhthunkhwa héraði en þeir hafi í miklum mæli flust til Karachi, Islamabad, Lahore og Peshawar undanfarna áratugi. Í umræddum borgum hafi Pastúnar tilkynnt um áreiti af hálfu opinbera starfsmanna og mismunun á grundvelli kynþáttar, t.a.m. handtökur vegna ætlaðra tengsla við hryðjuverkasamtök, sem megi m.a. rekja til þess að meirihluti fylgjenda TTP séu Pastúnar. Í ljósi þess kjósi Pastúnar, sem flytji búferlum innan Pakistan, að setjast að á svæðum þar sem þeir séu í meirihluta og hafi fjölskyldutengsl, þá sérstaklega í héruðunum Khyber Pakhtunkhwa eða Sindh. Þá hafi þjóðfélagshreyfingin Pashtun Tahafuz Movement (PTM) haldið því fram að öryggissveitir yfirvalda hafi gerst sekar um margvísleg mannréttindabrot gegn Pastún þjóðernishópnum, þ.m.t. þvinguð mannrán og ólögmætar aftökur.

Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér verður ráðið að það sé fylgst náið með öryggisástandinu í Khyber Pakhtunkhwa, þ. á m. taki frjálsu félagasamtökin PAK Institute for Peace Studies (PIPS) og Fata Research Centre (FRC) saman ítarlegar tölfræðilegar upplýsingar um árásir í héraðinu. Framangreindar skýrslur samtakanna bera það með sér að hryðjuverkaárásir TTP og annarra vígasamtaka hafi leitt til þess að öryggisástandið í Khyber Pakthunkhwa hafi víða verið ótryggt. Meirihluti árása hafi beinst að hersveitum yfirvalda en almennir borgarar hafi einnig verið skotmörk. Samkvæmt skýrslum fyrrnefndra samtaka frá 2018 og 2019 hafi öryggisástandið í héraðinu tekið talsverðum framförum. Hryðjuverka- og sprengjuárásum hafi fækkað verulega, þ. á m. í Khyber umdæmi þar sem 18 árásir hafi verið skráðar árið 2018 og 12 árásir árið 2019, samanborið við 115 árásir árið 2017. Aftur á móti hafi sú tíðni farið hækkandi í héraðinu árið 2020 samkvæmt skýrslu FRC frá 2021, þ. á m. í Khyber umdæmi þar sem 21 árás hafi verið skráð á árinu.

Á framangreindri vefsíðu Provincial Ombudsman kemur fram að í Khyber Pakhtunkhwa sé starfandi umboðsmaður sem hafi m.a. það hlutverk að vernda rétt borgaranna gegn brotum opinberra starfsmanna og koma í veg fyrir spillingu. Umboðsmaðurinn geti tekið til skoðunar öll ætluð brot opinberra starfsmanna sem varði borgara landsins að undanskildum ætluðum brotum æðsta dómstólsins (e. High Court) og dómstóla sem vinni undir yfirstjórn hans.

Í skýrslu utanríkisráðuneytis Ástralíu frá árinu 2022 kemur fram að kynjajafnrétti í Pakistan sé eitt það minnsta í heiminum. Vísað er til þess að samkvæmt alþjóðlegri skýrslu Alþjóðaefnahagsráðsins frá 2021 hafi landið verið í 153 sæti af 156 löndum hvað varðaði efnahagslega þátttöku kvenna og tækifæri þeirra, menntun, heilsu og þátttöku þeirra í stjórnmálum. Þá kemur fram að 25. gr. stjórnarskrár Pakistan banni mismunun á grundvelli kynferðis með þeim fyrirvara að setja megi lög til verndar konum og börnum. Engu að síður eru lög í Pakistan sem mismuni konum; samkvæmt þeim geti karlmaður sótt um skilnað á löglegan hátt hvenær sem er, á meðan kona getur það ekki. Löglegur giftingaraldur fyrir karlmann sé 18 ára en fyrir konur/stúlkur 16 ára, þá sé nauðgun í hjónabandi ekki refsiverð. Jafnframt kemur fram í skýrslunni að miklar framfarir hafi orðið í löggjafarmálum um réttindi kvenna á héraðs- og alríkisstigi á undanförnum árum. Hafi til að mynda lög gegn heimilisofbeldi í Punjab, Sindh, Balochistan og KhyberPakhtunkhwa verið lögfest, sem og alríkislög um að heiðursmorð og sýruárásir séu refsiverð. Framfylgni og skilvirkni þessara laga sé hins vegar mismunandi en sum lög, eins og sýruárásarlögin, hafi verið mjög áhrifarík og hafi sýruárásum til að mynda fækkað um 80 prósent síðan 2014. Þá sé starfrækt landsnefnd um réttindi kvenna (e. National Commission for the Status of Women (NCSW)). Á heimasíðu nefndarinnar kemur fram að hlutverk hennar sé að stuðla að jafnrétti kynjanna og valdeflingu í samræmi við ákvæði stjórnarskrár landsins. Eigi nefndin m.a. að tryggja að ákvæði stjórnarskrár Pakistan og alþjóðlegar skuldbindingar ríkisins er lúta að réttindum kvenna séu virt. Nefndin hafi heimild til þess að móttaka og afla upplýsinga frá hverjum sem er og hafi stöðu dómstóls til þess að kveða á um framlagningu gagna sem og því að kveða einstakling til þess að mæta fyrir nefndina. Samkvæmt skýrslu ástralska utanríkisráðuneytisins standi konur og stúlkur í Pakistan frammi fyrir mikilli opinberri mismunun í formi ófullnægjandi verndar ríkisins gegn kynbundnu ofbeldi. Þá verði konur einnig fyrir verulegri lagalegri mismunun í málum eins og erfðum, eignarrétti, fjölskyldurétti og í réttarkerfinu. Konur og stúlkur í Pakistan séu í mikilli hættu á að verða fyrir samfélagslegri mismunun og ofbeldi, sérstaklega heimilisofbeldi, vegna kynferðis síns. Fátækar konur, jaðarsettar, minnihlutahópar og konur í dreifbýli séu sérstaklega viðkvæmar og skorti aðgang að ýmis konar stuðningsþjónustu.

Barna- og nauðungarhjónabönd sé víðtækt vandamál í Pakistan og séu konur sem tilheyri trúarlegum minnihlutahópum, kristnum og Hindúum, í sérstakri hættu hvað það varði. Áætlað sé að um 1000 nauðungarhjónabönd eigi sér stað í Pakistan ár hvert. Þrátt fyrir að löglegur giftingaraldur fyrir stúlkur sé tæknilega 16 ára þá séu fordæmi fyrir því að heimila að gifta stúlkur þegar þær hafi náð kynþroska. Stúlkum allt niður í 12 ára aldur hafi verið rænt, þeim nauðgað, beittar ofbeldi og, í sumum tilvikum, neyddar til þess að taka upp íslamska trú. Á ættbálkasvæðum hafi þvinguð hjónabönd verið fyrirskipuð af hefðbundnum ráðum, Jirga, á grundvelli venju sem kallist badal-e-sulah, þar sem stúlkur og ungar konur séu gefnar til þess að sætta blóðhefndardeilur eða landadeilur á milli karlmanna. Í skýrslu breska innanríkisráðuneytinu frá árinu 2022 kemur fram að þrátt fyrir að lög banni og leggi refsingu við þvinguðum og barnahjónaböndum þá séu þau algeng í Pakistan. Stúlkur séu giftar m.a. vegna þess að foreldrar þeirra hafi ekki efni á að fæða þær og mennta og þannig sé ábyrgðinni varpað yfir á nýja fjölskyldu.

Í framangreindri skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá september 2020 kemur fram að heilbrigðisþjónusta í Pakistan sé af verri gæðum en í vestrænum ríkjum. Starfandi séu spítalar á vegum hins opinbera í Pakistan sem veiti ríkisborgurum heilbrigðisþjónustu að endurgjaldslausu. Heilbrigðisþjónusta sé betri í stærri borgum og bæjum en á strjálbýlli svæðum. Þá sé í boði geðheilbrigðisþjónusta m.a. í heimahéraði kæranda. Hins vegar kjósi meirihluti ríkisborgara að borga fyrir heilbrigðisþjónustu sem sé talin vera af betri gæðum. Lítill hluti ríkisborgara séu með heilbrigðistryggingu en yfirvöld hafi komið á fót verkefni í Khyber Pakhtunkhwa héraði og Islamabad sem tryggja eigi efnalitlum fjölskyldum niðurgreidda heilbrigðisþjónustu. Samkvæmt skýrslu utanríkisráðuneytis Ástralíu frá árinu 2022 kemur fram að framangreint verkefni, Sehat Sahulat Scheme, hafi hlotið mikið lof og tryggt einstaklingum sem lifi undir fátæktarmörkum fría almenna heilbrigðisþjónustu.

Monsún tímabilið í Pakistan byrjaði í júní 2022. Í kjölfar þess að rignt hafði látlaust áttu sér stað flóð í Pakistan sem talin eru þau verstu í áratug. Á vef Center for Disaster Philanthropy mannúðarsamtakanna kemur fram að Talið er að yfir 1.700 manns hafi látist vegna flóðanna og þá hafi yfir 400 brýr og þúsundir kílómetra af vegum eyðilagst. Telja embættismenn Sameinuðu þjóðanna að það geti tekið sex mánuði fyrir vatnsmagnið að minnka á þeim svæðum sem hafi orðið verst úti. Hafi flóðin haft áhrif á öll fjögur héruð landsins og um það bil 15% íbúa þess. Þau svæði sem hafi orðið fyrir verstu afleiðingum flóðanna séu Balochistan og Sindh héruðin. Samkvæmt skýrslu heilbrigðisyfirvalda Khyber Pakhtunkhwa, dags. 30 ágúst 2022, hafi þurft að sinna meira en 10 þúsund einstaklingum í kjölfar flóðanna en engir sjúklingar hafi verið skráðir í meðferð þann dag vegna sjúkdóma sem rekja mætti til flóðanna. Í kjölfar flóðanna settu stjórnvöld í Pakistan í gang viðbragðsáætlun í samstarfi við Sameinuðu þjóðirnar. Þá var endurskoðuð viðbragðsáætlun gefin út 4. október 2022 þar sem reiknað væri með að það þyrfti tæpar 816 milljónir dollara til að veita 9,5 milljónum manna mannúðaraðstoð.

Af skýrslu Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna frá árinu 2015 má ráða að skráningu barnsfæðinga í Pakistan hafi alla tíð verið verulega ábótavant. Fram kemur í skýrslunni að á þeim tíma sem hún er samin hafi aðeins 34% af börnum í Pakistan undir fimm ára aldri verið skráð. Þá kemur fram í skýrslunni að ákveðnar hindranir hafi verið við að skrá fæðingu barna. Annars vegar hafi verið um að ræða skipulagslegar hindranir sem hafi haft áhrif á sveitastjórnirnar (e. Union Council Offices), svo sem skortur á getu, skortur á hvatningu fyrir starfsfólk og tæknilegar hindranir. Hins vegar væri það svo að margir foreldrar hafi einfaldlega engan hag séð í því að skrá barnið sitt við fæðingu. Fátækt, ólæsi og skortur á þjónustu í dreifbýli hafi aukið á þessa grundvallarhindrun og fyrir marga hafi kostnaður við skráningu s.s.; gjöld, ferðakostnaður og tími frá vinnu, einfaldlega verið of hár til þess að þeir hafi lagt það á sig. Þá kemur fram í skýrslunni að það sé ætlun UNICEF að halda áfram að styðja héraðsstjórnir í Pakistan við að innleiða sérsniðnar fæðingarskráningaraðferðir til að ná fram markmiðum stjórnvalda varðandi skráninguna. Í skýrslu Landinfo frá árinu 2012 er einnig fjallað um vankanta þá sem hafi verið á skráningu barna við fæðingu á dreifbýlli svæðum. Það hafi til að mynda verið niðurstaða opinberrar könnunar að einungis 20% barna í Khyber Pahktunkhwa hafi verið skráð við fæðingu. Þá kemur fram í skýrslunni að mikil spilling, ásamt þeirri staðreynd að staðbundin fæðingarskráning sé grundvöllur ákvörðunar um auðkenni í tengslum við útgáfu miðlægra skilríkja og vegabréfa, auk þess sem reglulega hafi verið greint frá því að yfirvöld gefi út skjöl með röngum upplýsingum, séu helstu ástæðurnar fyrir því að trúverðugleiki pakistanskra skilríkja sé takmarkaður. Þrátt fyrir að stofnunin NADRA hafi augljóslega bætt verkferla við skráningu og geymslu persónuupplýsinga í Pakistan þá sé það svo að oft og tíðum séu grunnupplýsingar um einstaklinga byggðar á ótraustum upplýsingum frá heimasvæðum þeirra.

Í skýrslu Sameinuðu þjóðanna um fíkniefni og glæpi frá árinu 2013 kemur fram að almennt séð séu fyrir hendi fjórir flokkar skjalasvika: fölsun – þar sem átt hafi verið við áður ósvikin skjöl; sviksamleg eftirlíking – þar sem skjöl hafa verið framleidd til að líta út eins og frumrit; skjöl sem aflað hafi verið á sviksamlegan hátt - ósvikin skjöl sem hafa verið gefin út á grundvelli sviksamlegra umsókna eða fylgiskjala og eftirhermur – þar sem lögmæt skjöl séu í heimildaleysi notuð af einstaklingi sem líkist þeim sem sé lögmætur eigandi þeirra skjala. Í skýrslu utanríkisráðuneytis Ástralíu frá árinu 2019 um Pakistan kemur fram að algengt sé að skólaskrám, fæðingarvottorðum, dánarvottorðum, sjúkraskrám, bankaskýrslum og öðrum skjölum sé breytt á sviksamlegan hátt eða þau fölsuð. Þá kemur fram í skýrslu Utanríkisráðuneytis Ástralíu frá því í janúar 2022 að skjalafals sé víðtækt í Pakistan, almennt sé þó hægt að treysta auðkennisskjölum sem útgefin séu af NADRA (National Database and Registration Authority). Í skýrslu UK Home Office frá því í mars 2020 kemur fram að þó öryggiseiginleikar í persónuskilríkjum og vegabréfum hafi dregið úr hættu á svikum, þó séu skjalasvik algeng. Greint hafi verið frá því að auðvelt sé að afla á sviksamlegan hátt lögmætra skjala eða falsaðra skjala.

Mat á trúverðugleika

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2019). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Samkvæmt handbók Flóttamannastofnunar ber umsækjanda að segja sannleikann og sýna fullan samstarfsvilja með yfirvöldum til þess að varpa ljósi á staðreyndir máls síns, leitast við að styðja framburð sinn tiltækum gögnum og veita fullnægjandi skýringar á því ef upplýsingar skortir. Ber honum að leitast við að afla frekari gagna, ef þörf krefur. Þá eigi umsækjandi að veita allar viðeigandi upplýsingar um sjálfan sig og reynslu sína að því marki sem nauðsynlegt er til að [stjórnvald] geti komist að staðreyndum málsins. Stjórnvöld ættu að biðja umsækjanda um að skýra í samhengi þær ástæður sem styðja umsókn hans um réttarstöðu flóttamanns og leiðbeina honum um að honum beri að svara öllum spurningum sem beint er til hans. Þá eigi [stjórnvöld] að að tryggja að umsækjandinn kynni eins og kostur er mál sitt til fullnustu og með öllum tiltækum gögnum og leggja mat á trúverðugleika umsækjandans og meta málsgögn (og láta umsækjanda njóta vafans ef þörf krefur) í því skyni að leiða í ljós hlutlæga jafnt sem huglæga þætti málsins. Ennfremur að setja þessa þætti málsins í samhengi við viðeigandi skilyrði sem er að finna í flóttamannasamningnum í því skyni að komast að réttri niðurstöðu um réttarstöðu umsækjandans.

Mat á auðkenni kæranda

Líkt og að framan greinir undirgekkst kærandi aldursgreiningu 21. september 2018. Niðurstaða rannsóknarinnar var sú að samkvæmt þeim aðferðum sem hafi verið beitt við rannsóknina væri aldur kæranda 19,9 ár; 20,7 ár; 20,6 ár og 22,5 ár eða eldri. Af aðstæðum í munni kæranda var hún metinn eldri en 20 ára. Sérstök athygli var vakin á því að öllum þroskaviðmiðum væri lokið og þau myndu ekki breytast síðar á ævinni. Mat sérfræðinga var að kærandi væri eldri en 18 ára. Samkvæmt framangreindu var kærandi því haustið 2018 eldri en 18 ára sem gaf til kynna að hún væri fædd árið 2000 eða fyrr.

Líkt og að framan er rakið gaf kærandi við umsókn sína um alþjóðlega vernd í Svíþjóð í október 2013 þær upplýsingar að hún væri fædd árið [...]. Í ákvörðun sænsku útlendingastofnunarinnar, frá 4. júní 2015, sem liggur fyrir í gögnum málsins, kemur fram að kærandi og meintur kjörbróðir hennar, A, hafi við málsmeðferð í Svíþjóð meðal annars lagt fram búsetuvottorð, afrit af auðkenniskortum einstaklinga er þau hafi kveðið foreldra sína, fæðingarvottorð A og auðkennisvottorð kæranda. Fram kemur að sænska útlendingastofnunin hafi metið framangreind gögn ótraust. Þá kemur fram í ákvörðuninni að A hafi gefið upp að fæðingardagur hans væri [...]. Sænska útlendingastofnunin hafi hins vegar séð ástæðu til að láta framkvæma aldursgreiningu á honum. Var niðurstað þeirrar greiningar sú að A væri að minnsta kosti 19,2 ára gamall með mögulegum staðalfrávikum að einu til tveimur árum. Niðurstaða aldursgreiningar sem Útlendingastofnun lét framkvæma á A hér á landi í október 2016 leiddi í ljós það mat sérfræðinga að aldur hans væri á bilinu 18 – 25 ára og að útilokað væri að réttur aldur hans væri [...] ára líkt og hann hélt fram.

Í gögnum máls A er að finna afrit af ódagsettu fæðingarvottorði þar sem fram kemur að „elders“ [...] ættbálksins lýsi því yfir að A sé sonur manns að nafni [...], tilheyri [...] ættbálknum, með búsetu í [...] þorpinu í [...] og að fæðingardagur hans sé [...]. Fram kemur að fæðingardagur hans sé byggður á skólagögnum. Kærandi hefur lagt fram afrit af sams konar fæðingarvottorði þar sem fram kemur að „elders“ í [...] ættbálksins lýsi því yfir að hún sé dóttir manns að nafni [...], tilheyri ættbálknum, sé með búsetu í [...] þorpinu í [...] og að fæðingardagur hennar sé [...]. Í fæðingarvottorði kæranda er ekki tilgreint hvaða gögn liggi til grundvallar fæðingardegi hennar. Í gögnum í máli B liggur fyrir afrit af fæðingarvottorði hans. Í því kemur fram að „following elders“ [...] ættbálksins lýsi því yfir að hann sé sonur manns að nafni [...], tilheyri ættbálknum með búsetu í [...] þorpinu í [...] og að fæðingardagur hans í vottorðinu sé [...] og grundvallist á skólavottorði.

Kærunefnd sendi fyrirspurn á talsmann kæranda 16. nóvember 2022 þar sem nefndin óskaði meðal annars eftir því að kærandi gæfi upplýsingar um það hvaða gögn hafi verið lögð fram til ættbálksins eða sveitastjórnarinnar þegar fæðingarvottorðið var útbúið. Hinn 18. nóvember 2022 bárust svör frá kæranda við ýmsum spurningum kærunefndar en kærandi gaf engin svör við spurningu kærunefndar um hvaða gögn lágu til grundvallar útgáfu fæðingarvottorðs hennar.

Líkt og að framan er rakið liggur fyrir að kærandi og A hafa bæði gefið upp annan aldur hér á landi en við málsmeðferð í Svíþjóð. Þá hafa verið framkvæmdar aldursgreiningar á þeim báðum sem hafa leitt í ljós að uppgefinn aldur við málsmeðferð hér á landi var ekki réttur.

Með vísan til landaupplýsinga sem raktar eru um hve algengt það er að grunnskjöl séu fölsuð í Pakistan, vandkvæði við skráningar á fæðingum barna og með hliðsjón af því sem liggur fyrir í málinu varðandi upplýsingar um kæranda hjá sænskum stjórnvöldum og niðurstöðu aldursgreiningar hér á landi er það mat kærunefndar að verulegur vafi sé á lögmæti þeirra gagna sem liggja að baki útgáfu á framlögðu pakistönsku nafnskírteini og vegabréfa sem kærandi hefur fengið útgefin af pakistönskum stjórnvöldum.

Að öllu framangreindu virtu er það heildstætt mat kærunefndar að vegabréf kæranda og nafnskírteini séu ekki til þess fallin að sanna auðkenni hennar. Að framansögðu virtu er því ekki lagt til grundvallar við úrlausn málsins að kærandi hafi sannað auðkenni sitt.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. laga um útlendinga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir samkvæmt 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir samkvæmt 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök samkvæmt b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Krafa kæranda um alþjóðlega vernd er byggð á upplifun hennar í heimaríki og ástæðuríkum ótta við ofsóknir vegna aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi. Kærandi kveðst tilheyra þjóðfélagshópi kvenna í Pakistan og óttist að verða neydd í hjónaband í heimaríki. Þá tilheyri kærandi þjóðarbrotinu Pastún í Pakistan og eigi hún í sérstakri hættu á að verða fyrir kynbundnu ofbeldi sem kona af Pastún þjóðerninu.

Mat á trúverðugleika frásagnar kæranda er byggt á endurritum af viðtölum við hana hjá Útlendingastofnun og öðrum gögnum málsins.

Líkt og að framan greinir fór umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi upphaflega í það ferli hjá Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála að meta hvort taka ætti umsókn hennar til efnismeðferðar hér á landi, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, í ljósi þess að hún hafði áður lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd í Svíþjóð. Í kjölfar dóms Landsréttur 8. apríl 2022, sem staðfesti dóm Héraðsdóms Reykjavíkur um ógildingu á úrskurði kærunefndar um endurupptöku máls hennar, tók Útlendingastofnun mál kæranda til efnismeðferðar.

Í málinu liggur fyrir þó nokkuð magn framlagðra gagna. Flest þeirra hafa verið lögð fram til stuðnings meintum fjölskyldutengslum kæranda við einstaklinga hér á landi og eiga þau jafnframt að skjóta stoðum undir auðkenni og aldur kæranda. Þá liggja fyrir gögn frá sænskum stjórnvöldum er tengjast umsókn kæranda og meintum kjörbróður hennar, A, um alþjóðlega vernd þar í landi. Auk þess hefur kærunefnd litið til gagna í málum B og C er varða kæranda. Þá hefur kærandi mætt í nokkur viðtöl hjá Útlendingastofnun og skýrslutöku fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

Í gögnum frá Svíþjóð kemur fram að kærandi hafi í viðtali vegna umsóknar sinnar þar í landi ekki getað svarað fyrirvaralaust um eftirnafn sitt og fæðingardag en kvaðst fædd árið [...] við komuna þangað. Ekki hafi þótt ástæða til annars en að leggja til grundvallar að kærandi væri ung að árum og var hún því skráð með fæðingardaginn [...]. Við málsmeðferðina í Svíþjóð var A með henni í för og kváðust þau þar vera systkini. Þar greindu þau frá því að eiga sama föður og að eiga bróður með sama nafni og maður sem kærandi hefur hér á landi sagt vera kjörfaðir sinn. Þá hafi þau flúið heimaríki þar sem að þau hafi óttast að vera neydd til að giftast aðilum í heimaríki sem liður í sáttamiðlun við aðra fjölskyldu í Pakistan. Þau hafi óttast um líf sitt við endurkomu til Pakistan þar sem þau hafi ekki gert eins og fyrir þau hafi verið lagt. Var framburður kæranda og A talinn ótrúverðugur einkum í ljósi innra ósamræmis hvað varðaði meintan föður kæranda og A sem og hvað varðaði tengsl A við hryðjuverkastamtök í Pakistan. Þá þóttu framlögð gögn ekki styðja við þann framburð. Niðurstaða sænskra stjórnvalda, dags. 4. júní 2015, var sú að synja umsóknum kæranda og A um alþjóðlega vernd og mannúðarleyfi í Svíþjóð og vísa þeim úr landi. Í upplýsingum til kærunefndar 1. nóvember 2022 greindi kærandi frá því að hún hefði farið til Pakistan 6. júlí 2018.

Í ljósi þess að í vegabréfi því sem kærandi lagði fram við komuna hingað til lands var skráður fæðingardagur hennar [...], sem stangaðist á við skráðan aldur hennar í Svíþjóð, taldi Útlendingastofnun ástæðu til þess að senda kæranda í aldursgreiningu, sbr. 113. gr. laga um útlendinga. Undirgekkst kærandi þá rannsókn 21. september 2018 og var niðurstaða hennar sú að kærandi væri eldri en 18 ára. Kærandi var í kjölfarið boðuð í viðtal hjá Útlendingastofnun, hinn 21. nóvember 2018, þar sem farið var yfir niðurstöðu aldursgreiningarinnar og hún jafnframt spurð út í misræmi á uppgefnum fæðingardegi sínum hér á landi og í Svíþjóð. Sagði hún „agent“ sem hafi flutt hana ásamt öðrum einstaklingum til Svíþjóðar hafa sagt henni hvaða dagsetningar hún ætti að gefa upp, annars myndu þau verða send aftur til baka. Í ljósi þess að einstaklingar sem kærandi kveður vera kjörforeldra sína höfðu lagt inn umsókn hér á landi óskaði kærandi eftir sameiningu mála þeirra 6. desember 2018. Voru í kjölfarið lögð fram gögn til þess að sýna fram á tengslin, m.a. fjölskylduvottorð frá gagnagrunninum NADRA. Af þessum sökum þótti ástæða til að fá kæranda á ný til viðtals hjá Útlendingastofnun. Kærandi mætti í viðtal 21. janúar 2019 þar sem hún var meðal annars spurð út í misræmi á milli frásagnar sinnar hjá íslenskum stjórnvöldum og frásagnar sinnar fyrir sænskum stjórnvöldum. Kvaðst kærandi aðeins hafa fylgt fyrirmælum þess aðila sem hafi komið henni til Svíþjóðar og því ekki sagt sannleikann í viðtölum hjá sænskum stjórnvöldum. Þegar kærandi var innt eftir því í viðtalinu af hverju hún hafi ekki greint frá því að hún ætti fjölskyldu, þ.e. meinta kjörforeldra og kjörbróður við komuna hingað til lands, sagði hún að hún hafi viljað byrja alveg nýtt líf og vildi ekki hafa neina tengingu við fólk frá Pakistan, þau hafi ekki verið til staðar þá en væru það nú. Þegar kærandi var beðin að útskýra fjölskylduaðstæður sínar í Pakistan nánar, s.s. hve gömul móðir hennar hafi verið þegar hún hafi verið með B, hvenær þau hafi skilið og hvenær B hafi ættleitt hana voru svör hennar óljós og bar hún fyrir sig ungan aldur sinn og að vita lítið um móður sína annað en það sem henni hafi verið sagt. Þá var kærandi spurð að því hvort hún hafi einhvern tímann komið til Ítalíu en hún neitaði því. Eins gat kærandi litlar upplýsingar gefið um meinta kjörforeldra sína, s.s. aldur þeirra eða hvenær þau hafi gengið í hjónaband. Með ákvörðun sinni, dags. 23. apríl 2019, synjaði Útlendingastofnun því að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar og vísaði kæranda frá landinu. Líkt og að framan er rakið kærði kærandi þá ákvörðun til kærunefndar og byggði meðal annars á því að mat Útlendingastofnunar á aldri hennar tæki einungis mið af niðurstöðu aldursgreiningar og upplýsingum frá sænskum stjórnvöldum um aldur hennar. Gerði kærandi athugasemd við það að Útlendingastofnun hafi litið fram hjá andmælum hennar og framlögðum skilríkjum, svo sem pakistönsku vegabréfi sem hafi verið metið ófalsað. Með úrskurði kærunefndar nr. 330/2019, dags. 6. júlí 2019, staðfesti nefndin mat Útlendingastofnunar þess efnis að kærandi væri eldri en 18 ára gömul. Var það mat kærunefndar að þegar litið væri með heildstæðum hætti til gagna málsins, þar á meðal misvísandi framburðar kæranda um aldur sinn, aldursgreiningar, upplýsinga frá sænskum stjórnvöldum, andmæla kæranda og framlagðra gagna væru ekki forsendur til annars en að leggja til grundvallar að kærandi væri eldri en 18 ára. Þá var það mat kærunefndar að ekki yrði talið að vafi léki á aldri kæranda í skilningi 2. málsl. 1. mgr. 113. gr. laga um útlendinga, þar af leiðandi félli mál kæranda ekki undir 4. mgr. 8. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar.

Líkt og að framan er rakið tók Útlendingastofnun umsókn kæranda til efnismeðferðar í kjölfar dóms Landsréttar 8. apríl 2022. Kærandi mætti í efnismeðferðarviðtal hjá Útlendingastofnun 8. júlí 2022, tæpu tveimur og hálfu ári frá því að hún mætti síðast til viðtals hjá stofnuninni eða þann 9. janúar 2019. Áður en efnismeðferðarviðtal við kæranda hófst voru henni kynntar leiðbeiningar um framkvæmd viðtalsins, til hvers væri ætlast af kæranda og hvaða afleiðingar það gæti haft gæfi hún upp rangar upplýsingar eða leyndi upplýsingum sem þýðingu hefðu fyrir mál hennar. Kærandi kvaðst skilja leiðbeiningar Útlendingastofnunar. Aðspurð um hvar hún hefði búið og hjá hverjum, áður en hún hafi yfirgefið Pakistan, kvaðst hún ekki vilja svara. Aðspurð um hvort hún ætti fjölskyldu í Pakistan kvaðst kærandi ekki vilja svara. Þá svaraði kærandi því neitandi hvort hún vildi bæta við einhverju við frásögn sína um ástæðu fyrir flótta. Aðspurð um hvað hún teldi að myndi gerast sneri hún til baka til heimaríkis og hvort hún væri hrædd við einhvern þar vísaði kærandi til þess að því hefði þegar verið svarað. Kærandi var þá meðal annars spurð að því hvort hún gæti séð fyrir sér í heimaríki, hvernig félagslegar aðstæður hennar yrðu þar og hvort hún ætti fjölskyldu þar. Svör kæranda við framangreindum spurningum voru þau að hún vildi ekki svara. Í sama viðtali greindi Útlendingastofnun kæranda frá því að stofnunin hefði ástæðu til að telja að framlagt fæðingarvottorð hennar væri falsað og spurði hana hvort hún vildi tjá sig eitthvað um það. Kærandi svaraði neitandi.

Hinn 16. nóvember 2022 sendi kærunefnd fyrirspurn á talsmann kæranda og óskaði eftir svörum og upplýsingum frá henni. Hinn 18. nóvember 2022 bárust kærunefnd athugasemdir og svör frá kæranda við spurningum kærunefndar.

Í fyrirspurn kærunefndar vísaði nefndin til þess að í viðtali hjá Útlendingastofnun 9. janúar 2019 hafi kærandi greint frá því að hafa verið fædd og uppalin í [...] í Pakistan. Kærandi hafi búið þar að mestu en hafi búið í stuttan tíma hjá frænku sinni í [...] áður en hún hafi yfirgefið heimaríki. Þá hafi kærandi í viðtali hjá Útlendingastofnun 8. júlí 2022 svarað því aðspurð að vera fædd og uppalin í [...]. Kærunefnd óskaði eftir skýringum kæranda á framangreindu misræmi. Í svari kæranda við þeirri spurningu kvaðst kærandi hafa verið fædd í [...] líkt og fram kæmi í vegabréfi hennar. Kærandi hafi búið bæði í [...] og [...]. Þá óskaði kærunefnd í fyrirspurn sinni eftir frekari upplýsingum um blóðfjölskyldu kæranda og fjölskylduaðstæður í Pakistan. Kærandi kvaðst ekki geta gefið neinar upplýsingar um blóðforeldra sína þar sem hún hafi verið aðeins [...] ára þegar B hafi kvænst móður hennar og sjálfkrafa ættleitt kæranda. Þá kvaðst kærandi ekkert vita um aðra meðlimi blóðfjölskyldu fyrir utan frænku sína en hún hafi týnt upplýsingum um hana þegar hún hafi snúið til Evrópu í seinna skiptið.

Jafnframt óskaði kærunefnd eftir frekari upplýsingum frá kæranda um atburðarás í kringum ættleiðingu B á kæranda. Kærandi kvaðst hafa verið ættleitt sjálfkrafa af B þegar hann hafi kvænst móður hennar árið 2006. Þá vísaði kærunefnd til þess í fyrirspurninni að í viðtali hjá Útlendingastofnun 14. desember 2017 hafi A greint frá því að þegar hann hafi yfirgefið Pakistan hafi ókunnugur maður útbúið ferðagögn fyrir hann og skipulagt brottför. Hafi þessi maður farið með A og 3 aðra einstaklinga til Ítalíu. Í hópnum hafi verið stúlkur á aldrinum 12 til 16 ára. Þetta ferðalag hafi verið að haustlagi árið 2013 og hafi A verið látinn vinna á Ítalíu í einhvern tíma en síðar farið til Svíþjóðar. Í viðtali hjá Útlendingastofnun 21. nóvember 2018 hafi kærandi hins vegar greint frá því að þegar hún hafi yfirgefið Pakistan árið 2013 hafi hún farið til Tyrklands ásamt „agentinum“, annarri stelpu og stráki sem væri stjúpbróðir hennar. Frá Tyrklandi hafi þau svo farið til Stokkhólms. Þá hafi kærandi í viðtali hjá Útlendingastofnun 9. janúar 2019 endurtekið framangreinda frásögn, þ.e. að hún, A og tveir aðrir hafi hitt „agentinn“ á flugvelli og farið til Tyrklands, verið þar í smá tíma og farið svo beint til Svíþjóðar. Þá hafi C greint frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun að hún hafi yfirgefið Pakistan þrem dögum eftir kæranda og A og hafi einnig farið til Svíþjóðar. Kærunefnd óskaði eftir svörum við því hvers vegna kærandi, A og C hefðu þurft aðstoð agents/vinar B við að afla vegabréfa og áritana ef þau gátu fengið þessi gögn eftir löglegum leiðum og hvers vegna þau hafi ekki flogið til Ítalíu til þess að sameinast B þar. Jafnframt óskaði kærunefnd eftir skýringum frá kæranda á misræmi milli frásagnar hennar og A um ferðalag þeirra frá Pakistan til Svíþjóðar haustið 2013. Í svörum sínum til kærunefndar 18. nóvember 2022 gaf kærandi engar skýringar á misræmi milli frásagna hennar og A um ferðalag til Svíþjóðar árið 2013. Þá neitaði hún að gefa nokkur svör er vörðuðu misræmi á milli frásagna kæranda og A, B og C fyrir íslenskum stjórnvöldum eða upplýsingar í tengslum við fyrirspurnir kærunefndar er þá aðila varðaði. Þá vísaði kærunefnd í fyrirspurn sinni til þess að í gögnum máls kæranda og A frá sænskum stjórnvöldum væru annars vegar ljósmyndir af nafnskírteini konu og manns, sem þau kváðu vera foreldra sína, og hins vegar starfsmannaskírteini manns með kenninúmerið NIC nr.: [...] (Identity Card Office of the Political Agent Khyber Agency), og að í gögnum máls B væri að finna sömu ljósmyndir. Óskaði kærunefnd eftir því að kærandi gæfi skýringar á því hvers vegna ljósmyndir af foreldrum B voru lagðar til stuðnings málatilbúnaði þeirra í Svíþjóð. Kærandi gaf óljós svör við þeirri spurningu en vísaði til þess að hún hafi verið ung þegar hún hafi sótt um vernd í Svíþjóð og hún hafi gert það sem henni var sagt.

Auk þess vísaði kærunefnd til þess að kærandi hefði í svörum kæranda til kærunefndar 1. nóvember 2022 kvaðst hafa notað „European red passport“ til að komast til Evrópu í júlí/ágúst 2018. Var kærandi spurð að því hvaða evrópska vegabréf það væri og hvaða ríki hefði gefið það út. Kærandi kvaðst ekki muna hvaða ríki hafi gefið út það vegabréf.

Af framangreindu er ljóst að misræmi hefur verið í frásögn kæranda af ástæðum flótta frá heimaríki og fjölskylduaðstæðum hennar á milli viðtala sinna hér á landi og hjá sænskum stjórnvöldum. Þá stangast frásögn kæranda að umtalsverðu leyti á við frásögn meintra fjölskyldumeðlima hennar sem hafa einnig sótt um alþjóðlega vernd hér á landi, þ.e. A, B og C. Svo sem um tengsl þeirra, aðdraganda flótta þeirra frá heimaríki, ferðaleið þeirra til Evrópu og dvöl kæranda, A og C í Svíþjóð. Þá hefur kærandi ekki lagt fram gögn sem eru til þess fallin að styðja við frásögn hennar af ástæðum flótta frá heimaríki eða fjölskylduaðstæður sínar þar. Kærandi greindi frá því í upplýsingum til kærunefndar 1. nóvember 2022 að hún hefði farið til Pakistan í júlí 2018 og snúið til baka til Evrópu í ágúst sama ár. Þar sem kærandi snéri aftur til heimaríkis eftir að hafa upphaflega yfirgefið landið og dvalið í fimm ár í Svíþjóð telur kærunefnd ekki ósanngjarnt að gera þá kröfu til kæranda að hún legði frekari grunn að málsástæðum sínum með trúverðugum gögnum. Að mati kærunefndar voru svör og upplýsingar frá kæranda sem bárust kærunefnd 18. nóvember 2022 ekki til þess fallin að draga úr framangreindu misræmi eða byggja undir trúverðugleika frásagnar kæranda af ástæðu flótta hennar frá heimaríki og aðstæðum hennar í heimaríki.

Það er mat kærunefndar að af framangreindu sé ljóst að kærandi hefur ekki sýnt fullan samstarfsvilja með yfirvöldum til þess að varpa ljósi á staðreyndir máls síns, leitast við að styðja framburð sinn tiltækum gögnum eða veita fullnægjandi skýringar á því að upplýsingar liggi ekki fyrir. Það er því mat kærunefndar að framangreint misræmi í frásögn kæranda og skortur á haldbærum gögnum til stuðnings málatilbúnaði hennar leiði til þess, heildstætt metið, að frásögn hennar af atburðum og ástæðum flótta sé ótrúverðug. Það er einnig mat kærunefndar að fyrri villandi upplýsingagjöf kæranda til stjórnvalda dragi enn frekar úr trúverðugleika frásagnar hennar. Þó svo að líta megi til þeirra útskýringa kæranda að misræmi í frásögn hennar sem lýst er að framan kunni að vera til komið vegna ungs aldurs hennar og vegna hótana frá einstaklingi sem hún hafi óttast í Svíþjóð telur kærunefnd að það geti aðeins útskýrt hluta þess innra misræmis sem frásögn kæranda einkennist af. Í ljósi þess verður ekki komist hjá því að telja framburð kæranda ótrúverðugan að verulegu eða öllu leyti og verður því ekki byggt á honum í þessu máli. Verður aðeins byggt á því að kærandi sé ung kona með pakistanskt ríkisfang, af Pastún þjóðarbrotinu og að hún hafi búið í Khyber Pakhtunkhwa á einhverjum tímapunkti, en óljóst er hvar kærandi bjó áður en hún yfirgaf heimaríki sitt.

Í greinargerð er byggt á því að kærandi eigi á hættu ofsóknir í heimaríki þar sem hún sé kona og tilheyri Pastún þjóðarbrotinu. Líkt og að framan er rakið dregur kærunefnd það ekki í efa að kærandi tilheyri Pastún þjóðarbrotinu. Kærandi hefur hins vegar ekki borið fyrir sig að hafa orðið fyrir vanvirðandi meðferð eða ofsóknum af þeim sökum. Þá er ljóst að kærunefnd telur ekki trúverðuga frásögn kæranda af nauðungarhjónabandi eða að hún eigi ekki fjölskyldu í heimaríki sem geti stutt hana. Þau gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér gefa til kynna að konur í Pakistan geti sætt mismunun á grundvelli kyns og talist til sérstaks þjóðfélagshóps í skilningi 38. gr. laga um útlendinga. Umrædd gögn bera hins vegar ekki með sér að sú mismunun nái því alvarleikastigi að geta talist ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laganna. Þá kemur fram í gögnunum að lög landsins miði að því að vernda rétt kvenna og úrbætur hafi orðið á lagaumhverfi um réttarstöðu kvenna síðastliðin ár. Verður því ekki fallist á að kærandi hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í heimaríki á grundvelli kyns síns. Þá benda framangreindar landaupplýsingar ekki til þess að þeir sem tilheyri Pastún þjóðarbrotinu eigi á hættu mismunun eða áreiti sem nái því alvarleikastigi að fela í sér ofsóknir eða ómannúðlega eða vanvirðandi meðferð í skilningi 1. mgr. 37. gr., sbr. 1. og 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga.

Kærandi hefur ekki borið fyrir sig að hún hafi sætt ofsóknum eða að hún óttist ofsóknir af hálfu stjórnvalda í heimaríki sem hafa eða gætu náð því alvarleikastigi sem 1. mgr. 38. gr. laganna mælir fyrir um. Þá benda önnur gögn málsins ekki til þess að slíkar ofsóknir hafi átt sér stað eða að kærandi eigi þær á hættu. Verður því ekki lagt til grundvallar að kærandi hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir af hálfu stjórnvalda vegna uppruna síns. Þá er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi ástæðu til að óttast ofsóknir í heimaríki hennar af öðrum ástæðum.

Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hún hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.

Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Við mat á hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).

Þrátt fyrir átök í Khyber Pakhtunkhwa undanfarin ár, héraði sem kærandi kveður vera heimahérað sitt, er það mat kærunefndar að þau gögn og heimildir sem kærunefnd hefur yfirfarið við meðferð málsins bendi ekki til þess að aðstæður í héraðinu séu slíkar að kærandi eigi á hættu meðferð sem brjóti í bága við 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Það er því mat kærunefndar að kærandi eigi ekki á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu í Pakistan eða verða fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka.

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hennar þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Kærandi ber fyrir sig ótryggt öryggisástand í heimaríki. Þá telur kærandi að hún geti ekki treyst á vernd yfirvalda í heimaríki vegna þess hættuástands sem ríki í Pakistan og vegna stöðu sinnar sem einstaklingur af Pastún þjóðarbrotinu. Þá hafi monsúnrigningar valdið miklum skaða í heimahéraði kæranda og ástandið þar sé hörmulegt. Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga kemur fram að ákvæði 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga vísi einnig til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrota í ríkinu eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Með vísan til umfjöllunar um trúverðugleika kæranda og aðstæður í heimaríki telur kærunefnd að aðstæður kæranda séu ekki slíkar að grundvöllur sé til veitingar dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

Í greinargerð er byggt á því að kærandi hafi ríka þörf fyrir vernd vegna erfiðra félagslegra aðstæðna hennar í Pakistan sem kona af Pastún þjóðerni. Vegna þeirrar stöðu geti kærandi átt á hættu að verða útilokuð frá vinnumarkaði. Þá hefur kærandi byggt á því að hún sé án trausts baklands í Pakistan.

Í athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga er fjallað um erfiðar félagslegar aðstæður. Þar kemur fram að átt sé við að útlendingur hafi þörf á vernd vegna félagslegra aðstæðna í heimaríki og eru þar nefnd sem dæmi aðstæður kvenna sem hafa sætt kynferðislegu ofbeldi, sem leitt getur til erfiðrar stöðu þeirra í heimaríki, eða aðstæður kvenna sem ekki fella sig við kynhlutverk sem er hefðbundið í heimaríki þeirra og eiga á hættu útskúfun eða ofbeldi við endurkomu. Verndarþörf þjóðfélagshópa að öðru leyti myndi fara eftir aðstæðum í hverju máli. Líkt og að framan greinir þá er staða kvenna í heimaríki kæranda bág og séu konur og stúlkur í hættu á að sæta kynbundnu ofbeldi bæði innan og utan veggja heimilisins. Þá séu barna- og nauðungarhjónabönd algeng en þau eigi sér þó helst stað á strjálbýlli svæðum og meðal ákveðinna þjóðernishópa. Kærandi er ung og almennt heilsuhraust kona sem hefur hlotið menntun í heimaríki, Svíþjóð og hér á landi. Í svari frá kæranda 27. október 2022 við fyrirspurn kærunefndar kvaðst kærandi hafa farið aftur til Pakistan í júlí 2018 og dvalið hjá frænku sinni. Verður því talið að kærandi geti unnið og séð sér farborða í heimaríki og þá eigi hún bakland í heimaríki. Að framangreindu virtu og með vísan til framangreinds trúverðugleikamats og umfjöllunar um stöðu kvenna og aðila af Pastún þjóðarbrotinu er það mat kærunefndar að félagslegar aðstæður kæranda við endurkomu til heimaríkis séu ekki með þeim hætti að þær teljist erfiðar í skilningi 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Í viðtali hjá Útlendingastofnun 8. júlí 2022 kvað kærandi líkamlega heilsu sína ekki vera góða en hún hafi þjáðst mikið vegna ákvarðana stofnunarinnar. Kærandi kvaðst ekki hafa aðgang að lyfjum. Þá væri andleg heilsa hennar slæm vegna þess að hún hefði verið flutt í burtu frá fjölskyldu sinni gegn sínum vilja. Kærandi kvaðst ekki vera í meðferð hjá lækni eða sálfræðingi. Kærandi lagði engin heilsufarsgögn fram til kærunefndar og þá var ekki byggt á heilsufari í greinargerð kæranda. Af framlögðum gögnum verður ekki ráðið að kærandi glími við skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm eða sé í meðferð sem óforsvaranlegt sé að rjúfa. Þá kemur fram í gögnum um heimaríki kæranda, líkt og að framan er rakið, að ríkisborgurum sé tryggð endurgjaldslaus heilbrigðisþjónusta í Pakistan. Þá sé jafnframt aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu í landinu, þar á meðal í Khyber Pakhtunkhwa héraðinu.

Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hún teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem sótt hefur um alþjóðlega vernd og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða eftir að hann sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt ákvæðinu, að því tilskildu að skorið hafi verið úr um að hann uppfylli ekki skilyrði 38. gr. og 39. gr. laganna. Frekari skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis í þeim tilvikum koma fram í a- til d-lið 2. mgr. 74. gr. laganna en þau er að tekin hafin hafi verið skýrsla af umsækjanda um alþjóðlega vernd, ekki leiki vafi á því hver umsækjandi er, ekki liggi fyrir ástæður sem geta leitt til brottvísunar umsækjanda og að útlendingur hafi veitt upplýsingar og aðstoð við úrlausn máls.

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd 6. ágúst 2018. Kærandi hefur ekki enn fengið niðurstöðu í máli sínu hjá kærunefnd útlendingamála. Frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þar til úrskurður þessi er kveðinn upp, dags. 10. nóvember 2022, eru liðin fjögur ár og þrír mánuðir. Kærandi telst því ekki hafa fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan þeirra tímamarka sem getið er í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Líkt og að framan er rakið er það mat kærunefndar að auðkenni kæranda sé ekki upplýst. Þar af leiðandi er skilyrði b-liðar 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga ekki uppfyllt.

Samkvæmt d-lið 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verður dvalarleyfi samkvæmt málsgreininni ekki veitt nema kærandi hafi veitt upplýsingar og aðstoð við úrlausn málsins. Uppruna þessa reglu má rekja til athugasemda við 11. gr. frumvarps til eldri laga um útlendinga nr. 96/2002 sem með lögum nr. 86/2008 varð að 12. gr. g laga um útlendinga nr. 86/2002. Ákvæðið fjallar um bráðabirgðadvalarleyfi og er, að því leyti sem máli skiptir hér, sambærilegt 77. gr. núgildandi laga um útlendinga nr. 80/2016. Í athugasemdum við 2. mgr. 74. gr. frumvarps til laga um útlendinga nr. 80/2016 er einnig vísað til athugasemda við 77. gr. frumvarpsins. Í þeim athugasemdum kemur fram að ákvæðið taki til þess þegar um almennan skort á samvinnu sé að ræða, t.d. þegar kærandi neitar að skýra frá heimaríki sínu. Athugasemdir við frumvarpið veita ekki frekari leiðbeiningu um túlkun ákvæðisins. Þó svo að ákvæði d-liðar 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga áskilji ekki samkvæmt orðanna hljóðan að þær upplýsingar sem umsækjanda ber að veita þurfi að vera sannleikanum samkvæmar verður ekki annað skilið af tilgangi ákvæðisins og þeim forsendum sem búa að baki dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga að slíkt dvalarleyfi verði ekki veitt nema þær upplýsingar og aðstoð sem d-liður 2. mgr. vísar til séu veittar í góðri trú. Þá sé skilyrðið ekki uppfyllt ef frásögn umsækjanda um aðstæður sínar og ástæður umsóknar um vernd hér á landi teljist ótrúverðug að verulegu leyti.

Að virtu framangreindu trúverðugleikamati á frásögn kæranda og skorts á vilja kæranda í viðtali hjá Útlendingastofnun, dags. 8. júlí 2022, til þess að upplýsa um ástæður flótta síns frá heimaríki og aðstæður í heimaríki er ljóst að kærandi hefur ekki veitt aðstoð við úrlausn málsins. Skilyrði d-liðar 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er því enn fremur ekki uppfyllt.

Að mati kærunefndar eru skilyrði b- og d-liðar 2. mgr. 74. gr. því ekki uppfyllt og verður henni ekki veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 2. mgr. 74. gr. laganna.

Samkvæmt 4. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að víkja frá ákvæðum 3. mgr. greinarinnar en þar eru raktar nokkrar ástæður sem gætu útilokað veitingu dvalarleyfis á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laganna. Engin heimild er til að víkja frá skilyrðum 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Kærunefnd telur því ljóst að þar sem kærandi uppfylli ekki öll skilyrði 2. mgr. 74. gr. laganna sé ekki heimilt að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga með vísan til þess tíma sem mál hans hefur tekið.

Bann við endursendingu samkvæmt 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr. laganna, eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Í 5. mgr. 104. gr. laga um útlendinga, þar sem fjallað er um framkvæmd ákvörðunar, kemur fram að ef útlendingur hefur gilda heimild til dvalar í öðru EES- eða EFTA-ríki skuli hann fluttur þangað. Við meðferð málsins framvísaði kærandi ítölsku dvalarleyfisskírteini með gildistíma til 10. mars 2024. Kærandi er því handhafi gilds dvalarleyfis í landinu og bera heimildir með sér að hún geti endurnýjað það að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Að framangreindu virtu telur kærunefnd rétt að taka sérstaka afstöðu til þess hvort ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi í vegi fyrir því að kærandi verði flutt til Ítalíu.

Við mat á aðstæðum á Ítalíu hefur kærunefnd tekið mið af þeim upplýsingum sem liggja fyrir um Ítalíu og skoðaðar hafa verið vegna fyrri úrskurða kærunefndar í tengslum við endursendingar einstaklinga til Ítalíu. Meðal þeirra skýrslna sem kærunefnd hefur kynnt sér sérstaklega eru: Asylum Information Database. Country Report – Italy (European Council on Refugees and Exiles, 20. maí 2022); Amnesty International Report 2021/22 - Italy (Amnesty International, 29. mars 2022) og Italy 2021 Human Rights Report (U.S. Department of State, 12. apríl 2022).

Með vísan til upplýsinga sem áður hefur verið tekin afstaða til og nýlegra heimilda um aðstæður einstaklinga sem hafa heimild til dvalar á Ítalíu, svo sem rakið er í úrskurði kærunefndar nr. 342/2022 frá 7. september 2022, er það niðurstaða nefndarinnar að 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda til Ítalíu.

Athugasemdir kæranda við málsmeðferð Útlendingastofnunar

Í greinargerð kæranda eru gerðar athugasemdir við mat Útlendingastofnunar á auðkenni hennar og við mat stofnunarinnar á trúverðugleika hennar og mati á niðurstöðum aldursgreiningar og vægi sem því hafi verið gefið í mati  á trúverðugleika kæranda.

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því og afla í því skyni nauðsynlegra upplýsinga.

Kærunefnd hefur farið yfir málsmeðferð Útlendingastofnunar og gögn málsins og komist að sömu niðurstöðu og stofnunin. Að framangreindu virtu er mat kærunefndar að málsmeðferð Útlendingastofnunar í máli kæranda hafi verið í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Kærandi kom hingað til lands 2. ágúst 2018 og sótti um alþjóðlega vernd 6. ágúst 2018. Eins og að framan greinir hefur umsókn hennar um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hún því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hennar um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 43. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafði hún verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærandi er almennt við ágæta heilsu en glímir þó að eigin sögn við streitu. Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 15 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að samkvæmt 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.


 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 15 days to leave the country voluntarily.

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

Sindri M. Stephensen                                                                   Þorbjörg I. Jónsdóttir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira