Hoppa yfir valmynd

1147/2023. Úrskurður frá 26. júlí 2023.


Hinn 26. júlí 2023 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1147/2023 í máli ÚNU 23050011.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 30. maí 2023, kærði A, ritstjóri Austurfréttar, synjun dómsmálaráðuneytisins á beiðni um aðgang að gögnum.

Með erindi, dags. 23 maí 2023, óskaði kærandi eftir afriti af minnisblaði um jarðgöng á Austfjörðum sem vísað væri til í frétt Morgunblaðsins hinn sama dag. Dómsmálaráðuneyti synjaði beiðni kæranda með tölvupósti samdægurs, með vísan til þess að samkvæmt 6. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 væru minnisblöð sem útbúin eru fyrir ríkisstjórnarfundi undanþegin upplýsingarétti. Þegar stjórnvöld synji beiðni um aðgang samkvæmt þeirri grein bæri ráðuneytinu að taka afstöðu til þess hvort veita eigi aðgang í ríkari mæli en aðgangur yrði ekki veittur í þessu tilfelli.

Með erindi, dags. 25. maí 2023, óskaði kærandi eftir rökstuðningi á synjun á umræddu minnisblaði. Það byggði meðal annars á skilningi kæranda á að þegar minnisblað færi frá einu stjórnvaldi, í þessu tilfelli Almannavörum, til annars, dómsmálaráðuneytisins, þá yrði það opinbert. Annar kostur væri að afhenda minnisblaðið þegar afmáðar hefðu verið einstakar upplýsingar sem varði persónur, fjármuni á samkeppnisgrundvelli eða beinlínis þjóðaröryggi. Í svari ráðuneytisins samdægurs, var áréttað að umrætt minnisblað teldist til gagna sem tekin væru saman fyrir fund ríkisstjórnar og væru því undanþegin upplýsingarétti, sbr. 1. tölul. 6. gr. upplýsingalaga. Hvað varðaði vinnugögn samkvæmt 5. tölul. 6. gr. upplýsingalaga sem færu frá einu stjórnvaldi til annars, hætti þau að njóta verndar sem vinnugögn en skilgreining á vinnugagni byggðist á 5. tölul. 6. gr., sbr. 8. gr. upplýsingalaga og næði því ekki til minnisblaðs fyrir ríkisstjórn, sbr. 1. tölul. 6. gr. laganna. Að mati ráðuneytisins væri ekki hægt að beita undanþáguákvæði 1. mgr. 8. gr. um vinnugögn þegar umrætt gagn væri minnisblað fyrir ríkisstjórn sem er sérstaklega talið upp í 1. tölul. 6. gr. í hliðstæðri upptalningu við vinnugögn í skilgreiningu 5. tölul. 6. gr. upplýsingalaga.

Í kæru kemur fram að kærandi fari fram á það við úrskurðarnefnd um upplýsingamál að nefndin leggi mat á það hvort minnisblaðið falli undir 1. tölul. 6. gr. upplýsingalaga. Kærandi hafi í samskiptum við ráðuneytið vísað til þess að hann teldi að um væri að ræða álit Almannavarna um samgöngumál á Austurlandi fyrir dómsmálaráðuneytið.

Málsmeðferð

Kæran var kynnt dómsmálaráðuneytinu með erindi, dags. 31. maí 2023, og ráðuneytinu veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um kæruna. Jafnframt var þess óskað að ráðuneytið léti úrskurðarnefnd um upplýsingamál í té afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að.

Í umsögn ráðuneytisins, dags. 8. júní 2023, er vísað til þess að synjunin sé byggð á ákvæði 1. tölul. 6. gr. upplýsingalaga en þau gögn sem þar er lýst séu undanþegin upplýsingarétti almennings. Um sé að ræða minnisblað sem útbúið var sérstaklega fyrir ríkisstjórnarfund. Ekki sé skylt að taka afstöðu til aukins aðgangs að gagninu á grundvelli 2. mgr. 11. gr. upplýsingalaga, en það hafi engu að síður verið gert í synjun ráðuneytisins, dags. 23. maí 2023.

Umsögn ráðuneytisins var kynnt kæranda með bréfi, dags. 13. júní 2023, og honum veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki.

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að minnisblaði dómsmálaráðherra sem lagt var fyrir á ríkisstjórnarfundi hinn 19. maí 2023, um sjónarmið Almannavarna um samgöngumál á Austfjörðum. Ráðuneytið synjaði beiðninni með vísan til 1. tölul. 6. gr. upplýsingalaga.

Samkvæmt 1. tölul. 6. gr. upplýsingalaga nær réttur almennings til aðgangs að gögnum ekki til fundargerða ríkisráðs og ríkistjórnar, minnisgreina á ráðherrafundum og gagna sem tekin hafa verið saman fyrir slíka fundi. Í athugasemdum við 6. gr. í frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum nr. 140/2012 segir:

Undanþágan gildir um öll gögn sem undirbúin eru fyrir fundi þar sem saman koma tveir ráðherrar eða fleiri hvort heldur er á formlegum ríkisstjórnarfundi eða við aðrar óformlegri aðstæður. Mikilvægir almannahagsmunir búa að baki því að stjórnvöldum sé gefið færi til stefnumótunar og undirbúnings mikilvægra ákvarðana, þar á meðal til að ræða leiðir í því efni sem ekki eru fallnar til vinsælda og til að höndla með viðkvæmar upplýsingar. Þrátt fyrir að einnig búi ríkir almannahagsmunir að baki því sjónarmiði að starfsemi stjórnvalda sé gegnsæ og opin verður á sama tíma að tryggja möguleika stjórnvalda til leyndar í því skyni að varðveita hagsmuni ríkisins og almennings.

Framangreint minnisblað til ríkisstjórnar Íslands ber það skýrlega með sér að hafa verið lagt fyrir ráðherrafund. Samkvæmt skýru orðalagi 1. tölul. 6. gr. upplýsingalaga er dómsmálaráðuneytinu því heimilt að synja kæranda um aðgang að gagninu óháð efni þess en það er mat ráðuneytisins að ekki sé ástæða til að veita kæranda aðgang að umbeðnu gagni í ríkari mæli en skylt er samkvæmt upplýsingalögum, sbr. 11. gr. upplýsingalaga.

Úrskurðarorð

Staðfest er ákvörðun dómsmálaráðuneytisins, dags. 23. maí 2023, um að synja beiðni kæranda, A, um aðgang að minnisblaði til ríkisstjórnar, dags. 19. maí 2023, um sjónarmið Almannavarna um samgöngumál á Austfjörðum.


Hafsteinn Þór Hauksson, formaður
Kjartan Bjarni Björgvinsson
Sigríður Árnadóttir

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum