Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 421/2020 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 421/2020

Miðvikudaginn 23. júní 2021

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Anna Rut Kristjánsdóttir lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 2. september 2020, kærði B félagsráðgjafi, f.h. A til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 3. júní 2020 þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með umsókn 20. febrúar 2020. Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 3. júní 2020, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að hann uppfyllti ekki skilyrði staðals um örorkumat. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi fyrir ákvörðun stofnunarinnar þann 25. júní 2020 og var hann veittur með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 17. ágúst 2020. Vísað var til þess að kærandi ætti ekki rétt til örorkubóta á grundvelli búsetu. Kærandi hafi búið í C

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 2. september 2020. Með bréfi, dags. 9. september 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 4. nóvember 2020, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt umboðsmanni kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 6. nóvember 2020. Með bréfi, dags. 11. desember 2020, bárust athugasemdir frá umboðsmanni kæranda og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 14. desember 2020. Með bréfi, dags. 4. febrúar 2021, barst viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt umboðsmanni kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 8. febrúar 2021. Með bréfi, dags. 26. febrúar 2021, bárust athugasemdir frá umboðsmanni kæranda og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 1. mars 2021. Með bréfi, dags. 21. apríl 2021, barst viðbótargreinargerð frá Tryggingastofnun ríkisins og var hún kynnt umboðsmanni kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 23. apríl 2021. Með bréfi, dags. 14. maí 2021, bárust athugasemdir frá umboðsmanni kæranda og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 18. maí 2021. Með bréfi, dags. 9. júní 2021, barst viðbótargreinargerð frá Tryggingastofnun ríkisins og var hún kynnt umboðsmanni kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 10. júní 2021. Athugasemdir bárust frá umboðsmanni kæranda með bréfi, dags. 22. júní 2021, og voru þær sendar Tryggingastofnun til kynningar með bréfi, dagsettu sama dag. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 3. júní 2020, um að synja kæranda um örorkumat, örorkulífeyri og tengdar greiðslur verði felld úr gildi og lagt verði fyrir Tryggingastofnun ríkisins að taka nýja ákvörðun sem byggi á því að kærandi sé tryggður hér á landi samkvæmt 4. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

Kærandi hafi sótt um örorkumat með umsókn 20. febrúar 2020. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 3. júní 2020, hafi kæranda verið synjað um örorkumat á þeim forsendum að hann uppfylli ekki skilyrði staðals um örorkumat. Kærandi hafi sent inn beiðni um frekari rökstuðning 25. júní 2020. Kæranda hafi borist bréf með rökstuðningi, dags. 17. ágúst 2020, og í því bréfi komi fram að samkvæmt lögfræðingi Tryggingastofnunar eigi kærandi ekki rétt til örorkubóta á grundvelli búsetu. Kærandi hafi búið í C. Þetta sé ekki útskýrt eða rökstutt nánar.

Það gæti ósamræmis í þessum tveimur bréfum frá Tryggingastofnun. Kæranda sé upphaflega synjað um örorkumat á þeim forsendum að hann uppfylli ekki skilyrði staðals um örorkumat en þegar kærandi óski eftir rökstuðningi fái hann svar þess efnis að hann eigi ekki rétt á örorkubótum á grundvelli búsetu. Þetta sé óviðunandi rökstuðningur sökum þess að Tryggingastofnun rökstyðji ekki ákvörðun sína um að synja kæranda um örorkumat vegna staðals. Hvergi sé minnst á niðurstöðu örorkumats í rökstuðningi, dags. 17. ágúst 2020, sbr. staðal í reglugerð nr. 379/1999.

Til að eiga rétt á örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. laga um almannatryggingar þurfi umsækjandi að uppfylla eftirfarandi skilyrði; vera á aldrinum 18 til 67 ára, hafa verið búsettur á Íslandi að minnsta kosti þrjú síðustu árin áður en umsókn hafi verið lögð fram eða í sex mánuði ef starfsorka hafi verið óskert er umsækjandi hafi tekið hér búsetu og að vera metinn til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar.

Kæranda hafi verið synjað um örorkulífeyri með bréfi, dags. 2. júlí 2013, þar sem hann hafi ekki uppfyllt skilyrði um búsetu á þeim tíma. Í bréfinu sé ástæða synjunar sögð vera sú að kærandi þurfi að minnsta kosti eins árs búsetu á aldrinum 16 til 67 ára til að eiga rétt á örorkulífeyri almannatrygginga. Þetta sé staðfest í tölvupósti, dags. 4. júní 2014, en þar svari lögfræðingur alþjóðadeildar Tryggingastofnunar ríkisins fyrirspurn varðandi búsetuskilyrði fyrir örorkulífeyri. „Ef viðkomandi hefur haft búsetu á EES-svæðinu, [þ.á m.] Norðurlöndunum er gerð krafa um að a.m.k. eins árs búsetu hér á landi á aldursbilinu 18-67 ára.“ Hérna sé verið að beita svonefndri samlagningarreglu sem Tryggingastofnun beri einnig að beita í máli kæranda.

Kærandi hafi flutt lögheimili sitt frá C til Íslands x 2018 og hafði því búið á Íslandi í [...] þegar hann hafi sótt um örorkumat hjá Tryggingastofnun. Því sé ljóst að kærandi hafi verið búsettur í meira en ár á Íslandi frá 16 ára aldri þegar hann hafi sótt um örorkumat.

Í athugasemdum kæranda, dags. 11. desember 2020, kemur fram að kærandi sé x ára gamall ríkisborgari með lögheimili á Íslandi. Hann sé fæddur á Íslandi en hafi flutt x, 15 ára gamall, með fjölskyldu sinni til C þar sem hann hafi verið búsettur til x 2018 þegar hann hafi flutt lögheimili sitt til Íslands. Áður hafi kærandi reglulega heimsótt Ísland og unnið hér á landi ýmis sumarstörf. Kærandi hafi verið skráður með örorkumat í C í að minnsta kosti tíu ár og fái greiðslur vegna örorku frá C x C kr. á mánuði, um 123.000 íslenskar kr., sem sé langt undir framfærsluviðmiðum fyrir lífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun. Greiðslurnar, sem séu ótekjutengdar og óháðar vinnuframlagi, séugreiddar á grundvelli 33. kafla C almannatryggingalaga nr. 110/2010 og séu svokallaðar „sjúkrabætur“ til þeirra sem hafa stundað litla eða enga atvinnu í C. Þess megi geta að greiðslurnar eigi ekkert skylt við það sem á íslensku sé kallað sjúkrabætur, heldur sé þetta hið C heiti á greiðslum sem samsvari örorkulífeyri á Íslandi.

Kærandi hafi fyrst kannað rétt sinn til örorkulífeyris og tengdra greiðslna á Íslandi með umsókn, dags. 5. febrúar 2013. Í kjölfarið hafi kærandi fengið 75% örorkumat frá Tryggingastofnun með gildistíma frá 1. mars 2013 til 30. júní 2016. Umsókn hans um greiðslur örorkulífeyris hafi hins vegar verið synjað þar sem hann hafi ekki verið talinn uppfylla skilyrði um búsetu á Íslandi.

Um rétt til örorkulífeyris sé fjallað í 18. gr. laga um almannatryggingar. Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laganna skuli Tryggingastofnun ríkisins meta örorku þeirra sem sæki um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Á grundvelli ákvæðisins hafi ráðherra sett reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat. Í 1. mgr. reglugerðarinnar segi:

„Þeir sem metnir eru til a.m.k. 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar eiga rétt á örorkulífeyri, að öðrum skilyrðum uppfylltum. Heimilt er að greiða þeim sem metnir eru til 50-74% örorku örorkustyrk, að öðrum skilyrðum uppfylltum. Um önnur réttindi tengd örorku er nánar kveðið á í lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar, og lögum nr. 118/1993, um félagslega aðstoð.“

Samkvæmt almannatryggingalögum og reglugerð um örorkumat sé ljóst að Tryggingastofnun ríkisins sé skylt að meta örorku þeirra sem sæki um örorkulífeyri og tengdar greiðslur hér á landi. Sé örorka metin að minnsta kosti 75% sé staðfest að umsækjandi uppfylli læknisfræðileg skilyrði örorkulífeyris.

Samkvæmt fyrirliggjandi læknisvottorði sé vinnufærni kæranda engin vegna langvarandi sjúkdóms og því ljóst að kærandi uppfylli öll læknisfræðileg skilyrði 18. gr. laga um almannatryggingar. Kærandi hafi áður fengið þetta staðfest með örorkumati frá Tryggingastofnun árið 2013. Líkt og fram komi í greinargerð Tryggingastofnunar hafi á þeim tíma þótt óumdeilt að læknisfræðileg skilyrði örorkumats væru uppfyllt. Þess megi geta að þegar örorkumat hafi farið fram árið 2013 hafi kærandi aldrei haft fasta búsetu hér á landi. Þrátt fyrir það hafi hann verið talinn eiga fullan rétt á örorkumati frá Tryggingastofnun ríkisins í samræmi við ákvæði almannatryggingalaga. Ákvæði almannatryggingalaga um örorkumat hafi ekki tekið neinum efnislegum breytingum frá því að kærandi hafi fengið örorkumat árið 2013.

Örorkumat sé eitt af þeim skilyrðum sem skuli vera fyrir hendi þegar Tryggingastofnun meti hvort réttur til örorkulífeyris sé til staðar. Af lögum og reglugerðum verði ráðið að framkvæmd örorkumats annars vegar og ákvörðun um rétt til örorkulífeyris og fjárhæð hans hins vegar séu tvö aðskilin verkefni Tryggingastofnunar. Þrátt fyrir að einstaklingur fái örorkumat, og eftir atvikum staðfestingu á því að læknisfræðileg skilyrði örorkulífeyris séu uppfyllt, sé sú niðurstaða óháð því hvort viðkomandi teljist í kjölfarið eiga rétt á örorkulífeyri af öðrum ástæðum og hver upphæð hans verði.

Örorkumat sé þannig sjálfstætt skilyrði örorkulífeyris sem ávallt skuli fara fram þegar sótt sé um örorkulífeyri, sé ekki fyrir hendi gildandi örorkumat. Þetta hlutverk Tryggingastofnunar sé lögbundið og stofnuninni skylt að uppfylla lagaskyldu sína að þessu leyti. Að sama skapi sé búsetuskilyrði a-liðar 18. gr. almannatryggingalaga einnig sjálfstætt skilyrði örorkubóta og hafi einungis áhrif á rétt til greiðslna á grundvelli örorkumats.

Hvergi í almannatryggingalögum, eða annars staðar, sé búsetutími einstaklings forsenda fyrir rétti til örorkumats. Þá taki reglur EES-réttar ekki til réttar einstaklings til örorkumats í búsetulandi sínu. Um þann rétt fari eftir ákvæðum landsréttar búsetulandsins.

Óumdeilt sé að kærandi uppfylli skilyrði um búsetutíma hér á landi samkvæmt 18. gr. almannatryggingalaga. Það leiði af 6. gr. EB reglugerðar nr. 883/2004, sbr. einnig 2. mgr. 68. gr. laga um almannatryggingar, að kærandi geti nýtt sér tryggingatímabil frá öðru EES-ríki til að öðlast bótarétt hér á landi þótt hann fullnægi ekki lágmarsskilyrðum 18. gr. laga um almannatryggingar. Kærandi hafi áður verið búsettur í C, öðru EES-ríki, og því nægi kæranda að hafa verið búsettur hér á landi í eitt ár til að uppfylla búsetuskilyrðið samkvæmt 3. mgr. [7. gr.] reglugerðar nr. 463/1999. Kærandi hafi nú átt lögheimili hér á landi í rúmlega tvö og hálft ár.

Sé örorkumat kæranda yfir þeim viðmiðum sem sett séu í b-lið 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar sé þannig ljóst að hann uppfylli öll skilyrði ákvæðisins fyrir örorkulífeyri. Þessi sjónarmið hafi verið staðfest af úrskurðarnefnd almannatrygginga, en í úrskurði nefndarinnar í máli nr. 149/2011 hafi nefndin komist að þeirri niðurstöðu að þegar einstaklingur uppfyllir læknisfræðileg skilyrði örorku, er búsettur hér á landi og uppfyllir búsetuskilyrði, uppfylli hann skilyrði örorkulífeyris.

Þrátt fyrir framangreint kunni örorkulífeyrir kæranda vissulega að skerðast, til dæmis vegna búsetutíma samkvæmt 4. mgr. 18. gr. almannatryggingalaga eða vegna tekna samkvæmt 5. mgr. 18. gr. laganna. Hins vegar sé ljóst að kærandi hafi sérstaka og ríka hagsmuni af því að fá örorkumat og staðfestingu á að hann uppfylli læknisfræðileg skilyrði örorkulífeyris samkvæmt almannatryggingalögum.

Ýmis réttindi byggi á því að umsækjandi sé með örorkumat og staðfestan rétt til örorkulífeyris, þrátt fyrir að fjárhæðir skerðist síðan vegna búsetutíma eða tekna. Sem dæmi megi nefna ýmsa aðstoð samkvæmt lögum nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Kærandi hafi meðal annars lagt fram umsókn um endurhæfingarlífeyri 20. febrúar 2019 samkvæmt 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Þeirri umsókn hafi verið synjað með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 7. mars 2019.

Í 4. gr. laga um almannatryggingar komi fram hverjir séu tryggðir samkvæmt lögunum, en þar sé að finna eftirfarandi ákvæði:

„Sá sem búsettur er hér á landi, sbr. 5. tölul. 2. gr., telst tryggður að uppfylltum öðrum skilyrðum laga þessara nema annað leiði af milliríkjasamningum.

Tryggingavernd fellur niður þegar búseta er flutt frá Íslandi nema annað leiði af milliríkjasamningum eða ákvæðum þessa kafla.

Tryggingastofnun ákvarðar hvort einstaklingur telst tryggður hér á landi samkvæmt lögum þessum.“

Óumdeilt sé að kærandi sé með skráð lögheimili hér á landi og uppfylli skilyrði 18. gr. laganna um búsetutíma. Kærandi teljist því tryggður samkvæmt lögum um almannatryggingar, sbr. 4. gr. laganna, nema annað megi leiða af milliríkjasamningum.

Í greinargerð Tryggingastofnunar sé því haldið fram að kærandi sé tryggður á grundvelli lífeyrisgreiðslna frá öðru landi en búsetulandi sínu, Íslandi, og sé þar af leiðandi ekki að ávinna sér tryggingatímabil á Íslandi samkvæmt ákvæðum 4. gr. og 18. gr. almannatryggingalaga, 6. gr. og 50. gr. EB reglugerðar nr. 883/2004.

Tryggingastofnun ríkisins rökstyðji þessa niðurstöðu með vísan til 23.-30. gr. EB reglugerðarinnar. Þess megi geta að ákvæði 23.-30. gr. reglugerðarinnar falli undir 1. þátt 1. kafla III. bálks reglugerðarinnar. 1. kafli III. bálks reglugerðarinnar beri yfirskriftina „Sjúkrabætur, bætur til mæðra vegna meðgöngu og fæðingar og jafngildar bætur til feðra“. Ekki sé að sjá að kærandi fái neinar slíkar bætur frá C en greiðslur hans þar í landi líkist helst örorkulífeyri samkvæmt íslenskum almannatryggingum. Tryggingastofnun ríkisins hafi á engan hátt veitt skýringar á því hvernig umrædd ákvæði eigi við um lífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar, enda ljóst að ákvæðin hafi enga tengingu við slík réttindi. Í ákvæðunum sem Tryggingastofnun vísi til í greinargerð sinni sé fjallað um rétt lífeyrisþega til sérstakrar aðstoðar í búseturíki sínu en hvergi sé fjallað um rétt til lífeyrisgreiðslna. Til útskýringar megi benda á að á ensku kallist bæturnar sem kaflinn fjalli um „benefits in kind“. Lífeyrisgreiðslur teljist ekki til þessara réttinda. Þessar greiðslur komi til viðbótar lífeyrisgreiðslum og hafi engin áhrif á rétt einstaklinga til lífeyrisgreiðslna.

Þær ályktanir, sem Tryggingastofnun hafi dregið af ákvæðum 23.-30. gr. EB reglugerðar nr. 883/2004, eigi ekki við í þessu máli. Í raun leiði umrædd ákvæði fremur til þess að kærandi teljist eiga rétt á ýmissi aðstoð frá Íslandi, til dæmis samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, enda kveði umrædd ákvæði á um rétt lífeyrisþega til „aðstoðar“ frá búsetulandi sínu, þrátt fyrir að lífeyrir sé greiddur frá öðru aðildarríki. Það sé því ljóst að umrædd ákvæði hafi enga þýðingu við afgreiðslu Tryggingastofnunar á umsókn kæranda um örorkumat og örorkulífeyri hér á landi.

Samkvæmt framangreindu hafi Tryggingastofnun ekki fært fyrir því nein rök að kærandi vinni sér ekki inn búsetutíma og tryggingatímabil á Íslandi á grundvelli lögheimilisskráningar sinnar. Þvert á móti kveði lög um almannatryggingar skýrt á um að kærandi vinni sér inn búsetutíma og lífeyrisréttindi hér á landi á meðan lögheimili hans sé skráð á Íslandi.

Með úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála frá 2. febrúar 2018 í máli nr. 191/2017 hafi jafnframt verið staðfest að samkvæmt lögum um almannatryggingar sé ekki heimilt að synja umsækjanda um örorkulífeyrisgreiðslur vegna sambærilegra réttinda í öðru aðildarríki, en í niðurstöðu úrskurðarins segi:

„Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála eru skilyrði fyrir örorkulífeyrisgreiðslum skýrt upp talin í 18. gr. laga um almannatryggingar. Af þeim verður ekki ráðið að Tryggingastofnun sé heimilt að synja um örorkulífeyrisgreiðslur hafi sambærileg réttindi verið til staðar í öðru aðildarríki EES-samningsins. Þá verður sú túlkun heldur ekki leidd af 2. mgr. 44. EB reglugerðar nr. 883/2004. Úrskurðarnefnd telur því að ekki sé heimilt að synja umsókn um örorkulífeyri á þeim grundvelli að réttindi séu til staðar innan annars aðildarríkis og að frekari réttindi ávinnist ekki hér á landi. Þá bendir úrskurðarnefnd á að örorkulífeyrisgreiðslur skerðast í samræmi við búsetuhlutfall, sbr. 4. mgr. 18. gr. laganna.“

Örorkulífeyrir samkvæmt almannatryggingalögum teljist til þeirra grunnréttinda sem íslenska ríkinu beri að tryggja öllum sem á þurfi samkvæmt 76. gr. stjórnarskrárinnar. Þessi réttur skuli tryggður í lögum og hann verði ekki skertur nema með skýrum ákvæðum settra laga frá Alþingi. Ljóst sé að ákvörðun Tryggingastofnunar um að kærandi geti hvorki átt rétt á örorkulífeyri hér á landi né safnað réttindum með búsetutíma sínum eigi sér enga stoð í lögum. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins eigi sér enga stoð í lögum. Ákvörðunin sé þannig í andstöðu við lög um almannatryggingar, 76. gr. stjórnarskrárinnar og hina almennu lögmætisreglu stjórnsýsluréttar.

Hvergi í almannatryggingalögum sé að finna ákvæði um að lífeyrisþegi skuli ekki teljast tryggður hér á landi á þeim grundvelli að bætur séu greiddar frá öðru landi. Þá sé enga slíka heimild að finna í þeim milliríkjasamningum sem Íslands sé aðili að. Greiðslur kæranda frá C kunni mögulega að skerðast vegna búsetu á Íslandi en rétturinn til örorkulífeyris sé engu að síður til staðar.

Tryggingastofnun ríkisins hafi haldið því fram að þar sem útreikningur C stjórnvalda á lífeyrisréttindum kæranda þar í landi byggist á því að kærandi hafi safnað 40 ára búsetutíma þar í landi, geti kærandi ekki átt rétt á lífeyri hér á landi. Ljóst sé að útreikningur C stjórnvalda á greiðsluhlutfalli kæranda þar í landi sé einungis reikniregla samkvæmt C lögum sem notuð sé til að finna út upphæð lífeyrisgreiðslna. Sú reikniregla segi ekkert til um það hvort kærandi teljist enn tryggður þar í landi eftir að hafa flutt lögheimili sitt frá C.

Þá segi í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins að réttindi kæranda í C séu endurskoðuð á þriggja ára fresti. Því megi gera ráð fyrir að búseta kæranda hér á landi muni byrja að hafa áhrif á lífeyrisgreiðslur hans frá C en í ákvörðun E, dags. 10. maí 2013, sé bent á að greiðslur frá Íslandi muni geta haft áhrif á greiðslur kæranda. Því sé afar mikilvægt að kærandi teljist tryggður samkvæmt almannatryggingalögum frá þeim tíma er hann hafi flutt lögheimili sitt til Íslands til að mæta hugsanlegum skerðingum á réttindum hans frá C. Jafnframt sé ljóst að kærandi eigi fullan rétt á slíkri réttindasöfnun samkvæmt íslenskum lögum og ákvæðum milliríkjasamninga sem Ísland sé aðili að.

Ef skilningur Tryggingastofnunar ríkisins yrði lagður til grundvallar yrði jafnvel litið svo á að kærandi myndi ekki vinna sér inn nein réttindi samkvæmt almannatryggingalögum eða réttindi tengd ákvæðum laganna, þrátt fyrir að hafa lögheimili á Íslandi út ævina. Missi kærandi réttindi sín í C hafi hann ekki unnið sér inn neitt búsetu-/tryggingatímabil á Íslandi. Slík niðurstaða væri fráleit og á engan hátt í samræmi við íslensk lög eða reglur Evrópuréttar.

C greiði ekki hefðbundnar örorkulífeyrisgreiðslur líkt og hér á landi. Þær greiðslur sem kærandi fái greiddar frá C eigi þó helst samsvörun í örorkulífeyri samkvæmt almannatryggingalögum. Kærandi byggi á því að bótagreiðslur hans frá C geti í mesta lagi leitt til skerðingar á örorkulífeyri samkvæmt ákvæðum almannatryggingalaga. Greiðslurnar geti hins vegar ekki haft þau áhrif að hann teljist ekki tryggður samkvæmt lögunum eða sé áfram sjúkratryggður í C. Kærandi hafi verið með lögheimili á Íslandi frá x 2018 og sé því sjúkratryggður hér á landi.

Sé af einhverjum ástæðum litið svo á að greiðslur kæranda frá C teljist bætur fyrir „sama tímabil“ og kærandi eigi rétt á bótum hér á landi sé ljóst að í ákvæði 58. gr. laga um almannatryggingar hafi verið gert ráð fyrir slíkum tilvikum. Í 58. gr. sé fjallað um útflutning og skörun bóta. Í 2. mgr. 58. gr. segi:

„Ráðherra getur með reglugerð ákveðið að frá bótum, sem bótaþegi á rétt á hér á landi, dragist bætur sem hann fær samkvæmt erlendri löggjöf fyrir sama tímabil og bætur eru greiddar fyrir hér á landi.“

Samkvæmt framangreindu sé ljóst að meginregla íslenskrar almannatryggingalöggjafar sé sú að lífeyrisþegi, sem búsettur sé á Íslandi, eigi rétt á örorkulífeyri frá Tryggingastofnun. Þá geti lífeyrisþegi átt rétt á bótum hér á landi og erlendis fyrir sama tímabil. Ef til staðar sé réttur hér og erlendis þá leiði ekki af því að einstaklingur teljist ekki tryggður hér á landi samkvæmt lögum um almannatryggingar. Það geti þó leitt til þess að greiðslur frá erlendu ríki skerði örorkulífeyri og tengdar greiðslur sem viðkomandi eigi rétt á hér á landi.

Í greinargerð Tryggingastofnunar rökstyðji stofnunin í fyrsta skipti ákvörðun sína, dags. 3. júní 2020, um að synja kæranda um örorkumat, örorkulífeyri og tengd réttindi. Verði að teljast ámælisvert að stofnunin hafi í fyrsta lagi tilgreint ranga ástæðu synjunar í ákvörðun sinni og að eftirfarandi rökstuðningur hafi byggt á öðrum grundvelli en ákvörðunin og auk þess verið ein setning. Slíkur rökstuðningur uppfylli ekki kröfur 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt 22. gr. stjórnsýslulaga skuli í rökstuðningi vísa til þeirra réttarreglna sem ákvörðun stjórnvalds sé byggð á. Að því marki, sem ákvörðun byggist á mati, skuli í rökstuðningnum greina frá þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi hafi verið við matið. Þar sem ástæða sé til skuli jafnframt rekja í stuttu máli upplýsingar um þau málsatvik sem hefðu haft verulega þýðingu við úrlausn málsins. Í ákvörðun Tryggingastofnunar og eftirfarandi rökstuðningi stofnunarinnar sé hvergi vísað til viðeigandi lagaákvæða eða málsatvika sem geti skipt máli. Umsækjandi um örorkumat, örorkubætur og tengd réttindi eigi ekki að þurfa að kæra ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins til þess að fá loks rökstuðning fyrir íþyngjandi ákvörðun stofnunarinnar um synjun á þeim mikilvægu réttindum sem um ræði í máli þessu.

Í athugasemdum kæranda, dags. 26. febrúar 2021, kemur fram að Tryggingastofnun vísi ítrekað til ákvæða reglugerðar nr. 883/2004, án þess að tilgreina hvaða ákvæði sé átt við. Í þau skipti sem vísað sé í einhver ákvæði sé tilvísunin mjög ónákvæm, en vitnað sé í 23.-30. gr. reglugerðarinnar. Eins og fram komi í fyrri athugasemdum kæranda eigi þessi ákvæði ekki við í máli kæranda.

Tryggingastofnun ríkisins nálgist málið með röngum hætti. Þannig segi í greinargerð Tryggingastofnunar að ekki sé heimild til þess að meta örorku kæranda og ákvarða örorkulífeyri. Hið rétta sé aftur á móti að ekki þurfi sérstaka heimild. Ákvæði laga um almannatryggingar séu skýr. Þar komi fram hver skilyrðin séu og að enga heimild þurfi umfram það. Tryggingastofnun hefði aftur á móti þurft skýra heimild til þess að víkja frá lagareglum.

Samkvæmt lögmætisreglu íslensks stjórnskipunar- og stjórnsýsluréttar verði ákvarðanir stjórnvalda að eiga sér stoð í lögum. Þá megi stjórnvöld ekki ganga í berhögg við önnur lög með ákvörðunum sínum. Ákvörðun, sem skorti lagastoð og/eða brjóti í bága við lög, sé ólögmæt. Ákvörðun, sem mæli fyrir um skerðingu réttinda sem komi fram í lögum, verði að hafa lagastoð sem kveði skýrlega á um umfang skerðingarinnar. Ekki megi framselja stjórnvöldum ákvörðunarvald um skerðinguna, hvorki með ákvæði reglugerðar né með tilskipun. Tryggingastofnun hafi ekki haft lagastoð og hafi í raun brotið gegn skýru lagaákvæði þegar stofnunin hafi tekið ákvörðun um að neita kæranda um örorkumat og örorkulífeyri.

Samkvæmt 4. mgr. 18. gr., sbr. 1. mgr. 17. gr. laga um almannatryggingar, skapist réttur við búsetu hér á landi. Ákvæðin séu afdráttarlaus. Í ákvæðinu segi ekkert um að ákvörðun annars ríkis á réttindum komi í veg fyrir eða gangi framar skýrum ákvæðum almannatryggingalaga.

Samkvæmt meginreglum stjórnsýsluréttar og almannatryggingaréttar skuli túlka allan vafa borgurum í hag en stjórnvöldum í óhag. Þannig skuli túlka ívilnandi ákvæði rúmt en íþyngjandi ákvæði með þröngum hætti. Sama regla leiði svo enn frekar af meginreglu íslensks réttar um áhrif erlendra réttarreglna gagnvart íslenskum lögum. Túlka skuli ívilnandi ákvæði þjóðarréttar rúmt en ekki skuli beita íþyngjandi ákvæðum þjóðarréttar, einkum ef íslensk lög kveði á um annað. Jafnvel þótt þær reglur sem Tryggingastofnun vilji meina að felist í reglugerð nr. 883/2004 væru til staðar, myndi það eitt ekki duga til. Samkvæmt öllu framangreindu verði meintum íþyngjandi reglum Evróputilskipunar ekki beitt til þess að takmarka skýr réttindi samkvæmt íslenskum lögum um almannatryggingar.

Tilgangur reglugerðar EB sé ívilnun. Reglur Evrópuréttar um almannatryggingar eigi ekki að leiða til skerðingar á réttindum til borgaranna heldur aukningar þeirra. Reglunum sé ætlað að auðvelda flutninga á milli landa en ekki takmarka þá. Ekkert í reglum Evrópuréttarins komi í veg fyrir, eða sé ætlað að koma í veg fyrir, að einstaklingur afli sér réttinda. Skerðing verði ekki byggð á ákvæði nema skýrt sé að lagaákvæðinu hafi verið ætlað að kveða á um skerðingu. Þannig verði skerðing ekki leidd af ákvæði með túlkun heldur verði skerðingin að koma skýrlega fram í ákvæðinu.

Ákvæði 58. gr. laga um almannatryggingar mæli sérstaklega fyrir um heimildir til þess að skerða greiðslur á Íslandi vegna greiðslna frá öðrum löndum. Af ákvæðinu sé ljóst að gert sé ráð fyrir að hægt sé að vinna sér inn réttindi hér á landi, þrátt fyrir að eiga ekki réttindi í öðru landi. Þannig leiði einnig af ákvæðinu að greiðslur frá öðru landi eigi ekki að koma í veg fyrir stofnun réttinda hér á landi. Greiðslur frá öðru landi geti í mesta lagi komið til skerðingar á réttindum hér á landi en greiðslurnar geti ekki útilokað réttindi samkvæmt íslenskum almannatryggingalögum.

Í 68. gr. laga um almannatryggingar sé heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að semja við erlend ríki um málefni er tengjast almannatryggingum. Af ákvæðinu sé ljóst að um sé að ræða ívilnandi heimildarákvæði. Slíkt ákvæði verði ekki túlkað með þveröfugum hætti til þess að sækja stoð fyrir íþyngjandi ákvörðun í milliríkjasamningi.

Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar ríkisins komi fram að kærandi sé sjúkratryggður í því landi sem greiði honum örorkubætur, það er í C. Hið rétta sé að kærandi sé sjúkratryggður á Íslandi frá x 2018 eins og fram komi á “Mínum síðum“ kæranda hjá Sjúkratryggingum Íslands.

Í greinargerð Tryggingastofnunar sé því haldið fram að mál nr. 191/2017 sé ekki sambærilegt við mál kæranda þar sem í því máli hafi ekki legið fyrir upplýsingar um hvort kærandi væri að fá örorkubætur frá fyrra búsetulandi. Hið rétta sé þó að málin séu sambærileg í öllum meginatriðum. Í bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 20. febrúar 2017, þar sem umsækjanda hafi verið synjað um örorkumat komi fram að réttindi í F væru áfram til staðar eftir flutninginn til Íslands og frekari réttindi myndu ekki ávinnast á Íslandi. Umsækjanda hafi því verið synjað um örorkumat á Íslandi.

Í úrskurði í máli nr. 191/2017 komi fram að umsókn kæranda hafi verið synjað með þeim rökum að Ísland og F séu aðilar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, réttindi í F séu því áfram til staðar eftir flutning til Íslands og að frekari réttindi ávinnist ekki á Íslandi. Í greinargerð Tryggingastofnunar segi enn fremur að aukin ávinnsla á örorku komi ekki til eftir að örorka hafi verið metin og greiðslur hafi byrjað í fyrra búsetulandi, líkt og umsókn kæranda beri með sér.

Eins og fram komi í fyrri athugasemdum kæranda hafi verið staðfest í úrskurði í máli nr. 191/2017 að samkvæmt almannatryggingalögum sé ekki heimilt að synja umsækjanda um örorkulífeyrisgreiðslur vegna sambærilegra réttinda frá öðru aðildarríki. Kærandi eigi það sameiginlegt með kæranda í máli nr. 191/2017 að greiðslur sem hann fái vegna örorku séu ekki tilgreindar í VI. viðauka EB reglugerðar nr. 883/2004.

Í athugasemdum kæranda, dags. 14. maí 2021, segir að í greinargerð Tryggingastofnunar komi fram að umsókn kæranda eigi sér ekki lagastoð í íslenskum lögum. Umsókn sem slík þurfi ekki lagastoð, en hins vegar geti ákvörðun í máli sem tekin sé á grundvelli umsóknar skort lagastoð.

Í greinargerð Tryggingastofnunar sé því haldið fram að útflutningsregla EES-samningsins feli ekki í sér að lífeyrisþegi geti áunnið sér lífeyrisréttindi í öðru EES-landi á grundvelli búsetu þar á meðan hann fái greiddan lífeyri frá fyrra búsetulandi. Áréttað sé að útflutningsreglan snúist um að lífeyrisþegar búsettir innan EES-svæðisins fái greiðslur sem þeir eigi rétt á þó svo að þeir séu búsettir í öðru aðildarríki. Hún komi ekki í veg fyrir að einstaklingur geti áunnið sér eða átt rétt á greiðslum frá búsetulandi.

Tryggingastofnun ríkisins staðhæfi í greinargerðinni, án þess að vísa í lög eða reglugerðir því til stuðnings, að ef örorkulífeyrisgreiðslur frá erlendu ríki séu hærri en örorkulífeyrisgreiðslur á grundvelli almannatrygginga, eigi viðkomandi ekki rétt á örorkulífeyrisgreiðslum hér á landi. Þetta atriði sé ekki hluti af kærumálinu.

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins komi fram að einstaklingur, sem fái lífeyrisgreiðslur frá öðru EES-landi. eigi að upplýsa Sjúkratryggingar Íslands um að hann njóti réttinda í öðru EES-landi og framvísa S1 vottorði. Því sé einnig haldið fram að kærandi hafi látið farast fyrir að framvísa vottorði um tryggingaéttindi sín í C og þannig í raun gefið rangar upplýsingar. Kærandi geri alvarlegar athugasemdir við að í greinargerð Tryggingastofnunar sé ýjað að tilraun kæranda til bótasvika. Kærandi hafi aldrei verið upplýstur eða verið leiðbeint um að framvísa S1 vottorði eða öðru vottorði en E-104 (S041-vottorði) hjá Sjúkratryggingum Íslands. Til viðbótar við almenna leiðbeiningarskyldu samkvæmt stjórnsýslulögum hvíli ríkari leiðbeiningarskylda á Tryggingastofnun en 7. gr. stjórnsýslulaga mæli fyrir um. S1 vottorð séu almennt ekki gefin út á milli Norðurlanda.

Því sé ekki hægt að halda því fram að um ranga upplýsingagjöf sé að ræða af hálfu kæranda. Kærandi hafi sótt um skráningu í tryggingaskrá og framvísað E-104 (S041-vottorði) frá C. Sjúkratryggingar Íslands hafi staðfest að kærandi sé sjúkratryggður hér á landi frá þeim degi sem hann hafi flutt lögheimili sitt til Íslands, eða frá x 2018. Kærandi sé tryggður með sama hætti og aðrir sem búsettir séu á Íslandi en ekki í C þó svo að hann fái greiðslur frá E.

Í athugasemdum kæranda, dags. 23. júní 2021, segir að í greinargerð Tryggingastofnunar komi fram að kærandi hefði ekki átt að geta fengið vottorð um sjúkratryggingartímabil í C til að framvísa hjá Sjúkratryggingum Íslands, án þess að þar kæmu fram upplýsingar um að hann væri lífeyrisþegi þar í landi.

Vottorðið sem Tryggingastofnun vísi í sé E-104/S041 vottorð um söfnun tryggingar-, starfs- eða búsetutímabila, sem gefið sé út til að staðfesta hvenær sá, sem vottorðið sé gefið út fyrir, hafi verið sjúkratryggður í útgáfulandinu. Umsækjendur um sjúkratryggingu geti framvísað E-104/S041 vottorði til að komast hjá sex mánuða bið eftir sjúkratryggingu frá dagsetningu lögheimilisflutnings til Íslands.

Í E-104/S041 vottorði sé ekki gert ráð fyrir því að fram komi hvort viðkomandi sé lífeyrisþegi eða ekki. Í bréfi Tryggingastofnunar sé kæranda hins vegar gefið að sök að hafa veitt rangar upplýsingar og tilraun sé gerð til að gera kæranda tortryggilegan. Hér sé um fordæmislaus vinnubrögð að ræða af hálfu stofnunarinnar.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærandi hafi sótt um örorkumat með umsókn, dags. 5. febrúar 2013. Umsóknin hafi verið lögð fram í C þar sem hann hafi alla tíð verið búsettur, sbr. 1. mgr. 50. gr. EB grunnreglugerðar nr. 883/2004 og 4. mgr. 45. gr. EB framkvæmdarreglugerðar nr. 987/2009. Fyrir liggi upplýsingar um að hann fái og hafi fengið greiddan fullan örorkulífeyri í C frá 1. nóvember 2012.

Á grundvelli upplýsinga í umsókn kæranda um að hann hefði unnið sumarstörf á Íslandi hafi umsókn hans verið send til Íslands til könnunar á rétti hans til þess að fá greiddar örorkubætur hér á landi, sbr. 5. mgr. 45. gr. EB framkvæmdarreglugerðar nr. 987/2009, um að afhendingardagur umsóknar skuli gilda í öllum stofnunum. Þannig eigi 6. mgr. 45. gr. sömu reglugerðar um að umsækjandi hafi ekki veitt upplýsingar um búsetu- /tryggingatímabil hvað Ísland varði ekki við.

Þar sem kærandi hafi aldrei verið skráður búsettur hér á landi hafi stutt vinnutímabil hans á Íslandi ekki veitt honum rétt til örorkulífeyris, þótt læknisfræðileg skilyrði örorkumats hefðu talist uppfyllt, sbr. örorkumat, dags. 6. júní 2013. Umsókn hans um örorkubætur hér á landi hafi því verið synjað með bréfi, dags. 2. júlí 2013. Skilyrði 57. gr. EB reglugerðar nr. 883/2004 um búsetu- /tryggingatímabil í að minnsta kosti eitt ár hafi ekki verið uppfyllt.

Með ákvörðun, dags. 10. maí 2013, hafi í C verið samþykkt að greiða kæranda fullan örorkulífeyri frá 1. nóvember 2012. Um 100% greiðslur væri að ræða þar sem hann hefði alla tíð verið búsettur í C og hafi því uppfyllt skilyrði um að hafa verið búsettur í C þrjú síðustu árin. Á þeim grundvelli hafi hann talist hafa verið búsettur/tryggður þar í 40 ár af þeim 40 árum sem þurfi til að fá fullar greiðslur grunnlífeyris.

Þar sem kærandi hafi verið búsettur/tryggður í C síðustu þrjú ár fyrir upphaf örorkumatsins hafi ekki reynt á ákvæði reglugerðarinnar um samlagningu búsetu-/tryggingatímabila, sbr. til dæmis 6. gr. og 45. gr. EB grunnreglugerðar nr. 883/2004. Um útreikning örorkubóta hans hafi gilt 1. mgr. 52. gr. reglugerðarinnar þar sem skilyrðum fyrir bótarétti hefði eingöngu verið fullnægt samkvæmt landslögum.

Útreikningur á greiðsluhlutfalli kæranda í C byggist þannig á því að eingöngu hafi verið um að ræða búsetu í C frá því að hann hafi orðið 16 ára 7. mars 1991 og fram að upphafi örorkumats hans þann 1. nóvember 2012, það er að öllum búsetu-/tryggingatímabilum hafi verið lokið í C.

Útreikningur miðist við að kærandi hafi safnað 40 ára búsetutíma á þessum tíma, þrátt fyrir að raunverulegur ávinnslutími hans hafi aðeins verið 21 ár og tæpir 9 mánuðir við upphaf örorkumats.

Ástæða þess að kærandi teljist uppfylla skilyrði fyrir fullum greiðslum og að hafa verið tryggður í C í 40 ár sé sú að við útreikning á greiðsluhlutfalli örorkubóta sé miðað við hlutfallsútreikning, það er að útreikningur á greiðsluhlutfalli miðist við hlutfallslegt búsetu-/tryggingatímabil í C fram að upphafi örorkumats. Til þess að fá greiddar fullar örorkubætur í C þurfi viðkomandi að hafa verið búsettur/tryggður þar í landi 80% af tímanum frá 16 ára aldri. Ef um styttri búsetutíma sé að ræða verði greiðsluhlutfallið hlutfallslegra lægra. Með þeirri útreikningsreglu að 80% búsetu-/tryggingatímabil reiknist með 40 ára búsetu-/tryggingatímabil sé í raun um að ræða hlutfallslegan útreikning sem hafi í för með sér að sama hlutfall reiknist fyrir framtíðartímabil og þann tíma sem liðinn sé frá 16 ára aldri.

Þó að við útreikning á greiðsluhlutfalli kæranda í C sé þannig eingöngu miðað við búsetu-/tryggingatímabil fyrir upphaf örorku feli hlutfallslegur útreikningur á grundvelli 80% búsetuhlutfalls í raun í sér að einnig sé reiknað með framtíðartímabilum. Þegar hlutfallslegur útreikningur á búsetu-/tryggingatímabili sé styttri en 40 ár og um búsetu-/tryggingatímabil í meira en 80% af tímabilinu, sem útreikningurinn byggist á, sé að ræða verði niðurstaðan sú sama og væri einnig reiknað með samsvarandi hlutfalli fyrir það tímabil sem eftir sé frá upphafi örorkumats og fram að ellilífeyrisaldri. Í tilviki kæranda hafi eingöngu verið um að ræða búsetu í C fram að upphafi örorkumats og niðurstaðan hefði því orðið sú sama og ef reiknað væri með að allt framtíðartímabilið frá upphafi örorkumats til ellilífeyrisaldurs væri reiknað með búsetu-/tryggingatímabili þar í landi.

Í þessu sambandi sé vert að benda á Norðurlandasamning um almannatryggingar, sbr. lög nr. 119/2013. Hvað varði þau aðildarríki samningsins sem séu aðilar að EES-samningnum, það er Danmörk, Finnland, Ísland, Noregur og Svíþjóð, feli samningurinn í sér nánari skýringar á túlkun útreikningsreglna þegar greiðsluréttur er fyrir hendi í fleiri en einu norrænu landi og samkomulag um sérreglur sem heimilaðar séu í 8. gr. EB reglugerðar nr. 883/2004, sbr. til dæmis 15. gr. samningsins um afsal endurgreiðslna.

Í 8. gr. Norðurlandasamningsins sé kveðið á um að einstaklingur sem fái greiddan lífeyri í norrænu landi eigi rétt á að fá lífeyrinn greiddan með sömu skilyrðum og eigi við samkvæmt EB reglugerð nr. 883/2004 á meðan hann sé búsettur í landi sem sé aðili að EES-samningnum.

Í 9. gr. Norðurlandasamningsins sé kveðið á um að ef skilyrði fyrir því að lífeyrisréttindi, auk búsetu- og tryggingatímabils, fyrir upphaf örorku séu reiknuð á grundvelli framtíðartímabila sé fullnægt, skuli einungis tekið tillit til framtíðartímabila samkvæmt hlutfallinu á milli raunverulegra tímabila í landinu og samanlagðra raunverulegra tímabila í öllum löndum þar sem viðkomandi einstaklingur hafi lokið búsetu-/tryggingatímabilum fyrir upphaf örorku. Ákvæði þetta vísi í i.lið í b-lið 2. mgr. 54. gr. EB reglugerðar nr. 883/2004 en í því ákvæði komi einnig fram í 1. mgr. að ef um hlutfallslegan greiðslurétt í fleiri en einu landi sé að ræða gildi ekki reglur í innlendri löggjöf um skerðingu þar sem þá gildi útreikningsreglur 2. mgr. 52. gr. grunnreglugerðarinnar.

Kærandi hafi flutt til Íslands x 2018 en eigi áfram rétt á að fá greiddar örorkubætur frá C, sbr. 7. gr. EB reglugerðar nr. 883/2004 og 8. gr. Norðurlandasamningsins. Kærandi sé þar af leiðandi skilgreindur sem lífeyrisþegi í C og áfram sjúkratryggður þar í landi, sbr. reglur 23.-30. gr. grunnreglugerðarinnar.

Í ákvæðum 23.-30. gr. EB reglugerðar nr. 883/2004, einkum 23.-25. gr., komi fram að lífeyrisþegi sem sé búsettur í öðru landi en því landi sem hann fái greiddan lífeyri frá eigi rétt á sjúkrabótum í búsetulandinu en búsetulandið eigi endurkröfurétt hjá landinu sem greiði lífeyrinn, sbr. 35. gr. EB grunnreglugerðarinnar. Í 1. mgr. 15. gr. Norðurlandasamnings um almannatryggingar sé, í samræmi við heimild í 8. gr. EB reglugerðar nr. 883/2004, meðal annars kveðið á um afsal endurgreiðslu á sjúkrabótum á milli norrænu landanna samkvæmt 35. gr. grunnreglugerðarinnar.

Lífeyrisþegi, sem sé tryggður á grundvelli lífeyrisgreiðslna frá öðru landi en búsetulandinu, sé þar af leiðandi ekki að ávinna sér tryggingatímabil í búsetulandinu samkvæmt ákvæðum 4. og 18. gr. laga um almannatryggingar og 6. og 1. mgr. 50. gr. EB grunnreglugerðar nr. 883/2004, sbr. 4.-5. mgr. 45. gr. EB framkvæmdarreglugerðar nr. 987/2009. Lögbæra landið í máli þessu sé C en ekki Ísland og kærandi sé þegar að fá greiddar 100% örorkulífeyrisgreiðslur þaðan.

Þar sem lífeyrisþegi sem flytji til annars lands ávinni sér ekki tryggingatímabil í búsetulandinu, hafi 57. gr. EB reglugerðar nr. 883/2004 ekki áhrif varðandi búsetu kæranda hér á landi frá x 2018, það er að hann hafi ekki áunnið sér réttindi hér á landi á grundvelli þess að hafa verið búsettur hér á landi í meira en eitt ár eftir flutning hingað til lands.

Þrátt fyrir að vera með örorkulífeyrisgreiðslur í C hafi kærandi sótt að nýju um örorkulífeyri hér á landi 20. febrúar 2020. Umsókninni hafi fylgt læknisvottorð D D, dags. 21. febrúar 2021, og spurningalisti, móttekinn 20. febrúar 2020.

Í umsókn frá kæranda komi fram að hann hafi búið í C og að hann eigi lífeyrisréttindi þar. Athugasemdir við lífeyrisréttindi erlendis séu þau að kærandi viti ekki um þau og að kærandi hafi unnið mjög takmarkað. Í spurningalistanum hafi kærandi hvorki upplýst um búsetu erlendis né um örorkubætur sem hann fái frá C. Í læknisvottorði komi á hinn bóginn fram upplýsingar um að kærandi væri með örorkubætur frá C. Áður hafi borist staðfesting frá C um að kærandi hafi fengið fullar örorkubætur í C frá 1. nóvember 2012 og að ekki sé um framtíðarútreikning að ræða. Hann þurfi ekki að fara í endurmat en mál hans verði skoðað á þriggja ára fresti þar til hann verði sextugur.

Umsókn kæranda hafi verið synjað 3. júní 2020 á þeim grundvelli að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði staðals um örorkumat. Kærandi hafi óskað eftir rökstuðningi með bréfi, dags. 25. júní 2020. Rökstuðningur hafi verið þess efnis að ekki væri réttur til staðar á grundvelli búsetu. Kærandi hafi búið í C.

Kærandi hafi áður sótt um endurhæfingarlífeyri með umsókn, dags. 5. október 2018. Þeirri umsókn hafi verið vísað frá vegna þess að kærandi hafi ekki skilað inn nauðsynlegum gögnum. Kærandi hafi einnig sótt um endurhæfingarlífeyri með umsókn, dags. 18. febrúar 2019. Þeirri umsókn hafi verið synjað á þeim grundvelli að skilyrði um þriggja ára búsetu á Íslandi væri ekki uppfyllt.

Beðist sé velvirðingar á því að þau svör sem kærandi hafi fengið við umsóknum sínum hafi ekki verið rétt orðuð í samræmi við þá raunverulegu ástæðu fyrir því að hann eigi ekki rétt á örorkugreiðslum hér á landi.

Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 4. febrúar 2021, segir að kærandi hafi sótt um örorkubætur í C 5. febrúar 2013 en hann hefði verið búsettur þar í landi frá 8. júní 1990. Við afgreiðslu umsóknarinnar hafi honum verið synjað um örorkulífeyri hér á landi með bréfi, dags. 2. júlí 2013, á þeim grundvelli að hann hefði ekki verði búsettur á Íslandi eftir 16 ára aldur og hefði ekki lokið tryggingatímabilum sem veittu rétt til örorkubóta á grundvelli EB reglugerðar nr. 883/2004.

Samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 883/2004 eigi reglur um samlagningu tímabila eingöngu við um tryggingatímabil sem sé lokið fyrir upphaf örorkumats, auk þess sem einstaklingur sem fái greiddar örorkubætur frá einu aðildarríki teljist áfram tryggður í því landi sem greiðir örorkubætur hans þó að hann flytji til annars aðildarríkis.

Lífeyrisþega sé þannig frjálst að búa í öðru samningslandi og fá áfram lífeyrisgreiðslur frá landi/löndum sem hann hafi áunnið sér tryggingatímabil í fyrir upphaf örorku en hann ávinni sér ekki frekari tryggingatímabil í öðru samningslandi á grundvelli búsetu. Þar sem kærandi sé lífeyrisþegi í öðru aðildarríki og ávinningur tryggingatímabila hafi lokið við upphaf örorkumats sé ekki um frekari réttindaávinnslu hans að ræða.

Þær örorkubætur, sem kærandi fái frá C, séu greiddar þeim sem séu varanlega óvinnufærir vegna sjúkdóms eða fötlunar og séu þær sambærilegar örorkulífeyrisgreiðslum sem greiddar séu til einstaklinga sem séu metnir með örorkumat hér á landi á grundvelli 18. gr. laga um almannatryggingar og reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat.

Kærandi uppfylli ekki skilyrði um búsetu á Íslandi á aldurstímabilinu frá 16 ára og fram að upphafi örorkubóta hans 1. nóvember 2012. Því uppfylli hann ekki búsetuskilyrði 18. gr. laga um almannatryggingar. Með bréfi, dags. 2. júlí 2013, hafi kæranda verið synjað um örorkulífeyri á Íslandi. E í C hafi svo tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 10. maí 2013, að samþykkt hafi verið varanlegt örorkumat á þeim grundvelli að hann hafi verið búsettur í C frá 16 ára aldri og miðist við að hann hafi verið búsettur þar í landi í 40 ár af þeim 40 árum sem gefi fullan greiðslurétt.

Í fyrri greinargerð Tryggingastofnunar hafi verið byggt á því að ef núverandi regla um búsetuútreikning örorkubóta í C ætti við um kæranda, gefi það orðalag í bréfi (x) um samþykkt örorkumats hans í C um að hann fái 40/40 hluta til kynna að ákvörðun um örorkumat hans hafi farið fram á meðan enn hafi verið í gildi í Creglur um  greiðslur „x“ sem falli undir „x“ og að útreikningur greiðsluhlutfallsins hafi tekið mið af búsetutíma hans í C fram að örorkumati og að viðbættum fullum framreikningi.

Örorkumat kæranda hafi gilt frá 1. nóvember 2012 og hann hafi þá verið búsettur í C frá 16 ára aldri, eða í rúmt x ár. Þau x ár sem honum hafi verið reiknuð til viðbótar byggi væntanlega á framreikningi samkvæmt þeim reglum sem hafi verið í gildi í C fyrir lagabreytingu um að útreikningur byggi á hlutfallslegum búsetutíma í landinu.

Flutningur kæranda til Íslands x 2018, það er fimm árum síðar, veiti honum ekki réttindi á grundvelli 4. og 18. gr. almannatryggingalaga þar sem hann sé áfram tryggður í C á þeim grundvelli að hann sé lífeyrisþegi þar í landi. Eins og fram komi í 4. gr. laganna sé gerður sá fyrirvari við þá meginreglu að einstaklingur sem sé búsettur hér á landi sé tryggður að uppfylltum öðrum skilyrðum laganna, ef annað leiði ekki af milliríkjasamningum. Í reglugerð nr. 883/2004 sé ekki að finna ákvæði um að lífeyrisþegi ávinni sér lífeyrisréttindi í öðrum samningsríkjum eftir að ákvörðuð hafi verið full lífeyrisréttindi á grundvelli þeirra tryggingatímabila sem hafi verið lokið við upphaf örorkumats.

Einnig skuli vakin athygli á því að hvorki í reglugerð nr. 883/2004 né í almannatryggingalögum sé að finna heimild til að meta lífeyrisþega frá öðru EES-landi sem flytji hingað til lands til örorkulífeyrisgreiðslna á grundvelli fjárhæðar örorkubóta hans í fyrra búsetulandi. Skilyrði fyrir örorkulífeyrisgreiðslum séu skýr í 18. gr. laganna, það er að bæði þurfi að vera uppfyllt skilyrði um ávinnslu réttinda á grundvelli búsetu og hins vegar réttur á grundvelli þess að læknisfræðileg skilyrði örorkumats séu uppfyllt. Staðhæfing um að kærandi fái of lágar örorkubætur í C til þess að geta framfleytt sér hér á landi hafi því ekki í för með sér að hann eigi rétt á viðbótargreiðslum á Íslandi.

Einstaklingur, sem njóti fullra örorkubóta frá EES-landi, eigi rétt á að halda þeim réttindum þótt hann flytji til annars EES-lands vegna svokallaðrar útflutningsreglu. Hann ávinni sér ekki viðbótarréttindi í öðru EES-landi á grundvelli búsetu eftir að ákvörðun um örorkubætur hafi verið tekin.

Tryggingastofnun vísar til þess að réttur til að fá örorkumat sé ekki sjálfstæður réttur. Örorkumat fari fram þegar sótt sé um örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. almannatryggingalaga. Ef önnur skilyrði ákvæðisins fyrir greiðslum örorkulífeyris séu ekki uppfyllt hafi læknisfræðilegt örorkumat engan tilgang og veiti engin sjálfstæð réttindi. Einstaklingur, sem uppfylli ekki öll þau skilyrði sem kveðið sé á um í 18. gr. laga um almannatryggingar, eigi þannig ekki rétt á örorkumati samkvæmt reglugerð nr. 379/1999. Þó að læknar Tryggingastofnunar hafi talið kæranda uppfylla læknisfræðileg skilyrði fyrir örorkumati þegar umsókn hans hafi borist frá C á sínum tíma, veiti það honum engin sjálfstæð réttindi þar sem hann hafi ekki uppfyllt skilyrði 18. gr. almannatryggingalaga um búsetu á Íslandi. Bæði skilyrðin þurfi að vera uppfyllt, ekki nægi að uppfylla annað þeirra.

Kærandi öðlist ekki rétt á Íslandi á grundvelli búsetu á Íslandi þar sem hann fái örorkubætur í öðru EES-landi og njóti á þeim grundvelli tryggingaverndar frá því landi. Kærandi hafi því ekki áunnið sér tryggingatímabil hér á landi fyrir upphaf örorkumats og ávinni sér því ekki tryggingatímabil á grundvelli 4. og 18. gr. laga um almannatryggingar eftir flutning sinn hingað til lands x 2018.

Mál nr. 191/2017 sé ekki sambærilegt mál þar sem í því máli hafi ekki legið fyrir upplýsingar um hvort kærandi væri að fá örorkubætur frá fyrra búsetulandi og hversu lengi hann hafi verið búsettur þar heldur hafi verið um að ræða meðfædda fötlun og upplýsingar frá kæranda hafi gefið til kynna að hann væri að fá greiðslur frá fyrra búsetulandi sínu. Ekki hafi verið óskað eftir staðfestingu á þessum upplýsingum frá fyrra búsetulandi kæranda áður en ákvörðun hafi verið tekin í málinu.

Kærandi hafi ekki lokið tryggingatímabilum í báðum löndum fyrir upphaf örorkumats og samkvæmt skýrum fyrirmælum í reglugerð EB nr. 883/2004 miðist talning tryggingatímabila við þau tímabil sem umsækjandi hafi lokið við upphafstíma örorkumats. Í þessu máli sé fullljóst að við upphaf örorkumats kæranda hafði kærandi eingöngu verið búsettur í C.

Í greinargerð Tryggingastofnunar hafi verið vitnað í 23.-30. gr. EB reglugerðar nr. 883/2004 til að sýna fram á hver séu réttindi lífeyrisþega í sjúkratryggingakerfi búsetulandsins, sé hann búsettur í öðru landi en því landi sem greiði lífeyrisgreiðslur hans. Þar komi fram að hann eigi rétt á þjónustu heilbrigðiskerfis búsetulandsins en búsetulandið eigi síðan rétt á því að fá þann kostnað endurgreiddan frá því landi sem greiði lífeyri hans. Ástæðan fyrir þessum endurkröfureglum sé sú að viðkomandi einstaklingur sé tryggður í því landi sem greiði honum örorkubæturnar.

Þær upplýsingar sem borist hafi frá C um að réttindi kæranda séu endurskoðuð á þriggja ára fresti, feli ekki í sér að breyting geti orðið á réttindum hans vegna mögulegrar búsetu hans í öðru EES-landi, til dæmis á Íslandi. Örorkumat kæranda sé varanlegt en fylgst verði með því hvort hann uppfylli áfram læknisfræðileg skilyrði fyrir örorkubótum.

Í máli þessu sé greiðsluréttur kæranda í C en ekki á Íslandi. Kærandi sé ekki að afla sér frekari tryggingaréttinda á Íslandi og ákvæði 58. gr. laga um almannatryggingar komi þess vegna ekki til álita.

Varðandi það að rökstuðningur ákvörðunar hafi ekki verið í samræmi við stjórnsýslulög, vísi Tryggingastofnun til þess að umsókn kæranda um örorkulífeyri hafi verið synjað með bréfi, dags. 2. júlí 2013. Flutningur hans til Íslands x 2018 hafi því ekki áhrif á þá niðurstöðu þar sem hann hefði á grundvelli þeirrar sömu umsóknar fengið samþykkt varanleg örorkumat í C. Kærandi hafi ekki átt rétt á örorkugreiðslum hér á landi þar sem hann hafi áður en hann hafi flutt til Íslands öðlast rétt til fullra greiðslna í öðru EES-landi. Þær greiðslur sem kærandi hafi áunnið sér í öðru EES-landi fái hann greiddar áfram á grundvelli EES-samningsins og hann sé þar af leiðandi ekki að ávinna sér búsetu-/tryggingatímabil á Íslandi. Ákvörðun Tryggingastofnunar um að synja kæranda um örorkulífeyri hér á landi hafi verið tilkynnt honum með bréfi, dags. 2. júlí 2013. Grundvöllur þeirrar ákvörðunar hafi ekki breyst frá þeim tíma. Þó svo að synjunarbréf á árinu 2020 hafi ekki falið í sér formlega rétt orðalag breyti það ekki þeirri staðreynd að kærandi uppfylli ekki skilyrði 18. gr. almannatryggingalaga fyrir örorkumati og kæranda hafi verið tilkynnt það með réttmætum hætti 2. júlí 2013.

Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 21. apríl 2021, segir að fullyrðingar um að í greinargerð stofnunarinnar sé ítrekað vísað í ákvæði reglugerðar EB nr. 883/2004, án þess að tilgreina hvaða ákvæði sé átt við, eigi ekki við rök að styðjast þar sem í greinargerð stofnunarinnar sé bæði tilgreint hvaða ákvæði sé átt við og hver texti þeirra ákvæða sé. Sama eigi við um þær fullyrðingar að tilvísun í 23.-30. gr. reglugerðarinnar sé ónákvæm og eigi ekki við í þessu máli þar sem kærandi sé ekki að fá bætur sem falli undir þann kafla. Í þessum ákvæðum komi fram sú almenna regla að sé lífeyrisþegi búsettur í landi sem greiði honum ekki lífeyri sé gert ráð fyrir að hann geti fengið aðstoð í búsetulandinu en það land eigi endurkröfurétt á það land sem hann fái greiddan lífeyri frá. Þessi ákvæði sýni þannig fram á hvernig lífeyrisþegi sé áfram tryggður í landi sem hann fái greiddan lífeyri frá. Ef kærandi búi í öðru aðildarríki eigi hann rétt á þjónustu heilbrigðiskerfisins í búseturíkinu en sé ekki tryggður með sama hætti og aðrir einstaklingar sem séu búsettir í því landi vegna þess að búseturíkið eigi endurkröfurétt á landið sem greiði lífeyri hans. Í kæru sé því haldið fram að kærandi eigi rétt á örorkulífeyri á Íslandi á grundvelli 18. gr. laga um almannatryggingar. Í raun sé verið að halda því fram að á þeim grundvelli að kærandi hafi verið búsettur hér á landi frá x 2018 eigi hann rétt á samlagningu búsetutíma í C og á Íslandi samkvæmt ívilnandi ákvæðum EB regluerðar nr. 883/2004, þrátt fyrir að talningu tryggingatímabila kæranda hafi verið lokið við umsókn hans um örorkulífeyri í C 5. febrúar 2013.

Ívilnandi ákvæðum reglugerðarinnar sé ekki heimilt að beita eftir að talningu trygginga- eða búsetutímabila sé lokið, það er eftir að ákvarðaðar séu lífeyrisgreiðslur á grundvelli þeirra tímabila sem áunnin hafi verið við umsókn um örorkulífeyri. Kærandi geti ekki byggt kröfu um örorkulífeyri á Íslandi á búsetu sinni hér á landi eftir x 2018 vegna þess að talningu tryggingatímabila hafi verið lokið við umsókn hans um örorkulífeyri í C 5. febrúar [2013].

Hvað varði lögmætisreglu íslensks stjórnskipunar- og stjórnsýsluréttar og að ákvarðanir stjórnvalda verði að eiga sér stoð í lögum, sé með engu móti hægt að fallast á þá fullyrðingu að ákvörðun Tryggingastofnunar um að synja kæranda um örorkumat hafi ekki lagastoð, feli í sér skerðingu réttinda eða framsal ákvörðunarvalds. Í þessu máli liggi ljóst fyrir að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 18. gr. almannatryggingalaga um að hafa verið búsettur hér á landi að minnsta kosti síðustu þrjú árin fyrir umsókn. Kærandi hafi sótt um örorkulífeyri 5. febrúar 2013 og þá hafi hann ekki verið búsettur á Íslandi frá 16 ára aldri og fram að þeim tíma þegar umsókn um örorkulífeyri hafi verið lögð fram. Synjun umsóknar byggi einfaldlega á því að kærandi uppfylli ekki skilyrði almannatryggingalaga fyrir örorkulífeyri hér á landi. Þar sem kærandi uppfylli ekki búsetuskilyrði 18. gr. laga um almannatryggingar eigi umsókn hans sér ekki lagastoð í íslenskum lögum. Þegar lagastoð skorti fyrir réttindum sé réttur einfaldlega ekki fyrir hendi og hvorki sé um að ræða skerðingu réttinda né framsal ákvörðunarvalds.

Varðandi fullyrðingar kæranda um að samkvæmt 4. mgr. 18. gr., sbr. 1. mgr. 17. gr. laga um almannatryggingar, skapist réttur við búsetu hér á landi og að ákvæðin séu afdráttarlaus ásamt því að í ákvæðinu segi ekkert um að ákvörðun annars ríkis á réttindum komi í veg fyrir eða gangi framar skýrum ákvæðum almannatrygginga, skuli bent á að bæði í 1. mgr. 18. gr. og 1. mgr 17. gr. laga um almannatryggingar sé vísað til I. kafla almannatryggingalaga en í þeim kafla sé einmitt að finna ákvæði 4. gr. um hverjir séu tryggðir samkvæmt lögunum. Því verði ekki fallist á fullyrðingar um að ákvæði 17. og 18. gr. almannatryggingalaga séu afdráttarlaus um að réttur skapist við búsetu hér á landi. Í ákvæðunum sé einmitt að finna tilvísun í að reglur milliríkjasamninga geti falið í sér reglur um undantekningar frá því að lögheimili í skilningi laga um lögheimili og aðsetur skapi tryggingaréttindi hér á landi.

Kærandi haldi því fram að óumdeilt sé að hann uppfylli skilyrði um búsetutíma hér á landi samkvæmt 18. gr. laga um almannatryggingar. Það sé rökstutt með því að sem ríkisborgari EES-ríkjanna sem áður hafi verið búsettur í C, öðru EES-ríki, leiði 6. gr. reglugerðar EB nr. 883/2004, sbr. einnig 2. mgr 68. gr. almannatryggingalaga, til þess að kærandi geti nýtt sér tryggingatímabil frá öðru EES-ríki til að öðlast bótarétt hér á landi, þó að hann fullnægi ekki lágmarksskilyrðum 18. gr. almannatryggingalaga. Því nægi kæranda að hafa verið búsettur hér á landi í eitt ár til að uppfylla búsetuskilyrðið samkvæmt 3. mgr. [7. gr.] reglugerðar nr. 463/1999. Hvað þetta varði skuli á það bent að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði 18. gr. almannatryggingalaga um þriggja ára búsetu hér á landi, hvorki fyrir umsókn sína í C þann 5. febrúar 2013 né eftir flutning sinn til Íslands þann x 2018.

Í 6. gr. EB reglugerðar nr. 883/2004 sé kveðið á um skilyrði fyrir því að einstaklingur öðlist bótarétt og að gildissvið löggjafar eða að aðgangur að tryggingu séu bundin því skilyrði að tryggingatímabilum sé lokið, skuli, að því marki sem nauðsynlegt sé, tekið tillit til tryggingatímabila sem sé lokið samkvæmt löggjöf annars aðildarríkis. Þetta ákvæði þýði að við afgreiðslu á umsókn um örorkulífeyri samkvæmt reglugerðinni sé hægt að líta til söfnunar og samlagningar tryggingatímabila sem sé lokið í öðru EES-landi áður en sótt hafi verið um bætur, eða með öðrum orðum áður en sótt hafi verið um örorkulífeyri. Í tilviki kæranda hafi þetta ákvæði átt við um kæranda ef hann hefði áunnið sér réttindi í öðru EES-landi en C áður en hann hafi sótt um örorkulífeyri 5. febrúar 2013 en möguleikum hans til söfnunar tryggingatímabila samkvæmt reglugerðinni hafi lokið þá. Kærandi geti því ekki byggt kröfu um örorkulífeyri vegna búsetu á Íslandi eftir flutning sinn hingað til lands x 2018 á þessu ákvæði.

Hvað varði tilvísun í 68. gr. almannatryggingalaga, það er það ákvæði almannatryggingalaga sem kveði á um heimild ríkisstjórnarinnar til að gera milliríkjasamninga við önnur ríki, þar á meðal EES-samninginn, sé ekki í því ákvæði kveðið á um að einstaklingur sem njóti örorkulífeyris frá öðru EES-landi geti flutt búsetu sína til Íslands og í framhaldi af því öðlast rétt til örorkulífeyris á grundvelli íslenskra laga. Í 2. mgr. 68. gr. sé að finna upptalningu á atriðum sem megi koma fram í slíkum milliríkjasamningi. Ákvæði reglugerðar EB nr. 883/2004 séu í fullu samræmi við þá upptalningu sem komi fram í 2. mgr. 68. gr. laga um almannatryggingar. Það eina sem raunverulega eigi við um kæranda í þeirri upptalningu sé að það sé í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar að kærandi eigi rétt á að fá örorkulífeyrisgreiðslur sínar áfram greiddar frá C á meðan hann búi á EES-svæðinu, þar á meðal á Íslandi, en það sé útflutningsregla EES-samningsins.

EES-samningurinn hafi gilt hér á landi frá 1. janúar 1994 á grundvelli laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið. Í 1. gr. laganna sé að finna heimild til fullgildingar samningsins og í 2. gr. sé kveðið á um að meginmál EES-samningsins hafi lagagildi hér á landi. Í 3. gr. laganna sé kveðið á um túlkun íslenskra laga í samræmi við EES-samninginn, en þar segi:

„Skýra skal lög og reglur, að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggja.“

Í III. hluta EES-samningsins sé fjallað um frjálsa fólksflutninga, frjálsa þjónustustarfsemi og frjálsa fjármagnsflutninga. Þar sé í 1. kafla fjallað um launafólk og sjálfstætt starfandi einstaklinga. Undir þann kafla falli 29. gr. þar sem segi:

„Til að veita launþegum og sjálfstætt starfandi einstaklingum frelsi til flutninga skulu samningsaðilar á sviði almannatrygginga, í samræmi við VI. viðauka, einkum tryggja launþegum og sjálfstætt starfandi einstaklingum og þeim sem þeir framfæra að:

  1. lögð verði saman öll tímabil sem taka ber til greina samkvæmt lögum hinna ýmsu landa til að öðlast og viðhalda bótarétti, svo og reikna fjárhæð bóta;
  2. bætur séu greiddar fólki sem er búsett á yfirráðasvæðum samningsaðila.“

Í 29. gr. EES-samningins sé þannig kveðið á um að samningsaðilar á sviði almannatrygginga skuli veita launþegum og sjálfstætt starfandi einstaklingum frelsi til flutninga og tryggja þeim samlagningu tryggingatímabila og að bætur séu greiddar fólki sem sé búsett á EES-svæðinu. Hvað lífeyrisþega varði feli þetta ákvæði í sér að hann eigi áfram rétt á lífeyrisgreiðslum í því landi þar sem hann hafi áunnið sér tryggingatímabil/lokið tryggingatímabilum fyrir upphaf lífeyrisgreiðslna þótt hann sé búsettur í öðru EES-landi. Ákvæðið feli ekki í sér að hann geti áunnið sér lífeyrisréttindi í öðru EES-landi á grundvelli búsetu þar á meðan hann fái greiddan lífeyri frá því landi þar sem hann hafi verið tryggður fyrir upphaf lífeyrisgreiðslna.

Í EB reglugerð nr. 883/2004 hafi ákvæði 29. gr. EES-samningsins verið víkkað út þannig að ekki sé lengur skilyrði að einstaklingur þurfi að vera launþegi eða sjálfstætt starfandi einstaklingur til að ávinna sér réttindi á grundvelli ákvæðisins, það er tryggingatímabil á grundvelli búsetu geti einnig fallið hér undir. Eins og ítrekað hafi verið rökstutt í greinargerðum Tryggingastofnunar feli þessi útvíkkun á gildissviði ákvæðisins ekki í sér að lífeyrisþegi geti flutt til annars EES-lands og sótt um lífeyri þar á grundvelli búsetu sinnar þar eftir að hann hafi hafið lífeyristöku í fyrra búsetulandi.

Í 7. gr. reglugerðar nr. 463/1999 sé kveðið á um samlagningu tryggingatímabila í öðrum samningslöndum að því marki sem nauðsynlegt sé til að fullnægja skilyrðum almannatrygginga varðandi tryggingu og í 3. mgr. sé kveðið á um að til að öðlast rétt til elli-, örorku- eða barnalífeyris skuli lágmarkstryggingatímabil á Íslandi þó ávallt vera eitt ár. Kærandi uppfylli ekki 7. gr. reglugerðar þessarar þar sem hann hafi ekki verið búsettur/tryggður á Íslandi eftir að hann varð 16 ára og fram til þess að hann hafi sótt um örorkulífeyri í C 5. febrúar 2013. Þannig eigi 3. mgr. 7. gr. ekki við um kæranda í máli þessu.

Í ákvæðum reglugerðar EB nr. 883/2004 sé kveðið á um að einstaklingur sem hafi áunnið sér réttindi njóti samlagningarreglna á grundvelli ávinnslutíma sem hann hafi lokið við ákvörðun réttinda, þar á meðal örorkulífeyris. Þar sé ekki að finna nein ákvæði sem kveði á um að einstaklingur sem njóti lífeyrisréttinda frá EES-landi eigi rétt á að flytja til annars EES-lands og ávinna sér viðbótarréttindi þar á grundvelli búestu. Synjun á lífeyrisgreiðslum til einstaklings sem þegar njóti lífeyrisréttinda frá EES-landi sem hann hafi byrjað að fá á meðan hann hafi verið búsettur í öðru EES-landi og reiknist út frá þeim tryggingatímabilum sem hann hafi lokið við upphaf lífeyrisgreiðslna, sé í fullu samræmi við reglugerðina.

Kærandi sé fæddur x og hafi flutt til Íslands x 2018. Ef honum væri reiknaður til réttinda allur tíminn frá flutningi hingað til lands og til 67 ára aldurs hans, sem eigi ekki við þar sem búsetutengdur örorkulífeyrir hans í C feli í sér fullan framreikning til ellilífeyrisaldurs þar í landi, myndi það gera x ár og tvo og hálfan mánuð, eða x ár af þeim 40 árum sem þurfi til að fá fullan örorkulífeyri. Kærandi fengi þannig samkvæmt almannatryggingalögum reiknaðan 60,53% örorkulífeyri. Samtals væru 60,53% örorkulífeyrisgreiðslur ásamt tengdum bótaflokkum samkvæmt almannatryggingalögum því 131.301 kr. á mánuði ef ekki væri einnig um tekjuskerðingu að ræða. Fullar örorkulífeyrisgreiðslur í C séu x kr. fyrir þá sem séu 30 ára og eldri samkvæmt upplýsingum á heimasíðu E og gengi C krónunnar sé um x íslenskar krónur samkvæmt gengisskráningu Seðlabanka Íslands, eða um 150.540 íslenskar krónur. Örorkulífeyrisgreiðslur kæranda frá C séu þannig hærri en örorkulífeyrisgreiðslur á grundvelli almannatryggingalaga. Hann ætti því ekki rétt á að fá greiddan örorkulífeyri hér á landi á grundvelli almannatryggingalaga og þar með væri ekki heimilt að greiða honum bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð en greiðsla þeirra sé eingöngu heimil ef um örorkulífeyrisgreiðslur sé að ræða samkvæmt almannatryggingalögum.

Hvað varði 68. gr. laga um almannatryggingar skuli bent á að það ákvæði kveði á um heimild fyrir ríkisstjórnina til að gera milliríkjasamninga við erlend ríki um ívilnandi heimildarákvæði en það eigi ekki við þegar grundvöllur fyrir ívilnun sé ekki fyrir hendi. Kærandi uppfylli einfaldlega ekki lágmarksskilyrði til þess að njóta lífeyrisréttinda hér á landi á grundvelli EES-samningins þar sem hann hafi ekki áunnið sér tryggingatímabil hér á landi í að minnsta kosti eitt ár áður en hann hafi sótt um örorkulífeyri 5. febrúar 2013. Hans lífeyrisréttur sé til staðar og hafi verið viðurkenndur í C og á grundvelli ívilnandi reglna EES-samningsins og reglugerðar EB nr. 883/2004 sé honum heimilt að búa í öðru samningslandi, til dæmis Íslandi, og fá áfram lífeyrisgreiðslur frá C. Auk þess sé honum heimilt að njóta þjónustu heilbrigðiskerfis búsetulandsins sem lífeyrisþegi í öðru EES-landi. Hann eigi á hinn bóginn ekki rétt á að teljast tryggður hér á landi með sama hætti og einstaklingur sem sé að ávinna sér tryggingatímabil hér á landi.

Í þessu sambandi skuli bent á ákvæði reglugerðar um framkvæmd almannatrygginga og skráningu í tryggingaskrá nr. 463/1999. Við skoðun á ákvæðum reglugerðar þessarar beri að hafa í huga að í henni sé kveðið á um tryggingaréttindi hér á landi á grundvelli almannatryggingalaga sem hafi verið í gildi á árinu 1999 og réttindi sem nú falli undir lög nr. 112/2008 um sjúkratryggingar. Þar sé því kveðið á um að Tryggingastofnun ríkisins annist verkefni sem heyri undir Sjúkratryggingar Íslands í dag.

Í 1. og 2. gr. reglugerðarinnar sé kveðið á um að haldin sé tryggingaskrá þar sem fram komi hvar einstaklingar séu tryggðir, tímabil tryggingar og grundvöllur skráningar. Ef um réttindi sé að ræða á grundvelli alþjóðasamninga eða milliríkjasamninga eigi að skrá það í tryggingaskrá og einnig staðfestingar og aðrar ákvarðanir um réttindi einstaklings. Tilgangur tryggingaskrár sé þannig að halda utan um tryggingaréttindi einstaklinga sem feli í sér frávik frá skráningu í Þjóðskrá. Í 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar sé kveðið á um tilkynningarskyldu einstaklinga sem flytji til landsins. Einstaklingar sem flytji hingað til lands frá öðru EES-landi og framvísi vottorði um tryggingatímabil frá erlendri tryggingastofnun, geti þannig fengið undanþágu frá skilyrði um sex mánaða búsetu hér á landi, sbr. 10. gr. laga um sjúkratryggingar. Ef einstaklingar séu þegar lífeyrisþegar í öðru EES-landi við flutning hingað til lands eigi þeir ekki að vera sjúkratryggðir hér á landi og eigi ekki að afla sér tryggingaréttinda, en þeir eigi rétt á þjónustu heilbrigðiskerfisins.

Einstaklingur sem fái lífeyrisgreiðslur frá öðru EES-landi eigi í samræmi við reglugerð nr. 463/1999 og 1. og 4. mgr. 10. gr. laga um sjúkratryggingar að upplýsa Sjúkratryggingar Íslands um að hann njóti réttinda í öðru EES-landi, þ.e. hann eigi að framvísa S1 vottorði þar sem upplýsingar um tryggingaréttindi hans erlendis komi fram. Á grundvelli vottorðsins yrðu upplýsingar um tryggingaréttindi hans erlendis skráðar í tryggingaskrá. Hann væri þá ekki sjúkratryggður hér á landi en ætti rétt á þjónustu heilbrigðiskerfisins á grundvelli þess að hann væri tryggður sem lífeyrisþegi í öðru EES-landi.

Það að kærandi hafi farið inn á “Mínar síður“ og prentað út að hann sé sjúkratryggður hér á landi og staða hans sé almenn staða, sýni að honum hafi farist fyrir að framvísa vottorði um tryggingaréttindi sín í C og þannig í raun gefið rangar upplýsingar. Röng upplýsingagjöf veiti honum ekki rétt til að vera sjúkratryggður hér á landi og hafi ekki í för með sér að hann ávinni sér tryggingaréttindi hér á landi.

Eins og þegar hafi komið fram hafi málavextir í máli nr. 191/2017 ekki verið sambærilegir málavöxtum í þessu máli. Í því máli hafi ekki verið um að ræða staðfestingu á því að kærandi í því máli væri að fá lífeyrisgreiðslur frá fyrra búsetulandi og Tryggingastofnun hafi synjað um lífeyrisgreiðslur á grundvelli upplýsinga frá kæranda í umsókn, en hefði ekki séð til þess að upplýst væri hvort kærandi væri að fá örorkubætur frá fyrra búetulandi og hversu lengi hann hafi verið búsettur þar þegar ákvörðun hafi verið tekin í málinu.

Hvað varði tilvísun í 44. gr. reglugerðar EB nr. 883/2004 virðist hafa komið upp misskilningur um hvað það ákvæði feli í sér. Í greinargerð Tryggingastofnunar virðist hafa verið vísað til þessa ákvæðis til að sýna fram á að almennt sé sú löggjöf, sem einstaklingur falli undir þegar óvinnufærni hafi leitt til örorku, sú löggjöf sem greiðsla bóta til hans grundvallist á. Eins og 1. mgr. 44. gr. beri með sér sé í reglugerðinni gerður greinarmunur annars vegar á „A-löggjöf“, það er löggjöf sem kveði á um að fjárhæð örorkubóta sé óháð lengd trygginga- eða búsetutímabila og sem lögbært aðildarríki tilgreini sérstaklega í VI. viðauka við reglugerðina og hins vegar „B-löggjöf“ sem merki alla aðra löggjöf.

Þar sem 18. gr. almannatryggingalaga byggi á því að fjárhæð örorkubóta miðist við lengd búsetutíma á Íslandi sé augljóslega ekki um „A-löggjöf“ að ræða hér á landi. Sama eigi við um örorkulífeyrisgreiðslur kæranda í C. Ákvæði 2. mgr. 44. gr. um réttindi einstaklings sem hafi eingöngu lokið trygginga- eða búsetutímabilum samkvæmt „A-löggjöf“ eigi því ekki við um kæranda og úrskurðarnefndin virðist því miður ekki hafa áttað sig á því að í máli nr. 191/2017 hafi tilvísun í 44. gr. reglugerðarinnar ekki átt við.

Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 9. júní 2021, segir að synjun umsóknar byggi einfaldlega á því að kærandi uppfylli ekki skilyrði almannatryggingalaga fyrir örorkulífeyri hér á landi. Tryggingastofnun biðjist velvirðingar á því að í fyrri greinargerð stofnunarinnar hafi komið fram að umsóknin hefði ekki lagastoð, en í greinargerðinni hafi verið átt við að í lögum sé ekki lagastoð fyrir þeim réttindum sem farið var fram á í umsókninni.

Hvað varði þá fullyrðingu um að í greinargerð Tryggingastofnunar sé því haldið fram að útflutningsregla EES-samningsins feli ekki í sér að lífeyrisþegi geti áunnið sér lífeyrisréttindi í öðru EES-landi á grundvelli búsetu, eigi útflutningsreglan einfaldlega ekki við um ávinnslu réttinda eftir upphaf lífeyristöku. Hvað varði þá fullyrðingu um að kærandi hafi aldrei verið upplýstur um eða leiðbeint um að framvísa S1 vottorði eða öðru vottorði en E-104 (S041-vottorði) hjá Sjúkratryggingum Íslands, skuli bent á að ekki hvíli leiðbeiningarskylda á Tryggingastofnun ríkisins um sjúkratryggingavottorð vegna einstaklinga sem flytji á milli EES-landa.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 3. júní 2020 þar sem umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur var synjað. Ljóst er að umsókninni var í reynd synjað á þeim grundvelli að búsetuskilyrði væru ekki uppfyllt, þrátt fyrir að sú synjunarástæða hafi ekki verið tilgreind í hinni kærðu ákvörðun. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort Tryggingastofnun hafi verið heimilt að synja kæranda um örorkulífeyri á þeim grundvelli að búsetuskilyrði væru ekki uppfyllt.

Ákvæði um örorkulífeyri er að finna í 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum. Ákvæði 1. og 4. mgr. 18. gr. laganna hljóða svo:

„Rétt til örorkulífeyris eiga þeir sem hafa verið búsettir á Íslandi, sbr. I. kafla, eru 18 ára eða eldri en hafa ekki náð ellilífeyrisaldri, sbr. 17. gr. og:

    a. hafa verið búsettir á Íslandi a.m.k. þrjú síðustu árin áður en umsókn er lögð fram eða í sex mánuði ef starfsorka var óskert er þeir tóku hér búsetu,

    b. eru metnir til a.m.k. 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar.“

[...]

Fullur örorkulífeyrir skal vera 478.344 kr. á ári. Við ákvörðun búsetutíma, sbr. 1. mgr. 17. gr., skal reikna með tímann fram til ellilífeyrisaldurs umsækjanda, sbr. 17. gr.“

Í 1. mgr. 17. gr. laga um almannatryggingar, sem vísað er til í 4. mgr. 18. gr. laganna, segir:

„Rétt til ellilífeyris öðlast þeir sem náð hafa 67 ára aldri og hafa verið búsettir hér á landi, sbr. I. kafla, a.m.k. þrjú almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Full réttindi ávinnast með búsetu hér á landi í a.m.k. 40 almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Sé um skemmri tíma að ræða reiknast réttur til ellilífeyris í hlutfalli við búsetutímann. Heimilt er þó að miða lífeyri hjóna, sem bæði fá ellilífeyri, við búsetutíma þess sem á lengri réttindatíma.“

Samkvæmt 1. mgr. 68. gr. laga um almannatryggingar er ríkisstjórninni heimilt að semja við erlend ríki um gagnkvæm réttindi og skyldur samkvæmt lögum þessum og ráðherra að semja við erlendar tryggingastofnanir í samningsríkjum um nánari framkvæmd slíkra samninga. Í þeim má meðal annars veita undanþágur frá ákvæðum laganna og heimila takmarkanir á beitingu þeirra. Þá segir meðal annars svo í 2. mgr. 68. gr. laganna:

„Í samningum skv. 1. mgr. má m.a. kveða á um að búsetu-, atvinnu- eða tryggingatímabil í öðru samningsríki skuli talin jafngilda búsetutíma á Íslandi. Enn fremur er heimilt að kveða þar á um rétt til bótagreiðslna við búsetu í öðru samningsríki, jafnræði við málsmeðferð, skörun bóta og hvaða löggjöf skuli beita.“

Í 71. gr. sömu laga segir:

„Ráðherra er heimilt að innleiða með reglugerð almannatryggingareglur Evrópusambandsins eins og þær eru felldar inn í viðauka VI við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993, með síðari breytingum, sbr. einnig ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 76/2011 frá 1. júlí 2011 sem fellir undir samninginn reglugerðir Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004, um samræmingu almannatryggingakerfa, með síðari breytingum, og nr. 987/2009 um framkvæmd hennar.“

Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 um samræmingu almannatryggingakerfa var innleidd í íslenskan rétt með 1. gr. reglugerðar nr. 442/2012 um gildistöku reglugerða Evrópusambandsins um almannatryggingar. Í 1. mgr. 50. gr. reglugerðarinnar segir að þegar lögð hafi verið fram beiðni um úthlutun bóta skuli allar til þess bærar stofnanir ákvarða rétt til bóta samkvæmt sérhverri þeirri löggjöf í aðildarríkjunum sem viðkomandi einstaklingur hefur heyrt undir, nema viðkomandi einstaklingur fari sérstaklega fram á frestun bóta vegna elli samkvæmt löggjöf eins eða fleiri aðildarríkja. Í 2. mgr. segir að ef hlutaðeigandi einstaklingur fullnægir ekki eða fullnægir ekki lengur skilyrðum sérhverrar þeirrar löggjafar í aðildarríkjunum sem hann hefur heyrt undir skuli stofnanir, sem beita löggjöf þar sem skilyrði eru uppfyllt, ekki taka tillit til tímabila, sem lokið er samkvæmt löggjöf þar sem skilyrði hafa ekki verið uppfyllt eða eru ekki lengur uppfyllt, við útreikninginn í samræmi við a-lið og b-lið 1. mgr. 52. gr., ef það hefur í för með sér lægri bótafjárhæð.

Í 1. mgr. 52. gr. segir eftirfarandi:

„Þar til bær stofnun reiknar fjárhæð þeirra bóta sem skulu greiddar:

a)    samkvæmt löggjöfinni sem hún starfar eftir því aðeins að skilyrðum fyrir bótarétti hafi verið fullnægt eingöngu samkvæmt landslögum (sjálfstæðar bætur)

b)    með því að reikna út fræðilega fjárhæð og síðan raunverulega fjárhæð (hlutfallslegar bætur) á eftirfarandi hátt:

i      fræðileg fjárhæð bóta jafngildir þeim bótum sem viðkomandi gæti krafist ef öllum trygginga- og/eða búsetutímabilum, sem hann hefur lokið samkvæmt löggjöf hinna aðildarríkjanna, hefði verið lokið samkvæmt þeirri löggjöf sem stofnunin starfar eftir á þeim degi þegar bótum er úthlutað. Ef fjárhæðin er, samkvæmt þeirri löggjöf, óháð lengd lokinna tímabila skal litið svo á að hún sé fræðilega fjárhæðin,

ii     þar til bær stofnun skal síðan ákvarða raunverulega fjárhæð hlutfallslegu bótanna með því að reikna af fræðilegri fjárhæð hlutfallið milli lengdar tímabila sem lokið var áður en áhættan kom fram samkvæmt löggjöfinni sem hún starfar eftir og heildarlengdar tímabila sem lokið var áður en áhættan kom fram samkvæmt löggjöf allra hlutaðeigandi aðildarríkja.“

Samkvæmt framangreindu koma fullar greiðslur örorkulífeyris aðeins til álita þegar um búsetu á Íslandi í að minnsta kosti 40 almanaksár er að ræða frá 16 til 67 ára aldurs. Ef um skemmri búsetu er að ræða greiðist örorkulífeyrir í hlutfalli við búsetutímann. Aðferðin við útreikning á búsetuhlutfalli örorkulífeyrisþega kemur ekki skýrt fram í lögum. Í framkvæmd hefur útreikningurinn tekið mið af því hversu lengi viðkomandi hefur búið á Íslandi frá 16 ára aldri fram að upphafi fyrsta örorkumats. Í kjölfar álits umboðsmanns Alþingis í máli nr. 8955/2016 hefur búsetutíminn frá upphafi örorkumats fram að 67 ára aldri síðan ýmist verið framreiknaður í sama hlutfalli og tímabilið frá 16 ára aldri til upphafs örorkumats, eða þannig að tíminn teljist til búsetu á Íslandi eftir atvikum. Í áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 8955/2016 gerði umboðsmaður athugasemdir við fyrri framkvæmd Tryggingastofnunar við útreikning á framreikningi. Einnig gerði umboðsmaður athugasemdir við að ekki væri skýrlega mælt fyrir um það í lögum hvernig reikna eigi út búsetuhlutfall í tilviki örorkulífeyrisþega. Engar athugasemdir voru aftur á móti gerðar við þá aðferð að miða útreikninginn við hversu lengi viðkomandi hefur búið á Íslandi frá 16 ára aldri fram að upphafi fyrsta örorkumats. Úrskurðarnefnd velferðarmála og forveri nefndarinnar, úrskurðarnefnd almannatrygginga, hefur staðfest þá útreikningsaðferð í fjöldamörgum úrskurðum.  

Fyrir liggur að kærandi þiggur örorkulífeyrisgreiðslur frá C. Samkvæmt upplýsingum úr Þjóðskrá var kærandi búsettur í C frá x til x 2018 þegar hann flutti lögheimili sitt til Íslands. Kærandi hefur ekki gert athugasemd við framangreinda lögheimilisskráningu. Samkvæmt gögnum málsins sótti kærandi um örorkulífeyri með umsókn, dags. 5. febrúar 2013. Með örorkumati, dags. 6. júní 2013, var kærandi talinn uppfylla læknisfræðileg skilyrði örorkumats og gildistími ákvarðaður frá 1. mars 2013 til 30. júní 2016. Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 2. júlí 2013, var kæranda synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur á þeim grundvelli að búsetuskilyrði laga nr. 100/2007 um almannatryggingar og EB reglugerðar nr. 883/2004 væru ekki uppfyllt.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar er það skilyrði fyrir greiðslu örorkulífeyris að umsækjandi hafi verið búsettur á Íslandi í að minnsta kosti þrjú ár áður en umsókn er lögð fram, eða í sex mánuði ef starfsorka var óskert þegar hann tók búsetu hér á landi. Búseta í öðrum aðildarríkjum EES-samningsins getur einnig komið til skoðunar þegar metið er hvort búsetuskilyrði 18. gr. laga um almannatryggingar sé uppfyllt, sbr. 68. gr. laga um almannatryggingar og 6. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 um samræmingu almannatryggingakerfa. Þó þarf viðkomandi að minnsta kosti að hafa verið búsettur á Íslandi í eitt ár til þess að öðlast rétt til örorkulífeyris, sbr. 3. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 463/1999 um framkvæmd almannatrygginga og skráningu í tryggingaskrá og 1. mgr. 57. gr. reglugerðar nr. 883/2004.

Ljóst er samkvæmt framangreindu að kærandi uppfyllti ekki búsetuskilyrði þegar hann sótti um örorkulífeyri á árinu 2013, enda hafði hann ekki verið búsettur á Íslandi frá 16 ára aldri fram að þeim tíma. Eins og áður hefur komið fram hefur framkvæmdin verið sú að miða útreikning á búsetuhlutfalli við hversu lengi viðkomandi hefur búið á Íslandi frá 16 ára aldri fram að upphafi fyrsta örorkumats. Raunveruleg búsetutímabil eftir upphaf fyrsta örorkumats koma því ekki til skoðunar við mat á búsetuhlutfalli. Í því felst að viðkomandi einstaklingar geta hvorki öðlast né tapað réttindum með búsetu á Íslandi eða utan þess. Í tilviki kæranda hefur framkvæmdin þau áhrif að hann öðlast ekki rétt til örorkulífeyris á grundvelli búsetu eftir upphafstíma örorkumats hans frá 6. júní 2013, þ.e. eftir 1. mars 2013. Því er ekki litið til búsetutíma kæranda eftir að hann flutti til Íslands x 2018 við mat á því hvort búsetuskilyrði séu uppfyllt.

Úrskurðarnefndin telur bagalegt að aðferðin við útreikning á búsetuhlutfalli örorkulífeyrisþega komi ekki skýrt fram í lögum. Ákveðin venja hefur aftur á móti myndast um framkvæmdina sem á jafnt við um alla. Úrskurðarnefndin telur því ekki tilefni til að gera athugasemd við þá niðurstöðu Tryggingastofnunar að kærandi uppfylli ekki búsetuskilyrði fyrir greiðslum örorkulífeyris.                    

Kærandi gerir athugasemdir við að rökstuðningur Tryggingastofnunar ríkisins frá 17. ágúst 2020 uppfylli ekki kröfur 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga skal í rökstuðningi vísa til þeirra réttarreglna sem ákvörðun stjórnvalds er byggð á. Að því marki, sem ákvörðun byggist á mati, skal í rökstuðningnum greina frá þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi voru við matið. Ljóst er að ekki er vísað til viðeigandi lagaákvæða í rökstuðningi stofnunarinnar. Þegar af þeirri ástæðu uppfyllir rökstuðningur stofnunarinnar ekki þær kröfur sem gerðar eru til efni rökstuðnings í 22. gr. stjórnsýslulaga. Úrskurðarnefndin telur þó ekki rétt að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi með vísan til framangreinds, enda hefur rökstuðningur Tryggingastofnunar fyrir ákvörðuninni nú komið fram í greinargerðum til nefndarinnar.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að mál þetta sé ekki sambærilegt við kærumál nr. 191/2017 líkt og kærandi byggir á, enda hafði kærandi í viðkomandi máli ekki sótt um örorkulífeyri á Íslandi áður.

Með hliðsjón af framangreindu er synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur staðfest.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja umsókn A um örorkulífeyri og tengdar greiðslur, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira