Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 371/2022-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 371/2022

Fimmtudaginn 17. nóvember 2022

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 21. júlí 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 20. júlí 2022, um að fella niður rétt hennar til atvinnuleysisbóta í þrjá mánuði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 23. júní 2021. Í maí 2022 hóf kærandi störf hjá B og fékk fyrirtækið styrk úr Atvinnuleysistryggingasjóði vegna ráðningar kæranda. Í júní 2022 var kæranda sagt upp störfum hjá fyrirtækinu og óskaði hún þá eftir atvinnuleysisbótum á ný. Með ákvörðun, dags. 20. júlí 2022, var kæranda tilkynnt að með vísan til starfsloka hennar hjá fyrrum vinnuveitanda væri bótaréttur hennar felldur niður í þrjá mánuði á grundvelli 54. gr. og 61. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Í kjölfar skýringa kæranda á starfslokum hjá B var mál hennar tekið fyrir að nýju. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 10. ágúst 2022, var kæranda tilkynnt að fyrri ákvörðun væri staðfest. Mál kæranda var aftur tekið til endurskoðunar vegna nýrra gagna og með bréfi, dags. 15. ágúst 2022, var kæranda aftur tilkynnt að fyrri ákvörðun væri staðfest þar sem hún hefði að geyma efnislega rétta niðurstöðu.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 21. júlí 2022. Með bréfi, dags. 16. ágúst 2022, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Sú beiðni var ítrekuð 14. september og 11. október 2022. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 13. október 2022 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar samdægurs og aftur 20. október 2022. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hún hafi gert ráðningarsamning við B með ráðningarstyrk frá Vinnumálastofnun. Hún hafi unnið fyrir B frá 7. maí til 6. júní 2022. B hafi ekki staðið við samningsskuldbindingar sínar varðandi starfið sjálft, vinnutímann, frídaga og hvíldartíma. Eftir að kærandi hafi farið fram á að fyrirtækið myndi standa við skuldbindingar sínar hafi henni verið sagt upp. Tölvupóstsamskipti á milli kæranda og fyrirtækisins staðfesti framangreint.

Kærandi hafi strax upplýst Vinnumálastofnun um breyttar vinnuaðstæður en hafi ekki fengið neitt svar. Kærandi greinir frá samskiptum sínum við Vinnumálastofnun og gerir athugasemdir við vinnubrögð stofnunarinnar.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur þann 23. júní 2021. Þann 11. júlí 2022 hafi stofnunin óskað eftir staðfestingu á starfstímabili frá B. Umbeðin gögn hafi ekki borist stofnuninni og með erindi, dags. 20. júlí 2022, hafi kæranda verið birt ákvörðun stofnunarinnar um að umsókn hennar hefði verið synjað. Í framhaldinu hafi vottorð vinnuveitanda, B, borist stofnuninni. Samkvæmt vinnuveitandavottorði hafi ástæða starfsloka kæranda verið uppsögn atvinnurekanda. Í vottorði vinnuveitanda hafi jafnframt komið fram að samskiptavandi hafi verið skýring á starfslokum kæranda.

Með erindi, dags. 20. júlí 2022, hafi kæranda verið birt ákvörðun stofnunarinnar um að fella niður rétt hennar til bóta í þrjá mánuði á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar, sbr. einnig 1. mgr. 61. gr. laganna, þar sem hún hafi verið völd að eigin uppsögn.

Þann 5. ágúst 2022 hafi stofnunin frestað afgreiðslu umsóknar kæranda. Ástæðan hafi verið sú að skýringar kæranda varðandi starfslok hennar hjá B hafi gefið tilefni til að óska eftir frekari upplýsingum og því hafi kæranda verið veittur frestur til að koma að frekari athugasemdum. Þann 8. ágúst 2022 hafi skýringar kæranda borist þar sem fram komi meðal annars að B hafi ekki virt ráðningarsamning þeirra á milli, meðal annars rétt kæranda til þess að taka matarhlé og aðrar samningsbundnar skyldur sínar. Auk þess hafi kærandi verið ein á vöktum undir miklu álagi yfir sumartímann. Mál kæranda hafi verið tekið til umfjöllunar að nýju eftir að skýringarbréf hafi borist frá kæranda. Mat stofnunarinnar hafi verið að skýringar kæranda á ástæðum starfsloka teldust ekki gildar í skilningi laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Með bréfi, dags. 8. ágúst 2022, hafi kæranda verið tilkynnt sú ákvörðun Vinnumálastofnunar að samþykkja umsókn hennar um atvinnuleysisbætur en með vísan til starfsloka hjá B hafi réttur kæranda til atvinnuleysisbóta verið felldur niður í þrjá mánuði sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir. Ákvörðunin um niðurfellingu bótaréttar hafi verið tekin á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Sama dag hafi stofnuninni borist ný gögn frá kæranda, tölvupóstsamskipti á milli hennar og Stéttarfélagsins Framsýnar. Með bréfi, dags. 10. ágúst 2022, hafi mál kæranda verið tekið fyrir með tilliti til nýrra gagna. Mat stofnunarinnar hafi verið að staðfesta bæri fyrri niðurstöðu frá 8. ágúst 2022 þar sem sú ákvörðun hefði að geyma rétta niðurstöðu, þrátt fyrir að ný gögn hefðu borist. Mál kæranda hafi verið tekið upp að nýju, dags. 15. ágúst 2022, með tilliti til frekari gagna og aftur hafi það verið mat stofnunarinnar að staðfesta bæri fyrri ákvörðun í málinu frá 20. júlí 2022.

Tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem tryggðir séu og misst hafi fyrra starf sitt tímabundna fjárhagsaðstoð í þrengingum sínum. Lögin veiti þeim fjárhagslegt úrræði og beri að gera ríkar kröfur til þeirra sem segi upp störfum sínum um að hafa til þess gildar ástæður samkvæmt lögunum, enda eigi almennt ekki að þiggja atvinnuleysisbætur í stað þess að gegna launuðu starfi. Hið sama gildi um þann sem missi starf sitt af ástæðum sem hann eigi sjálfur sök á.

Í 54. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar segi:

„Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem missir starf sitt af ástæðum sem hann sjálfur á sök á. Hinn tryggði skal uppfylla skilyrði laga þessara á biðtímanum skv. 1. mgr.“

Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar sé það áréttað að eitt af markmiðum vinnumarkaðskerfisins sé að stuðla að virkri atvinnuþátttöku fólks. Í athugasemdum við 1. mgr. 54. gr. í greinargerð með frumvarpi því sem varð að gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar sé vísað til þess að það væri erfiðleikum bundið að skilgreina nákvæmlega í lögum og reglugerðum hvaða ástæður sem liggi að baki ákvörðun þess að fólk segi störfum sínum lausum eða missi starf sitt séu gildar þar sem þær ástæður geti verið af margvíslegum toga. Því hafi verið lagt til að lagareglan væri matskennd og Vinnumálastofnun falið að meta atvik og aðstæður hverju sinni. Stofnuninni beri að líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða við ákvarðanir um hvort umsækjendur um atvinnuleysisbætur skuli sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

Ágreiningur snúist um það hvort skýringar kæranda vegna starfsloka hennar teljist gildar í skilningi framangreinds ákvæðis. Orðalagið „gildar ástæður“ hafi verið túlkað þröngt og fá tilvik verið talin falla þar undir.

Ljóst sé að starfssamningi kæranda við B hafi verið rift. Kæranda hafi verið sagt upp hjá B meðal annars vegna erfiðra samskipta á milli kæranda og vinnuveitanda. Í vottorði vinnuveitanda komi fram að vinnuveitandi hafi talið kæranda kröfuharða og kærandi hafi hótað honum á öðrum degi að hún myndi segja upp ef ekki yrði farið eftir hennar sérþörfum. Samkvæmt vinnuveitanda hafi kærandi mætt með áfengi í vinnu eftir að uppsögn hafi verið birt kæranda og hún hafi ekki unnið uppsagnarfrestinn. Kærandi segi sjálf að henni hafi verið sagt upp störfum, meðal annars vegna þess að vinnuveitandi hafi ekki virt réttindi hennar og að ráðningarsamningur hennar hafi ekki verið virtur.

Við mat á því hvort umsækjandi um atvinnuleysistryggingar skuli sæta viðurlögum á grundvelli 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar beri Vinnumálastofnun að líta til þess hvort viðkomandi hafi misst starf sitt af ástæðum sem hann eigi sjálfur sök á.

Það sé mat Vinnumálastofnunar að kærandi skuli sæta þriggja mánaða biðtíma eftir greiðslum atvinnuleysisbóta. Stofnunin telji að skilyrði 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar séu uppfyllt að því leyti að sú atburðarrás sem hafi leitt til uppsagnar kæranda réttlæti það að henni sé gert að sæta biðtíma.

Niðurstaða Vinnumálastofnunar sé sú að kærandi skuli sæta biðtíma í þrjá mánuði frá ákvörðunardegi, sbr. 1. mgr. 54. gr., sbr. einnig 1. mgr. 61. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í þrjá mánuði á grundvelli 1. mgr. 54. gr., sbr. 1. mgr. 61. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Ákvæði 1. mgr. 54. gr. laganna er svohljóðandi:

„Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur, sbr. þó 4. mgr. Hið sama gildir um þann sem missir starf af ástæðum sem hann á sjálfur sök á.“

Óumdeilt er að kæranda var sagt upp störfum hjá B en ágreiningur málsins lýtur að því hvort hún hafi sjálf átt sök á uppsögninni. Í athugasemdum við 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006 í frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar kemur fram að það sé erfiðleikum bundið að takmarka þau tilvik sem geti talist til gildra ástæðna í lögum og reglugerðum þar sem ástæður þess að fólk segi störfum sínum lausum eða missi þau geti verið af margvíslegum toga. Því sé lagt til að lagareglan verði áfram matskennd og Vinnumálastofnun falið að meta atvik og aðstæður hverju sinni. Stofnuninni beri að líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða við ákvarðanir um hvort umsækjendur um atvinnuleysisbætur skuli sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Jafnframt er bent á að um íþyngjandi ákvörðun sé að ræða.

Í skýringum fyrrum vinnuveitanda kæranda til Vinnumálastofnunar kemur fram að ástæða uppsagnar hafi verið samskiptavandi. Kærandi hafi verið kröfuhörð og hótað að hætta ef ekki væri farið að hennar óskum. Jafnframt hafi viðskiptavinir forðast að mæta í búðina vegna afgreiðslu kæranda. Kærandi hafi ekki unnið uppsagnarfrestinn.

Kærandi hefur vísað til þess að fyrirtækið hafi ekki staðið við samningsskuldbindingar sínar varðandi starfið sjálft, vinnutímann, frídaga og hvíldartíma. Eftir að kærandi hafi farið fram á að fyrirtækið myndi standa við skuldbindingar sínar hafi henni verið sagt upp.

Eins og fram hefur komið er ákvörðun um að umsækjandi skuli sæta biðtíma íþyngjandi ákvörðun. Að mati úrskurðarnefndarinnar verður því að gera þær kröfur að fyrirliggjandi gögn bendi eindregið til þess að rétt sé að beita því úrræði vegna atvika sem umsækjandi á sjálfur sök á. Úrskurðarnefndin getur ekki fallist á mat Vinnumálastofnunar um að kærandi hafi sjálf borið ábyrgð á uppsögninni. Gögn málsins bera með sér að um samskiptavanda hafi verið að ræða vegna ýmissa málefna sem ekki verður séð að kærandi ein beri ábyrgð á.

Með vísan til þess og framangreindra sjónarmiða er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í þrjá mánuði því felld úr gildi.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 20. júlí 2022, um að fella niður rétt A, til atvinnuleysisbóta í þrjá mánuði, er felld úr gildi.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira