Hoppa yfir valmynd

Úrskurður í stjórnsýslumáli

Ár 2021, þriðjudaginn 24. ágúst, var kveðinn upp í mennta- og menningarmálaráðuneytinu svofelldur

 

ÚRSKURÐUR

í stjórnsýslumáli nr. MMR21010209

I.

Kæra, kröfur og kæruheimild

Mennta- og menningarmálaráðuneytinu barst hinn 21. janúar 2021, erindi A (hér eftir nefndur „kærandi“). Ráðuneytið aflaði upplýsinga með tölvupósti dags., 25. janúar 2021, hvort kærandi vildi að litið væri á erindið sem stjórnsýslukæru á grundvelli 47. gr. laga um grunnskóla, nr. 91/2008 (hér eftir nefnd grunnskólalög). Kærandi svaraði, dags. 26. janúar, að hann vildi að litið væri á erindið sem kæru. Kærð er ákvörðun sveitarfélagsins B að víkja barni úr grunnskóla, dags. 8. janúar 2021.

Kærandi krefst þess að ákvörðun sveitarfélagsins verði felld úr gildi.

Hið kærða stjórnvald krefst þess að stjórnsýslukæru verði vísað frá á þeim grundvelli að umrædd stjórnvaldsákvörðun hafi ekki verið tekin.

Kæruheimild vegna umræddrar ákvörðunar í fyrirliggjandi máli er að finna í 47. gr. grunnskólalaga, sbr. 26. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

II.

Málsatvik

Barn kæranda var nemandi í x. bekk grunnskóla C í sveitarfélaginu B þar sem það var í sérúrræði. Umrætt sérúrræði fólst meðal annars í því að barnið var sett í hvíldarherbergi sem er að sögn kæranda skúringakompa án glugga og nokkurra hluta. Kærandi varð vitni að alvarlegum atvikum í skólanum þann 16. september 2020 sem leiddu til þess að lögð var fram kæra hjá lögreglu vegna háttsemi starfsmanns skólans. Í framhaldi þess kveðst kærandi hafa fengið símtal frá aðstoðarskólastjóra sem hafi greint frá því að hvorki foreldrar né barn væru velkomin í skólann. Leit kærandi svo á að barninu hafi verið vikið úr skóla. Sveitarfélagið hefur andmælt þessari lýsingu kæranda og segir aðstoðarskólastjórann hafa óskað eftir svigrúmi í ljósi nýrra aðstæðna.

 

III.

Málsmeðferð

Kærandi sendi mennta- og menningarmálaráðuneyti erindi 21. janúar 2021. Í kjölfarið óskaði ráðuneytið eftir afstöðu kæranda til þess hvort hann vildi að litið væri á erindið sem stjórnsýslukæru í skilningi 47. gr. grunnskólalaga eða hvort hann teldi rétt að farið væri af stað sem sjálfstætt mál á grundvelli 4. gr. grunnskólalaga sem felur í sér eftirlit með því hvort sveitarfélagið starfi í samræmi við grunnskólalög. Kærandi svaraði 25. janúar að hann vissi ekki hvað best væri að gera. Lögfræðingur ráðuneytisins átti símtal við kæranda 26. janúar þar sem munurinn á þessu tvennu var útskýrður. Kærandi upplýsti lögfræðing um að hann vildi að litið væri á erindið sem stjórnsýslukæru.

Erindi kæranda var sent á sveitarfélagið til umsagnar 19. febrúar 2021. Svör sveitarfélagsins bárust 10. mars 2021. Svör sveitarfélagsins voru send kæranda og gafst honum kostur á að tjá sig um þau með tölvupósti, dags. 19. mars 2021. Svör kæranda bárust 6. apríl 2021. Sveitarfélaginu var gefinn kostur á að tjá sig um svör kæranda með tölvupósti, dags. 12. maí 2021. Sveitarfélagið sagðist standa við fyrri svör sín og ítrekaði að aldrei hafi verið tekin ákvörðun um að vísa barninu úr skóla, sbr. 4. mgr. 14. gr. grunnskólalaga. Segir að málsatvik hafi verið flókin, krafist mikilla samskipta við ýmiss kerfi og skjótra úrlausna með það að markmiði að tryggja öryggi nemandans og námsúrræði við hæfi.

Taldi ráðuneytið þá að málið væri nægjanlega upplýst svo hægt væri að taka ákvörðun, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. 

 

IV.

Málsástæður

Með hliðsjón af 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, með síðari breytingum, verður hér einungis fjallað um þær málsástæður sem teljast skipta máli við úrlausn þessa máls en öll framkomin sjónarmið og málsástæður hafa verið hafðar til hliðsjónar við úrlausn þess.

Málsástæður kæranda

Kærandi sendi mennta- og menningarmálaráðuneyti tölvupóst, dags. 21. janúar sl. Þar greindi kærandi frá að hann væri forráðamaður barns sem […]. Enn fremur greindi kærandi frá […] og að skóli barnsins notist við hvíldarherbergi sem úrræði fyrir barnið. Að sögn kæranda er um að ræða litla skúringakompu, sem er gluggalaus og án nokkurra hluta. Segir kærandi barnið meðal annars hafa verið sett í hvíldarherbergið eftir að hafa verið haldið föstu þar til það hafi bitið sig laust.

Þá greinir kærandi frá mjög alvarlegum atburðum sem hann varð vitni að þegar barnið var sett í áðurnefnt hvíldarherbergi. Leiddu þeir atburðir til þess að kærandi fór með myndefni til lögreglu og lagði fram kæru vegna háttsemi starfsmanns skólans.

Þegar kæran var lögð fram stóð til að barn kæranda færi í nýtt úrræði á vegum skólans að hans sögn. Greinir kærandi frá því að eftir að aðstoðarskólastjóri fékk fregnir af kæru kæranda til lögreglu hafi hann fengið símtal frá aðstoðarskólastjóra þar sem hann sagði sig og starfsmenn skólans ekki bera traust til foreldranna og að hvorki þeir né barnið væru velkomin í skólann. Barnið var því frá skóla frá því í desember og þar til erindið var sent, 21. janúar 2021. Leit kærandi svo á að barninu hafi verið vísað úr skóla.

Með erindinu rekur kærandi aðstæður sínar en hann á önnur börn í þeim skóla sem um ræðir en segist hafa verið tilneyddur til að færa þetta eina barn um skóla sem hefur í för með sér talsverða fyrirhöfn vegna aksturs til og frá skóla.

Svör sveitarfélagsins, dags. 10. mars 2021, voru send kæranda og óskað eftir afstöðu hans til þess sem þar kom fram. Bárust svör kæranda 6. apríl 2021. Þar kemur meðal annars fram að kærandi telur að  hvíldarherbergið, sem úrræði, hafi virkað fyrst en svo farið algjörlega úr böndunum. Vísar hann til þess að núverandi skóli barnsins lýsi barninu sem klárum nemenda sem sé jafn samnemendum sínum. Segir hann barninu farið að líða vel og […].  Í fyrri skóla barnsins hafi barnið […] og telur hann skólastjórnendur hafa stuðlað að því með framkomu sinni við barnið, sem kærandi lýsti með fyrra bréfi og í andsvörum sínum. Telur kærandi skólann hafa brotið gegn barni sínu í mjög langan tíma.

Þá gagnrýnir kærandi orðalag sveitarfélagsins um misbresti þegar það lýsti atvikum sem urðu 16. desember 2020. Segir kærandi um alvarlegt brot á barninu að ræða og lýsir því atviki nánar. Segist kærandi aldrei hafa fengið upplýsingar um að barnið væri læst inni í herbergi heldur hafi þeim verið sagt að barnið færi í hvíld. Þá rekur hann þau atvik sem kærð hafa verið til lögreglu.

Þessu næst rekur kærandi aðdraganda þess að atvikið var kært til lögreglu, greinir frá leiðbeiningum sem hann fékk frá lögreglu, þeim hugsunum sem fóru í gegnum huga hans á þessum tíma, tilraunum til að upplýsa aðstoðarskólastjóra um kæruna og samskiptum maka við aðstoðarskólastjóra.

Í svörum sínum fjallar kærandi um símtal frá aðstoðarskólastjóra og telur það ekki hafa verið á fagmannlegum nótum. Kærandi fullyrðir að aðstoðarskólastjóri hafi óskað eftir að barnið kæmi ekki aftur í skólann og segir aðstoðarskólastjórann aldrei hafa óskað eftir svigrúmi til að bregðast við. Þá segir hann að frá 16. desember til 22. janúar 2021 hafi barnið ekki haft námsgögn og enginn spáð í hvort barnið væri að læra.

Kærandi greinir frá því að hann hafi sett sig í samband við bæjarstjóra sem gekk í málið. Að sögn kæranda var skólaskrifstofa tilneydd af bæjarstjóra að fara í málið. Á þeim tíma kom aldrei tilkynning til barnaverndar um að barnið væri ekki að mæta í skóla.

Þá útskýrir kærandi að þann 11. janúar 2021, þegar skólaskrifstofa segist hafa reynt að hafa samband við kæranda án árangurs þá hafi verið hringt einu sinni utan vinnutíma og var ekki unnt að hringja til baka þar sem skrifstofan var lokuð.

Kærandi kveðst hafa verið í símanum á hverjum degi að berjast við kerfið fyrir barnið sitt með það að markmiði að koma því í skóla. Var hann tilneyddur til að færa eitt barn úr […] yfir í annað „sveitarfélag“ en vísar til þess að sveitarfélagið B var […]. Hann segir þetta hafa í för með sér mikinn akstur en það hafi verið mikil fyrirhöfn að fá samþykkt að barnið yrði sótt á skólabíl og keyrt í skólann en á endanum fékk hann samþykkt að barnið yrði keyrt heim þrjá daga í viku. Segir hann þetta valda miklu álagi á heimilinu og hefur hann meðal annars þurft að greiða manneskju fyrir að sækja barnið þegar kærandi hefur verið lasinn. Segist hann hafa óskað eftir því við skólaskrifstofu að bætt yrði við tveimur dögum í akstur en það hafi ekki borið árangur. 

 

Málsástæður sveitarfélagsins B

Svör sveitarfélagsins bárust 19. mars 2021.

Þar er rakið að barn kæranda hafi verið nemandi í x. bekk grunnskóla C og í sérúrræði þar sem almennt nám og kennsluhættir hæfðu ekki þörfum og hag nemandans. Einnig segir að ætlunin hafi verið að veita nemandanum sérhæfðar lausnir til náms og leiks í skemmri tíma.

Þá er rakið að fundað hafi verið reglulega með forsjáraðilum, […] og fræðsluaðilum þar sem námsleg staða, hegðun og líðan nemandans var rædd með það að markmiði að leita úrbóta. Í september 2020 var gerð einstaklingsmiðuð stuðningsáætlun sem skilaði árangri í október og nóvember 2020 en þegar nær dró jólum fór að draga úr þeim árangri og ljóst að nemandanum leið ekki vel. Segir að skólinn hafi leitað fullnustu allra þeirra leiða sem skólinn hefur til þess að bæta og ráða bót á líðan nemandans.

Þá er greint frá því að 16. desember 2020 hafi átt sér stað atvik í skólanum sem leiddi til þess að misbrestur varð á hegðun nemandans og til að tryggja öryggi hans og annarra var hvíldarherbergið notað. Segir að forsjáraðili hafi verið upplýstur og samþykkur notkun herbergisins í neyðartilvikum. Þá greinir sveitarfélagið frá því að samkvæmt frásögn forsjáraðila og nemandans sé uppi grunur um að starfsmaður skólans hafi beitt harðræði í herberginu en slíkt hafi ekki verið tilkynnt skóla heldur farið beint til lögreglu.

Þessu næst er dregin upp tímalína:

  • 17. desember 2020 er forsjáraðili sagður hafa óskað eftir leyfi fyrir nemandann en mætt með nemandanum á litlu jól 18. desember.
  • 5. janúar 2021 byrjaði skólinn aftur eftir jólafrí.
  • Sveitarfélagið segir forsjáraðila hafa óskað eftir leyfi fyrir barnið 5.-7. janúar 2021. Þá á að hafa komið fram hjá foreldrum að barnið muni ekki koma í skólann fyrr en eftir teymisfund, sem var haldinn 7. janúar 2021. Á þeim fundi var farið yfir nýjar og mögulegar leiðir til að mæta sérþörfum nemandans.
  • Á fundinum var ákveðið að sýna forsjáraðilum nýtt úrræði 8. janúar 2021. Á fundinum upplýsti forráðamaður ekki um atvikið í hvíldarherberginu. Að loknum fundi upplýsti forsjáraðili stuðningsfulltrúa nemandans um kæru til lögreglu.
  • Þann 8. janúar 2021 hafði aðstoðarskólastjóri samband við forsjáraðila og tilkynnti að í ljósi nýrra upplýsinga þurfi að bíða með nýja úrræðið sem rætt var um, þar sem að þurfi nýjan starfsmann þar sem búið var að kæra starfsmann kennsluúrræðisins D til lögreglu.
  • Þann 11. janúar 2021 fundaði fræðsluþjónustan með forsjáraðila. Þar kom fram að forsjáraðili vildi ekki að barnið færi aftur í grunnskólann C og lagði fram ósk sína að það fengi að sækja grunnskólann E í sveitarfélaginu F. Þá var forsjáaðilum einnig boðið að skoða grunnskólann G í sveitarfélaginu B. Fræðsluþjónustan kannaði grundvöll fyrir námsvistun í grunnskólanum E en ekki var hægt að verða við þeirri beiðni. Hringt var í forsjáraðila til að upplýsa um stöðuna í sveitarfélaginu F en án árangurs.
  • 12. janúar 2021 náðist í forsjáraðila og svar sveitarfélagsins F kynnt. Boð um viðtal og kynningu í grunnskólanum G var ítrekað og það þegið.
  • 13. janúar 2021 heimsótti forsjáraðili og nemandinn grunnskólann G og í framhaldinu samþykktu þau skólaúrræðið. Samkomulag náðist á milli fræðsluþjónustu og forsjáraðila um akstur nemandans í skólann.

Auk þessa segir sveitarfélagið að aldrei hafi verið tekin ákvörðun um að vísa nemanda úr skóla, sbr. 4. mgr. 14. gr. grunnskólalaga, nr. 91/2008. Málsatvik hafi hins vegar verið flókin og í ljósi sérþarfa nemandans krafðist málið úrlausna sem tekið hafi nokkra daga að koma í farveg. Var þetta ítrekað með svörum sveitarfélagsins þegar leitað var eftir afstöðu þess til svara kæranda, dags. 6. apríl 2021.

 

V.

Rökstuðningur niðurstöðu

Sveitarfélög njóta sjálfstjórnar og sjálfstæðis í stjórnkerfinu, eins og þeim er tryggt í 1. mgr. 78. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands og áréttað er í sveitarstjórnarlögum, nr. 138/2011. Af þessu leiðir að almennt lúta sveitarfélög hvorki yfirstjórn né eftirliti stjórnvalda ríkisins, nema það hafi verið ákveðið með lögum og þá aðeins að því marki sem þar er kveðið á um.

Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. grunnskólalaga, nr. 91/2008 er rekstur almennra grunnskóla á ábyrgð og kostnað sveitarfélaga. Við rækslu þessa verkefnis, sem er á meðal lögmætra, skyldubundinna verkefna sveitarfélaga samkvæmt 1. mgr. 7. gr. sveitarstjórnarlaga, njóta þau nokkurs svigrúms til að skipuleggja grunnskólastarfið innan marka laga. Jafnframt hefur forstöðumaður hvers grunnskóla ákveðið svigrúm til að móta starf grunnskólans sem hann stjórnar, sbr. 7. gr. grunnskólalaga, nr. 91/2008.

Um takmörk á þessari sjálfstjórn er kveðið á um með grunnskólalögum. Þannig er með 4. gr. grunnskólalaga mælt fyrir um að mennta- og menningarmálaráðherra fari með yfirstjórn þeirra málefna sem lögin taka til. Í ákvæðinu segir m.a. að ráðherra hafi úrskurðarvald í ágreiningsmálum eftir því sem lögin kveði á um og að ráðuneyti hans hafi eftirlit með því að sveitarfélög uppfylli þær skyldur sem lögin, reglugerðir og reglur settar samkvæmt þeim og aðalnámskrá grunnskóla kveða á um. Í 1. mgr. 47. gr. grunnskólalaga kemur fram að ákvarðanir um réttindi og skyldur nemenda sem teknar eru á grundvelli laganna séu kæranlegar til ráðherra.

Mennta- og menningarmálaráðuneyti hefur samkvæmt framangreindu sérstaka yfirstjórn og eftirlit gagnvart sveitarfélögum, auk þess sem því er falið að leysa úr kærum á ákvörðunum sveitarfélaga um réttindi og skyldur nemenda sem teknar eru á grundvelli grunnskólalaga. Hlutverk og eftirlit ráðuneytisins felur í sér að það er almennt bært til að fjalla um og taka afstöðu til verkefna sveitarfélaga sem þau sinna samkvæmt grunnskólalögum. Beinar valdheimildir ráðuneytisins ráðast hins vegar af nánari fyrirmælum laga hverju sinni og þá að teknu tilliti til sjálfstjórnar sveitarfélaga. Í grunninn beinist eftirlit ráðuneytisins að því hvort sá borgari sem í hlut á fái þau réttindi og þjónustu sem hann á kröfu til samkvæmt lögum og reglum og það sé leyst úr málum hans í samræmi við réttarreglur um meðferð máls.

Sveitarfélagið B byggir á því að aldrei hafi verið tekin ákvörðun um að vísa nemanda úr skóla, sbr. 4. mgr. 14. gr. grunnskólalaga.

Með stjórnvaldsákvörðun er átt við það þegar stjórnvald kveður einhliða á um rétt og/eða skyldu tiltekins aðila í ákveðnu máli í skjóli stjórnsýsluvalds. Þegar vafi leikur á því hvort einstök ákvörðun eigi að falla undir stjórnsýslulög verður einkum að líta til raunverulegrar þýðingar hennar fyrir stöðu viðkomandi, svo og hvort þörf sé á því og hvort eðlilegt verði talið að hann njóti þeirra réttinda sem þar er mælt fyrir um. Í lögskýringargögnum að baki 1. gr. stjórnsýslulaga segir að orðalag 1. gr. sé annars svo rúmt að í algerum vafatilvikum beri fremur að álykta svo að lögin gildi fremur en að þau gildi ekki. (Alþt. 1992-1993, A-deild, bls. 3284.) Við frekari afmörkun á inntaki 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga varðandi hugtakið stjórnvaldsákvörðun verður að gera greinarmun á því hvort ákvörðun stjórnvalds er í eðli sínu ákvörðun um beitingu málsmeðferðarúrræðis eða hvort hún felur í sér lyktir máls hjá viðkomandi stjórnvaldi. Almennt verður að ganga út frá því að ákvörðun teljist ekki stjórnvaldsákvörðun í merkingu stjórnsýslulaga nema hún feli í sér hið síðarnefnda.

Í máli þessu hefur ekki tekist að varpa ljósi á með óyggjandi hætti hvort umrædd ákvörðun hafi í raun verið tekin enda ber lýsingum kæranda og kærða ekki saman um hvernig aðdragandi þess var þegar barnið fluttist á milli skóla og var ákvörðunin, eins og kærandi lýsir henni, munnleg og því engin gögn fyrirliggjandi um hvað var nákvæmlega sagt í því símtali sem um ræðir. Með vísan til þess sönnunarskorts sem er til staðar telur ráðuneytið ekki grundvöll fyrir því að ógilda hina kærðu ákvörðun en telur engu að síður brýnt að sveitarfélög undirbúi ákvarðanir sínar með þeim hætti sem stjórnsýslulög kveða á um. Þegar stjórnvaldsákvarðanir eru teknar er mikilvægt að fylgt sé málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttar en markmið stjórnsýslulaga er að tryggja sem best réttaröryggi manna í samskiptum við hið opinbera, jafnt ríki og sveitarfélög. Í þessu máli var umrædd ákvörðun, að sögn kæranda, tilkynnt munnlega og þykir miður ef borgarinn verður af réttindum sínum vegna sönnunarskorts. Ráðuneytið beinir þeim tilmælum til sveitarfélagsins að slíkar ákvarðanir verði framvegis ætíð tilkynntar skriflega að undangenginni málsmeðferð samkvæmt stjórnsýslulögum. Eru þessar leiðbeiningar sérstaklega settar fram þar sem sveitarfélagið segir málsatvik hafa verið flókin, krafist mikilla samskipta ólíkra kerfa og skjótra úrlausna með það að markmiði að tryggja öryggi nemandans og námsúrræði við hæfi. Ráðuneytið leggur sérstaka áherslu á að mál skulu ætíð upplýst nægjanlega áður en ákvörðun er tekin, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga en ákvæðið stendur í beinu samhengi við 13. gr. stjórnsýslulaga sem kveður á um að aðili máls skal ávallt fá að tjá sig áður en ákvörðun er tekin.

Foreldrar skulu gæta hagsmuna barna sinna á skólaskyldualdri. Samkvæmt 18. gr. grunnskólalaga eiga foreldrar rétt á að velja grunnskóla innan sveitarfélags fyrir börn sín samkvæmt reglum sveitarfélagsins. Standi vilji kæranda til þess að barnið sæki fyrri skóla á nýjan leik skal slíkt mál hljóta afgreiðslu samkvæmt grunnskólalögum og stjórnsýslulögum, þar á meðal jafnræðisreglu stjórnsýslulaga sem kveður á um að stjórnvöld skulu gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti og að óheimilt sé að mismuna við úrlausn mála. Að mati mennta- og menningarmálaráðuneytis myndi það tilvik að viðkomandi hafi nýtt rétt sinn að leita til lögreglu vegna refsiverðs brots sem hann taldi barns sitt hafa orðið fyrir ekki geta verið grundvöllur þess að synja viðkomandi barni um skólavist eigi það á annað borð rétt á henni samkvæmt reglum sveitarfélagsins.

Þá telur ráðuneytið þetta mál vera tilefni þess að gera athugasemdir við sveitarfélagið vegna þess úrræðis sem lýst hefur verið sem hvíldarherbergi.

Árin sem barn stundar nám í grunnskóla eru mikilvæg í mótunarskeiði þess sem einstaklings og borgara í lýðræðissamfélagi. Í grunnskóla er lögð undirstaða að þátttöku einstaklinga í lýðræðisþjóðfélagi og þau manngildi ræktuð sem styðja eiga þroska hans. Skólanum er ætlað að gefa nemendum tækifæri til að virkja sköpunarkraft sinn og tileinka sér þekkingu og færni sem undirbýr þá fyrir nám á efri skólastigum og ævilangt. Þáttur foreldra í að skapa barninu hagfelldar aðstæður til náms og þroska er afar mikilvægur og lögð er áhersla á að styrkja hann með tengslum foreldra við grunnskóla. Í greinargerð sem fylgdi frumvarpi til grunnskólalaga segir að frumvarpið miði meðal annars að því að tryggja velferð allra grunnskólabarna og að skýra ábyrgð, réttindi og skyldur barna og foreldra.

Í greinargerð með frumvarpinu segir að velferð barna skuli vera grundvallaratriði í starfi grunnskóla. Þar segir að grunnskólar eigi að gæta að andlegri, félagslegri, líkamlegri og félagslegri vellíðan barna. Skólinn á að vera griðastaður barna þar sem þau finna til öryggis, fá tækifæri til að þroska og nýta hæfileika sína og njóta bernsku sinnar.

Með vísan til þess sem að framan segir er í lögum um grunnskóla að finna ýmis ákvæði sem eru til þess fallin að ná fram þeim markmiðum sem stefnt var að með lögum um grunnskóla. Þá hefur ráðherra á grundvelli 6. mgr. 14. gr. og 4. mgr. 30. gr. laganna sett reglugerð um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum, nr. 1040/2011 sem hefur það að markmiði að:

a)   nemendur geti notið bernsku sinnar í skólastarfi, notið hæfileika sinna og séu öruggir í öllu starfi á vegum skólans,

b)   stuðla að ábyrgð nemenda á eigin námi, hegðun og samskiptum með hliðsjón af aldri, þroska og aðstæðum að öðru leyti,

c)   allir í skólasamfélaginu kappkosti í sameiningu að stuðla að og viðhalda góðum starfsanda og jákvæðum skólabrag, þar sem öryggi, vellíðan og heilbrigði eru leiðarljós,

d)   stuðla að góðu samstarfi og samráði milli foreldra og skóla um nám nemenda, hegðun og samskipti og stuðla að gagnkvæmu trausti allra aðila í skólasamfélaginu, gagnkvæmri virðingu, samábyrgð, kurteislegri framkomu og tillitssemi,

e)   haldið sé uppi námsaga þar sem tekið er tillit til þarfa nemenda, þroska og hæfni þeirra, með áherslu á mannréttindi, jafnrétti, lýðræðisleg vinnubrögð og bann við mismunun af öllu tagi,

f)    hver grunnskóli setji sér skólareglur með skýrum viðbrögðum við brotum á reglunum, að úrræði og viðbrögð stuðli að jákvæðri hegðun og miði að því að rækta persónuþroska og hæfni nemenda.

Ráðuneytið áréttar sérstaklega við sveitarfélagið að hafa hugfast við framkvæmd skólastarfs að samkvæmt 1. mgr. 13. gr. grunnskólalaga er kveðið á um að grunnskóli sé vinnustaður nemenda og að allir nemendur grunnskóla eigi rétt á kennslu við sitt hæfi í hvetjandi námsumhverfi í viðeigandi húsnæði sem tekur mið af þörfum þeirra og almennri vellíðan. Grunnskóli skal haga störfum sínum þannig að nemendur finni til öryggis og njóti hæfileika sinna og að nemendur eigi rétt á því að njóta bernsku sinnar í öllu starfi á vegum skólans.

Grunnskólar skulu einnig haga störfum sínum í sem fyllstu samræmi við stöðu og þarfir nemenda og stuðla að alhliða þroska, velferð og menntun hvers og eins, sbr. 2. gr. laganna. Þá er sérstaklega fjallað um hvernig starfsfólk skal rækja starf sitt í 12. gr. grunnskólalaga. Þar segir nánar tiltekið að það skuli rækja starf sitt af fagmennsku, alúð og samviskusemi. Það skal gæta kurteisi, nærgætni og lipurðar í framkomu sinni gagnvart börnum, foreldrum og samstarfsfólki. Um ábyrgð og skyldur starfsfólks er fjallað nánar í 3. gr. áðurnefndrar reglugerðar. Þar segir að starfsfólk skóla skuli ávallt bera velferð nemenda fyrir brjósti og leggja sig fram um að tryggja nemendum öryggi, vellíðan og vinnufrið til að þeir geti notið skólagöngu sinnar. Starfsfólki ber að stuðla að jákvæðum skólabrag og starfsanda í öllu skólastarfi og góðri umgengni. Enn fremur segir að starfsfólk skuli sýna nærgætni og gæta virðingar í framkomu sinni gagnvart nemendum, foreldrum og samstarfsfólki.

Skólastjórnendum og kennurum ber að eiga samstarf við foreldra um hegðun, líðan og samskipti barna þeirra. Umsjónarkennarar skulu upplýsa foreldra reglulega um skólabrag og bekkjarbrag og leita eftir uppbyggjandi samstarfi við foreldrahópinn um hvorutveggja. Starfsfólki skóla ber að taka afstöðu gegn líkamlegu, andlegu og félagslegu ofbeldi í skólanum. Ef slík tilvik koma upp skal bregðast við þeim samkvæmt stefnu skólans, sbr. 3. kafla áðurnefndar reglugerðar, sbr. 3. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar.

Með 30. gr. grunnskólalaga er kveðið á um að öllum aðilum skólasamfélagsins beri að leggja sitt af mörkum til þess að stuðla að og viðhalda góðum starfsanda og jákvæðum skólabrag. Skólastjórum og kennurum ber að eiga samráð við foreldra um hegðun, líðan og samskipti barna þeirra. Foreldrum ber með sama hætti að eiga samráð við skólann um skólagöngu barna sinna. Samkvæmt 4. mgr. 5. gr. áðurnefndrar reglugerðar ber foreldrum að greina skólanum frá þeim þáttum sem kunna að hafa áhrif á námsframvindu, ástundun og hegðun, s.s. um vanlíðan barna sinna og áföll sem gætu haft áhrif á skólagönguna, sem og þegar breytingar verða á högum þeirra og aðstæðum.

Samkvæmt 3. mgr. 30. gr. grunnskólalaga skulu grunnskólar hafa heildstæða stefnu um það hvernig fyrirbyggja eigi að líkamlegt, andlegt eða félagslegt ofbeldi eigi sér stað í skólastarfi. Skólar skulu einnig hafa áætlun um framkvæmd tilkynningarskyldu samkvæmt barnaverndarlögum, um hvernig brugðist er við tilvikum um einelti, annað ofbeldi og félagslega einangrun.

Telur ráðuneytið leiða af framangreindu að notkun hvíldarherbergis af því tagi sem lýst hefur verið ósamrýmanleg grunnskólalögum og óskar eftir að hætt verði án tafar að notast við slíkt herbergi. Allir nemendur eiga rétt á kennslu við sitt hæfi í hvetjandi námsumhverfi í viðeigandi húsnæði sem tekur mið af þörfum þeirra og almennri vellíðan, sbr. 1. mgr. 13. gr. grunnskólalaga.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Í ljósi sönnunarskorts um atburði þessa máls telur ráðuneytið ekki grundvöll fyrir hendi að ógilda hina kærðu ákvörðun en beinir því til sveitarfélagsins að taka málið upp að nýju á grundvelli grunnskólalaga og stjórnsýslulaga óski kærandi eftir því.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira