Hoppa yfir valmynd

Nr. 38/2021 úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 22. janúar 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 38/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU20090027

Kæra [...]

og barns hennar

á ákvörðunum

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 16. september 2020 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefnd kærandi), ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 2. september 2020, um að synja henni og barni hennar, [...], fd. [...], ríkisborgara [...], um dvalarskírteini skv. 90. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærandi krefst þess að henni verði ásamt syni sínum veitt dvalarskírteini fyrir aðstandanda EES-borgara hér á landi. Til vara er þess krafist að málið verði sent til Útlendingastofnunar til viðeigandi meðferðar.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um dvalarskírteini fyrir útlending sem ekki er EES- eða EFTA-borgari á grundvelli hjúskapar með EES- eða EFTA-borgara, sbr. 90. gr. laga um útlendinga, þann 8. maí 2019. Þá sótti kærandi um dvalarskírteini f.h. sonar síns, [...], þann sama dag. Með ákvörðunum Útlendingastofnunar, dags. 2. september 2020, var umsóknunum synjað. Þann 16. september 2020 kærði kærandi ákvarðanirnar til kærunefndar útlendingamála. Með tölvupósti kærunefndar til umboðsmanns kæranda, dags. 28. september 2020, var kæranda kynnt efni skjalarannsóknarskýrslu Flugstöðvardeildar lögreglunnar á Suðurnesjum, dags. 14. september 2020, og kæranda veittur frestur til andmæla, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Greinargerð kæranda barst kærunefnd þann 2. október 2020 ásamt fylgigögnum. Þann 26. október 2020 barst kærunefnd frumrit á staðfestingu á útgáfu hjúskaparvottorðs auk meðfylgjandi skjalaþýðingar frá kæranda. Þann 27. október 2020 óskaði kærunefnd eftir því að framkvæmd yrði rannsókn á skjölunum en skýrsla lögreglunnar á Suðurnesjum barst kærunefnd þann 10. nóvember 2020. Með tölvupósti kærunefndar til umboðsmanns kæranda, þann sama dag, var kæranda kynnt efni þeirrar skjalarannsóknarskýrslu og henni veittur frestur til andmæla, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga. Athugasemdir kæranda bárust kærunefnd þann 16. nóvember 2020. Þann 3. desember 2020 barst kærunefnd frumrit á staðfestingu á útgáfu hjúskaparvottorðs auk meðfylgjandi skjalaþýðingar frá kæranda. Þann 4. desember 2020 óskaði kærunefnd eftir því að framkvæmdi yrði rannsókn á skjölunum en skýrsla lögreglunnar á Suðurnesjum barst kærunefnd þann 4. janúar 2021. Með tölvupósti kærunefndar til umboðsmanns kæranda þann sama dag var kæranda kynnt efni þeirrar skjalarannsóknarskýrslu og henni veittur frestur til andmæla, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga. Athugasemdir kæranda bárust kærunefnd þann 12. janúar 2021.

III. Ákvarðanir Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar er vísað til þess að kærandi hafi aldrei haft dvalarleyfi eða rétt til dvalar á Íslandi. Við vinnslu dvalarleyfisumsóknar hafi komið í ljós að hluti framlagðra skjala væri ekki í samræmi við fyrirmyndir af skjölum frá heimaríki kæranda. Hafi stofnunin sent beiðni um áreiðanleikakönnun til lögreglunnar á Suðurnesjum þann 14. október 2019. Um væri að ræða sjö skjöl, þ.e. hjónavígsluvottorð, þýðingu á hjónavígsluvottorði, sakavottorði ásamt bakhlið, þýðing á fæðingarvottorði, afrit af vegabréfi, afrit af [...] vegabréfi og fæðingarvottorð frá [...]. Niðurstaða áreiðanleikakönnunar hafi borist Útlendingastofnun þann 18. nóvember 2019 og hafi niðurstaðan verið sú að sakavottorðið og fæðingarvottorðið frá [...] væru fölsuð. Þann 29. janúar 2020 hafi maki kæranda lagt fram sakavottorð og þýðingu á staðfestingu á hjónavígsluvottorði. Hafi Útlendingastofnun sent skjölin í áreiðanleikakönnun þann 6. febrúar 2020. Niðurstaða þess hafi borist Útlendingastofnun þann 24. febrúar 2020 og hafi niðurstaðan verið sú að þýðingin á staðfestingu á hjónavígsluvottorði hefði takmarkað gildi og að sakavottorðið væri ótraust og að öllum líkindum falsað. Hafi stofnunin sent kæranda bréf, dags. 2. mars 2020, þar sem fram kæmi að kærandi hefði í tvígang lagt fram skjöl sem væru fölsuð, eða að öllum líkindum fölsuð. Hafi kæranda verið veittur 15 daga frestur til þess að leggja fram andmæli og hefði stofnunin tekið fram að ef engin gögn bærust yrði ákvörðun tekin á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Hafi Útlendingastofnun veitt framlengingu á fresti til að leggja fram gögn, fyrst til 15. apríl 2020 og næst til 8. maí 2020 en við töku ákvörðunar hefðu engin frekari gögn borist frá kæranda.

Vísaði Útlendingastofnun til ákvæða 1. mgr. 92. gr. og b-liðar 2. mgr. 90. gr. laga um útlendinga. Líkt og þegar hefði verið rakið lægju fyrir niðurstöður úr áreiðanleikakönnun nokkurra skjala sem kærandi hefði lagt fram. Hafi niðurstöður þessara kannana verið að framlagt sakavottorð og fæðingarvottorð væru fölsuð og einnig að þýðing á hjónavígsluvottorði hefði takmarkað gildi. Að mati Útlendingastofnunar hefði kærandi vísvitandi veitt rangar upplýsingar með því að leggja fram fölsuð skjöl. Þá hefði kærandi ekki sýnt fram á að hún uppfyllti skilyrði b-liðar 2. mgr. 90. gr. um fullnægjandi gögn með umsókn. Með hliðsjón af framangreindu var umsókn kæranda um dvalarskírteini því synjað. Vísaði Útlendingastofnun til þess að þar sem sonur kæranda leiddi rétt sinn af móðir sinni væri umsókn hans jafnframt synjað.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð vísar kærandi til þess hún sé gift manni sem sé ríkisborgari [...] og saman eigi þau son sem sé [...] ríkisborgari, líkt og kærandi. Fjölskyldan vilji sameinast svo foreldrarnir geti alið upp barn sitt saman en kærandi og eiginmaður hennar hafi gengið í hjúskap árið 2013 eða um tveimur árum áður en sonur þeirra hafi fæðst. Tekur kærandi það fram að hún og eiginmaður hennar komi bæði frá [...] upprunalega og séu [...] en alþekkt sé að það þjóðarbrot hafi sætt ofsóknum þar í landi. Beri stjórnvöldum að taka tillit til þess í málinu þar sem kærandi geti ekki fengið gögn frá [...] stjórnvöldum beint heldur séu gögnin frá [...]. Þá vísar kærandi til þess að hún hafi skilað inn nýjum gögnum sem Útlendingastofnun hefði ekki skoðað fyrir töku ákvörðunar.

Vísar kærandi til þess að grundvöllur hinnar kærðu ákvörðunar byggi fyrst og fremst á því að kærandi hafi veitt vísvitandi rangar upplýsingar með því að leggja fram fölsuð skjöl. Þá sé því haldið fram að kærandi hafi ekki sýnt fram á að hún uppfylli skilyrði b-liðar 2. mgr. 90. gr. laga um útlendinga. Kærandi hafnar því að hafa veitt vísvitandi rangar upplýsingar og kveður að allar upplýsingar séu réttar að efni sínu. Þá viti kærandi ekki betur en að framlögð skjöl séu einnig ófölsuð. Óumdeilt sé að vegabréf kæranda og sonar hennar séu gild en í vegabréfi sonar komi fram að móðir hans sé kærandi. Þannig séu tengsl þeirra óumdeild. Í hinni kærðu ákvörðun komi fram að kærandi hafi upprunalega lagt fram sjö skjöl með umsókn sinni þann 8. maí 2019 og hafi Útlendingastofnun sent beiðni til lögreglustjórans á Suðurnesjum þann 14. október 2019 um áreiðanleikakönnun. Hafi niðurstaðan verið sú að sakavottorðið og fæðingarvottorðið frá [...] væru fölsuð og að mati kæranda yrði að gagnálykta sem svo að öll önnur gögn hafi verið ófölsuð og þar af leiðandi óumdeild. Vísar kærandi til þess að skv. lagaákvæðinu sé ekki skylda til að leggja fram fæðingarvottorð eða sakavottorð til að fá útgefið dvalarskírteini. Þann 29. janúar 2020 hafi maki kæranda lagt fram sakavottorðið að nýju og þýðingu á staðfestingu á hjónavígsluvottorði. Hafi Útlendingastofnun ákveðið að senda gögnin í áreiðanleikakönnun og hafi niðurstaðan verið sú að þýðingin á staðfestingu á hjónavígsluvottorði hefði takmarkað gildi og að sakavottorðið væri ótraust og að öllum líkindum falsað. Vísar kærandi til þess að máli skipti hvort staðfestingin á hjónavígsluvottorðinu sé áreiðanleg eða ekki, en ekki hvort þýðingin sé áreiðanleg. Þá hafi ekki verið sagt beint út að sakavottorðið væri falsað. Á heimasíðu Útlendingastofnunar sé tekið fram að leggja þurfi fram skráningarblað í frumriti og vel útfyllt af umsækjanda, ljósrit gilds vegabréfs og vottorð um fjölskyldutengsl eftir því sem við eigi, t.d. hjúskaparvottorð, hjúskaparstöðuvottorð o.s.frv. Að mati kæranda hafi öll þessi gögn verið lögð fram.

Jafnframt byggir kærandi á því að hún hafi lagt fram gögn sem Útlendingastofnun hafi ekki tekið til skoðunar þrátt fyrir að þau hefðu borist töluvert fyrir töku hinnar kærðu ákvörðunar. Byggir hún á því að rannsóknarregla stjórnsýslulaga hafi verið brotin þar sem Útlendingastofnun hafi ekki rannsakað málið eins og þeim var skylt að gera. Þá sé einnig ljóst að stofnunin hafi ekki nýtt sér heimild 10. gr. reglugerðar nr. 540/2017 um útlendinga til að taka viðtal.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í samræmi við 7. gr. EES-samningsins, sbr. lög nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, hefur tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2004/38 um rétt borgara Sambandsins og aðstandenda þeirra til frjálsar farar og dvalar á yfirráðasvæði aðildarríkjanna verið tekin upp í íslenskan rétt, sbr. m.a. XI. kafla laga um útlendinga sem felur í sér sérreglur um útlendinga sem falla undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.

Umsókn kæranda um dvalarskírteini byggir á hjúskap hennar með [...] ríkisborgara, [...], sem búsettur er hér á landi. Þá byggir umsókn sonar hennar á því að framangreindur aðili sé faðir hans. Í 86. gr. laga um útlendinga er kveðið á um rétt til dvalar lengur en í þrjá mánuði fyrir aðstandendur EES- eða EFTA-borgara og aðra útlendinga sem eru ekki EES- eða EFTA-borgarar. Samkvæmt 1. mgr. 86. gr. gilda ákvæði 1. og 2. mgr. 85. gr. eftir því sem við á um útlendinga sem eru ekki EES- eða EFTA-borgarar en eru aðstandendur EES- eða EFTA-borgara sem hafa dvalarrétt skv. a-, b- eða c-lið 1. mgr. 84. gr. Sama gildir um maka, sambúðarmaka eða barn eða ungmenni yngra en 21 árs sem fylgir eða kemur til EES- eða EFTA borgara sem hefur dvalarrétt skv. d-lið 1. mgr. 84. gr. laga um útlendinga.

Í 90. gr. laga um útlendinga er kveðið á um dvalarskírteini fyrir útlendinga sem eru ekki EES- eða EFTA-borgarar og hafa rétt til dvalar skv. 86. gr. sömu laga. Í 1. mgr. 90. gr. segir að útlendingur sem dvelst hér á landi skv. 86. gr. í meira en þrjá mánuði skuli fá útgefið dvalarskírteini. Umsóknarfrestur er þrír mánuðir frá komu til landsins. Er staðfesting á umsókn gefin út um leið og viðkomandi leggur fram gögn skv. 2. mgr. Í 2 mgr. 90. gr. segir að með umsóknum um dvalarleyfi fyrir aðstandanda skuli leggja fram gilt vegabréf, sbr. a-lið, gögn til staðfestingar á þeim fjölskyldutengslum sem eru grundvöllur dvalarréttar, sbr. b-lið, skráningarvottorð EES- eða EFTA-borgarans sem útlendingurinn fylgir til landsins eða kemur til, sbr. c-lið og staðfestingu á framfærslu þegar réttur aðstandanda er háður framfærslu hans, sbr. d-lið ákvæðisins. Í 92. gr. laga um útlendinga er kveðið á um brottfall dvalarréttar EES- eða EFTA-borgara eða aðstandanda hans. Samkvæmt 1. mgr. 92. gr. fellur réttur til dvalar samkvæmt ákvæðum þess kafla niður ef útlendingur hefur vísvitandi veitt rangar upplýsingar eða haldið leyndum upplýsingum sem skipta verulega máli, ef um málamyndagerning að hætti 8. mgr. 70. gr. er að ræða eða dvöl er í öðrum tilgangi en þeim sem samræmist 84., 85. eða 86. gr. laganna. Sama á við ef um aðra misnotkun er að ræða. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að gildandi lögum um útlendinga segir m.a. að ákvæði 92. gr. sé í samræmi við 35. gr. tilskipunar 2004/38/EB þar sem gert sé ráð fyrir því að aðildarríkin geti gripið til nauðsynlegra ráðstafana til að sporna við misnotkun á þeim réttindum sem tilskipunin mæli fyrir um.

Líkt og greinir í hinni kærðu ákvörðun og rakið hefur verið í II. kafla úrskurðar þessa voru tiltekin gögn sem kærandi og maki hennar lögðu fram við meðferð umsóknar um dvalarskírteini send í áreiðanleikakönnun til lögreglunnar á Suðurnesjum. Í skjalarannsóknarskýrslu lögreglunnar á Suðurnesjum, dags. 12. nóvember 2019, kom fram að sakavottorðið væri falsað en það væri ljóst þar sem allir stimplar væru áprentaðir, þar með talið innsiglisstimpillinn sem nái inn á ljósmyndina á vottorðinu. Þá væri framlagt fæðingarvottorð falsað. Það væri ekki frumgagn og væru allir stimplar á skjalinu, ásamt handskrift, áprentaðir. Hefðu breytingarnar verið gerðar með bláum penna á þremur stöðum í skjalinu eftir útprentun og virtust allar breytingarnar varða maka kæranda. Í skjalarannsóknarskýrslu lögreglunnar á Suðurnesjum, dags. 23. febrúar 2020, kom fram varðandi þýðingu á staðfestingu á hjónavígsluvottorði að skjalið sjálft væri traust að því leyti að grunnefni þess væri einhvers konar öryggispappír og að það bæri með sér að vera útgefið af [...]. Ekki væri um að ræða frumgagn hvað skráningu hjónavígslunnar varðar og ein og sér hefði þýðingin takmarkað gildi. Þá væri sakavottorðið ótraust og að öllum líkindum falsað.

Útlendingastofnun sendi beiðni á lögregluna á Suðurnesjum þann 14. september 2020 um að taka til skoðunar tvö [...] skjöl, þ.e. hjónavígsluvottorð og skjalaþýðingu þess. Höfðu þau gögn skv. upplýsingum frá Útlendingastofnun verið í afgreiðslu stofnunarinnar og beðið þess að vera skönnuð inn í tölvukerfi stofnunarinnar þegar hin kærða ákvörðun var tekin. Með tölvupósti kærunefndar til umboðsmanns kæranda, dags. 28. september 2020, var kæranda kynnt efni skýrslunnar og henni veittur frestur til andmæla, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í greinargerð kæranda, dags. 2. október 2020, er þó ekki vikið sérstaklega að efni skýrslunnar. Í skýrslunni kom fram að uppbygging hjónavígsluvottorðsins væri ótraust og að breyting á númeri vottorðsins og frávik í stimpli útgáfuyfirvaldsins væri mjög ótraustvekjandi. Hvað varðar skjalaþýðinguna kom fram að skjalið sjálft sé traust að því leyti að grunnefni þess sé einhvers konar öryggispappír. Það beri með sér að vera gefið út af [...], en bæri hvorki undirritun né stimpil því til staðfestingar, sem væri ótraustvekjandi. Ekki yrði þó fullyrt um innihald skjalaþýðingarinnar.

Þann 26. október 2020 barst kærunefnd frumrit á staðfestingu á útgáfu hjúskaparvottorðs og meðfylgjandi skjalaþýðing frá kæranda. Þann 27. október 2020 óskaði kærunefnd eftir því að lögreglan framkvæmdi rannsókn á skjölunum en skjalarannsóknarskýrsla lögreglu barst kærunefnd þann 10. nóvember 2020. Kom fram að skjal um staðfestingu á útgáfu hjúskaparvottorðs væri ótraust og að öllum líkindum falsað. Var tekið fram að hafi skjalið verið lagt fram sem frumgagn beri að líta á það sem skjalafals. Hvað varðar skjalaþýðinguna væri skjalið sjálft traust að því leyti að grunnefni þess sé einhvers konar öryggispappír en ekki verði fullyrt um innihald skjalaþýðingarinnar. Með tölvupósti kærunefndar til umboðsmanns kæranda, dags. 10. nóvember 2020, var kæranda kynnt efni skýrslunnar og henni veittur frestur til andmæla, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í athugasemdum umboðsmanns kæranda, dags. 16. nóvember 2020, kemur fram að framangreind skýrsla komi maka kæranda á óvart en hann viti ekki annað en að skjalið sé frumrit. Hann sé búinn að biðja eiginkonu sína, kæranda, um að fara til viðkomandi stjórnvalds og fá útgefið að nýju frumrit skjalsins sem sýni svart á hvítu að þau séu hjón.

Þann 3. desember 2020 barst kærunefnd frumrit á staðfestingu á útgáfu hjúskaparvottorðs og meðfylgjandi skjalaþýðing frá kæranda. Þann 4. desember 2020 óskaði kærunefnd eftir því að lögreglan framkvæmdi rannsókn á skjölunum en skjalarannsóknarskýrsla lögreglu barst kærunefnd þann 4. janúar 2021. Þar kom fram að skjal um staðfestingu á útgáfu hjúskaparvottorðs væri ótraust og að öllum líkindum falsað. Hvað varðar skjalaþýðinguna væri skjalið sjálft traust að því leyti að grunnefni þess sé einhvers konar öryggispappír en ekki yrði fullyrt um innihald skjalaþýðingarinnar. Með tölvupósti kærunefndar til umboðsmanns kæranda, dags. 4. janúar 2021, var kæranda kynnt efni skýrslunnar og henni veittur frestur til andmæla, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í athugasemdum umboðsmanns kæranda, dags. 12. janúar 2021, kemur fram að kærandi hafi alla tíð verið sannfærð um réttmæti hjúskaparvottorðsins enda hafi hún verið í góðri trú varðandi gögnin þar sem þau hafi verið gefin út af viðkomandi stjórnvaldi í [...]. Hún hafi án árangurs reynt að afla skýringa varðandi gögnin sem hún fékk frá heimaríki og þá hafi hún jafnframt óskað eftir aðstoð frá [...] sendiráðinu í Osló. Vísar kærandi til þess að við meðferð málsins hafi verið lagðar fram myndir sem staðfesti hjónavígslu kæranda og eiginmanns hennar. Þá séu þau jafnframt reiðubúin til þess að gangast undir mannerfðafræðilega rannsókn sem staðfesti faðerni barnsins.

Líkt og að framan greinir er í 2. mgr. 90. gr. laga um útlendinga kveðið á um hvaða gögn skulu lögð fram með umsókn um dvalarskírteini fyrir aðstandanda en sakavottorð er ekki þar á meðal. Þá hefur ráðherra líkt ekki nýtt sér heimild 5. mgr. 90. gr. til þess að setja í reglugerð nánari fyrirmæli skv. ákvæðinu. Skortir því lagaheimild fyrir stjórnvöld til að óska eftir sakavottorði vegna umsókna skv. 90. gr. laga um útlendinga og verður því ekki vikið nánar að framlögðu sakavottorði í málinu. Samkvæmt b-lið 2. mgr. 90. gr. laga um útlendinga skal umsækjandi leggja fram gögn til staðfestingar á þeim fjölskyldutengslum sem eru grundvöllur dvalarréttar. Veitir ákvæðið stjórnvöldum ákveðið svigrúm til mats á því hvaða gögn beri að leggja fram til þess að sýna fram á þau fjölskyldutengsl sem umsókn byggir á. Að mati kærunefndar var málefnalegt hjá Útlendingastofnun við meðferð umsóknar kæranda og barns hennar að óska eftir hjúskaparvottorði auk fæðingarvottorðs, sem myndu sýna fram á tengsl kæranda og sonar hennar við [...], enda að öðrum kosti ekki unnt að meta hin meintu fjölskyldutengsl þeirra.

Líkt og áður greinir var það mat lögreglunnar á Suðurnesjum að framlagt fæðingarvottorð væri falsað, það væri ekki frumgagn og að allir stimplar á skjalinu, ásamt handskrift, væru áprentaðir. Þá var það mat lögreglu að uppbygging framlagðs hjónavígsluvottorðs væri ótraust og að breyting á númeri vottorðsins og frávik í stimpli útgáfuyfirvaldsins væri mjög ótraustvekjandi. Jafnframt var það mat lögreglu að framlagt skjal um staðfestingu á útgáfu hjúskaparvottorðs væri ótraust og að öllum líkindum falsað. Hvað varðar skjal um skjalaþýðingu væri skjalið traust að því leyti að grunnefni þess væri einhvers konar öryggispappír en ekki yrði hins vegar fullyrt um innihald skjalaþýðingarinnar. Að mati kærunefndar hagga skýringar kæranda við meðferð málsins hjá kærunefnd ekki framangreindri niðurstöðu sérfræðinga á sviði skjalarannsókna hjá lögreglunni á Suðurnesjum. Kærandi og barn hennar hafa því ekki lagt fram trúverðug gögn sem sýna fram á tengsl þeirra við [...], sem dvalarumsókn þeirra byggir á. Verður því ekki ráðið af fyrirliggjandi gögnum málsins hver raunveruleg tengsl kæranda og barns hennar eru við [...].

Með vísan til framangreinds hefur kærandi sjálf og f.h. barns síns ekki lagt fram fullnægjandi gögn í samræmi við áskilnað b-liðar 2. mgr. 90. gr. laga um útlendinga sem sýna fram á fullnægjandi tengsl við þann aðila sem dvalarumsókn þeirra byggir á. Þá telur kærunefnd ljóst, með vísan til framangreindra skjalarannsóknarskýrslna, að kærandi hafi mátt vita að framlögð gögn væru fölsuð og veitti hún því vísvitandi rangar upplýsingar við meðferð dvalarumsóknar hjá stjórnvöldum. Við það mat hefur kærunefnd sérstaklega litið til þess að kærandi hefur nú fimm sinnum við meðferð umsóknar sinnar lagt fram ótraust eða fölsuð gögn. Þá hefur kæranda gefist nægt ráðrúm við meðferð málsins hjá stjórnvöldum að leggja fram gögn sem styðja við dvalarumsókn hennar og barns hennar.

Með hliðsjón af því eru skilyrði 1. mgr. 92. gr. til brottfalls dvalarréttar því jafnframt uppfyllt.Með vísan til alls framangreinds eru ákvarðanir Útlendingastofnunar því staðfestar.

 

Úrskurðarorð

 

Ákvarðanir Útlendingastofnunar eru staðfestar.

The decisions of the Directorate of Immigration are affirmed.

 

Tómas Hrafn Sveinsson

Gunnar Páll Baldvinsson                             Sandra Hlíf Ocares


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira