Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd útlendingamála

Nr. 139/2024 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 14. febrúar 2024 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 139/2024

í stjórnsýslumáli nr. KNU23100179

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 31. október 2023 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Marokkó ( hér eftir kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 16. október 2023, um að synja umsókn hennar um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli sérstakra tengsla við landið.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

Lagagrundvöllur

Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, ákvæði laga um landamæri nr. 136/2022, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi hefur aldrei haft dvalarleyfi hér á landi. Hinn 26. janúar 2023 lagði kærandi fram umsókn um dvalarleyfi hér á landi á grundvelli sérstakra tengsla við landið. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 16. október 2023, var umsókn kæranda synjað. Í ákvörðuninni kemur fram að eftir heildarmat á aðstæðum kæranda hafi hún að mati stofnunarinnar ekki sýnt fram á að hún uppfylli skilyrði dvalarleyfis á grundvelli sérstakra tengsla við landið. Var það mat stofnunarinnar að ekki væri séð að aðstæður kæranda væru með þeim hætti að það væri bersýnilega ósanngjarnt að veita henni ekki dvalarleyfi hér á landi á grundvelli sérstakra tengsla, m.t.t. framfærslu og umönnunarsjónarmiða. Hafi umsókn hennar því verið synjað.

Ákvörðun Útlendingastofnunar var móttekin af kæranda 20. október 2023 og kærð til kærunefndar útlendingamála 31. október 2023. Greinargerð og frekari gögn voru lögð fram af hálfu kæranda 14. nóvember 2023, 11. og 17. janúar 2024.

Með tölvubréfi, dags. 7. febrúar 2024, óskaði kærunefnd eftir greinargerð og skýringum þar sem fjallað væri um tengsl kæranda við heimaríki. Með tölvubréfi, 9. febrúar lagði kærandi fram frekari skýringar á tengslum við heimaríki.

III.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda, dags. 14. nóvember 2023, er vísað til hinnar kærðu ákvörðunar Útlendingastofnunar. Kærandi kveðst eiga eldri bróður sem sé íslenskur ríkisborgari, og móður sem sé með dvalarleyfi í gildi hér á landi. Þá eigi kærandi tvo bræður í Svíþjóð og einn á Spáni. Kærandi hafi átt föður sem hafi látist í bílslysi árið 2019 sem tekið hafi verulega á fjölskylduna. Kærandi hafi glímt við alvarleg andleg veikindi og verið greind með þunglyndi í kjölfarið. Bróðir hennar hafi sent henni fjármuni til Marokkó fyrir helstu nauðsynjum þar sem hún og móðir hennar hafi ekki geta staðið undir sér fjárhagslega.

Kærandi hafi ferðast til Íslands með móður sinni árið 2020 og hafi brottför hennar frá landinu valdið henni mikilli vanlíðan. Hafi hún leitað til læknis m.a. vegna [...]og [...]. Kærandi kveðst ekki eiga neina fjölskyldumeðlimi í heimaríki en hennar eina fjölskylda og stuðningur séu bróðir hennar og móðir, sem bæði séu búsett hérlendis. Hún þjáist af [...] og þurfi á læknismeðferð og strangri eftirfylgni á geðdeild að halda. Telur kærandi félagsleg- og fjölskyldutengsl sín með þeim hætti að bersýnilega væri ósanngjarnt að veita henni ekki dvalarleyfi hér á landi.

Kærandi vísar til lagaskilyrða sem mælt er fyrir um í 78. gr. laga um útlendinga og 20. gr. reglugerðar um útlendinga. Kærandi kveðst vera ein eftir í heimaríki og þarfnist umönnunar vegna alvarlegra veikinda og er því hafnað að tengsl kæranda við móður sína séu lítil, líkt og Útlendingastofnun vísi til í ákvörðun sinni vegna umsóknar móður kæranda um dvalarleyfi árið 2020. Í því samhengi kveður kærandi samband sitt við móður sína hafa styrkst með degi hverjum en hún sé eina eftirlifandi dóttir hennar þar sem tvær systur kæranda hafi látist árið 1987. Kærandi eigi enga fjölskyldumeðlimi í heimaríki og sé nánasta fjölskylda hennar búsett hér á landi.

Þá kveðst kærandi nauðsynlega þarfnast aðstoðar og umönnunar fjölskyldumeðlima sinna en hún glími við alvarleg andleg veikindi og mæli læknar í heimaríki með því að henni verði gert kleift að sameinast fjölskyldu sinni hér á landi. Hún þjáist m.a. af [...]á alvarlegu stigi og þarfnist læknismeðferðar í umsjá sinna nánustu fjölskyldumeðlima, en meðferðarúrræði í heimaríki hafi ekki borið árangur.

Vegna framfærslu aðstandenda kveðst kærandi hafa notið fjárhagsstuðnings bróður og móður í um tvö ár. Hafi þau sent henni um [...] krónur á mánuði. Hvað áætlaða framfærslu á dvalartímanum varði hafi kærandi lagt fram bankavottorð sem sýni fram á innistæðu sem samsvari rúmum [...] milljónum króna, en hún hafi einnig lagt fram ráðningarsamning. Þá gerir kærandi athugasemdir við atriði í ákvörðun Útlendingastofnunar þess efnis að kærandi telji sig færa að sinna atvinnu sem sé til marks um batnandi heilsu.

Í tölvubréfi til kærunefndar, dags. 9. febrúar 2024, kemur fram að kærandi búi ein en hafi alla tíð búið í foreldrahúsum, áður en foreldrar hennar fluttust frá heimaríki, að undanskilinni búsetu á stúdentagörðum á námsárum kæranda. Kærandi hafi lokið háskólamenntun, og starfað á skrifstofu fyrirtækis sem annast rafmagns- og hitaveitu þar til skrifstofunni var lokað fyrir rúmum fimm árum. Á undanförnum árum hafi kærandi ekki verið vinnufær sökum veikinda. Þá vísar kærandi til þess að uppruni fjármuna sem er á bankareikningi hennar stafi frá millifærslum fjölskyldumeðlima sinna.

Meðal fylgigagna sem lögð voru fram fyrir kærunefnd eru samtals 16 millifærslukvittanir, ýmist frá móður eða bróður kæranda, á tímabilinu 7. júní 2022 til 13. nóvember 2023, fyrir [...] evrum í hvert skipti, samtals að fjárhæð [...] evra. Þá lagði kærandi einnig fram heilbrigðisgögn frá heilbrigðisstofnunum í heimaríki og á Íslandi, ásamt fleiri gögnum.

IV.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi á grundvelli þess að hann teljist hafa sérstök tengsl við landið, að fullnægðum skilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr. laganna, sé hann eldri en 18 ára og falli ekki undir ákvæði um önnur dvalarleyfi samkvæmt lögum þessum eða fullnægi ekki skilyrðum þeirra. Í 2. mgr. 78. gr. sömu laga kemur fram að til sérstakra tengsla geti m.a. talist tengsl sem útlendingur hefur stofnað til meðan á dvöl hans hér á landi hefur staðið samkvæmt útgefnu dvalarleyfi sem verður ekki endurnýjað eða hefur verið afturkallað vegna breyttra aðstæðna eða annarra atvika. Í 3. mgr. 78. gr. er kveðið á um að heildstætt mat skuli fara fram á tengslum umsækjanda við landið. Við það mat skuli að jafnaði horft til lengdar lögmætrar dvalar. Jafnframt sé heimilt að líta til fjölskyldutengsla, þ.e. fjölskyldusamsetningar umsækjanda með tilliti til umönnunarsjónarmiða, sbr. a-lið 3. mgr. 78. gr. laga um útlendinga, og félagslegra og menningarlegra tengsla við landið á grundvelli atvinnuþátttöku eða annarra sambærilegra tengsla, sbr. b-lið 3. mgr. 78. gr. laganna. 

Fyrir liggur að kærandi hefur aldrei haft dvalarleyfi hér á landi og hefur því ekki myndað tengsl við landið með lögmætri dvöl.

Þrátt fyrir að útlendingur hafi ekki dvalist hér á landi getur hann í undantekningartilvikum talist hafa sérstök tengsl við landið þegar heildstætt mat á aðstæðum hans leiðir til þess, t.d. ef rík umönnunarsjónarmið eru til staðar og bersýnilega væri ósanngjarnt að veita umsækjanda ekki dvalarleyfi á grundvelli þeirra, sbr. 4. mgr. 78. gr. laga um útlendinga. Þetta getur t.d. átt við þegar einstaklingur er einn eftir án fjölskyldumeðlima í heimaríki og þarfnast umönnunar og aðstoðar fjölskyldumeðlima sem búa hér á landi. Samkvæmt 9. mgr. 78. gr. laga um útlendinga getur ráðherra sett reglugerð um nánari skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis samkvæmt 78. gr., m.a. hvenær geti komið til beitingar undantekningarreglu 4. mgr. ákvæðisins. 

Í 20. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum, hefur ráðherra útfært við hvaða aðstæður getur komið til veitingar dvalarleyfis á grundvelli sérstakra tengsla þegar umsækjandi hefur ekki búið á Íslandi. Kemur þar fram að útgáfa slíks dvalarleyfis sé heimil eigi umsækjandi uppkomið barn eða foreldri sem búi á Íslandi og sé íslenskur ríkisborgari eða hafi ótímabundið dvalarleyfi eða dvalarleyfi sem geti myndað grundvöll fyrir ótímabundið dvalarleyfi. Umsækjandi þurfi að sýna fram á að hann hafi verið á framfæri þessa aðstandanda í að minnsta kosti ár og að fjölskyldu- og félagsleg tengsl hans við heimaríki séu slík að bersýnilega ósanngjarnt væri að veita honum ekki dvalarleyfi hér á landi. Þá kemur fram að umönnunarsjónarmið önnur en framfærsla þurfi að jafnaði að mæla með veitingu dvalarleyfis.

Dvalarleyfisumsókn kæranda grundvallast einkum á fjölskyldutengslum og umönnunarsjónarmiðum en hún kveðst eiga móður og bróður hér á landi og þarfnist umönnunar þeirra, ásamt umönnun og meðferð af hálfu geðlækna. Að sögn kæranda á hún enga fjölskyldumeðlimi í heimaríki en á Íslandi eigi hún bróður og móður, í Svíþjóð eigi hún tvo bræður og á Spáni einn bróður. Samkvæmt gögnum málsins dvelst móðir kæranda hér á landi á grundvelli dvalarleyfis vegna sérstakra tengsla, sbr. 78. gr. laga um útlendinga, og getur slíkt leyfi verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis, sbr. 8. mgr. 78. gr. laganna. Í hinni kærðu ákvörðun er m.a. vísað til umsóknar móður kæranda um dvalarleyfi frá 2020, þar sem m.a. kom fram að tengsl hennar við kæranda væru mjög lítil. Kom þar einnig fram að bróðir kæranda væri eini stuðningur móðurinnar. Í greinargerð kæranda er því hafnað að tengsl kæranda við móður sína séu lítil, þrátt fyrir að þær röksemdir hafi verið lagðar fram samhliða dvalarleyfisumsókn móður. Í því samhengi sé einkum vísað til þess að þrjú ár eru liðin frá dvalarleyfisumsókn móður kæranda, auk þess sem systur kæranda féllu frá árið 1987. Þær mæðgur séu að sögn kæranda mjög nánar og samband þeirra styrkist með hverjum deginum.

Þrátt fyrir málatilbúnað kæranda telur kærunefnd ljóst að fyrri yfirlýsingar aðila máls og annarra aðstandenda varðandi tengsl þeirra á milli geti haft áhrif við heildarmat á tengslum aðila við Ísland. Telur nefndin því ekki koma til greina að hafna rökstuðningi Útlendingastofnunar með vísan til þess að þrjú ár séu liðin frá umsókn móður kæranda. Enn fremur telur kærunefnd ljóst að atburðir frá 1987 geti ekki tekið slíkum breytingum frá árunum 2020 til 2023 að þeir hafi grundvallaráhrif á tengsl kæranda við móður sína. Telur kærunefnd því ljóst að tengsl kæranda og móður hennar, sem hafi verið lítil fyrir árið 2020, geti ekki hafa tekið slíkum breytingum eftir að móðir kæranda tók þá ákvörðun að flytjast frá heimaríki, að þau séu skyndilega mjög sterk. Kærunefnd telur óumdeilt að kærandi eigi fjölskyldutengsl við Ísland, en framangreint dregur óneitanlega úr þeim tengslum, einkum í ljósi þess að ákvæði 20. gr. reglugerðar um útlendinga miðar einkum við tengsl við foreldri eða uppkomið barn og hafa tengsl kæranda við bróður sinn því minni þýðingu. Af gögnum málsins má einnig ráða að kærandi hafi notið framfærslu af hálfu fjölskyldumanna sinna sem búsett eru á Íslandi. Samkvæmt millifærslukvittunum sem lagðar hafa verið fram vegna málsins móttók kærandi [...] evrur, eða um [...] krónur, frá móður sinni og bróður á tímabilinu 7. júní 2022 til 13. nóvember 2023. Kvittanirnar voru 16 talsins en hver færsla taldi á bilinu [...] evrur eða um [...] krónur. Samkvæmt öðrum gögnum í málinu á kærandi þó nokkra fjármuni á innstæðureikningi í heimaríki, eða um [...] evrur, sem jafngildir um [...] milljónum króna. Að sögn kæranda má rekja uppruna fjármuna á umræddum reikningi til millifærslna fjölskyldumeðlima hennar. Þá tilgreinir kærandi á dvalarleyfisumsókn sinni að hún hafi lokið þriggja ára diplómanámi frá vísinda- og tæknideild í [...]sem tilheyrir [...]háskólanum í Marokkó og að kærandi hafi starfað í greiðslumiðlun vegna rafmagns- og hitaveitu. Samkvæmt upplýsingum í tölvubréfi, dags. 9. febrúar 2024, hafi kærandi þó misst vinnuna sína en skrifstofu fyrirtækisins hafi verið lokað. Kærandi hafi verið óvinnufær sökum veikinda undanfarin ár. Í dvalarleyfisumsókn tilgreinir kærandi einnig að hún hafi þekkingu á marokkóskri matargerð, en sú þekking er jafnframt grundvöllur ráðningarsamnings hennar og umsóknar um atvinnuleyfi hér á landi.

Heilbrigðisgögn bera með sér að kærandi þurfi á heilbrigðisþjónustu að halda vegna andlegra veikinda sinna, en um það vísast hvort tveggja til gagna úr heimaríki kæranda, en einnig til heilbrigðisgagna frá íslenskum heilbrigðisstofnunum. Þá hafa bæði móðir og bróðir kæranda, sem búsett eru hér á landi, lagt fram vottorð þar sem fram koma að andleg heilsa kæranda og [...] hafi valdið þeim vanlíðan. Þá hefur kærandi sótt meðferð á geðdeild háskólasjúkrahúss í heimaríki og þarf á áframhaldandi læknismeðferð og eftirfylgni að halda. Enn fremur kemur fram í læknisvottorði, dags. 10. febrúar 2022, að mælt sé með því að kæranda verði kleift að sameinast fjölskyldu sinni og vísar kærandi til þess í greinargerð sinni að umönnun fjölskyldu sinnar sé það meðferðarúrræði sem gagnast muni henni best en samkvæmt sálfræðivottorði hafa meðferðarúrræði í heimaríki ekki borið árangur. Telur kærunefnd gögn málsins óneitanlega sýna fram á slæma andlega heilsu kæranda og þörf hennar fyrir áframhaldandi læknismeðferð. Gögn málsins benda þó til þess að kærandi hafi hlotið meðferð við veikindum sínum í heimaríki og geti fengið slíka þjónustu þar áfram. Þrátt fyrir að stuðningur móður og bróður kæranda sé mikilvægur verður ekki sé að kærandi geti ekki notið stuðnings annarra fjölskyldumeðlima í heimaríki og haldið tengslum við ættingja sína hér á landi í gegnum samskiptamiðla og með heimsóknum.

Með tölvubréfi kærunefndar, dags. 7. febrúar 2024, var lagt fyrir kæranda að leggja fram frekari skýringar varðandi tengsl hennar í heimaríki. Einkum var óskað eftir upplýsingum um búsetu hennar, fyrri störf, menntun og uppruna fjármuna sem er á innstæðureikningi kæranda. Í svari kæranda, dags. 9. febrúar 2024, kemur m.a. fram að hún búi ein og hafi gert frá því að foreldrar hennar hafi yfirgefið heimaríki. Fram að því hafi kærandi þó búið með foreldrum sínum að undanskilinni búsetu á stúdentagörðum þegar kærandi var í háskólanámi. Fram kemur að kærandi hafi lokið háskólamenntun og verið í skrifstofustarfi þar til vinnustað kæranda hafi verið lokað fyrir rúmum fimm árum. Á undanförnum árum hafi kærandi þó ekki getað starfað sökum veikinda.

Kærunefnd hefur yfirfarið framangreindar skýringar kæranda. Er það mat nefndarinnar að ekki séu fyrir hendi slík félagsleg-, menningarleg- eða önnur sambærileg tengsl að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli 78. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi búið í heimaríki sínu alla tíð. Þar hafi hún m.a. stundað háskólanám og sinnt störfum í greiðslumiðlun vegna vatns- og rafveitu. Þá lítur nefndin einkum til þess að kærandi og móðir hennar hafi báðar búið í heimaríki eftir andlát föður kæranda, en móðir kæranda tekið þá ákvörðun að flytjast búferlum, og voru lítil tengsl hennar og kæranda meðal þeirra atriða sem móðir kæranda lagði til grundvallar umsóknar sinnar um dvalarleyfi hér á landi. Þá lítur kærunefnd einnig til þess að kærandi sé í áframhaldandi læknismeðferð hjá geðlæknum í heimaríki vegna andlegrar heilsu sinnar. Samkvæmt gögnum málsins á kærandi jafngildi um [...] milljóna íslenskra króna á bankareikningi en samkvæmt framfærslureiknivél Numbeo er framfærslukostnaður í Marokkó um það bil þriðjungur þess sem hann er á Íslandi. Telur kærunefnd ljóst af framangreindu að kærandi geti séð fyrir sjálfri sér, hvort heldur með eigin fé og fjármagnstekjum, atvinnuþátttöku, eða áframhaldandi peningasendingum frá Íslandi, kjósi hún svo. Að öllu framangreindu virtu er það mat kærunefndar að aðstæður kæranda séu ekki slíkar að bersýnilega ósanngjarnt væri að veita henni ekki dvalarleyfi hér á landi, sbr. 4. mgr. 78. gr. laga um útlendinga, sbr. og 20. gr. reglugerðar um útlendinga. Verður hin kærða ákvörðun Útlendingastofnunar því staðfest.

 

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest

 

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Valgerður María Sigurðardóttir

 

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                             Sandra Hlíf Ocares


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta