Hoppa yfir valmynd

Nr. 263/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 11. maí 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 263/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU23010045

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 21. janúar 2023 kærði […], fd. […], ríkisborgari Sómalíu (hér eftir kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 5. janúar 2023, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga. Hinn 5. janúar 2023 var ákvörðun Útlendingastofnunar send talsmanni kæranda með rafrænum hætti.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Í ákvæði 7. gr. kemur fram að ákvarðanir Útlendingastofnunar sé heimilt að kæra til kærunefndar útlendingamála innan 15 daga frá því að útlendingi var tilkynnt um ákvörðunina. Kærunefnd barst kæra á ákvörðuninni 21. janúar 2023 en ljóst er að kærufresturinn, sem var til 20. janúar 2023, var þá liðinn.

Í greinargerð kæranda til kærunefndar kemur fram að ef kæra hans hefði borist kærunefnd einum degi fyrr en hún gerði, þ.e. föstudaginn 20. janúar 2023, hefði hún borist innan þess frests sem 7. gr. laga um útlendinga mæli fyrir um. Ljóst sé að engu muni fyrir skilvirkni málsmeðferðar umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd á Íslandi hvort kæran hefði verið send seinnipart föstudags, 20. janúar 2023, þar sem frestur til skila á greinargerð hefði aldrei verið veittur fyrr en á mánudeginum 23. janúar 2023. Með skil á greinargerð strax hafi talsmaður kæranda reynt að koma til móts við þessi mistök og tryggja að málsmeðferð yrði áfram vönduð og skilvirk. Vegna óvæntra og ófyrirsjáanlegra atvika hafi fyrirfarist hjá talsmanni að senda kæru innan frests. Rétt sé að halda því til haga að enginn þriðji aðili sé til staðar í þessu stjórnsýslumáli og engir andstæðir hagsmunir sem vegist á. Því sé enn frekari ástæða til að taka málið til meðferðar hjá kærunefnd eins og getið sé um í athugasemdum við ákvæði 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Kærandi telur að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar og að honum verði ekki hegnt fyrir mistök talsmanns síns. Kærandi hafi fært sterk rök fyrir því að líf hans sé í hættu í Sómalíu og ljóst sé af mörgum fyrri úrskurðum kærunefndar að aðstæður í landinu séu almennt mjög varhugaverðar. Veigameiri ástæður sé vart hægt að hugsa sér. Þá telur hann rannsókn Útlendingastofnunar hafa verið háða verulegum annmörkum. Telur kærandi því ekki aðeins afsakanlegt að kæra hafi ekki borist fyrr heldur einnig að veigamiklar ástæður mæli með því að kæra hans verði tekin til meðferðar.

Í tölvubréfi talsmanns til kærunefndar, dags. 25. apríl 2023, kemur fram að ný lög hafi nú tekið gildi sem skerði hugsanlega möguleika kæranda til endurupptöku máls hans hjá Útlendingastofnun. Kærandi hafi því afar ríka hagsmuni, til viðbótar við þá sem nefndir hafi verið í greinargerð, af því að vera heimiluð kæra á grundvelli 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

II.        Niðurstaða

Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er kveðið á um réttaráhrif þess þegar kæra berst æðra stjórnvaldi að liðnum kærufresti. Þar segir í 1. mgr.:

„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá, nema:

1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða

2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.“

Í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga er því að finna tvær undantekningarreglur frá þeirri meginreglu laganna að kærumáli skuli vísað frá æðra stjórnvaldi ef kæra berst að liðnum kærufresti. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum segir um ákvæðið að í fyrsta lagi sé gerð undantekning þegar afsakanlegt sé að kæra hafi borist að liðnum kærufresti. Hér geti t.a.m. fallið undir þau tilvik ef stjórnvald lætur hjá líða að veita leiðbeiningar um kæruheimild skv. 20. gr. laganna eða veitir rangar eða ófullnægjandi upplýsingar. Í öðru lagi megi taka mál til meðferðar ef veigamiklar ástæður mæli með því. Við mat á því hvort veigamiklar ástæður mæli með því að kæra verði tekin til meðferðar hefur í stjórnsýsluframkvæmd meðal annars verið litið til hagsmuna aðila máls svo og almannahagsmuna, t.a.m. hvort mál hafi fordæmisgildi.

Ákvörðun Útlendingastofnunar var sem fyrr segir send talsmanni kæranda með rafrænum hætti, í gegnum Signet transfer 5. janúar 2023, sbr. 4. mgr. 44. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, og var því sannanlega komin til vitundar kæranda þann dag. Í ákvörðun Útlendingastofnunar var, í samræmi við 2. tölul. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga, gerð grein fyrir kæruheimild, kærufresti og hvert kærandi skyldi beina kæru. Ekki verður séð að þær upplýsingar sem kæranda voru veittar í ákvörðun Útlendingastofnunar varðandi kæru til kærunefndar útlendingamála hafi verið ófullnægjandi eða að leiðbeiningarskyldu hafi ekki verið gætt.

Í 7. gr. laga um útlendinga kemur fram að ákvarðanir Útlendingastofnunar sé heimilt að kæra til kærunefndar útlendingamála innan 15 daga frá því að útlendingi var tilkynnt um ákvörðunina. Kveðið er á um útreikning frests í 1. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga á eftirfarandi hátt: ,,Þar sem kveðið er á um frest í lögum telst sá dagur, sem fresturinn er talinn frá, ekki með í frestinum.“ Samkvæmt þessu var fyrsti dagur kærufrests í máli kæranda 6. janúar 2023 og var síðasti dagur 15 daga frestsins 20. janúar 2023. Var kærufrestur því liðinn er kæran barst kærunefnd útlendingamála 21. janúar 2023. Ljóst er að talsmaður kæranda var meðvitaður um að kærufrestur væri til 20. janúar 2023 og kvaðst hann oft hafa hugsað til málsins án þess þó að leggja fram kæru innan kærufrestsins. Að mati kærunefndar bera gögn málsins ekki með sér að afsakanlegt hafi verið að kæra hafi borist of seint. Að framangreindu virtu er það niðurstaða kærunefndar að ekki beri að taka kæruna til meðferðar á grundvelli 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Kærunefnd hefur farið yfir gögn málsins, þ.m.t. ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda. Að mati nefndarinnar verður hvorki séð af gögnum málsins að hagsmunir kæranda eða almannahagsmunir krefjist þess að málið verði tekið til meðferðar, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Þótt fallast megi á það með kæranda að ákvarðanir er lúta að alþjóðlegri vernd og mannúðarvernd séu í eðli sínu veigamiklar, og hagsmunir aðila slíkra mála miklir, þá er í 7. gr. laga um útlendinga mælt fyrir um kærufrest til kærunefndar vegna slíkra ákvarðana og verður ekki vikið frá honum nema veigamikil rök mæli með því. Að öðrum kosti væri kærufresturinn til lítils í ljósi eðlis málaflokksins.

Kærunefnd hefur í fyrri úrskurðum sínum lagt til grundvallar að aðstæður í Mógadisjú, heimaborg kæranda, hafi farið batnandi á undanförnum árum eftir að stjórnvöld hafi náð yfirráðum í borginni og talið endursendingu þangað tæka í tilteknum tilvikum. Þá verður ekki ráðið að ágallar hafi verið á vinnslu málsins hjá Útlendingastofnun.

Kærunefnd vekur athygli kæranda á því, einkum í ljósi þess að kærandi bar fyrir sig [...] tveimur mánuðum eftir að hann lagði fram kæru til kærunefndar, að kærandi getur lagt fram endurtekna umsókn hjá Útlendingastofnun samkvæmt 35. gr. a laga um útlendinga.

Með vísan til framangreinds er kærunni vísað frá.

Úrskurðarorð:

 

Kæru kæranda á ákvörðun Útlendingastofnunar er vísað frá.

 

The applicants appeal of the decision of the Directorate of Immigration is dismissed.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

Þorbjörg I. Jónsdóttir                                                Sindri M. Stephensen


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum