Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 71/2022 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 71/2022

Fimmtudaginn 28. apríl 2022

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 28. janúar 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 28. október 2021, um að synja umsókn hans um atvinnuleysisbætur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 19. janúar 2021. Í kjölfar úrskurðar úrskurðarnefndar velferðarmála í máli kæranda nr. 232/2021 var umsóknin tekin til afgreiðslu og óskað eftir gögnum frá kæranda. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 28. október 2021, var umsókn kæranda synjað með vísan til 19. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 28. janúar 2022. Með bréfi, dags. 1. febrúar 2022, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 8. mars 2022, og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 9. mars 2022. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndar greinir kærandi frá því að upphaflegri umsókn hans hafi verið hafnað af Vinnumálastofnun með bréfi, dags. 10. febrúar 2021, á þeim grundvelli að hann hefði þegar náð 70 ára aldri. Kærandi hafi talið ljóst að sú niðurstaða væri röng, enda hafi hann sent Vinnumálastofnun erindi áður en hann hafi náð þeim aldri. Engin önnur rök hafi verið færð fyrir því að hann ætti ekki rétt til atvinnuleysisbóta. Mat kæranda hafi reynst rétt, enda hafi úrskurðarnefnd velferðarmála ógilt ákvörðun Vinnumálastofnunar með úrskurði sínum, dags. 8. júlí 2021, í máli nr. 232/2021. Með því hafi myndast réttmætar væntingar hjá kæranda um að hann ætti rétt til atvinnuleysisbóta, enda hafi hann litið svo á að eina ástæða höfnunar Vinnumálastofnunar hefði verið aldur kæranda, sem úrskurðarnefnd velferðarmála hafi hafnað.

Kærandi telji það brot á rannsóknarreglu, meðalhófsreglu, leiðbeiningarreglu og meginreglu stjórnsýsluréttar um vandaða stjórnsýsluhætti að hafna umsókn hans um atvinnuleysisbætur á grundvelli nýrra röksemda með bréfi, dags. 28. október 2021, án þess að ný gögn hefðu komið fram. Slíkt geti ekki staðist stjórnsýslulög.

Kæranda séu vinnubrögð Vinnumálastofnunar algerlega óskiljanleg og óboðleg. Stofnunin hafi ekki gengið fyrst úr skugga um hvort umsækjandi hafi uppfyllt úthlutunarreglur (25% viðmiðið) og hafi ekki tilkynnt strax vorið 2020 að þessum skilyrðum væri ekki fullnægt. Þess í stað sé lögð áhersla á að í nóvember 2020 hafi umsækjandinn orðið sjötíu ára og eigi þess vegna engan rétt. Honum hafi hins vegar verið tilkynnt um það í árslok 2021 með bréfi, dags. 28. október 2021, eða einu og hálfu ári eftir upphaflega umsókn, að reiknað endurgjald hafi verið lægra en 25% af viðmiðunarfjárhæð Ríkisskattstjóra og að lágmarksbótarétti sé því ekki náð. Þessi töf sýni vanvirðingu gagnvart skjólstæðingi og sé mjög ámælisverð. Hún kunni einnig að hafa orðið hagsmunum og mögulegri leit að öðrum úrræðum (hlutabótaleið/viðspyrnustyrk o.fl.) til skaða.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að upphaf málsins megi rekja til erindis sem Vinnumálastofnun hafi borist frá kæranda þann 19. janúar 2021 þar sem kærandi hafi óskað eftir því að sækja um atvinnuleysisbætur. Þar sem kærandi hafi náð 70 ára aldri þann X nóvember 2020 hafi hann aftur á móti ekki getað lagt inn umsókn til Vinnumálastofnunar með formlegum hætti. Með erindi, dags. 10. febrúar 2021, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hans hafi verið synjað á grundvelli b-liðar 1. mgr. 18. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem kærandi hefði náð 70 ára aldri. Ákvörðun Vinnumálastofnunar hafi verið kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála þann 5. maí 2021. Með úrskurði úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 232/2021 hafi ákvörðun Vinnumálastofnunar verið felld úr gildi og lagt fyrir stofnunina að taka umsókn kæranda til efnislegrar afgreiðslu.

Í kjölfar úrskurðar nefndarinnar hafi kæranda verið sent erindi, dags. 14. september 2021, þar sem óskað hafi verið eftir gögnum svo að hægt væri að afgreiða umsókn hans. Óskað hafi verið eftir því að kærandi afhenti Vinnumálastofnun staðfestingu frá Skattinum á skilum á greiðslu tryggingagjalds og staðgreiðsluskatts síðastliðinna þriggja ára fyrir umsóknardag, eða á tímabilinu maí 2017 til maí 2020. Kæranda hafi verið veittur sjö virkra daga frestur til að skila inn umbeðnum gögnum. Vinnumálastofnun hafi aftur á móti ekki borist umrædd gögn og hafi kæranda því með erindi, dags. 18. október 2021, verið tilkynnt að umsókn hans hefði verið synjað þar sem umbeðin gögn hefðu ekki borist stofnuninni innan tilskilins frests.

Þann 19. október 2021 hafi Vinnumálastofnun borist erindi frá kæranda þar sem hann hafi greint frá því að hann hefði sannarlega skilað stofnuninni umbeðnum gögnum þann 21. september 2021. Umsókn kæranda hafi í kjölfarið verið tekin til efnislegrar afgreiðslu. Með erindi, dags. 28. október 2021, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hans hafi verið synjað þar sem samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi vinna hans á ávinnslutímabili bótaréttar ekki náð lágmarksbótarétti. Ákvörðunin hafi verið tekin á grundvelli 19. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Í kæru til úrskurðarnefndar geri kærandi athugasemdir við málsmeðferð Vinnumálastofnunar. Kærandi telji það vera brot á rannsóknarreglu, meðalhófsreglu, leiðbeiningarreglu og meginreglu stjórnsýsluréttar um vandaða stjórnsýsluhætti að hafna umsókn hans um atvinnuleysisbætur. Umsókn hans hafi verið hafnað á grundvelli annarra röksemda en fram hafi komið í ákvörðun stofnunarinnar, dags. 10. febrúar 2021, án þess að ný gögn hefðu komið fram. Þá telji kærandi vinnubrögð Vinnumálastofnunar óskiljanleg og óboðleg. Kærandi geri athugasemdir við það að Vinnumálastofnun hafi ekki fyrst gengið úr skugga um að hann hafi uppfyllt skilyrði laganna um 25% lágmarksbótarétt áður en umsókn hans hafi verið hafnað á þeim grundvelli að hann hafi ekki uppfyllt aldursskilyrði laganna. Kærandi telji að þessi vinnubrögð stofnunarinnar hafi valdið ámælisverðum töfum á máli hans sem kynni að hafa orðið hagsmunum hans og mögulegri leit að öðrum úrræðum til skaða.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum í máli kæranda starfi hann sem sjálfstætt starfandi einstaklingur sem greiði staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjald einu sinni á ári. Samkvæmt b-lið 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé sjálfstætt starfandi einstaklingur hver sá sem starfi við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi í því umfangi að honum sjálfum sé gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt reglum Ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald, skil á staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjaldi vegna starfs síns.

Um útreikning bótaréttar þeirra sem starfi sem sjálfstætt starfandi fari eftir 19. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í 3. mgr. 19. gr. sé að finna sérreglu vegna ársmanna, þ.e. þeirra sem greiði staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjald einu sinni á ári, en ákvæðið sé svohljóðandi:

„Til að reikna út tryggingahlutfall sjálfstætt starfandi einstaklings sem greiðir staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjald einu sinni á ári skal finna mánaðarlegar meðaltekjur hins tryggða í formi reiknaðs endurgjalds yfir síðasta tekjuár áður en að hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar. Telst hann að fullu tryggður samkvæmt lögum þessum hafi hann greitt staðgreiðsluskatt af mánaðarlegum meðaltekjum á síðasta tekjuári sem nemur að lágmarki viðmiðunarfjárhæð ríkisskattstjóra, sbr. b-lið 3. gr., fyrir viðkomandi starfsgrein í hverjum mánuði og tryggingagjald. Hafi hann greitt staðgreiðsluskatt af mánaðarlegum meðaltekjum á sama tímabili sem eru lægri en viðmiðunarfjárhæð ríkisskattstjóra, sbr. b-lið 3. gr., í viðkomandi starfsgrein í hverjum mánuði skal tryggingahlutfall hans ákvarðast af hlutfalli fjárhæðar reiknaðs endurgjalds sem greitt hefur verið af og viðmiðunarfjárhæðar, sbr. þó einnig 4. og 6. mgr.“

Samkvæmt framangreindum ákvæðum laga um atvinnuleysistryggingar beri Vinnumálastofnun að reikna bótarétt sjálfstætt starfandi einstaklings út frá þeim launum sem viðkomandi hafi reiknað sér vegna vinnu sinnar. Ef reiknað endurgjald nái ekki lágmarksviðmiðum Ríkisskattstjóra ákvarðist bótaréttur af  hlutfalli reiknaðs endurgjalds sem greitt hafi verið af og viðmiðunarfjárhæð Ríkisskattstjóra. Sjálfstætt starfandi einstaklingur geti því einungis átt hlutfallslegan rétt til bóta ef reiknað endurgjald sé lægra en viðmiðunarfjárhæð Ríkisskattstjóra.

Þá sé í seinni málslið 4. mgr. 19. gr. jafnframt kveðið á um útreikning bótaréttar ársmanna, en þar segi orðrétt:

„Sjálfstætt starfandi einstaklingur sem greiðir mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi sem er lægra en 25% af viðmiðunarfjárhæð ríkisskattstjóra, sbr. b-lið 3. gr., í viðkomandi starfsgrein á síðustu tólf mánuðum áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar telst ekki tryggður samkvæmt lögum þessum. Hið sama gildir um sjálfstætt starfandi einstakling sem greiðir staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi einu sinni á ári sem er að meðaltali lægra en 25% af viðmiðunarfjárhæð ríkisskattstjóra, sbr. b-lið 3. gr., í viðkomandi starfsgrein í hverjum mánuði á síðasta tekjuári áður en hann sótti um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar.“

Samkvæmt framangreindu ákvæði teljist ársmaður sem greitt hafi staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi sem sé að meðaltali lægra en 25% af viðmiðunarfjárhæð Ríkisskattstjóra ekki tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum í máli kæranda hafi kærandi starfað við ferðaþjónustu. Þá hafi kærandi jafnframt staðið að útgáfu bóka um Ísland til erlendra ferðamanna. Starf kæranda falli undir tekjuflokk C9 samkvæmt reglum um reiknað endurgjald, settum samkvæmt 3. málsl. 1. mgr. 58. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Viðmiðunartekjur fyrir tekjuflokk C9 vegna ársins 2018 hafi verið 437.000 kr., 465.000 kr. vegna ársins 2019 og 485.000 kr. vegna ársins 2020.

Eins og áður segi hafi verið óskað eftir því að kærandi afhenti Vinnumálastofnun staðfestingu frá embætti Skattsins á skilum á greiðslu tryggingagjalds og staðgreiðsluskatts síðastliðinna þriggja ára fyrir umsóknardag, eða á tímabilinu maí 2017 til maí 2020. Af umræddri staðfestingu frá Skattinum megi ráða að kærandi hafi greitt staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi á árunum 2018 og 2020. Árið 2018 hafi staðgreiðsla kæranda af reiknuðu endurgjaldi numið að meðaltali 9% af viðmiðunarfjárhæð Ríkisskattstjóra. Þá hafi endurgjald kæranda vegna ársins 2020 numið 7% af viðmiðunarfjárhæð Ríkisskattstjóra. Ljóst sé, með vísan til framangreinds, að kærandi hafi greitt staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi sem sé mun lægra en 25% af viðmiðunarfjárhæð Ríkisskattstjóra. Kærandi teljist því ekki tryggður á grundvelli laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. seinni málslið 4. mgr. 19. gr. laganna.

Líkt og rakið hafi verið geri kærandi athugasemdir við málsmeðferð Vinnumálastofnunar í kæru til úrskurðarnefndar. Kærandi telji það fela í sér brot á málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga að umsókn hans hafi verið hafnað á grundvelli annarra röksemda en fram hafi komið í ákvörðun stofnunarinnar, dags. 10. febrúar 2021, án þess að ný gögn hefðu komið fram. Kærandi hafi jafnframt gert athugasemdir við vinnubrögð stofnunarinnar.

Vinnumálastofnun hafni því að málsmeðferð stofnunarinnar á máli kæranda hafi farið í bága við málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga. Máli sínu til stuðnings vísi Vinnumálastofnun til þess að kærandi hafi ekki afhent stofnuninni staðfestingu frá embætti Skattsins á skilum á greiðslu tryggingagjalds og staðgreiðsluskatts fyrr en þann 21. september 2021. Umrædd staðfesting hafi verið forsenda þess að hægt væri að reikna bótarétt kæranda og afgreiða umsókn hans. Fyrir þann tíma hafi stofnuninni því ekki hafa getað verið ljóst að kærandi uppfyllti ekki skilyrði um lágmarksbótarétt, sbr. 4. mgr. 19. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þá hafi ekki þótt tilefni til að óska eftir umræddri staðfestingu þegar kærandi hafi fyrst sótt um greiðslu atvinnuleysistrygginga, enda hafi Vinnumálastofnun talið að kærandi uppfyllti ekki almenn skilyrði greiðslna atvinnuleysistrygginga samkvæmt 13. gr. og 18. gr. laganna. Það sé því mat stofnunarinnar að málsmeðferð hafi verið í samræmi við stjórnsýslulög og vandaða stjórnsýsluhætti, þrátt fyrir að ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja kæranda um greiðslu atvinnuleysistrygginga á grundvelli b-liðar 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hafi síðar verið felld úr gildi með úrskurði nefndarinnar í máli nr. 232/2021.

Með vísan til framangreinds sé það mat Vinnumálastofnunar að hafna beri umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur, enda teljist kærandi ekki tryggður á grundvelli laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. seinni málslið 4. mgr. 19. gr. laganna.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur á grundvelli 1. mgr. 19. gr. laga nr. 54/2006.

Kærandi hefur gert ýmsar athugasemdir við vinnubrögð og málsmeðferð Vinnumálastofnunar, svo sem að leiðbeiningarregla 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi verið brotin, einnig rannsóknarregla 10. gr. og meðalhófsregla 12. gr. sömu laga sem og meginregla stjórnsýsluréttar um vandaða stjórnsýsluhætti. Að mati úrskurðarnefndarinnar gefa gögn málsins ekki til kynna að brotið hafi verið gegn þessum málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga eða að tilefni sé til sérstakra athugana eða umfjöllunar um þær.

Í 1. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um gildissvið laganna, en þar segir að lögin gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Í 2. gr. laganna kemur fram að markmið þeirra sé að tryggja launamönnum eða sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir eru að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt. Sjálfstætt starfandi einstaklingur er hver sá sem starfar við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi í því umfangi að honum sjálfum er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt reglum Ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald, skil á staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjaldi vegna starfs síns, sbr. b-lið 3. gr. laganna.

Samkvæmt gögnum málsins var kærandi sjálfstætt starfandi áður en hann sótti um atvinnuleysisbætur. Í IV. kafla laga nr. 54/2006 er fjallað um skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum sjálfstætt starfandi einstaklinga. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. telst sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. b-lið 3. gr., að fullu tryggður samkvæmt lögunum eftir að hafa greitt mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi er nemur að lágmarki viðmiðunarfjárhæð Ríkisskattstjóra, sbr. b-lið 3. gr., í viðkomandi starfsgrein og tryggingagjald samfellt á síðustu tólf mánuðum áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar að öðrum skilyrðum uppfylltum, sbr. þó einnig 4. og 6. mgr. Í 3. mgr. 19. gr. er að finna sérreglu vegna ársmanna, þ.e. þeirra sem greiða staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjaldi einu sinni á ári, líkt og á við í tilviki kæranda, en þar segir:

„Til að reikna út tryggingahlutfall sjálfstætt starfandi einstaklings sem greiðir staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjald einu sinni á ári skal finna mánaðarlegar meðaltekjur hins tryggða í formi reiknaðs endurgjalds yfir síðasta tekjuár áður en að hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar. Telst hann að fullu tryggður samkvæmt lögum þessum hafi hann greitt staðgreiðsluskatt af mánaðarlegum meðaltekjum á síðasta tekjuári sem nemur að lágmarki viðmiðunarfjárhæð ríkisskattstjóra, sbr. b-lið 3. gr., fyrir viðkomandi starfsgrein í hverjum mánuði og tryggingagjald. Hafi hann greitt staðgreiðsluskatt af mánaðarlegum meðaltekjum á sama tímabili sem eru lægri en viðmiðunarfjárhæð ríkisskattstjóra, sbr. b-lið 3. gr., í viðkomandi starfsgrein í hverjum mánuði skal tryggingahlutfall hans ákvarðast af hlutfalli fjárhæðar reiknaðs endurgjalds sem greitt hefur verið af og viðmiðunarfjárhæðar, sbr. þó einnig 4. og 6. mgr.“

Samkvæmt framangreindu ber Vinnumálastofnun að reikna bótarétt sjálfstætt starfandi einstaklings út frá þeim launum sem viðkomandi reiknar sér vegna vinnu sinnar. Ef reiknað endurgjald atvinnuleitanda nær ekki lágmarksviðmiðum Ríkisskattstjóra ákvarðast bótaréttur af hlutfalli reiknaðs endurgjalds sem greitt hefur verið af og viðmiðunarfjárhæð Ríkisskattstjóra. Umsækjandi um atvinnuleysisbætur getur því einungis átt hlutfallslegan rétt til bóta ef reiknað endurgjald er lægra en viðmiðunarfjárhæð Ríkisskattstjóra í viðkomandi starfsgrein.

Þá segir svo í 4. mgr. 19. gr.:

Sjálfstætt starfandi einstaklingur sem greiðir mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi sem er lægra en 25% af viðmiðunarfjárhæð ríkisskattstjóra, sbr. b-lið 3. gr., í viðkomandi starfsgrein á síðustu tólf mánuðum áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar telst ekki tryggður samkvæmt lögum þessum. Hið sama gildir um sjálfstætt starfandi einstakling sem greiðir staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi einu sinni á ári sem er að meðaltali lægra en 25% af viðmiðunarfjárhæð ríkisskattstjóra, sbr. b-lið 3. gr., í viðkomandi starfsgrein í hverjum mánuði á síðasta tekjuári áður en hann sótti um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar.

Af framangreindu leiðir að ársmaður sem greitt hefur staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi sem er að meðaltali lægra en 25% af viðmiðunarfjárhæð Ríkisskattstjóra telst ekki tryggður samkvæmt lögum nr. 54/2006. Starf kæranda fellur undir tekjuflokk C9 samkvæmt reglum um reiknað endurgjald, settum á grundvelli 3. málsl. 1. mgr. 58. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Viðmiðunartekjur Ríkisskattstjóra fyrir tekjuflokk C9 vegna ársins 2018 voru 437.000 kr. á mánuði, 465.000 kr. á mánuði vegna ársins 2019 og 485.000 kr. á mánuði vegna ársins 2020.

Samkvæmt þeim gögnum sem kærandi lagði fram greiddi hann staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi á árunum 2018 og 2020. Árið 2018 nam staðgreiðsla kæranda af reiknuðu endurgjaldi að meðaltali 9% af viðmiðunarfjárhæð Ríkisskattstjóra og árið 2020 nam hún 7% af viðmiðunarfjárhæð Ríkisskattstjóra. Þar sem greidd staðgreiðsla af reiknuðu endurgjaldi náði ekki því lágmarki sem ákvæði 4. mgr. 19. gr. laga nr. 54/2006 kveður á um var hann ekki tryggður samkvæmt lögunum. Með vísan til þess er ákvörðun Vinnumálastofnunar um synjun á umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 28. október 2021, um að synja umsókn A um atvinnuleysisbætur, er staðfest.

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira