Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir um sjávarútveg og fiskeldi

Úrskurður nr. 3/2024 um ákvörðun Fiskistofu að hafna beiðni um endurupptöku eða afturköllun ákvörðunar um skriflega áminningu vegna brota á 2. mgr. 2. gr. laga um umgengni um nytjastofna sjávar, nr. 57/1996.

Stjórnsýslukæra

Matvælaráðuneytið vísar til stjórnsýslukæru, dags. 1. september 2023, þar sem [A] fyrir hönd [B], kærði ákvörðun Fiskistofu, dags. 9. júní 2023, um að hafna beiðni hans um endurupptöku eða afturköllun ákvörðunar Fiskistofu, dags. 14. október 2022, um að veita honum, sem eiganda og útgerðaraðila skipsins [C] skriflega áminningu vegna brota á 2. mgr. 2. gr. laga um umgengni um nytjastofna sjávar nr. 57/1996 sbr. 3. mgr. 15. gr. sömu laga.

Kæruheimild er í 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 

Kröfur kæranda

Kærandi krefst þess aðallega að matvælaráðuneytið felli úr gildi ákvörðun Fiskistofu, dags. 9. júní 2023, og taki nýja ákvörðun þess efnis að fella úr gildi ákvörðun Fiskistofu, dags. 14. október 2022, um að veita honum persónulega, sem eiganda og útgerðaraðila fiskiskipsins [C] skriflega áminningu fyrir brottkast áhafnar skipsins í veiðiferð þess þann 17. maí 2022. Til vara krefst kærandi þess að felld verði úr gildi ákvörðun Fiskistofu, dags. 9. júní 2023 og að lagt verði fyrir Fiskistofu að taka málið á ný til löglegrar meðferðar. Byggir kærandi kröfur sínar á því að Fiskistofu beri að endurupptaka eða eftir atvikum afturkalla ákvörðun sína frá 14. október 2022, þar sem skilyrði 1. mgr. 24. gr. og 25. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993 eru uppfyllt.

 

Málsatvik

Málsatvikum er lýst í skýrslu veiðieftirlitsmanna Fiskistofu, dags. 9. júní 2022. Þar kemur fram að þann 17. maí 2022, um kl. 10:52, hafi veiðieftirlitsmenn verið við eftirlit á sunnanverðum Vestfjörðum. Þeir hafi veitt því athygli að skipið [C] hafi verið við veiðar á svæðinu og ákveðið að senda ómannað loftfar með myndaupptökubúnaði, til að fylgjast með veiðum skipsins. Fjarstýrðu loftfari (dróna) hafi verið flogið frá [D], um 4,2 km að skipinu, sem var þar við veiðar. Á meðan á fluginu stóð hafi sést þegar skipverji var að draga inn veiðarfæri (handfæri) og hafi þá veiðieftirlitsmenn séð til hans kasta fiski fyrir borð. Hafi þá verið sett á upptöku sem hófst kl. 11:00 og stóð til kl. 11:18. Á myndbandsupptöku sjáist þegar skipverji varpi fyrir borð þegar veiddum afla með því ýmist að hrista eða losa fisk af krókum, sem verið var að draga inn, með þeim afleiðingum að hann féll aftur í sjóinn, samtals fimm bolfiskum (einum steinbít og fjórum þorskum).

Með bréfi, dags. 5. september 2022, tilkynnti Fiskistofa kæranda að stofnunin hefði mál hans til meðferðar og var kæranda veittur andmælaréttur vegna áforma Fiskistofu um að beita kæranda viðurlögum vegna meintra brota áhafnar og eftir atvikum útgerðar fiskiskipsins [C] gegn 2. mgr. 2. gr. laga um umgengni um nytjastofna sjávar, nr. 57/1996 þann 17. maí 2022. Þar kom fram að málið hafi verið tekið til meðferðar og var málsatvikum lýst, leiðbeint um lagaatriði og aðila málsins gefinn kostur á að koma andmælum og athugasemdum á framfæri í samræmi við 13. og 14. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 áður en afstaða verði tekin til þess hvort brot hafi verið framin og eftir atvikum tekin ákvörðun um viðurlög. Frestur til að skila athugasemdum var til og með 19. september 2022. Engar athugasemdir bárust Fiskistofu frá kæranda innan framangreinds frests.

Með bréfi, dags. 14. október 2022, tók Fiskistofa ákvörðun um veita kæranda skriflega áminningu fyrir brottkast áhafnar fiskiskipsins [C]. Þar er vísað til framangreindrar málsatvikalýsingar og andmælabréfs Fiskistofu til kæranda, dags. 5. september 2022. Í bréfinu er vísað til 2. mgr. 2. gr. laga um umgengni um nytjastofna sjávar, en þar kemur fram að skylt sé að hirða og koma með að landi allan afla sem komi í veiðarfæri fiskiskipa. Ráðherra geti þó heimilað með reglugerð að fiski af verðlausum tegundum sé ekki landað heldur varpað í sjóinn, sbr. reglugerð um nýtingu afla og aukaafurða, nr. 468/2013. Slík reglugerðarákvæði skuli túlkuð þröngt, en undantekningarákvæði umræddrar reglugerðar komi ekki til skoðunar eins og þessu máli sé háttað. Brot gegn 2. mgr. 2. gr. laga um umgengi um nytjastofna sjávar geti varðað stjórnsýsluviðurlögum, þ.e. sviptingu leyfis til veiða í atvinnuskyni skv. 1. og 2. mgr. 15. gr. eða skriflegum áminningum skv. 3. mgr. 15. gr. sömu laga. Með vísan til málsatvika og eðlis brota, vitnisburðar veiðieftirlitsmanna, gagna málsins og þess sem að framan greini var það niðurstaða Fiskistofu, að áhöfn fiskiskipsins [C] hafi brotið gegn lögum um umgengni um nytjastofna sjávar, með því að hafa ekki hirt og landað þeim fimm tilgreindu fiskum sem að framan greini í umræddri veiðiferð 17. maí 2022. Háttsemi áhafnar skipsins [C] sé talin varða við 2. mgr. 2. gr. laga um umgengni um nytjastofna sjávar.

Í ákvörðun Fiskistofu kemur enn fremur fram að samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laga um umgengni um nytjastofna sjávar, skuli Fiskistofa svipta skip leyfi til veiða í atvinnuskyni ef útgerð eða áhöfn skips eða aðrir þeir sem í þágu útgerðar starfi hafi brotið gegn ákvæðum laganna eða reglum settum samkvæmt þeim. Við fyrsta brot sem varði sviptingu veiðileyfis skuli leyfissvipting ekki standa skemur en fjórar vikur og ekki lengur en í eitt ár. Í 2. mgr. 15. gr. laga um nytjastofna sjávar komi fram að við fyrsta brot, sem varði sviptingu veiðileyfis, skuli leyfissvipting ekki standa skemur en eina viku og ekki lengur en tólf vikur eftir eðli og umfangi brots. Í 3. mgr. 15. gr. laga um nytjastofna sjávar komi fram að þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. sama ákvæðis skuli Fiskistofa veita hlutaðeigandi útgerð skriflega áminningu vegna fyrsta minniháttar brots. Við mat á því hvort um minniháttar brot sé að ræða sé m.a. litið til þess hvort ætla megi að brot hafi í för með sér umtalsverðan ávinning fyrir hlutaðeigandi útgerð og/eða tengda aðila, fjölda brota, hversu miklum hagsmunum brot ógni og hvort það hafi í verið framið af ásetningi eða gáleysi. Í þessu máli sé litið til þess að brotin hafi verið til þess fallin að hafa í för með sér ávinning fyrir hlutaðeigandi útgerðaraðila og/eða tengda aðila, þar sem verðmeiri og söluvænlegri afli hafi verið tekinn að landi og aflaheimildum, eftir atvikum, ekki ráðstafað í þann aflað sem kastað var fyrir borð. Þó hafi ekki verið um mikinn ávinning að ræða með hliðsjón af magni aflans. Brotin ógni jafnframt hagsmunum sem tengist aflaskráningu. Fiskveiðistjórnunarkerfið byggir á því að aflaskráning gefi rétta mynd af því hve mikið sé veitt úr sameiginlegri auðlind þjóðarinnar og jafnframt hvort afli tiltekins skips sé innan veiðiheimilda þess. Mikilvægir almannahagsmunir séu jafnframt fólgnir í því að upplýsingar um veiðar úr nytjastofnum sjávar séu réttar svo hægt sé að áætla stofnstærð og hámarks afkastagetu. Góð umgengni um nytjastofna sjávar sé þýðingarmikil í því skyni að stuðla að því að þeir verði nýttir með sjálfbærum hætti er tryggi til langs tíma hámarksafrakstur fyrir íslensku þjóðina. Myndband það sem liggi fyrir í málinu sýni með skýrum hætti framgöngu skipverja um borð í umræddu skipi þegar hann varpaði þegar veiddum afla aftur í sjó, ýmist með því að hrista hann af og/eða losa af handfærum. Vinnubrögð hans og framganga gefi í skyn að um viðhöfð vinnubrögð sé að ræða en af myndbandinu að dæma sé aflanum kastað aftur í sjó af ásetningi. Gefi háttsemi skipverja í umræddri veiðiferð 17. maí 2022 sterklega til kynna að brottkast sé viðhaft um borð í umræddu skipi kæranda í andstöðu við hátternisreglur laga um umgengni um nytjastofna sjávar og grundvallar markmið laganna um sjálfbæra nýtingu fiskistofna og góða umgengni um auðlindir sjávar. Við mat á því hvort um meðvituð gáleysisbrot eða ásetningsbrot hafi verið að ræða, líti Fiskistofa til háttsemi skisptjóra í umræddri veiðiferð og til þess að kærandi beri ábyrgð á því að framkvæmd veiða brjóti ekki í bága við ákvæði 2. mgr. 2. gr. laga um umgengni um nytjastofna sjávar. Kærandi sé eigandi og útgerðaraðili skipsins og hafi jafnframt verið lögskráður skipstjóri um borð í umræddri veiðiferð. Það sé því á hans ábyrgð, að verklag við veiðar sé í samræmi við lög um borð í þeim fiskiskipum sem hann eigi og geri út. Að mati Fiskistofu sé um ásetningsbrot skipverja að ræða og brotin því ámælisverð þó þau teljist ekki meiriháttar, sé litið til magns þess afla sem sannað sé að hafi verið varpað fyrir borð í umræddri veiðiferð. Þá séu engin fyrri brot sem hafi ítrekunaráhrif í þessu máli. Af framangreindu, með hliðsjón af meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins, þyki hæfileg viðurlög vera skrifleg áminning. Ákvörðunin hafi ítrekunaráhrif í tvö ár frá og með dagsetningu ákvörðunar skv. 19. gr. laga um umgengni um nytjastofna sjávar. Þá kom þar fram að ákvörðunin væri kæranleg til matvælaráðuneytisins innan eins mánaðar frá því að kæranda barst ákvörðunin skv. 18. gr. laga um umgengni um nytjastofna sjávar, nr. 57/1996 og einnig kom þar fram að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunarinna

Með tölvupósti, dags. 31. maí 2023, barst Fiskistofu erindi frá [A] f.h. kæranda. Þar segir að kærandi geri þá kröfu að Fiskistofa felli úr gildi ákvörðun sína, dags. 14. október 2022, þess efnis að veita honum persónulega sem eiganda og útgerðaraðila fiskiskipsins [C], skriflega áminningu skv. 3. mgr. 15. gr. laga um umgengni um nytjastofna sjávar. Kærandi byggi kröfu sína á að Fiskistofu beri að endurupptaka eða eftir atvikum afturkalla ákvörðun sína þar sem skilyrði 1. mgr. 24. gr. og 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 séu uppfyllt. Þann 17. maí 2022 hafi [C] verið á veiðum með handfærum vestur af [D]. Þann 15. júní 2022 hafi Alþingi samþykkt lög nr. 85/2022 þar sem veiðieftirlitsmönnum Fiskistofu hafi verið veitt heimild til að nota fjarstýrð loftför (dróna) í eftirlitsstörfum sínum sem séu búin myndavélum til upptöku og stofnuninni heimiluð vinnsla upplýsinga sem verði til við rafrænt eftirlit. Lögin hafi verið birt í Stjórnartíðindum 13. júlí sama ár. Lögin hafi því fyrst tekið gildi 14. júlí 2022. Með bréfi, dags. 5. september 2022, hafi kærandi verið upplýstur um að brotamál hafi verið stofnað vegna veiða skipsins og að 17. maí sama ár hefðu eftirlitsmenn Fiskistofu fylgst með honum leynilega með dróna við störf sín um borð í skipinu [C] þann dag. Með bréfi Fiskistofu, dags. 14. október 2022, hafi kæranda sem eiganda og útgerðaraðila skipsins [C] verið veitt skrifleg áminning skv. 3. mgr. 15. gr. laga um umgengni um nytjastofna sjávar, sem skyldi hafa ítrekunaráhrif í tvö ár frá og með dagsetningu ákvörðunarinnar. Þann 28. mars 2023 hafi Persónuvernd birt úrskurð í máli nr. 2021030579. Í málinu hafi Persónuvernd tekið til meðferðar kvörtun vegna leynilegs eftirlits Fiskistofu með dróna sem hafi átt sér stað fyrir gildistöku laga nr. 85/2022. Málið hafi beinst að leynilegu eftirliti með fiskiskipi skammt undan landi og kvartandi hafi talið Fiskistofu skorta heimild til eftirlitsins. Í úrskurði Persónuverndar komi fram að löggjafinn hefði veitt Fiskistofu nokkuð rúmar heimildir til eftirlits. Þær heimildir nái þó eingöngu til eftirlits í eigin persónu og ekkert í ákvæðum þeirra laga sem Fiskistofa hefði eftirlit með veitti stofnuninni heimild til þess að viðhafa rafrænt eftirlit með leynd. Við framkvæmd eftirlits bæri stofnuninni að halda sig innan þess ramma sem grunnregla 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 um friðhelgi einkalífs og lögmætisregla stjórnsýsluréttar setji. Niðurstaða Persónuverndar hafi verið að leynilegt eftirlit Fiskistofu með dróna hafi brotið gegn ákvæðum laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og reglugerð ESB nr. 2016/679.

Kærandi byggi kröfur sína um ógildingu ákvörðunar Fiskistofu, dags. 14. október 2022, á því að skilyrði endurupptöku annars vegar og afturköllunar hins vegar séu bæði uppfyllt í málinu. Í 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 komi fram að eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt eigi aðili máls rétt á að mál sé tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því ákvörðun var tekin. Í 2. tölul. 25. gr. stjórnsýslulaga komi fram að stjórnvald geti afturkallað ákvörðun sína að eigin frumkvæði, sem birt hefur verið aðila máls, þegar það er ekki til tjóns fyrir aðila eða ákvörðun er ógildanleg. Í 70. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sé fjallað um rétt einstaklinga og lögaðila til réttlátrar málsmeðferðar. Í ákvæðunum sé mælt fyrir um tiltekin lágmarks réttindi þeirra sem sakaðir séu um háttsemi sem geti leitt til refsikenndra viðurlaga. Ákvæðin feli m.a. í sér takmörkun á gildi ólögmætra sönnunargagna í því skyni að koma á refsingum eða öðrum viðurlögum. Meginreglan sé sú að eingöngu sé heimilt að líta til ólögmætra sönnunargagna í þeim tilvikum sem þau séu til stuðnings öðrum gögnum sem sýni fram á refsiverða háttsemi. Í þeim tilvikum sem eingöngu ólögmæt sönnunargögn séu til staðar sé hins vegar óheimilt að líta til þeirra. Grunnrökin að baki þessu sjónarmiði séu að í réttarríki séu stjórnvöld bundin af föstum reglum sem kynntar hafi verið fyrir fram. Ofangreind sjónarmið um gildi ólögmætra sönnunargagna gildi þegar stjórnvöld taki ákvörðun um refsikennd stjórnsýsluviðurlög. Ef stjórnvaldsákvörðun feli í sér viðurlagaákvörðun vegna refsinæmrar háttsemi sem sé ætlað að vera fyrirbyggjandi og hafa varnaðaráhrif séu stjórnvöld því skýrlega bundin af þessum reglum. Ákvörðun Fiskistofu um að veita kæranda sem eiganda og útgerðaraðila fiskiskipsins [C] hafi haft að markmiði að vera fyrirbyggjandi og hafa varnaðaráhrif og ákvörðunin hafi grundvallast á að skipverji hafi í umrætt sinn viðhaft refsinæma háttsemi, sbr. 2. mgr. 2. gr., sbr. 23. gr. laga um umgengni um nytjastofna sjávar. Ákvörðun Fiskistofu hafi því verið viðurlagaákvörðun vegna meintrar refsinæmrar háttsemi. Af því leiði að við málsmeðferðina hafi borið að gæta að reglum 70. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem mæli fyrir um réttinn til réttlátrar málsmeðferðar sbr. dóm Hæstaréttar frá 26. janúar 2012 í máli nr. 445/2011. Þá segir í erindi kæranda til Fiskistofu dags. dags. 31. maí 2023 að þegar ákvörðun Fiskistofu um skriflega áminningu var tekin hafi ekki verið fyrirliggjandi neinar upplýsingar um brot kæranda gegn ákvæðum laga um umgengni um nytjastofna sjávar, sem heimilt hafi verið að lögum að leggja til grundvallar slíkri ákvörðun. Ákvörðunin hafi því byggt á ófullnægjandi upplýsingum, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og sé ógildanleg, sbr. 2. tölul. 25. gr. sömu laga. Hafi ákvörðun Fiskistofu í góðri trú byggt á þeirri afstöðu að leynilegt drónaeftirlit hafi verið lögmætt í maí 2022 hafi sú ákvörðun í öllu falli byggt á atvikum sem breyst hafi verulega við birtingu úrskurðar Persónuverndar í máli nr. 20211030579, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Fiskistofu beri því skylda til að fella ákvörðunina úr gildi.

Með bréfi, dags. 9. júní 2023, svaraði Fiskistofa beiðni lögmanns kæranda, dags. 31. maí 2023, um kröfuna að felld yrði úr gildi ákvörðun Fiskistofu, dags. 14. október 2022 og um að veita kæranda sem eiganda og útgerðaraðila skipsins [C] skriflega áminningu vegna brottkasts áhafnar skipsins þann 17. maí 2022. Þar er vísað til málsatvikalýsingar sem gerð var grein fyrir í umfjöllun um bréf Fiskistofu til kæranda, dags. 14. október 2022, og einnig sömu laga og reglugerða og þar er gerð grein fyrir. Einnig segir þar að Fiskistofa hafi lokið umræddu máli þann 14. október 2022 vegna brota áhafnar fiskiskipsins [C] þann 17. maí 2022 gegn 2. mgr. 2. gr. laga um umgengni um nytjastofna sjávar. Hafi kæranda verið send tilkynning um að málið hefði verið tekið til meðferðar í ábyrgðarpósti þann 5. september 2022. Þar hafi málsatvikum verið lýst, leiðbeint um lagaatriði og aðila málsins gefinn kostur á að koma andmælum og athugasemdum á framfæri skv. 13. gr., sbr. 14. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Engar athugasemdir eða andmæli hafi borist Fiskistofu fyrir uppgefinn tímafrest, 19. september 2022, né heldur eftir hann og áður en ákvörðun lá fyrir um mánuði síðar þann 14. október 2022. Af þeim sökum hafi ákvörðun Fiskistofu tekið mið af fyrirliggjandi gögnum og málsatvikum að öðru leyti. Niðurstaða Fiskistofu hafi verið að áhöfn fiskiskipsins [C] hafi brotið gegn 2. mgr. 2. gr. laga um umgengni um nytjastofna sjávar í strandveiðiferð skipsins þann 17. maí 2022 með því að hafa kastað fimm tilgreindum bolfiskum fyrir borð sem höfðu komið í veiðarfæri skipsins. Af þeim sökum hafi Fiskistofa veitt kæranda, útgerðaraðila skipsins, skriflega áminningu skv. 3. mgr. 15. gr. laga um umgengni um nytjastofna sjávar, nr. 57/1996. Hafi kæranda verið leiðbeint um að hann gæti kært ákvörðun Fiskistofu til matvælaráðuneytisins innan eins mánaðar frá því hún barst honum, sbr. 18. gr. laganna. Fiskistofu hafi ekki verið gert viðvart af æðra stjórnvaldi um að kærandi hafi nýtt framangreindan kærurétt sinn.

Einnig kemur í bréfi Fiskistofu, dags. 9. júní 2023 að Fiskistofa hafi tilkynnt eftirlitsskyldum aðilum um breytta eftirlitsaðferð með nýrri tækni með tilkynningu á heimasíðu sinni þann 7. janúar og 15. febrúar 2021. Einnig hafi erindi Fiskistofu og Persónuverndar verið birt 19. febrúar 2021 á vefsíðu stofnunarinnar í kjölfar umfjöllunar í fjölmiðlum um notkun dróna við eftirlit. Hin nýja eftirlitsaðferð Fiskistofu hafi verið á allra vitorði og því afar ólíklegt að einhver sem stundi leyfisskyldar veiðar hafi ekki vitað um þessa nýjung við eftirlit á sínum tíma. Þeir aðilar sem stundi fiskveiðar á grundvelli veiðileyfis í atvinnuskyni, eða eftir atvikum sérveiðileyfis, undirgangist opinbert eftirlit. Um sé að ræða leyfisskylda atvinnustarfsemi og þeir sem hana stundi séu meðvitaðir um að veiðar þeirra lúti eftirliti Fiskistofu. Af þeim sökum verði þeir sem stundi fiskveiðar í atvinnuskyni að þola röskun á friðhelgi eftir þeim sérstöku lagaheimildum er Fiskistofa vinni eftir við lögbundin eftirlitshlutverk sín. Takmörkun á friðhelgi einkalífsins í þessu ljósi byggi á málefnalegum forsendum um verndun auðlinda hafsins og almannahagsmunir séu fólgnir í því eftirliti sem Fiskistofa viðhafi. Eftirlitið beinist að takmörkuðum hópi eftirlitsskyldra aðila og hafi kærandi verið grandsamur eða mátt vera grandsamur um eftirlitið. Þá hafi eftirlitið ekki gengið lengra en nauðsyn bar til í hans tilviki. Af þeim sökum telji Fiskistofa að umrædd eftirlitsaðferð hafi rúmast innan heimilda stofnunarinnar, þ.e. innan þess ramma sem lögmætisregla stjórnsýsluréttar og 71. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 um friðhelgi einkalífs setji. Einnig hafni Fiskistofa því að rannsóknaraðferðir stofnunarinnar og þau sönnunargögn sem af þeim aðgerðum leiddu hafi verið ólögmætar og að af þeim sökum verði þær ekki taldar grundvöllur ákvarðanatöku í stjórnsýslumáli um refsikennd stjórnsýsluviðurlög.

Ennfremur kemur þar fram að jafnvel þó til staðar væru hugsanlegir annmarkar á rannsóknaraðgerðum stjórnvalds, leiði það ekki til þess að um verulegan annmarka á málsmeðferð sé að ræða sem valdi hugsanlegri ógildingu stjórnvaldsákvörðunar. Í þessu samhengi hafi réttarvörslusjónarmið um almenn varnaðaráhrif mikið vægi. Hafi öryggisregla (s.s. rannsóknarregla) verið brotin valdi það ógildingu ákvörðunar stjórnvalds nema sannanlegt sé að annmarkinn hafi í raun ekki haft áhrif á efni hennar. Á Fiskistofu séu lagðar ríkar sönnunarkröfur í þessu samhengi um að meta hvort orsakasamband sé milli brots á málsmeðferðarreglu og efnis ákvörðunar, þ.e. hvort að ákvörðunin hefði orðið efnislega hin sama hefði umrædd málsmeðferðarregla ekki verið brotin. Fari matið eftir ströngum ógildingarmælikvarða enda íþyngjandi ákvörðun í húfi sem beinist gegn kæranda. Málatilbúnaður Fiskistofu byggi í grunninn á vitnisburði tveggja veiðieftirlitsmanna sem hafi orðið vitni að broti áhafnar fiskiskipsins [C] í beinu streymi og hafi Fiskistofa ekki getað litið fram hjá því og aðhafst ekkert í andstöðu við lögbundnar skyldur sínar. Þó svo meint brot hefðu ekki verið tekin upp, standi eftir vitnisburður eftirlitsmanna og skýrsla þeirra. Þær myndbandsupptökur sem hafi verið fyrirliggjandi í máli kæranda hafi verið til stuðnings öðrum gögnum sem sýndu fram á þá refsiverðu háttsemi sem skipstjóri hafi gerst sekur um í umræddri veiðiferð. Að mati Fiskistofu hefði niðurstaðan ekki orðið efnislega önnur, jafnvel þó rannsóknaraðgerðir þær sem viðhafðar hafi verið myndu teljast ólögmætar (á þeim tíma sem um ræðir), og leiði þar með ekki til ógildingar á ákvörðuninni. Þrátt fyrir að brotin hefðu ekki verið tekin upp eða umræddar myndbandsupptökur teldust vera ólögmæt sönnunargögn standi eftir sönnunargildi frásagnar veiðieftirlitsmanna sem mál þetta byggi á. Það sé hins vegar í þágu réttaröryggis kæranda að umrædd atvik hafi verið tekin upp. Umrædd myndbönd sýni með hlutlægum hætti þá háttsemi sem viðhöfð hafi verið um borð í skipinu 17. maí 2022. Um sé að ræða hlutlæg sönnunargögn sem að mati Fiskistofu hafi mikið vægi til stuðnings skýrslum veiðieftirlitsmanna Fiskistofu. Hafi veiðieftirlitsmenn í mörg ár viðhaft eftirlit með fiskveiðum frá landi, s.s. með sjónaukum og myndavélum og hafi slíkt eftirlit talist rúmast innan starfsheimilda þeirra og ekki verið fundið að slíkum eftirlitsaðferðum í dómaframkvæmd hér á landi. Að mati Fiskistofu hafi eftirlit með veiðiferðum skipsins [C] þann 17. maí 2022 verið innan eftirlitsheimilda stofnunarinnar fyrir gildistöku laga nr. 85/2022 og megi líkja við eftirlit með sjónauka frá landi, enda byggi mál stofnunarinnar á vitnisburði eftirlitsmanna og því sem þeir hafi upplifað af eigin raun. Sú meginregla gildi í íslensku sakamálaréttarfari að aðilum máls, þ.á.m. ákæruvaldinu, sé heimilt að leggja fram við meðferð máls fyrir dómi þau sönnunargögn, sem kunni að hafa þýðingu við úrlausn málsins, sbr. 1. mgr. 110. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008.

Í íslenskum rétti sé hvergi að finna reglu sem leggi bann við því að sönnunargögn, sem aflað hafi verið með ólögmætum hætti, séu lögð fram í sakamáli, né sé þar að finna reglu sem bindi hendur dómara við mat á gildi slíkra gagna, sbr. m.a. dóm Hæstaréttar frá 3. mars 2006 í máli nr. 97/2006. Þó svo annmarkar kunni að vera á öflun gagna leiði það ekki sjálfkrafa til þess að litið sé fram hjá þeim sönnunargögnum, sem aflað hafi verið undir slíkum aðstæðum, sbr. dóm Hæstaréttar frá 19. maí 2004 í máli nr. 325/2003 og dóm Hæstaréttar frá 15. desember 2005 í máli nr. 323/2005. Hafi sama viðhorf verið ríkjandi hjá Mannréttindadómstól Evrópu, að þó svo sönnunargagna hafi verið aflað með ólögmætum hætti, að þá komi það ekki í veg fyrir að stuðst sé við þau þegar skorið sé úr um sekt eða sýknu ákærða í sakamáli. Fiskistofa telji, með vísan til framangreinds, að sömu sjónarmið eigi við um rannsókn stjórnsýslumála og öflun sönnunargagna í þeim og mat stofnunarinnar á þeim, með þeim fyrirvara sem að framan sé nefndur um, að niðurstaða hefði efnislega orðið hin sama hefði umrædd málsmeðferðarregla ekki verið brotin. Í þessu samhengi sé eitt af þeim atriðum sem Fiskistofa horfi til við mat á gildi einstakra sönnunargagna, hvernig staðið hafi verið að öflun þeirra og það metið með hliðsjón af fyrirmælum 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um réttláta málsmeðferð, sbr. lög nr. 62/1994. Flestum, ef ekki öllum þeim, sem starfi í greininni, hafi verið ljóst að stofnunin hafði tekið í notkun nýja tækni við eftirlit. Sú breytta framkvæmd, að taka í notkun dróna við eftirlit, hafi verið kynnt með almennum tilkynningum á heimasíðu Fiskistofu í samræmi við kröfur laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018 í upphafi árs 2021. Hafi málið jafnframt hlotið mikla fjölmiðlaumfjöllun.

Að mati Fiskistofu hafi kærandi því fengið sanngjarnt tækifæri til að aðlaga sig að breyttri framkvæmd og breyttum eftirlitsaðferðum Fiskistofu í samræmi við sjónarmið um breytta stjórnsýsluframkvæmd áður en hann hélt til veiða í umrætt sinn. Einnig sé það mat Fiskistofu að skilyrði endurupptöku séu ekki til staðar í skilningi 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá hafi úrskurður Persónuverndar frá 28. mars 2023 ekki þau áhrif að skilyrði 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 séu uppfyllt. Fiskistofa hafni jafnframt röksemdum kæranda um að ákvörðun stofnunarinnar, dags. 14. október 2022, hafi byggst á ófullnægjandi upplýsingum um málsatvik og sé af þeim sökum ógildanleg skv. 2. tölul. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Með hliðsjón af framangreindu séu að mati Fiskistofu ekki til staðar forsendur til að endurupptaka málið eða afturkalla ákvörðunina. Kröfu kæranda var því hafnað og ákvörðun Fiskistofu, dags. 14. október 2022, standi því óbreytt. Þá kom þar fram að ákvörðunin væri kæranleg til matvælaráðuneytisins og að kærufrestur væri þrír mánuðir frá því að kæranda barst ákvörðunin skv. 26. og 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 

Málsástæður í stjórnsýslukæru og málsmeðferð

Með stjórnsýslukæru, dags. 1. september 2023, kærði [A] f.h. [B] til matvælaráðuneytisins ákvörðun Fiskistofu, dags. 9. júní 2023, um að hafna beiðni hans um endurupptöku eða afturköllun ákvörðunar Fiskistofu, dags. 14. október 2022, um að veita honum, sem eiganda og útgerðaraðila skipsins [C] skriflega áminningu fyrir brottkast áhafnar skipsins í veiðiferð þess þann 17. maí 2022.

Í stjórnsýslukærunni byggir kærandi kröfur sínar á því að Fiskistofu beri að endurupptaka eða eftir atvikum afturkalla ákvörðun sína, dags. 14. október 2022, þar sem skilyrði bæði 1. mgr. 24. gr. og 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 séu uppfyllt. Um málsatvik og sjónarmið kæranda vísist til erindis kæranda til Fiskistofu, dags. 31. maí 2023, sem gerð er grein fyrir hér að framan. Um kæruheimild vísist til tölvupóstsamskipta við Fiskistofu, dags. 7. og 9. júní 2023. Eftirtalin gögn fylgdu stjórnsýslukærunni í ljósritum: 1) Umboð. 2) Ákvörðun Fiskistofu, dags. 9. júní 2023. 3) Tilkynning til Fiskistofu, dags. 5. september 2022 og ákvörðun Fiskistofu, dags. 14. október 2022. 4) Erindi til Fiskistofu, dags. 31. maí 2023. 5) Tölvupóstsamskipti við Fiskistofu, dags. 7.-9. júní 2023.

Með tölvupósti, dags. 7. september 2023, óskaði ráðuneytið eftir umsögn Fiskistofu um málið, staðfestu afriti af hinni kærðu ákvörðun auk annarra gagna sem Fiskistofa kynni að hafa um málið.

Í umsögn Fiskistofu, dags. 26. september 2023, segir m.a. að með ákvörðun Fiskistofu, dags. 9. júní 2023, hafi verið hafnað kröfu kæranda um að Fiskistofa felli úr gildi ákvörðun sína, dags. 14. október 2022, þess efnis að veita honum áminningu skv. 3. mgr. 15. gr. laga um umgengni um nytjastofna sjávar, vegna brota áhafnar gegn 2. mgr. 2. gr. sömu laga í veiðiferð skipsins [C] þann 17. maí 2022. Kærandi hafi byggt kröfu sína á að Fiskistofu beri að endurupptaka eða eftir atvikum að afturkalla ákvörðun sína þar sem skilyrði 1. mgr. 24. gr. og 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 væru uppfyllt. Meðfylgjandi sé umsögn Fiskistofu ásamt staðfestu afriti af hinni kærðu ákvörðun um höfnun um endurupptöku og afturköllunar og öðrum gögnum sem Fiskistofa telji að hafi þýðingu fyrir málið. Fiskistofa telji sig þegar hafa tekið afstöðu til allra þeirra atriða sem komi fram í stjórnsýslukæru, dags. 1. september 2023, í hinni kærðu ákvörðun, dags. 9. júní 2023 og vísast því til hennar. Engar athugasemdir hafi borist Fiskistofu við meðferð málsins sem hafi lokið með ákvörðun um áminningu þann 14. október 2022, þrátt fyrir áskorun þar um í tilkynningu til kæranda um að málið hefði verið tekið til meðferðar þann 5. september 2022. Að lokum vísi Fiskistofa til þeirra atriða sem rakin hafi verið í ákvörðun Fiskistofu, dags. 14. október 2022 og niðurstöðu hennar. Að mati Fiskistofu beri að staðfesta hina kærðu ákvörðun þar sem að mati Fiskistofu hafi ekki verið til staðar forsendur til að endurupptaka málið eða afturkalla ákvörðun Fiskistofu, dags. 14. október 2022. Að mati Fiskistofu hafi verið gætt meðalhófs við ákvörðun um viðurlög, sem hafi lokið með ákvörðun um skriflega áminningu, sbr. 3. mgr. 15. gr. laga um umgengni um nytjastofna sjávar. Eftirtalin gögn fylgdu umsögn Fiskistofu í ljósritum: 1) Ákvörðun Fiskistofu, dags. 9. júní 2023 (endurupptöku/afturköllun hafnað). 2) Krafa kæranda um niðurfellingu áminningar, dags. 31. maí 2023. 3) Ákvörðun Fiskistofu, dags. 14. október 2022 (ákvörðun um áminningu). 4) Tilkynning um mál (andmælabréf), dags. 5. september 2022. 5) Brotaskýrsla, dags. 9. júní 2022.

Með bréfi, dags. 27. september 2023, sendi ráðuneytið lögmanni kæranda ljósrit af umsögn Fiskistofu, dags. 26. september 2023, og veitti kæranda kost á að gera athugasemdir við hana. Engar athugasemdir bárust ráðuneytinu frá kæranda vegna framangreinds bréfs.

 

Rökstuðningur og niðurstaða

I.

Stjórnsýslukæra í máli þessu barst matvælaráðuneytinu 1. september 2023, þar sem kærð er ákvörðun Fiskistofu, dags. 9. júní 2023. Kærufrestur vegna þeirrar ákvörðunar Fiskistofu sem er þrír mánuðir, sbr. 1. mgr. 26. gr. og 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 var því ekki liðinn þegar stjórnsýslukæran barst ráðuneytinu. Kæran er því tekin til efnismeðferðar.

 

II.

Um veiðar og vigtun sjávarafla gilda lög um umgengni um nytjastofna sjávar, nr. 57/1996. Í 2. mgr. 2. gr. laganna segir að skylt sé að hirða og landa öllum afla sem kemur í veiðarfæri fiskiskipa. Reglan er áréttuð í 1. mgr. 5. gr. laga um umgengni um nytjastofna sjávar, en þar segir að öllum afla sem íslensk skip veiða úr stofnum sem að hluta til eða öllu leyti haldi sig í efnahagslögsögu Íslands skuli landað innanlands og hann veginn í innlendri höfn. Í 1. mgr. 6. gr. laganna kemur fram sú meginregla að allur afli skuli veginn á hafnarvog í löndunarhöfn þegar við löndun aflans. Í 1. mgr. 2. gr. reglugerðar um vigtun og skráningu sjávarafla nr. 745/2016, segir að skipstjóri skips beri ábyrgð á því að afli skipsins sé veginn samkvæmt ákvæðum reglugerðarinnar. Í 2. mgr. sömu greinar segir að afli skuli skráður til aflamarks á veiðiskip. Í 1. mgr. 7. gr. sömu reglugerðar segir að allur afli skuli veginn á hafnarvog í löndunarhöfn við löndun og skuli vigtun vera lokið innan tveggja klukkustunda frá því að löndun lauk. Skuli við vigtunina nota löggilta vog í eigu viðkomandi hafnar og vigtun sé framkvæmd af starfsmanni hafnar sem hlotið hafi til þess löggildingu.

Brot gegn lögum um umgengni um nytjastofna sjávar varða viðurlögum skv. 15. gr. laganna. Þar er kveðið á um að Fiskistofa skuli beita áminningum eða svipta skip leyfi til veiða í atvinnuskyni ef brotið er gegn ákvæðum laganna. Ákvæðinu var breytt með 2. gr. laga um breytingu á ýmsum lögum á sviði fiskveiðistjórnunar, nr. 163/2006, þar sem 3. mgr. var bætt við greinina, en þar kemur fram að við fyrsta minni háttar brot skuli Fiskistofa, þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr., veita hlutaðeigandi útgerð skriflega áminningu. Í greinargerð með frumvarpi til laganna, sbr. Alþingistíðindi A-deild, 133. löggjafarþing 2006-2007, þskj. 235, 232. mál, kemur fram í athugasemdum við greinina að ljóst sé að svipting leyfis til veiða í atvinnuskyni, jafnvel þótt um lágmarkstíma sé að ræða, þ.e. sem fyrir lagabreytinguna var tvær vikur, geti verið mjög íþyngjandi fyrir hlutaðeigandi útgerð og þá sem í þágu útgerðar starfi. Með vísan til þess var með frumvarpinu lagt til að 15. gr. laga um umgengni um nytjastofna sjávar yrði breytt þannig, að þar yrði kveðið á um að þegar um minni háttar brot væri að ræða og hlutaðeigandi útgerð hefði ekki áður gerst brotleg við ákvæði laganna eða reglur settar samkvæmt þeim, skyldi Fiskistofa bregðast við með öðrum hætti, þ.e. með því að veita hlutaðeigandi útgerð skriflega áminningu. Einnig segir í athugasemdunum að við ákvörðun þess hvort um minni háttar brot sé að ræða, í skilningi lagaákvæðanna, væri eðlilegt að litið yrði til þess m.a. hvort ætla megi að brot hafi í för með sér umtalsverðan ávinning fyrir hlutaðeigandi útgerð og/eða tengda aðila, hversu mikilvægum hagsmunum brot ógnaði og hvort það hafi verið framið af ásetningi eða gáleysi. Þá er þar tekið fram að brot gegn reglum varðandi veiðar, afla og aflaheimildir séu oft þannig að erfitt sé að skera með óyggjandi hætti úr um hvort þau hafi verið framin af ásetningi eða gáleysi. Það atriði eitt og sér geti því almennt ekki ráðið ákvörðun þess hvort brot teljist vera minni háttar. Á hinn bóginn þyki eðlilegt að láta ítrekuð brot gegn umræddum lögum og reglum varða sviptingu veiðileyfis, enda þótt um minni háttar brot í skilningi laganna kunni að vera að ræða. Á grundvelli framangreinds ákvæðis veitti Fiskistofa kæranda skriflega áminningu skv. 3. mgr. 15. gr. laga um umgengni um nytjastofna sjávar vegna brottkasts áhafnar skipsins [C] í veiðiferð þess þann 17. maí 2022.

 

III.

Í erindi kæranda til Fiskistofu, dags. 31. maí 2023, sem lauk með hinni kærðu ákvörðun, dags. 9. júní 2023, var óskað eftir að eldri ákvörðun stofnunarinnar, dags. 14. október 2022, yrði endurupptekin eða afturkölluð með vísan til tiltekinna ástæðna sem gerð er grein fyrir hér að framan. Í 1. mgr. 24. gr. laga nr. 37/1993 segir að eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt, eigi aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun hefur byggst á röngum eða ófullnægjandi upplýsingum eða ef íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin. Í 2. mgr. 24. gr. laganna segir að eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun skv. 1. tölu. 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um atvik skv. 2. málsl. 1. mgr. sem ákvörðun var byggð á, verður beiðni um endurupptöku þó ekki tekin til greina, nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum máls. Mál verði þó ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því. Í 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 kemur fram að stjórnvald geti afturkallað ákvörðun sína að eigin frumkvæði sem tilkynnt hefur verið aðila máls þegar það er ekki til tjóns fyrir aðila eða ákvörðun er ógildanleg.

Ákvörðun Fiskistofu um að hafna beiðni kæranda um endurupptöku ákvörðunar, dags. 14. október 2022, um að veita honum sem útgerðaraðila skipsins [C] skriflega áminningu skv. 3. mgr. 15. gr. laga um umgengni um nytjastofna sjávar, vegna brottkasts áhafnar skipsins þann 17. maí 2022, var byggð á þeirri forsendu að uppfyllt væru skilyrði laga og stjórnvaldsreglna fyrir veitingu áminningarinnar. Í 15. gr. laga um umgengni um nytjastofna sjávar, nr. 57/1996, kemur fram að Fiskistofu er skylt að beita viðurlögum við brotum á lögunum og er áminning vægasta úrræðið.

Í 2. mgr. 2. gr. laga um Fiskistofu, nr. 36/1992 kemur fram að eftirlitsmönnum er heimilt að nota fjarstýrð loftför í eftirlitsstöfum sínum, sem eru búin myndavélum til upptöku eða annan fjarstýrðan búnað sem getur safnað upplýsingum. Ákvæðið var lögfest með lögum um breytingu á ýmsum lögum á sviði fiskveiðistjórnunar nr. 85/2022 og tók gildi 14. júlí 2022. Ákvörðun Fiskistofu dags. 14. október 2022 er byggð á myndbandsupptökum úr drónaeftirliti en einnig er hún byggð á skýrslum tveggja veiðieftirlitsmanna Fiskistofu sem urðu vitni að brotum áhafnar fiskiskipsins [C] í beinu streymi. Þar sem veiðieftirlitsmenn voru á vettvangi og sáu brottkast úr skipinu í umrætt sinn þykir verða að leggja það til grundvallar að skýrsla þeirra hafi að geyma raunsanna lýsingu á atvikum málsins. Samkvæmt því og með vísan til þeirra forsendna sem koma fram í ákvörðun Fiskistofu, dags. 14. október 2022, telur ráðuneytið ekki ástæðu til að véfengja skýrslu eftirlitsmanna Fiskistofu, dags. 9. júní 2022, um brottkast áhafnar skipsins [C] í umræddri veiðiferð.

Þegar litið er til atvika málsins og þeirra forsendna sem gerð er grein fyrir hér að framan verður ekki séð að nein ný gögn hafi borist í málinu í skilningi 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Einnig er það mat ráðuneytisins að ekki séu efni til að telja ákvörðun Fiskistofu ógildanlega skv. 2. tölul. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða ráðuneytisins að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun Fiskistofu, dags. 9. júní 2023, um að hafna beiðni kæranda um um endurupptöku eða afturköllun ákvörðunar Fiskistofu, dags. 14. október 2022, um að veita honum, sem eiganda og útgerðaraðila skipsins [C] skriflega áminningu fyrir brottkast áhafnar skipsins í veiðiferð þess þann 17. maí 2022.

 

IV.

Í stjórnsýslukæru er þess einnig krafist að ráðuneytið felli úr gildi ákvörðun Fiskistofu, dags. 14. október 2022, um að veita kæranda skriflega áminningu fyrir brottkast áhafnar skipsins [C] en sú ákvörðun var kæranleg til ráðuneytisins skv. 18. gr. laga um umgengni um nytjastofna sjávar. Ákvörðunin var tilkynnt kæranda sama dag.

Ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 gilda að mati ráðuneytisins einnig um meðferð þessa máls að því leyti sem ekki eru sérstök ákvæði um það í framangreindum lögum. Í 28. gr. laganna er mælt fyrir um hvernig eigi að fara með þegar kæra berst að liðnum kærufresti. Þar segir að hafi kæra borist að liðnum kærufresti skuli vísa henni frá nema að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.

Stjórnsýslukæran er byggð á því m.a. að forsendur og niðurstaða hafi ekki verið rétt í ákvörðun Fiskistofu, dags. 14. október 2022, sem fjallaði um að veita kæranda skriflega áminningu skv. 3. mgr. 15. gr. laga um umgengni um nytjastofna sjávar, vegna brottkasts áhafnar skipsins [C]. Kærandi kærði ekki framangreinda ákvörðun, dags. 14. október 2022, innan kærufrests og með vísan til málsatvika sem gerð er grein fyrir hér að framan verður ekki séð að fyrir því hafi verið afsakanlegar ástæður í skilningi framangreinds ákvæðis. Kærufrestur var liðinn þegar beiðni um endurupptöku barst Fiskistofu með bréfi, dags. 31. maí 2023 og gildir því ekki við ákvæði 4. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þar sem ákvörðunin var ekki endurupptekin og tekin ný ákvörðun um efni máls, hófst ekki nýr kærufrestur með ákvörðun Fiskistofu, dags. 9. júní 2023.

Með vísan til framanritaðs og þegar af þeirri ástæðu sem þar kemur fram, er stjórnsýslukæru á ákvörðun Fiskistofu, dags. 14. október 2022, um að veita kæranda skriflega áminningu vegna brottkasts áhafnar skipsins [C] í veiðiferð þess þann 17. maí 2022, vísað frá.

 

Beðist er velvirðingar á þeim töfum sem hafa orðið á uppkvaðningu þessa úrskurðar en þær er að rekja til mikilla anna í ráðuneytinu.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Fiskistofu, dags. 9. júní 2023, um að hafna beiðni kæranda um endurupptöku eða afturköllun ákvörðunar Fiskistofu dags. 14. október 2022, um að veita eiganda og útgerðaraðila fiskiskipsins [C] skriflega áminningu fyrir brottkast áhafnar skipsins í veiðiferð þess þann 17. maí 2022, er staðfest.

Kæru á ákvörðun Fiskistofu, dags. 14. október 2022, um að veita eiganda og útgerðaraðila fiskiskipsins [C] skriflega áminningu fyrir brottkast áhafnar skipsins í veiðiferð þess þann 17. maí 2022, er vísað frá ráðuneytinu.

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum