Hoppa yfir valmynd

Úrskurður félags- og vinnumarkaðsráðuneytis 16/2024

Mánudaginn 11. nóvember 2024 var í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi:

 

ú r s k u r ð u r:

 

Með erindi til félags- og vinnumarkaðsráðuneytis, dags. 14. mars 2023, kærði […] , lögmaður, fyrir hönd […], kt. […], ákvörðun Ábyrgðasjóðs launa, dags. 16. janúar 2023, um synjun á ábyrgð sjóðsins vegna kröfu kæranda á hendur þrotabúi Svanþors ehf., kt. 671204-2980, um bætur vegna tjóns af völdum vinnuslyss.

 

I. Málavextir og málsástæður.

Mál þetta varðar ákvörðun Ábyrgðasjóðs launa um synjun á ábyrgð sjóðsins vegna kröfu kæranda á hendur þrotabúi Svanþors ehf. um greiðslu bóta vegna tjóns af völdum vinnuslyss sem hann varð fyrir í starfi sínu á veitingastað sem rekinn var af Svanþori ehf. Þeirri ákvörðun vildi kærandi ekki una og kærði hann ákvörðunina til ráðuneytisins með erindi, dags. 14. mars 2023, með vísan til 16. gr. laga nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa.

 

Í erindi kæranda kemur meðal annars fram að kærandi hafi orðið fyrir slysi þann 19. ágúst 2019 á veitingahúsinu Jamie´s Italian þar sem hann hafi starfað en hlutaðeigandi félag hafi verið rekstraraðili veitingahússins og jafnframt vinnuveitandi kæranda. Kærandi lýsir atvikum með þeim hætti að á þeim degi er slysið varð hafi hann verið á leið inn í eldhús fyrrnefnds veitingastaðar þegar samstarfsmaður hans hafi tekið upp á því að taka í hönd hans og dansa við hann. Við þetta athæfi samstarfsmannsins hafi kærandi hrasað og fengið samstarfsmanninn ofan á sig. Kærandi hafi við þetta slasast á fæti og tilkynnt slys sitt til Sjúkratrygginga. Fram kemur að í kjölfarið hafi átt sér stað bréfaskipti milli lögmanna hlutaðeigandi félags, kæranda og Sjúkratrygginga en hlutaðeigandi félag hafi ekki talið slysið bótaskylt. Sjúkratryggingar hafi aftur á móti talið slysið bótaskylt. Enn fremur kemur fram að í kjölfarið hafi verið kannað hvort hlutaðeigandi félag væri með launþega- og ábyrgðartryggingar í gildi á þeim degi er slysið varð en svo hafi ekki verið og því hafi afstöðubeiðni um bótaskyldu verið beint til hlutaðeigandi félags þann 18. maí 2020.

 

Þá segir í fyrrnefndu erindi að kærandi hafi síðar komist að því að hlutaðeigandi félag hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta og að innköllun þess efnis hafi verið birt þann 29. janúar 2021. Jafnframt kemur fram að síðasti dagur til að lýsa kröfu í þrotabú félagsins hafi verið 29. mars 2021 og að áætlaðri kröfu hafi verið lýst í þrotabúið samhliða afstöðubeiðni og hafi skiptastjóri samþykkt kröfuna og sent umsögn þess efnis til Ábyrgðasjóðs launa. Þá kemur fram að ákvörðun Sjúkratrygginga um 10% varanlega læknisfræðilega örorku hafi fyrst legið fyrir 24. nóvember 2021 og að tilkynnt hafi verið um niðurstöðu eingreiðslu örorkubóta þann 16. desember 2021. Strax í kjölfarið hafi verið send krafa á Ábyrgðasjóð launa eða 20. desember 2021 og hafi Ábyrgðasjóður launa endanlega hafnað kröfu kæranda með ákvörðun sinni þann 16. janúar 2023.

 

Í erindi kæranda kemur fram að kærandi telji synjun Ábyrgðasjóðs launa byggjast á því að umræddri kröfu hafi verið lýst í búið þann 29. mars 2021 en ekki hafi verið sótt um greiðslu frá sjóðnum fyrr en 20. desember 2021 eða 10 mánuðum og 21 degi frá birtingu innköllunar í Lögbirtingablaði þann 29. janúar 2021. Að mati stjórnar Ábyrgðasjóðs launa hafi verið hægt að gera kröfu á hendur sjóðnum innan sex mánaða frá innköllunardegi og ekki hafi verið sýnt fram á að kröfuna hafi ekki verið hægt að gera fyrr.

 

Kærandi bendir á að kröfulýsing sú sem hafi verið gerð á hendur þrotabúi hlutaðeigandi félags þann 21. mars 2021 hafi byggt á áætlun og hafi verið sérstaklega tekið fram í kröfulýsingu til skiptastjóra að áskilinn væri réttur til að koma að leiðréttri kröfu, enda væri annars vegar beðið mats Sjúkratrygginga varðandi fjárhæð úr launþegatryggingu og hins vegar hafi staðið til að afla dómkvadds mats, fengist krafan samþykkt. Umrædd krafa hafi því verið byggð á áætlun. Þegar matsgerð Sjúkratrygginga hafi legið fyrir og í kjölfarið tilkynning um eingreiðslu örorkubóta þann 16. desember 2021 hafi verið send uppfærð og endanlega krafa til skiptastjóra þann 20. desember 2021. Hafi á sama tíma verið gerð krafa á hendur Ábyrgðasjóði launa, enda hafi þá fyrst verið unnt að gera kröfuna á hendur sjóðnum. Fram að því hafi krafan aðeins byggt á áætlun og því raunar ekki byggð á neinum haldbærum gögnum. Slík gögn hafi ekki legið fyrir fyrr en mat Sjúkratrygginga hafi legið fyrir og ákvörðun stofnunarinnar sömuleiðis. Um leið og þessi gögn hafi legið fyrir hafi krafa verið gerð á hendur Ábyrgðasjóði launa.

 

Í erindi kæranda bendir kærandi jafnframt á að það hafi fyrst verið þann 31. janúar 2022 sem skiptastjóri hafi tekið afstöðu til bótaskyldu í málinu og um leið gefið upp afstöðu sína til kröfunnar. Skiptastjóri hafi aldrei tekið afstöðu til áætlaðrar kröfu en hann hafi þó staðfest móttöku hinnar áætluðu kröfu sem lýst hafi verið í búið 29. mars 2021.

 

Að mati kæranda byggi ákvörðun Ábyrgðasjóðs launa á þeim forsendum að til að eiga rétt á greiðslu bóta úr sjóðnum þurfi að senda kröfulýsingu innan sex mánaða frá birtingu innköllunar, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa. Í því sambandi bendir kærandi á að í 2. málsl. sömu greinar sé gerð undantekning á þessari reglu þar sem kveðið sé á um að stjórn Ábyrgðasjóðs launa sé heimilt að taka til greina kröfu sem berst innan 12 mánaða frá birtingu innköllunar ef sýnt er að kröfuna hafi ekki verið hægt að gera fyrr.

 

Í erindi kæranda segir jafnframt að ágreiningur málsins snúi að því hvort hægt hafi verið að gera kröfu á hendur Ábyrgðasjóði launa innan sex mánaða eða ekki en að mati kæranda virðist Ábyrgðasjóður launa leggja þann skilning í ákvæði 12. gr. laganna að þar sem krafa hafi verið send til skiptastjóra þrotabús hlutaðeigandi félags þann 29. mars 2021 hafi einnig mátt senda kröfu til sjóðsins. Fram kemur að kærandi sé ósammála þessari túlkun þar sem ekki hafi verið lýst endanlegri og gjaldkræfri kröfu á hendur þrotabúi hlutaðeigandi félags þann 29. mars 2021 heldur hafi krafan sem send hafi verið til skiptastjóra þrotabúsins verið byggð á áætlun með fyrirvara um breyttar kröfur og öflun mats í samræmi við ákvæði skaðabótalaga. Að mati kæranda liggi fyrir í málinu að skiptastjóri hafi einungis staðfest móttöku kröfunnar í þrotabúið sem lýst hafi verið 29. mars 2021 en hann hafi ekki staðfest gildi og þar með gjaldfærni kröfunnar fyrr en endanleg krafa hafi legið fyrir mun síðar.

 

Þá bendir kærandi í erindi sínu á að krafa hans hafi fyrst orðið gjaldkræf þegar ákvörðun Sjúkratrygginga hafi legið fyrir í nóvember 2021. Að mati kæranda hafi fyrst verið hægt að krefja þrotabúið og Ábyrgðasjóð launa um greiðslu bóta þegar orsakatengsl og tjón kæranda hafi legið fyrir með matsgerð. Í því sambandi bendir kærandi á að kröfugerðin hafi breyst talsvert þegar matið hafi legið fyrir. Að mati kæranda sé einsýnt að 2. málsl. 1. mgr. 12. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa sé einmitt tilkominn til að taka á nákvæmlega sambærilegum tilvikum og kærandi hafi staðið frammi fyrir. Hann hafi ekki getað gert kröfu á hendur sjóðnum fyrr en krafan hafi orðið til sem hafi ekki verið fyrr en endanleg matsgerð hafi legið fyrir í málinu og þegar í ljós hafi verið leitt að skiptastjóri hafi talið kröfuna komast að. Fyrir það tímamark hafi málið verið í ágreiningi, enda hafi ekki legið fyrir niðurstaða skiptastjóra um framvindu þess. Fram kemur að um leið og réttur kæranda hafi verið ljós og matsgerð legið fyrir um varanlegar afleiðingar hafi verið gerð krafa á hendur Ábyrgðasjóði launa og hafi krafan verið lögð fram innan 12 mánaða frá innköllun í Lögbirtingablaði líkt og heimilt sé skv. 2. málsl. 1. mgr. 12. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa.

 

Jafnframt segir í erindi kæranda að í frumvarpi því er orðið hafi að lögum nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa, sé að mati kæranda lagt upp með að beita rúmri túlkun við mat á því hvort kröfur sem eigi rót sína að rekja til líkamstjóns, t.d. vegna vinnuslyss, skuli komast að þrátt fyrir að þær falli utan ábyrgðartímabils skv. lögunum. Um þetta sé fjallað í athugasemdum við 4. gr. frumvarps þess er varð að gildandi lögum um Ábyrgðasjóð launa og þá með þeim hætti að bótakröfur vegna vinnuslyss geti í sumum tilvikum komið til álita hjá sjóðnum jafnvel þó þær falli utan 18 mánaða forgangsréttartímabils skv. 112. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Í frumvarpinu sé að mati kæranda staðfest að kröfur sem eigi rót sína að rekja til líkamstjóns njóti sérstöðu í þessu tilliti, enda geti tekið langan tíma að sanna slíkt tjón og afla matsgerða til að sýna fram á rétt til bóta og leggja fram gjaldkræfa kröfu. Að mati kæranda hafi í því sambandi verið litið svo á að frestir sem snúi að slíkum kröfum séu ekki skýrðir samkvæmt orðanna hljóðan heldur sé beitt rúmri lögskýringu. Kærandi telji að beita skuli sambærilegri lagatúlkun við túlkun á 12. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa og sé beitt við túlkun á 4. gr. sömu laga og telur kærandi raunar að 2. málsl. 1. mgr. 12. gr. laganna sé gagngert til kominn til að mæta þörfum einstaklinga sem kunna að eiga kröfur á hendur þrotabúi vegna vinnuslyss en geti ekki sannað tjón sitt fyrr en matsgerð liggi fyrir.

 

Þá byggir kærandi á því að ekki hafi verið hægt að gera kröfu á hendur Ábyrgðasjóði launa innan sex mánaða frá birtingu innköllunar í búið þar sem matsgerð hafi ekki legið fyrir en matsgerð sé nauðsynlegt sönnunargagn til að sanna orsakatengsl og forma gjaldkræfa kröfu. Enn fremur bendir kærandi á að afstaða skiptastjóra hafi ekki legið fyrir fyrr en seint í janúar 2022 og hafi því verið verulegur vafi um réttmæti kröfu kæranda þar til sú afstaða hafi legið fyrir.

 

Erindi kæranda var sent Ábyrgðasjóði launa til umsagnar með bréfi ráðuneytisins, dags. 24. mars 2023, og var sjóðnum veittur frestur til 10. apríl sama ár til að veita ráðuneytinu umsögn sína. Þar sem umsögn Ábyrgðasjóðs launa barst ráðuneytinu ekki innan þess frests sem veittur hafði verið ítrekaði ráðuneytið beiðni sína um umsögn sjóðsins með bréfi, dags. 28. apríl 2023.

 

Í umsögn Ábyrgðasjóðs launa, dags. 26. maí 2023, kemur meðal annars fram að umsókn kæranda vegna skaðabótakröfu í þrotabú hlutaðeigandi félags hafi borist sjóðnum þann 20. desember 2021 og hafi krafan verið tilkomin vegna vinnuslyss sem kærandi hafi orðið fyrir þann 19. ágúst 2019. Jafnframt kemur fram að bú hlutaðeigandi félags hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta þann 16. desember 2020 og að innköllun hafi verið birt í Lögbirtingablaðinu þann 29. janúar 2021. Enn fremur kemur fram að þann 25. ágúst 2022 hafi Ábyrgðasjóður launa hafnað umræddri kröfu á þeim grundvelli að skilyrði 1. málsl. 1. mgr. 12. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa hafi ekki verið uppfyllt í ljósi þess að ekki hafi verið gerð krafa á hendur sjóðnum innan sex mánaða frá birtingu innköllunarinnar.

 

Þá segir í umsögn Ábyrgðasjóðs launa að þann 7. október 2022 hafi kærandi óskað eftir því að stjórn sjóðsins tæki málið fyrir á grundvelli 2. málsl. 1. mgr. 12. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa og að þann 16. janúar 2022 hafi stjórn sjóðsins staðfest fyrri ákvörðun sjóðsins á þeim grundvelli að það hafi verið mat sjóðsins að ekki hafi verið sýnt fram á að ekki hafi verið hægt að gera umrædda kröfu fyrr. Skilyrði 2. málsl. 1. mgr. 12. gr. laganna hafi þannig ekki verið uppfyllt og kröfunni því hafnað.

 

Í umsögn Ábyrgðasjóðs launa kemur einnig fram að skv. 12. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa verði krafa á hendur sjóðnum aðeins tekin til greina ef hún berst honum innan sex mánaða frá birtingu innköllunar í bú þess félags sem í hlut á hverju sinni í Lögbirtingablaði, sem ráði lokum kröfulýsingarfrests í búið. Stjórn sjóðsins sé þó heimilt að taka til greina kröfu sem berst innan 12 mánaða frá birtingu innköllunar ef sýnt sé að kröfuna hafi ekki verið hægt að gera fyrr. Af framangreindu leiði að mati Ábyrgðasjóðs launa að berist krafa sjóðnum ekki innan sex mánaða frá birtingu innköllunar verði hún ekki tekin til greina nema stjórn sjóðsins heimili að taka hana til greina ef krafan berst sjóðnum innan 12 mánaða frá birtingu innköllunar, ef sýnt sé fram á að kröfuna hafi ekki verið hægt að gera fyrr. Fram kemur í umsögninni að í því sambandi gildi einu hvort kröfur sem berast sjóðnum byggist á áætlunum eða ekki. Þá kemur fram í umsögninni að berist Ábyrgðasjóði launa krafa á hendur sjóðnum á grundvelli áætlana eða með fyrirvara um niðurstöðu matsgerðar þá bíði sjóðurinn með afgreiðslu málsins þar til matsgerð liggi fyrir sem og afstaða skiptastjóra til réttmætis kröfunnar og forgangsréttar hennar. Í máli þessu hafi kærandi lýst áætlaðri kröfu í þrotabúið hinn 29. mars 2021. Á sama tíma hafi kærandi getað sótt um til sjóðsins á sama grundvelli, þrátt fyrir að krafan hafi byggt á áætlun.

 

Í umsögn Ábyrgðasjóðs launa kemur fram að sjóðurinn hafni málsástæðu kæranda þess efnis að krafa þurfi að vera endanleg og gjaldkræf. Hið rétta sé að Ábyrgðasjóður launa geri einungis áskilnað um að kröfur á grundvelli 5. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa hafi fallið í gjalddaga á síðustu 18 mánuðum fyrir úrskurðardag eða réttur hafi unnist til á því tímabili. Þá kemur fram að sjóðurinn hafni málsástæðu kæranda þess efnis að skaðabótakröfur skuli njóta rýmri túlkunar skv. 12. gr. laganna en aðrar kröfur. Að mati Ábyrgðasjóðs launa gildi sömu sjónarmið skv. 12. gr. laganna hvort sem um er að ræða launakröfur, lífeyrissjóðskröfur eða skaðabótakröfur sem byggðar séu á áætlunum.

 

Í umsögninni kemur enn fremur fram að ekkert hafi verið því til fyrirstöðu að mati Ábyrgðasjóðs launa að kærandi gerði kröfu á hendur sjóðnum á sama tíma og hann lýsti kröfu í þrotabú hlutaðeigandi félags þann 29. mars 2021 eða innan sex mánaða frá innköllun í Lögbirtingablaðinu. Að mati sjóðsins hafi því verið hægt að gera kröfu á hendur sjóðnum þrátt fyrir að endanleg matsgerð um slysið lægi ekki fyrir. Í því sambandi skipti ekki máli að mati sjóðsins að afstaða skiptastjóra til kröfunnar hafi ekki legið fyrir fyrr en seint í janúar 2022.

 

Með bréfi ráðuneytisins, dags. 9. júní 2023, var kæranda gefinn kostur á að gera athugasemdir við umsögn Ábyrgðasjóðs launa og var frestur veittur til 26. júní sama ár. Þar sem ráðuneytinu bárust engar athugasemdir við umsögn sjóðsins taldist gagnaöflun lokið.

 

 

 

II. Niðurstaða.

 

Í 1. mgr. 16. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa, nr. 88/2003, er kveðið á um að heimilt sé að kæra til ráðuneytisins ákvarðanir Ábyrgðasjóðs launa sem teknar eru á grundvelli laganna. Mál þetta lýtur að ágreiningi um ábyrgð Ábyrgðasjóðs launa á kröfu kæranda á hendur þrotabúi vinnuveitanda.

 

Í 1. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa kemur fram að markmið laganna sé að tryggja launamönnum og lífeyrissjóðum greiðslur vegna vangoldinna krafna þeirra við gjaldþrot vinnuveitanda eða þegar dánarbú vinnuveitanda er til opinberra skipta og erfingjar ábyrgjast ekki skuldbindingar. Í 1. mgr. 2. gr. laganna er kveðið á um að starfrækja skuli Ábyrgðasjóð launa sem ábyrgist greiðslur á kröfum um vangoldin laun, bætur vegna slita á ráðningarsamningum, orlof, bætur vegna vinnuslysa og lífeyrisiðgjöld í bú vinnuveitanda sem hefur staðfestu og rekur starfsemi hér á landi. Kröfur sem njóta ábyrgðar Ábyrgðasjóðs launa eru síðan nánar skilgreindar í a-e lið 5. gr. laganna en skv. e-lið ákvæðisins tekur ábyrgð sjóðsins til kröfu launamanns um bætur vegna tjóns af völdum vinnuslyss og kröfu þess sem tilkall á til bóta vegna dauðsfalls launamanns, enda taki tryggingar vinnuveitanda ekki til bótakröfunnar.

 

Í athugasemdum við 1. gr. frumvarps þess er varð að gildandi 16. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa, sbr. lög nr. 131/2005, um breytingu á lögum nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa, kemur meðal annars fram að varsla Ábyrgðasjóðs launa sé á ábyrgð stjórnar sjóðsins en starfsfólk Vinnumálastofnunar annist að jafnaði afgreiðslu umsókna í umboði stjórnar Ábyrgðasjóðs launa. Þegar upp komi mál sem talið er að þarfnist nánari skoðunar sé gert ráð fyrir að starfsmennirnir leggi þau mál fyrir stjórn sjóðsins sem tekur þá ákvörðun um hvernig málið skuli afgreitt. Þrátt fyrir að einstakar umsóknir hljóti þannig umfjöllun stjórnar sjóðsins verði öll mál afgreidd á sama stjórnsýslustigi. Því sé litið svo á að ákvörðun hafi verið tekin af stjórnvaldinu Ábyrgðasjóði launa hvort sem málið hefur hlotið umfjöllun stjórnar eða eingöngu starfsmanna Vinnumálastofnunar.

 

Í 1. málsl. 1. mgr. 12. laga um Ábyrgðasjóð launa er kveðið á um að krafa á hendur Ábyrgðasjóði launa verði því aðeins tekin til greina að hún berist sjóðnum innan sex mánaða frá þeirri birtingu innköllunar í bú vinnuveitanda í Lögbirtingablaði er ræður lokum kröfulýsingarfrests í búið. Í 2. málsl. sömu greinar er kveðið á um að stjórn sjóðsins sé þó heimilt að taka til greina kröfu er berst innan tólf mánaða frá birtingu innköllunar ef sýnt er að kröfuna hafi ekki verið hægt að gera fyrr.

 

Að mati ráðuneytisins er þannig í lögum um Ábyrgðasjóð launa skýrt kveðið á um þann frest sem einstaklingar hafa til að gera kröfu á hendur Ábyrgðasjóði launa. Eðli málsins samkvæmt verður því að mati ráðuneytisins að ætla að þær kröfur sem settar eru fram á hendur Ábyrgðasjóði launa geti í einstaka tilvikum verið áætlaðar, ekki síst þegar um er að ræða kröfur um bætur vegna tjóns af völdum vinnuslyss en í slíkum tilvikum verður að telja að dregist geti að fá úr því skorið hvert endanlegt tjón er.

 

Fram kemur í gögnum málsins að kærandi hafi lýst kröfu í þrotabú hlutaðeigandi atvinnurekanda fyrir lok kröfulýsingarfrests í málinu þann 29. mars 2021. Jafnframt kemur fram í gögnum málsins að Ábyrgðasjóður launa hafi hafnað kröfu kæranda á hendur sjóðnum um bætur vegna tjóns af völdum vinnuslyss með vísan til 1. mgr. 12. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa þar sem krafan hafi ekki borist sjóðnum innan sex mánaða frá innköllunardegi í Lögbirtingablaði en fram kemur í gögnunum að umrædd krafa hafi borist sjóðnum þann 20. desember 2021 eða rúmlega tíu mánuðum eftir birtingu innköllunar í Lögbirtingablaði þann 29. janúar 2021. Þá kemur fram í gögnum málsins að stjórn Ábyrgðasjóðs launa hafi tekið málið til umfjöllunar í kjölfar fyrrnefndrar höfnunar sjóðsins og að stjórnin hafi komist að þeirri niðurstöðu að kærandi hafi getað gert umrædda kröfu á hendur sjóðnum innan sex mánaða frá innköllunardegi og því hafi undantekningarákvæði 2. málsl. 1. mgr. 12. gr. laganna ekki átt við í málinu að mati stjórnarinnar.

 

Að mati ráðuneytisins verður að ætla að þar sem kærandi lýsti kröfu í þrotabú hlutaðeigandi atvinnurekanda fyrir lok kröfulýsingarfrests sem rann út 29. mars 2021 í máli þessu, sbr. framangreint, hafi kæranda í það minnsta frá þeim tíma verið unnt að gera kröfu á hendur Ábyrgðasjóði launa vegna umrædds vinnuslyss og þar af leiðandi innan þess frests sem lög um Ábyrgðasjóð launa veita einstaklingum til að gera kröfu á hendur sjóðnum, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 12. gr. laganna. Verður því að mati ráðuneytisins ekki annað séð en synjun Ábyrgðasjóðs launa um ábyrgð sjóðsins í máli þessu hafi byggst á málefnalegum sjónarmiðum.

 

Í ljósi alls framangreinds er það niðurstaða ráðuneytisins að umrædd krafa á hendur Ábyrgðasjóði launa um greiðslu bóta vegna tjóns af völdum vinnuslyss uppfylli ekki skilyrði laga um Ábyrgðasjóð launa fyrir ábyrgð sjóðsins.

 

Uppkvaðning úrskurðar þessa hefur dregist vegna mikilla anna í ráðuneytinu.

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Ákvörðun Ábyrgðasjóðs launa, dags. 16. janúar 2023, um synjun á ábyrgð sjóðsins vegna kröfu […], lögmanns, fyrir hönd […], á hendur þrotabúi Svanþors ehf., um greiðslu bóta vegna tjóns af völdum vinnuslyss, skal standa.

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta