Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál

1215/2024. Úrskurður frá 9. september 2024

Hinn 9. september 2024 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1215/2024 í máli ÚNU 24060009.
 

Beiðni um endurupptöku

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál barst erindi frá fjármála- og efnahagsráðuneyti 19. júní 2024. Með erindinu var framsend beiðni […], blaðamanns hjá Eyjunni, dags. sama dag, um endur­upptöku máls ÚNU 23050004 sem lauk með úrskurði nefndarinnar nr. 1201/2024, frá 13. júní 2024. Í beiðninni kemur fram að beiðandi telji úrskurðinn haldinn verulegum annmarka sem felist í því að í úrskurðinum hafi ekki verið tekin afstaða til þess hvort fjármála- og efnahags­ráðuneyti hafi á sínum tíma, þegar greinargerð setts ríkisendurskoðanda var enn óbirt, verið heim­ilt að synja honum um aðgang að skjalinu. Aðeins sé í úrskurðinum vísað til þess að þar sem skjalið sé nú orðið opinbert skuli ráðuneytið afhenda það.
 

Niðurstaða

Í úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 1201/2024, frá 13. júní 2024, var það niður­staða nefndarinnar að meðal annars sökum þess að greinargerð setts ríkisendurskoðanda hefði verið birt á vef Alþingis væru þeir hagsmunir sem áður kynnu að hafa staðið afhendingu greinargerðarinnar í vegi niður fallnir og að fjármála- og efnahagsráðuneyti væri skylt að afhenda hana kæranda.
 
Í 24. gr. stjórnsýslulaga er mælt fyrir um endurupptöku stjórnsýslumáls:
 

Eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef:

  1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða
  2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa veru­lega frá því að ákvörðun var tekin.

 
Eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun skv. 1. tölul. 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum þeim sem ákvörð­un skv. 2. tölul. 1. mgr. var byggð á, verður beiðni um endurupptöku máls þó ekki tekin til greina, nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Mál verður þó ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því.

 
Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál eru skilyrði 24. gr. stjórnsýslulaga ekki uppfyllt, og verður málið því ekki endurupptekið á þeim grundvelli. Þegar 24. gr. stjórnsýslulaga sleppir kann úrskurðarnefnd um upplýsingamál eftir atvikum að vera rétt og heimilt að endurupptaka mál á ólögfestum grundvelli. Í því tilviki sem hér um ræðir kemur það að mati nefndarinnar til álita ef rökstuddar vísbendingar eru um að á úrskurðum hennar séu veru­legir annmarkar að lögum. Úrskurðarnefndin telur að slíkar vísbendingar séu ekki til staðar. Í þeim tilvikum þegar aðstæður breytast frá því lægra sett stjórnvald tekur hina kærðu ákvörðun og þar til úrskurðað er í málinu á æðra stjórnsýslustigi er almenna reglan sú að hið æðra setta stjórnvald á að miða við þau atvik sem liggja fyrir þegar úrskurður er kveðinn upp, en ekki þegar hin kærða ákvörðun var tekin. Úrskurð­ur úrskurðarnefndarinnar í því máli sem óskað er að verði endurupptekið tók mið af þessari almennu reglu.
 
Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið er hafnað beiðni um endurupptöku máls ÚNU 23050004 sem lauk með úrskurð­i úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 1201/2024, frá 13. júní 2024.
 

Úrskurðarorð

Beiðni […], dags. 19. júní 2024, um endurupptöku máls ÚNU 23050004 sem lauk með úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 1201/2024, frá 13. júní 2024, er hafnað.
 
 
 
 
Trausti Fannar Valsson, formaður
Hafsteinn Þór Hauksson
Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta