Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd jafnréttismála

Mál nr. 8/2022 - Úrskurður

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

 

 

A

gegn

Svalbarðsstrandarhreppi

 

Uppsögn. Orlof. Kærufrestur. Mismunun á grundvelli kyns. Mismunun á grundvelli þjóðernisuppruna. Fjölþætt mismunun. Fallist á brot.

A kærði ákvörðun S um að gera ekki upp áunnið orlof við uppsögn hennar við tónlistardeild grunnskólans. Hélt A því fram að henni hefði verið mismunað á grundvelli kyns og þjóðernis­uppruna þar sem orlof var gert upp að loknum uppsagnarfresti hjá samstarfsmanni hennar, sem er íslenskur karl, en ekki henni, sem er af öðrum þjóðernisuppruna en hafði verið búsett hér á landi frá árinu 2011. Í ljósi þess að munur var á uppgjöri við uppsögn þessara tveggja starfsmanna hjá kærða var talið að A hefði leitt líkur að því að kyn og þjóðernisuppruni hefði haft áhrif á ákvarðanir kærða í tengslum við uppsögn hennar, sbr. 2. mgr. 18. gr. og 4. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020 og 15. gr. laga nr. 86/2018. Þá varð ekki séð að hlutlæg og málefnaleg sjónarmið hefðu legið til grundvallar ákvörðun kærða. Var því talið að kærði hefði gerst brotlegur við lög nr. 150/2020 og lög nr. 86/2018.

  1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 19. júlí 2023 er tekið fyrir mál nr. 8/2022 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
  2. Með kæru, dags. 24. mars 2022, kærði A uppgjör Svalbarðsstrandarhrepps á áunnu orlofi við uppsögn hennar í Valsárskóla. Heldur kærandi því fram að kærði hafi við uppgjörið mismunað henni á grundvelli kyns og þjóðernisuppruna og brotið þar með gegn lögum nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, og laga nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði.
  3. Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dags. 3. maí 2022. Greinargerð kærða barst með bréfi, dags. 2. júní 2022. Greinargerð kærða var send kæranda til athugasemda með bréfi kærunefndar, dags. 7. júní s.á. Kærunefndinni bárust athuga­semdir kæranda með bréfi, dags. 8. júlí s.á., og voru þær sendar kærða þann 11. s.m. Athugasemdir kærða bárust nefndinni með bréfi, dags. 22. júlí 2022, og voru þær kynntar kæranda með bréfi, dags. 11. ágúst s.á. Viðbótarathugasemdir kæranda bárust með bréfi, dags. 2. september s.á., og voru kynntar kærða þann 12. s.m. Viðbótar­athugasemdir kærða bárust nefndinni degi síðar og voru kynntar kæranda hinn 22. september 2022. Andsvar kæranda barst 6. október s.á. og var kynnt kærða degi síðar. Kærunefnd jafnréttismála óskaði eftir frekari upplýsingum frá kærða með bréfi, dags. 19. apríl 2023, sem bárust 29. s.m. og voru sendar kæranda til kynningar 2. maí s.á.

     

    MÁLAVEXTIR

     

  4. Kærandi, sem hefur verið búsett hér á landi frá árinu 2011, var deildarstjóri í tónlistardeild í grunnskóla kærða þegar deildin var lögð niður og henni og íslenskum karlkyns samstarfsmanni, sem voru einu starfsmenn deildarinnar, sagt upp störfum. Í uppsagnarbréfinu, dags. 26. apríl 2021, kom fram að henni væri sagt upp störfum frá og með 1. maí 2021 og að uppsagnarfresti lyki 31. júlí 2021. Fyrir liggur að kærandi og samstarfsmaður hennar samþykktu ekki að fella orlofstöku inn í uppsagnarfrest jafnframt sem þau afþökkuðu launalaust leyfi á tímabilinu 9. júní til og með 31. júlí 2021. Kærði gerði upp og greiddi samstarfsmanni kæranda fullt orlof 31. ágúst 2021 en kærandi fékk enga slíka greiðslu.

     

    SJÓNARMIÐ KÆRANDA

     

  5. Kærandi heldur því fram að ákvörðun kærða um að gera ekki upp áunnið orlof við starfslok hennar hjá kærða feli í sér mismunun og brot gegn 6. og 18. gr. laga nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, og 9. gr. laga nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði. Vísar kærandi til þess að þrátt fyrir að vinnuframlag hennar á uppsagnarfresti hafi verið sambærilegt vinnuframlagi karlkyns samstarfsmanns hennar hafi hann fengið orlofið greitt við starfslok en ekki hún. Bendir kærandi á að munurinn á vinnuframlagi þeirra hafi verið tveir dagar. Þá séu þau ekki af sama þjóðernisuppruna.
  6. Kærandi tekur fram að hún hafi fengið síðustu launagreiðsluna 31. júlí 2021, við lok uppsagnarfrests. Hafi hún ekki fengið upplýsingar fyrr en 5. október um að fyrrum samstarfsmaður hennar sem sé íslenskur hefði fengið full laun til og með 31. júlí 2021 auk greiðslu orlofs eins og ekkert orlof hefði verið tekið á uppsagnarfresti. Hefði hún því ekki haft grun um mismunun við uppgjör á orlofi fyrr en þá. Hafi Félag kennara og stjórnenda í tónlistarskólum (FT) af því tilefni sent erindi til kærða 20. október 2021 en svar, dags. 2. nóvember 2021, hafi borist 8. s.m. Hafi þessi grunur ekki verið að fullu staðfestur fyrr en 22. desember 2021 eftir samtal Kennara­sambands Íslands við fyrrum samstarfsmann kæranda. Sé því ljóst að vitneskja kæranda um ætlað brot hafi ekki getað legið fyrir fyrr en þá. Þá hafi átt sér stað viðræður um málið milli kærða og FT þar til rökstuðningur eða lokaákvörðun, dags. 21. febrúar 2022, barst frá kærða 3. mars s.á.
  7. Bendir kærandi á að kærufrestur byrji ekki að líða fyrr en stjórnvaldsákvörðun eða rökstuðningur hafi verið birtur aðila með lögboðnum hætti. Sama eigi við um rök­stuðn­ing samkvæmt 3. mgr. 9. gr. laga nr. 151/2020 um stjórnsýslu jafnréttismála. Byrjaði kærufrestur því ekki að líða fyrr en 3. mars 2022 þegar rökstuðningur eða lokaákvörðun barst frá kærða, sbr. t.d. álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 4787/2006. Það skipti þó ekki máli hvort litið sé til 5. október 2021 eða 3. mars 2022 þar sem báðar þessar dagsetningar séu vel innan kærufrests. Komist nefndin að þeirri niðurstöðu að kæran hafi ekki borist innan kærufrests sé þess óskað að hún taki erindið til meðferðar engu að síður, sbr. heimild 3. mgr. 9. gr. laga nr. 151/2020, enda óumdeilt að erindið barst nefndinni innan árs.
  8. Kærandi mótmælir því að það leiki vafi á því að ágreiningsefnið eigi undir nefndina. Það sé ljóst að annars vegar sé um að ræða íslenskan karl sem fékk orlof gert upp að loknum uppsagnarfresti og svo hins vegar erlenda konu sem fékk það ekki þar sem litið var svo á að hún hefði tekið orlofið á uppsagnarfresti. Vinnuframlag kæranda og karlsins hefði verið það sama að teknu tilliti til starfshlutfalls að því undanskildu að kærandi fékk frí í tvo daga á starfsdögum eftir að kennslu var lokið. Hefði orlof kæranda verið gert upp með sama hætti og karlsins hefði kærandi í það minnsta átt að fá 28 daga orlof gert upp við starfslok en fékk þess í stað ekkert. Það sé því ekki nokkur vafi á því að um mismunandi meðferð var að ræða varðandi launagreiðslur og uppgjör á orlofi og heyrir slík mismunun undir nefndina.
  9. Kærandi bendir á að skólastjóri hafi heimilað henni að vera fjarverandi í tvo daga á starfsdögum eftir að kennslu var lokið, þ.e. 7. og 8. júní 2021, en síðari dagurinn var síðasti starfsdagur fyrir sumarlaunatíma. Beiðni um frí þessa daga tengdist fjölskyldu hennar, en hún er frá Eistlandi, auk þess sem hún ætlaði að fara á sí- eða endur­menntunar­námskeið tengd tónlistarkennslu. Hafi kærandi lagt sig fram um að klára þau verkefni sem heyrðu undir hana sem deildarstjóra, þ.m.t. staðbundinn frágang við lok skólaársins, fyrir 4. júní 2021. Öðrum frágangi lauk kærandi í júnímánuði. Gerði hún þetta með sama hætti og fyrri starfsár. Bendir kærandi jafnframt á að starfs­skyldur hennar hafi að langstærstum hluta falist í tónlistarkennslu og hafi fallið undir kafla 2.1.6 um vinnutíma kennara í tónlistarskólum í kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og FT. Almennt geti skólastjórnendur ekki krafist viðveru tónlistar­kennara á sumarlaunatíma en þeir hafi ráðstöfunarrétt yfir þeim tíma sem þeir eiga að verja í símenntun og/eða undirbúning utan starfstíma skóla. Slíkt sé þeim heimilt að gera í fjarvinnu. Þá taki þeir almennt orlof á því tímabili nema um sé að ræða að uppsagnarfrestur falli inn í sumarlaunatímann.
  10. Kærandi hafnar því að um það hafi verið samið að kærandi fengi ekki laun út upp­sagn­arfrest, að uppsagnarfrestur yrði skertur og laun yrðu gerð upp m.v. síðasta starfsdag 4. júní 2021. Slíkt samkomulag hefði þurft að vera skriflegt auk þess sem launaseðlar þeir sem kærði hefur lagt fram bera þess engin merki. Þá hefði slíkt lokauppgjör þurft að vera skriflegt auk þess sem það hefði átt að koma fram á launaseðli vegna tíma­bilsins 1. júní – 30. júní 2021. Áréttar kærandi að full laun hefðu verið greidd út upp­sagnarfrest, þ.e. til og með 31. júlí eins og launaseðillinn ber með sér, og að ekkert áunnið orlof hefði verið greitt. Virðist því að um sé að ræða eftiráskýringu hjá kærða sem eigi sér ekki stoð í þeim launaseðlum sem kærði lagði fram.
  11. Kærandi bendir á að hún hafi mætt á skólaslit Valsárskóla og tónlistardeildarinnar 4. júní 2021 og sinnt vinnu sinni þann dag. Skólaslit síðdegis hafi farið fram í kennslu­stofum vegna Covid-19 faraldursins. Hún hafi hins vegar ekki mætt í kvöldverð í tengslum við útskrift tveggja nemenda úr 10. bekk grunnskólans sem hafi verið valkvætt og ekki hluti af starfsskyldum kæranda en nemendurnir höfðu ekki verið í tónlistardeildinni um veturinn.
  12. Kærandi tekur fram að kærði hafi ekki farið fram á neitt vinnuframlag frá kæranda og samstarfsmanni hennar frá og með 9. júní 2021. Hefðu þau ekki getað sinnt öðru en símenntun á þessum tíma þar sem búið var að leggja tónlistardeild skólans niður og þau höfðu bæði lokið öllum frágangi. Þá bendir kærandi á að þeir fundir sem voru haldnir 7. og 8. júní 2021 og samstarfsmaður hennar sat hafi varðað starfsemi grunn­skólans. Jafnframt tekur kærandi fram að hún hafi ekki fyllilega skilið tölvupóst skóla­stjóra frá 31. maí 2021, þar sem fram hafi komið beiðni um tillögu um töku orlofs, og hafi hún því leitað til hans en hún tali ekki íslensku reiprennandi. Hafi hún á þeim fundi eingöngu óskað eftir leyfi 7. og 8. júní 2021 og ætlað sér að sinna sí- og endur­menntun hina dagana. Hafi skólastjóra átt að vera þetta fullljóst.
  13. Kærandi bendir á að skipulag vinnutíma og vinnuskylda kennara sé með öðrum hætti en gengur og gerist þar sem það taki mið af skólaárinu sem þýðir að orlofsárið er frá 1. ágúst til 31. júlí. Þá hafi kennarar unnið sér inn viðbótarfrídaga í stað greiddrar yfir­vinnu sem þeir taka út yfir sumarmánuðina en á slíkum viðbótarfrídögum geti ekki verið um að ræða vinnuskyldu. Sé um að ræða samtals 23 viðbótarfrídaga sem koma í stað 5,3 klst. aukavinnuframlags í hverri viku sem ekki er greidd yfirvinna fyrir. Hluti af þessum frídögum var tekinn í kringum jól, nýár, dymbilviku og vetrarfrí en þeir dagar sem eftir stóðu voru teknir í fríi yfir sumarmánuðina.
  14. Kærandi bendir á að málflutningur kærða sé villandi varðandi skiptingu þeirra greiðslna sem um ræðir, þ.e. annars vegar greiðslna á uppsagnarfresti og hins vegar vegna áunnins orlofs. Þá virðist sem kærði rugli greiðslu orlofs á yfirvinnu saman við orlofsrétt og áunninn rétt til orlofslauna á fyrirliggjandi launaseðlum. Fyrir liggi að kærandi og samstarfsmaður hennar höfðu áunnið sér rétt til launa í 30 orlofsdaga. Samstarfsmaður hennar var í 20% starfshlutfalli en í júní og júlí þegar kennsla lá niðri hækkuðu launagreiðslur til hans og miðuðust við 30% starfshlutfall. Virðist hann því hafa fengið 50% yfirborgun yfir sumarmánuðina sem kærandi fékk ekki og þeim því mismunað varðandi greiðslu mánaðarlauna á þeim tíma. Þá fékk hann orlofið gert upp 31. ágúst 2021 eftir að hafa haldið mánaðarlaunum á uppsagnarfresti í maí, júní og júlí en kærandi ekki. Launaseðlar kæranda sem fylgja kærunni staðfesta þá framkvæmd kærða að láta áunnið orlof kæranda falla inn í uppsagnarfrestinn þar sem hún fær laun greidd út uppsagnarfrestinn sem var 31. júlí 2021. Eftir að kæra var send til kæru­nefndar og kærði lagði fram launaseðla hafi því komið í ljós að mismunun hafi ekki einungis átt sér stað við uppgjör orlofs heldur einnig við greiðslu annar­uppbótar, sem er kjarasamningsbundin greiðsla, sem og við greiðslu mánaðarlauna umfram kjara­samningsbundin kjör.
  15. Tekur kærandi fram að eftiráskýringar kærða um að hún hafi fyrirgert rétti sínum til launa á uppsagnarfresti með því að fara í leyfi í tvo daga eða að orlof hafi verið gert upp og greitt að fullu 1. júlí 2021 standist ekki skoðun þar sem full laun voru greidd út uppsagnarfrestinn. Hafði hún ekki samþykkt að orlof yrði gert upp áður en uppsagnar­fresti lauk. Að auki hefði hún sinnt vinnu eftir að starfstíma skólans lauk á uppsagn­arfresti. Áréttar hún að enginn munur hafi verið á ráðningarsambandi hennar og samstarfsmanns hennar sem réttlæti mismun á uppgjöri.
  16. Kærandi bendir á að enga heimild sé að finna í lögum nr. 151/2020 um að kærandi skuli greiða gagnaðila málskostnað sem hann hafi orðið fyrir vegna málsins nema í þeim tilvikum sem kæra er bersýnilega tilefnislaus, sbr. 6. mgr. 8. gr. laganna, en slíkt eigi ekki við í máli þessu.

 

SJÓNARMIÐ KÆRÐA

 

  1. Kærði gerir þá kröfu aðallega að málinu verði vísað frá kærunefnd jafnréttismála en til vara að kröfum kæranda verði hafnað. Hafnar kærði því að hafa brotið gegn ákvæðum laga nr. 150/2020 og lögum nr. 86/2018, og vísar til þess að uppgjörið sem hafi farið fram við starfslok kæranda hafi ekki á nokkurn hátt byggst á kyni eða þjóðernis­uppruna. Þá gerir hann kröfu um að kæranda verði gert að greiða honum málskostnað að mati nefndarinnar, sbr. 6. mgr. 8. gr. laga nr. 151/2020.
  2. Kærði telur að kærandi hafi haft vitneskju um ætlað brot á lögum um jafnréttismál 1. júlí 2021 þegar hún fékk greitt áunnið orlof. Í síðasta lagi sé rétt að miða við 1. ágúst, þegar kæranda mátti vera ljóst að ekki yrði um frekari greiðslur að ræða frá kærða. Ekki verði séð hvenær erindi kæranda barst nefndinni en það er dagsett 24. mars 2022. Sé því ljóst að sex mánaða fresturinn hafi verið liðinn þegar erindið barst nefndinni og beri því að vísa málinu frá henni. Heldur kærði því fram að stjórnsýslulög nr. 37/1993 gildi ekki um stjórnsýslu jafnréttismála heldur beri að beita ákvæðum laga nr. 151/2020, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 37/1993, en lög nr. 151/2020 séu sérlög. Jafnframt bendir kærði á að miða beri upphaf kærufrests við 1. ágúst 2021 þegar henni hafi verið ljóst í síðasta lagi að ekki yrði um frekari launagreiðslur að ræða en sér­fræðingar hafi farið með málið fyrir hönd kæranda. Við skýringu á þessu megi líta til reglna um upphaf fyrningarfrests samkvæmt 9. og 10. gr. laga nr. 150/2007 þar sem viðmiðið er vitneskja um kröfu. Þá bendir kærði á að 3. mgr. 9. gr. laga nr. 151/2020 sé undantekning frá meginreglunni um kærufrest sem túlka beri þröngt. Séu skilyrðin ekki heldur uppfyllt þar sem hvorki sé réttlætanlegt að kæra hafi ekki borist innan kærufrestsins né veigamiklar ástæður sem mæli með því að kæran verði tekin fyrir.
  3. Telur kærði verulegan vafa vera á því hvort ágreiningsefnið eigi undir nefndina, sbr. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 151/2020. Í raun sé um að ræða ágreining um fjárhagslegt uppgjör vegna starfsloka kæranda og túlkun kjarasamninga en ekki ágreining um hvort ákvæði laga nr. 150/2020 eða laga nr. 86/2018 hafi verið brotin. Kærandi hafi kosið að klæða málið í þann búning að bera saman greiðslur til samstarfsmanns kæranda sem byggjast á ráðningarsamningi hans en ekki á nokkurn hátt á kyni eða þjóðernis­uppruna hans. Beri því að vísa málinu frá nefndinni.
  4. Kærði bendir á að á fundi með skólastjóra Valsárskóla hefði kærandi upplýst skóla­stjórann um að hún væri búin að panta sér ferð til útlanda og þyrfti að fara suður að kvöldi 4. júní sem leiddi til þess að hún gat ekki unnið á skólaslitum eða tekið þátt í starfs­dögum. Hún óskaði ekki eftir leyfi þessa daga og gerði skólastjóra það ljóst að hún ætlaði ekki að koma aftur til starfa eftir utanlandsferðina. Skólastjóri hefði gert kær­anda skýra grein fyrir því hvernig réttindum hennar varðandi töku orlofs væri háttað og hvaða afleiðingar það hefði ef hún ynni ekki uppsagnarfrestinn. Kærandi hafi kosið að láta af störfum þegar í stað og var hún kvödd af samstarfsmönnum sínum í hádeginu 4. júní. Kærandi hafi fengið greidd laun að fullu fyrir júní og orlof hafi verið greitt 1. júlí. Bendir kærði á að kærandi hafi gott vald á íslensku enda búin að búa á Íslandi frá árinu 2011 og starfa í skólanum frá 2016. Hafi öll samskipti við kæranda verið á ís­lensku og gengið vel. Hún hafi kennt á íslensku og verið í samskiptum við foreldra nemenda á íslensku.
  5. Kærði bendir á að það sé meginregla í vinnurétti að réttur til launa á uppsagnarfresti sé háður því að launamaður vinni uppsagnarfrestinn ef hann hefur ekki verið leystur undan vinnuskyldu. Kærandi hafi ekki verið leyst undan vinnuskyldu. Hún hafi ein­faldlega tilkynnt að hún myndi ekki mæta til vinnu eftir 4. júní.
  6. Bendir kærði á að samkennari hennar hafi verið í 30% starfshlutfalli á sumrin en 20% á meðan skólinn starfaði. Hann tilkynnti skólastjóra það skriflega að hann ætlaði að vinna á uppsagnarfrestinum. Hann hafi fengið sömu upplýsingar og kærandi varðandi orlofstöku. Samanburður á milli þessara starfsmanna að því er varðar laun á upp­sagnarfresti sé því langsóttur. Kærandi hafi valið að vinna ekki á uppsagnar­frestinum en samstarfsmaður hennar efndi ráðningarsamning sinn.
  7. Þá telur kærði að kærandi hafi ekki leitt líkur að því að við starfslok hennar hafi kyn eða þjóðernisuppruni haft áhrif á greiðslur til hennar. Að byggja á því án frekari rökstuðnings gerir það ekki líklegt að kyn eða þjóðernisuppruni kæranda hafi skipt máli. Aðalatriðið er að reglur vinnuréttarins voru lagðar til grundvallar. Samkvæmt þeim var réttarstaða kæranda og samstarfsmanns hennar mismunandi, sem skipti máli varðandi uppgjör við starfslokin.
  8. Kærði tekur fram að kærandi hafi fengið áunnið orlof greitt að fullu. Það sé væntanlega óumdeilt að kærandi kom ekki til starfa hjá kærða eftir að hún tilkynnti skólastjóra að morgni 4. júní að hún væri að fara til útlanda en greiðsluskylda kærða á launum féll niður eftir þann tíma. Þrátt fyrir það voru kæranda greidd full laun fyrir júní svo að vandséð er hvernig hún geti talið sig eiga frekari kröfur á hendur kærða. Telur kærði að lög nr. 150/2020 eigi ekki við í málinu. Lúti ágreiningur aðila því í raun að því hvort kærandi eigi rétt á greiðslu á uppsagnarfrestinum þrátt fyrir að vinna hann ekki. Málatilbúnaður kæranda byggir á því að það sé verið að bera saman alls óskylda hluti, þ.e. uppgjör við starfsmenn sem höfðu gjörólíka réttarstöðu sem hafi ekkert með kyn eða þjóðernisuppruna aðila að gera heldur aðeins það að annar aðilinn kaus að efna ráðningarsamning sinn samkvæmt efni sínu en hinn ekki. Mismunur á uppgjörinu skýrist af því að kærandi fékk greidda tvo mánuði af þremur á upp­sagn­ar­frestinum en samstarfsmaður hennar þrjá. Bæði fengu þau greitt áunnið orlof að fullu við starfslok. Vísar kærði til þess að á launaseðlum aðila komi fram að orlofsinneign sé 0.
  9. Kærði tekur að lokum fram að vegna athugasemda kæranda við greiðslu annar­uppbótar hafi athugun leitt í ljós að láðst hafi að greiða kæranda hana og hafi hún nú verið greidd henni að fullu ásamt dráttarvöxtum.

     

    NIÐURSTAÐA

     

  10. Mál þetta snýr að því hvort kærði hafi brotið gegn lögum nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, og lögum nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði, með því að greiða kæranda ekki áunnið orlof við uppsögn með sama hætti og var gert í tilviki samstarfsmanns hennar sem er íslenskur karl. Samkvæmt því beinist kæran að upp­gjöri orlofs við uppsögn, sbr. 1. mgr. 18. gr. og 1. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020 og 1. mgr. 8. gr. og 1. mgr. 9. gr. laga nr. 86/2018.
  11. Kærði telur vafa leika á því að ágreiningsefnið eigi undir nefndina, sbr. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 151/2020, þar sem um sé að ræða ágreining um fjárhagslegt uppgjör vegna starfsloka kæranda og túlkun kjarasamninga en ekki ágreining um það hvort ákvæði laga nr. 150/2020 eða laga nr. 86/2018 hafi verið brotin.
  12. Af því tilefni er rétt að taka fram að í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 150/2020 kemur fram að markmið laganna sé að koma í veg fyrir mismunun á grundvelli kyns og koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Er fjallað um bann við mismunun í launum og öðrum kjörum og bann við mismunun við uppsögn í 18. og 19. gr. laganna. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 86/2018 kemur fram að lögin gildi um jafna meðferð einstaklinga á vinnumarkaði óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu, m.a. hvað varðar ákvarðanir í tengslum við laun, önnur starfskjör og uppsagnir. Í 1. mgr. 2. gr. er tekið fram að markmið laganna sé að vinna gegn mis­munun og koma á og viðhalda jafnri meðferð einstaklinga á vinnumarkaði óháð þeim þáttum sem um getur í 1. mgr. 1. gr. Nánar er fjallað um bann við mismunun við uppsögn og í tengslum við laun og önnur kjör í 8. og 9. gr. laganna.
  13. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 151/2020, um stjórnsýslu jafnréttismála, gilda lögin um stjórnsýslu á sviði jafnréttismála á því sviði sem löggjöf um jafnréttismál tekur til, m.a. lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna og lög um jafna meðferð á vinnumarkaði, og um störf kærunefndar jafnréttismála. Verkefni kærunefndar jafnréttismála er að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laga nr. 150/2020 og laga nr. 86/2018 hafi verið brotin, sbr. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 151/2020.
  14. Með vísan til framangreinds og þess að kærandi er kona af öðrum þjóðernisuppruna en sá karl sem hún ber sig saman við og sem fékk greitt áunnið orlof við starfslok en ekki kærandi er ekki hægt að draga aðra ályktun en að málið heyri undir kærunefnd jafn­réttismála. Verður því ekki fallist á frávísun málsins á þessum grundvelli.
  15. Kærði gerir einnig kröfu um að málinu sé vísað frá nefndinni á þeim grundvelli að kærufrestur sé liðinn. Samkvæmt 3. mgr. 9. gr. laga nr. 151/2020 skulu erindi berast nefndinni skriflega innan sex mánaða frá því að vitneskja um ætlað brot á lögum um jafnréttismál, sbr. 1. gr., lá fyrir, frá því að ástandi sem talið er brot á hlutaðeigandi lögum lauk eða frá því að sá er málið varðar fékk vitneskju um ætlað brot. Tekið er fram að kærunefndin geti þegar sérstaklega stendur á ákveðið að taka erindi til með­ferðar þótt framangreindur frestur sé liðinn, þó aldrei ef liðið er meira en eitt ár. Er það því kærunefndarinnar að taka ákvörðun um það hvort kæra verði tekin til meðferðar fyrir nefndinni, óháð því hvort kærði fallist á það.
  16. Í málinu liggur fyrir að kærandi fékk launagreiðslur frá kærða 31. júlí 2021 en engar greiðslur mánuði síðar eins og samstarfsmaður hennar. Jafnvel þótt kærandi hafi talið að kærði hafi ekki staðið rétt að uppgjöri orlofs, þá verður fallist á að hún hafi ekki haft vitneskju um ætlað brot á jafnréttislögum fyrr en eftir 31. ágúst 2021. Kærandi hefur upplýst að hún hafi hinn 5. október 2021 fengið upplýsingar um að fyrrum samstarfs­maður hennar hefði fengið aðra meðferð en hún við uppsögnina. Í samræmi við það verður fallist á að kærufrestur hafi byrjað að líða í fyrsta lagi þá. Samkvæmt því verður talið að kæran sé innan kærufrests, sbr. 3. mgr. 9. gr. laga nr. 151/2020, og verður hún því tekin til efnismeðferðar.
  17. Í 1. mgr. 16. gr. laga nr. 150/2020 er tekið fram að hvers kyns mismunun á grundvelli kyns, hvort heldur bein eða óbein, sé óheimil. Sambærileg regla er í 1. mgr. 7. gr. laga nr. 86/2018 sem varðar bann við mismunun á grundvelli þjóðernisuppruna. Jafnframt er tekið fram í báðum þessum ákvæðum að fjölþætt mismunun sé óheimil.
  18. Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga nr. 150/2020 og 1. mgr. 9. gr. laga nr. 86/2018 er at­vinnurekendum óheimilt að mismuna í launum og öðrum kjörum á grundvelli kyns og þjóðernisuppruna. Samkvæmt sönnunarreglu í 2. mgr. 18. gr. laga nr. 150/2020 og 15. gr. laga nr. 86/2018 kemur það í hlut einstaklings sem telur á sér brotið að leiða líkur að því að hann njóti mismunandi launakjara fyrir sömu eða jafn verðmæt störf á grund­velli kyns og þjóðernisuppruna. Takist sú sönnun skal atvinnurekandi sýna fram á, ef um launamun er að ræða, að munurinn skýrist af öðrum þáttum en kyni og þjóð­ernis­uppruna. Þá er atvinnurekendum samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020 og 1. mgr. 8. gr. laga nr. 86/2018 óheimilt að mismuna starfsmönnum við uppsögn á grund­velli kyns og þjóðernisuppruna. Samkvæmt sönnunarreglu í 4. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020 og 15. gr. laga nr. 86/2018 kemur það í hlut þess sem telur á sér brotið að leiða líkur að því að honum hafi verið mismunað á grundvelli kyns og þjóðernisuppruna. Takist sú sönnun ber atvinnurekandanum að sýna fram á að aðrar ástæður en kyn og þjóðernisuppruni hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Er því um sams konar sönn­unarreglur að ræða í 2. mgr. 18. gr. og 4. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020 og 15. gr. laga nr. 86/2018. Af framangreindu er ljóst að það kemur í hlut kæranda að færa fram stað­reyndir eða önnur gögn og upplýsingar sem leiða líkur að því að kyn og þjóðernis­uppruni hafi haft áhrif á ákvörðun kærða um að gera ekki upp áunnið orlof við uppsögn kæranda.
  19. Fyrir liggur að kærandi, sem hefur verið búsett hér á landi sl. 12 ár, og fyrrum sam­starfsmaður hennar, sem er íslenskur karl og því af öðrum þjóðernisuppruna en kær­andi, voru einu starfsmenn tónlistardeildar grunnskóla kærða. Kærandi gegndi starfi deildarstjóra ásamt því að sinna kennslu en samstarfsmaður hennar sinnti kennslu í hlutastarfi. Þegar ákvörðun var tekin um að leggja tónlistardeildina niður í grunn­skól­anum var þeim báðum sagt upp störfum frá og með 1. maí 2021 með þriggja mánaða uppsagnarfresti. Af gögnum málsins er ljóst að kærandi fékk ekki sömu greiðslur og samstarfsmaður hennar við starfslok hjá kærða þótt hún hafi, eftir að kæra var lögð fram, fengið kjarasamningsbundna annaruppbót greidda. Síðustu greiðslur til kæranda voru 31. júlí 2021 þegar greiðslum á uppsagnarfresti lauk á meðan síðustu greiðslur sam­starfsmanns hennar voru 31. ágúst. Er því ljóst að munur hafi verið á uppgjöri við starfslok þessara tveggja samstarfsmanna. Með vísan til þessa verður fallist á að kær­andi hafi leitt líkur að því að bæði kyn og þjóðernisuppruni hafi haft áhrif á ákvarðanir kærða í tengslum við uppsögn hennar, sbr. 4. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020 og 15. gr. laga nr. 86/2018. Samkvæmt því kemur það í hlut kærða að sýna fram á að munurinn skýrist af öðrum þáttum en kyni og þjóðernisuppruna.
  20. Kærði hefur vísað til þess að kærandi hafi óskað eftir töku orlofs á uppsagnarfresti auk þess sem hún hafi ekki sinnt vinnuskyldu á uppsagnarfresti. Hafi hún því ekki átt rétt á frekari launum á uppsagnarfresti. Hann hafi engu að síður umfram skyldu greitt henni laun á uppsagnarfresti fyrir júnímánuð en uppgjör á orlofi hafi farið fram í lok júlímánaðar.
  21. Í málinu liggja fyrir fjórir launaseðlar kæranda frá aprílmánuði og fimm launaseðlar fyrrum samstarfsmanns hennar frá sama mánuði. Af launaseðlum þessum verður ekki betur séð en að kærandi hafi, eins og samstarfsmaður hennar, fengið greidd laun á uppsagnarfresti í þá þrjá mánuði sem hún átti rétt á í samræmi við gildandi kjara­samninga. Eru launaseðlar þeirra frá aprílmánuði til og með júlímánuði sambærilegir að þessu leyti fyrir utan að samstarfsmaður hennar er með hærra starfshlutfall í júní og júlí en hann hafði í apríl og maí auk þess sem hann fékk greidda kjarasamnings­bundna annaruppbót en kærandi ekki. Eins og áður segir var kæranda greidd annar­uppbót ásamt dráttarvöxtum eftir að hún kærði málið til kærunefndar.
  22. Í málinu liggur fyrir að kærandi og samstarfsmaður hennar höfnuðu að fella orlofstöku inn í uppsagnarfrest þegar kærði hugðist gera það án þess að fá fyrirfram samþykki þeirra fyrir því. Þá afþökkuðu þau bæði að taka launalaust leyfi á tímabilinu 9. júní til og með 31. júlí 2021 og fá uppgert orlof við lok uppsagnarfrests. Kærandi heldur því fram að hún hafi á fundi sínum með skólastjóra hinn 4. júní, þar sem þær ræddu samspil uppsagnar, uppsagnarfrests og orlofsréttar, í tilefni af tölvupósti skólastjóra frá 31. maí 2021, óskað eftir leyfi dagana 7. og 8. júní 2021, tvo síðustu dagana fyrir sumarleyfi sem voru starfsdagar í grunnskólanum. Hafi skólastjóri fallist á það. Ljóst er að aðilum ber ekki saman um hvað kom fram á þessum fundi 4. júní 2021 en engin gögn liggja fyrir um það. Í ljósi atvika málsins, einkum þess að það er ágreiningslaust að kærandi hafði hafnað að láta uppsagnarfrest falla inn í sumarorlofstímann og taka sér launalaust leyfi, stendur það kærða nær að tryggja sönnur um að kæranda hafi snúist hugur og óskað eftir að taka orlof á uppsagnarfresti. Verður hann því að bera hallann af því að ekki er frekar upplýst hvað fram kom á þessum fundi.
  23. Í málinu liggur fyrir að búið var að leggja niður tónlistardeildina við grunnskóla kærða sem kærandi og samstarfsmaður hennar störfuðu við eftir að kennslu lauk í byrjun júnímánaðar. Jafnvel þótt kærandi hafi verið fjarverandi áðurnefnda tvo starfsdaga verður ekki annað séð en hún hafi að öðru leyti getað sinnt sams konar vinnu á upp­sagnarfresti á sama hátt og samstarfsmaður hennar eins og hún hafði gert undan­farin ár. Ljóst er að engin viðveruskylda var fyrir hendi í júní og júlí en þess í stað var gert ráð fyrir sí- og endurmenntun. Liggur fyrir í gögnum málsins að kærandi sinnti slíkri símenntun. Verður því ekki betur séð en að kærandi hafi sinnt vinnuskyldu sinni með hefðbundnum hætti fyrir utan þá tvo daga sem hún var í leyfi. Verður kærði að bera hallann af því að honum hafi ekki tekist að sýna fram á annað. Að auki verður ekki séð af þeim gögnum sem liggja fyrir í málinu að gerðar hafa verið sérstakar kröfur til samstarfsmanns hennar að þessu leyti. Samkvæmt því verður að telja að kærandi hafi átt rétt á uppgjöri á áunnu orlofi í tengslum við uppsögn hennar hjá kærða með sambærilegum hætti og samstarfsmaður hennar.
  24. Að öllu þessu virtu verður ekki séð að hlutlæg og málefnaleg sjónarmið hafi legið til grundvallar ákvörðun kærða um að gera ekki upp áunnið orlof við starfslok kæranda. Samkvæmt því verður að telja að kærða hafi ekki tekist að sýna fram á að aðrar ástæður en kyn og þjóðernisuppruni hafi legið til grundvallar fyrrnefndri ákvörðun hans, sbr. 2. mgr. 18. gr. og 4. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020 og 15. gr. laga nr. 86/2018.
  25. Með vísan til framangreinds verður ekki talið að sýnt hafi verið fram á að aðrar ástæður en kyn og þjóðernisuppruni hafi legið til grundvallar ákvörðun kærða um að gera ekki upp áunnið orlof við uppsögn kæranda. Samkvæmt því verður fallist á að kærði hafi gerst brotlegur við 1. mgr. 18. gr. og 1. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020 og 1. mgr. 8. gr. og 1. mgr. 9. gr. laga nr. 86/2018. Í samræmi við það hefur kærði gerst sekur um fjöl­þætta mismunun, sbr. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 150/2020 og 1. mgr. 7. gr. laga nr. 86/2018.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð

Kærði, Svalbarðsstrandarhreppur, braut gegn lögum nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, og lögum nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði, með ákvörðun um að gera ekki upp áunnið orlof kæranda, A, við uppsögn.

 

 

Kristín Benediktsdóttir

 

Andri Árnason

 

Ari Karlsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum