Hoppa yfir valmynd

Fyrirhuguð ákvörðun Fiskistofu um sviptingu veiðileyfis.

Stjórnsýslukæra

Ráðuneytið vísar til stjórnsýslukæru frá [A ehf.], [B lögmanni] f.h. [C ehf.], og [D ehf.], dags. 12. janúar 2021, sem barst ráðuneytinu með tölvubréfi sama dag, þar sem kemur fram að kærð sé fyrirhuguð ákvörðun Fiskistofu um að svipta skipið [E], leyfi til veiða í atvinnuskyni.

Í fyrirliggjandi erindi kemur ekki fram á hvaða lagaákvæði það sé byggt en ætla verður að það sé byggt á 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.     

 

Kröfur kæranda

Kærandi mótmælir fyrirhugaðri ákvörðun Fiskistofu um að svipta skipið [E] leyfi til veiða í atvinnuskyni sem boðuð var félaginu með bréfi Fiskistofu, dags. 22. desember 2020. Með umræddu bréfi var kæranda tilkynnt um að lagt væri á félagið gjald vegna ólögmæts sjávarafla að fjárhæð kr. 6.325.721. Einnig kom þar fram að hafi greiðsla ekki borist innan 30 daga skuli Fiskistofa svipta viðkomandi skip veiðileyfi þar til skuldin sé greidd eða um hana hafi verið samið, skv. 3. mgr. 10. gr. laga nr. 37/1992, um álagningu sérstaks gjalds vegna ólögmæts sjávarafla, með síðari breytingum, sbr. 4. gr. laga nr. 146/2003.        

 

Málsatvik

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 6. nóvember 2020, var [C ehf.], tilkynnt um umframafla vegna bátsins [E] en með bréfinu var kæranda veittur kostur á að andmæla álagningunni. Þar kom fram að síðast hafi verið landað 6. maí 2020 og að umframaflinn byggist á upplýsingum úr aflaskráningarkerfi Fiskistofu. Umframafli sæti álagningu gjalds samkvæmt ákvæðum laga nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla. Það skuli nema andvirði gjaldskylds afla. Samkvæmt upplýsingum Fiskistofu nemi andvirði ofangreinds umframafla á fiskveiðiárinu alls kr. 6.325.721. Verðmæti aflans byggi á upplýsingum úr vigtarskýrslum. Þá kom þar fram að ef kærandi telji sig hafa leiðréttingar fram að færa varðandi magntölur, verð eða annað, þá verði rökstuddar skriflegar athugasemdir þar að lútandi að berast Fiskistofu eigi síðar en 18. nóvember 2020. Í framhaldi af því muni Fiskistofa, ef tilefni sé til, senda kæranda tilkynningu um formlega álagningu gjalds samkvæmt framansögðu.

Engar athugasemdir bárust Fiskistofu vegna framangreinds bréfs.   

Með bréfi, dags. 22. desember 2020, tilkynnti Fiskistofa [C ehf.] um álagningu sérstaks gjalds vegna ólögmæts sjávarafla á fiskveiðiárinu 1. september 2019 til 31. ágúst 2020. Þar segir að vísað sé til yfirlits um umframafla vegna bátsins [E] á fiskveiðiárinu 2019/2020 sem [C ehf.] hafi fengið sent 6. nóvember 2020. Á yfirlitinu komi fram afli umfram veiðiheimildir skipsins og verðmæti hans og hafi [C ehf.] verið veittur frestur til að gera athugasemdir ef einhverjar væru. Tilgreindur umframafli teljist vera ólögmætur sjávarafli, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr., 1. mgr. 2. gr. og 3. gr. sömu laga beri útgerð fiskiskipsins að greiða gjald fyrir umframaflann er nemi andvirði hans. Með hliðsjón af framansögðu hafi Fiskistofa lagt gjald á [C ehf.] vegna þessa ólögmæta sjávarafla að fjárhæð kr. 6.325.721. Einnig segir þar að Fiskistofa fari með innheimtu gjaldsins. Gjaldið falli í gjalddaga við álagningu og beri dráttarvexti samkvæmt 10. gr. laga nr. 37/1992, og samkvæmt ákvæðum laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá því 30 dagar séu liðnir frá gjalddaga þess hafi það ekki verið greitt fyrir þann tíma. Álagning gjaldsins sé aðfararhæf stjórnvaldsákvörðun og geti Fiskistofa krafist fullnustu greiðslu með fjárnámi að 30 dögum liðnum frá dagsetningu álagningar. Athygli sé vakin á því að hafi greiðsla ekki borist innan 30 daga skuli Fiskistofa svipta viðkomandi skip veiðileyfi þar til skuldin sé greidd eða um hana hafi verið samið, sbr. 3. mgr. 10. gr. laga nr. 37/1992, sbr. 4. gr. laga nr. 146/2003. Þá segir þar að ef [C ehf.] telji sig hafa athugasemdir fram að færa, sem áhrif geti haft á niðurstöðu álagningarinnar, þá hafi félagið tveggja vikna frest til að kæra hana til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis frá því félaginu barst tilkynningin. Kæra skuli vera skrifleg og studd nauðsynlegum gögnum.

 

 

Málsástæður í stjórnsýslukæru og málsmeðferð

Með bréfi, dags. 12. janúar 2021, sem barst ráðuneytinu með tölvubréfi sama dag, tilkynntu [A ehf.], [B, lögmaður] f.h. [C ehf.], og [D ehf.], atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu að kærð væri til ráðuneytisins fyrirhuguð ákvörðun Fiskistofu um að svipta skipið [E] leyfi til veiða í atvinnuskyni.

Í stjórnsýslukærunni segir m.a. að aðild [D ehf.] sé tilkomin þar sem félagið sé í dag eigandi bátsins [E] og þolandi fyrirhugaðrar ákvörðunar um veiðileyfissviptingu. [C ehf.] hafi verið tilkynnt um umframafla með bréfi, dags. 6. nóvember 2020, en þar komi fram að síðast hafi verið landað 6. maí 2020. Báturinn [E] hafi hins vegar verið seldur [D ehf.] með kaupsamningi, dags. 20. september 2020, eða tæpum 2 mánuðum áður. [D ehf.] hafi engum afla landað á bátnum. Sé þannig óumdeilt að [D ehf.] hafi keypt bátinn áður en framangreind ákvörðun hafi verið tilkynnt og hafi ekki stundað þær veiðar sem viðurlög séu lögð við. Óumdeilt sé að [D ehf.], eigandi bátsins og þolandi fyrirhugaðrar veiðileyfissviptingar hafi ekki verið gerð að sök háttsemi sem eigi undir lög nr. 37/1992. Kærendur byggi á að veiðileyfissvipting samkvæmt 3. mgr. 10. gr. laga nr. 37/1992 eigi við um útgerð sem veiði meira en heimilt sé og greiði ekki það gjald sem lagt sé á hana. Sé veiðileyfissvipting því í eðli sínu refsikennd viðurlög. Um refsikennd viðurlög/stjórnsýsluviðurlög gildi sömu grundvallarsjónarmið og um aðrar refsingar. Byggt sé á því að ákvæði 3. mgr. 10. gr. laganna verði ekki beitt á [D ehf.] við þær aðstæður sem séu uppi í málinu. Að auki sé ákvæðið óskýrt, ósanngjarnt og túlka verði það í hag þolanda viðurlaganna. Í fyrsta lagi fari ákvæðið gegn banni stjórnarskrár við refsingu án lagaheimildar sem og grundvallar mannréttindum. Í 69. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 segi að engum verði gert að sæta refsingu nema hann hafi gerst sekur um háttsemi sem var refsiverð samkvæmt lögum. Feli beiting ákvæðisins með þeim hætti sem til standi, í sér að refsikenndum viðurlögum sé beitt gegn [D ehf.] án þess að félagið hafi sýnt af sér nokkra háttsemi sem uppfylli skilyrði refsingar. Í öðru lagi sé byggt á því að ekki megi túlka 3. mgr. 10. gr. laga nr. 37/1992 með víðtækari hætti en svo að ákvæðið eigi aðeins við eigendaskipti eftir að ákvörðun sé tilkynnt. Í 2. gr. laganna segi m.a. að gjald skv. 1. gr. skuli að jafnaði lagt á þann sem hefur gert út skip eða bát sem veitt hefur gjaldskyldan afla með þeirri einni undantekningu að heimilt sé að ákvarða álagningu á viðtakendur afla hafi þeir vitað eða mátt vita að um ólögmætan sjávarafla var að ræða. Í greinargerð að lögum nr. 146/2003 um breytingu á lögum nr. 37/1992 þar sem breytt var 3. mgr. 10. gr. laganna segi: "Ástæða þess að þetta er lagt til er sú, að nokkur dæmi eru þess að útgerðaraðilar hafi haldið áfram útgerð skips, oft undir nýju nafni og kennitölu, eftir að reyndar hafa verið árangurslausar innheimtuaðgerðir hjá þeim." Verði að túlka orðalag ákvæðisins sem er svohljóðandi: "Gildir þetta einnig þótt eigendaskipti hafi orðið á skipi" með vísan til heildartexta ákvæðisins, heildartexta laganna og tilgang ákvæðisins, sem svo að það nái aðeins til eigendaskipta sem verði eftir álagningu gjaldanna enda komi ekki til beitingar nokkurra viðurlaga fyrir þann tíma. Sé þannig byggt á því að lögin og greinargerð með þeim gefi í engu til kynna að löggjafinn hafi hugsað sér hin refsikenndu viðurlög sem hlutlæga ábyrgð á greiðslu gjalda, heldur aðeins til að koma í veg fyrir að útgerðir komi sér hjá ábyrgð með eigendaskiptum eftir að gjaldið sé lagt á. Sjáist það m.a. í því að til að ábyrgð sé lögð á móttakanda afla sé vitund hans um refsiverðan verknað skilyrði. Sé einnig bent á að ekki sé um ákveðin föst gjöld að ræða sem leita megi upplýsinga um fyrir kaup á bátnum heldur séu þetta refsikennd viðurlög sem byggist einvörðungu á hegðun eiganda báts hvert sinn. Sé þannig uppi ákveðinn ómöguleiki að kanna stöðu, gera upp eða semja um uppgjör slíkra viðurlaga við kaup á bát enda sé þá gjaldstofninn ekki til við sölu skips eða báts. Auki það enn frekar á ósanngirni þess að beita ákvæðinu með þeim hætti sem Fiskistofa hyggist gera. Missi framangreind beiting 3. mgr. 10. gr. laganna algjörlega marks og sé hún að engu í samræmi við tilgang laganna. Þá sé bent á að ekki sé mótmælt ákvörðun um álagningu gjalds vegna umframafla hvað [C ehf.] varði. Með vísan til ofangreinds sé fyrirhugaðri ákvörðun um beitingu sviptingar veiðileyfis mótmælt. Auk þess séu gerðar athugsemdir við að ákvörðun sem þessi sé send í almennum pósti en ekki ábyrgðarpósti.

Stjórnsýslukærunni fylgdu tiltekin gögn um málið, sem kærandi vísaði til í framangreindu bréfi, m.a. ljósrit af bréfum Fiskistofu, dags. 6. og 22. desember 2020 og kaupsamningi/afsali, dags. 20. september 2020.         

 

Rökstuðningur

Stjórnsýslukæra í máli þessu er byggð á 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða en þar kemur fram að ákvarðanir Fiskistofu um úthlutun aflaheimilda samkvæmt greininni sé heimilt að kæra til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Að mati ráðuneytisins verður að skýra ákvæðið með hliðsjón af ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem einnig gilda um meðferð þessa máls að því leyti sem ekki eru sérstök ákvæði um það í framangreindum lögum nr. 116/2006. Kæruheimild samkvæmt ákvæðinu byggir því að mati ráðuneytisins á því með sama hætti og gert er ráð fyrir í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að kærðar séu tilteknar ákvarðanir sem teknar hafa verið um úthlutun aflaheimilda í byggðarlögum til einstakra fiskiskipa, til þess að fá þær felldar úr gildi eða þeim breytt. Einnig byggir kæruheimild samkvæmt ákvæðinu á því að kærðar séu tilteknar ákvarðanir sem teknar hafa verið af stjórnvöldum, þ.e. stjórnvaldsákvarðanir samkvæmt 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en þar segir m.a.:

 

"Lögin gilda þegar stjórnvöld, þar á meðal stjórnsýslunefndir, taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna. Þau gilda þó ekki um samningu reglugerða né annarra stjórnvaldsfyrirmæla."   

Í máli þessu liggur fyrir að kærandi gerir ekki efnislegar athugasemdir við ákvörðun Fiskistofu, dags. 22. desember 2020, um álagningu sérstaks gjalds vegna ólögmæts sjávarafla en heldur því fram að innheimtu gjaldsins og viðurlögum sem áformað sé að beita sé gjaldið ekki greitt innan lögboðins tíma verði beint að röngum aðila, þ.e. [D ehf.]

Kæran beinist þannig að fyrirhugaðri ákvörðun Fiskistofu um að svipta skipið [E] leyfi til veiða í atvinnuskyni ef gjaldið verður ekki greitt eða um það samið 30 dögum eftir álagningu þess sem tilkynnt var [C ehf.] bréfi, dags. 22. desember 2020.

Engin stjórnvaldsákvörðun hefur verið tekin af Fiskistofu um að svipta skipið [E] leyfi til veiða í atvinnuskyni en samkvæmt því liggur ekki fyrir ákvörðun í málinu um kröfur kæranda.

Þegar litið er til framanritaðs verður að telja að kröfur kæranda í máli þessu beinist ekki að tiltekinni stjórnvaldsákvörðun í skilningi framangreinds ákvæðis 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Þá er það mat ráðuneytisins að aðrar málsástæður sem koma fram í stjórnsýslukærunni geti ekki haft áhrif á úrlausn málsins.

Með vísan til framanritaðs og þegar af þeirri ástæðu sem þar kemur fram er það niðurstaða ráðuneytisins að vísa beri frá stjórnsýslukæru þessari.

 

 

Úrskurður

Stjórnsýslukæru [C ehf.] og [D ehf.] í máli þessu er vísað frá.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira