Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 332/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 332/2017

Fimmtudaginn 30. nóvember 2017

AgegnÍbúðalánasjóði

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 11. september 2017, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála, ákvörðun Íbúðalánasjóðs, dags. 11. ágúst 2017, um synjun á umsókn hennar um afskrift á skuld.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi sótti um afskrift á skuld við Íbúðalánasjóð með umsókn, dags. 9. ágúst 2017, á grundvelli 6. gr. reglugerðar nr. 359/2010 um meðferð krafna Íbúðalánasjóðs sem glatað hafa veðtryggingu. Umsókn kæranda var synjað með ákvörðun Íbúðalánasjóðs, dags. 11. ágúst 2017, á þeirri forsendu að mánaðarlegar tekjur hennar væru yfir 12,5% af fjárhæð þeirrar kröfu sem glatað hafði veðtryggingu.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 11. september 2017. Með bréfi, dags. 13. september 2017, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Íbúðalánasjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð Íbúðalánasjóðs barst með bréfi, dags. 20. september 2017, og var send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 21. september 2017. Athugasemdir bárust frá kæranda 2. október 2017 og voru þær sendar Íbúðalánasjóði til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 3. október 2017. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá aðstæðum sínum og krefst þess að skuld hennar við Íbúðalánasjóð verði felld niður. Kærandi tekur fram að þrátt fyrir að tekjur hennar séu hærri en 12,5% af fjárhæð þeirrar kröfu sem glatað hafi veðtryggingu þá dugi þær varla til að greiðslu mánaðarlegrar framfærslu. Kærandi kveðst þurfa á öllum sínum tekjum að halda og sjái því ekki fram á að geta greitt skuld sína við Íbúðalánasjóð á komandi árum.

III. Sjónarmið Íbúðalánasjóðs

Í greinargerð Íbúðalánasjóðs kemur fram að kærandi hafi sótt um að skuld hennar við sjóðinn, sem myndast hafi í kjölfar nauðungarsölu á fasteign hennar, yrði afskrifuð á grundvelli 6. gr. reglugerðar nr. 359/2010 um meðferð krafna Íbúðalánasjóðs sem glatað hafa veðtryggingu. Stjórn Íbúðalánasjóðs hafi sett reglur um meðferð greiðsluerfiðleikaúrræða, þar með talið reglur um niðurfellingu krafna er glatað hafi veðtryggingu sinni, á grundvelli reglugerðar nr. 359/2010. Samkvæmt 11. gr. reglnanna sé niðurfellingu synjað ef eignir umfram skuldir samkvæmt skattframtali séu meiri en sem nemi helmingi eða meira af heildarkröfu sjóðsins og ef mánaðarlegar samanlagðar launatekjur skuldara nemi 25% eða meira af þeim hluta kröfu sjóðsins sem kæmi til greiðslu verði beiðni um niðurfellingu synjað. Samkvæmt 5. gr. reglugerðarinnar geti skuldari kröfu sem glatað hefur veðtryggingu hvenær sem er greitt inn á kröfuna og Íbúðalánasjóði sé heimilt að koma til móts við skuldara við hverja greiðslu með því að fella niður af kröfunni til viðbótar sömu fjárhæð og greidd hafi verið. Með því sé krafan að fullu greidd þegar skuldari hafi greitt helming hennar.

Íbúðalánasjóður tekur fram að heildarfjárhæð þeirrar kröfu á hendur kæranda sem glatað hafi veðtryggingu sinni næmi 2.157.095 kr. Ef kærandi ætlaði að greiða inn á kröfuna í samræmi við ákvæði 5. gr. reglugerðar nr. 359/2010 þá væri krafan að fullu greidd þegar búið væri að greiða helming hennar eða 1.078.548 kr. Heildar mánaðarlegar tekjur kæranda væru 361.244 kr., eða 33,49% af þeim hluta kröfu sjóðsins sem kæmi til greiðslu yrði beiðni um niðurfellingu synjað. Þegar greiðsluaðlögunarnefnd sjóðsins hafi tekið ákvörðun í málinu hafi verið ljóst að tekjur kæranda væru yfir framangreindum viðmiðunarmörkum og því hafi kærandi ekki uppfyllt skilyrði fyrir niðurfellingu. Það hafi verið mat Íbúðalánasjóðs að miða bæri mánaðarlegar tekjur kæranda við meðaltal heildarlauna samkvæmt skattframtali ársins 2017 þar sem kærandi hafi eftir það annars vegar verið í tímabundnu fæðingarorlofi og hins vegar einungis að reikna sér lágmarksfjárhæð vegna reiknaðs endurgjalds. Það hafi því verið talið að tekjur síðastliðins árs samkvæmt skattskýrslu gæfu gleggri mynd af raunverulegum tekjum kæranda. Samkvæmt greiðsluseðli frá Fæðingarorlofssjóði hafi fjárhæð fæðingarorlofs numið 151.289 kr. í júní 2017 og 175.177 kr. í júlí 2017. Reiknað endurgjald kæranda fyrir maí 2017 hafi verið 172.000 kr. en sú fjárhæð sé undir lágmarkslaunum á almennum vinnumarkaði og lægstu viðmiðunarfjárhæðum samkvæmt reglum um reiknað endurgjald. Sá sem starfi við eigin atvinnurekstur eigi að reikna sér endurgjald (laun) fyrir þá vinnu og það eigi ekki að vera lægra en launatekjur manns hefðu orðið ef hann hefði unnið fyrir ótengdan eða óskyldan aðila. Þar sem fjárhæð reiknaðs endurgjalds sé lágmarksfjárhæð bendi flest til að reiknað endurgjald kæranda samkvæmt fyrirliggjandi skilagrein endurspegli ekki raunverulegar tekjur hennar af eigin atvinnustarfsemi. Heildartekjur kæranda af eigin atvinnurekstri á árinu 2016 hafi verið að meðaltali 331.775 kr. á mánuði.

IV. Niðurstaða

Í máli þessu er ágreiningur um synjun Íbúðalánasjóðs á umsókn kæranda um afskrift á skuld við sjóðinn. Í bréfi Íbúðalánasjóðs, dags. 23. júlí 2013, kemur fram að mismunur á lýstum kröfum sjóðsins við nauðungarsölu, því sem sjóðurinn greiddi öðrum veðhöfum og sölulaunum í ríkissjóð annars vegar og verðmati fasteignar kæranda og fyrrum sambýlismanns hennar hins vegar, hafi numið 4.814.191 kr. Fjárhæð kröfu er glatað hafi veðtryggingu sinni skiptist jafnt á milli gerðarþola ef þeir séu fleiri en einn og því sé skuld kæranda við Íbúðalánasjóð 2.407.095 kr.

Um afskriftir veðkrafna Íbúðalánasjóðs fer eftir 47. gr. laga nr. 44/1998 um húsnæðismál. Samkvæmt 1. mgr. 47. gr. laganna er stjórn Íbúðalánasjóðs heimilt að afskrifa útistandandi veðkröfur sjóðsins sem glatað hafa veðtryggingu við nauðungarsölu íbúðar. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 359/2010 um meðferð krafna Íbúðalánasjóðs sem glatað hafa veðtryggingu er stjórn Íbúðalánasjóðs heimilt að afskrifa slíkar kröfur að liðnum þremur árum frá sölu fasteignar skuldara. Í 5. gr. reglugerðar nr. 359/2010 kemur fram að skuldari geti hvenær sem er greitt inn á kröfu sem glatað hefur veðtryggingu og Íbúðalánasjóði sé heimilt að koma til móts við skuldara við hverja greiðslu með því að fella niður af kröfunni til viðbótar sömu fjárhæð og greidd hafi verið. Með því sé krafa að fullu greidd þegar skuldari hafi greitt helming hennar.

Í reglum stjórnar Íbúðalánasjóðs um meðferð greiðsluerfiðleikaúrræða, sem samþykktar voru á fundi stjórnar þann 16. október 2015 og breytt á fundi stjórnar þann 1. desember 2016, er meðal annars kveðið á um skilyrði fyrir niðurfellingu krafna er glatað hafa veðtryggingu sinni. Þar segir í grein 11.1 að ef eignir umfram skuldir samkvæmt skattskýrslu nemi helmingi eða meira af kröfu sjóðsins verði beiðni um niðurfellingu synjað. Þar segir einnig að ef mánaðarlegar samanlagðar launatekjur skuldara kröfunnar nemi 25% eða meira af þeim hluta kröfu sjóðsins sem kæmi til greiðslu verði beiðni um niðurfellingu synjað. Í grein 11.2 kemur fram að með umsókn skuli fylgja skattskýrslur síðustu þriggja ára og afrit af launaseðli síðustu þriggja mánaða. Heimilt sé að kalla eftir frekari gögnum ef ástæða þyki til. Umsóknin fari til vinnslu hjá starfsmanni á viðskiptasviði sem stilli upp erindi og leggi fyrir greiðsluerfiðleikanefnd á þar til gerðu eyðublaði með rökstuddri tillögu. Umsókn kæranda var synjað á þeirri forsendu að tekjur kæranda væru yfir þeim viðmiðunarmörkum sem sjóðurinn hafi sett í framangreindum reglum.

Líkt og að framan greinir er stjórn Íbúðalánasjóðs heimilt að afskrifa útistandandi veðkröfur sjóðsins sem glatað hafa veðtryggingu við nauðungarsölu íbúðar, sbr. 1. mgr. 47. gr. laga nr. 44/1998. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 44/1998 segir svo um ákvæðið:

„Greinin er nýmæli og felur í sér heimild til handa Íbúðalánasjóði að afskrifa útistandandi veðkröfur sjóðsins, sem glatað hafa veðtryggingu við nauðungarsölu íbúðar. Heimild þessi er til komin vegna athugasemda Ríkisendurskoðunar í skýrslu stofnunarinnar frá október 1996, bls. 141, við þá framkvæmd Húsnæðisstofnunar að afskrifa þær kröfur sem voru fimm ára og eldri. Með þessu er jafnframt stefnt að markvissari og samræmdari framkvæmd. Gert er ráð fyrir setningu reglugerðar um nánari útfærslu þessa ákvæðis.“

Reglugerð nr. 359/2010 er sett með stoð í 47. gr. laga nr. 44/1998 um húsnæðismál en þar segir að ráðherra setji, að fenginni umsögn stjórnar Íbúðalánasjóðs, reglugerð um nánari framkvæmd innheimtu krafna samkvæmt 1. mgr. og um skilyrði fyrir afskriftum samkvæmt þessari grein. Í reglugerðinni er einungis kveðið á um eitt skilyrði fyrir afskrift á skuld en það er að liðin séu þrjú ár frá sölu fasteignar skuldara, sbr. 1. mgr. 6. gr.

Úrskurðarnefnd velferðarmála fær hvorki ráðið að í lögum nr. 44/1998 né reglugerð nr. 359/2010 felist heimild fyrir stjórn Íbúðalánasjóðs til að setja viðbótarskilyrði fyrir afskrift á skuld, svo sem hefur verið gert með þeim reglum sem vísað er til að framan. Að mati úrskurðarnefndarinnar hefði þurft að veita stjórn Íbúðalánasjóðs heimild til þess með skýrum og ótvíræðum hætti í lögunum sjálfum eða að tiltaka skilyrðin í reglugerðinni sjálfri. Að því virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að grein 11.1 í reglum stjórnar Íbúðalánasjóðs um meðferð greiðsluerfiðleikaúrræða eigi sér ekki næga stoð í 47. gr. laga nr. 44/1998, sbr. reglugerð nr. 359/2010.

Í máli kæranda verður því að fara fram efnislegt mat á grundvelli 47. gr. laga nr. 44/1998 á því hvort efni standi til afskrifta. Ekki er fullnægjandi að vísa til staðlaðrar reglu sem hefur ekki skýra stoð.

Ákvörðun Íbúðalánasjóðs um synjun á umsókn kæranda um afskrift á skuld, sbr. 47. gr. laganna, grundvallaðist eingöngu á umræddri grein 11.1 í reglum stjórnar Íbúðalánasjóðs. Því verður ekki hjá því komist að fella ákvörðunina úr gildi og vísa málinu til sjóðsins til nýrrar meðferðar.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Synjun Íbúðalánasjóðs, dags. 11. ágúst 2017, á umsókn A, um afskrift á skuld er felld úr gildi og málinu vísað til sjóðsins til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira