Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 524/2020 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 524/2020

Föstudaginn 4. desember 2020

 

 

A og B

 

gegn

 

umboðsmanni skuldara

 

 

ÚRSKURÐUR

 

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Þann 19. október 2020 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra A, og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara, dags. 5. október 2020, þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.

 

Með bréfi, dags. 23. október 2020, óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi, dags. 27. október 2020. Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi, dags. 28. október 2020, og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar athugasemdir bárust frá kærendum.

 

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærendur eru fædd árin X og X. Þau eiga X barn og eru búsett í eigin húsnæði að C. Kærandi, A, fær endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun og kærandi, B, starfar hjá D.

 

Heildarskuldir kærenda samkvæmt greiðsluáætlun umboðsmanns skuldara eru 49.221.145 krónur.

 

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara þann 9. desember 2019 var kærendum veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar og hófst þá tímabundin frestun greiðslna, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.), eða svokallað greiðsluskjól. Í framhaldinu var kærendum skipaður umsjónarmaður með greiðsluaðlögunarumleitunum. Í ákvörðun umboðsmanns og sérstöku fylgiskjali með henni var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. lge.

 

Með ákvörðun 15. maí 2020 felldi umboðsmaður skuldara niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda með vísan til 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Ákvörðun umboðsmanns skuldara var kærð þann 3. júní 2020 til úrskurðarnefndar velferðarmála. Með úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála var ákvörðun Embættis umboðsmanns skuldara, dags. 15. maí  2020, felld úr gildi með úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála 18. ágúst 2020 og málinu vísað aftur til meðferðar embættisins.

 

Mál kærenda var tekið aftur til meðferðar hjá umboðsmanni skuldara og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra þann 24. ágúst 2020. Alls hafa tveir umsjónarmenn komið að máli kærenda.

 

Í bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 1. september 2020 tilkynnti umsjónarmaður að hann teldi að fram væru komnar upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil á grundvelli lge. þar sem kærendur hefðu ekki farið eftir þeirri skyldu a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge., þ.e. að leggja til hliðar af tekjum sínum þann hluta sem væri umfram það sem þau þyrftu til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Þá væri það jafnframt mat umsjónarmanns að hafi kærendur ráðstafað fjármunum sínum til greiðslu persónulegra skulda ætti sú ráðstöfun undir c-lið 1. mgr. 12. gr. laganna, þ.e. að þau hafi látið af hendi verðmæti sem gagnast gætu lánardrottnum sem greiðsla.

 

Með bréfi umboðsmanns skuldara til kærenda 8. september 2020 var þeim gefinn kostur á að tjá sig um mat umsjónarmanns innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild þeirra til greiðsluaðlögunarumleitana. Kærendur brugðust ekki við bréfinu.

 

Með ákvörðun 5. október 2020 felldi umboðsmaður skuldara niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda með vísan til 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kærenda

 

Kærendur gera ekki sérstakar kröfur í málinu en skilja verður kæru þeirra svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

 

Í kæru kemur fram að vegna veikinda hafi kærendur ekki getað sinnt málinu hjá umboðsmanni skuldara og átt erfitt með að finna nauðsynleg gögn vegna veikindanna. Það væri slæmt fyrir kærendur að missa greiðsluskjólið þar sem kærandi, A, hafi ekki getað fengið vinnu og hann þurfi tíma til að jafna sig af veikindum sínum. Þá hafi kærendur talið sér heimilt að greiða niður persónulegar skuldir og skuldir við fyrirtæki eftir að umboðsmaður skuldara felldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra þann 15. maí 2020. Fram kemur að kærandi, A, hafi lent í vinnuslysi árið X og hafi heilsa hans eftir það ekki verið góð. Kærendur telji að hægt sé að laga stöðuna á næstu mánuðum þegar kærandi, A, verði vinnufær. Umboðsmaður skuldara hafi ekki vitað af þeim veikindum sem kærandi, A, hafi átt við að stríða að undanförnu. Kærandi, A, kveðst ekki hafa haft orku til að senda tölvupóst eða upplýsingar um stöðuna hjá kærendum.

 

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

 

Í hinni kærðu ákvörðun segir að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna umboðsmanni skuldara um það sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun.

Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara á meðan á greiðsluaðlögunarumleitunum standi. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.

 

Samkvæmt útreikningum embættisins, sbr. bréf til kærenda, dags. 8. september 2020, hafi verið áætlað að kærendur hafi átt að geta lagt til hliðar 2.021.922 krónur á tímabili greiðslufrestunar. Kærendur kváðust hafa staðið straum af auknum kostnaði á tímabilinu vegna viðhalds á fasteign þeirra, samtals að fjárhæð 31.532 krónur. Kærendur hafi komið því á framfæri við skipaðan umsjónarmann að sá sparnaður, sem lá fyrir þegar greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður þann 15. júní 2020, hefði verið nýttur til að greiða persónulegar skuldir, auk þess sem greiddir hefðu verið reikningar frá Orkuveitunni. Engin gögn liggi fyrir þessu til staðfestingar.

 

Skýringar kærenda hafi aðeins veitt upplýsingar um lítinn hluta þess fjár sem þau hefðu átt að leggja til hliðar samkvæmt fyrirmælum a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. eða því sem numið hafi 31.532 krónum, þ.e. um 1,6% af áætlaðri upphæð sparnaðar. Verði því að telja að kærendur hafi brotið gegn skyldum sínum samkvæmt ákvæðinu með því að leggja ekki til hliðar þá fjármuni sem til hafi fallið umfram framfærslukostnað á tímabili frestunar greiðslna.

 

Umboðsmaður skuldara bendi á að öllum umsækjendum um greiðsluaðlögun séu kynntar skyldur skuldara samkvæmt 12. gr. lge. áður en umsókn er samþykkt. Kærendur hafi fengið ítarlegar upplýsingar sendar með tölvupósti þann 4. desember 2019 sem þau hafi svarað þann 6. desember 2019 þar sem þau hafi staðfest að þau hafi lesið póstinn yfir og samþykktu það sem þar kom fram. Þá hafi skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. lge. fylgt með ákvörðun um samþykki umsóknar um greiðsluaðlögun, dags. 9. desember 2019, sem barst kærendum í formi tölvupósts. Umræddar upplýsingar liggi einnig fyrir á heimasíðu umboðsmanns skuldara. Hafi kærendum því vel mátt vera ljóst að þau skyldu halda til haga þeim fjármunum sem þau hafi átt aflögu í lok hvers mánaðar til greiðslu af skuldum sínum þegar að því kæmi að semja við kröfuhafa.

 

Í greinargerð umboðsmanns skuldara kemur fram að kærendum hafi verið veitt færi á að gera athugasemdir og leggja fram gögn í málinu vegna þeirra atriða sem hafi getað þótt leiða til niðurfellingar heimildar til greiðsluaðlögunarumleitana. Engin viðbrögð hafi borist frá kærendum. Í hinni kærðu ákvörðun sé sú niðurstaða rökstudd og með því hafi verið tekin afstaða til framkominna upplýsinga og gagna. Í kæru sé engu bætt við áður framkomnar upplýsingar. Embætti umboðsmanns skuldara geti af þeim sökum ekki tekið frekari afstöðu til kæruefnisins og fari fram á, með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar, að hún verði staðfest.

 

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

 

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

 

Eins og fram er komið tilkynnti umsjónarmaður með bréfi til umboðsmanns skuldara 1. september 2020 að fram væru komnar upplýsingar sem bentu til þess að kærendur hefðu brugðist skyldum sínum samkvæmt a- og c-liðum 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem kærendur hefðu ekki lagt fyrir í samræmi við skyldur sínar og hefðu ráðstafað fjármunum til greiðslu persónulegra skulda. Í framhaldi af þessu aflaði umboðsmaður skuldara afstöðu kærenda til upplýsinga um skort á áætluðum sparnaði, sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. Með hinni kærðu ákvörðun felldi umboðsmaður skuldara í kjölfarið greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra niður með hinni kærðu ákvörðun.

 

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Kærendum bar að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna strax eftir að umsókn þeirra var samþykkt hjá umboðsmanni skuldara og á meðan frestun greiðslna stóð yfir. Samkvæmt gögnum málsins voru kærendur upplýstir um skyldur sínar samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

 

Að mati umboðsmanns skuldara hefðu kærendur átt að leggja til hliðar 2.021.922  krónur frá því að umsókn þeirra um greiðsluaðlögun var samþykkt, eða allt frá 9. desember 2019 til 8. september 2020. Að teknu tilliti til óvæntra útgjalda, sem námu 31.532 krónum, hefðu kærendur átt að geta lagt til hliðar 1.990.390 krónur á tímabili greiðsluaðlögunar. Kærendur hafa ekki sýnt fram á sparnað og samkvæmt kæru töldu þau að heimilt hafi verið að ráðstafa sparnaði sínum til greiðslu skulda eftir að umboðsmaður skuldara felldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra þann 15. maí 2020.

 

Við mat á því hvaða fjárhæð skuldarar eiga að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli, ber samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Þegar metið er hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum á meðan á frestun greiðslna stendur er gert ráð fyrir svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum sem tekið er tillit til við útreikninga á áætluðum sparnaði. Samkvæmt framangreindu bar kærendum að leggja fyrir á meðan frestun greiðslna stóð yfir alls 1.990.390 krónur. Kærendur hafa enga fjármuni lagt til hliðar í greiðsluskjólinu, en ljóst er af lokamálslið 1. mgr. 15. gr. lge. að það stóð yfir á meðan fyrra mál kærenda var rekið hjá úrskurðarnefnd velferðarmála sumarið 2020.

 

Samkvæmt þessu fellst úrskurðarnefndin á þá niðurstöðu umboðsmanns skuldara að kærendur hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

 

Í ljósi alls þessa verður að líta svo á að samkvæmt mgr. 15. gr. laganna hafi umboðsmanni skuldara borið að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A, og B, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira