Hoppa yfir valmynd

Stjórnsýslukæra vegna ákvörðunar Matvælastofnunar um vörslusviptingu á tík á grundvelli 38. gr. laga nr. 55/2013 um velferð dýra.

Stjórnsýslukæra

            Með erindi, dags. 1. september 2021 kærðu, [A] f.h. [B] (hér eftir nefnd kærandi) ákvörðun Matvælastofnunar þann 5. ágúst 2021 um vörslusviptingu á tík kæranda.

            Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og barst erindi kæranda innan kærufrests.

 

Krafa

            Þess er krafist að ákvörðun Matvælastofnunar um vörslusviptingu á tík kæranda verði ógild og kæranda eða fjölskyldumeðlim verði veitt umráð tíkarinnar að nýju. Undir meðferð málsins lést tík kæranda og var kæranda því veitt færi á að endurmeta stjórnsýslukæruna og kröfu hennar. Kærandi óskaði þess að halda kröfunni til streitu með þeirri breytingu að krefjast afhendingar á ösku tíkarinnar auk þess að fá afstöðu á lögmæti aðgerða.

 

Málsatvik og málsmeðferð

            Málsatvik eru á þann veg að þann 23. júlí 2021 barst Matvælastofnun ábending frá Dýraþjónustu Reykjavíkur varðandi tík, að nafni [C], sem kærandi hafði umráð yfir. Í ábendingunni kom fram að kvörtun hefði borist um að kærandi héldi hættulegan hund sem hefði bitið mann og ráðist á hund. Fram kom að Dýraþjónusta Reykjavíkur hefði tekið tíkina í lausagöngu fyrr á árinu og vitneskja væri hjá þeim um að tíkin væri ekki ill. Í ábendingunni kom einnig fram að velferð tíkarinnar væri áfátt, hún væri sykursjúk og einnig að aðstæður eiganda og vitnisburður aðstandanda benti til þess að eigandinn væri ekki að sinna nauðsynlegri lyfjagjöf tíkarinnar. Dýralæknaþjónusta Reykjavíkur benti einnig á að stofnunin hefði áhyggjur af heilsu dýrsins og grunaði að sinnuleysi eiganda væri að valda heilsubresti tíkarinnar sem gæti útskýrt hegðun hennar. Jafnframt kom fram að komið væri samþykki frá lögreglunni um að aðstoða við að fjarlægja tíkina en að Dýraþjónusta Reykjavíkur vildi athuga hvort hægt væri að fjarlægja tíkina vegna dýravelferðar.

            Þann 29. júlí 2021 fór Matvælastofnun í eftirlit til kæranda í samráði við lögreglu. Í kjölfar eftirlitsins var þann 10. ágúst 2021 gerð skoðunarskýrsla eftirlitsmanna og voru þar skráð tvö alvarleg frávik, annars vegar frá almennri meðferð og umhirðu og hins vegar frá fullnægjandi aðbúnaði og umönnun. Fram kemur að tíkin hafi reynst horuð í holdastuðli 2½, rispuð á hægri eyrnablöðku og aum í eyra sem benti til eyrnasýkingar. Fram kom að kærandi virðist hafa gert sér grein fyrir því að það væri ekki góð stjórnun á sykursýkinni sem olli þyngdartapi tíkarinnar, en unnið væri að því að bæta ástandið í samráði við dýralækni að sögn kæranda. Fram kemur að insúlín hafi verið á staðnum en þar sem rafmagnslaust var heima hjá kæranda þá gat kærandi ekki geymt lyf tíkarinnar á viðeigandi hátt. Þá gat kærandi ekki framvísað hjartalyfjum sem hún upplýsti að tíkin ætti að vera á. Einnig átti kærandi ekki sérfóður fyrir sykursjúka hunda og var að gefa tíkinni almennt fæði. Kærandi sagðist gefa tíkinni reglulega insúlín en samkvæmt mati dýralæknis á staðnum taldi hann ástand tíkarinnar gefa annað til kynna. Í skoðunarskýrslunni kemur fram að slysahætta væri af umhverfi vegna vanrækslu kæranda og tíkin væri oft að sleppa frá eiganda en hún hafi verið tekin af Dýraþjónustu Reykjavíkur í lausagöngu. Jafnframt var tíkin ekki örmerkt réttum eiganda/umráðamanni.

Þann 4. ágúst 2021 óskaði Matvælastofnun eftir upplýsingum um meðhöndlun og lyfjagjafir tíkarinnar hjá þeim dýralæknastofum sem kærandi sagðist fara með tíkina til. Í fyrrgreindri skoðunarskýrslu frá 10. ágúst 2021 kemur fram að við mat á þeim upplýsingum hafi þær gefið til kynna að regluleg lyfjagjöf væri ekki tryggð hvað varðar insúlín og hjartalyf sem væru lífsnauðsynleg fyrir tíkina. Holdastuðull hennar benti einnig til þess að kærandi væri ekki að stjórna blóðsykri eins og þyrfti. Jafnframt væri kærandi ekki að sinna nauðsynlegri eftirfylgni í samráði við dýralækni þrátt fyrir endurtekið neyðarástand hjá tíkinni. Var Matvælastofnun upplýst um það að tíkin hefði þurft á neyðaraðstoð dýralæknis að halda en kærandi hafi ekki haft efni á að fara með tíkina á vakt hjá dýralækni þar sem atvikið kom upp um helgi. Kæranda var boðið að mæta mánudaginn 2. ágúst 2021 í skoðun hjá dýralæknastofunni. Dýralæknir sem skoðaði tíkina þá upplýsti að hún hafi verið í mikilli streitu, trúlega í hjartakasti og sykurinn væri hár. Kæranda hafi þá verið boðið að sækja lyf handa tíkinni en hún varð ekki við því þar sem hún skuldaði greiðslu fyrir eldri lyf og hefði þurft að borga þau áður en hún fengi ný lyf afhent. Dýralæknir upplýsti Matvælastofnun um að lyf sem hún hefði áður fengið afhent myndu ekki duga tíkinni vikuna.

Vegna alvarlegs ástands á tíkinni og skorts á getu, hæfni og ábyrgð á þeirri umönnun sem tíkin þarfnaðist fyrirhugaði Matvælastofnun að vörslusvipta umráðamann tíkinni þann 5. ágúst á grundvelli 38. gr. laga nr. 55/2013 um velferð dýra. Í því samhengi sendi Matvælastofnun beiðni til lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins, þann 4. ágúst 2021, þar sem óskað var eftir aðstoð lögreglu varðandi það að taka tíkina úr vörslu kæranda og var þess óskað að vörslusviptingin ætti sér stað eigi síðar en fimmtudaginn 5. ágúst 2021.

Þann 4. ágúst 2021 slapp tíkin frá kæranda og fann lögreglan hana og afhenti til Dýraþjónustu Reykjavíkur sem tilkynnti það til Matvælastofnunar. Matvælastofnun taldi að tíkin þyrfti á neyðaraðstoð dýralæknis að halda og hafði Matvælastofnun milligöngu um að tíkin færi strax til skoðunar á dýraspítala. Tíkin fékk þá meðhöndlun með insúlíni við sykursýkinni en blóðsykur var mældur og var 21.3 mmol/L en eðlilegur blóðsykur hjá hundi er á milli 3.44 – 9.55 mmol/L og hjá vel stjórnuðum sykursjúkum hundum er miðað við að efri mörk fari ekki yfir 13.9 mmol/L. Tíkinni var einnig gefið verkjalyf og var slæm eyrnasýking meðhöndluð. Matvælastofnun tók ákvörðun um að ekki væri rétt að skila tíkinni aftur til kæranda að kveldi þar sem fyrirhugað var að fara í vörslusviptingu að morgni og var henni því komið fyrir hjá Dýrahjálp Íslands. Matvælastofnun reyndi að hafa samband við kæranda til að upplýsa hana um stöðu málsins en án árangurs. Matvælastofnun hafði þá samband við systur kæranda og tilkynnti henni um stöðu mála.

Þann 5. ágúst 2021 var kæranda tilkynnt með formlegum hætti um vörslusviptingu á tíkinni. Í bréfinu kemur fram að tíkin hafi verið í slæmu ásigkomulagi, horuð og með eyrnasýkingu. Hún hafi verið greind með sykursýki og hjartakvilla sem krefjist stöðugrar lyfjameðhöndlunar. Við eftirlit stofnunarinnar hafi kærandi hvorki átt nægjanlegt magn af lyfjum til áframhaldandi meðhöndlunar né átt það fóður sem tíkin þurfti á að halda. Jafnframt hafi tíkin þurft á neyðaraðstoð að halda þann 2. ágúst 2021 en kærandi hafi hvorki haft efni á meðhöndluninni né lyfjunum sem tíkin þurfti á að halda. Vísar Matvælastofnun til þess að þann 4. ágúst 2021 hafi stofnunin fengið þær upplýsingar að kærandi hafi ekki sótt lyf sem tíkin þyrfti á að halda þar sem kærandi hafi ekki greitt gamlar skuldir gagnvart dýralæknastofunni. Hafi dýralæknastofan ekki viljað afhenda lyfin án þess að fyrri skuld yrði gerð upp. Hafi tíkin því ekki fengið þá stöðugu meðhöndlun og umhirðu sem hún þarfnaðist. Kæranda, sem umráðamanni tíkarinnar, var veittur frestur til andmæla til 13. ágúst 2021.

Andmæli kæranda bárust þann 16. ágúst 2021 og er því mótmælt að kærandi hafi ekki séð um tíkina, veitt henni þá læknisþjónustu sem nauðsynleg væri og þá næringu sem hún þyrfti. Kærandi vísaði jafnframt til þess að Matvælastofnun hafi ekki sinnt rannsóknar né leiðbeiningaskyldu sinni áður en ákvörðun um vörslusviptingu var tekin. Kærandi taldi að brotið hafi verið á meðalhófsreglu stjórnsýslulaga með því að taka tíkina fyrirvaralaust úr umsjá kæranda án þess að nauðsyn hafi verið til að fara í slíkar aðgerðir á þeim tímapunkti.

Þann 17. ágúst 2021 hafði Matvælastofnun samband við lögreglu með tilvísun í 34. gr. laga nr. 55/2013 og óskaði eftir upplýsingum um í hversu miklum mæli lögregla hefði þurft að hafa afskipti af heimilinu, sem hluta af mati á því hvort 10. gr. laganna væri uppfyllt varðandi hald á umræddri tík. Upplýst var að frá janúar 2021 hafi lögreglan haft yfir 20 sinnum afskipti vegna atvika á heimilinu og yfir 20 mál voru skráð á sama tímabili þar sem kærandi hafði tengingu í atvik sem lögreglan hafði haft afskipti af. Matvælastofnun taldi þessar upplýsingar renna stoðum undir upplifun dýraeftirlitsfólks að í nærumhverfi tíkarinnar væri mikil óregla umönnunaraðila og mögulega annarra sem höfðu afskipti af tíkinni. Matvælastofnun taldi ljóst að samkvæmt mati dýralæknis og út frá heilsufars- og velferðarsjónarmiðum væri ekki ásættanlegt að þarna væri haldinn hundur, hvað þá hundur sem væri með alvarlega sjúkdóma og þarfnaðist sérstakrar athygli og umhyggju.

Með bréfi þann 18. ágúst 2021, tilkynnti Matvælastofnun um ákvörðun stofnunarinnar um aflífun á tíkinni á grundvelli 38. gr. laga nr. 55/2013 um velferð dýra. Vísað var til álits starfandi dýralæknis, dags. 17. ágúst 2021, þar sem fram kom að hjartasjúkdómurinn væri langt genginn og batahorfur engar. Mælti dýralæknirinn með að dýrið fengið að kveðja. Með tölvupósti þann sama dag, þann 18. ágúst 2021, óskaði kærandi eftir því að fá að kveðja tíkina áður en hún yrði aflífuð og taldi skilyrði 38. gr. laga nr. 55/2013 ekki uppfyllt. Þann sama dag tilkynnti Matvælastofnun um óvæntan bata á sykursýki tíkarinnar og þá ákvörðun stofnunarinnar að fresta aflífun að svo stöddu.

            Með tölvupósti þann 19. ágúst 2021 óskaði kærandi eftir því að systir hennar fengi að taka tíkina í sín umráð. Matvælastofnun hafnaði þeirri beiðni, þann 20. ágúst 2021 og vísar stofnunin til þess að ástæður höfnunar séu m.a. þær að dýraeftirlitsmenn voru upplýstir við eftirlit að systir kæranda hefði í nokkurn tíma verið kæranda til aðstoðar með tíkina en þrátt fyrir það var ástandið á tíkinni og umönnun hennar bágborin og óásættanleg. Þá feli ráðstöfun á dýri, sem hefur þurft að taka úr vörslu umráðamanns vegna dýravelferðarsjónarmiða, til fjölskyldu viðkomandi umráðamanns að mati Matvælastofnunar í sér mikil líkindi og hættu á að tíkin hafni fljótt í sömu aðstæðum.

Þann 20. ágúst 2021 ráðstafaði Matvælastofnun tíkinni til Dýrahjálpar Íslands. Þann 24. ágúst 2021 óskaði sonur kæranda eftir því að hann fengi að taka tíkina í sín umráð. Með tölvupósti þann 26. ágúst 2021 var þeirri beiðni hafnað og tilkynnti Matvælastofnun um að tíkinni hefði varanlega verið komið til Dýrahjálpar Íslands og vísaði stofnunin til þess að hafa þyrfti samband við Dýrahjálp Íslands. Með tölvupósti þann 1. september 2021 mótmælti kærandi þeirri ákvörðun Matvælastofnunar og vísaði til þess að Dýrahjálp Íslands kannaðist ekki við málið. Krafðist kærandi þess að Matvælastofnun myndi endurskoða málið. Matvælastofnun hafnaði þeirri beiðni með tölvupósti samdægurs þann 1. september 2021 með vísan til þess að einu skyldur Matvælastofnunar í málinu væru að tryggja velferðar tíkarinnar.

            Með bréfi, dags. 1. september 2021, var ákvörðun Matvælastofnunar kærð til ráðuneytisins. Hinn 3. september 2021, óskaði ráðuneytið eftir umsögn Matvælastofnunar vegna málsins auk gagna málsins. Umsögn Matvælastofnunar barst ráðuneytinu 23. september 2021. Í kjölfarið var kæranda gefinn kostur á að koma andmælum sínum á framfæri vegna umsagnarinnar og bárust andmæli kæranda þann 8. október 2021. Þann 2. nóvember 2021 bárust ráðuneytinu þær upplýsingar frá Matvælastofnun að tíkin hefði látist þann 11. október 2021. Þann 8. nóvember 2021 upplýsti ráðuneytið kæranda um andlát tíkarinnar og veitti kæranda tækifæri á að breyta eða falla frá kærunni þar sem krafa kærunnar sé að tíkin verði afhent kæranda aftur. Þann 7. desember 2021 barst ráðuneytinu tölvupóstur frá kæranda þar sem upplýst var um vilja til að halda kröfunni áfram en með þeim breytingum að krafist væri afhendingar á ösku tíkarinnar og afstöðu ráðuneytisins á lögmæti aðgerða. Einnig var þess krafist að kærandi fengi afsökunarbeiðni frá Matvælastofnun.

 

Sjónarmið kæranda

            Í stjórnsýslukæru kæranda, dags. 1. september 2021, kemur fram að kærandi byggi á því að hún hafi alla tíð séð um tíkina og útvegað henni nauðsynlega læknisþjónustu. Tíkin sé sú eina úr gotinu sem sé ennþá á lífi en allir aðrir hundar hafi látist vegna hjartagalla. Kærandi hljóti því að vera að gera eitthvað rétt. Kærandi mótmælir því að nauðsynlegt hafi verið að vörslusvipta kæranda tíkinni á þessum tímapunkti og telur kærandi að staða hennar í samfélaginu hafið skipt máli við ákvörðun Matvælastofnunar.

            Einnig byggir kærandi á því að ákvörðun Matvælastofnunar um það að fjölskylda kæranda mætti ekki taka tíkina í sína umsjá eigi ekki við rök að styðjast. Rökstuðningur Matvælastofnunar fyrir því að sonur kæranda, sem sé fjárhagslega stöðugur og með góða aðstöðu fyrir tíkina, hafi verið enginn og þeim hafi einungis verið tjáð að búið væri að ráðstafa tíkinni í fóstur.

            Þá telur kærandi að ekki hafi verið gætt meðalhófs við ákvörðun Matvælastofnunar. Kærandi fellst á að þar sem neyð sé til staðar geti Matvælastofnun vörslusvipt en þó skuli liggja fyrir að slík aðgerð sé nauðsynleg. Þá hljóti stjórnvald að þurfa að kanna hvort hægt sé að ganga skemur til þess að ná tilsettum markmiðum svo sem með því að láta tíkina í hendurnar á ættmennum sem geti tekið tíkina. Þá vísar kærandi til þess að það eigi ekki við rök að styðjast að vörslusvipta kæranda tíkina á þeim forsendum að eigandi hafi ekki fjármuni til þess að fara með tíkina til læknis, en á sama tíma borgi Matvælastofnun fyrir læknisþjónustu tíkarinnar ef hún er í þeirra vörslu. Kærandi vísar til þess að Matvælastofnun hefði þá átt að aðstoða kæranda með læknisþjónustuna og þar með væri gætt meðalhófs. Kærandi byggir á því að ekki hafi verið gætt meðalhófs þegar tíkinni var ráðstafað annað.

            Þá kemur einnig fram í stjórnsýslukærunni að það hafi ekki verið rétt að kærandi hafi ekki átt lyf fyrir tíkina né pening til þess að kaupa lyf. Kærandi hafi átt lyf fyrir tíkina sem ættu að duga í rúman mánuð en Matvælastofnun hafi ekki rannsakað það. Matvælastofnun hafi heldur ekki rannsakað fjölskyldu kæranda áður en að tekin hafi verið ákvörðun um að hafna því að þau tækju tíkina í fóstur. Kærandi telur að Matvælastofnun hafi með ítrekuðum hætti brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar og ætti af þeim ástæðum að fella ákvörðun stofnunarinnar úr gildi.

           Í andmælum kæranda sem bárust þann 8. október 2021 kemur fram að ljóst sé að kærandi hafi séð um tíkina líkt og henni bar og hafi gert frá fæðingu tíkarinnar. Jafnvel þó heilsu tíkarinnar hafi mögulega hrakað, sé það ekki grundvöllur fyrir vörslusviptingu. Einnig hafi fjölskylda kæranda ítrekað haft samband við Matvælastofnun til þess að bjóðast til að taka tíkina í sína forsjá án árangurs. Kærandi telur að með því að hafna þeirri beiðni og með ákvörðun sinni um vörslusviptingu sé Matvælastofnun að brjóta meðalhófsreglu stjórnsýslulaga.

 

 

Sjónarmið Matvælastofnunar

            Matvælastofnun byggir á því að krafa kæranda sé óljós þar sem ekki sé hægt að verða við þeirri kröfu in natura að fella úr gildi ákvörðun Matvælastofnunar af þeirri ástæðu að búið sé að koma vörslum dýrsins varanlega í hendur annarra. Matvælastofnun beri ábyrgð á fóðrun, umhirðu og aðbúnaði dýra eftir vörslusviptingu og þangað til þeim er komið varanlega í hendur annarra. Kærumál geti tekið langan tíma og hefði þá stofnunin þurft að krefjast tryggingar frá kæranda fyrir þeim kostnaði. Þá vísar Matvælastofnun einnig til þess að kröfugerðin sé óljós að því leyti að þess sé krafist að tíkin verði aftur afhent kæranda eða öðrum fjölskyldumeðlim hennar, þ.e. að þrír aðilar hefðu í raun krafist umráða yfir tíkinni, kærandi, systir kæranda og sonur kæranda.

            Matvælastofnun vísar til þess að fyrri reynsla Matvælastofnunar sé slæm af því að láta gæludýr í hendur á fjölskyldumeðlimum fyrrverandi umráðamanns sem reynst hafi óhæfur til dýrahalds. Algengt sé að þess sé óskað í tilvikum sem þessum og nokkuð oft rati dýrin beint aftur til hins óhæfa umráðamanns. Stofnunin geti þó ekki fullyrt að það yrði raunin í máli þessu.

            Hvað varðar sjónarmið kæranda í stjórnsýslukærunni um að félagsleg staða hennar hefði skipt máli varðandi vörslusviptinguna þá vísar Matvælastofnun til 10. gr. laga um velferð dýra en samkvæmt henni skal hver sá sem hefur dýr í umsjá sinni búa yfir nægjanlegri getu til að annast dýrið í samræmi við lögin. Það hafi eindregið verið niðurstaða Matvælastofnunar að sú geta væri ekki fyrir hendi hjá kæranda.

            Matvælastofnun getur ekki fallist á það sjónarmið kæranda að stofnuninni hafi borið skylda að greiða læknisþjónustu fyrir tíkina þar sem kærandi hafði ekki tök á því. Jafnframt getur Matvælastofnun ekki fallist á það sjónarmið að stofnunin hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni enda hefði mikil vinna verið lögð í málið, sbr. fjöldi fylgiskjala málsins sem bera mörg með sér bágt ástand tíkarinnar.

            Matvælastofnun vísar til þess að hlutverk stofnunarinnar sé fyrst og síðast að tryggja velferð þess dýrs sem í hlut á, sbr. 1. mgr. 4. gr. laga um velferð dýra. Það hafi verið niðurstaða Matvælastofnunar í máli þessu að vörslusvipting væri nauðsynleg í þessu tilviki. Beiðni sonar kæranda um að fá vörslur tíkarinnar hafi komið of seint fram auk þess sem stofnunin taldi hættu á að tíkin myndi við það rata beint til kæranda.

 

Forsendur og niðurstaða

            Málið lýtur að ákvörðun Matvælastofnunar, dags. 5. ágúst 2021 um að taka tík kæranda í sína vörslu á grundvelli 38. gr. laga nr. 55/2013 um velferð dýra. Þrátt fyrir að tík kæranda sé nú látin verður að telja að kærandi hafi af því lögmæta hagsmuni að fá úr því skorið hvort rétt hafi verið staðið að vinnslu málsins og hvort aðgerðir Matvælastofnunar hafi verið lögmætar.

            Samkvæmt 1. gr. laga um velferð dýra er markmið laganna að stuðla að velferð dýra, þ.e. að þau séu laus við vanlíðan, hungur, þorsta, ótta og þjáningu, meiðsli og sjúkdóma. Í 6. gr. laganna er kveðið á um að skylt sé að fara vel með dýr og að umráðamaður beri ábyrgð á að annast sé um þau í samræmi við lögin. Þá segir í 6. gr. laganna að ill meðferð dýra sé óheimil. Umráðamaður skal einnig tryggja að dýr fái góða umönnun svo sem með því að vernda þau gegn meiðslum, sjúkdómum og sníkjudýrum eða annarri hættu, sjá til þess að sjúk eða slösuð dýr fái tilhlýðilega læknismeðferð eða séu aflífuð, sbr. 14. gr. laganna.

Ákvörðun Matvælastofnunar byggir á 38. gr. laga um velferð dýra en í ákvæðinu er kveðið á um að telji Matvælastofnun að úrbætur þoli enga bið geti stofnunin tekið dýr úr vörslu umráðamanns eða aflífað dýr sem hafa orðið fyrir varanlegum skaða sökum vanfóðrunar, harðýðgi, slysa eða slæms aðbúnaðar. Þá segir einnig í greininni að framangreindar aðgerðir skuli gerðar í samráði við eða samkvæmt fyrirmælum lögreglu. Þá er Matvælastofnun ekki skylt að veita andmælarétt samkvæmt stjórnsýslulögum þegar úrbætur þola enga bið.

Kærandi byggir á því að skilyrði 38. gr. laganna hafi ekki verið uppfyllt á þeim tímapunkti sem Matvælastofnun tók ákvörðun um að taka tík kæranda úr hennar vörslu. Jafnframt byggir kærandi á því að ekki hafi verið gætt að málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttar við meðferð málsins hjá Matvælastofnun, annars vegar rannsóknarreglu og hins vegar hafi ekki verið gætt að meðalhófi við ákvörðun stofnunarinnar. Kærandi vísar til þess að Matvælastofnun hafi ekki rannsakað nægilega vel hvort að kærandi hafi átt lyf fyrir tíkina en kærandi hafi átt lyf sem ættu að duga í rúman mánuð. Einnig hafi Matvælastofnun ekki rannsakað fjölskyldu kæranda áður en því hafi verið hafnað að þau tækju tíkina í fóstur.

Ráðuneytið getur ekki tekið undir það sjónarmið kæranda að Matvælastofnun hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni en vísast þar annars vegar til skoðunarskýrslu frá 10. ágúst 2021 þar sem fram kemur að kærandi hafi átt insúlín en það var ekki geymt í kæli þar sem heimilið var rafmagnslaust auk þess sem kærandi hafi ekki geta framvísað eftirlitsmönnum hjartalyfjum sem tíkin ætti að vera á. Einnig kemur fram í skoðunarskýrslunni að kærandi hafi verið að gefa tíkinni almennt fæði fyrir hunda en ekki sértækt fyrir sykursjúka hunda. Hins vegar vísar ráðuneytið til þess að Matvælastofnun aflaði upplýsinga um meðhöndlun og lyfjagjöf tíkarinnar frá þeim dýralæknastofum sem kærandi sagðist fara með tíkina til. Þær skýrslur gefa til kynna að regluleg lyfjagjöf tíkarinnar væri ekki tryggð fyrir bæði insúlíni og þeim hjartalyfjum sem tíkin þurfti. Holdastuðull tíkarinnar gæfi einnig til kynna að kærandi hafi ekki haft stjórn á blóðsykri tíkarinnar. Einnig upplýsti dýralæknir að kærandi hefði komið með tíkina á dýralæknastofu mánudaginn 2. ágúst 2021 enda hefði hún þurft á neyðaraðstoð að halda helgina þar á undan en kærandi hafði ekki efni á að koma með tíkina á vaktina. Við skoðun dýralæknis þann 2. ágúst 2021 hafi komið í ljós að tíkin væri í slæmu ásigkomulagi, mikilli streitu, með háan sykur og í hjartakasti. Var kæranda þá boðið að sækja lyf handa tíkinni en kærandi hafi aldrei sótt lyfin þar sem hún hafi þurft að borga skuld fyrir eldri lyf. Einnig hafi dýralæknir upplýst Matvælastofnun um að þau lyf sem áður hefðu verið afhent vegna tíkarinnar myndu ekki duga henni vikuna. Ráðuneytið telur ljóst að Matvælastofnun hafi sinnt rannsóknarskyldu sinni og aflað þeirra upplýsinga sem þurfti vegna lyfjagjafar tíkarinnar.

Kærandi vísar jafnframt til þess að vörslusvipting hafi ekki verið nauðsynleg í máli þessu og hljóti stjórnvöld að þurfa að kanna hvort hægt sé að ganga skemur til þess að ná sama markmiði svo sem með því að láta tíkina í hendurnar á ættmennum sem gætu tekið hana. Kærandi vísar jafnframt til þess að Matvælastofnun hefði átt að aðstoða kæranda með læknisþjónustu og þar með gæta meðalhófs. Ráðuneytið getur ekki tekið undir það sjónarmið kæranda að Matvælastofnun hafi átt að aðstoða kæranda með læknisþjónustu í stað þess að vörslusvipta kæranda tíkina enda leggja lög um velferð dýra nr. 55/2013 ekki þær skyldur á Matvælastofnun. Þá er það á ábyrgð kæranda að búa yfir nægjanlegri getu til að annast tíkina, sbr. 10. laga um velferð dýra. Í kjölfar tilkynningar til Matvælastofnunar er varðaði velferð umræddrar tíkar framkvæmdi Matvælastofnun eftirlit í samráði við lögreglu að heimili kæranda þann 29. júlí 2021, þar sem leitast var við að kanna ástand og aðstæður tíkarinnar. Í skoðunarskýrslu Matvælastofnunar, dags. 10. ágúst 2021, kemur fram að tilgreind eru tvö alvarleg frávik. Annars vegar frávik vegna almennrar meðferðar og umhirðu sem vísa m.a. til þess að tíkin sé í holdastuðli 2,5/9, sé sykursjúk og það horuð að greinilegt sé að blóðsykur hafi ekki verið stöðugur í lengri tíma auk þess sem tíkin sé rispuð og aum í hægra eyra sem bendi til eyrnasýkingar. Þá hafi ekki verið sinnt meðferð við sykursýki eða hjartveiki og samkvæmt innsendum sjúkrasögum hafi eigandi ekki sýnt getu, hæfni eða ábyrgð til að meðhöndla veikindi tíkarinnar sem skyldi. Hinsvegar var í skoðunarskýrslunni tilgreint frávik er varðar aðbúnað og umönnun en líkt og að framan greinir var heimilishald kæranda í mikilli óreglu og töluverð neysla áfengis og/eða vímuefna. Þá lá einnig fyrir að lögreglan hafi haft afskipti af heimilinu í 20 skipti frá því í janúar 2021. Tíkin slapp frá kæranda þann 4. ágúst 2021 og þegar hún fannst þá var það mat Matvælastofnunar að tíkin þyrfti á neyðaraðstoð dýralæknis að halda. Fékk tíkin þá meðhöndlun með insúlíni við sykursýkinni en blóðsykur var mældur og var 21.3 mmol/L auk þess sem hún fékk verkjalyf og slæm eyrnasýking var meðhöndluð. Á grundvelli framangreinds var kærandi vörslusviptur tíkinni á grundvelli 38. gr. laga um velferð dýra þ.e. á þeim grundvelli að úrbætur þoldu ekki bið, sbr. bréf Matvælastofnunar dags 5. ágúst 2021. Samkvæmt umræddri 38. gr. laga um velferð dýra er Matvælastofnun ekki skylt að veita andmælarétt þegar úrbætur þola ekki bið en í bréfi Matvælastofnunar til kæranda, dags. 5. ágúst 2021, var kæranda veittur kostur á að koma að andmælum.

Þá vísar ráðuneytið einnig til þess að með bréfi Matvælastofnunar, dags. 18. ágúst 2021, var kæranda tilkynnt um ákvörðun Matvælastofnunar um á aflífun á tíkinni þar sem dýralæknir hafi metið það svo að tíkin væri í holdastigi 1-2 og að hjartasjúkdómurinn væri langt genginn og batahorfur engar. Þá mælti dýralæknir með því að tíkin fengið að kveðja.

Með vísan til framangreinds getur ráðuneytið því ekki tekið undir það sjónarmið kæranda að ekki hafi verið gætt meðalhófs við ákvörðun Matvælastofnunar um vörslusviptingu á tík kæranda. Ráðuneytið telur ljóst að kærandi hafi ekki sýnt fram á að hún hefði nægjanlega getu til að annast tíkina í samræmi við lög, sbr. 10. gr. laga um velferð dýra. Vísast þar einnig til 14. gr. laganna en samkvæmt henni ber umráðamönnum dýra að tryggja dýrunum góða umönnun þ.m.t. skv. a. lið ákvæðisins að sjá til þess að þörfum dýranna sé sinnt að jafnaði einu sinni á dag, b. lið ákvæðisins að tryggja gæði og magn fóðurs, d. lið ákvæðisins að vernda þau gegn meiðslum, sjúkdómum og e. lið ákvæðisins að sjá til þess að sjúk eða slösuð dýr fái tilhlýðilega læknismeðferð eða séu aflífuð. Ljóst er að kærandi hefur brotið gegn þessum liðum 14. gr. laganna þar sem kærandi sá ekki til þess að tíkin fengi þá nauðsynlegu umönnun sem hún þurfti. Ráðuneytið vísar einnig til þess að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. reglugerðar um velferð gæludýra nr. 80/2016 skal umráðamaður gæludýrs fylgjast með heilsufari þess og leita til dýralæknis leiki grunur á því að það sé veikt eða slasað. Þá segir í sömu málsgrein að gæta skuli þess að gæludýr sé í eðlilegum holdum skv. viðauka III.

Ráðuneytið telur að framangreint renni stoðum undir þau rök Matvælastofnunar að tíkin hafi ekki verið að fá þá stöðugu meðhöndlun og umhirðu sem hún þarfnaðist. Með vísan til þess sem rakið er hér er það mat ráðuneytisins að skilyrðum 38. gr. laganna hafi verið fullnægt þegar ákvörðun var tekin um að svipta kæranda vörslu tíkarinnar.

Ráðuneytið getur ekki fallist á það sjónarmið kæranda að Matvælastofnun hafi borið að rannsaka nánar stöðu fjölskyldu kæranda áður en vörslusvipting var ákvörðuð en ábyrgð Matvælastofnunar er fyrst og fremst sú að gæta að velferð þess dýrs sem á í hlut á grundvelli laga nr. 55/2013 um velferð dýra.

Með vísan til alls framanritaðs staðfestir ráðuneytið ákvörðun Matvælastofnunar, dags. 5. ágúst 2021, um vörslusviptingu á tík kæranda á grundvelli 38. gr. laga nr. 55/2013, um velferð dýra. Ráðuneytið telur að ekki þurfi að ráða frekar úr öðrum málsástæðum sem tilgreindar hafa verið við meðferð málsins þar sem úrlausn þeirra hefur ekki áhrif á niðurstöðu málsins.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Matvælastofnunar, dags. 5. ágúst 2021, um vörslusviptingu á tík kæranda, á grundvelli 38. gr. laga nr. 55/2013 um velferð dýra, er hér með staðfest.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira