Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir heilbrigðisráðuneytis

Úrskurður nr. 22/2024

Úrskurður nr. 22/2024

 

Miðvikudaginn 14. ágúst 2024 var í heilbrigðisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 

ÚRSKURÐUR

 

Með kæru, dags. 28. maí 2024, kærði […], f.h. móður sinnar, […], hér eftir kærandi, kt. […], ákvörðun færni- og heilsumatsnefndar heilbrigðisumdæmis höfuðborgarsvæðisins, dags. 5. maí 2024, um að andleg og líkamleg færni kæranda væri með þeim hætti að áframhaldandi búseta utan hjúkrunarrýmis ætti að vera möguleg.

Kærandi krefst þess að ákvörðun færni- og heilsumatsnefndar verði felld úr gildi og lagt verði fyrir færni- og heilsumatsnefnd að staðfesta nauðsyn kæranda um dvöl í hjúkrunarrými.

Kæruheimild er í 26. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og barst kæra innan kærufrests.

Meðferð málsins hjá ráðuneytinu.

Ráðuneytinu barst kæra kæranda með tölvupósti, dags. 28. maí 2024. Ráðuneytið óskaði eftir umsögn færni- og heilsumatsnefndar höfuðborgarsvæðisins 5. júní s.á. og barst umsögn nefndarinnar ráðuneytinu 18. júní. Ráðuneytið sendi kæranda umsögn færni- og heilsumatsnefndar til athugasemda þann 25. júní og bárust athugasemdir kæranda tveimur dögum síðar. Vegna athugasemda kæranda taldi ráðuneytið nauðsynlegt að óska eftir umsögn færni- og heilsumatsnefndar að nýju þann 27. júní og barst ný umsögn frá nefndinni þann 9. júlí. Þann 29. júlí sendi ráðuneytið kæranda nýja umsögn nefndarinnar til athugasemda á ný og bárust athugasemdir frá kæranda þann 7. ágúst. Lauk þá gagnaöflun og var málið tekið til úrskurðar.

Málsatvik.

Atvik málsins eru með þeim hætti að 5. apríl 2024 sótti kærandi, þá 83 ára gömul, um færni- og heilsumat vegna langtímadvalar í hjúkrunarrými hjá færni- og heilsumatsnefnd höfuðborgarsvæðisins. Í umsókninni kom fram að umsækjandi treysti sér ekki til að búa ein lengur þrátt fyrir að hafa nýtt sér ýmis úrræði sem henni stæðu til boða. Hún upplifði langvarandi verki og sjúkdóma, hún dytti reglulega og sæi lítið auk þess að vera illa áttuð. Kærandi ætti tvær dætur en þær væru ekki í aðstæðum til að aðstoða hana að því marki sem þörf væri á.

Færni- og heilsumatsnefnd óskaði eftir gögnum um stöðu kæranda frá þeim opinberu aðilum sem hún hefur notið þjónustu hjá, m.a. heilsugæslunni hennar auk félagsráðgjafa. Í gögnunum sem nefndin aflaði kom fram að kærandi byggi ein en í sama húsi og sonur hennar og tengdadóttir og nyti eftirlits þeirra. Var það niðurstaða færni- og heilsunefndar á grundvelli þeirra ganga sem nefndin aflaði að forsendur fyrir færni- og heilsumati kæranda í hjúkrunarrými væru ekki nægjanlegar að þessu sinni. Auk þess væri heimaþjónusta ekki fullnýtt, svo sem hjúkrunar- eða samfélagsþjónusta í formi dagþjálfunar.

Málsástæður.

Málsástæður kæranda

Kærandi heldur því fram að hún sé ekki örugg heima hjá sér og þau viðbótarúrræði sem standi henni til boða nýtist henni ekki til áframhaldandi sjálfstæðrar búsetu. Kærandi byggir á því að hún hafi hvorki heilsu, né getu, til að halda áfram heimili ein síns liðs.

Málsástæður færni- og heilsumatsnefndar höfuðborgarsvæðisins

Færni- heilsumatsnefnd heldur því fram að kærandi viðhaldi enn að stofni til færni í persónulegum athöfnum daglegs lífs. Auk þess væri heimaþjónusta ekki fullnýtt. Af þeim sökum taldi nefndin að ekki væri hægt að fallast á umsókn kæranda um færni- og heilsumat. Auk umsagnar nefndarinnar fylgdu einnig gögn málsins sem ráðuneytið hafði ekki fengið upplýsingar um.

Athugasemdir kæranda

Kærandi heldur því fram að mikið af þeim upplýsingum sem færni- og heilsumatsnefnd lagði til grundvallar ákvörðun sinni væru rangar og lýsi ekki raunverulegum aðstæðum hennar.

Í læknabréfi sem nefndin aflaði vegna umsóknar kæranda kemur fram að kærandi búi í sama húsi og sonur sinn og tengdadóttir, njóti stöðugs eftirlits þeirra og deili með þeim máltíð á hverjum degi. Hið rétta sé hins vegar að kærandi eigi hvorki son né tengdadóttur og njóti þar af leiðandi ekki stöðugs eftirlits né deili með niðjum sínum máltíð daglega. Hið rétta sé að kærandi búi ein i lyftulausu húsnæði, fjarri dætrum sínum.

Þá byggir kærandi einnig á því að kærandi þurfi daglega aðstoð og búi við félagslega einangrun. Oft hafi reynst nauðsynlegt að kalla eftir aðstoð öryggisfyrirtækis með neyðarhnappi og sjúkraflutningamanna eftir fall að nóttu. Öryggi kæranda sé því í hættu.

Frekari upplýsingar frá færni- og heilsumatsnefnd

Í ljósi málsástæðna kæranda sem lutu að því að upplýsingar sem nefndin hefði aflað, frá heilsugæslu kæranda, væru rangar og ættu líklega við um annan einstakling taldi ráðuneytið nauðsynlegt að afla upplýsinga frá færni- og heilsumatsnefnd um hvort framkomnar athugasemdir kæranda breyttu afstöðu nefndarinnar til stöðu kæranda.

Samkvæmt svari nefndarinnar byggir hún á innsendum gögnum matsaðila og gæti ekki tekið ábyrgð á þeim mistökum sem fram koma í þeim gögnum. Þá tiltók nefndin að kærandi hefði verið í rannsóknum vegna falla og verið í dagendurhæfingu vegna falla. Einnig tók nefndin fram að mælt væri með aukinni heimahjúkrun og heimastuðningi auk dagdvalar en í niðurstöðu nefndarinnar kom fram að heimaþjónusta við kæranda væri ekki fullreynd. Í svari nefndarinnar kom fram að samkvæmt gögnum frá heimilislækni kæranda væri hún fær um að sinna frumathöfnum dagslegs lífs með „smá eftirliti“ sem hún fengi með heimahjúkrun. Að lokum sagði nefndin að hentugleiki húsnæðis sem umsækjendur búa í væri ekki einn og sér gild ástæða fyrir flutningi á hjúkrunarheimili.

Viðbótarathugasemdir kæranda

Í svari kæranda kom fram að umsókn hennar hefði ekki hlotið réttláta málsmeðferð. Þar sem upplýsingar í læknabréfi sem aflað var vegna umsóknarinnar væru rangar taldi kærandi nauðsynlegt að aflað væri nýrra gagna sem væru í samræmi við raunverulega stöðu kæranda.

Niðurstaða.

Í máli þessu er til skoðunar hvort ákvörðun færni- og heilsumatsnefndar höfuðborgarsvæðisins, um að synja umsókn kæranda um færni- og heilsumat, er lögmæt.

Lagagrundvöllur

Fjallað er um færni- og heilsumat í 15. gr. laga nr. 125/1999, um málefni aldraðra. Í 2. mgr. ákvæðisins kemur fram að áður en kemur að dvöl einstaklings í hjúkrunar- eða dvalarrými, samkvæmt umsókn hans, skulu öll önnur raunhæf úrræði sem miða að því að fólk geti búið i heimahúsi vera fullreynd. Enginn getur dvalið til langframa í hjúkrunarrými eða dvalarrými nema að undangengnu mati færni- og heilsumatsnefndar á þörf fyrir slíka dvöl. Ráðherra kveður nánar á um færni- og heilsumat í reglugerð, sbr. reglugerð nr. 466/2012, um færni og heilsumat vegna dvalar- og hjúkrunarrýma.

Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 466/2012 skal einstaklingur senda skriflega umsókn til færni- og heilsumatsnefndar í því heilbrigðisumdæmi þar sem hann á lögheimili telji hann þörf á að dvelja til langframa í dvalar- eða hjúkrunarrými. Í 2. mgr. 8. gr. segir að umsókn um færni- og heilsumat skuli aðeins lögð fram að félagsleg stuðningsþjónusta, heimahjúkrun og önnur raunhæf úrræði og aðstoð séu fullreynd.

Í 10. gr. reglugerðarinnar kemur fram að færni- og heilsumatsnefndir séu ábyrgar fyrir mati á dvalarþörf íbúa í því heilbrigðisumdæmi sem þær starfa. Ábyrðin feli m.a. í sér að afla allra áskilinna gagna og upplýsinga og tryggja að fagleg sjónarmið ráði ferðinni við matsgerðina. Færni- og heilsumatsnefndir skulu við meðferð mála fara að stjórnsýslulögum, nr. 37/1993.

Samkvæmt 11. gr. reglugerðarinnar skal færni- og heilsumatsnefnd afla skriflegra upplýsinga um aðstæður viðkomandi einstaklings og kanna gaumgæfilega hvort öll raunhæf félagsleg og heilsufarsleg úrræði og aðstoð til dvalar í heimahúsi hafi verið fullreynd. Þá skal nefndin afla lækna- og hjúkrunarbréfa eða sambærilegra upplýsinga um einstaklinginn, samkvæmt sömu grein. Komist nefndin að þeirri niðurstöðu að öll raunhæf félagsleg og heilsufarsleg úrræði hafi ekki verið fullreynd og að vistun í dvalar- eða hjúkrunarrými sé ekki tímabær skal sú niðurstaða skráð í rafræna vistunarskrá og hún kynnt umsækjanda, sbr. 2. mgr. 12. gr.

Málsmeðferð færni- og heilsunefndar skal vera í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, sbr. 2. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 466/2012. Í 10. gr. stjórnsýslulaganna segir að stjórnvald skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Þá fjallar IV. kafli laganna um andmælarétt en í 13. gr. segir að aðili máls skuli eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft.

Niðurstaða ráðuneytisins

Kærandi heldur því fram í máli þessu að umsókn hennar um færni- og heilsumat eigi að vera samþykkt vegna dvalar á hjúkrunarheimili enda búi hún ekki yfir nauðsynlegri hæfni lengur til að sjá um sig sjálf. Færni- og heilsumatsnefnd hafi hins vegar aflað gagna vegna umsóknarinnar sem eigi ekki við um hana og séu því röng. Ákvörðun um að synja henni um færni- og heilsumat geti af þeim sökum ekki verið byggð á þeim og því beri að fella ákvörðun nefndarinnar úr gildi.

Færni- og heilsumatsnefnd heldur því fram að skilyrði fyrir samþykki umsóknar um færni- og heilsumat séu ekki til staðar þar sem kærandi viðhaldi enn að stofni getu til að sinna frumathöfnum með smá eftirliti. Því séu forsendur til að samþykkja umsókn hennar um færni- og heilsumat ekki uppfylltar.

Færni- og heilsumatsnefnd hefur við meðferð málsins óskað eftir upplýsingum frá meðferðaraðilum sem sinnt hafa kæranda. Þar á meðal hefur nefndin fengið læknabréf frá heimilislækni kæranda. Samkvæmt upplýsingum frá kæranda eru þær upplýsingar sem fram koma í læknabréfi vegna hennar rangar og að þær eigi líkast til við um annan einstakling og hefur því ekki verið mótmælt af hálfu nefndarinnar. Er niðurstaða læknabréfsins að hluta til byggð á þeim röngu forsendum sem þar koma fram. Þá er mat á athöfnum daglegs lífs, þar sem kærandi er merkt með hæfni upp á 82/100, frá apríl 2021 og því um yfir þriggja ára gamlar upplýsingar að ræða. Það á einnig við mat á andlegu atgervi. Engu að síður kemur fram í læknabréfinu að kærandi sé sjálfbjarga með athafnir daglegs lífs með aðstoð og eftirliti.

Færni- og heilsumatsnefndir eru stjórnvöld og ákvörðun færni- og heilsumatsnefndar um hvort forsendur fyrir færni- og heilsumati í hjúkrunarrými séu uppfylltar er stjórnvaldsákvörðun. Um meðferð þessa máls fer því samkvæmt stjórnsýslulögum, nr. 37/1993. Ber færni- og heilsumatsnefndum af þeim sökum að fara að málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaganna, svo sem um rannsókn máls og andmælarétt, í slíkum málum. Ráðuneytið tekur fram að nefndin ber ábyrgð á því að niðurstaða hennar byggist á réttum upplýsingum og gögnum og er andmælarétti aðila m.a. ætlað að tryggja betur að svo sé með því að veita málsaðila færi á að tjá sig um gögn sem niðurstaðan byggir á áður en ákvörðun er tekin.

Í máli því sem hér er til skoðunar hefur kærandi bent á að forsendur í læknabréfi sem mats- og hæfinefndin aflaði, og ætla má að vegi þungt í ákvörðun um höfnun eða samþykkt umsóknar um færni- og heilsumat, eru að hluta til rangar og/eða úreltar. Þá bera gögn málsins með sér að kærandi hafi ekki verið upplýst um efni þeirra gagna sem nefndin aflaði við rannsókn málsins eða gefið henni færi á að tjá sig um gögnin. Telur ráðuneytið af þeim sökum að mál þetta geti hvorki talist rannsakað með fullnægjandi hætti í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, né að andmælaréttur kæranda hafi verið virtur við meðferð málsins hjá færni- og heilsumatsnefndinni í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga. Þegar af þeirri ástæðu ber að fella ákvörðun færni- og heilsumatsnefndar úr gildi.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun færni- og heilsumatsnefndar heilbrigðisumdæmis höfuðborgarsvæðisins, dags. 6. maí 2024, um að hafna umsókn kæranda um færni- og heilsumat er felld úr gildi.

Lagt er fyrir færni- og heilsumatsnefnd heilbrigðisumdæmis höfuðborgarsvæðisins að taka málið til meðferðar að nýju.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum