Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd útboðsmála

Mál nr. 7/2018. Úrskurður kærunefndar útboðsmála.

Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 14. júní 2018 kærði Gísli Rafn Jónsson útboð sveitarfélagsins Skútustaðahrepps (hér eftir vísað til sem varnaraðila) um skólaakstur fyrir Reykjahlíðarskóla í Skútustaðarhreppi. Kærandi krefst þess að „felld verði niður ákvörðun sveitarstjórnar Skútustaðarhrepps um að ganga að tilboði Snow Dogs ehf. í leið 2 samkvæmt útboðslýsingu og tilboð félagsins verði úrskurðað ógilt.“

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 9. nóvember 2018
í máli nr. 7/2018:
Gísli Rafn Jónsson
gegn
Skútustaðahreppi,
Snow Dogs ehf. og
Agli Freysteinssyni

Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 14. júní 2018 kærði Gísli Rafn Jónsson útboð sveitarfélagsins Skútustaðahrepps (hér eftir vísað til sem varnaraðila) um skólaakstur fyrir Reykjahlíðarskóla í Skútustaðarhreppi. Kærandi krefst þess að „felld verði niður ákvörðun sveitarstjórnar Skútustaðarhrepps um að ganga að tilboði Snow Dogs ehf. í leið 2 samkvæmt útboðslýsingu og tilboð félagsins verði úrskurðað ógilt.“
Varnaraðila var kynnt kæran og gefinn kostur á að gera athugasemdir. Með greinargerðum mótteknum hjá kærunefnd útboðsmála 19. og 27. júní 2018 krafðist varnaraðili þess að kærunni yrði vísað frá nefndinni en til vara að öllum kröfum kæranda yrði hafnað. Snow Dogs ehf. og Agli Freysteinssyni var jafnframt gefin kostur á að koma sínum sjónarmiðum að. Með tölvubréfi 19. júní 2018 sendi Snow Dogs ehf. athugasemdir sínar, sem skilja verður svo að þess sé krafist að máli þessu verði vísað frá kærunefnd eða öllum kröfum kæranda hafnað. Engar athugasemdir bárust frá Agli Freysteinssyni. Kærandi skilaði andsvörum 17. september 2018. Kærunefnd útboðsmála beindi fyrirspurn til varnaraðila með bréfi 11. október 2018 og bárust svör varnaraðila 16. október sl. Kærunefnd beindi enn fyrirspurn til varnaraðila með tölvubréfi 18. október 2018 og barst svar með tölvubréfi 23. október sl.
Með ákvörðun 27. júní 2018 hafnaði kærunefnd kröfu kæranda um að hið kærða útboð yrði stöðvað um stundarsakir.

I

Í apríl 2018 auglýsti Skútustaðahreppur útboð á skólaakstri fyrir Reykjahlíðarskóla. Í útboðsgögnum var óskað tilboða í tvær nánar tilgreindar akstursleiðir; leiðir 1 og 2. Var gert ráð fyrir að um aksturinn yrði gerður samningur til þriggja ára sem þó skyldi endurskoðaður fyrir hvert skólaár með tilliti til þróunar nemenda auk þess sem hann skyldi vera uppsegjanlegur af hálfu beggja samningsaðila á tímabilinu maí/júní ár hvert. Þá kom fram að tilboðum skyldi skilað á sérstökum tilboðseyðublöðum og heimilt væri að skila með tilboðum nánari skýringum á sérstöku blaði óskuðu bjóðendur þess. Kom fram að varnaraðili áskildi sér rétt til að kaupa annan akstur í þágu skólans af tilboðsgjöfum, enda skyldi sérstaklega samið um einingaverð vegna þess. Jafnframt kom fram að aksturinn byggði á reglum Skútustaðahrepps um skólaakstur í dreifbýli.
Hinn 8. maí 2018 voru tilboð opnuð og bárust tilboð frá þremur bjóðendum; kæranda, sem bauð í báðar leiðir, Snow Dogs ehf., sem bauð einungis í leið 2, og Agli Freysteinssyni sem bauð einungis í leið 1. Á fundi sveitarstjórnar Skútustaðahrepps 23. maí 2018, sem kærandi hefur upplýst að hafa verið viðstaddur, var samþykkt að taka tilboði Egils Freysteinssonar í leið 1 og Snow Dogs ehf. í leið 2 þar sem tilboð þeirra hefðu verið lægst að fjárhæð. Þó var sá fyrirvari gerður að bjóðendurnir uppfylltu kröfur reglugerðar Skútustaðahrepps um skólaakstur í dreifbýli sem og reglur um skólaakstur í grunnskóla nr. 656/2009. Daginn eftir var bjóðendum tilkynnt um val tilboða. Af gögnum málsins verður jafnframt ráðið að kærandi hafi óskað eftir afriti af og fengið send þau tilboð er bárust í útboðinu 28. maí 2018. Sama dag upplýsti kærandi varnaraðila að annað tilboðsblað í tilboði Snow Dogs ehf., svonefnd tilboðsblað 1, hefði vantað en með tölvubréfi 30. maí 2018 staðfesti varnaraðili að kærandi hefði fengið öll gögn sem skilað hefði verið af hálfu bjóðenda. Fyrir liggur að varnaraðili ritaði undir samninga við Snow Dogs ehf. og Egil Freysteinsson um akstur samkvæmt útboðinu 14. júní 2018.

II

Kærandi byggir á því að tilboð Snow Dogs ehf. í hinu kærða útboði hafi verið ógilt þar sem fyrirtækið hafi einungis skilað einu tilboðsblaði af tveimur í útboðinu, þ.e. tilboðsblaði 2, en ekki tilboðsblaði 1. Því hafi vantað upplýsingar um fyrirtækið og þær bifreiðar sem það hugðist nota við aksturinn sem tilgreina hafi átt á tilboðsblaði 1. Þá hafi Snow Dogs ehf. ekki uppfyllt skilyrði útboðsins þar sem það hafi ekki haft yfir neinum bifreiðum að ráða sem nýta mætti í verkið, en útboðsgögn hafi áskilið að bjóðendur hefðu yfir að ráða bifreiðum þegar tilboðum væri skilað. Að öðrum kosti hefði krafa um lýsingu bifreiða í tilboðseyðublaði 1 ekki þjónað neinum tilgangi. Jafnframt hafi jafnræðis bjóðenda ekki verið gætt þar sem sumir bjóðendur hafi þurft að gefa upp ítarlegri upplýsingar um bifreiðakost sinn en félagið Snow Dogs ehf. og með því að krefja Snow Dogs ehf. ekki um sömu upplýsingar hafi vægari kröfur verið gerðar til fyrirtækisins en annarra bjóðenda. Þá hafi aðeins einn vottur undir tilboð fyrirtækisins en ekki tveir eins og áskilið hafi verið. Því sé tilboð fyrirtækisins ógilt, sbr. 82. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup. Kærandi hafi fyrst áttað sig á þessu þegar hann hafi fengið gögn útboðsins send frá varnaraðila 30. maí 2018. Því hafi kærufrestur ekki verið liðinn við móttöku kæru 14. júní 2018.
Kærandi byggir einnig á því að tilboð Snow Dogs ehf. sé töluvert undir þeirri fjárhæð sem greidd sé fyrir skólaakstur í nágrannasveitarfélögum varnaraðila. Kæranda sé því ekki ljóst hvort varnaraðili hafi uppfyllt þá skyldu sína að skoða sérstaklega lág tilboð, sbr. 12. gr. laga nr. 65/1993 um framkvæmd útboða og 81. og 82. gr. laga um opinber innkaup.

III

Varnaraðili Skútustaðahreppur telur í fyrsta lagi að vísa eigi máli þessu frá kærunefnd útboðsmála þar sem kæra hafi borist að liðnum kærufresti. Kærandi hafi verið viðstaddur opnunarfund tilboða og þá mátt hafa verið ljóst að með tilboði Snow Dogs ehf. hafi ekki fylgt áðurnefnt tilboðsblað 1. Það hafi í öllu falli átt að vera ljóst þá þar sem bókun fyrirsvarsmanns Snow Dogs ehf. um að félagið hygðist kaupa bifreið, fengi það verkefnið, hafi sérstaklega verið færð inn í fundargerð. Kærandi hafi haft fullt tækifæri og tilefni til að óska upplýsinga um tilgreiningu annarra bjóðenda á bifreiðum á þessum tímapunkti. Eðlilegt hefði verið að kærandi hefðist þegar handa við að kanna annmarka á öðrum tilboðum í kjölfar opnunarfundar, en 39 dagar hafi liðið frá opnun tilboða og þar til kæra hafi verið sett fram. Þá er byggt á því að ákveðið hefði verið á sveitarstjórnarfundi 23. maí 2018 að taka tilboði Snow Dogs ehf. en fundargerð þess fundar hafi verið birt á vef sveitarfélagsins daginn eftir auk þess sem kærandi hafi verið viðstaddur þann fund. Þá hafi kæranda mátt vera ljóst að tilboð Snow Dogs ehf. hafi verið talið gilt og það tekið fram yfir tilboð kæranda. Ákvæði 106. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup megi ekki skýra svo að bjóðandi, sem telji á rétt sinn hallað, geti beðið með hvers kyns gagnaöflun og athugasemdir þar til fyrir liggur að tilboði hans verði ekki tekið. Þá er einnig byggt á því að vísa eigi málinu frá þar sem kærandi geri kröfu um ógildingu tilboðs. Kærandi hafi hins vegar ekki lögvarða hagsmuni af slíkri kröfu þar sem þegar hafi verið gengið til samninga við Snow Dogs ehf. Þá þyrfti kröfugerð að beinast að ákvörðun sveitarstjórnar um að ganga til samninga við Snow Dogs ehf. Einnig er vísað til þess að umrædd innkaup falli ekki undir útboðsskyldu á EES-svæðinu og falli málið því ekki undir úrskurðarvald kærunefndar.

Varnaraðili byggir í annan stað á því að hafna eigi öllum kröfum kæranda í málinu þar sem nægjanlegar upplýsingar hafi komið fram í tilboði Snow Dogs ehf. svo að tilboðið teldist gilt, jafnvel þó annað tilboðsblað 1 hafi vantað í tilboð þess. Tilgreining á fyrirtækinu hafi komið fram á því tilboðsblaði sem það hafi skilað. Sá hluti tilboðsblaðsins þar sem tilgreina hafi átt þær bifreiðar sem bjóðendur hygðust nota til akstursins hafi ekki þjónað neinum tilgangi í þeim tilvikum þar sem bjóðendur hugðust kaupa sérstaka bifreið vegna akstursins. Þá hafi útboðsgögn ekki tilgreint að það hafi verið skilyrði þátttöku í útboðinu að tilboðsgjafar ættu þegar nauðsynlegar bifreiðir. Í útboðinu hafi hins vegar verið vísað til reglna um skólaakstur og ljóst að aðilar sem hygðust taka að sér verkið þyrftu að uppfylla kröfur sem gerðar voru til bifreiða eins og aðrir. Eðlilegt hafi verið að sveitarfélagið vildi fá upplýsingar um núverandi bifreiðaeign í ljósi reglna sem gilda áttu um aksturinn ef bjóðandi ætlaði að nýta viðkomandi bifreið. Slíka bifreið hefði einnig mögulega þurft að aðlaga fyrir skólaakstur. Aðili sem ekki hafi átt bifreið fyrir hafi hins vegar getað hagað kaupum á bifreið miðað við þær kröfur sem útboðslýsingin hafi vísað til. Þá hafi það ekki haft nein áhrif á gildi tilboðsins að einungis einn vottur hafi vottað það. Vottun eigi að staðfesta rétta undirritun, en engin ágreiningur sé um þetta atriði í málinu.

Snow Dogs ehf. byggir á því að kærufrestur hafi verið liðinn við móttöku kæru. Strax á opnunarfundi 8. maí 2018 hafi verið ljóst að fyrirtækið hafi ætlað að kaupa bíl til að sinna akstrinum ef tilboðum þeirra yrði tekið. Kærandi hafi engar athugasemdir gert við það. Í kjölfar útboðsins hafi fyrirtækið keypt nýja bifreið sem sé skráður skólabíll með öllum nauðsynlegum merkingum og öryggiskröfum. Þá sé fyrirtækið fjárhagslega sterkt og ekki í neinum vanskilum. Við verksamning hafi öll leyfi til fólksflutninga verið fyrir hendi ásamt tveimur bifreiðum.

IV

Í máli þessu verður að miða við að varnaraðili hafi með hinu kærða útboði stefnt að gerð þjónustusamnings í skilningi 4. mgr. 4. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup. Á þeim tíma sem útboðið fór fram nam viðmiðunarfjárhæð vegna skyldu sveitarfélaga til útboðs á þjónustusamningum á Evrópska efnahagssvæðinu samkvæmt 4. mgr. 23. gr. laganna og reglugerð nr. 178/2018 um auglýsingu innkaupa á útboðsvef, viðmiðunarfjárhæðir vegna opinberra innkaupa og innkaup samkvæmt samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) um opinber innkaup 28.752.100 krónum. Þá kemur fram í 1. mgr. 25. gr. laganna að við útreikning á áætluðu virði samnings skuli miða við þá heildarfjárhæð sem kaupandi mun greiða fyrir innkaup, að frátöldum virðisaukaskatti, að teknu tilliti til hvers konar valfrjálsra ákvæða og hugsanlegrar endurnýjunar samnings sem skýrt er kveðið á um í útboðsgögnum. Samkvæmt 3. mgr. sömu greinar skal útreikningur miðast við þann tíma þegar útboðsgögn eru send til opinberrar birtingar.

Í hinu kærða útboði var óskað tilboða í tvær nánar tilgreindar akstursleiðir og var gert ráð fyrir að um aksturinn yrði gerður samningur til þriggja ára sem þó skyldi heimilt að endurskoða eða segja upp með tilteknum hætti, eins og áður hefur verið rakið. Þá kom fram í útboðsgögnum að varnaraðili áskildi sér rétt til að kaupa annan akstur í þágu skólans af tilboðsgjöfum, enda skyldi sérstaklega samið um einingaverð. Kærunefnd útboðsmála óskaði eftir nánari skýringum varnaraðila á því hvernig verðmæti framangreinds samnings hefði verið metið þegar til útboðsins var stofnað. Af svörum varnaraðila verður ráðið að hann hafi horft til raunkostnaðar síðastliðins árs vegna skólaakstur fyrir sveitarfélagið við mat á virði fyrirhugaðs samnings. Af yfirliti varnaraðila yfir þennan kostnað fyrir árið 2017 verður ráðið að heildarkostnaður við skólaakstur fyrir sveitarfélagið það ár hafi numið samtals rétt ríflega níu milljónum króna og hafði þá verið tekið tillit annars aksturs í þágu skólans en aksturs á þeim tveimur akstursleiðum sem boðnar voru út. Fjárhæð þeirra tilboða sem bárust í útboðinu gefa ekki sérstakt tilefni til að draga þetta mat varnaraðila í efa. Með hliðsjón af þessum upplýsingum varnaraðila telur kærunefnd útboðsmála rétt að miða við að virði þess samnings sem boðinn var út með hinu kærða útboði, að teknu tilliti til þriggja ára samningstíma og kostnaðar við annan akstur en á þeim tveimur akstursleiðum sem boðnar voru út, hafi numið rétt ríflega 27 milljónum króna. Samkvæmt því verður að miða við að virði innkaupanna hafi ekki náð viðmiðunarfjárhæð vegna útboðsskyldu sveitarfélaga samkvæmt fyrrgreindrar 4. mgr. 23. gr. laga um opinber innkaup og reglugerðar nr. 178/2018. Þar sem kærunefnd útboðsmála fjallar einungis um lögmæti innkaupa sem falla undir gildissvið laga um opinber innkaup fellur kæruefnið utan úrskurðarvalds nefndarinnar. Verður af þessari ástæðu að vísa málinu frá nefndinni.

Úrskurðarorð:

Kröfum kæranda, Gísla Rafns Jónssonar, vegna útboðs varnaraðila, sveitarfélagsins Skútustaðahrepps, um skólaakstur fyrir Reykjahlíðarskóla í Skútustaðarhreppi, er vísað frá kærunefnd útboðsmála.

Reykjavík, 9. nóvember 2018.

Skúli Magnússon

Auður Finnbogadóttir

Ásgerður RagnarsdóttirÚrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira