Hoppa yfir valmynd

Kæra á málsmeðferð Embættis landlæknis

Úrskurður heilbrigðisráðuneytisins nr. 8/2019

Mánudaginn 9. september 2019 var í heilbrigðisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R

Með tölvubréfi, mótt. 3. maí 2019, kærði A, hér eftir nefndur kærandi, málsmeðferð Embættis landlæknis í máli sínu sem hafi verið í meðförum hjá embættinu í sex til sjö ár.

I. Málsmeðferð ráðuneytisins.

Með bréfi ráðuneytisins, dags. 9. maí 2019, var óskað eftir umsögn Embættis landlæknis um kæruna og öllum gögnum varðandi málið. Með erindi embættisins, dags. 4. júní 2019, var óskað eftir fresti til að skila umsögn og var hann veittur til 18. júní 2019. Kærandi var upplýstur um frestinn með bréfi sama dag.

Hinn 24. júní 2019 barst umsögn Embættis landlæknis, dags. 18. júní 2019, ásamt gögnum málsins og voru þau gögn send kæranda til umsagnar með bréfi ráðuneytisins, dags. 25. júní 2019. Hinn 27. júní 2019 bárust athugasemdir með tölvupósti frá kæranda sem voru sendar Embætti landlæknis til kynningar með bréfi ráðuneytisins, dags. 28. júní 2019.

Þá var kæranda tilkynnt með bréfi ráðuneytisins, dags. 9. júlí 2019, að fyrirsjáanlegar væru tafir á afgreiðslu máls hans. Jafnframt var kæranda, samhliða rekstri málsins, reglulega veittar upplýsingar um stöðu málsins hjá ráðuneytinu.

II. Málsástæður og lagarök kæranda.

Í kæru kemur meðal annars fram að kærandi vilji kæra málsmeðferð Embættis landlæknis í máli sínu sem hann kveður hafa verið í meðförum embættisins í sex til sjö ár og meðal annars verið í meðförum velferðarráðuneytisins og umboðsmanns Alþingis.

Kærandi telur hafa hallað á sig í þessu máli og sýnist fljótt á litið að ýmsar reglur hafi verið brotnar, meðal annars um málsmeðferðartíma. Kæranda telji að hanskinn hafi verið tekinn upp fyrir lækna og starfsfólk á Landspítala og að samtrygging lækna hjá Embætti landlæknis og Landspítala sé mikil. Málið snerti meðal annars forstjóra Landspítalans og þess vegna telji kærandi að málið hafi verið þaggað niður í meðförum Embættis landlæknis.

Daginn áður en kærandi sendi ráðuneytinu kæru sína hafi hann fengið álit í hendurnar frá Embætti landlæknis. Óháður sérfræðingur hafi verið fenginn til að fara yfir mál kæranda, en hann sé starfandi yfirlæknir á Akureyri. Við það geri kærandi athugasemdir. Kærandi hafi ekki fengið að vita hver þessi sérfræðingur hafi verið fyrr en lokaniðurstaða hans hafi legið fyrir. Kærandi undrast það að Embætti landlæknis hafi ekki tekið álit sérfræðingsins gilt í meðförum málsins, en hann hafi komist að þeirri niðurstöðu að brotið hafi verið á kæranda á margvíslegan hátt og að hann hafi upplifað áfallastreitu eftir veru sína á Landspítalanum.

Kærandi krefst þess að ráðuneytið rannsaki málið og komi honum til varnar. Kærandi vill kæra seinagang, tillitsleysi, samtryggingu og óvönduð vinnubrögð hjá Embætti landlæknis gagnvart sér. Jafnframt krefst kærandi þess að málið verði unnið betur og að það verði aftur tekið upp. Óháði sérfræðingurinn hafi komist að þeirri niðurstöðu að kærandi hafi haft rétt fyrir sér í meginatriðum.

III. Málsástæður og lagarök Embættis landlæknis.

Í umsögn Embættis landlæknis, dags. 18. júní 2019, er reifuð meðferð þessa máls og á það bent að kæran byggi á 6. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007, sem kveði á um að heimilt sé að kæra málsmeðferð landlæknis á kvörtun á grundvelli ákvæða 12. gr. til ráðherra.

Í umsögninni kemur fram að 25. október 2017 hafi kærandi lagt fram formlega kvörtun á grundvelli 2. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu. Kvörtunin hafi snúið að meintum mistökum, vanrækslu auk meintrar ótilhlýðilegrar framkomu heilbrigðisstarfsmanna á geðsviði Landspítala á árunum 2007–2010. Málinu hafi lokið með áliti landlæknis, dags. 26. apríl 2019.

Embætti landlæknis telur efni kærunnar vera tvíþætt, annars vegar snúi kæran að ákveðnum þáttum í málsmeðferð embættisins og hins vegar að efnislegri niðurstöðu landlæknis í kvörtunarmálinu.

Embættið áréttar að skv. 6. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu séu efnislegar niðurstöður landlæknis í kvörtunarmálum ekki kæranlegar til ráðherra. Hlutverk ráðuneytisins í máli þessu sé að endurskoða stjórnsýslulega málsmeðferð embættisins á kvörtuninni, en ekki að leggja mat á niðurstöðu eða læknisfræðilegt mat landlæknis. Embættið taki því ekki afstöðu til athugasemda kæranda varðandi efnislega niðurstöðu kvartanamálsins.

Hvað málsmeðferð varðar bendir Embætti landlæknis á að eftir að kvörtun barst hafi embættið óskað með bréfi, dags. 14. nóvember 2017, eftir greinargerð Landspítala auk afrita af gögnum er tengdust efni kvörtunar. Jafnframt hafi móttaka formlega verið staðfest og kærandi upplýstur um málsmeðferð kvartana með bréfi, dags. 1. desember 2017. Embætti landlæknis hafi sent kæranda greinargerðir og gögn sem bárust frá Landspítala til kynningar þann 27. desember 2017. Kærandi hafi gert athugasemdir við það sem fram kom í þeim greinargerðum og hafði Landspítali frest til 6. mars 2018 til að bregðast við þeim athugasemdum, en ekki bárust frekari athugasemdir frá spítalanum.

Embætti landlæknis leitaði eftir umsögn óháðs sérfræðings skv. 5. mgr. 12. gr. um landlækni og lýðheilsu, með bréfi dags. 4. apríl 2018. Líkt og fram komi í áliti landlæknis þá virðist sem bréfið hafi ekki borist hinum óháða sérfræðingi. Bresturinn á samskiptum hafi ekki uppgötvast fyrr en embættið ítrekaði beiðni sína um umsögn þann 9. júlí 2018. Hinn óháði sérfræðingur hafi kallað eftir frekari gögnum vegna málsins þann 25. júlí, sem embættið aflaði. Um þetta hafi kærandi verið upplýstur með bréfi, dags. 21. ágúst 2018. Eftir þetta tímamark ítrekaði landlæknir umbeðna umsögn nokkrum sinnum. Kærandi eða umboðsmaður hans hafi jafnframt verið upplýstir um tafirnar með tölvupóstum 5. og 18. október og 21. nóvember 2018, þar sem þær voru meðal annars útskýrðar nánar.

Umsögn óháðs sérfræðings, dags. 12. desember 2018, hafi verið send aðilum til kynningar þann 17. desember 2018 og þeim veittur fjögurra vikna frestur til að koma að frekari gögnum eða athugasemdum. Framkomnar athugasemdir voru framsendar á aðila málsins til kynningar og frestur til frekari athugasemda veittur með bréfi, dags. 15. og 18. janúar 2019. Frekari athugasemdir frá kæranda bárust embættinu þann 7. febrúar 2019 og degi síðar hafi hann óskað eftir auknum fresti til að skila inn gögnum. Frestur hafi verið veittur til 21. febrúar. Þegar téð gögn höfðu borist frá kæranda voru þau send aðilum til kynningar með bréfum, dags. 14. mars 2019, en frestur til athugasemda voru tvær vikur. Í millitíðinni hafi kærandi óskað eftir upplýsingum um stöðu máls með tölvupósti þann 18. mars 2019 og var honum svarað degi síðar að málið sé í ferli og að álit muni liggja fyrir á næstu vikum. Ekki komu frekari athugasemdir innan þess frests og var því gagnaöflun í málinu lokið.

Líkt og fyrr greinir þá lauk Embætti landlæknis málinu með áliti sínu, dags. 26. apríl 2019. Í álitinu er efni kvörtunar, málsmeðferð og aðdragandi að niðurstöðu máls rakin enn ítarlegar og vísast um það til meðfylgjandi gagna með umsögninni.

Hvað varðar athugasemdir kæranda við málsmeðferð kvörtunarinnar þá er málsmeðferðartími kvartana hjá landlækni því miður oft nokkuð langur enda skylda embættisins að rannsaka mál eins vel og kostur er áður en komist er að niðurstöðu. Samkvæmt málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, ber að kynna aðilum máls framkomin gögn í málinu og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum sínum og gögnum innan sanngjarns frests. Eðli málsins samkvæmt tekur þetta ferli alltaf tiltekinn tíma. Þá telur landlæknir að viðhlítandi skýringar hafi verið á því að nokkur tími hafi liðið frá beiðni um umsögn óháðs sérfræðings þar til hún lá fyrir.

Varðandi athugasemd kæranda um að honum hafi ekki verið greint frá því fyrirfram til hvaða óháða sérfræðings var leitað bendir Embætti landlæknis á það að hvorki reglur stjórnsýsluréttarins né 5. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu geri slíkan áskilnað við rannsókn mála. Þess háttar verklag hafi ekki tíðkast og óljóst sé hvaða tilgangi það gæti mögulega þjónað. Metur landlæknir það svo að með þessu fyrirkomulagi sé óhlutdrægni óháðs sérfræðings betur tryggð. Óháðir sérfræðingar sem embættið leitar til eru vandlega valdir út frá sérþekkingu sinni auk þess sem vanhæfissjónarmið koma ávallt til skoðunar. Engar athugasemdir hafa komið fram frá aðilum máls um að sérfræðingurinn í þessu máli hafi verið vanhæfur til að veita umbeðna umsögn. Aðilar hafi fengið ítrekuð tækifæri til að koma að sjónarmiðum sínum og sé því rannsóknarskyldu fullnægt og andmælaréttur að fullu virtur. Kæranda og öðrum aðilum var kynnt niðurstaða sérfræðingsins og þeim gefinn rúmur frestur til að koma að frekari gögnum og/eða athugasemdum.

Kvörtunarmál kæranda var í hefðbundnum farvegi hjá embættinu frá 25. október 2017, allt þar til álit landlæknis lá fyrir og var hann upplýstur um stöðu málsins og framgang á því tímabili í samræmi við málshraðareglu stjórnsýslulaga.

Með vísan til framangreinds er það mat landlæknis að málsmeðferð embættisins hafi verið fyllilega í samræmi við kröfur 5. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu nr. 41/2007, sbr. ákvæði stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, sem og óskráðar meginreglur stjórnsýsluréttarins.

IV. Athugasemdir kæranda

Í athugasemdum kæranda frá 27. júní 2019 við umsögn Embættis landlæknis kemur meðal annars fram að hann geri margar og alvarlegar athugasemdir við margt er fram hafi komið í umsögn Embættis landlæknis, en honum finnist hann ekki hafa notið réttlætis eða sanngirni í máli þessu.

Í fyrsta lagi geri kærandi athugasemdir við það að Embætti landlæknis sé eini aðilinn sem hann geti kvartað til með efnisleg atriði þessa máls. Kærandi geri sér grein fyrir því að hann geti stefnt í þessu tilviki geðlæknunum þremur sem hann kvartaði undan fyrir héraðsdóm, en það sé kostnaðarsamt. Það að kærandi fái ekki tækifæri til að kæra efnislegar niðurstöður Embættis landlæknis í þessu máli, til dæmis til nefndar sem sæi um slík mál eða æðra stjórnvalds, það finnist kæranda forkastanlegt. Í því skyni velti kærandi fyrir sér hvaða hagsmuni sé verið að verja og því hvort geðlæknarnir þrír séu ekki færir eða verðugir þess að svara þeim alvarlegu ábendingum sem á vinnubrögð þeirra séu gerðar.

Óháði sérfræðingurinn sem hafi verið fenginn af Embætti landlæknis til að gera álit á máli kæranda hafi komist að ákveðinni niðurstöðu í þessu máli og hafi gert miklar og alvarlegar athugasemdir við meðferð kæranda á Landspítala. Sérfræðingurinn hafi komist að því að sú meðferð sem kærandi hafi fengið á þeim tíma hafi bæði verið niðurlægjandi og til þess fallin að valda kæranda enn meira heilsutjóni. Hann hafi einnig sagt að þessi meðferð kæranda á sínum tíma hafi orðið til þess að valda hjá honum auknum kvíða og áfallastreitueinkennum.

Kærandi telji það styðja mál sitt að lögfræðingur hans hafi bent Embætti landlæknis á það í greinargerðum sínum í máli kæranda að ýmis alþjóðleg ákvæði hafi verið brotin á kæranda.

Kærandi bendir á að frá árunum 2009–2010 hafi hann ekki fengið neina þjónustu á geðsviði Landspítalans. Kærandi hafi ítrekað reynt að sækja þangað þjónustu, en án árangurs fram til dagsins í dag. Kærandi hafi einnig lítið sem ekkert sótt bráðamóttöku í Fossvogi vegna þess að framganga starfsfólks þar við kæranda sé þannig að hann kæri sig ekki um slíka þjónustu. Kærandi hafi sent bréf og aðrar greinar, meðal annars til Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar og fleiri aðila úti í heimi, og bent á það að á Íslandi fái ekki allir aðstoð og hjálp sem þess þurfa. Kæranda hafi verið svarað og það ástand sem hann hafi þurft að þola sé fordæmt í þeim svörum. Að mati kæranda hafi íslensk heilbrigðisyfirvöld fengið falleinkun hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni.

Loks biður kærandi um að gætt sé að málefnalegum og réttlátum vinnubrögðum í þessu máli. Það geti ekki átt að vera þannig að á kæranda sé hallað í þessu máli. Í blálokin bendir kærandi á það að hann eigi rétt á því að leita atbeina lögreglu og þar til bærra aðila sjái hann þörf á slíkri rannsókn.

V. Niðurstaða.

Mál þetta lýtur að málsmeðferð Embættis landlæknis vegna kvörtunar kæranda, dags. 24. október 2017, sbr. 2. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007, vegna meintra mistaka og vanrækslu auk ótilhlýðilegrar framkomu heilbrigðisstarfsmanna sem hann telji að hafi átt sér stað á geðsviði Landspítala á árunum 2007–2010. Málinu lauk með áliti landlæknis, dags. 26. apríl 2019.

Ráðuneytið áréttar að skv. 6. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu eru efnislegar niðurstöður landlæknis í kvörtunarmálum ekki kæranlegar til ráðherra. Hlutverk ráðuneytisins í máli þessu er að endurskoða stjórnsýslulega málsmeðferð embættisins á kvörtuninni, en ekki að leggja mat á niðurstöðu eða læknisfræðilegt mat landlæknis. Ráðuneytið taki því ekki afstöðu til athugasemda kæranda varðandi efnislega niðurstöðu kvörtunarmálsins.

Hvað málsmeðferð Embætti landlæknis varðar, eftir að kvörtun barst, var óskað eftir greinargerð Landspítala með bréfi, dags. 14. nóvember 2017, auk afrita af gögnum er tengdust efni kvörtunar. Jafnframt hafi móttaka formlega verið staðfest og kærandi upplýstur um málsmeðferð kvartana með bréfi, dags. 1. desember 2017. Embætti landlæknis hafi sent kæranda greinargerðir og gögn sem bárust frá Landspítala til kynningar þann 27. desember 2017. Kærandi hafi gert athugasemdir við það sem fram kom í þeim greinargerðum og hafði Landspítali verið gefinn kostur á að bregðast við þeim, en ekki hafi borist frekari athugasemdir frá spítalanum.

Embætti landlæknis leitaði eftir umsögn óháðs sérfræðings skv. 5. mgr. 12. gr. um landlækni og lýðheilsu með bréfi, dags. 4. apríl 2018. Líkt og fram kemur í áliti landlæknis þá virðist sem bréfið hafi ekki borist hinum óháða sérfræðingi. Það hafi ekki uppgötvast fyrr en embættið ítrekaði beiðni sína um umsögn þann 9. júlí 2018. Hinn óháði sérfræðingur hafi kallað eftir frekari gögnum vegna málsins þann 25. júlí, sem embættið aflaði. Um þetta hafi kærandi verið upplýstur með bréfi, dags. 21. ágúst 2018. Eftir þetta tímamark ítrekaði landlæknir umbeðna umsögn nokkrum sinnum. Kærandi eða umboðsmaður hans hafi jafnframt verið upplýstir um tafirnar með tölvupóstum 5. og 18. október og 21. nóvember 2018, þar sem þær voru meðal annars útskýrðar nánar.

Umsögn óháðs sérfræðings, dags. 12. desember 2018, hafi verið send aðilum til kynningar þann 17. desember 2018 og þeim veittur fjögurra vikna frestur til að koma að frekari gögnum eða athugasemdum. Framkomnar athugasemdir voru framsendar á aðila málsins til kynningar og frestur til frekari athugasemda veittur með bréfi, dags. 15. og 18. janúar 2019. Frekari athugasemdir frá kæranda bárust embættinu þann 7. febrúar 2019 og degi síðar hafi hann óskað eftir auknum fresti til að skila inn gögnum. Frestur hafi verið veittur til 21. febrúar. Þegar téð gögn höfðu borist frá kæranda voru þau send aðilum til kynningar með bréfum, dags. 14. mars 2019, en frestur til athugasemda voru tvær vikur. Í millitíðinni hafi kærandi óskað eftir upplýsingum um stöðu máls með tölvupósti þann 18. mars 2019 og var honum svarað degi síðar að málið sé í ferli og að álit muni liggja fyrir á næstu vikum. Ekki komu frekari athugasemdir innan þess frests og var því gagnaöflun í málinu lokið.

Ráðuneytið getur fyrir sitt leyti fallist á, hvað varðar athugasemd kæranda um að honum hafi ekki verið greint frá því fyrirfram til hvaða óháða sérfræðings var leitað, með Embætti landlæknis að hvorki sé í reglum stjórnsýsluréttarins né 5. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu gerður slíkur áskilnaður við rannsókn mála. Þess háttar verklag hafi ekki tíðkast. Tekur ráðuneytið undir það mat landlæknis að með þessu fyrirkomulagi sé óhlutdrægni óháðs sérfræðings betur tryggð. Óháðir sérfræðingar sem embættið leitar til séu vandlega valdir út frá sérþekkingu sinni auk þess sem vanhæfissjónarmið komi ávallt til skoðunar. Engar athugasemdir hafa komið fram frá aðilum máls um að sérfræðingurinn í þessu máli hafi verið vanhæfur til að veita umbeðna umsögn. Aðilar hafi fengið ítrekuð tækifæri til að koma að sjónarmiðum sínum og sé því að mati ráðuneytisins rannsóknarskyldu fullnægt og andmælaréttur að fullu virtur. Kæranda og öðrum aðilum var kynnt niðurstaða sérfræðingsins og þeim gefinn rúmur frestur til að koma að frekari gögnum og/eða athugasemdum.

Kvörtunarmál kæranda var að mati ráðuneytisins í hefðbundnum farvegi hjá embættinu frá 25. október 2017, allt þar til álit landlæknis lá fyrir þann 26. apríl 2019 og var hann upplýstur um stöðu málsins og framgang á því tímabili í samræmi við málshraðareglu stjórnsýslulaga. Bagalegt sé að umsagnaraðili hafi ekki fengið bréf landlæknis, dags. 4. apríl 2018, og það ekki uppgötvast fyrr en landlæknir hafi ítrekað beiðni sína með bréfi, dags. 9. júlí 2018. Er hér um að ræða tæpa þrjá mánuði. Ekki var að mati ráðuneytisins um fyrirsjáanlega töf að ræða og viðhlítandi skýringar hafi verið gefnar á töfinni. Að mati ráðuneytisins hefði þó mátt ítreka erindið fyrr.

Mörg mál eru þess eðlis að úrlausn þeirra tekur óhjákvæmilega nokkurn tíma þannig að mál sé afgreitt svo fljótt sem unnt er eins og kveðið er á um í 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga, en sé jafnframt rannsakað á viðhlítandi hátt áður en ákvörðun er tekin. Á þetta einkum við um mál þar sem afla þarf umsagnar annarra aðila og gagna. Að mati ráðuneytisins verður ekki talið að töfin á samskiptum landlæknis og hins óháða sérfræðings hafi haft alvarlegar afleiðingar í för með sér og telur því að ekki sé um brot á málsmeðferðarreglu 9. gr. stjórnsýslulaga að ræða.

Með vísan framanritaðs og fyrirliggjandi gagna varðandi málmeðferð Embættis landlæknis í máli þessu verður að mati ráðuneytisins hvorki talið að brotnar hafi verið málsmeðferðarreglur 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007, né málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, varðandi málsmeðferð Embættis landlæknis, er hér með hafnað.

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira