Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd útboðsmála

Mál nr. 21/2018. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála.

Með kæru 2. nóvember 2018 kærði Líftækni ehf. útboð Ríkiskaupa fyrir hönd Landspítala nr. V-20716 „Automated Hematology Analyzer“. Kærandi gerir aðallega þá kröfu að felldar verði úr gildi ákvarðanir varnaraðila Ríkiskaupa og Landspítala (hér eftir vísað til sem varnaraðila) um að vísa frá tilboði kæranda og að velja tilboð Lyra ehf. í hinu kærða útboði og lagt verði fyrir varnaraðila að auglýsa útboðið að nýju. Þá er gerð krafa um að kærunefnd útboðsmála láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart kæranda og að varnaraðilum verði gert að greiða kæranda málskostnað. Í þessum þætti málsins tekur nefndin afstöðu til kröfu kæranda um stöðvun samningsgerðar, en úrlausn málsins bíður að öðru leyti endanlegs úrskurðar.

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 10. desember 2018
í máli nr. 21/2018:
Líftækni ehf.
gegn
Ríkiskaupum
Landspítala
og Lyra ehf.

Með kæru 2. nóvember 2018 kærði Líftækni ehf. útboð Ríkiskaupa fyrir hönd Landspítala nr. V-20716 „Automated Hematology Analyzer“. Kærandi gerir aðallega þá kröfu að felldar verði úr gildi ákvarðanir varnaraðila Ríkiskaupa og Landspítala (hér eftir vísað til sem varnaraðila) um að vísa frá tilboði kæranda og að velja tilboð Lyra ehf. í hinu kærða útboði og lagt verði fyrir varnaraðila að auglýsa útboðið að nýju. Þá er gerð krafa um að kærunefnd útboðsmála láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart kæranda og að varnaraðilum verði gert að greiða kæranda málskostnað. Í þessum þætti málsins tekur nefndin afstöðu til kröfu kæranda um stöðvun samningsgerðar, en úrlausn málsins bíður að öðru leyti endanlegs úrskurðar.

Í maí 2018 auglýstu varnaraðilar útboð nr. V-20716 „Automated Hematology Analyzer“ þar sem leitað var tilboða í sjálfvirka blóðkornateljara. Samkvæmt útboðsgögnum skyldu bjóðendur uppfylla ýmsar kröfur til þess að koma til greina sem samningsaðilar. Meðal lágmarkskrafna var að boðið tæki gæti framkvæmt frumutalningu í svonefndum CAPD vökva. Í tilboðsblaði sínu hélt kærandi því fram að tækið sem hann bauð gæti framkvæmt frumutalningu í CAPD vökva. Í gögnum sem fylgdu tilboðinu var meðal annars að finna leiðbeiningar framleiðanda tækisins (operation manual) og í þeim kom fram að ekki væri mælt með frumutalningu í CAPD vökva.

Opnunarfundur var 13. júní 2018 og skiluðu þrír bjóðendur tilboði, þeirra á meðal kærandi og Lyra ehf. Hinn 20. ágúst 2018 óskuðu varnaraðilar eftir því að kærandi svaraði fimm spurningum um þær lágmarkskröfur sem gerðar voru í útboðinu. Kærandi svaraði spurningunum daginn eftir. Hinn 15. október 2018 tilkynntu varnaraðilar að ákveðið hefði verið að vísa tilboði kæranda frá útboðinu þar sem það uppfyllti ekki lágmarkskröfur útboðsins að því er varðaði skilyrðið um frumutalningu í CAPD vökva. Hinn 16. október 2018 sendi kærandi varnaraðilum ný gögn, staðfestingu frá framleiðanda tækisins, þar sem fram kom að hið boðna tæki uppfyllti umrætt skilyrði. Varnaraðilar tilkynntu kæranda 18. október 2018 að ekki væri hægt að taka til greina ný gögn og fyrri ákvörðun um frávísun tilboðsins stæði.

Kærandi telur að varnaraðilar hafi ranglega vísað tilboðinu frá enda hafi þeir óskað eftir upplýsingum um tiltekin atriði og svör við þeim hafi verið veitt. Frávísun varnaraðila hafi svo verið á grundvelli annarra atriða án þess að óskað hafi verið eftir skýringum á þeim. Varnaraðilum hefði verið rétt að óska eftir skýringum frá kæranda um frumutalningu í CAPD vökva áður en ákvörðun yrði tekin um að vísa tilboðinu frá. Varnaraðilar telja að rétt hafi verið staðið að mati á lágmarkskröfum útboðsins. Kærandi hafi gert mistök við tilboðsgerð sína sem séu ekki þess eðlis að kærandi geti lagfært þau á seinni stigum.

Niðurstaða

Það er grunnregla útboðsréttar að bjóðandi beri ábyrgð á því að tilboð hans fullnægi útboðsskilmálum og tilboð sé í samræmi við útboðsskilmála, sbr. 82. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup. Samkvæmt 5. mgr. 66. gr. laganna er kaupanda heimilt að fara fram á að bjóðandi leggi fram, bæti við, skýri eða fullgeri upplýsingar eða gögn innan hæfilegs frests þegar upplýsingar eða gögn, sem bjóðandi leggur fram, virðast vera ófullkomin eða innihalda villur eða ef tiltekin skjöl skortir. Í máli þessu er ekki sú staða uppi að skort hafi gögn með tilboði kæranda eða misræmi hafi verið í tilboðinu sem unnt var að leiðrétta með skýringum bjóðanda. Þvert á móti báru fylgigögn tilboðsins með sér að umrætt tæki uppfyllti ekki lágmarkskröfur útboðsskilmála. Við þessar aðstæður telur kærunefnd útboðsmála að varnaraðilum hafi verið rétt að leggja til grundvallar þá lýsingu tækisins, sem fram kom í leiðbeiningum frá framleiðanda þess, án þess gefa kæranda kost á að afla frekari gagna til stuðnings tilboði sínu. Hefur kærandi þannig ekki leitt verulegar líkur að broti gegn lögum um opinber innkaup sem leitt geti til ógildis ákvörðunar varnaraðila um val á tilboðum. Verður því að hafna kröfum kæranda um að samningsgerð verði stöðvuð samkvæmt 1. mgr. 110. gr. laga um opinber innkaup.

Ákvörðunarorð:

Kröfu kæranda, Líftækni ehf., um stöðvun samningsgerðar varnaraðila, Ríkiskaupa fyrir hönd Landspítala, við Lyru ehf. um sjálfvirka blóðkornateljara samkvæmt útboði nr. V-20716 „Automated Hematology Analyzer“, er hafnað.

Reykjavík, 10. desember 2018.

Skúli Magnússon

Ásgerður RagnarsdóttirÚrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira