Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 412/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 412/2021

Fimmtudaginn 4. nóvember 2021

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 12. ágúst 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 11. ágúst 2021, um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hans.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 27. janúar 2021 og var umsóknin samþykkt 22. febrúar 2021. Þann 25. júní 2021 var kærandi boðaður í vinnustofu á vegum Vinnumálastofnunar, sem fara átti fram 28. júní 2021, til að aðstoða við gerð ferilskrár. Tekið var fram að um skyldumætingu væri að ræða og að ótilkynnt forföll gætu valdið stöðvun greiðslna. Kærandi mætti ekki í vinnustofuna og með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 8. júlí 2021, var óskað eftir skriflegri afstöðu hans vegna þessa. Skýringar bárust frá kæranda 30. júlí 2021. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 11. ágúst 2021, var kæranda tilkynnt að greiðslur atvinnuleysisbóta til hans hefðu verið stöðvaðar á grundvelli 1. mgr. 58. gr., sbr. 4. mgr. 61. gr. laga nr. 54/2006. 

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 12. ágúst 2021. Með bréfi, dags. 13. ágúst 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 17. september 2021. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 21. september 2021, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann eigi rétt á skjóli þar sem hann sé í fullri dagskrá hjá VIRK þar sem verið sé að koma honum á tímabundinn lífeyri hjá Tryggingastofnun ríkisins og það hafi Vinnumálastofnun vitað. Kærandi sé ekki alltaf með netsamband og hafi ekki orðið var við skilaboð Vinnumálastofnunar um þennan fund. Kærandi hafi alla tíð verið á sjó og nú sé verið að hjálpa honum að komast aftur á vinnumarkaðinn eftir að hafa verið í neyslu. Kærandi sé í litlu leiguhúsnæði og þurfi að borga 125.000 kr. í leigu. Hann þurfi að eiga fyrir mat og myndi aldrei leika sér að því að mæta ekki eða gefa ekki skýringu á mætingu hjá Vinnumálastofnun bara til þess eins að missa laun. Að mati kæranda sé þetta ekki sanngjörn ákvörðun.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að þann 14. júní 2021 hafi kæranda verið sendur tölvupóstur með yfirskriftinni ,,Áríðandi. Vinnustofa í vændum ef þig vantar aðstoð við að gera ferilskrá.“ Í umræddum tölvupósti hafi kæranda verið greint frá því að Vinnumálastofnun hefði tekið eftir því að hann væri ekki með vistaða ferilskrá inni á ,,Mínum síðum“ hjá Vinnumálastofnun. Kæranda hafi jafnframt verið tilkynnt að ef ferilskrá hans yrði ekki vistuð inn á ,,Mínum síðum“ myndi hann fljótlega fá boðun um að mæta í vinnustofu til þess að fá aðstoð við að búa til ferilskrá. Þá hafi kæranda verið send smáskilaboð til að vekja athygli á umræddum tölvupósti þann 14. júní 2021.

Þann 25. júní 2021 hafi kæranda verið tilkynnt að hann væri boðaður í vinnustofu á vegum Vinnumálastofnunar klukkan 10 þann 28. júní. Ástæða þess að kærandi hafi verið boðaður í umrædda vinnustofu væri sú að hann væri ekki með ferilskrá tengda við umsókn sína um atvinnuleysisbætur en í umræddri vinnustofu fengi hann aðstoð við gerð ferilskrár. Í tölvupósti þessum hafi sérstaklega verið áréttað að skyldumæting væri í vinnustofuna og að öll forföll bæri að tilkynna án ástæðulausrar tafar. Athygli kæranda hafi jafnframt verið vakin á því að ótilkynnt forföll kynnu að valda stöðvun greiðslna eftir viðeigandi ákvæðum laga um atvinnuleysistryggingar. Kæranda hafi að auki verið send smáskilaboð til að vekja athygli á umræddum tölvupósti þann 25. júní 2021. Þann 28. júní 2021 hafi Greiðslustofu Vinnumálastofnunar borist tilkynning þess efnis að kærandi hefði ekki mætt í boðaða vinnustofu. Þá höfðu engin forföll verið boðuð. Með erindi, dags. 8. júlí 2021, hafi kæranda verið boðið að skila skriflegum skýringum á ástæðum höfnunar. Athygli kæranda hafi jafnframt verið vakin á því að hafni atvinnuleitandi þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum án gildra ástæðna gæti hann þurft að sæta biðtíma eftir greiðslu atvinnuleysistrygginga samkvæmt 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þá hafi verið áréttað að skýringar kæranda þyrftu að berast innan sjö virkra daga frá dagsetningu erindisins. Skýringar kæranda hafi ekki borist Vinnumálastofnun fyrr en þann 30. júlí 2021. Kærandi hafi þar greint frá því að hann væri í starfsendurhæfingu hjá VIRK og að hann hafi tekið vinnu úti á sjó nokkra daga í júlímánuði. Með erindi, dags. 11. ágúst 2021, hafi kæranda verið tilkynnt að greiðslur atvinnuleysistrygginga til hans hefðu verið stöðvaðar frá og með 11. ágúst 2021. Að mati Vinnumálastofnunar væru skýringar kæranda ekki gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar og að ákvörðunin væri tekin á grundvelli 1. mgr. 58. gr., sbr. 4. mgr. 61. g. laga um atvinnuleysistryggingar. Þann 11. ágúst 2021 hafi kærandi hringt í ráðgjafa Vinnumálastofnunar og óskað eftir skýringum á framangreindri ákvörðun Vinnumálastofnunar. Kærandi hafi skýrt nánar frá aðstæðum sínum, hann hafi verið við vinnu úti á sjó þegar umrædd vinnustofa hafi farið fram og hann væri jafnframt í starfsendurhæfingu hjá VIRK.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir. Ágreiningur í máli þessu snúi að því hvort rétt hafi verið að beita kæranda viðurlögum á grundvelli 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar vegna fjarveru í framangreinda vinnustofu.

Í 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið á um almenn skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna. Í a-lið 13. gr. sé kveðið á um það skilyrði að atvinnuleitandi skuli vera í virkri atvinnuleit. Samkvæmt h-lið 14. gr. felist virk atvinnuleit meðal annars í því að hafa vilja og getu til að taka þátt í þeim vinnumarkaðsaðgerðum sem standi til boða. Í 13. gr. laga nr. 55/2006 um vinnumarkaðsaðgerðir komi einnig fram skylda þess sem teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar til að taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum sem Vinnumálastofnun bjóði upp á. Ákvæðið sé svohljóðandi:

„Atvinnuleitandi skal fylgja eftir áætlun um atvinnuleit og þátttöku í viðeigandi vinnumarkaðsúrræðum skv. 11. gr. og gera það sem í hans valdi stendur til að bæta vinnufærni sína til þess að verða virkur þátttakandi á vinnumarkaði. Þar á meðal skal atvinnuleitandi ávallt mæta í viðtöl til ráðgjafa Vinnumálastofnunar skv. 14. gr. og taka þátt í þeim vinnumarkaðsúrræðum er standa honum til boða. Atvinnuleitandi skal jafnframt tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti án ástæðulausrar tafar.“

Atvinnuleitendum beri, samkvæmt 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunni að verða á vinnufærni eða aðstæðum að öðru leyti samkvæmt 1. mgr. sömu greinar, þar á meðal um tilfallandi veikindi og fjarveru á boðaðan fund, án ástæðulausrar tafar. Fyrir liggi að kærandi hafi ekki tilkynnt Vinnumálastofnun um fjarveru sína í umrædda vinnustofu, þrátt fyrir að ítrekað hafi verið fyrir honum að stofnuninni þyrfti að berast tilkynning um forföll án ástæðulausrar tafar.

Samkvæmt 7. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar skuli sá sem teljist tryggður á grundvelli laganna og eftir að umsókn hans hafi verið samþykkt og á þeim tíma sem hann fái greiddar atvinnuleysisbætur eða sæti biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum, hafa reglulegt samband við Vinnumálastofnun eftir nánara fyrirkomulagi sem stofnunin ákveði. Þegar Vinnumálastofnun upplýsi umsækjanda um að stofnunin hafi samþykkt umsókn um atvinnuleysisbætur skuli hún jafnframt upplýsa hlutaðeigandi um með hvaða hætti stofnunin muni koma upplýsingum eða öðrum boðum til hans á meðan á atvinnuleit standi. Komi Vinnumálastofnun upplýsingum eða boðum til umsækjanda með þeim hætti sem stofnunin hafi tiltekið við hlutaðeigandi teljist upplýsingarnar eða boðin hafa borist með sannanlegum hætti samkvæmt lögunum.

Þegar kærandi hafi sótt um greiðslu atvinnuleysistrygginga með umsókn, dags. 27. janúar 2021, hafi honum verið greint frá því að Vinnumálastofnun myndi framvegis koma upplýsingum eða öðrum boðum til hans með rafrænum hætti. Jafnframt hafi athygli kæranda verið vakin á því að huga að því að allar tengiliðsupplýsingar, svo sem netfang og símanúmer, væru rétt skráðar þar sem stofnunin myndi til að mynda koma til með að senda honum mikilvægar upplýsingar í smáskilaboðum. Þegar Vinnumálastofnun hafi upplýst kæranda um að umsókn hans um atvinnuleysisbætur hefði verið samþykkt hafi kæranda jafnframt verið greint frá því að Vinnumálastofnun myndi framvegis koma skilaboðum áleiðis til hans á ,,Mínum síðum“ með tölvupósti eða smáskilaboðum.

Samkvæmt kerfum Vinnumálastofnunar hafi kæranda fyrst verið gert kunnugt um umrædda vinnustofu með tölvupósti á uppgefið netfang hans þann 25. júní 2021. Kæranda hafi jafnframt verið send smáskilaboð á uppgefið símanúmer hans til áréttingar á fyrrnefndum tölvupósti sama dag. Þá hafi kærandi verið boðaður í vinnustofuna þann 28. júní með sama hætti. Þær upplýsingar sem kærandi hafi fengið um umrædda vinnustofu hafi verið skýrar, til að mynda upplýsingar um stað og stund. Með vísan til 7. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hafi því allar nauðsynlegar upplýsingar um vinnustofuna borist kæranda með sannanlegum hætti. Að mati Vinnumálastofnunar séu skýringar þær sem kærandi beri fyrir sig í kæru er varði það að honum hafi ekki borist umræddar tilkynningar því ekki gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar.

Í 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segi svo:

„Sá sem hafnar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. lög um vinnumarkaðsaðgerðir, samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 4. mgr. Hið sama gildir þegar hinn tryggði mætir ekki til Vinnumálastofnunar á áður boðuðum tíma skv. 6. mgr. 9. gr., 3. mgr. 13. gr. eða 3. mgr. 18. gr.“

Í 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar komi skýrt fram að hafni einstaklingur þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum skuli hann sæta tveggja mánaða biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar sé efni 58. gr. laganna nánar skýrt. Þar segi að Vinnumálastofnun annist skipulag vinnumarkaðsaðgerða og að litið sé svo á að þeim sem tryggðir séu innan atvinnuleysistryggingakerfisins sé skylt að taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum. Þá sé jafnframt tekið fram í greinargerðinni að bregðist hinn tryggði þeirri skyldu leiði það til viðurlaga í formi biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

Eins og rakið hafi verið í málsatvikum hafi kærandi verið boðaður í vinnustofu í þeim tilgangi að aðstoða hann við gerð ferilskrár. Kæranda hafi fyrst verið gert kunnugt um umrædda vinnustofu með bæði tölvupósti og smáskilaboðum þann 25. júní 2021. Kærandi hafi verið formlega boðaður í vinnustofuna, bæði með tölvupósti og smáskilaboðum þann 28. júní. Þá hafi sérstaklega verið áréttað að mætingarskylda væri í vinnustofuna og að ótilkynnt forföll kynnu að valda stöðvun greiðslna. Þrátt fyrir það hafi kærandi hvorki mætt í umrædda vinnustofu né tilkynnt Vinnumálastofnun um forföll sín.

Með vísan til alls framangreinds sé það afstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli sæta viðurlögum á grundvelli 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og að þær skýringar sem kærandi hafi veitt stofnuninni og úrskurðarnefndinni vegna fjarveru sinnar í umrædda vinnustofu geti ekki talist gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar.

Vinnumálastofnun tekur fram að bótatímabil kæranda samkvæmt 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hafi hafist með umsókn, dags. 17. apríl 2016. Þann 13. maí 2018 hafi kærandi sætt biðtíma eftir atvinnuleysisbótum á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þá hafi kærandi verið beittur viðurlögum á grundvelli 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þann 6. nóvember 2018. Þegar kærandi hafi verið beittur viðurlögum samkvæmt 58. gr. laganna þann 11. ágúst 2021 hafi því komið til ítrekunaráhrifa fyrri viðurlaga hans, sbr. 61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi eigi því ekki rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann uppfylli skilyrði 31. gr. laganna, sbr. 4. mgr. 61. gr. laganna.

Með vísan til framangreindra sjónarmiða sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að réttilega hafi verið staðið að ákvörðun stofnunarinnar um að kærandi skyldi sæta viðurlögum á grundvelli 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda á grundvelli 1. mgr. 58. gr., sbr. 4. mgr. 61. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Í 58. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um viðurlög við því ef þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum er hafnað. Segir þar í 1. mgr. að sá sem hafnar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. lög um vinnumarkaðsaðgerðir, samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar eftir að hafa verið í atvinnuleit í að minnsta kosti fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur, skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samkvæmt VII. kafla laganna fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila. Hið sama gildir þegar hinn tryggði mætir ekki til Vinnumálastofnunar á áður boðuðum tíma samkvæmt 6. mgr. 9. gr., nú 7. mgr. 9. gr.,  3. mgr. 13. gr. eða 3. mgr. 18. gr. laganna.

Í athugasemdum greinargerðar við frumvarp það er varð að lögum nr. 54/2006 segir meðal annars um 1. mgr. 58. gr. að ekki séu tilgreindar sérstakar vinnumarkaðsaðgerðir sem geti valdið því að hinn tryggði þurfi að sæta viðurlögum samkvæmt ákvæðinu heldur eigi það við um allar aðgerðir sem hinum tryggða sé boðið að taka þátt í til að auka líkur sínar á að fá vinnu við hæfi. Gert sé ráð fyrir að Vinnumálastofnun annist skipulag vinnumarkaðsaðgerða og hinir tryggðu njóti faglegrar ráðgjafar sérfræðinga stofnunarinnar. Þannig megi ætla að þeim, sem eru tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins, verði boðin þátttaka í vinnumarkaðsúrræðum við hæfi en litið sé svo á að þeim sé skylt að taka þátt í slíkum úrræðum. Bregðist hinn tryggði þessum skyldum sínum leiði það til viðurlaga í formi biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

Í 7. mgr. 9. gr. kemur fram að sá sem telst tryggður á grundvelli laganna skuli eftir að umsókn hans hafi verið samþykkt og á þeim tíma sem hann fái greiddar atvinnuleysisbætur eða sæti biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum hafa reglulegt samband við Vinnumálastofnun eftir nánara fyrirkomulagi sem stofnunin ákveði. Þegar Vinnumálastofnun upplýsi umsækjanda um að stofnunin hafi samþykkt umsókn um atvinnuleysisbætur skuli hún jafnframt upplýsa hlutaðeigandi um með hvaða hætti stofnunin muni koma upplýsingum eða öðrum boðum til hans meðan á atvinnuleit hans standi. Komi Vinnumálastofnun upplýsingum eða boðum til umsækjanda með þeim hætti sem stofnunin hafi tiltekið við hlutaðeigandi teljast upplýsingarnar eða boðin hafa borist með sannanlegum hætti.

Samkvæmt gögnum málsins var kærandi þann 25. júní 2021 boðaður í vinnustofu á vegum Vinnumálastofnunar sem haldin var 28. júní 2021. Tekið var fram að um skyldumætingu væri að ræða og að öll forföll bæri að tilkynna án ástæðulausrar tafar. Þá var kæranda bent á að ótilkynnt forföll gætu valdið stöðvun greiðslna eftir viðeigandi ákvæðum laganna. Kærandi mætti ekki í vinnustofuna og hefur borið því við að hafa ekki orðið var við skilaboð Vinnumálastofnunar. Þá hefur kærandi vísað til þess að hann hafi verið í endurhæfingu hjá VIRK.

Í máli þessu liggur fyrir að kærandi var boðaður á vinnustofu á vegum Vinnumálastofnunar með sannanlegum hætti, með tölvupósti, smáskilaboðum og skilaboðum á „Mínum síðum“. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála hefur kærandi ekki fært fram gildar skýringar sem réttlæta að hann hafi ekki mætt í vinnustofuna. Í 1. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006 kemur skýrt fram að sá sem hafnar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum skuli sæta viðurlögum á grundvelli ákvæðisins.

Í 1. mgr. 61. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um ítrekunaráhrif fyrri viðurlagaákvarðana. Ákvæðið er svohljóðandi:

„Sá sem hefur sætt viðurlögum skv. 57.–59. gr. eða biðtíma skv. 54. eða 55. gr. og eitthvert þeirra tilvika sem þar greinir á sér stað að nýju á sama tímabili skv. 29. gr. skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að þremur mánuðum liðnum frá þeim degi er ákvörðun Vinnumálastofnunar um ítrekunaráhrif liggur fyrir enda hafi hann fengið greiddar atvinnuleysisbætur skemur en samtals 24 mánuði á sama tímabili skv. 29. gr. Hafi hinn tryggði fengið greiddar atvinnuleysisbætur í samtals 24 mánuði eða lengur á sama tímabili skv. 29. gr. þegar atvik sem lýst er í 1. málsl. á sér stað skal hinn tryggði ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann uppfyllir skilyrði 31. gr.“

Þá segir í 4. mgr. 61. gr. að ef atvik sem lýst sé í 1. málsl. 1. mgr. endurtaki sig á sama tímabili samkvæmt 29. gr. skuli hinn tryggði ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann uppfyllir skilyrði 31. gr. Samkvæmt 29. gr. laga nr. 54/2006 getur sá sem telst tryggður samkvæmt lögunum átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samfellt í 30 mánuði frá þeim degi er Vinnumálastofnun tók við umsókn hans um atvinnuleysisbætur, nema annað leiði af lögunum. Biðtími eftir greiðslu atvinnuleysisbóta samkvæmt X. kafla telst hluti tímabilsins sem og sá tími er viðurlög samkvæmt XI. kafla standa yfir. Í 4. mgr. 29. gr. laganna kemur fram að tímabilið samkvæmt 1. mgr. haldi áfram að líða þegar hinn tryggði sækir að nýju um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar eftir að hafa starfað í skemmri tíma en 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur. Í 31. gr. laga nr. 54/2006 kemur fram að nýtt tímabil samkvæmt 29. gr. hefjist þegar hinn tryggði sækir að nýju um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar eftir að hafa starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í að minnsta kosti 24 mánuði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur.

Samkvæmt gögnum málsins hófst bótatímabil kæranda 17. apríl 2016. Kærandi sætti biðtíma á grundvelli 54. gr. laga nr. 54/2006 þann 13. maí 2018 og sætti viðurlögum á grundvelli 59. gr. laganna þann 6. nóvember 2018. Þar sem um sama bótatímabil er að ræða, sbr. 29. gr. laganna, kom nú til ítrekunaráhrifa samkvæmt 4. mgr. 61. gr. laganna og á kærandi því ekki rétt á greiðslu atvinnuleysibóta fyrr en hann uppfyllir skilyrði 31. gr. laganna, þ.e. eftir að hafa starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í að minnsta kosti 24 mánuði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 11. ágúst 2021, um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til A, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira